Upphitun: WBA á Anfield

Eftir að hafa misst grannaslaginn gegn Everton niður í grútfúlt jafntefli þá er röðin komin að WBA á heimavelli. Leikurinn sem samba-sóknardúettinn okkar var sparaður fyrir og Púlarar því með vonir og væntingar um bót og betrun frá hinni sögulegu sóun síðasta leiks. Allir elska margra marka afsökunarbeiðni til að lægja öldurnar á Rauða hafinu og við biðjum því til Móses um slíka friðargjöf.

Það er komið að upphitun!

Mótherjinn

Hjá Miðlandaliðinu West Bromwich Albion voru nýlega stjóraskipti þegar að Tony Pulis og derhúfan hans voru látin fara og inn kom farandþjálfarinn Alan Pardew til að taka við sínu sjötta liði á 11 árum. Ef horft er á vinningshlutfall þessara stjóra gegn LFC þá voru þetta góð vistaskipti fyrir okkur þar sem að gegn Pulis þá vinnum við eingöngu sigur í 33% tilfella og lendum í mörgum jafnteflum en gegn Pardew er vinningshlutfallið öllu heilbrigðara eða 58% sigur. Hins vegar hefur Pardew stýrt sínu þáverandi liði Crystal Palace til sigurs í síðustu tveimur leikjum þeirra á Anfield þannig að Klopp & co. þurfa að hafa allan varann á að bjóða ekki upp í kjánalegan dans.

Það var ekki að ástæðulausu að WBA sparkaði Tony Pulis enda hafði liðið ekki unnið deildarleik síðan um miðjan ágúst og falldraugurinn farinn að gera vart við sig í Miðlöndum. Það hefur ekkert breyst þrátt fyrir komu Pardew og hefur liðið ekki náð að sigra í þeim tveimur leikjum sem hann hefur stýrt þeim í. Að sama skapi var góð ástæða fyrir því að Pardew var á lausu til að taka við WBA en hann hafði eingöngu stýrt C. Palace einu sinni til sigurs í fyrstu 11 deildarleikjum tímabilsins. Spurningin er því hvort að með stjóravali sínu séu WBA að fara úr öskunni í eldinn eða hvort þeir muni rísa öflugir úr öskustónni.

Sögulega séð hefur Liverpool gengið vel með WBA í gegnum tíðina. Vinningshlutfallið gegn þeim frá örófi alda er 46% en ef eingöngu eru skoðaðir leikir í Úrvalsdeildinni þá eru það öflug 64% og þar af 73% sigur á Anfield. Þetta er því eins mikill skyldusigur og hugsast getur. Það er einnig fátt sem stendur upp úr það sem af er tímabils hjá WBA enda í 17.-18. sæti með 13 stig og aðeins 12 mörk skoruð í 16 leikjum. Því miður fyrir okkur þá eru WBA ágætir varnarlega og bara fengið á sig 22 mörk sem er litlum 2 mörkum meira en okkar eigin misgóða vörn. Þetta hefur skilað þeim 7 jafnteflum (þ.m.t. úti gegn Tottenham) og sýnir að þeir eru ekki svo auðsigraðir þrátt fyrir allt. Efstur í liði WBA í tölfræðieinkunnum WhoScored er egypski varnarjaxlinn Ahmed Hegazi sem hefur verið orðaður við Liverpool eftir góðar frammistöður og Púlarar fá því tækifæri til að skáta samlanda Salah með eigin augum. Gerið því ráð fyrir að öðrum vítateignum verði breytt í bráðabirgða bílastæði fyrir langferðarbíl megnið af leiknum með tilheyrandi hitakorti.

Að því sögðu tel ég að WBA muni stilla svona upp gegn okkur:

Líklegt byrjunarlið WBA í taktíkinni 4-5-1

Liverpool

Frá afhroðinu á Wembley þá er Liverpool ósigrað í 10 leikjum í öllum keppnum með 7 sigra og 3 jafntefli og ber að hrósa Klopp og leikmönnum í hástert fyrir frábæra viðspyrnu frá sjávarbotni eftir það skipbrot. Allir Púlarar hefðu tekið slíku fegins hendi fyrirfram ásamt því að vera komnir áfram í CL og með þeim 33 marka flugeldasýningum sem hafa verið til sýnis. Hið ótrúlega við þessa 10 leiki er að allir sigrarnir vinnast með 3 mörkum eða fleirum og í öllum jafnteflunum missum við niður forystuna á síðustu 15 mínútum leiksins. Það þarf ekki mikinn speking til að álykta að við getum og þurfum að skora ansi mörg mörk til að sigra leiki og jafnvel þriggja marka forskot geta gufað upp eins og dögg fyrir Spánarsólu. Við þurfum því mörk, mörk, mörk og aftur mörk til að sigra.

Það væri tvískinningur að hrósa Klopp fyrir flottar róteringar í sigurleikjum en skamma hann fyrir þær í jafnteflisleikjum en á þessu er þó sá greinanlegi munur að tveir þessara leikja voru sannkallaðir stórleikir gegn Chelsea og Everton. Í þeim leikjum byrja tveir af hinum svokölluðum Fab Four á bekknum og það hefur greinilega áhrif til hins verra á færasköpun liðsins. Því til stuðnings má benda á að gegn Everton vorum við 79% með boltann og áttum 23 markskot en bara 3 á rammann, en í 7-0 veislunni gegn Spartak Moskvu þá vorum við bara 52% með boltann en áttum 17 markskot og 10 af þeim fórum á rammann og 7 í netið. Það er því hið gamalkveðna að það skiptir meira máli hvað þú gerir með boltann heldur en hversu mikið þú hefur hann.

