Burnley á nýársdag

Það gefst rétt svo tími til að fagna áramótunum eftir þennan ágæta sigur á Leicester, en strax á nýársdag mæta okkar menn á Turf Moor og taka þar á móti Jóhanni Berg og félögum heimamönnum í Burnley.

Andstæðingarnir

Það má færa ansi góð rök fyrir því að Burnley sé spútnik lið deildarinnar það sem af er, liðið situr sem stendur í 7. sæti deildarinnar en komst upp í það 4. á tímabili. Aðalsmerki liðsins hlýtur að teljast sterkur varnarleikur, enda hefur liðið aðeins fengið á sig 17 mörk það sem af er tímabili. Aðeins 3 efstu liðin hafa fengið á sig færri mörk. Á móti kemur að liðið skorar almennt ekki mörg mörk, aðeins 18 komin það sem af er. Til samanburðar eru okkar menn búnir að koma tuðrunni 48 sinnum í netið.

Prímusmótorinn á bak við gengi Burnley hlýtur að teljast knattspyrnustjórinn þeirra: Sean Dyche. Hann er með yngri mönnum sem stýra liði í úrvalsdeildinni, er örlítið yngri en Pep Guardiola (Eddie Howe er auðvitað langyngstur, rétt nýskriðinn í fertugt, en það er önnur saga sem ekki verður sögð hér). Dyche er uppalinn hjá Nottingham Forest, en slæmt beinbrot í upphafi ferlisins þýddi að hann lék með Chesterfield megnið af sínum ferli. Hann tók svo að sér stjórastöðuna hjá Watford árið 2011 eftir að hafa þjálfað yngri flokka og aðstoðað hjá aðalliðinu síðan 2007. Þrátt fyrir að hafa náð góðum árangri með Watford fyrsta árið urðu eigendaskipti til þess að hann færði sig um set, og var kominn til Burnley í september árið 2012. Þetta þýðir að einungis Arséne Wenger og Eddie Howe hafa stýrt sínum liðum lengur heldur en Dyche, og munar aðeins 17 dögum á þeim Dyche og Howe.

Dyche er afskaplega skipulagður stjóri, og á það t.d. til að mæla völl andstæðinganna þegar liðið leikur á útivelli, til að tryggja að liðið viti nákvæmlega hve langt eigi að vera á milli varnarmanna. Þetta er eitthvað sem hann tók upp á að gera meðan hann var leikmaður, en hann var einmitt miðvörður á sínum tíma.

Eins og áður sagði eru Burnley í 7. sæti í augnablikinu. Liðið gerði markalaust jafntefli við David Wagner og co hjá Huddersfield í gær, en þar á undan var liðið afar óheppið að ná aðeins jafntefli á móti United á rútubílastöðinni Old Trafford.

Við megum því eiga von á að mæta vel skipulögðu liði sem er erfitt að brjóta niður varnarlega. Hljómar það ekki spennandi?

Liverpool

Þá að okkar mönnum. Það eru núna 12 deildarleikir síðan liðið tapaði síðast leik, og þó svo að þarna séu nokkur jafntefli inn á milli sem við hefðum gjarnan viljað breyta í sigur með smá heppni, þá verður þetta nú samt að teljast ágætis árangur.

Rétt eins og andstæðingarnir fá skósveinar Klopp aðeins rétt rúma 46 tíma til að hvíla sig milli leikja. Sem betur fer er breiddin ágæt og meiðslalistinn hefur oft verið lengri (Clyne, Moreno, Henderson). Sturridge var að glíma við einhver smá meiðsli síðast þegar vitað var, nú og svo er verið að slúðra um að hann vilji fara frá félaginu til að fá meiri spilatíma. Salah haltraði víst eitthvað þegar hann var tekinn af velli, svo það verður að koma í ljós þegar á reynir hvort hann er leikfær. Auðvitað væri frábært að geta hent honum t.d. inn á í seinni hálfleik, enda er hann að eiga ótrúlegt tímabil og er næst markahæstur þegar þetta er skrifað. Hugsanlega eru aðrir leikmenn eitthvað krambúleraðir, en það hefur þá ekki farið hátt.

