West Ham 1 – 4 Liverpool

Mörkin

0-1 Salah (21. mínúta)
0-2 Matip (24. mínúta)
1-2 Lanzini (55. mínúta)
1-3 Oxlade-Chamberlain (56. mínúta)
1-4 Salah (75. mínúta)

Leikurinn

Liverpool mættu á London Stadium og unnu sannfærandi 1-4 sigur. Ég verð að byrja á því að segja að ég vorkenni West Ham örlítið. Bilic með fallöxina hangandi yfir sér, liðið verður að leika vel til að hann haldi starfinu, eru með megnið af varnarlínunni á sjúkralistanum, og svo spila þeir í raun ágætlega fyrstu mínúturnar en eru að mörgu leyti óheppnir. Dómgæslan var þeim ekki alltaf í vil, t.d. þegar Matip felldi Chicarito rétt fyrir utan teig en ekkert var dæmt. Eins fengu þeir færi sem fór í stöngina og út.

Nú og svo til að bæta gráu ofan á svart þá voru þeir að mæta Liverpool liði sem virðist vera að finna fjölina sína, og refsaði fyrir einföld mistök eftir hornspyrnu West Ham á 21. mínútu. Í raun minnti þetta mark um margt á markið sem Salah skoraði á móti Arsenal fyrr í haust. Þarna kom í ljós að þrátt fyrir að vera nýstiginn upp úr meiðslum hefur Mané ekki misst neinn hraða. Þeir tveir kláruðu þetta mjög vel. Og það voru ekki liðnar 3 mínútur þegar Matip hafði bætt við öðru marki, aftur eftir fast leikatriði en núna eftir horn okkar manna sem Salah tók.

Í seinni hálfleik fengu Hamrarnir smá vonarglætu, þegar Lanzini skoraði eftir klaufalegan varnarleik hjá Gomez. En Adam var ekki lengi í paradís því okkar menn brunuðu í sókn, Firmino fann Oxlade-Chamberlain sem átti gott skot, Hart varði en boltinn barst aftur til AOC sem gerði engin mistök. Þetta var í raun gríðarlega mikilvægt mark, því það drap niður alla von hjá andstæðingunum.

Þegar 75 mínútur voru liðnar var maður farinn að óskapast út í Klopp fyrir að vera ekki löngu búinn að taka Mané út af, manninn sem átti bara að geta spilað í 25 mínútur. En sem betur fer beið Klopp með það, því það síðasta sem Mané gerði var að eiga gott hlaup upp völlinn, lét t.d. ekki stoppa sig að vera felldur heldur stóð upp og hélt áfram, og gaf svo á Salah sem gerði engin mistök og tryggði sigurinn endanlega.

Síðustu mínúturnar voru svo bara einstefna, West Ham voru búnir að gefast upp, en okkar menn bættu ekki við fleiri mörkum þrátt fyrir fjölda tækifæra.

Bestu menn liðsins

Hér er erfitt að taka einhvern út. Liðið lék einfaldlega mjög vel sem lið, pressaði vel og þetta var klárlega sigur liðsheildarinnar. Salah á nú líklega helst skilið að fá nafnbótina maður leiksins, enda skoraði hann tvö mörk. Mané gæti líka alveg fengið titilinn, enda átti hann báðar stoðsendingarnar á Salah. Oxlade-Chamberlain kemur líka vel til greina, markið sem hann skoraði var e.t.v. mikilvægasta markið í leiknum, enda vitum við hvernig stressið nær stundum tökum á okkar mönnum þegar andstæðingarnir ná að minnka muninn. Hann virtist líka njóta sín vel í sínu hlutverki á miðjunni, ógnaði vel fram á við, og það er vissulega jákvætt að fá ógn frá miðjunni. Kannski er þarna að koma í ljós hvaða leikmann Klopp var raunverulega að kaupa, en ég er engu að síður á því að hann eigi að fá allt tímabilið til að sanna sig.

Þá var Milner kraftmikill þegar hann kom inn á, Can átti góða spretti, og vörnin var að standa sig vel allan leikinn. Winjaldum var kannski ekki sá mest áberandi, en er þessi vinnuhestur sem alltaf skilar sínu.

Vondur dagur

Erfitt að taka einhvern fyrir hér. Jú, Gomez hefði líklega átt að gera betur í markinu. Mignolet fór svo í eina skógarferð undir lok fyrri hálfleiks sem hefði vel getað endað með ósköpum. Annars reyndi ekki svo mjög á hann, og reyndar var hann mjög duglegur að fara út úr teignum. Þá fannst mér að Firmino hefði klárlega átt að setja eitt mark þegar hann komst einn í gegn. En svo má ekki heldur gleyma því að hann átti líka t.d. stoðsendinguna á Ox í þriðja markinu, og var sípressandi allan leikinn. Semsagt, ekki fullkominn leikur hjá þessum, en alls ekki slæmur hjá neinum.

