Liverpool 0-0 West Brom

Leikurinn

West Brom mætti á Anfield í dag með það markmið að ná í eitt stig og tókst áætlunarverk sitt. Klopp mætti með gríðarlega sterkt lið til leiks í dag en ekki tókst að brjóta á bak skipulagða vörn gestanna. Miðjumenn West Brom sátu meirihluta leiksins rétt fyrir framan varnarlínu sína og gekk mönnum erfiðlega að finna svæði og var hálf vandræðanlegt hversu margar sendingar rötuðu beint til hvítblárra leikmanna. Fyrsta alvöru færi leiksins fékk Roberto Firmino þegar hann fékk góða gegnum sendingu frá Mo Salah en setti boltan rétt framhjá stönginni í fjærhorninu. Coutinho var í afbragðsstöðu ef Firmino hefði rennt boltanum fyrir markið en sé ekkert af því að reyna við þetta færi. West Brom menn ógnuðu lítið en minntu aðeins á sig eftir hálftíma leik þegar Hal Robson-Kanu fann sér svæði á vallarhelmingi Liverpool og hlóð í skot sem endaði í þverslánni. Rétt fyrir hlé var Salah nálægt því að pota inn fyrirgjöf frá Trent en vantaði nokkra sentimetra uppá.

Seinni hálfleikur var nánast keimlíkur þeim fyrri Liverpool hélt boltanum á miðjum vellinum en ef þeir reyndu að sækja framar var lítið um pláss og sendingarmöguleikar fáir. Menn fóru að reyna allt of mikið af erfiðum boltum og okkur sárvantaði menn til að taka hreinlega af skarið og koma boltanum á markið. Á 50. mínútu áttu West Brom menn sitt besta færi þegar Yacob náði að skalla boltan á markið en Karius gerði vel og varði í horn.

Atvik leiksins var síðan á 82. mínútu þegar Gomez kom boltanum fyrir markið á Solanke sem hitti boltann illa og hann skoppar upp í hendina á honum og þaðan inn í markið.

Bestu menn Liverpool

Það er erfitt að velja menn leiksins eftir svona leik. West Brom liðið má eiga það að þeir vörðust mjög vel og gerðu okkar mönnum erfitt fyrir en með alla þessar kanónur innanborðs vill maður sjá meira en við fengum að sjá í dag. Einna helst fannst mér Emre Can komast ágætlega frá leiknum en hann stýrði miðjunni ágætlega og komst vel frá sínum verkefnum í dag. Ásamt því greip Loris Karius vel inn í þegar á hann reyndi, greip inn í nokkrar fyrirgjafir og átti góða markvörslu.

Slæmur dagur

Hvað er að frétta hjá Sadio Mané í undanförnum leikjum? Hann virðist ekki vera í takti við hina sóknarmenn liðsins og virðist eiga pínu erfitt með að vera ekki aðalstjarna liðsins líkt og í fyrra þegar hans var sárt saknað þegar hann var ekki með. Erfitt að segja til sitjandi hér heima en eitthvað virðist vera að angra hann. Einnig átti Klopp ekki góðan dag, það var lítið að frétta í leiknum og hann beið með skiptingar fram á 76. mínútu en ég hefði verið til í að sjá hann skipta fyrr. Að lokum átti ég sjálfur dapran dag en í fljótfærni skrifaði ég að Mignolet hefði verið í byrjunarliði í dag í færslunni hér að neðan þegar það var að sjálfsögðu Karius. Maður er bara orðinn svo vanur þessari deildar og meistaradeildarskiptingu að ég áttaði mig bara ekki einu sinni á því fyrr en nokkrar mínútur voru liðnar af leiknum.

Umræðan eftir leik

Þessu fjárans jafntefli!

