Chelsea á morgun

Það gæti vel hafa verið svartur föstudagur einhversstaðar í dag, en það verður klárlega rauður laugardagur á morgun á Anfield þegar okkar menn mæta Chelsea síðdegis.

Það er hörð samkeppni um það að komast á topp 4, sem stendur skilja fjögur stig að liðin í 2. – 7. sæti. Hinir bláklæddu eru semsagt í 3ja sæti og okkar menn í því fimmta. Það eru auðvitað bara “the usual suspects” í þessum sætum: ManUtd, Chelsea, Tottenham, Liverpool, Arsenal og… Burnley. Um efsta sætið þarf svo lítið að fjölyrða, og í augnablikinu virðist eina liðið sem getur komið í veg fyrir að City skori vera Úlfarnir, og eina liðið sem hefur ekki tapað fyrir þeim í deildinni eru Everton. En nóg um þá ljósbláu, það er leikurinn á morgun sem er aðalatriðið.

Andstæðingarnir

Byrjum aðeins á að skoða gengi Chelsea manna. Þetta eru jú Englandsmeistararnir, og sem slíkir hefur þeim e.t.v. ekki verið að ganga jafnvel í ár eins og í fyrra, enda hafa þeir núna Meistaradeildina að hugsa um sem þeir höfðu ekki í fyrra. Gleymum samt ekki að í fyrra unnu þeir ekki leik í september, og þá töldu allir að tiltekið lið úr Manchester myndi rúlla yfir deildina… Þeir hafa verið að ná ágætum úrslitum upp á síðkastið, en töpuðu þó fyrir Crystal Palace fyrir rúmum mánuði síðan, og töpuðu svo fyrir Roma 0-3 úti á Ítalíu (hvers lags lið fær á sig þrjú mörk á útivelli í Meistaradeildinni? Skil ekki svona). Það er því klárlega hægt að ná úrslitum á móti þessu liði.

Conte virðist vera jafn öruggur í starfi eins og allir aðrir stjórar Chelsea í tíð Roman Abramovic, þ.e. eftir að hafa verið í starfi í þrjár vikur er farið að tala um hve valtur hann sé í sessi. Hann er jú einn af þeim sem er orðaður við að verða næsti stjóri Ítalíu, en það er svosem væntanlega ekki að fara að hreyfast neitt á næstu vikum.

Lið Chelsea er í 8. sæti á meiðslalistanum, með 4 menn skráða. Þar munar þá mestu um vin okkar Viktor Moses sem gæti þó náð leiknum á morgun, og verður á bekknum skv. Conte. Svo er Batshuayi frá í einhvern tíma.

Liverpool

Þá að okkar mönnum. Af hópnum er það að frétta að Lallana byrjaði að æfa aftur með liðinu fyrir rúmri viku síðan, en hefur ekki komist í hóp í síðustu tveim leikjum, enda er samkeppnin sem betur fer mikil. Emre Can ku víst hafa orðið fyrir einhverju hnjaski, e.t.v. verður honum skipt út og Lallana settur á bekkinn í staðinn. Matip sást á æfingasvæðinu eftir að hafa verið frá síðustu tvo leiki, svo það er óvíst að Clean-sheet Klavan fái að halda áfram að safna hreinum lökum. Þrátt fyrir að okkar menn séu í 2. sætinu á Physioroom listanum með 6 skráða meiðslapésa, þá eru það aðeins þessir þrír af reglulegum byrjunarliðsmönnum sem í raun skipta máli. Markverðir okkar númer 3 og 4 (5?), Ward og Bogdan eru einnig á þessu lista, og stöðuna á Clyne þekkja allir. Þetta hefur því sjálfsagt oft verið verra.

