Podcast – Er Karius plat markvörður?

Klopp er búinn að taka ákvöðun með markvarðarstöðuna, Karius er núna númer eitt ef eitthvað er að marka fréttir og hann hefur verið mjög mikið til umræðu í kringum leikinn gegn Man City. Liverpool var fyrsta liðið til að vinna City í vetur og því slóum við tvær flugur í einu höggi og fengum Man City mann landsins numero uno og fyrrverandi landsliðsmarkvörð með í þáttinn. Gunnleifur Gunnleifsson mætti og spilaði með Magga í markinu í þessum þætti. Mikill meistari og stórgaman að hafa hann með.

Kafli 1: 00:00 – Intro – Besti leikur tímabilsins?
Kafli 2: 09:20 – Karius vs Mignolet – Umræða um markvarðastöðuna
Kafli 3: 28:15 – Ederson markmaður City og innkoma hans í deildina
Kafli 4: 34:00 – Ox, Sané og Sterling – hvert er þakið hjá þessum leikmönnum?
Kafli 5: 48:36 – Hversu stórt statement var þessi sigur á City?
Kafli 6: 59:10 – Swansea um helgina, spá og lokaorð.

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Gunnleifur Gunnleifsson

MP3: Þáttur 180

34 Comments

  1. Algjörlega frábært hlaðvarp, takk fyrir mig!

    Hver stórstjarnan á fætur annarri sem gestir hjá ykkur, það er bara spurning hvenær Jurgen Klopp mætir, ekki satt?

    Ég er með blendnar tilfinningar gagnvart þessu ferli hvað markmennina okkar varðar en maður verður að treysta sjefanum, ekki satt? Þannig að ég segi að þetta sé rétta leiðin.

    YNWA!

  2. Eg þarf að hlusta á þetta podcast aftur áður en ég get sagt mina skoðun. Ætla að gera það núna.

    Takk fyrir þessa vinnu sem þið leggið i þetta snillingar

  3. Karius var auðvitað keyptur til að vera nr.1 en var settur fljótlega í skammarkrókinn eftir að hafa fengið á sig glatað mark úr aukaspyrnu. Þar sem Neville og fleiri gerðu grín að honum í kjölfarið. Hann er rétt núna að fá sjénsinn aftur…alveg í lagi að fyrirgefa honum einn eða tvo feila á meðan. Mignolet er allavega ekki málið til framtíðar…mín skoðun.

  4. Nú er ég ekki búinn að hlusta á podkastið, geri það vonandi í kvöld.
    Ég fagna því að Klopp hafi tekið þá ákvörðun að taka Migno út úr markinu, hann gerir allt of mörg mistök, en reddar vel líka oft á tíðum. Ég tel bara að hann sé búinn að fá allan þann tíma sem boðlegt er og jafnvel of mikinn.
    Verð þó að segja honum til varnar að vörnin fyrir framan hann hefur nú ekki verið að gera mikið til að hjálpa honum.

    Karius þarf að fá tíma til að koma sér fyrir og slípa sig saman við vörnina. Minni á hvernig gekk hjá De Gea í þó nokkurn tíma í fyrstu. Man Utd menn eru eflaust glaðir yfir því að þar var þolinmæði til staðar á meðan að illa gekk.

    En takk fyrir Podkastið, hlakka til að hlusta.

  5. Migno out, Karius gæti eh tíma orðið góður og við höfum ekki tíma til að bíða eftir því. Fatta ekki þessa De Gea umræðu, hann átti stórbrotnar markvörslur inn á milli og sást langar leiðir að hann yrði góður. Það sést ekki á okkar markvörðum því miður. Þurfum nýjan tilbúinn markvörð ef hann er til. Takk fyrir enn eitt snilldar podcast ið.

  6. Gaman að sjá hvað þessi podköst eru orðin fastur punktur á hér á síðunni, það er líka frábært að hlusta á þau sér í lagi þar sem þau eru fagmannleg, innihaldsrík og afskaplega skemmtileg.

    þið eigið allt hrós skilið fyrir þau strákar og það er gaman að sjá að þó menn styðji ekki LFC þá eru þeir velkomnir að viðra sína skoðun, og gaman að fá annan vinkil á þau.

    Einnig þegar þjóðþekktir íslendingar taka þátt í umræðunni með ykkur sýnir á hvaða stall podköstin eru komin á.

    Einnig langar mig að hrósa nýjum pistlahöfunum sem hafa komið inná síðuna, skemmtilegir og lifandi pistlar sem hafa verið skrifaðir hér í sambland við æðislegu evrópupistlana hans babú….

    Svo ekki síðast nefnt kop-ferðinar frægu 🙂

    kúdós drengir

  7. Djöfull er ég sammála Gulla í öllu sem hann segir um Karius. Þó Mignolet sé fjarri því að vera markvörður í toppklassa. Þá er hann samt mun skárri kostur en Karius.

