Upphitun: Huddersfield annað kvöld

Eftir sigur gegn verðandi deildarmeisturum Manchester City höfum við fengið tvö þung högg. Það er erfitt að sætta sig við að horfa á andlaust liðið tapa gegn tveimur slökustu liðum deildarinnar en það er ekki hægt að breyta því sem gerst hefur og sem betur fer fáum við leik strax á morgun þar sem liðið fær séns á að byrja að þrífa upp skitu síðustu viku. Þá mætum við Huddersfield á útivelli á Kirklees vellinum, en Liverpool hefur aldrei áður spilað á þeim velli í deildarleik. Síðast þegar liðin voru í sömu deild spilaði Huddersfield á Leeds Road. Liverpool hefur þó einu sinni spilað á Kirklees en liðin mættust í FA bikarnum árið 1999 og Liverpool fór þar með sigur af hólmi 2-0 en markaskorarar kvöldsins voru Titi Camara og Dominic Matteo. Vonumst til að sjá svipuð úrslit í vikunni.

Andstæðingarnir

Huddersfield eru nýliðar í deildinni í ár og sitja eins og er í fjórtánda sæti deildarinnar, þó aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti. Þeir byrjuðu tímabilið vel en síðustu leikir hafa verið þeim erfiðir en þeir hafa aðeins náð að hala inn þremur stigum í síðustu sex deildarleikjum. Liðinu hefur ekkert gengið að skora en þeir hafa aðeins skorað nítján mörk í deildinni eftir 24 umferðir en það gera aðeins 0,8 mörk að meðaltali í leik.

Árið 2015 réðu Huddersfield David Wagner sem knattspyrnustjóra en sá er besti vinur Jurgen Klopp, þeir léku saman hjá Mainz en seinna voru þeir einnig saman hjá Dortmund þar sem Wagner þjálfaði varalið félagsins meðan Klopp stýrði aðalliðinu. Huddersfield spila hættulegan skyndisóknar leik gegn stórliðunum þar sem Tom Ince og Van La Parra veita hraða Aaron Mooy stýrir miðjunni og belginn Depoitre er stór og sterkur framherji, formúla sem við þekkjum alltof vel og hefur reynst alltof vel gegn okkur gegnum tíðina. Liðið þeirra gæti litið svona út

Lössl

Smith – Zanka – Schindler – Malone

Pritchard- Mooy – Hogg

Ince – Depoitre – La Parra

Liverpool

Nú er svo komið að nokkrir leikmenn félagsins þurfa að fara sýna af hverju þeir eiga skilið byrjunarliðssæti hjá Liverpool miðað við andleysi liðsins síðustu tvo leiki. Emre Can hefur borið fyrirliðabandið í báðum leikjum og líklega sjaldan verið slakari, Joel Matip leit vandræðanlega illa út í síðasta leik, Wijnaldum hefur verið fjarverandi og meira að segja Van Dijk hefur ekki farið vel af stað. Nú þurfa menn að sýna úr hverju þeir eru byggðir. Liðið situr sem stendur í fjórða sæti deildarinnar með Tottenham aðeins tveimur stigum á eftir okkur. Baráttan um fjórða sætið er ekki það mest sexý í heimi en þrátt fyrir það er hún gríðarlega mikilvæg og því má liðið ekki misstíga sig.

Breyddin í liðinu er í raun orðin mjög lítil, varamannabekkurinn undanfarna leiki hefur ekki verið upp á marga fiska og ekki verið margir möguleikar að breyta leiknum af bekknum. Fyrr í sumar horfðum við upp á að geta sett inn einn af fab four sem hafði jafnvel ekki byrjað leikinn. Lallana var síðan á leið tilbaka en það er eitthvað bakslag í meiðslin hans og útlit fyrir að engu verði bætt við. Þeir sem við höfum haft til að breyta leiknum í síðustu leikjum eru Ings og Solanke annar sem hefur verið meiddur síðustu tvö ár og hinn sem hefur ekki enn skorað í aðalliðsleik, auk þeirra hafa Milner og Henderson setið á bekknum en þeir bæta ekki miklu við sóknarlega. Vona innilega að þetta bíti okkur ekki of fast í rassinn í lok tímabils.