Klopp vill örugglega nota breiddina eins og hægt er, þó það megi ekki gleyma því að númer 1, 2 og 3 sé auðvitað að vinna leikinn og að spila eins sterku liði og mögulegt er til að það takist. Það vekur athygli að hann spilaði Fab 4 öllum á móti Leicester, og spurning hvort hann ætlar þeim öllum eitthvað hlutverk á mánudaginn.

Virgil van Dijk verður auðvitað orðinn leikmaður Liverpool þann 1. janúar, en ég á ekki von á því að sjá hann á leikskýrslu þetta snemma. Bæði leggur Klopp alltaf mikla áherslu á að liðið sé vel æft, og hversu góður sem hann er þá hefur hann jú ekkert æft með liðinu. Eins er líka ekki víst að félagaskiptin gangi í gegn áður en það þarf að skila inn leikmannalistanum fyrir þennan leik.

Ég ætla að spá þessu einhvernveginn á þennan veg:

Mignolet

Alexander-Arnold – Klavan – Lovren – Robertson

Winjaldum – Oxlade-Chamberlain – Lallana

Mané – Solanke – Ings

Með þessu væru Mignolet, TAA, Klavan, Winjaldum, Ox, Lallana, Solanke og Ings að koma ferskir inn (þó Klavan, Gini og Ox hafi vissulega komið inn á sem varamenn í gær), og aðeins verið að spila þeim Lovren, Robertson og Mané aftur. Af þessum finnst mér kannski einna líklegast að það verði reynt að finna einhvern í stað Robertson, enda er hann búinn að spila alla leiki upp á síðkastið. Mané er svo vissulega sá sem hefur fengið mestu hvíldina en er e.t.v. í smá lægð núna, er þá ekki um að gera að hann nái upp leikformi? Það að setja Ings í byrjunarliðið er sjálfsagt líka full djarft, þar sem hann hefur bara leikið nokkrar mínútur með aðalliðinu í tvö skipti.

Eins og máltækið segir: “Your guess is as good as mine”. Kannski róterar Klopp minna, og dembir bara Fab 4 beint í byrjunarliðið. Kannski hvílir hann einhverja allt aðra leikmenn. Kannski kallar hann til einhverja kjúklinga. En það er nú einmitt eitt af því sem gerir þennan leik svo spennandi, þ.e. að spá fyrir um hvað Klopp gerir og að sjá svo hvernig niðurstaðan verður.

Að lokum veit maður svo aldrei hver staðan verður með Philippe Coutinho. Þetta Nike klúður gæti hafa verið enn eitt ömurlega stuntið hjá Barca til að koma því inn í undirmeðvitundina að PC eigi að fara þangað. Þetta gætu líka bara hafa verið mannleg mistök, smá séns að einhver hafi hakkað sig inn á vefinn, en svo er sá möguleiki líka fyrir hendi að það sé búið að semja um félagaskipti hans til Barcelona og þetta hafi einfaldlega farið í loftið aðeins á undan áætlun. Við skulum vona ekki, enda væri það undarlegt að litla galdramanninum okkar að vera að stökkva frá borði núna. Vill hann ekki vinna meistaradeildina með Liverpool?

Við vonum að þessar hræringar hafi ekki áhrif á liðið fyrir þennan leik. Það sem skiptir auðvitað mestu máli er að ná að vinna leikinn. Ég ætla að spá því að þetta fari 2-1 fyrir okkar mönnum, þar sem Mané og Lallana sjái um að skora, en að Scott Arfield skori fyrir Burnley, líklega eftir stoðsendingu frá Jóhanni Berg.

KOMA SVO!!!

19 Comments

  1. Sælir félagar

    Takk fyrir góða upphitun Daníel. Þetta verður erfiður leikur en það er nú svo um flesta leiki þeir eru erfiðir þó einhver munur sé þar á. Hinsvegar munu okkar menn ekki vera að pæla í því þegar til kastanna kemur og keyra á Burnley sem vonandi gera þau mistök að halda að þeir geti unnið þennan leik. Fyrir mér er ekkert nema sigur boðlegt í þessum leik og spái ég því 1 – 4 á Torfunni og við byrjum nýa árið með flugeldasýningu.

    Það er nú þannig

    YNWA

  2. Salah var að jafna met síðan 1960 þegar Sir Roger Hunt skoraði 23 mörk fyrir áramót, þvílíkur leikmaður sem við rændum frá Roma.