West Brom er eina liðið í deildinni sem hefur gert fleiri jafntelfi í deildinni en við. Þetta eru alveg ótrúlega mikið af stigum sem við erum að tapa í leikjum sem við erum yfirleitt betri. Þetta er eitthvað sem þarf að breytast ef liðið ætlar að halda sér í þessari baráttu um meistaradeildarsæti. Sjöunda jafntelfið í ár staðreynd og ég vona að við grátum þessi stig ekki of mikið í vor

Næsta verkefni

Næst mætum við Bournemouth á sunnudaginn en þeir hafa átt erfitt uppdráttar undanfarið, ekki unnið í síðustu fimm leikjum vonandi sýna okkar menn flotta takta um helgina.

 

37 Comments

 1. Ömurleg frammistaða í kvöld. Þegar liðið heldur hreinu. Þá getur það ekki náð þessu eina marki sem þarf til að vinna leikina. Megum ekki detta í svona form þegar leikjaálagið er sem mest. Verður auðvelt að dragast aftur úr með slíku áframhaldi.

  Tímabilið er ekki hálfnað og við erum 18 stigum á eftir Man City. Það segir allt sem segja þarf. Ef Liverpool ætla sér einhverntíma að keppa um titilinn. Þá verða eigendaskipti að eiga sér stað. Eða er klúbburinn bara saddur að vera með og ná Evrópusæti arnnars lagið?

 2. Ég vona að þessi dómari dæmi alla leiki okkar sem eftir er af tímabylinu, anskotans helvítis djöfulsins anskotans helvíti???? Annars er ég bara góður ? YNWA

 3. Dómarinn stóð sig vel. Þetta var alfarið okkur sjálfum að kenna. Nú beitti Klopp öllum sínum bestu mönnum. Menn verða að fara að kunna þetta. Liðin sem við erum að spila við gera þetta alveg eins!!!!!! Kann Klopp engin ráð við þessu? Ef ekki þá verðum við að fá annan mann til að glíma við þetta. Það er ekki hægt að bjóða lengur upp á svona djöf….. leiðinlega knattspyrnu. Áfram Liverpool.

 4. W.B.A hafði nú bara unnið 3 útileiki síðan frá byrjun 2016, en við drullum alltaf á okkur í svona leikjum svo það skiptir engu máli hvað bournmouth hefur halað inn lítið af stigum, þeir ná þá bara meira á móti okkur ræflunum

 5. Maður er löngu hættur að pirra sig á þessu, þetta er búið að vera viðlogandi lengi þessi eintóm vonbrigði. Það er himinn og haf á milli Chelsea,Man city og Man Utd. Ef við eigum einhverntíman að ná Árangri þá þarf nýja eigendur sem dæla peningum í þetta. Við getum allavega notið þess að horfa á þetta lið á góðum dögum. Ég væri allavega mjög pirraður ef liðið spilaði eins og man utd þótt það væri í sömu stöðu og þeir.

 6. Skrítið að sjá Liverpool brjóta 16 sinnim af sér í leiknum…ótrúlega heimskulegt…drepur allt tempó og tefur leikinn þvílíkt. En þetta time wasting er orðið ótrúlega leiðinlegt í boltanum og auðvitað á þetta varamannsfífl sð fá rauða spjaldið…

 7. Spurning um að spila 3-3-4 á móti rútuliðunum á Anfield með skallamenn inn í teig… En staðreyndin er samt sem áður sú að við erum líklegri til að vinna meistaradeildina á móti alvöru liðum en að vinna botnliðin í enska boltanum!

 8. Ég hef hreinasta viðbjóð á rútuleggjandi tímatefjandi pappakössum eins og þeim sem skipa þetta W.B.A lið. Ég verð búinn að jafna mig á morgun, en mun svo sannarlega taka tappa úr flösku þegar þeir falla í vor.

 9. Nr 5. Þau lið sem tefja og láta sig detta frá fyrstu mínótu hagnast á því og fá ekki einu sinni gult spjald fyrir það nema þá varamaður þeirra sem er að hita upp. Þetta er að hjálpa liðum sem vilja ekki spila fótbolta.