Fyrri leikur liðanna endaði með 3-0 sigri Liverpool þar sem Sturridge, Firmino og Wijnaldum skoruðu mörkin. Þrátt fyrir að vera ekki skráður á meiðslalistann er ólíklegt að við sjáum Sturridge spila á þriðjudaginn miðað við uppstillingar síðustu leikja. Á meiðslalistanum sjálfum eru þeir Nathaniel Clyne, Adam Lallana og Ragnar Klavan. Ég mun skjóta á að liðið verði eitthvað þessu líkt.

Karius

Gomez – Van Dijk – Lovren – Robertson

Chamberlain – Milner – Can

Salah – Firmino – Ings

Hljótum að fá Karius aftur í markið enda yfirlýstur aðalmarkmaður liðsins, síðan hlýtur Matip að fá hvíld eftir helgina ef Lovren er tilbúinn að byrja. Miðjan hefur verið mjög slök síðustu tvo leiki og ég geri ráð fyrir að Milner komi inn fyrir Wijnaldum og jafnvel ef Hendo er klár til að byrja þá fái Emre Can líka bekkjarsetu. Ings hefur síðan komið með smá kraft inn af bekknum í þessum leikjum og ef hann er tilbúinn í 60. mínútur myndi ég vilja sjá hann fá tækifæri.

 

Spá

 

Ég geri ráð fyrir að Liverpool snúi gengi sínu við á morgun og sigri Huddersfield auðveldlega. Spái 2-0 sigri þar sem Firmino skorar eitt og Chamberlain annað.

26 Comments

 1. Ég á erfitt með að sjá Klopp gera svona margar breytingar á liðinu, en ég væri engu að síður algjörlega til í að sjá liðið svona. Svo mætti spyrja sig hvort Ings ætti ekki bara að vera frammi, með Firmino aðeins aftar? Mögulega 4-4-2 tígulmiðja með Salah og Ings frammi, og Firmino í holunni. Ég held a.m.k. að það sé bara tímaspursmál hvenær Ings setur eitt kvikindi. Vonum að það gerist annað kvöld.

 2. Sælir félagar

  Eftir skitu síðustu leikja ætla ég engu að spá heldur bara að sjá hvað gerist og hvernig. Að mínu viti er Lovren fyrir Matip algerlega augljóst og vonandi spila Virgil og Lovren í hjarta varnarinnar til loka þessarar leiktíðar. Matip getur svo komið inn í einhverjum bikarleikju . . . nei við erum dottnir út úr öllu nema deildinni. Afsakið ég var bara búinn að . . . en hvað um það sjáum hvað setur.

  Það er nú þannig

  YNWA

 3. Nú þurfum við bara 3 stig og koma okkur aftur í gang. Ég spái að það takist en það verður drullu erfitt.

 4. Ég sagði þegar Kloop var ráðinn að ég ætlaði að gefa honum 3 ár. Það vantar svolítið upp á að þessi 3 ár séu liðin, en ég stend við mín orð. Róm var ekki byggð á hverjum degi. Margir virðast vera komnir á Klopp out vagninn. Hann tók ekki við góðu búi en hann kom liðinu í deild hinna bestu. Ég spái því að þetta lið komist mjög langt í þeirri deild og vinni kannski deildina. Við höfum misst likilmann sem munar um og svo hafa meiðsli komið við sögu eins og alltaf.
  Þegar hann tók við vantaði okkur breydd og nú virðist það vera að leysast. Bakvarðarstöðunar voru ekki góðar en ég held að með þolinmæði þá hafi hann leyst þær með aðeins einum kaupum sem eru mjög góðar án efa og fyllt restina með uppöldum strákum. Ég spái skemmtilegu næsta tímabili. Verið þolinmóðir kæru vinir, eitt tímabil en.