    Vissulega tók það tíma fyrir David De Gea að koma sér inn í Utd liðið og kostaði fullt af mistökum. Hann sýndi samt alltaf einhver tilþrif inn á milli sem ég hef ekki ennþá séð frá Karius.

    Þeir markverðir sem ég er spenntastur fyrir í sumar eru Handanovic og Oblak. Þá held ég að Kepa hjá Athletic Bilbao gæti náð í fremstu röð en hann er virkilega spennandi kostur.

  8. Oblak in, mignolet out. Karuis getur síðan verið varamarkvörður. Getum við ekki sett mignolet uppí Oblak ?

  9. Sælir félagar

    Takk fyrir skemmtilegan þátt og góðar umræður. Þrátt fyrir að Maggi og Gunnleifur séu sérfræðingar í markvörðum er ég frekar sammála SSteini og Einari Matt en þeim.

    Mitt innlegg í markmanns umræðuna er þetta; Mignolet er ekki lélegur markvörður en heldur ekki afburðamarkvörður. Hann er góður markvörður sem er þá eitthvað á milli þess að vera lélegur og afburða. Þetta er dálítil tugga ég veit það en svona held ég að þetta sé.

    Mignolet var á mörkum þess að vera lélegur og góður en hefir bætt sig stórlega ekki síst hvað úthlaup varðar. Hann hefir góð viðbrögð milli stanganna er er þó ótrúlega seinn á fótum og þar skilur í raun á milli þess að vera góður og afburða ásamt því að útspilið hjá honum er oft hægt og hann er taugaveiklaður með boltann í fótum ef pressað er á hann.

    Mignilet hefur fengið uþb. fimm ár til að bæta sig og ná hæstu hæðum. Það er að mínu viti útséð að hann geti það. Ég held að hann verði ekki betri en hann er í dag og því verður að reyna eitthvað annað. Ódýrasta leiðin er að prófa Karíus og láta á það reyna hvort hann hefur það sem til þarf. Ég tel að það sé ekki hægt að dæma hann fyrr en eftir nokkuð marga leiki í röð.

    Það sem Klopp er að hugsa (held ég) er að hann treystir liðinu til að ná meistardeildarsæti með Karius í markinu. Hann telur að efsta sætið sé út úr myndinni og því ekkert annað að gera en prófa strákinn því til þess gefist ekki annar og betri tími. En með þessum kapli gefst einnig örendi til (ef til vill) að kaupa annan leikmann í janúarglugganum eða spara peninga til að kaupa einhvern eins og t. d. Oblak eða einhvern annan alvöru markmann í sumar.Þetta er því í reynd undirbúningur að því að gera alvarlega árás á meistaratitilinn næstu leiktíð.

    Ég tel að þetta sé mjög skynsamlegt því það verður að fá úr því skorið hvort Karius hefur það sem til þarf og nær því að verða nógur góður til að vera framtíðarmarkvörður Liverpool eða ekki. Við segjum ansi oft hér að við verðum að treysta Klopp og það er það sem ég vil að við gerum.

    Við verðum að treysta honum í þessu sem öðru því hann er besti stjóri sem við höfum haft í áratugi. Ég treysti honum og þó ég telji Klopp ekki yfir gagnrýni hafinn og geti gert mistök eins og allar aðrar manneskjur þá er eitt tryggt. Hann veit betur en ég og betur en flestir aðrir sófaspekingar Íslands og þótt víðar væri leitað.

    Það er nú þannig

    YNWA

  10. Það heyrist svo greinilega að Gulli er ekki að horfa á Liverpool leiki að staðaldri.
    Segir að Mignolet henti leikstíl Liverpool betur heldur en Karius og að hann sé góður í löngum sendingum. Ég held að það sé hægt að telja það á höndum annarar handar hversu oft Mignolet hefur hitt á Liverpool leikmann með langri sendingu, ég hef í alvörunni ekki séð markmann sem er lélegri í að koma boltanum í leik á samherja.

    Karius er meiri sweeper heldur en Migno, hann þorir að koma aðeins framar, sem gefur vörninni líka tækifæri á þvi að staðsetja sig örlítið framar á vellinum, sem hentar leikstíl Klopp betur, að ég tel.

    Ég er á þeirri skoðun, og hef verið það lengi að Karius eigi að fá tækifæri á einhverju örlitlu rönni, Mignolet hefur fengið þau ófá og alltaf tekist að klúðra einhverju á ævintýralegan hátt. Karius er ungur markmaður sem var keyptur úr annarri deild og hefur aldrei fengið tækifæri til þess að sanna sig hjá Liverpool.

