Liverpool – Swansea 5-0

1-0 Coutinho 6′
2-0 Firmino 51′
3-0  Trent Alexander-Arnold 64′
4-0  Firmino 65′
5-0  Oxlade-Chamberlain 82′

Leikurinn

Það tók Liverpool einungis 6 mínútur að komast yfir. Uppskriftin var kunnugleg, Firmino vann boltann vel á miðjum vallarhelmingi gestanna, sendi boltann á Salah sem gaf í fyrsta á Coutinho sem smellti boltanum upp í markhornið hægra megin, 1-0. Frábært mark, óverjandi fyrir Fabianski.

Eftir þetta átti Liverpool nokkrar góðar sóknir en annars var þetta tiltölulega rólegt. Swansea varðist á mörgum mönnum og það vantaði aðeins upp á hraða og pressu hjá okkar mönnum.

Í uppbótartíma fékk Firmino okkar líklega besta færi þegar hann slapp í gegn en skaut hárfínt framhjá. 1-0 í hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði svipað og sá fyrri. Eftir um sex mínútna leik þá fékk Coutinho aukaspyrnu eftir að Leroy Fer braut á honum. Brassinn tók aukaspyrnuna sjálfur og sendi háan bolta yfir flata varnarlínu Swansea þar sem Firmino skaut viðstöðulaust og tvöfaldaði forystuna, 2-0.

Bakverðirnir komu báðir við sögu í þriðja marki liðsins þegar varnarmaður Swansea skallaði fyrirgjöf Robertson frá, TAA kom á ferðinni, náði frákastinu og hamraði boltanum upp í þaknetið, 3-0. Fyrsta deildarmarkið og alveg örugglega ekki það síðasta!

Aðeins mínútu síðar kom fjórða markið. Miðja Liverpool pressaði á boltann sem varð til þess að miðja Swansea sendi lélegan bolta til baka. Salah komst inn í sendinguna og sendi óeigingjarnt á Firmino sem skoraði fyrir opnu marki. 4-0 og Klopp gat leyft sér að taka Salah og Firmino útaf strax í kjölfarið enda stíft leikjaprógram framundan.

Eftir þunga sókn frá Liverpool þá var það loksins Ox sem bætti við fimmta og síðasta markinu. Sending frá TAA fór þá í varnarmann Swansea, Chamberlain náði frákastinu og setti hann utanfótar í fjærhornið. 5-0, veisla á Anfield!

Bestu menn Liverpool

Coutinho og Firmino voru báður mjög góðir í dag. Coutinho skoraði frábært mark og átti aðra stoðsendinguna á Firmino. Maður leiksins hjá mér í dag var Firmino. Hann átti stóran þátt í fyrsta marki liðsins og skoraði önnur tvö, Hann fær allt of sjaldan það hrós sem hann á skilið en er einn okkar allra allra mikilvægasti leikmaður og verið algjörlega frábær það sem af er tímabils.

Umræðan

Firmino er að eiga frábært tímabil. Fyrir utan hve ótrúlega duglegur hann er og vinnur mikið fyrir liðið þá er hann nú kominn með 16 mörk og 7 stoðsendingar og það fyrir áramót. Við ræddum það talsvert í sumar að liðið þyrfti á framherja að halda. Ég held að sú umræða sé ekki lengur til staðar.

Eftir tapið gegn Tottenham er Liverpool nú taplaust í fjórtán leikjum, situr í fjórða sæti fjórum stigum frá Chelsea í þriðja sæti og fimm stigum frá Manchester United í því öðru. Nú er bara að klára varnar- og markmann í janúar og bæta stigasöfnunina á síðari hluta mótsins. Ættum vel að geta það m.t.t. að við erum búnir með útileikina gegn topp 6.

Næsta verkefni

Það er stutt í næsta verkefni. Leicester á Anfield eftir 4 daga eða 30. desember sem jafnframt er síðasti leikur liðsins þetta árið. Það má búast við talsverðum róteringum í þeim leik, sérstaklega ef maður skoðar næsta leik þar á eftir eða útileikur gegn Burnley á nýársdag.