 5. Verður svo sannarlega hægt að tala um krísu ef þessi leikur vinnst ekki.

  P.S. Arsenal af öllum klúbbum búnir að vakna í janúar með kaupum á Aubameyang. Þeir hafa oftar en ekki verið aðhlátursefni en staðreyndin er þó engu að síður sú að það er styttra síðan þeir unnu bikar en við.

 6. Það er ekkert að fara að ské hjá Liverpool á þessu tímabili og það verða engir keyptir núna í janúar og engir bikarar munu vinnast og þessi þrautaganga heldur áfram og bara spurning hvé lengi sættir sig Klopp við þetta ástand.

 7. Jæja trúðurinn klopp ætlar ekki að kaupa neinn i stað fyrir coutinho. Þessi maður gerir alltaf allt sem pirrar mann einhvernveginn. Öll önnur félag kaupa þegar þeir missa sinn besta mann!! Sjá bara hvað Arsenal eru að gera!

 8. Abermayerdingdong hefur verið til sölu lengi án þess að nokkur hafi viljað kaupa. Það getur varla þýtt annað en að kjaftasögurnar séu réttar. Við keyptum í panikki mann með agavandamál fyrir ekkert svo löngu síðan. Það gekk ekki vel.

  Ég held að við náum fjórða sæti þó að enginn komi nýr inn annar en VVD. Annars er bara gaman að geta kvartað yfir því fram að áramótum að VVD hafi ekki verið keyptur og svo kvartað fram á sumar yfir því að Pipco hafi verið seldur.

 9. https://www.theguardian.com/football/2018/jan/29/liverpool-daniel-sturridge-west-brom-newcastle-loan-klopp-coutinho

  Algerlega galið að lána Sturridge ef enginn annar verður keyptur í glugganum. Það skilur okkur eftir með tvo menn til að leysa Firmino af, annar hefur ekki skorað í 14 leikjum sem hann hefur tekið þátt í vetur og hinn skoraði síðast 2015!!

  Sturridge er ekki sami leikmaður og hann var en myndi svo klára geta nýst okkur í þessum leikjum sem eftir eru.

 10. tja þeir eru að borga 600.000 pund á mánuði í Sturridge fyrir nákvæmlega ekki neitt bara ekkert skil alveg að FSG vilji losna undan þeim bagga.

  Hann hefur ekkert getað og verið meiddur forever ég elska það sem Sturridge gerði fyrir okkur en hann er hasbeen og mun aldrei nokkurn tíman komast í það form sem hann sýndi hér áður.

 11. Er orðinn svartsýnn því miður, ætla að spá okkur 2-1 tapi ….
  finnst algjörlega galið ef Sturridge fer og ekkert verður keypt í staðinn( trúi því þegar ég sé það…) En ég er einn af þeim sem vilja matip úr vörninni og Lovren inn svo vonandi fær Robertson bara að spila rest í LB…
  Rosalega er maður fljótur að skipta um skoðun með þetta blessaða lið okkar , eftir city þá var ég viss um að við myndum allavega ná 3ja sætinu jafnvel öðru en núna er mun dekkra yfir okkur,,,,mikið vona ég að við náum fjórða sætinu en er ekki að sjá það gerast ef ekkert verður keypt 🙁

 12. Ok gott og vel að losna við Sturridge af launaskrá og hann fær þá tækifæri á að reyna að komast á HM en það er galið að ætla ekki að styrkja liðið.
  Grujic farinn á láni og Markovic fer trúlega i dag líka og vonandi endanlega.
  Ég trúi ekki að Klopp sé að ofmeta hópinn hjá sér svona mikið, þessi hópur er aldrei að fara að taka þetta 4 sæti.
  Arsenal að styrkja sig fáranlega mikið og munu tryggja sér 4 sætið.
  Ég brjálast ef að Klopp kaupir ekki einn eða tvo leikmenn í vikunni.