Umræðan eftir leik

Eigum við eitthvað að ræða kaupin á Salah? Hann hefur nú skorað 7 mörk í deildinni, sem er jafn mikið og Agüero, Lukaku og Sterling hafa skorað, reyndar er það bara Harry Kane sem hefur skorað meira, eða 8 mörk. Samtals er Salah búinn að skora 15 mörk á tímabilinu í öllum keppnum. Að vera með Salah, Mané og Firmino er auðvitað bara pjúra lúxus, og þó einn þeirra finni ekki fjölina sína þá gerir það ekki svo mikið til á meðan hinir gera það. Það er akkúrat það sem við erum að upplifa núna þegar Firmino er ekki að skora mjög mikið. Liðið er núna búið að vinna 3 síðustu leiki með 3 mörkum, þrátt fyrir að hafa spilað heldur meira varnarsinnað, a.m.k. hvað bakverðina varðar. Það má að vissu leyti færa rök fyrir því að Moreno fái að fara fram á meðan Gomez er meira til baka, sem þýðir að kannski er liðið að spila oft með 3 í öftustu línu, samt ekki eins og Chelsea voru að gera í fyrra.

Liðið er núna í 4. – 7. sæti, jafnt Chelsea, Arsenal og Burnley. Þau tvö fyrsttöldu eiga reyndar leik á morgun, en það vill til að þetta eru stórleikir: Chelsea mætir United á Stamford Bridge, og Arsenal heimsækir City á Etihad. Það munu því a.m.k. tvö af þessum liðum tapa stigum á morgun.

Nú tekur auðvitað við landsleikjahlé, megum við plís biðja um að enginn meiðist í hléinu? Næsti leikur er svo ekki fyrr en 18. nóvember, þegar Southampton mæta á Anfield. Það væri rosalega gott að vera kominn með Lallana, Coutinho og Henderson í hópinn aftur þá, en liðið sýndi engu að síður í kvöld að þó þessara leikmanna njóti ekki við, þá er liðið vel fært um að vinna leiki án þeirra. Það er þó klárt mál að við viljum frekar hafa þá með frekar en ekki. Southampton voru óþægur ljár í þúfu Klopp og félaga á síðasta tímabili, og það verður gaman að sjá hvernig uppleggið verður á móti van Dijk og félögum eftir hálfan mánuð.

29 Comments

 1. Við erum með 17 mörk á okkur og 9 af þeim eru gegn Tottenham og Man City. Það segir mér að í flestum leikjum er vörnin en þannig þótti mér hún einmitt vera í þessum leik.

  Markið kom reyndar eftir varnarmistök en að þessu sinni er ekki hægt að kenna Klavan um það, því Gómez á þann umdeilda heiður.

  Mér fanst þessi leikur ótrúlega fyrirhafnalítill og kannski talandi dæmi um afhverju lið liggja svona oft aftarlega gegn okkur. Það þarf svo rosalega lítið til þess að leikmenn eins og Mane eða Salah nýta sér það eins og sannaðist ágætlega í þessum leik.

  Annars finnst mér þessi stóri sigur skrifast mest á þá lágdeyðu sem er yfir West Ham. Mér fanst ansi öll mörkin tengjast mistökum á einn eða annan hátt. Fyrsta eftir skyndisókn, annað eftir hornspyrnu, þriðja vegna þess að West Ham var ekki búið að stilla sér nægjanlega upp og í fjórða markinu fékk Mane allan tímann í heiminum til að senda boltan til Salah sem skoraði með glæsibrag.

  Annars flottur sigur hjá okkar mönnum og svo sannarlega verðskuldaður.

 2. Sælir,
  Coutinho er buinn að spila 8 leiki á tímabilinu Liverpool er með recordið 1-5-2 í þeim leikjum
  án Coutinho erum við bunir að vinna 1 i meistaradeild 1 jafntefli og vinna 5 i deildinni og tapa Er Coutinho jafn mikilvægur og menn telja hann vera eða er mikilvægi hans ofmetið i liðinu.

 3. 3 sigur Liverpool í röð staðreynd og Salah er kominn upp að Harry Kane í mörkum og já Salah er að byrja betur hjá Liverpool heldur en Suarez gerði maður getur ekki annað en brosað og sagt takk við Chelsea og Roma enn og aftur enda meðað við gæðin þá fengum við þennan kappa ókeypis hann er bara fara verða betri.

 4. Flott afmælisgjöf sem maður fær frá þeim rauðklæddu! Mjög solid frammistaða. Þessir vængmenn okkar eru gjörsamlega geggjaðir. Það hlýtur að vera hægt að smíða þvílíka maskínu í kringum þá – get ímyndað mér að það sé aðalfókusinn hjá Klopp næstu misserin.