 10. Er algjörlega ósammála – fannst Can ekkert komast sérstaklega frá þessum leik. Hægur, hugmyndasnauður, verst ágætlega en þetta óþolandi mynstur í hans leik, að brjóta af sér þegar engin ástæða er til er óþolandi. Væri farinn að fara verulega í taugarnar á mér ef hann væri ekki svona þýskur og vel greiddur.

 11. Margir horfa á slakan leik hjá Mane,en fyrir mitt leiti var þetta örugglega ein slakasta frammistaða Coutinho sem ég hef séð.

 12. Ósammála leikskýrslu með Emre! Sé ekki hvernig það er hægt að komast vel frá miðjuspili þar sem það er ekkert miðjuspil! West Brom var svo slétt sama um miðjuna í dag… Vildu bara hafa Liverpool þar… og það gekk upp!! -_- Þessi leikur var Groundhog day… dauðans. Ótrúlega svekkjandi svona stillimyndir.

  YNWA

 13. Finnst stundum eins og Mané sé í fýlu útaf vinsældum og velgengni Salah sem bitnar á frammistöðunni hjá þeim fyrrnefnda.

  Watford, Newcastle, Everton og WBA. Dómaraákvarðanir hafa kostað okkur 8 stig í þessum fjórum leikjum. Segjum að þetta séu 50/50 ákvarðanir þannig að með réttu hefðum við átt að vera með auka 4 stig í deildinni. Allar stóru ákvarðanir hafa verið á móti okkur nema mögulega þegar Simon fékk ekki rautt um daginn.

 14. Flott skýrsla en Emre Can maður leiksins! What??

  Að mínu mati átti hann skelfilegan leik. Ömurlegar staðsetningar, hægur í skyndisóknum og vissi nákvæmlega ekkert hvað hann átti að gera við boltann þegar hann var með hann.

  Hann fær 4 í einkunn hjá Echo (lægstu einkunn allra leikmanna), eða eins og þeir orða það:

  Emre Can has a nightmare!

  Öftustu þrír áttu ágætis leik. Bakverðirnir skítsæmilegir. Miðjan og sóknin var hins vegar ömurleg.

 15. göngubolti engin pressa menn höfðu ekki áhuga á að vinna leikinn
  Klopp er ekki með þetta á móti liðum sem pakka í vörn
  að hann skuli ekki vera með það á hreinu

  það gengur ekki að reyna hnoða sig í gegnum 10 manna varnalínu
  á móti svona liðum þá ferð þú upp kantinn og dælir inn fyrirgjöfum endalaust ca 30 stk það hlýtur einhver að detta inn

 16. Sælir félagar

  Nú sést vel hversu rándýrt jafnteflið við Everton var. Það má alltaf búast við svona leikjum þar sem liðið er algerlega andlaust og sköpunarkrafturinn enginn. Það er líka spurning hvort þessi rotering á liðinu í síðasta leik var ekki eitthvað sem kippti þessum fjórum fremstun úr sambandi. Að minnsta kosti tengdu þeir ekki vel í þessum leik en hefði ef til vill gert það á móti Everton ef þeir hefðu verið látnir spila þar en einhverjir svo hvíldir í þessum leik.

  Svona leikir munu koma og þá ríður á að menn séu hreifanlegir og gefi varnarmönnum engan frið með stöðugum hlaupum. Þó stór hluti liðsins hafi komið vel hvíldur í þennan leik var það ekki að sjá. Menn voru staðir og þau fáu hlaup sem komu voru illa tímasett. Sendingar inni í hlaupin voru líka óvenju ónákvæmar hjá Coutinho. Kítaframmistaða, skítaleikur og skítaúrslit 4 stig töpuð í tveimur leikjum. Skita bæði á liði og stjóra.
  Það er nú þannig.