  11. Kannski hittirðu bara naglann á höfuðið Björn Torfi – kannski er þetta bara teljandi á höndum annarar handar = 1 😉

    Er annars sammála þér með Mignolet. Mér hefur aldrei fundist hann passa inn í leik liðsins eftir að Klopp tók við þótt hann sé mun nær því núna en í fyrra. Þó er ég líka sammála Gulla með það að Karius er svolítið eins og túristi þarna. Hann er svona eins og vatnsgreiddur miðaldra faðir með mittistösku á Kanarí að reyna að halda kúlinu.

    Ég er ekki viss um að Karius muni koma til fram á vorið en ef hann gerir það og stendur undir þeim eftirvæntingum sem hafðar voru um hann í Þýskalandi þá er það mikill bónus fyrir liðið. Held að það sé útséð með að Mignolet muni bæta sig enn frekar þótt hann fái þetta skilyrðislausa traust sem Gulli talaði um – hann væri búinn að því ef hann væri sterkari karakter.

  12. Mikið gaman að fá Gulla í þáttinn og líklegt að við hleypum af og til stuðningsmönnum annarra liða að á næstunni.

    Breytir því ekki að ég persónulega er ósammála markmönnunum í flestu í markmannsumræðu þáttarins, oft erfitt að koma sinni skoðun almennilega að þegar maður er að stjórna þættinum, geri því tilraun til þess hér.

    Að mínu mati hefur Mignolet einmitt fengið meira en nægan tíma og heldur betur traust undanfarin fimm ár og þessi staða hefur verið vandræða staða öll þessi fimm ár. Bæði Rodgers og Klopp hafa lagt mjög mikið traust á hann og ítrekað að hann sé númer eitt. Rodgers hafði svo mikla trú á honum að hann sleppti því að hafa nokkra samkeppni um stöðuna og Klopp tók Karius úr liðinu mjög fljótlega eftir að hann gaf honum séns.

    Ég bara skil ekki hvernig það er hægt að verja Mignolet svona en á sama tíma nánast afskrifa Karius sem hefur spilað 20 leiki með mjög óreglulegu millibili á tíma sínum hjá Liverpool. Liverpool hefur unnið 11 af þessum 20 leikjum, gert sjö jafntefli og tapað tveimur. Markatalan er +2,2 mörk að meðaltali í leik með Karius í rammanum. Tek alveg undir að hann hefur ekki verið nógu traustur en skil ekki hvað hann á að vera gera svona mikið verr en Mignolet.

    Með honum held ég að Klopp sjái fram á að geta fært varnarlínuna ofar og því mögulega ekki tilviljun að hann skipti um aðalmarkmann samhliða því að Van Dijk sé loksins kominn til Liverpool, hann ætti að hjálpa til við að færa varnarlínuna aðeins ofar. M.ö.o. ég held að Karius sé miklu nær því að henta leikstíl Liverpool en Mignolet.

    Auðvitað vona allir eftir undanfarin fimm ár að Liverpool kaupi alvöru markmann sem komi svipað afgerandi inn og Pepe Reina gerði á sínum tíma. Eins og einn sagði á Twitter, Jose Enrique er næst dýrasti markmaður Liverpool í sögunni! Liverpool ætti að setja sóknarmannsfjárhæð í alvöru markmann ef það er það sem þarf til.

    Ég er alls engin talsmaður Karius eða sérstakur aðdáandi hans. Ég held samt að hann sé langtímaverkefni hjá Klopp, ekki ósvipað og Ox og Robertson (jafnvel Moreno)?

    Karius braut bein rétt fyrir mót á sínu fyrsta tímabili og fékk því ekki séns í aðalliðinu fyrr en á miðju tímabili og nýtti þann séns ekki nógu vel. Hann var settur í kælinn út tímabilið. Núna hefur Klopp að mér finnst verið að reyna koma honum hægt og rólega inn í liðið, bæði með því að spila honum í stöku deildarleikjum og hann sýnir traustið sem hann hefur á honum með að láta hann sjá alfarið um Meistaradeildina. Núna er hann loksins tilbúinn að stíga skrefið til fulls og henda honum án kúta ofan í sundlaugina. Nú er bara að vona að hann sé syndur.

    Karius hefur fengið meira en nægan tíma til að aðlagast liðinu, leikstíl Liverpool og enska boltanum almennt. Hann hefur aldrei fengið traustið almennilega fyrr en núna. Karius 24 ára hefur miklu meira svigrúm til að bæta sig (og þar með Liverpool) heldur en Mignolet (30 ára). Þeir eru svipað góðir/lélegir núna en það er alls ekkert útilokað að Karius geti bætt sig umtalsvert svipað og við höfum séð aðra leikmenn gera undir stjórn Klopp. Sérstaklega ef hann kemst í almennilegt spilaform.

    Ox-Chamberlain með alla sína reynslu frá Arsenal kom ekki beint inn í Liverpool liðið og sló í gegn. Hann þurfti 2-3 mánuði til að aðlagast og hefur verið að bæta sig í hverjum leik síðan, sérstaklega núna þegar hann er farinn að spila reglulega.