39 Comments

 1. Geggjaður sigur þrátt fyrir að síðari hluti fyrri hálfleiks hafi verið með daufara móti.

  Eins frábær og Firmino var fyrstu 10-15 mín, þá var Coutinho gjörsamlega magnaður allan tímann. Treysti mér ekki til að gera upp á milli, það er einfaldlega lúxus að hafa þá tvo inni á vellinum.

  Áhugavert að eftir níu umferðir voru Man Utd með hagstæðari markamun sem nam heilum 20 mörkum. Núna, eftir 20 umferðir, er sá munur orðinn fjögur mörk. Man Utd hafa sem sagt farið úr +18 í +27 og Liverpool úr -2 í +23 á þessum kafla.

 2. Clean sheet klavan strikes again!!!

  The force is strong young obi van!!!!

 3. Kútur og eða Firmino menn leiksins, TAA algjörlega frábær líka. Allir góðir á móti arfaslöku liði Swansea.

 4. Clean sheet klavan strikes again and again!!!

  The force is strong young obi van!!!!

 5. Frábær leikur og markið hjá Ox var helvíti nett líka og ég hef nú trú á Solanke þegar þessi miðja er að mata hann og ef þessi skot sem eru rétt framhjá fara að detta inn þá kemur sjálfstraustið með því og þá verður hann hættulegur.

 6. Roberto Firmino – 16 goals + 7 assists
  Sergio Agüero – 15 goals + 4 assists
  Romelu Lukaku – 14 goals + 4 assists
  Alvaro Morata – 12 goals + 4 assists
  Gabriel Jesus – 10 goals + 2 assists
  Alexandre Lacazette – 8 goals + 2 assists

 7. Skylduverkefni að vinna þennan leik. Mér leist ekkert á fyrri hálfleik en í þeim seinni mættum við til leiks. Ég var að von að Solanke næði að setja eitt eða tvö en hann var óheppinn ! Kútur er ótrúlegur leikstjórnandi og býr alltaf til 5-10 góð færi í hverjum leik. Við megum bara ekki við því að missa hann í janúar, ALLS EKKI ! Klavan var ekkert sérstakur í fyrri hálfleik, feilsendingar nokkrar, en var betri í seinni.
  Hvað er að frétta af Can ??? á hann bara að renna út á samning og halda áfram að spila ?

 8. Þetta voru frábær úrslit. Mér fanst Swansea ætla að setja leikin upp með svipuðum hætti og Everton. Liggja aftarlega og treysta síðan á guð og lukkuna. Sem betur fer gekk sú leikaðferð ekki eftir. Reyndar áfelli ég ekki minni liðin fyrir að reyna þetta því annars myndu liðin tapa með tveggja stafa tölu.

  Fyrri hálf leikurinn pirraði mig vegna þess að mér fanst eins og Liverpool ætti að vera sirka þremur mörkum yfir en ekki bara einu.

  Það eru forréttindi að hafa mann eins og Coutinho og þetta mark á fimmtu mínútu var gríðarlega mikilvægt mark, því það hefur oft sýnt sig að Liverpool á erfitt með að brjóta lið niður sem liggja svona aftarlega.

  Í síðari hálfleik gengu okkar menn á lagið og unnu mjög verðskuldaðan sigur. Það sem pirrar mig aðallega við Liverpool er að mér finnst liðið miklu betra en stigasöfnunin sýnir. Í hreinskilni sagt þá finnst mér Man City vera eina liðið sem er virkilega betra en Liverpool og það ætti að vera í baráttu um annað sætið en ekki það fjórða.

  En vonandi koma batnandi tímar framundan. Mér finnst liðið allavega orðið þónokkuð betra í að brjóta lið niður sem liggur aftarlega og því lunknara sem liðið verður í slíkum aðstæðum, því meiri líkur eru á að liðið verði varanlegt meistaradeildarlið.

 9. Höddi B ( 7 ) ég vil bara nota tækifærið og óska þér til hamingju með að finna eitthvað jákvætt ( Kútur ) að segja eftir leik þar sem við slátrum andstæðingnum 5-0 ég gat ekki betur séð en hver og einn einasta leikmaður Liverpool hafi staðið sig með sóma eins og úrslitin gefa til kynna.