 13. Enn minnkar breiddin hjá okkur ! Ekki veit ég hvað Klopp og FSG eru að spá, önnur topp 6 lið eru öll að styrkja sig. Ég spái áframhaldandi janúar árlegri skitu, við töpum þessu 2-1. :-/

 14. Sæl og blessuð.

  Snilld að losna við Daníel. Best ef við gætum selt’ann. Við skulum sjá hvað gerist með hópinn. Það var hluti af lúxusvandamáli síðustu vikna að hópurinn var svo öflugur og þéttur að ungliðar fengu lítinn sem engan spilatíma.

  Nú fá þeir mögulega að sýna hvað í þeim býr!

  Au revoir Daniel!

 15. Nætum búinn að gefast uppá þessu liði, og sporti. En ætli það verði ekki annað hljóð í skrokknum á manni ef okkur tekst að vinna svona eins og tvo leiki í röð.

 16. Ok á meðan að Klopp ætlar að láta ungviði liðsins spila og minnka hópinn þá kaupir United Sanchez, Arsenal fær Aubameyang og Mychitarian og Tottenham fá Lucas Moura frá Psg.

  Skrýtið að þetta félag sé aldrei nálægt því að berjast um eitt eða neitt.
  Metnaðarlaust félag sem var einu sinni stórveldi

 17. Spái að við töpum næstu 2 leikjum, liverpool búið að missa haus og er ekkert að fara að smella á nokkrum dögum. Klopp ætlar engann að kaupa hugsa að það kosti djobbið hans í vor

 18. Man utd inn Sanchez út Mkhitaryan
  Þetta er klárlega styrking en þeir voru samt að láta frá sér heimsklassaleikmann sem var ekki að finna sig í varnarbolta Man utd.

  Arsenal inn Mkhitaryan og Aubameyang út Sanchez
  Þetta er bara solid skipti hjá þeim. Sanchez er besti maðurinn í þessum skiptum en hinur auka breydd og Aubameyang er spennandi kostur.

  Tottenham Lucas Moura 25m punda – þið eruð að tala um leikmann sem er varaskeifa hjá PSG og hefur varla verið að spila. Þetta eykur breydd.

  Liverpool inn Dijk og út Coutinho og Sturridge
  Þarna tapar liverpool klárleg sóknarlega en græðir varnarlega. Liðið á eftir að sakna Coutinho enda frábær leikmaður en ef Dijk nær að binda vörnina saman þá erum við með menn til að skora.

  Já önnur lið hafa verið að gera sitt til að styrkja sín lið en þau hafa líka verið að missa menn á móti og sjáum svo hvernig þessir kallar aðlagast sínum nýju samherjum.

  Það eru 14 deildarleikir eftir
  Huddersfield Town úti
  Tottenham Heima
  Southampton úti
  West Ham United Heima
  Newcastle Heima
  Manchester United úti
  Watford Heima
  Crystal Palace úti
  Everton úti
  Bournemout Heima
  WBA úti
  Stoke Heima
  Chelsea úti
  Brighton Heima

  Við þurfum líklega að ná 2 stigum að meðaltali til að eiga möguleika á 4.sæti eða þá myndum við ná í 75 stig.
  Það er vel hægt með okkar lið en liðið er aðeins búið að tapa 3 af 24 deildarleikjum í vetur ( Man City þegar Mane fékk rautt, Tottenham í okkar lang lélegasta leik og Swansea þar sem við klúðruðum fullt af færum og þeir skoruðu úr sínu eina).
  Sjáum hvernig þetta endar allt saman en ég hef trú að okkur tekst þetta.

 19. Sælir félagar

  Það er áhyggjuefni ef/að breiddin hjá liðinu er að minnka. Það hefur verið ljóst í undanförnum leikjum að bekkurinn er ekki nógu sterkur. Klopp segist fyrlgjast með leikmannamarkaðinum en virðist ekki sjá neitt sem getur styrkt liðið eða bætt bekkinn. Látum sv vera en hann verður þá að sýna það að þetta lið sé nógu sterkt til að ná því lágmarksmarkmiði að halda meistaradeildarsæti. Ef það tekst ekki fer ég að efast um Klopp af fullri alvöru. Guð láti gott á vita. Ég hlakka til að heyra podkastið eftir leikinn við Huddersfield.