    Andy Robertson kom ekkert fullmótaður inn í liðið heldur. Hann fékk lítið sem ekkert að spila þar til Moreno meiddist en hefur verið að bæta sig í hverjum leik núna undanfarið og nýtur þess augljóslega að spila reglulega.

    Er þetta svo frábrugðið með markmenn? Er ekki líklegt að þeir bæti sig ef þeir spila reglulega? Ef mönnum finnst Mignolet ekki hafa fengið nægan séns eða sé nógu góður þá verðum við bara að vera sammála um að vera ósammála. Ég vona að Karius grípi tækifærið núna fram á sumar, ef ekki á hann engan séns hjá Liverpool, hann á reyndar ekki mikin séns finnst mér eins og staðan er núna.

    Hvort heldur sem það er Karius eða Baktus er frábært mál að Klopp er augljóslega ekki sáttur við þessa stöðu eða varnarleikinn í heild, það er búið að kaupa miðvörð og miðjumann (Keita). Vinstri bakvörður er ekki lengur vandamál og því er klárlega næst komið að nýjum markmanni, hvort sem það er þá Karius eða bókstaflega nýr markmaður.

  13. Flott að fá svona gesti inní þættina gerir góða þætti enn fjölbreyttari og skemmtilegri vel gert drengir takk fyrir mig.

  14. Er það ekki rétt að við höfum aðeins tapað 3 leikjum í öllum keppnum síðan í sumar. Ekkert tap í CL, ekkert tap í FA og eitt tap í deildarbikar, tveir í deild ?

    City hafa tapað tveim leikjum síðan í sumar væntanlega ?

  15. Tek undir þetta, takk fyrir góðan þátt og takk Gulli fyrir að vera með.

  16. Mér hefur fundist að Mignolet fái mjög ósanngjarna umfjöllun oft. Hann stendur sig ágætlega lang oftast, og Arsenal leikurinn var undantekning. Hann hefur oft bjargað stigum fyrir okkur með snilldar vörslum, en það er þúsund sinnum meiri fókus á þá leiki þar sem eitthvað klikkar hjá honum (sbr. umfjöllun á þá leið að hann sé alltaf að spila eins og í þessum Arsenal leik um daginn). Ég er svo hræddur um að Klopp sé að gefa Karíus sénsinn vegna þess að hann er hans kaup, frá Mainz (þar sem Klopp var einu sinni) o.s.frv. og sé að ofmeta hann, með óraunhæfa óskhyggju um að hann verði kannski góður einn daginn, og reyna að standa með sínum eigin kaupum. Ég er búinn að horfa á myndband eftir myndband með highlights frá Karíus frá Þýskalandi… og fannst hann ekkert spes í “best of” myndböndum … og svo var hann ótrúlegur sauður hjá Liverpool í fyrra þegar hann fékk leiki í deildinni. Það var ekki bara “glataða aukaspyrnan” sem Helginn nenfir í kommenti nr. 5. Hann var bara með gríðarlegan fjölda mistaka. Miklu fleiri per mínútu en Mignolet, og var auk þess ekki að koma með mikla snilld á móti. Virtist voða oft óöruggur. Ég óttast að við gætum lent aftur í 4-3 tapi eins og á móti Bournmouth með hann í markinu. Svo gránar á mér hár í hvert sinn sem ég heyri “en DeGea gerði líka mistök þegar hann var nýr hjá Utd.” Það er ekkert sambærilegt, því DeGea var líka að sýna snilldar takta inn á milli á móti … sem ég hef bara ekki séð hjá Karíusi. Klopp og teymið hjá Liverpool hefur annars meira vit á þessu. Ég lofa því að skipta um skoðun um leið og ég sé merki um það að Karíus sé að verða betri.

  17. Þegar menn hafa verið í fimm ár og þurfa ennþá að fá tíma til að sanna sig, þá er það fullreynt að mínum dómi. Fimm tímabil og ennþá að gera byrjandamistök.

  18. Flottur podcast-þáttur og glæsilegt að fá mann með meistaragráðu í markmennsku til að gefa innsýn í þessa sérhæfðu fagstétt fótboltans 🙂

    Ég er sammála mörgum hér fyrir ofan og sérstaklega góðri ádrepu frá Einari Matthías um að það sé útséð með hámarksgetu Mignolet og hann nái aldrei þeim toppklassa sem við þurfum á að halda fyrir toppbaráttuna. Þá er eftir að gefa Karius séns fram á sumar til að skera úr um það hvort að hann nái að virkja sín efnilegheit og lyfta sinni frammistöðu á hærra plan. Nú ef það tekst ekki hjá honum þá er útséð með að við förum í fjárfestingu á manni milli stanganna en allt við þetta ferli virkar mjög eðlileg vinnubrögð og ákvarðanataka á mig. Ward er flottur sem varamarkvörður og Grabara ku mjög efnilegur þar á eftir ef Mignolet færi.