Okkar menn koma beint úr leiknum við Sevilla og eru vonandi æstir í að sýna að þetta jafntefli hafi bara verið tilfallandi, enda liðið komið á svolítið “run” eftir Tottenham leikinn, og skorað a.m.k. 3 mörk í leik síðan. Chelsea fengu einum degi minna til að jafna sig eftir sinn Meistaradeildarleik, og alveg spurning hvaða áhrif það hafi. Mögulega verða þeir þreyttari, en mögulega munu þeir bíta enn frekar í skjaldarrendur í ljósi þessa óréttlætis.

Liðið

Ég tel persónulega engar líkur á því að Klopp fari að hræra eitthvað mikið upp í hópnum, ekki frekar en hann hefur gert frá því að hann kom. Líklegast er að Mignolet komi aftur í markið, TAA fari í bakvörðinn í stað Gomez, og að Matip komi í miðvörðinn í staðinn fyrir Klavan. Ég efast um að hann gerir mikið fleiri breytingar. Frammistaða Moreno varð mönnum hugleikin, og sumir hafa spurt sig hvenær Robertson fái sénsinn ef ekki eftir að hans helsti keppinautur um stöðuna gefi aukaspyrnu og vítaspyrnu og svona allt að því kosti okkur tvö mörk. Á blaðamannafundinum í dag talaði Klopp hins vegar eins og að hann væri ekki að fara að henda Moreno á bekkinn, enda hefur hann jú átt ágæta leiki fram að þessu. Maður spyr sig líka: ef Moreno væri sóknarmaður, væri umfjöllunin um hann jafn óvægin? Sóknarmaður sem klúðrar tveim dauðafærum í leik, er talað um að hann sé búinn að vera? Fólk getur rætt það fram og til baka hvort hann sé nógu góður fyrir Liverpool, en ég held að við munum seint eignast varnarlínu þar sem enginn gerir nein mistök.

Frammistaða Henderson hefur sömuleiðis verið til umræðu, persónulega held ég að sú frammistaða breyti engu þegar í leikinn á morgun er komið, og að hann verði þar á sínum stað á miðjunni.

Allavega, hér kemur mín spá:

Mignolet

TAA – Matip – Lovren – Moreno

Coutinho – Henderson – Winjaldum

Salah – Firmino – Mané

Bekkur: Karius, Gomez, Klavan, Milner, Oxlade-Chamberlain, Lallana, Sturridge

Eins og áður er þetta bara spá, Klopp hefur ýmsa kosti í stöðunni. Ég er að spá því að Lallana komi inn og þá á kostnað Can og/eða Solanke. Kannski verður það metið sem svo að Lallana eigi að bíða aðeins lengur og taka lengri tíma í að koma sér í form, annað eins hefur nú gerst. Hann gæti líka hent Winjaldum út og sett Milner inn á, eða gefið Mané smá pásu og hent Oxlade-Chamberlain í byrjunarliðið, nú eða gefið Sturridge sénsinn á kostnað Firmino. Allar þessar breytingar kæmu mér þó á óvart, í ljósi þess hve íhaldssamur Klopp hefur verið í liðsvali.

Ef maður á að vera svakalega bjartsýnn þá vinnum við þetta 3-0 og komumst þar með upp fyrir Chelsea í töflunni. Svo væri nú ekki verra að WBA menn haldi upp á það að Tony Pulis sé farinn með því að vinna Tottenham, og þá endum við þessa umferð í 3ja sæti. Getum við ekki öll verið sammála um það?

YNWA!

10 Comments

 1. Já, ég væri mjög sáttur við 3-0 en sætti mig vel við 1-0 við þurfum á sigri að halda í þessum leik sama hver markatalan verður.

 2. Hurfu spjallarar inn í Matrix með kop síðunni um daginn 😀
  Vonandi rata þeir til baka.

  Þetta er alvöruleikur og á hárréttum tíma.
  Þá á ég ekki við um að hann sé leikinn seinni part laugardags en ágætis tækifæri að taka kaldan á kantinn.