 10. Sælir félagar

  Þetta fór að vonum og ég spáði 5 mörkum hjá okkar mönnum + að Lovren mundi gera sjálfsmark. Þar sem Lovren var ekki í hópnum þá héldum við hreinu (Klavan?!?) og því unnum við með þessum 5 mörkum og það var sætt. Að öllum ólöstuðum þá voru Firmino og Coutiho bestir og Firmino er að mínu mati mikilvægasti maður liðsins þó Coutinho sé gífurlega skapandi þá eru það endalaus hlaup Firmino það sem rífa varnir andstæðinganna á hol.

  Það er nú þannig

  Takk fyrir mig í dag, YNWA

 11. Frábær leikur og úrslit! Get ekki beðið eftir janúar-glugganum.
  Megi þetta halda áfram.

 12. # 9 🙂 Takk fyrir 🙂 Andstæðingurinn var nú ekki með sterkasta móti heldur 🙂 Langneðsta lið deildarinnar með brágðabyrgða stjóra. Flottur seinni hálfleikur reddaði þessu 🙂

 13. Frábær seinni hálfleikur og flott liðsheild landaði þessum sigri ,en Can var einna slakastur enn eina ferðina að mínu mati. TAA einfaldlega brilljant og Firmino skálar í Blue Nun eftir þennan leik!! Mignolet með 4 vörslur og lagaði prósentuhlutfallið,en mikið væri ég til í von Trapp eftir áramót.

  Leicester næst!!

 14. Takk fyrir þessa skýrslu. Frábær leikur og frábær úrslit gegn liði sem sannarlega þarf að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Þú segir Eyþór að rætt hafi verið um sl sumar að það vantaði framherja. Hverjir ræddu það eiginlega? Það vantar ekki framherja eða sóknarmenn yfir höfuð og hefur svosem ekki vantað í mörg ár. Sl 5 tímabil í deildinni og svo 19 leiki á þessu tímabili hefur liðið skorað 411 mörk í 209 leikjum. Það er næstum á pari við það sem er ásættanlegt fyrir toppklúbb, uþb 2 mörk skoruð í hverjum leik að jafnaði. Á sama tíma hefur liðið fengið á sig 256 mörk sem er engan veginn ásættanlegt, 0,7 mörk á sig í leik er ásættanlegt en ekki 1,2 mörk. Vissulega er það svo að Liverpool virðist alltaf þurfa að fá fleiri færi en önnur lið til að skora mörk. Auðvitað hefur verið tröppugangur í markaskorun sl ár enn alla jafna hefur það ekki verið meinið hjá liðinu ef kalla má það svo. Gleymum því ekki að það eru gömul sannindi og ný að bestu varnirnar vinna titla.

 15. Einungis 2 lið hafa skorað meira heldur en Liverpool, city og psg. Liðið er í heimsklassa (næstum því)

 16. Þó svo að Migno sé neðarlega á skotum vörðum listanum situr hann þó í 6ta sæti með 7 hrein lök. Fyrsta sætið er með 10 stk. Auðvitað hægt að tala um að við höfum verið “rændir” nokkurm clean sheets, t.d. Everton víti, Chelsea með lukku marki Willian og annað ódýrt víti sem Brighton fékk. West Ham skoraði eitt (Lanzini) eftir slæman varnarleik og svo gat Migno ekkert gert nema reyna sitt besta að verja eina mark Newcastle, en þar stóð vörnin ekki vaktina nógu vel. Þarna værum við ef allt væri “eðlilegt” með 12 CS og Mingo einn á toppnum þrátt fyrir að vera lélegasti markmaður deildarinar, að mati margra. Við hljótum að eiga svona geggjaða varnarmenn :).

  Langaði að koma þessu að þar sem mér fannst hann koma vel inn í dag og Klavan og félagar stóðu sig mjög vel þó svo að einum hérna hafi ekki fundist Klavan góður í fyrri.

  Allt liðið MOM. Enginn meiðsl, Firmino, Salah og Mane ferskir í næsta leik. Allt eins og það á að vera.

 17. Klavan er einfaldlega búinn að vera okkar stöðugasti miðvörður á þessu tímabili.

  Mér finnst Solanke ekki vera orðinn tilbúinn fyrir þessa deild ennþá. Ég held að Origi sé betri, hann er líklegri til að skora.