    Ég held að Klopp hafi tekið af skarið með þennan markmannskapal núna í janúar til að vera heiðarlegur við Mignolet um að gefa honum séns á að finna sér annað lið með HM í huga. Jú, jú, auðvitað er augljóst að hann er bara nr.2 hjá Belgíu á eftir Courtois en það getur breyst á augabragði með meiðslum eða rauðu spjaldi á HM. Mignolet vill vera öruggur um að vera næstur inn þar sem að samkeppnin um að vera nr.2 hefur aukist mikið á þessu tímabili vegna flottrar frammistöðu Koen Casteels hjá Wolfsburg.

    Þó að Simon hafi réttilega bætt ýmsa þætti í sínum leik eins og Gunnleifur og Maggi nefna þá er hann ennþá of mistækur fyrir minn smekk. Manni finnst líka ljóst að traustið á honum er ekki nægilega mikið hjá varnarmönnum og áhangendum (jafnvel Klopp líka) sem veldur stressi og mistökum í öftustu línu. Það situr alltaf í mér þegar hann hélt á boltanum í 22 sekúndur í Evrópuleik og dæmd var aukaspyrna sem skorað var úr. Þetta var þannig heilaviðrekstur að ég hef aldrei litið hann sömu augum síðan. Svo vantar líka að hann sé nógu öflugur karakter líkt og margir frammúrskarandi markverðir sem öskra sína vörn og lið áfram.

    https://www.youtube.com/watch?v=kj_BLvB8ek8

    Að sama skapi finnst mér ekki málið að henda 100 mill. evra í klásúlukaup á Oblak því það væri galin upphæð og næstum þreföld summa hærri en verðmiðinn á dýrasta markverði sögunnar hingað til. Við værum heldur aldrei að tala um að eyða slíkum upphæðum í markvörð nema útaf peningunum sem fylla veskið eftir söluna á Coutinho og ég vil frekar vera hagsýnni í þessum efnum en fá dýrkeypta kaupendaeftirsjá. Þó að Oblak sé vissulega einn sá flottasti af fáanlegum markvörðum á markaðnum að þá er verðið of hátt og líka óvissa með hvernig hann myndi aðlagast enskri deild og mjög breyttum leikstíl.

    Alisson er áhugaverður en ekki enn búinn að spila heilt tímabil sem aðalmarkvörður í evrópskri deild (bara 20 deildarleikir samtals). Ég sé enga ástæðu til að fara yfirborga fyrir hann heldur nema að kaupnefndin og Klopp séu grjótharðir á því að hann sé hárréttur valkostur. Ég væri t.d. mjög svo til í að tékka á Kepa hjá Bilbao þar sem hann er að klára sinn samning í sumar og rosalegt efni en Real Madrid ku vera á höttunum eftir honum. Það eru ýmsir aðrir kostir í boði en þó að ég vilji klárlega uppfæra markmannstöðuna í háklassagæði þá er ég rólegur með að gefa Karius sénsinn fram að sumri.

  19. Eitt varðandi Alisson, þá er hann með samtals um 40 leiki fyrir Roma, var Meistaradeildarmarkmaður hjá þeim í fyrra. Hann er samt með um 115 leik í Braselíu hjá góðu liði og 20 landsleiki fyrir Braselíu!

    Ég held að það sé stórlega vanmetin deild og algjörlega nógu góður skóli fyrir leikmenn áður en þeir koma til Evrópu, sérstaklega leikmenn sem taka stökkið 23 ára gamlir. Gabriel Jesus er t.a.m. ekki orðin tvítugur og hann var tilbúinn strax. Sá einhvertíma vísað í það á twitter hversu hlæilegt það væri að tala um það hvort leikmenn úr deildunum í Braselíu og Argentínu væru tilbúnir í hörkuna á Englandi, þær deildir væri vel brutal líka.

    Alisson hefur a.m.k. ekki þurft mikinn tíma til að aðlagast Roma.

  20. Takk fyrir gott podcast, gaman að hlusta á Gulla og Magga tala af viti um markmennina okkar.

  21. Sæl öll

    Úff…. áfallið sem ég fékk við að hlusta á markmannsumræðuna. Karius er ljósárum á undan Mignolet í að henta leikstíl Liverpool. #maggi, það er einmitt málið með tölfræði, að því stærra sem mengið er, því líklegra lýsir það raunveruleikanum. Allt í sambandi við Mignolet sýnir að hann er góður að verja víti en þá er líka allt upp talið sem hann er góður í að gera er við kemur markvörslu síðustu fimm árin. Ég mun allan daginn, alltaf veðja á Karius og ég tel mig sjá mikla möguleika í honum og er algjörlega sammála Klopp að skipta út núna.

