Liverpool 3 – 0 Maribor

Liverpool mætti Maribor í annað skiptið á hálfum mánuði og eftir 7 marka slátrun í Slóveníu voru gestirnir mættir á Anfield til að bjarga stoltinu.

Mörkin

1-0 Mohamed Salah 49.mín
2-0 Emre Can 64.mín
3-0 Daniel Sturridge 90.mín

Leikurinn

Upplegg gestanna bar þess brennimerki að þeir ætluðu að forðast eldinn í lengstu lög og öryggið var sett á oddinn frá upphafi. Lágu aftarlega með lítið sem ekkert andrými á milli varnar- og miðjulínu. Lái þeim hver sem vill og ekkert óeðlilegt við slíka nálgun á sögufrægum stað þar sem mörg frægari lið hafa fengið flengingar.

Og taktíkin gekk upp til að byrja með. Liverpool voru margfalt meira með boltann en lítið var um opnanir og því síður markfæri. Eftir akadamískt korter var fátt annað að frétta af norðurensku vígstöðvunum en að Wijnaldum hafði snúið sinn ágæta ökkla og Henderson fyrirliði kom inná í staðinn. Hálffærunum fjölgaði og eftir hálftíma leik átti Firmino skot sem fór af varnarmanni og stefndi í áttina að Samúel. Hinn 39 ára Jasmin Handanovic (frændi Samir hjá Inter) var sem köttur í markinu og varði boltann með loppunum í vinkiltréverkið. Fátt markvert gerðist utan þetta og staðan 0-0 í hálfleik.

Það var sem endurtekið efni væri í gangi frá helginni áður gegn Huddersfield því að Rauðliðar mættu einbeittir til leiks eftir hálfleiksræðu á hochdeutsch. Blessunarlega tókst okkar mönnum að brjóta ísinn snarlega og á 49. mínútu sendi Alexander-Arnold eitraða sendingu sem Mo Salah sneiddi með hælnum í netið. Skemmtilegt mark og vel að því staðið.

Anfield lifnaði við og tempóið í sóknarfærslum jókst að sama skapi. Firmino framkvæmdi brasilískt galdraverk með hælklobba á Rajcevic í vítateignum sem verðlaunaði listamanninn með því að brjóta á honum. Víti! Upp steig hin þindarlausa og þaulvana vítaskytta James Milner sem flestir hefðu veðjað bjórsjóðnum á að myndi klára slík skylduverk en Jasmin frændi var á öðru máli og varði glæsilega í tréverkið öðru sinni í leiknum. Örstuttu síðar varði hinn frækni frændi frá Firmino í góðu færi og kom sér kirfilega á lista markmanna sem eiga leik lífs síns á móti Liverpool.

Til þess að hrella okkar Púlara í tilefni hrekkjavökunnar þá skelltu Maribor sér beint í kjölfarið í hættulega sókn og voru nærri því að skora í sínu fyrsta alvöru færi í leiknum. Á 64. mínútu kláruðum við þó leikinn að mestu þegar að Can og Milner áttu frábært samspil við teiginn og hinn hárfagri Þjóðverji smellti glæsilegri innanfótar snuddu niðri við stöng. Eftir þetta datt leikurinn nokkuð niður með nokkrum innáskiptingum en þó áttu Maribor 1-2 hálffæri og fyrnafast langskot sem Karius varði vel. Á 90. mínútu skellti varamaðurinn Sturridge góðri slettu af glassúr á snúðinn með því að skora í teignum eftir fyrirgjöf Moreno og sitt annað mark í tveimur leikjum.

3-0 fer í sögubækurnar þrátt fyrir eilítið japl og juml og fuður til að byrja með.