  Það er nú þannig

  YNWA

 20. Talað er um að Arsenal séu búnir að samþykkja 15 mp plús bónusa frá Chelsea í Oliver Giroud.

  Frábær sóknarmaður með mikla reynslu en Klopp er sáttur með sinn hóp og engin leikmaður fáanlegur.

 21. Ég veit ekki hvort ég eigi að hlægja eða gráta við að lesa þessa svartsýnisspá hjá grátkórnum sem mætir alltaf á síðuna þegar illa gengur. Vá þvílík neikvæðni og ofurtrú á leikmannakaupum í janúarmánuði. Það er alveg deginum ljósara að Klopp kærir sig ekkert um að hafa

 22. Framhald : – Aubameyang í sínu liði. Ef svo væri væri þa væri hann búinn að nota sín sambönd og kaupa hann. Það er lika alveg ljóst að þeir leikmenn sem Klopp vill í sitt lið liggja ekki á lausu í janúarglugganum . Hann ætlar sér greinilega að nóta þá leikmenn sem hann hefur og gefa þeim ungu sénsinn ! Ég hef fulla trú á Klopp. Áfram Liverpool

 23. Ég er kominn á þá skoðun að Jurgen Klopp sé sérkennilegasti og sérvitrasti maður sem hefur stjórnað Liverpool. Það segi ég vegna þess að ég bara botna ekki neitt í því sem hann er að gera og því síður í því sem henn er ekki að gera, en ætti að vera að gera.

 24. Magnað þykir mér að halda að Klopp ráði þessu öllu. Haldiði virkilega að hann væri ekki til í að vera með annan markmann, miðjumann , varnarmann og kannski einn uppa topp.
  Þetta virðast allt vera sömu mistök og Brendan var með , vörninni slök , ekkert plan b .
  Þetta er sami kórinn og var þegar hann var við það að vera rekinn.
  Erum enn og aftur að koma í plús í glugga og munum líklega gera það áfram með þessa eigendur .
  Sorgleg staða og ég blæs á allt þetta hjal að vilja ekki svona eigendur eins og hjá City . Ef það á að vinna titla er það eina sem virkar PENINGAR OG NÓG AF ÞEIM. Þangað til eigendur eru tilbúnir að leggja fram aur og sýna alvöru vilja mun þetta vera strembið.
  Annars er þetta sigur á morgun , trúi því ekki að þessir leikmenn tapi 3 leikjum í röð . Eru öflugri en það.

 25. Ætla að hvíla mig á LFC í bili. Orðin þreittur á undangengnum 2 síðustu leikjum, en stend með liðinu fram í rauðan.

 26. Æi hvað allir væru í miklu betra skapi ef við hefðu einfaldlega
  Tapað fyrir Man City og unnið Swansea.
  Fólk myndi skilja það svo miklu betur enda Man City frábært lið en Swansea lélegt.
  En
  Okkur tókst að vinna hið frábæra Man City og tapa fyrir skelfilega Swansea og þá er allt að fara til fjandans.
  Svo tókst okkur ekki að klára WBA í bikarnum og eru nú það ekki nýjar fréttir að Liverpool vinnur ekki FACUP(síðast 2006)

  Klárum bara þennan helvítis leik í kvöld og svo Tottenham um helgina og allir sem eru að rífa kjaft geta komið og fagnað Klopp og hans strákum og talað um að þeir höfðu alltaf trú á honum og strákunum.
  Þeir sömu eru nefnilega tilbúnir að rífa hann og liðið í sig ef við vinnum ekki í kvöld.

Eitt skref áfram, tvö aftur á bak. – Breiddin, miðjan og Van Dijk.

Sturridge á láni til WBA (staðfest)