 18. Mig langar ofboðslega til að ná “rönni” núna, koma okkur upp í annað sætið. Held að við eigum það inni, þetta er að smella betur og betur og við erum að stoppa í götin og læra af mistökunum sem lið. Fannst til að mynda það ekki vera trendið með Rodgers.

 19. Við erum nú ekki alveg búnir með útileikina gegn topp 6. ManU og Chelsea eru í topp 6 og við eigum eftir að heimsækja þau.

 20. Kaupa markmann? Þetta er nú meira bullið. Það verður ekki keyptur markmaður í janúar. Þar fyrir utan að Liverpool er aðeins, ég segi aðeins, búnir að fá á sig þrjú mörk á heimavelli það sem af er. Það er bara geggjaður árangur.

  Ég er ekki að segja að það þurfi ekki að kaupa markmann, heldur er bara enginn á lausu í janúar.

 21. Liðið hefur fengið 23 mörk á sig í 20 deildarleikjum og 15 þeirra komu í fjórum leikjum:

  3 í jafntefli gegn Watford á útivelli
  5 í tapi gegn Man City á útivelli
  4 í tapi gegn Tottenham á útivelli
  3 í jafntefli gegn Arsenal á útivelli

  Í hinum 16 leikjunum hefur liðið fengið á sig samtals átta mörk, þar af þrjú (!) í tíu leikjum á Anfield. Burnley tókst að skora eitt þar, Chelsea eitt og Everton eitt. Crystal Palace, Arsenal, Man Utd, Huddersfield, Southampton, WBA og Swansea mistókst að finna netmöskvana.

  Leikirnir fjórir þar sem hryggjarstykki markanna komu segja að mínu mati lítið um vörn eða markvörð Liverpool. Þessir þættir eru ef eitthvað er að virka betur en maður myndi búast við með hliðsjón af mannskap, meiðslum og róteringu.

  Það eru litlar sem engar líkur á að Klopp sé að fara að grafa upp alvöru markvörð í janúarglugganum. Hins vegar yrði liðið að sjálfsögðu líklegra til að gera atlögu að dollum með heimsklassamarkverði og bætingu á 2-3 öðrum stöðum aftarlega á vellinum. Vonandi verður það gert í sumar, þótt maður myndi alveg þiggja ein klók kaup upp úr áramótum.

  Ef maður skoðar liðin í 2.-7. sæti eða svo held ég að Liverpool og Tottenham séu líklegust til að bæta í. Mín spá er að annaðhvort Man Utd eða Chelsea sogist í baráttu um 4. sætið og Liverpool endi í þriðja sæti án teljandi vandræða. Ég yrði a.m.k. sáttur við þá niðurstöðu, úr því sem komið er.

 22. Við hljótum að getað kallað 14 leiki í röð án taps einhvers konar rönn. Við erum yfirburðarlið í öllum leikjum og spurningin er bara hvort við rústum andstæðingi okkar eða hvort þrír lifi af árásir okkar og grísi marki inn.

 23. #23 – “og grísi inn marki” eða þremur ?. Við virðumst bjóða upp á pakkadíl í ár, 3 fyrir 1.

  En að gríni slepptu þá var þetta algjör snilld. Það var gaman að horfa á Firmino, sá var ákveðinn. Chamberlain virðist líka vera að pikka upp takta frá honum og er farinn að vinna boltann ofarlega á vellinum með pressu. Það var einnig gaman að sjá Lallana aftur, ekki minnkar pressan við það. Ég hef gaman að Solanke. Mér finnst hann nær því að vera klár í þessa deild en menn hér vilja meina, hann kemur sér í mun fleiri færi en Origi, mér finnst hann líklegri til að verða topp striker og skil vel að Klopp hafi valið að halda honum umfram Origi.

  Hlakka til að sjá liðið spila aftur. Það er hægt að gera margt vitlausara þegar liðið spilar svona.

 24. Sérdeilis ánægulegur leikur. Manni fannst eftir fyrsta markið að liðið hefði farið í gírinn sem Milner talaði um í viðtali eftir Arsenal leikinn, þ.e. að verða meira boring. En það entist bara fram að hálfleik.