Bestu menn Liverpool

Flestir leikmenn fóru ekki mikið upp úr 2. gírnum í kvöld en góðar frammistöður ber að nefna hjá Salah, Firmino, Alexander-Arnold og Moreno sem allir voru líflegir og lögðu sitt af mörkum. Minn maður leiksins er Emre Can sem mér fannst gefa sig allan í leikinn frá upphafi til enda með baráttu, tæklingum og áræðni. Hann uppskar sem hann sáði og skoraði glæsilegt mark sem gerði í raun út um leikinn.

Vondur dagur

Í sjálfu sér enginn sem á skilið blammeringu eftir þennan sigurleik. Helst að það sé bömmer fyrir Milner að klikka á sínu öðru víti í röð og fyrir leikmenn eins og Solanke og Robertson sem hefðu gert sér vonir um að spila einhverjar mínútur í kvöld.

Tölfræðin

Fjórða vítaspyrnan sem fer í súginn í röð á Anfield. Þetta fer að verða dýrt spaug og mín uppástunga að næstu vítaskyttu er minn maður þessa leiks, Emre Can. Held að hann sé með nógu mikið hárgel á sjálfstraustinu til að taka hlutverkið að sér. Og hann er þýskur.

Umræðan

Allt er í rólegheitum í rauðheimum eftir tvo 3-0 skyldusigra í röð og það með Klavan í vörninni í báðum leikjum. Efstir í riðlinum í Meistaradeildinni og allt í rétta átt með að komast áfram. Næst er West Ham í höfuðborginni og það er annar skyldusigur þar sem endurteknar lokatölur væru vel þegnar.

32 Comments

  1. Virkilega ánægður með liðið í seinni hálfleik þvílíkur munur og innkoma Sturridge frábær

  2. Það sem maður tekur út úr þessum leik eru 3 stig og hausverkur hver á að taka næsta víti.

  3. Það fer að styttast í að maður panti Klavan treyju, nokkur clean sheets í viðbót…

  4. Við erum í vandræðum þegar Firmino er ekki í stuði. Það þarf að finna leið til að kveikja á honum. Það er orðið of langt síðan maður sá hann á 100 % hamagangi.

    En eflaust var þetta skynsamleg nálgun á leikinn, láta andstæðinginn stíga línudans í 45 mínútur og hækka síðan þrýstinginn hægt og rólega.

  5. Flottur sangjarn sigur 3-0 en við erum samt ekki komnir í 16.liða úrslit.
    Liverpool 8 stig
    Sevilla 7 stig
    Sparta 5 stig

    Við eigum Sevilla eftir úti í næsta leik og myndi sigur þar gulltryggja okkur. Ef við töpum þeim leik þá er það bara úrslitaleikur við Sparta í síðasta leik sem verða líklega búnir að jafna okkur að stigum.

  6. 3 stig og hreint lak, ekki hægt að kvarta yfir því. Fannst Matip tvisvar í seinni hálfleik gera mann aðeins órólegri en þörf var á, annars áttu allir fínan leik. Vona að Wijnaldum sé ekki alvarlega meiddur og vonandi er stutt í Lallana, Coutinho, og Mané.

  7. leikur um næstu helgi svo landsleikjahlé.. þannig að við ættum að vera komnir með coutinho, mane og lallana inn eftir það.

  8. Flottur sigur gegn mun skipulagðara liði en við mættum fyrir 2 vikum.

    Á tímabili í fyrri hálfleik var þetta eins og að horfa á handbolta, boltinn gekk kanntanna á milli og menn voru að bíða eftir rétta hlaupinu til að senda boltann í. En gegn vel skipulagðri vörn er erfitt að finna þau hlaup og þurfa allar sendingar og snertingar að vera uppá tíu.

    Liverpool kom dýrvitlaust til leiks í seinni hálfleik og held ég þar eigi Klopp gott hrós skilið, hann hefur skipað sínum mönnum að auka hraðann í spilinu og ráðast á þá frá köntunum og finna sendingaleiðina inní teig þaðan. Tók ekki nema 4 mínútur að búa til markið. Vítið sem Milner klúðraði er dæmi um víti sem var í rauninni ekki léleg spyrna heldur góð markvarsla, Handanovic var svakalegur. En Milner bætti þetta heldur betur upp með einfaldri stoðsendingu.