  22. Karius hentar leikstíl Liverpool betur , sjálfsagt miklu betur. Klopp setti hann í markið á móti Arsenal í fyrri leiknum með góðum árangri og sér örugglega eftir því að gera ekki slíkt hið sama í seinni leiknum. Á móti city kom þetta best í ljós, að geta notað markmanninn sem aftasta spilara stækkar svæðið og auðveldara er að bregðast við pressu andstæðings.
    Svo er það spurning hvort Migno geri sama og síðast þegar Klopp tók hann út, komi til baka sem enn betri markmaður.
    Held samt og vona að dagar hans sem nr.1 hjá Liverpool séu taldir.
    Verðum að leyfa Karius að ná 10-15 leikja hrinu og sjá hann spila með sjálfstrausti. Hve oft hefur það ekki breytt meðal í gott?

  23. Mig langar að benda öllum á það að við Gulli tölum um það báðir að Liverpool þurfi að upgrade-a markmannsstöðuna í sumar.

    Varðandi hann Karius þá mun ég örugglega verða sá sem ver hann mest ef að ekki gengur vel hjá honum því hann á ekkert skilið eitthvað yfirdrull.

    Mér finnst frábært að fá sýn Gunnleifs inn. Hann er ásamt nokkrum öðrum góðum mönnum með þráhyggju fyrir markvörslu og horfir á endalaust af leikjum og klippum með markmönnum, ég tippa á að hann verði bráðum í toppklassa markmannsþjálfara í heiminum. Það er ástæða þess m.a. að við fengum hann í þáttinn þar sem að þekking hans (með virðingu fyrir öðrum markmannsþjálfurum) er held ég í efsta klassa á Íslandi. Hann vissulega undirbjó sig undir þáttinn til að horfa á hann.

    Fyrirsögnin hér er auðvitað með sterkum orðum skrifuð. Innihald innleggs Gulla (sem ég er sammála) er að Karius hefur ekkert sýnt það af sér hingað til (í 20 leikjum) sem sýni það að hann sé markmaður sem ráði við hlutverk þess að vera aðalmarkmaður í liði eins og Liverpool með háa varnarlínu og með veikleika þegar kemur að háum boltum inn í teiginn. Þar liggur kjarninn auðvitað í umræðunni. Eftir síðustu leiki og viðburði í Liverpool er Loris Karius líka kominn undir gífurlega pressu frá blaðamönnum og áhorfendum á Anfield. Umtalið um grænu gammósíurnar og gelið í hárinu er ekki uppfinning Gulla heldur alvöru umræða.

    Ég er sannfærður um það að Jurgen Klopp er ósáttur við það sem hann er að fá frá markvörðum og vörn hjá liðinu. Annars hefði hann ekki sett í gang þetta rotation system markmanna og sett upp (það sem mér þótti kjánalegt og þykir enn) opna keppni um markmannsstöðu nr. 1. Ég man ekki eftir öðrum toppliðum gera það. De Gea er klárlega númer 1 hjá Utd og Ederson hjá City þó varamarkmennirnir fái einhverja keppni.

    Mitt mat er það að breytingin við að fá Virgil inn þýði það að Klopp telji veikleika Kariusar sem hafa sést hingað til verða eilítið núllaða út. Hann fer mjög lítið út af línunni (svipað og De Gea) og þarf því aðstoð í föstum leikatriðum sem er miklu meiri nú með Virgil. Hollendingurinn er líka fljótur í förum þannig að háa varnarlínan er ekki eins viðkvæm núna og hún var. Þetta þarfnast auðvitað samstillingar, við sáum þegar Virgil hraunaði yfir Karius fyrir að koma ekki og “sweepa” gegn Everton að þar var markmaðurinn ekki að fylgja því uppleggi sem var. Það er það sem ég er að meina með að við græðum á að fá langan tíma fyrir Swansea leikinn til að vinna með því það er þetta samspil varnar og markmanns sem Gulli leggur upp með að hafa áhyggjur af fyrir okkur.

    Markmenn þurfa í venjulegum leik að verja 1 – 3 skot. Þar af 1 sem er verulega erfitt, 1 sem er nokkuð krefjandi og eitt sem er krefjandi en sá á að taka. Svo geta komið fleiri sem yfirleitt eru þau slöku. Hjá LFC í vetur hafa þau oft verið færri. Karius kemur frá liði þar sem þetta hlutfall var hærra, Mainz lá oftar undir pressu og því var auðveldara að skutla inn YouTube myndböndum. Þegar Simon Mignolet átti afmæli gerði LFC minnir mig (eða einhver óopinber síða) geggjaða þriggja mínútna klippu af ferli hans hjá félaginu, allar hans blaðamannsvörslur á fimm árum, og þær eru alveg nokkrar.