 5. Sælir félagar

  Takk Daníel fyrir fína skýrslu og það er svo sem ekki miklu við hana að bæta. Þessi útisigur á varnarbrotnu WH liði var kærkominn og hefði reyndar getað verið stærri enn þetta var svo sem nóg. Ég er sáttur og hlakka til að sjá liðið eftir landsleikjahléið þegar allir verða mættir til leiks. Vonandi mæta allir heilir heim á Anfield þegar því lýkur.

  Það er nú þannig

  YNWA

 6. Öruggur sigur, þetta var aldrei spurning – eins og alltaf er hægt að segja EFTIR sigurleik 🙂

  Ég spáði því nú að Mignolet myndi verða maður leiksins, það gekk ekki alveg eftir þótt hann hafi átt ágætis leik. Lítið að gera hjá honum og gat sennilega lítið gert í markinu.

  Mané og Salah. Ég á bara ekki til orð. Mané ekki í leikformi er samt bara hrikalega hættulegur og Salah í þrusuformi. Við erum sennilega að horfa upp á bestu kaupin síðan Luis nokkur Suarez var keyptur, Salah hefur dottið áreynslulítið inn í leiksskipulagið hjá Klopp og það er vel.

  Firmino er sennilega lykillinn að því að gera þessa tvo menn svona hættulega. Hann er ekki hefðbundin 9a, hann er hrikalega duglegur við að teygja á og tosa varnarmenn úr stöðu og búa til pláss fyrir kantmennina, og raunar Coutinho/Can/Wijnaldum líka. Hann skorar kannski ekki mikið en hann er að mínu mati mikilvægasta tannhjólið í þessari taktík.

  Ég velti því fyrir mér hvernig hægt væri að bæta sóknina – ef Klopp hefði áhuga á því. Hversu ótrúlegt væri það að fá mann eins og Aubameyjang til að leiða sóknina? Þá hefði LFC sennilega hröðustu framlínu heims í Auba, Mané og Salah, og það yrði ávísun á enn hættulegri skyndisóknir okkar manna.

  En þá þyrfti að finna annað pláss fyrir Firmino í liðinu og ég hreinlega efast um að hann væri jafn mikilvægur í öðru hlutverki en því sem hann er í í dag.

  Fögnum þessu sigri, framundan er landsleikjahlé og svo á LFC nokkuð auðvelda leiki framundan. Okkar menn í dauðafæri á að halda þessu “rönni” áfram!

  Áfram LFC 🙂
  Homer

 7. Frábær sigur í dag og við erum að skora 3-4 mörk í leik. Vonandi er þetta okkar ,,raunform”. Því ef svo er þá eru fá lið sem eiga séns á móti okkur. Mané og Salah, hvað er hægt að segja? Worldclass-leikmenn! Núna er bara að krossa fingur og tær og vona að fjandans landsleikirnir eyðileggji ekki meir fyrir okkur. Það er komið nóg af meiðslum í bili!
  Hefði viljað fá amk gult á carroll fyrir að taka manjú-olnbogann á þetta. Allt of vægt tekið á þessum fautum.
  Mun njóta þess að sjá chelski og man hjú annars vegar og city-arsenal á morgun.

  YNWA!

 8. #6 Kæri Skoppi. Held að svarið við þínum pælingum hafi Couthino svarað sjálfur í Liverpool treyjunni. Hann er leikmaður sem við þurfum á að halda í öllum erfiðum leikjum. Daginn sem Couthino kemst ekki í liðið verður þig að dreyma eða það gæti hafa komið vírus í Playstation tölvuna þína. YNWA. ?

 9. Frábær sigur og mjög gaman að horfa á liðið spila eins og ein heild, engar stórstjörnur – bara frábrt lið!! Menn eru að tala um að við séum að mæta vængbrotnu liði West Ham en á móti segi ég, þetta eru leikirnir sem hingað til hafa verið okkur hvað erfiðastir. “Litlu” liðin hafa náð upp stemmingu og við ekki náð að sýna okkar bestu leiki. 1-4 sigur, frábær úrslit!

  Eitt langar mig þó að benda á, í fyrsta markinu er talað um hvað Mané og Salah voru frábærir, tók einhver eftir sprettinum sem Ox tekur? (https://imgtc.com/w/8BtKPiG Takk Daníel) Hann er aftarlega í vörninni og klárar sóknina fyrir framan Mané!! Það er enginn smá hraði í þessum dreng. Ég held að við séum þarna komin með mjög öflugan sóknar/miðjumann sem sinnir líka varnarvinnunni! Getur verið að hann sé eitt af þeim pússlum sem Klopp sér í því að binda betur saman vörn og miðju?