  Vil sjá statement frá liðinu. Býst þó við hörðum og verulega erfiðum leik þar sem smáatriðin munu ráða úrslitum. Vonandi lenda þau okkar megin.

  Ekkert verra ef gestirnir þjáist af flughræðslu og þreytu. Í lagi að njóta þess þegar FA klúðrar málum okkur í hag svona einu sinni.

  Spennum beltin.
  YNWA

 3. Leiðindajafntefli yfirvofandi, því miður; núll-núll eða eitt-eitt.

 4. Nr. 2

  Vonandi ekki, upphitun kom óvenju seint inn í gærkvöldi.

  Eitthvað slúðrað um að Klopp noti hópinn í dag, Ox, Sturridge og Milner þá helst nefndir með Matip í stað t.d. Frimino og Mané.

  Ljóst að hann verður að nota hópinn eitthvað og hefur möguleika á því með þessa leikmenn.

 5. Like á þessa upphitun ??
  Er óþægilega bjartsýnn á leikinn, vonandi koma okkar menn vel girtir til leiks.

 6. Sælir félagar

  Ég hefi verið bjartsýnn á þennan leik en hefi áhyggjur núna. það er nefnilega þannig að þegar allir búast við að liðið rúlli leik sínum upp þá taka okkar menn skituna og steinliggja. Þetta átti við um M.City leikinn og T’ham leikinn líka. Þar bjuggust menn og einstaka kona við því að okkar menn mundu endurtaka leiki undanfarinn leiktíða (?) og hakka andstæðingana í sig. Það fór sem fór.

  Ég er því mjög áhyggjufullur og skíthræddur núna og er farinn að halda að þetta verði mjög erfitt hjá okkur. Chelsea er gott lið, skipulagt og getur sótt hratt og verið beinskeitt. Grasmaðkurinn (Hasard) er líka magnaður með að missa jafnvægið rétt fyrir utan teiginn og næla þannig í stórhættulegar aukaspyrnur. Magnað hvað hann verður dettinn á því svæði þegar annars er engin leið að ná af honum bolta eða fella hann aftar á vellinum.

  Sem sagt áhyggjur mína eru miklar að vöxtum og valda mér stórum innantökum og ógleði mikilli. Samt vil ég ekki trúa öðru en við vinnum þennan leik og spái því 3 – 2 í hunderfiðum og gífurlega taugatrekkjandi leik.

  Það er nú þannig

  YNWA

 7. Ef menn halda það að við séum að fara rúlla upp Chelsea núna þá þurfa þeir eitthvað að endurskoða það.
  Við erum ekki búnir að vera góðir á móti top6 og erum reyndar búnir að vera skelfilegir þannig þessi leikur er meira ahyggjuefni en annað.

  Chelsea er of gott lið og Conte er of góður þjálfari til að vanmeta Liverpool hann mun horfa á það sem City og Tottenham gerðu og hann hefur gæðin til að spila svipað og þeir gerðu gegn okkur þetta verður ógeðslega erfitt held ég.
  Er ekki hrifin af því ef Henderson byrjar í dag því mér finnst hann vera dragbýtur eins og formið á honum er á honum akkurat núna en það er bara mitt persónulega mat.

  Ætla sjálfsögðu að spá okkur sigri samt segi þetta fari 2-1 í erfiðum leik.

 8. Henderson var arfaslakur í seinni hálfleiknum gegn Sevilla og spurning um að hvíla hann í þessum leik. Ég held að leikurinn verði erfiður,við klárum samt og leikar enda 3-1.

  Salah og Firmino með mörkin og gæinn sem borðaði bökuna á bekknum með ónefndu liði gegn Arsenal í fyrra sést bregða fyrir upp í stúku með pizzu í annari og hammara í hinni – mín spá allavega.

 9. Er ekki týpískt að rúlla þessum leik upp og núlla hann svo út gegn Stoke?

Podcast – Sætt og sóðalegt í Sevilla

Chelsea. Byrjunarliðs- og leikþráður