  YNWA

 17. Það er helst að vörnin hafi mætt til leiks í dag. WBA voru mjög skipulagðir og vörðust fimlega en lágu samt ekki ÞAÐ aftarlega, vel að merkja. Þegar hálftími lifði leiks fóru svæði að opnast en það vantaði smá áræðni til að nýta það sem bauðst.

  Ég er sammála stærsta dómi ágæts dómara leiksins. Umræður um hvenær hendi er hendi og hvenær ekki geta verið snúnar og oft beinlínis stórfurðulegar, en þegar leikmaður skorar með téðum útlim hljóta slíkar vangaveltur að fjúka út um gluggann. Þetta var reyndar helv. líkt markinu sem Sanchez skoraði gegn Hull í fyrra, en hvorugt markið hefði átt að standa.

  Okkar mönnum tókst nokkrum sinnum að kljúfa vörn WBA í dag en því miður skilaði það ekki marki. C’est la vie.

 18. Þetta var flottur leikur hjá okkur, við sóttum og sóttum (eins og við erum vanir að gera 60-80% af öllum spilatíma okkar) en í þetta skiptið gekk ekki upp að skora. Síðustu tveir leikir hafa verið vel spilaðir af okkar mönnum en úrslitin hafa ekki dottið með okkur, því miður hangir það ekki alltaf saman.

  Karius var virkilega flottur í þessum leik og vonandi er þetta okkar nýja þýska stál á milli stanganna sem er í bígerð þarna.

  Þetta mun falla okkur í hag í næstu árás.

 19. Ég held að Jurgen Klopp sé hreinlega að stimpla sig inn sem mesta Jo Jo sem sést hefur í enska boltanum ?

 20. Enn leggjum við af stað með niðurstöður eins og þessa í gær.

  Liverpool FC hefur verið á þessum stað síðustu 20 ár eða svo og líkt og hjá Houllier, Benitez, Dalglish og Rodgers þá erum við enn í því ástandi að geta ekki brotið upp rythma andstæðinganna í leiknum þegar þeir koma og leggja rútunni.

  Í gær var augljóst að við þurftum sterkan senter sem átti séns í að taka til sín þegar að 7 leikmenn verjast inni í teig. Það er okkar “plan B” sem vantaði í gær og nú þarf svörin þegar vellirnir þyngjast og leikmenn líka.

  Að því sögðu þá lítur Jurgen Klopp í mínum huga illa út. Annan leikinn í röð eru 6 breytingar, heyri reyndar í dag að meiðsli urðu til markmannsskipta. En það að skipta núna út allri miðjunni var einfaldlega ekki að virka. Er sammála mörgu í skýrslu Hannesar en ekki því að velja Can bestan. Hann og Wijnaldum voru arfaslakir inni á miðjunni, hægir og ragir. Coutinho átti vondan dag og Mané er augljóslega ekki í synci.

  Ég er enn að hrista hausinn yfir að tveir bestu leikmenn liðsins um helgina (utan Salah) voru settir á bekkinn, Gomez og Ox.

  Svo að enn á ný er komið óbragð í munn manns, liðið manns sýnir semsagt engan stöðugleika, komnir í ljós augljósir veikleikar sem við áður höfum rekið okkur á. “Fall” þeirra stjóra sem ég nefndi áðan var algerlega falið í því að finna ekki svör við uppstillingu líkt og þeirri sem Pardew kom með í gær. Kannski verður maður að fara að hugsa um það að eitthvað í félaginu sé komið upp sem menn bara komast ekki yfir, einhver “mental block” í klúbbnum bara þegar ólíkir stjórar rúlla þarna í gegn en með sömu vandamál endalaust!

  Það mun líka verða fall Jurgen Klopp eins og hinna nema að hann finni út leið til að vinna rútulið.

  Við megum ekkert við neinum nýjum janúar 2017 nú þegar enn á ný er orðið ljóst um jól að hámarksárangur mögulegur virðist 4.sæti og bikarkeppni.

