Upphitun: Úrslitaleikur við Spartak

Það er satt að segja með nokkrum ólíkindum að Liverpool sé ekki nú þegar búið að tryggja sig áfram í Meistaradeildinni. Liðinu er alveg fyrirmunnað að fara auðveldu leiðina í Evrópukeppnum og því bíður okkar nú hreinn úrslitaleikur við Spartak Moskva um það hvort liðið fer áfram í 16-liða úrslit.

Það vinnur auðvitað með Liverpool að leikurinn er á heimavelli og Anfield hefur sannarlega verið erfitt vígi undanfarið. Eins dugar Liverpool jafntefli í leiknum á meðan það er allt undir hjá Spartak.

Rússarnir hafa verið á mjög góðu róli eftir að liðin mættust í september, hafa ekki tapað leik heimafyrir en töpuðu fyrir Sevilla í Meistaradeildinni og gerðu jafntefli við Marribor í síðustu umferð sem voru góðar fréttir fyrir Liverpool.

Quincy Promes þeirra besti maður var hvíldur um helgina er Spartak vann Rússnesku útgáfuna af Arsenal á útivelli. Ze Luis var á bekknum og Fernando í banni. Þeir voru augljóslega með annað augað við leikinn gegn Liverpool.

Evrópuupphitun tókum við samt betur fyrir fyrri leikinn sem nálgast má hér. Þar fjalla ég m.a. aðeins um heimavöll Spartak en Ísland mun einmitt hefja leik á þeim velli á HM í sumar.

Lið Liverpool
Það hefur snögglega dáið allt tal um að Klopp hafi ekkert plan B og róteri ekki nóg. Enn sem komið er virðist Liverpool vera leysa þetta gríðarlega leikjaálag mjög vel og fáir nota hópinn meira en Klopp. Reyndar er mjög margt af því tilkomið vegna meiðsla og veikinda.

Það var bókstaflega enginn miðvörður heill fyrir síðasta leik nema Lovren sem er vægast sagt gríðarlegt áhyggjuefni fyrir Liverpool en Klopp leysti þetta mjög í síðasta leik með frekar frumlega útfærslu af varnarlínu. Lovren var nánast sweeper með Can og Wijnaldum sitthvorumegin við sig og gaf þannig bakvörðunum aðeins meira frelsi til að taka þátt í sóknarleiknum. Milner og Henderson voru í skítverkunum á miðjunni. Með þessu var hægt að hvíla Mané alveg sem og Ox-Chamberlain. Alls ekki besti leikur sem við höfum séð frá Liverpool, en tölurnar ljúga ekkert.

Það er því næsta vonlaust að veðja á liðið sem mætir Spartak, það fer auðvitað mikið eftir því hverjir eru heilir. Við vitum að Matip er meiddur og verður líklega frá í heilan mánuð. Hann gat ekki valið mikið verri tímasetningu blessaður. Clyne er svo auðvitað ennþá meiddur þannig að nú vantar 2/4 af byrjunarliðinu í vörnina. Ég hef oft talað fyrir því að Can gæti verið kostur í vörninni a.m.k. þar til félagið kaupir nýja miðverði og fannst hann vera fínn í síðasta leik. Liverpool er að spila þannig fótbolta að það kæmi ekkert á óvart að vörnin verði meira og minna miðjumenn sem færðir hafa verið einni línu aftar, a la Barca.

Karius er það eina sem er alveg öruggt. Moreno kemur líklega aftur inn fyrir Robertson, veit reyndar ekki hvað var að hrjá hann því hann var ekki eini sinni í hóp gegn Brighton. Sama á við um Gomez, vonandi verður hann orðinn leikfær fyrir þennan leik. Hvort sem hann verður miðvörður eða bakvörður. Klavan ætti að vera orðinn leikfær aftur.

Hendum þessu upp svona:

Karius

Gomez – Lovren – Klavan – Moreno

Mané – Can – Henderson – Coutinho

Salah – Firmino

Það er hægt að stilla þessu upp á alla mögulega vegu en líklega er kerfið einhverskonar samsuða af þessu (4-2-2-2 / 3-4-1-2 / 4-4-2).

Þetta er það stór leikur að ég tippa á að Klopp fari með eins sterkt lið í þennan leik og hann mögulega getur og haldi svo áfram að rótera hópnum gegn Everton. Liðið sem ég set hér er þó með fimm breytingum frá síðasta leik. Auðvitað gætu Sturridge, Ox og Lallana auðveldlega komið inn líka, Gomez komið í miðvörðinn o.s.frv. Fer eftir standinu á hópnum.

Það væri eiginlega hvað helst fyrirliðinn sem er tæpur á að komast í liðið m.v. hvernig ég stilli því upp. Hann hefur verið undir pari frá því við unnum Southampton (þar sem hann var góður). Mikið af þessum pirringi er samt eftir leiki sem Liverpool er að vinna flesta með þremur mörkum eða meira og hljómar á köflum eins og eitthvað til að röfla yfir. Það er ekkert mikið að röfla yfir þegar liðið vinnur flesta leiki með 3-4 mörkum og nær í 16 af 18 stigum mögulegum.