Og það telst varla óeðlileg krafa eða ósanngjörn gagnrýni að ætlast til þess að sjá Klopp stilla upp sínu sterkasta liði í stærstu leikjunum. Sérstaklega  í síðasta leik þegar að 4 dagar líða frá leiknum við Spartak og við erum með 3 heimaleiki í röð með engum ferðalögum til að þreyta leikmenn. Þegar að við skorum minna þá þýðir að við erum bara einum mistökum frá því að missa sigur úr okkar greipum og sú varð raunin í síðasta leik sama hvort við skrifum mistökin á dómarann eða Lovren. Það er spurning hvort að Klopp ætti ekki að endurskoða þessa nálgun sína þar sem að þetta bitnar á liðinu og býður upp á óþarfa gagnrýni og pirring. En ég er svo sem handviss um að hann fer sínar eigin leiðir í þessu áfram og ég elska hann alveg fyrir það, líka þegar að hann pirrar mann til déskotans með sinni yndislegu þrjósku.

En Everton er búið og verður ekki rætt fyrr en á nýju ári og fyrirliggjandi spurning núna er hvernig Klopp nálgast leikinn gegn WBA. Mun hann æra óstöðuga og sprengja Twitter með því að stilla Fab Four öllum upp í byrjunarliðinu eða heldur últra-róteringin áfram á mögnuðum yfirsnúning? Í því samhengi má bæta við að Klopp er sá þjálfari í EPL sem hefur gert mestar breytingar á byrjunarliði milli leikja eða 59 breytingar meðan næsti þjálfari er heilum 20 breytingum fyrir neðan hann í listanum. Der Über Tinker Mann er því til alls líklegur þegar kemur að leikdegi.

Ég ætla að spá því að vörnin haldi sér að mestu leyti og þá helst að Alexander-Arnold komi inn fyrir Gomez í hægri bakvörðinn. Can og Wijnaldum koma líklega ferskir inn fyrir Hendo og Milner á miðjuna. Fram á við munu vel hvíldir Coutinho og Firmino koma inn en stóra spurningin verður með Salah og Mané. Ef Klopp ætlar að vera trúr sinni róteringu þá verða Egyptinn og Senegalinn á bekknum og það myndi þýða hugsanlegt annað start í röð fyrir Oxlade-Chamberlain eða jafnvel eitthvað óvænt eins og Grujic, Lallana eða Danny Ings. Mín tilraun til að lesa framheila Jürgen Klopp er þessi:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í taktíkinni 4-3-3

Spaks manns spádómur

Þessa dagana vinnur Liverpool með 3 mörkum plús eða missir leiki niður í jafntefli í lokin. Ég ætla að giska á að þetta verði betri niðurstaðan af þessum tveimur og giska á 3-0 heimasigur með mörk frá Coutinho, Firmino og Ings.

8 Comments

  1. Sælir félagar

    Mér er sama hverju Klopp stillir upp. Sigur og ekkert nema sigur er mín krafa. Það er það eina sem ég fer fram á og það eina sem ég mun sætta mig við. 1 – 0 eða 10 – 0 skiptir ekki máli. Sigur er það eina sem getur komð munnvikunum upp á við eftir síðasta leik.

    Það er nú þannig

    YNWA

  2. Ég hugsa að uppstillingin breytist ef rýnt er í vinstra heilahvel Klopps en ekki framheila

  3. Það verður afar áhugavert að sjá hvernig Klopp stillir upp. Persónulega þætti mér gaman ef Woodburn fengi séns, en hann hefur ekki einusinni verið á bekk að undanförnu svo það eru litlar líkur á því. Ég hef mestu efasemdirnar með Grujic, en það er auðvitað ekkert útilokað að hann verði þarna, fyrst hann kom inn af bekknum á móti Brighton. Uppstillingin gæti vel komið fólki á óvart.

  4. @Viðar Sigurjónsson #1

    Takk fyrir það meistari!

    @ #2 #3 #4

    Nýjustu upplýsingar frá Klopp um að hið umdeilda liðsval og innáskiptingar gegn Everton hafi verið vegna viðvarana læknateymis breytir öllum pælingum varðandi hans róteringar eða upplegg fyrir leikinn. Það þarf að vera meira undir viðkomandi leik en í þessu tilviki til þess að taka óþarfa sénsa með meiðsli ef sú hætta er fyrir hendi. Ég hefði bara óskað þess að Klopp hefði frætt okkur fótgönguliðana um þetta fyrr þannig að það hefði valdið okkur minna hugarangri og misgáfulegum vangaveltum 🙂

    En ég hallast að því líkt og Daníel að það verði a.m.k. ein óvænt breyta í uppstillingu kvöldsins. Klopp vill halda áhangendum og leikmönnum á tánum og mun væntanlega ekki valda okkur vonbrigðum núna frekar en fyrri daginn.

    YNWA
    Beardsley

  5. Liverpool make six changes for this evening’s Premier League clash with West Bromwich Albion at Anfield.

    Philippe Coutinho returns to the line-up along with Roberto Firmino and captains the Reds against the Baggies.

    Elsewhere, Emre Can and Georginio Wijnaldum start in midfield, while Trent Alexander-Arnold begins in defence and Loris Karius is in goal.

    Liverpool: Karius, Alexander-Arnold, Klavan, Lovren, Robertson, Wijnaldum, Can, Coutinho, Mane, Salah, Firmino.

    Subs: Mignolet, Milner, Gomez, Henderson, Oxlade-Chamberlain, Ings, Solanke.

One Ping

  1. Pingback:

Porto í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar

Podcast – Beint í mark