    Shot stopping er það sem gefur markmönnum einkunn hjá blaðamönnum. Þannig er það. Hins vegar er það gríðarlega lítil áhersla í markmannsþjálfun almennt. Fótavinna, leiklestur og rútínubundin vinna varðandi staðsetningar til að verja og hvernig bolta er komið í leik er vinnan sem er stanslaust og stöðugt í gangi. Enda er það lykillinn að hinni almennu frammistöðu markmanns þegar horft er yfir heildina. Eins og Gulli sagði þá væri t.d. minn uppáhaldsmarkmaður – Gianluigi Buffon – örugglega vondur í enska boltanum út frá þeirri leikfræði sem þar er í gangi. Þó þar sé nú sennilega á ferðinni besti “shot stopping” markmaður í heimi ennþá í dag.

    Mistökin eins og þau sem Mignolet gerði gegn Arsenal drápu hann hjá blaðamönnum. Þar fékk hann á sig mark úr fjórðu kategoríunni, mörk sem þú bara átt allan daginn að verja. Mörkin sem hann Karius fékk á sig gegn Everton og City komu engin þar. Markið hjá Sané þó nálægt því að vera þar en sökum vegalengdar skotsins þá kannski dettur hann inn í númer þrjú. Það er hins vegar alveg klárt að hann er ekki í neinu synci þar með vörninni sinni.

    Skotið hans Gylfa var klárlega í forminu “verulega erfitt” og ekkert sem hann átti að verja, ef þið hins vegar skoðið endursýningu þá ætti Karius að hafa verið það ljóst að varnarmaðurinn er að loka á fjærhornið og Gylfi gat bara sett boltann þangað sem hann fór. Karius stóð fastur í ökklana og horfði á eftir boltanum í netið. Vandamál milli varnarinnar og markmannsins.

    Mark City númer þrjú í leiknum sýnir það aftur og enn. Auðvitað átti Gomez að koma í veg fyrir sendinguna og auðvitað má horfa til þess að dekkunin var afleit. Leiklestur Karius miðað við vörnina er þarna aftur stórt spurningamerki. Sendingin er laus og inn í markteig og þennan bolta hefði t.d. Neuer eða Oblak alltaf farið og gripið. Karius er ekki “krossa-markmaður” svo það kom mér ekki á óvart að hann færi ekki út. Það sem ég pirra mig á þar er heldur ekki það að hann hafi ekki varið skotið heldur það að hann stóð algerlega frosinn á línunni frekar en að vera tilbúinn ef Citymaðurinn fær boltann og stekkur á móti til að minnka skotvinkilinn. Það hefði t.d. De Gea gert að mínu mati þá aukið líkur á því að Gundogan hefði klúðrað.

    Þetta er það sem ég horfi til. Mér finnst þetta hafa verið vandamál Karius frá fyrsta degi auk þess sem mér finnst hann ennþá ungæðingslega ör, fór t.d. tvisvar af stað í horn út frá langskoti sem hrökk svo af varnarmanni framhjá…nokkuð sem hefði litið illa út.

    Við höfum félagar á Kop töluvert verið að ræða um hvað Karius gerir betur en Mignolet. Mér finnst sú umræða stundum ráðast af hans ferli hjá Mainz og umræðu blaðamanna. Hann hefur ekki sýnt mér það allavega að “sweep-a” betur en Mignolet og hans spörk fara meira útaf og til mótherja en hjá Simoni. En hann getur verið fljótur að koma boltanum í leik þegar hann fær hann í hendurnar en mér finnst hann sjaldnar fara út en Simon og því ekki eins miklir möguleikar á því og gætu annars verið. Hann er verri í “shot-stopping” en Simon miðað við þá báða frá síðasta hausti. Ekki bara tölfræðin um varin skot sem sýnir það held ég ef allir eru sanngjarnir.

    Ég er líka alveg á því að það sé verið að gefa Karius séns á að sýna sig fram á vor. Sagði það í podcastinu og segi það aftur hér. Það er gamble hjá stjóranum sem ég vona a.m.k. jafnheitt og þið öll að gangi upp og við getum verið kát yfir ákvörðuninni í vor. Það held ég að komi til út af því að þeir stjórar ætli að breyta varnarupplegginu eilítið með Virgil og það er spennandi að sjá hvernig endar.

    Ég trúi ekki öðru en að við fáum gæðamarkvörð til liðsins í sumar. Ég vona að við séum á sama stalli og City sem fattaði að Bravo var ekki nógu góður og voru mjög miskunnarlausir. Ég greini það hjá Klopp með kaupunum á Virgil að hann vill fara að stíga stærri skref fram á við og til þess þurfum við betri markmann en bæði Karius og Mignolet. Það er mín bjargfasta skoðun. Ég er algerlega sammála Gulla í því að besti kosturinn í stöðu LFC hefði verið að halda traustinu á Mignolet út tímabilið því það er að mínu mati og út frá því sem ég met Karius útfrá (svo það sé sagt fannst mér hann spennandi kaup þó ég hefði viljað fá tilbúinn heimsgæðamarkmann sumarið 2016) í dag.