  3. ég ætla bara rétt að vona að klopparinn verði með eistann knáa í vörninni svo við fáum ekki svona skítamark á okkur einsog við fengum á móti leicester……

    klavan er minn maður!!!!

  4. Vinnum 2-0 Mane og Ox mæta dýrvitlausir og landa þessu, annars hvað er að frétta hjá Nike!!

  5. Sæl og blessuð.

    Takk fyrir þessar stórskemmtilegu upphitanir. Ég tel reyndar jafnlitlar líkur á að ,,BOBA” komi ekki fyrir í skaupi kvöldins og að þeir kumpánar Ings og Solanke deili með sér framlínunni! Með hinn hrasandi Mané sér við hlið og nývaknaðan Lallana yrði það nú ekki beinlínis andvökuefni fyrir granítvarnarmúr Börnlei.

    Ætli Klopparinn reyni ekki að setja eitthvað öflugra í framlínuna… En gleðilegt ár elskurnar. Ómögulegt væri að hafa ekki kop.is.

  6. Er smá smeykur við þennan leik en vona það besta og spá því að við rétt náum að kreista fram sigur í blálokin með þrem mörkum í uppbótartíma 1-3 er mín spá.
    Er ansi hræddur um að litli kútur hafi verið að spila sinn kveðju leik gær því miður.

  7. Þessi Ederson í markinu hjá City er alveg í lagi, búinn að bjarga all nokkrum stigum fyrir þá.

  8. Hélt einu sinni með Barcelona, en ekki lengur. Íþróttaandinn er ekki lengur til staðar á þeim bæ þar sem öll meðul eru notuð til að ná sínu fram.
    Hér eftir held ég með Valencia.

  9. Alveg frá þvi John Toshack fór til Spánar að þjálfa Real Socidad þá hefur það verið mitt lið.

  10. Byrjunarliðið sem þú ert með þarna inná mun ALDREI vinna þetta burnley lið á útivelli. Ég vona að Kútur,Firmino og Salah byrji allir þennan leik. Við þurfum 3 stig, arsenal og celski mætast og svo gæti everton rænt stigum af scum. Mæta með sterkasta liðið í þennan leik og skipta síðan út ef við erum í góðri stöðu 🙂

  11. Sammála nr 9. Hef ógeð á barca núna, hélt með þeim, en ekki lengur

  12. Hvernig er það getur Liverpool ekki kært barca fyrir ólögleg afskipti af litlakút ,þetta er óþolandi að lesa alltaf þessar fréttir af sölu á honum?

  13. Skv. Mirror þá sjáum við Salah ekkert fyrr en eftir 2 vikur:

    http://www.mirror.co.uk/sport/football/news/liverpool-goal-machine-mohamed-salah-11777537.amp

    Mér finnst íklegt að það þurfi að rótera því menn eins og Coutinho og Firmino voru að klára leik fyrir tveim sólarhringum síðan. Nú ef Klopp og læknateymið hans metur það sem svo að þeir séu leikfærir, og til í tuskið í 90 (eða 60-70) mínútur, þá á að sjálfsögðu að spila þeim.

  14. Ég minni á að “Jóhann Berg og félagar” eru án 5 sterkra leikmanna og hafa spilað nákvæmlega sama prógramm og okkar menn. Þeir eru því mjög lúnir líka og hafa minni hóp. Held að það væri réttast að koma með Chamberlain inn fyrir Salah (þar sem hann er meiddur), Wijnaldum fyrir Can eða Milner, mögulega Lallana inn ef hann er klár og svo mögulega einhverjar varnarbreytingar. Halda Coutinho, Mané og Firmino í liðinu, reyna að halda þeim á vellinum í einhverjar 60-70 mínútur. Mér finnst þó ólíklegt að Klopp geri það, hann á eflaust eftir að setja Solanke inn. En sjáum hvað setur, ég geri enga kröfu um sigur í þessum leik, jafntefli er það sem ég býst við en verð súr með tap.

  15. Hvorki Salah né Coutinho í rútunni sem var að koma að leikvanginum.

  16. Einhver með link a leikinn kop félagar gleðilegt nýtt ár frá dk.

Liverpool 2 – Leicester 1

Gleðilegt ár 2018