  Frábær úrslit og góð helgi – nú er bara að sjá hvað liðin fyrir ofan okkur gera í dag!

  YNWA

 10. Nú virðast vera að koma einhverjir flottir tímar í hönd hjá okkar mönnum, og ég segji eins og hér að ofan, vonandi koma allir heilir úr þessu hléi. Bara flottir síðustu leikir.
  YNWA

 11. Mér fannst smá óskipulag á okkar mönnum til að byrja með en WH gengu ekki á lagið enda týndir og tröllum gefnir.
  Það eru endalausar breytingar á liðinu okkar vegna meiðsla en menn eru að sjóast í því og farnir að lesa hvorn annan betur og betur. Takturinn að aukast allan leikinn.
  Uxinn er greinilega að vinna vinnuna sína og læra helling á æfingasvæðinu. Mun spila miklu meira direct en hann gerði nokkurn tímann hjá Wenger og svei mér þá, það mun líklega henta honum.
  Væri til í jafntefli á línuna í dag en að öðrum kosti mætti City eitt liða vinna því þeim verður illa náð því miður.

  Landsleikjahlé þegar tannhjólin eru að smyrjast. Vonandi frýs ekki í þeirri olíu.
  Þetta er allt á uppleið.
  YNWA

 12. Mín 2 yen eftir þennan leik.

  Mignolet orðinn fyrirliði?…ef þessi snillingur er ekki næsti Lucas þá veit ég ekki hvað. Búinn að vera á útleið síðan hann kom en sér núna um að leiða hópinn. Respect.

  Firmino er guð í fótbolta.

  Gaman að sjá sömu vörnina tvo leiki í röð, það gerist ekki oft.

  Er ekki einhver sjéns í næst podcasti að hringja í Carragher eða einhvern og fá the scoop um E.Can?

  Gott að fá Mane tilbaka. Að sjá hann og Salah er eins og að hraðspóla á gamla VHS vidéótækinu.

  Klopp var mjög glaður í leikslok…það var ég líka.

 13. „…eins og að hraðspóla á gamla vidéótækinu”!

  Ég skellihló. Hver man ekki VHS?

 14. Frábær úrslit og mjög góður leikur.

  Geggjað að fá Mane aftur og mjög áhugaverð uppstilling á liðinu. Er ekki sannfærður um að Henderson muni labba aftur inn í byrjunarliðið. Eigum líka Kút inni. Svo styttist í Lallana.

  Augljós breyting á varnarleik liðsins. Bakverðirnir okkar fá ekki að koma jafn framarlega og áður. Engin tilviljun. Munum sjá þetta áfram á útileikjum og einnig heimaleikjum á móti sterkari liðunum.

  Salah klárlega maður leiksins.

  Spennandi tímar framundan en því miður verðum við ekki í titilbaráttu þetta tímabilið. Þetta er samt galopið í baráttunni um 3. – 4. sætið.

 15. 2-4 sætið er galopið og þá sérstaklega eftir leik Chelsea – Utd .
  Það þyrfti algjört hrun á City til að menn geti svosem hugsað um það að nálgast þá sé það ekki gerast.

 16. Eins mikið og ég elska að sjá manhjút tapa að þá hefði sennilega verið betra ef þeir hefðu jafnað þarna í lokin á móti chelskí.

  Það er sorglegt hvað deildin er orðin óspennandi eftir aðeins 11 umferðir. 8 stiga forskot city á toppnum og við aðeins 12 stigum frá þeim. Við eigum helling inni og meiðsalistinn fer minnkandi, ,,bara” sex meiddir núna og þar af eru fjórir byrjunarliðsmenn. Ef við höldum okkar striki áfram og bætum í þá munum við ná inn í toppfjögur-klúbinn. Helst fyrir áramótin!

  Ég skil wenger vel að hann sé ósáttur við dómara leiksins í dag á móti citý. Fannst þetta lykta eins og gamalt rassagat.

  Djö… hlakka ég til að fá Lalla, Kútinn og Hendo alla til baka. Hvað er í gangi annars með Clyne?

 17. Sælir félagar

  Hvað varðar mann leiksins þá er ég sammála þeim sem nefna FIrmino. Hann er líklega mikilvægasti maður liðsins þegar hann er að spila eins og hann gerði í þessum leik. Þannig hefur hann spilað í flestum leikjum nema ef frá eru taldir leikirnir við M. City og T’ham.

  Það er nú þannig

  YNWA

 18. Þetta er ekkert flókið, þegar við erum með Mane, Firmino og Salah saman í stuði þá er allt hægt!

Liðið gegn West Ham

Podcast – Clean sheet Klavan