    Mikið vona ég að í maí hafi hann sannað það að ákvörðun Klopp var rétt. Ég verð þá a.m.k. jafn glaður og þið sem eruð mér ósammála…því satt að segja finnst mér fátt ömurlegra til en að liðið mitt sé með jafn augljósan veikleika í markvörslu og hefur verið meira og minna síðan að David James missti mojo-ið, þau tvö tímabil sem Pepe vinur minn var í geggjuðu formi glöddu mig gríðarlega og ég treysti því að haustið 2018 marki nýtt upphaf í þeim fræðum.

  24. Ég sé ekkert að því að gefa Karius sénsinn fram til vors.
    Ef það á að dæma Karius þá verður hann að fá traustið til að spila leik eftir leik til að sanna sig.
    Ef í vor kemur í ljós að hann er ekki þess verðugur að vera kostur 1 eða 2 þá fara þeir trúlega báðir í sumar og það kemur inn klassa markvörður og Ward fengi þá trúlegast stöðu sem markvörður númer 2.

    Mér finnst Mignolet búinn með sín tækifæri hjá félaginu og núna er einfaldlega komið að breytingum.

  25. Sælir félagar

    Ætla að blanda mér aðeins í þetta. Tel að Karíus Og Mignolet alls ekki vera nógu góðir fyrir liðið okkar. Ef við sjáum markmenn þeirra liða sem við erum að berjast við þá er ljóst að þeir eru öll með markmenn sem eru betri en okkar. Ef við ætlum að vera að berjast um titla þá verðum við að vera með toppmarkmann. Vandi þeirra beggja er að mjög sjaldan eru þeir að verja skot sem við eigum ekki von á að þeir verji. Hversu oft segi við: sástu þessa markvörslu?

    Magnús og Gulli töluðu mjög jákvætt um Mignolet. Sumt sammála en annað skil ég ekki. Maðurinn er stundum kallaður ,,the quiet man” og hefur sjálfur talað um það http://metro.co.uk/2013/11/27/simon-mignolet-im-enjoying-being-the-quiet-man-at-liverpool-4205251/ . En það er líka vandi hans, hann er enginn leiðtogi í vörninni og suma leiki heyrist alls ekkert í honum. Við þurfum leiðtoga og við þurfum heimsklassa markmann eins og Reina var hjá okkur um tíma.

    Hugsum okkur ef DeGea væri núna í markinu okkar. Hversu mörg stig værum við komin með núna í deildinni. Stór misstök hjá Klopp að kaupa ekki markmann síðasta sumar.

    Varðandi Karius þá hefur hann ekki heillað mig mikið, sérstaklega finnst mér hann óöruggur í úthlaupunum. En allt í lagi að gefa honum tækifæri, en líklega klúðrar hann því aftur.

  26. Takk fyrir frábært podcast!
    Virkilega gaman að hlusta á ykkur 🙂

  27. Karius gerði ekki nógu vel í fyrsta og 3 markinu.

    Skotið kemur á nær og Gomez þvældist nógu mikið fyrir honum Sane að hann gat ekki skotið í fjær,en þegar hendurnar eru niðri er erfiðara að verja skotin sem koma uppi.

    Í 3ja markinu er Lovren með undarlega takta og hoppar ekki einu sinni upp í boltann,þannig að Gundogan fær boltann og leggur hann fyrir sig og skýtur lausum bolta niðri með jörðinni og þarna hafði Karius tíma til að rjúka út á móti honum og minnka skotvinkilinn en þess í stað stendur hann bara og horfir á allan tímann.

    Kannski eru menn,skiljanlega,orðnir þreyttir á Mignolet en Karius er ekki að bæta stöðuna eins og hann spilar og nú vona ég að Klopp og félagar horfi í kringum sig og kaupi eðal markvörð í búrið. Alisson Becker er mjög freistandi kostur og er með þetta reflex sem Karius skortir bersýnilega og miklu betri alhliða markvörður.

    En auðvitað vonar maður að drengurinn leggi meiri metnað í sinn feril og rísi upp sem sá kostur sem Klopp sá í honum upphaflega og leggi alla gagnrýni sem á honum hvíla til grafar.

  28. Sæl öll

    Var að horfa aftur á leikinn. Þeir sem halda því fram að Karius hefði átt að fara út í boltann í þriðja markinu og fullyrða að einhverjir aðrir markmenn hefðu gert það eru í ruglinu svo einfalt er það. Horfið á atburðarásina aftur.

  29. Enginn í ruglinu – Maðurinn ætti að hreyfa sig eitthvað í stað þess að leika keilu,svo einfalt er það.

Liverpool 4-3 Man City

Varnartengiliðurinn í útrýmingarhættu?