 21. Hvernig er það svo með þennan blessaða captain okkar. Er hann meiddur eða bara ekki með traustið lengur hjá klopp? Sem eg skil alveg enda óttalegur kálfur blessaður Henderson.

 22. Vörnin er ljósi punkturinn í þessum leik og Klavan heldur áfram að sanna sig. Haldi það áfram getur allt gerst. Hlutirnir féllu samt ekki með liðinu í sóknarleiknum en það mun breytast.

 23. Erfitt að vera Klopp. Á móti Everton var hann víst kjáni að byrja ekki með “fantastic four”, í þessum leik er hann kjáni af því að hann spilaði “fantastic four” of lengi.

 24. Þeir leikmenn sem flestir hér voru brjálaðir yfir að spiluðu ekki á sunnudaginn voru lélegustu leikmenn vallarins í gær.
  Snillingar.
  Ætla menn svo virkilega að halda því fram að liðið hafi ekki skapað sér færi til að setja nokkur mörg í þessum tveimur leikjum? Mantran um að liðið geti ekki brotið upp rútulið er að mestu algert kjaftæði. Leikmenn hafa gert sig seka um að nýta ekki færin sem þeir hafa fengið. Mane og Salah á móti Everton, Firmino og Salah í gær,ásamt fleirum reyndar. Mark frá Firmino í fyrri hálfleik í gær hefði gjörbreytt öllu.
  Hættið svo öllu þessu kjaftæði um að skipta um þjálfara, það er engin lausn. Hann þarf að fá sinn tíma. Svo ég segi þetta einu sinni enn, þau lið sem hafa sýnt honum stuðning og þolinmæði hafa heldur betur grætt á því. Við erum með allt of marga leikmenn sem eru ekki nógu góðir og það tekur tíma að skipta þeim út. Svo er allt tal og væntingar um að keppa um titil svo gjörsamlega út í að það hálfa væri hellingur, þetta lið er engan veginn nógu vel mannað til að keppa um titilinn, fariði nú að stilla væntingum í raunhæft hóf.

 25. Það kemur semsagt í ljós að það að spila með “fantastic four” er engin gulltrygging fyrir því að liðið skori 3 mörk. Eða eitt einasta mark, svona ef út í það er farið.

  Það kemur líka í ljós að þó svo að Henderson fari á bekkinn, þá getur liðið alveg samt skort sköpun fram á við. (Segir í sjálfu sér ekkert um það hvort Henderson þurfi að bæta sinn leik, en hann er a.m.k. ekki sá eini sem þess þarf).

  Varðandi markið sem Solanke skoraði, þá hugsa ég að ef þetta hefði gerst hinum megin á vellinum, þá væri fólk drullufúlt ef dómarinn hefði dæmt mark. Þetta er samt óþægilega óljós regla í boltanum. Það er talað um ásetning í reglunum, en hann er ekki hægt að mæla. Ég væri alveg til í að þetta yrði endurskoðað.

  Mér finnst Solanke vera einhvernveginn á svipuðum stað og Origi var fyrir ári síðan eða tveim, semsagt ekki alveg að finna taktinn. Vona samt að fyrsta markið fari að detta inn hjá honum.

  Að lokum vil ég svo taka undir tillöguna sem Kristján Atli setti fram á Twitter í gær: ef leikur fer 0-0 ætti hvorugt liðið að fá stig. Það myndi sjálfsagt minnka líkurnar á því að lið fari að tefja tímann á 30. mínútu í stöðunni 0-0.

 26. Hvernig er hægt að spila pressubolta á lið sem er enskan strædó í vítateignum? Liðið okkar verður að bakka og leifa andstæðingunum að hafa boltann svo pressuboltinn virki ásamt skyndisóknum.
  Það er svo einfalt.