  Hvað sóknarleikinn varðar, þá finnst mér við sem aðdáendur liðsins vera orðin svo spillt. Erum farin að heimta 4-5 mörk í leik, allt annað er bara hálf lélegt. Sýnir hvað þessi framlína er skuggaleg. Og magnað að hugsa til þess að í janúar hrundi liðið eins og spilaborg af því að Mané vantaði (og jújú, þar spiluðu meiðsli og þreyta hjá öðrum inn í). Í dag kemst hann varla í byrjunarliðið.

  Hvað miðjuna varðar, þá finnst mér Oxlade-Chamberlain alltaf vera að koma sterkari þar inn, og mér finnst hann koma með ákveðna ógnun fram á við sem maður er síður að sjá frá Can, Hendo eða Gini. Það kæmi mér a.m.k. ekki á óvart þó þetta mark hjá honum verði ekki það síðasta á Anfield.

  Og þá er það markvarðarstaðan.

  Það er ágætt að hafa það í huga að liðið er í 3-6 sæti þegar hrein lök eru skoðuð fyrir þetta tímabil:

  https://www.premierleague.com/stats/top/clubs/clean_sheet

  Þ.e. með 9 hrein lök, aðeins Chelsea og United eru með fleiri, eða 10. Mignolet á 7 af þessum lökum, Karius 2 (Arsenal og WBA). Það má alveg velta fyrir sér ef og hefði og allt það, ef Klopp væri ekki að rótera svona og Mignolet hefði fengið þessa tvo leiki, þá eru ágætar líkur á því að hann hefði líka haldið hreinu í þeim leikjum.

  Semsagt, jú það er örugglega hægt að bæta markvarðarstöðuna. Nei, það er örugglega ekki eins einfalt og margir vilja halda fram. Persónulega held ég að almenn bæting á varnarvinnu liðsins myndi skila betri árangri til lengri tíma litið. En aftur: ég útiloka alls ekki að það geti borgað sig að fá inn nýjan markmann. Hver veit, kannski er bara málið að bíða aðeins eftir Grabara?

 25. Langar að blanda mér ofurlítið í umræðuna um Mignolet.

  Ég dreg ekki dul á að ég held að Karius sé miklu betri kostur fyrir Liverpool þrátt fyrir brösótta byrjun. Það er ekki sökum þess að Mignolet sé slæmur markvörður í sjálfu sér heldur frekar að hann er af gamla skólanum þrátt fyrir að vera ungur markmaður per se.

  Hlutverk markmanna hefur breyst síðustu 10 árin og Karius sýndi það með Mainz að hann er úr sömu deiglu og Manuel Neuer. Neuer er líklega besti markmaður heims í ljósi þess hvaða hlutverki þeim er eignað í dag hjá bestu liðunum.

  Vera má að t.d. De Gea, sá frábæri markmaður, sé betri milli stanganna en Neuer er svo miklu meira en “shootstopper”. Nútíma markmaður þarf ekki aðeins að geta varið bolta og öskrað á vörnina heldur tekið þátt í sókninni og búið til sóknarfæri.

  Neuer skilur fótbolta á taktísku leveli jafn vel og hver annar leikmaður Bayern og getur kallað skipanir fram á völlinn um hvernig liðið á að færa sig og bregðast við bæði í vörn og sókn. Þá þurfa nútíma markmenn að geta tekið þátt í spilinu og verið á stöðugri hreyfingu til að fært sig hratt bæði fram til að hjálpa vörninni og vera fljótir aftur til að vera tilbúinn að verja skot sem koma á markið. Loks þarf þessi steríótýpa af nútíma markmanni að vera góður í fótbolta þ.e. ekki aðeins í höndunum heldur líka í fótunum til að vera rólegur á boltanum og geta komið honum fram völlinn í svæði þar sem góðar líkur eru á að hægt sé að sækja á andstæðinginn. Þegar að svona complete markamaður eins og Ederson kom til Man City gjörbreyttist varnarleikur og raunar hluti sóknarliðsins. Ég hugsa að engin einn leikmaður Man City hafi reynst Guardiola betur í að setja saman þetta rosalega lið en Ederson.

  Það verður hver að svara fyrir sig en Mignolet er ekki nútíma markmaður sem tikkar í þessi box að mínum dómi heldur fremur gamaldags “verjari” og raunar ágætur sem slíkur. Karius er aðeins 24 ára gamall og kemur úr nákvæmlega sömu deiglu og títtnefndur Neuer og Ederson. Á síðasta ári sínu með Mainz var hann valinn næst besti markaður Bundes af kollegum sínum og aðeins Neuer var sjónarmuni á undan Karius.