Spá:
Eins gott og gengið hefur verið undanfarið var hrunið í seinni hálfleik gegn Sevilla ákveðið kjaftshögg. Maður var farinn að leyfa sér að trúa að þetta lið væri vaxið upp úr svona hruni. Liverpool hefur klárlega stórbætt sig í vetur en er þó ennþá að henda allt of oft frá sér “unnum” leikjum. Firmino klikkaði á víti í fyrri leiknum gegn Sevilla í stöðunni 2-1 og Liverpool var auðvitað komið 3-0 yfir í seinni leiknum. Fyrir nákvæmlega ári skoraði Bournemouth þrjú mörk í seinni hálfleik eftir að Liverpool komst 1-3 yfir. Sevilla skoraði einnig þrjú í seinni gegn Liverpool í úrslitaleiknum. Vonandi er Liverpool að taka næsta skref og það er mjög gott í þessu mikla leikjaálagi að horfa á leiki þar sem Liverpool er svo gott sem búið að vinna þegar hálftími er eftir þannig að hægt er að spara orku og lykilmenn.

Spartak er jafnvel óútreiknanlegra en Liverpool. Þeir slátruðu Sevilla 5-1 í Moskvu sem ætti að koma í veg fyrir vanmat af hálfu Liverpool. Þeir unnu hinsvegar hvorugan leikinn gegn Maribor og töpuðu útileiknum í Sevilla.

Hef verið stressaður yfir þessum leik eftir að Sevilla leiknum var hent frá sér en ætla samt að spá áframhaldandi veislu hjá okkar mönnum og segja 4-1. Liverpool er miklu betra en þetta Spartak lið, þurfa að sýna það og nýta færin öfugt við það sem gert var í fyrri leik þessara liða. Hvernig hann fór jafntefli er erfitt að skilja.

21 Comments

 1. Hvernig er það, fari svo að Spartak vinni, gilda þá innbyrðis viðureignir liðana eða er það markatalan í riðlinum sem ræður?

 2. Sælir félagar

  Þessi leikur einfaldlega vinnst á Anfield. Það er ekki flókið. Hann fer 3 – 0 eða 4 – 1 og svo nenni ég ekki að ræða svona einfaldan hlut meira.

  Það er nú þannig

  YNWA

 3. Ég verð á leiknum, tökum þetta 3-0 hef fulla trú á þessu
  YNWA

 4. Við þurfum jafntefli og því held ég að þetta fari, 2-2.
  Við verðum 2-0 yfir eftir fyrri hálfleik, en síðan slaknar full mikið á okkar mönnum og þeir ná að jafna þegar tvær mínútur eru eftir, en Karius nær með stórkostlegri markvörslu að koma í veg fyrir sigur þegar fjórar mínútur eru liðnar af uppbótatíma…

 5. Leikurinn verður vonandi ekki eins og Höskuldur Búi lýsir því þetta er eins og martröð sem þó endar vel… ég held bara að taugarnar, hjartað… já svei mér þá allt hið líkamlega og andlega myndi bara ekki þola svona handrit!

  Ég á þó ekki von á auðveldum stórsigri eins og sumir halda… höfum við ekki verið að spóla á jafnsléttu og fjúka út af í logni í þessari keppni? Við förum samt áfram…

 6. Ég væri til í að sjá liðið svona:

  Karius
  TTA – Lovren – Klavan – Moreno
  Milner – Hendo – Can
  Oxlade – Sturridge – Mané

  Gott að eiga leynivopn á bekknum ef þess þarf, annars gott að hvíla einhverja sem spila flesta leiki í deildinni.

  Spái 2-0 sigri.

 7. Höskuldur Búi, ég vona að Karius komi frekar í veg fyrir tap heldur en að hann komi í veg fyrir sigur, þótt okkur finnist vissulega markmennirnir okkar koma allt of oft í veg fyrir sigur 😉

  En að öllu gamni slepptu þá reikna ég með sigri okkar manna. Við hljótum að skora minnst 3 mörk, og eins og bent hefur verið á þá ættum við að vera löngu búnir að tryggja okkur sigur í riðlinum, hefðum átt að vinna alla leikina. En auðvitað þrífast okkar menn á háu spennistigi… annað en við stuðningsmennirnir.

 8. ——————Karius——————
  ——Gomez—-Can—-Lovren——–
  Arnold—–Gini——Hendo—-Moreno
  —-Oxlade—–Sturridge—-Mane—–

  Heimavöllur og ég væri til í að sjá þetta leikkerfi og þessa leikmenn.

 9. Hjalti – sá þegar ég var búinn að ýta á send að þetta gæti misskilist 😉

 10. Sælir.
  Við erum ekki að fara að hvíla marga þó svo það sé derby leikur um helgina. Það er allt undir í þessum leik, meðal annars hvort einhver komi inn í janúarglugganum að mínu mati.

  Karius
  Gomez – Lovren – Klavan – Moreno
  Hendo – Gini
  Coutinho
  Salah – Firmino – Mané

 11. Ég held samt að það sé alltaf líklegra að Karius komi í veg fyrir sigur.

 12. Hvernig er það, er búið að velja Salha player of the month fyrir nóv. Það kemur varla nokkur annar til greina. Og svo er spurning hvort að Klopp komi ekki nálægt því að vinna manager of the month.

 13. hvernig er þetta eiginlega?gildir ekki markatala ef lið eru jöfn í riðlunum??

 14. Ég er að horfa á Bayern – PSG og það er ansi hreint fjörugur kantmaður hjá þeim þýsku sem heitir Kingsley Coman. 21s árs Frakki sem virkar mjög áhugaverður. Kannski sækir Klopp eitthvað í skóinn handa okkur?

 15. Það væri gott andlega fyrir Liverpool að vinna. Áfram Liverpool.

 16. Henderson nr1….. afhverju ætti hann að vilja fara frá Bayern til Liverpool…. og hvern myndirðu vilja missa úr liðinu fyrir hann?

Brighton – Liverpool 1-5

Podcast – Svanavatnið