 27. Maður sá, eins svo oft áður að miðverðirnir voru látinir ( af W.B.A ) spila boltanum upp miðjuna. Þetta þýðir að sköpun er lítil sem engin og miðvörðurinn sem ber upp boltann er gríðarlega stressaður að skilja eftir svæði fyrir aftan sig opið tilskyndisóknar og sendir því boltan oft of fljótt, sendingin erfið og á rangan stað. Hendetson og Can reyna að fá boltan en þeir eru litlu betri og senda hann til baka til miðvarðar uns sem þarf síðan að bera hann upp. Lausnin er að setja meira skapandi mann í þessa stöðu og við eigum hann, hann heitir Coutinho.

 28. Pirraði mig í fyrri hálfleik hve lítil hreyfing var á mönnum án bolta

 29. Flott færsla Hannes.

  Ég náði reyndar einungis seinni hálfleiknum og það sem mér fannst að var ákveðið andleysi í spilinu í okkar mönnum. “Fab four” voru kaldir og voru ekki að skila sínu og má helst nefna Mane. WBA voru með aftarlega og það tókst hjá þeim. Við höfum alltof oft verið að spila svona leik sem liðin ná að “leggja rútunni” og takast að halda hreinu, við verðum að fara finna lausn á þessu vandamáli. Það er pirrandi að seinustu tveir leikir hefðu vel getað unnist, og værum við i mun betri stöðu í stigatöflunni. En þýðir ekki að örvænta á þessu svekkelsi. Ég trúi að við séum á uppleið hægt og rólega. 1-2 transfer gluggar í viðbót fyrir Klopp og þá ætti hann að vera með leikmenn sem hann leitast eftir.
  YNWA!!

 30. Ég held að WBA hafi bara spilað vel í þessum leik þó það hafi verið mikið til varnarleikur enn þeir áttu mikið meira í leiknum heldur en Everton átti í sínum leik og ég er enn svektur yfir þeim leik ekki endilega þessum því sá leikur áttti að vera sigur en þessi átti að vera jafntefli ef það er hægt að horfa á þetta með þeim augum hvað sé sanngjarnt og hvað ekki.
  En upp með hausinn og við fáum jólaglaðning með sigur í 3 næstu fram að jólum.

 31. Er einhver annar orðinn þreyttur á að Dermot Gallagher tjái sig um þessa dóma hjá Liverpool amk uppá síðkastið 🙂

  Hann talaði um að það væri rétt að dæma víti á Liverpool á móti Everton þar sem Lovren lagði hönd sína á öxl Everton mannsins. Hversu mikil snerting það væri skipti ekki máli, hann hefði verið klaufi. Eflaust rétt hjá honum að einhverju leyti. Í sömu grein talar hann hinsvegar um það að það hafi verið rétt að dæma ekki víti í Arsenal – City þar sem það hafi ekki verið nógu mikil snerting. Samt nógu mikil snerting til að gefa ekki gult fyrir dýfu.
  Er ég sá eini sem sé smá contradiction í þessu eða er það sjálfkrafa víti ef maður leggur höndina á andstæðing í staðinn fyrir að fara í fæturnar, skiptir þar engu máli hversu mikil snertingin er?

  Varðandi hendina á Solanke, ok gott og blessað en þar finnst mér þetta vera 50/50 það er hægt að réttlæta báða dóma svo mér finnst skrýtið að herra Gallagher komi fram með svo afdráttarlausum hætti. Það er væntanlega það sem hann fær borgað fyrir. Þetta hefði sannarlega litið öðruvísti út hinum megin á vellinum.

  Að þessu sögðu, manni finnst eins og allt gangi gegn Liverpool í seinustu leikjum, engin heppni, þar með talið dómarnir. En það eru bjartari tímar framundan í næstu leikjum.

 32. Mín spá: Sigur í meistaradeildinni og stóru bikarkeppninni

Sterkt byrjunarlið gegn West Brom

Bournemouth á sunnudaginn