  Loris Karius er því enginn minnipokamaður í marki nema síður sé og hátt skrifaður í Þýskalandi sem slíkur. Hann hefur keppt um að vera markmaður í yngri landsliðum Þýskalands við ekki lakari leikmenn en Ter Stegen, Timo Horn og Bernd Leno og varið mark allra yngri landsliða Þýskalands á einhverjum tímapunkti.

  Auðvitað verður ekki horft fram hjá að Karius byrjaði illa og hefur verið rakkaður niður af ekki minni mönnum en Jamie Carragher og Phil Neville. Ég hef satt best að segja ekki fyrr eða síðar sé annan eins fúkyrðaflaum og ósanngirni í garð stráks sem er að taka sín fyrstu skref hjá stóru félagi. Veit ekki hvað Carragher hefði fundist ef t.d. Steve Nicol hefði óskað honum norður og niður þegar hann var að byrja í bakverðinum á sínum tíma. Hef alltaf sárnað hvernig Carragher talar um leikmenn Liverpool sem ekki eru við hans skap ekki síst í ljósi þess að hann var sjálfur ekki sérlega hæfileikaríkur fótboltamaður í grunninn en vann vel með sína styrkleika sem gerði hann svo á endanum að legend og mikilvægum leikmanni Liverpool.

  En þó að Karius sé atyrtur eins og hann sé með öllu hæfileikalaus markmaður talar ferill hans í Þýskalandi allt öðru máli. Hann er yngsti markmaður Bundes allra tíma og enginn varði fleiri skot í Bundes 2015. Þessi strákur ætti að hafa alla burði til að verða frábær fyrir Liverpool þrátt fyrir erfiða byrjun. Menn missa ekki hæfileika og getu við það eitt að flytja frá Mainz til Liverpool og það ættu allir að vita.

  Í stuttu máli finnst mér að Karius ætti að verða okkar markmaður nr. 1 eins skjótt og mögulegt er. Held raunar að það sé alltaf planið en Klopp veit sem er að nauðsynlegt er að slæda stráknum inn svo hann lendi ekki í sirkusnum sem tók hann niður síðast.

 26. Virgil van Dijk to Liverpool er nú komið út um allt internetið og á litlar 75kúlur!!!
  Ef satt er þá virðist vera nóg af peningum í kassanum og dýrasti varnarmaður ever á leiðinni.
  Ég vona bara að hann sé allra peningana virði,en hvað verður nú um Lovren og Klavan?

 27. Jahérna hér. James Pearce hjá Echo fullyrðir að van Dijk verður orðinn leikmaður LFC 1. janúar nk.

  Fyrst að Pearce fullyrðir þetta þá er þetta 99,99% öruggt! Frábærar fréttir.

 28. 75 mills, hann er aldrei þess virði, siðan má CU10 alls ekki fara, liðið er allt búið til í kringum hann og sama hve mikið væri borgað fyrir hann þá væri það andrei þess virðið að selja hann. ef það er mikil pressa frá honum að hann fari, þá ætti að gefa honum vilyði fyrir sölu eftir HM, virðið hanns á eftir að rjúka þar upp.

 29. 75 millur fyrir VVD er það ekki brjálæði? Flottur leikmaður sem er nýstíginn upp úr erfiðum meiðslum en ég sé hann ekki standa undir þessum verðmiða. T.d er þetta sama upphæð og Suarez fór á.
  Vona svo innilega að hann verði púslið sem vantar og að hann verði svakalegur fyrir okkur og að við horfum til baka og getum sagt að hann hafi verið ódýr miðað við það sem við fengum út úr honun.
  Brilljant að fá varnarmann inn og megi Obi Kla-van blessa þessi kaup. Amen

  YNWA

 30. Sælir félagar

  Ég vil bara gera orð Guderian að mínum og ég vil að Karíus fari að fá fleiri tækifæri eins og ég hefi tönglast á undanfarnar vikur.

  Það er nú þannig

  YNWA

Liðið gegn Swansea

Virgil van Dijk kominn (staðfest)