    Svo er frábært að sjá Sturridge skora, vonandi er hann að hrökkva í gang.

    Annar 3-0 sigur, ánægður!

  9. Þetta var bara í lagi, skyldusigur en það þarf að klára svona leiki og það gerðu menn í kvöld. Hefði gefið Firmino frí og látið Sturridge spila, sérstaklega á móti svona varnarsinnuðu liði.

    En við þurfum einn sigur í viðbót, reyndar nóg að ná bara jafntefli á móti rússunum á heimavelli, það ætti að vera nóg. Er annars ekki markatalan sem ræður ?

  10. Gríðarlega mikilvægt að fá ekki mark á sig í fyrri hálfleik. Ánægjulegt að sjá hvernig Klavan hefur eignað sér miðvarðastöðuna. Það hefst ekki nema með þrotlausum æfingum. Eftirtektavert að lesa hvað haft er eftir mömmu Klavan: “Klavan minn er alltaf á æfingum, ég sé hann varla lengur og er fyrir löngu hætt að þvo lakið hans.”

  11. Snöfurmannlega sneidd og skorin skýrsla.

    Fjórar og hálf stjarna fyrir stíltilþrif.

  12. Sammála því að þetta var ekki slök vítaspyrna,heldur varði Handanovic vel spyrnu Milner.

    Moreno var maður leiksins að mínu mati og Firmino heldur þreytulegur á löngum köflum í leiknum.

    Can braut vörnina laglega upp og lagði hann í hornið hnitmiðað og eins var vörnin svolítið shaky þegar á hana reyndi af afar máttlausu liði Maribor,sem er áfram áhyggjuefni þegar á hana reynir.

    Moreno samt minn maður í þessum leik sóknarlega og gaf allt sitt í verkefnið að þessu sinni.

    On and upwards….

  13. Alveg hrikalega lélegur fyrri hálfleikur einn sá lélegasti menn að dúlla með boltann fyrir framan rútuna og reyna að hnoðast í gegnum hana ,allt of mikill tími í dútl,í stað þess að fara upp kantana og gefa fyrir ,ekki flókið.Menn fá ekki há einkun þennan göngubolta í fyrri hálfleik menn hreinlega bara í göngutúr.En hefði vilja vera fluga á vegg í hálfleik hjá Klopp hlýtur að hafa eitthvað hraunað yfir þá ,mun skárri í seinni. og 1 markið kom eftir fyrirgjöf fyrir markið frá kanti.

  14. Lið sem tapa samanlagt 10-0 finnst mér að eigi að spila í fimmtudags-evrópukeppninni með Arsenal

  15. Sælir félagar

    Ég er sáttur. Átti ekki von á nema 2 mörkum en þau urðu 3. Að öðru leyti var þetta nákvæmlega eins og ég bjóst við.

    Það er nú þannig

    YNWA

  16. Er bara að bíða eftir að einhver fari að grenja yfir fáum kommentum eftir sigurleik.

    Annars sáttur með tvo síðustu skyldusigra. Og tvö hrein lök. Nú er bara að halda áfram að salla inn stigunum í deild og meistaradeild.

    Áfram Liverpool!

  17. Ég hafði nú svolitið gaman af þessari leikskýrslu en þjóðverjablætið samt fullmikið fyrir minn smekk .
    Can var ágætur en ekkert meira en það,hann fékk frábæra sendingu inn á markteiginn í fyrri hálfleik þar sem hann hoppaði hátt yfir nærstadda og virtist vera að skora skallamark ársins þegar hann einhvernveginn sló vindhögg með hausnum og hann eins og limpaðist niður,hann vildi kanske ekki rugla hárgreiðslunni?
    Hann gerði hins vegar vel í makrinu sem hann skoraði og fagnaði ógurlega fyrir framan koppið sem þagði hins vegar þunnu hljóði og tók ekki þátt í fögnuðinum svo hann virðist greinilega afskrifaður á þeim bænum.
    Mér fannst það besta við þennann leik að Sturridge skoraði og sýndi okkur að hann kann það en og nú þarf hann bara meiri leiktíma,hans verður áræðanlega þörf á næstunni.
    Ég hef trú á að liðið eigi mikið inni og fari vonandi á gott run núna og þegar Mane og Lallana koma inn þá getur allt gerst og við kanske komist langt í þessari keppni.

  18. Smá þraðran en WTF, Lovren leikmaður oktobermanaðar hja Liverpool, er eitthvað grín í gangi!!!

  19. EF við töpum gegn Sevilla þurfum við 0-0 jafntefli eða sigur. Ef hann endar 2-2 eða tap fara Spartak áfram (ef þeir vinna Maribor). Er það markatalan sem gildir ef leikurinn endar 1-1 eins og fyrri leikurinn? Þá hljótum við að vera í fínum málum.

    Langbest væri þó að í það minnsta tapa ekki gegn Sevilla á Spáni.

  20. Hvaða komedía er að velja Lovren bestan? Eins og það sé ekki hlegið nógu mikið af okkur nú þegar. Líkt og undanfarin ár.

  21. # 25 þessu skal ég svara.
    Fjölskyldu Lovren var hótað lífláti á samfélagsmiðlum og er það ósættanlegt og ógeðslegt. Sannir Liverpool stuðningsmenn stigu fram og sýndu Lovren stuðning og var þetta ein af leiðunum til þess.

    Alvega sama hvort að leikmaður hafi spilað skelfilega eða ekki þá á meðan að hann er í liverpool treyjuna þá óskar maður þess að honum gengur vel.
    Þótt að maður væri til í betri leikmann eða ekki sáttur við val stjórans þá má ekki gleyma að stuðningsmenn liðsins eru til í að hrósa/fagna þegar vel gengur en ekki síður að rífa liðið upp þegar illa gengur(ath það má gagnrína og vera ekki samála ).

  22. Mér finnst líka ekkert að því að velja Lovren leikmann mánaðarins fyrir það að stíga fram og benda á þennan viðbjóð. Full ástæða til að tækla svona lagað, og þessi hegðun á ekki að líðast.

  23. Tottenham vann flottan 3-0 sigur gegn Real í gær í riðlakeppninni.

    Liverpool hefur átt nokkra flotta sigra gegn Real og þar af einn í úrslitaleik meistaradeildar en það er ekki svo langt síðan að við tókum þá 4-0 og þá var það í 16.liða úrslitum og mun meira undir en í leiknum í gær.

    https://www.youtube.com/watch?v=4JAU4so6X9g

  24. Auðvitað eigum við öll að standa með Lovren (nema þegar hann lekur á móti íslenska landsliðinu, það var gott). Lovren er á pari við Carra en getur bætt sig (improve) með því að skjóta oftar upp í stúku eins og Carra gerði forðum. Hins vegar eigum við öll að njóta hinna miklu framfara Klavans því eins og mamma hans segir er hún steinhætt að þvo lakið hans því hann skilar því alltaf hreinu (clean sheet) til hennar. Segi bara eins og mamma hans: Mein eine kleine Klavan, du bist de Anfield Blitzkrige.

  25. Í sambandi við Lovren það er svo mikill skömm að þessu að eitthver geðsjúklingurinn hafi látið þetta útúr sér er ógeðslegt þetta er ekki stuðningsmaður LFC sem talar svona bara maður sem er veikur og þarf hjálp.
    Virkilega flott að sjá ALVÖRU stuðningsmenn LFC velja Lovren virkilega gott.

Byrjunarliðið gegn Maribor

Fleiri sæti í Evertonferð -!