Maribor á miðvikudaginn

Það er komið að fjórða leiknum af sex hjá okkar mönnum í meistaradeilinni, og keppnin í þessum riðli því hálfnuð. Þá er nú ekki úr vegi að líta aðeins á stöðuna. Við sjáum mynd:

Liverpool er semsagt á toppi riðilsins. Vissulega er stutt á milli þessara þriggja efstu liða, og ekkert fast í hendi. En njótum stöðunnar eins og hún er.

Okkar menn eiga semsagt eftir að fá Maribor í heimsókn næsta miðvikudag, þá fer liðið til Spánar og leikur þar við Sevilla, og að lokum kemur Spartak Moskva í heimsókn á Anfield.

Maribor er sem stendur í öðru sæti í deildinni í Slóveníu, í síðustu 5 leikjum hefur liðið unnið 3 leiki, gert eitt jafntefli og tapað einum. Þetta er þannig séð ekki frábrugðið forminu hjá okkar mönnum, nema að þar eru jafnteflin einu fleiri á kostnað sigranna.

Ef eitthvað er að marka fyrri leik liðanna, þá ætti þetta að vera létt æfing hjá lærisveinum Klopp, þar sem sá leikur vannst 0-7 á útivelli sællar minningar. En við sem erum eldri en tvævetra vitum vel að úrslitin í fyrri leiknum skipta afskaplega litlu þegar á hólminn er komið. Mörgum fannst leikplanið hjá Maribor hafa verið mistök þar, því þeir virtust vilja spila fótbolta ólíkt öðrum liðum sem mæta Liverpool. Mögulega verður planið annað hjá þeim á miðvikudaginn, og þeir væru ekki fyrsta liðið til að pakka í vörn á Anfield. Við vitum svosem hvernig hefur gengið á móti slíkum liðum, en úrslitin um helgina gefa smá von um að þetta verði ekki sú hörmung sem við höfum stundum þurft að upplifa á móti liðum sem leggja rútunni. Engu að síður, þá er eitthvað sem segir manni að þessi leikur fari ekki 7-0.

Sjúkralistinn er vel þekktur, Mané, Clyne og Lallana eru enn frá, og munu ekki byrja að æfa með aðalliðinu fyrr en í næsta landsleikjahléi. Coutinho missti af síðasta leik og þá þótti ólíklegt að hann næði Maribor leiknum, samkvæmt Physioroom gæti hann tekið þátt í leiknum við West Ham um helgina. Staðan á Lovren er óvissari, það hefur ekkert verið gefið upp um hvort hann verði leikfær eða ekki, og téð Physioroom síða gefur ekki upp neina dagsetningu þar sem mætti reikna með að hann komi til baka. Sama gildir um Ward, sem er víst meiddur á baki. Það var svosem ekki líklegt að hann tæki þátt hvort eð er. Bogdan er svo sá sjöundi á sjúkralistanum, jú hann er enn hjá félaginu. Þetta þýðir að liðið er nú komið á kunnuglegar slóðir á sjúkralistanum, eða í efsta sæti ásamt Watford og Bournemouth.

Í ljósi þessa ætla ég að spá eftirfarandi uppleggi:

Karius

TAA – Klavan – Matip – Moreno

Milner – Henderson – Winjaldum

Salah – Sturridge – Firmino

Bekkur: Mignolet, Gomez, Robertson, Grujic, Oxlade-Chamberlain, Solanke, Woodburn

Það er í raun bara tvennt sem ég bið um á þessum tímapunkti:

 • Sigur
 • Að missa engan í meiðsli eða leikbann

Klavan á afmæli í dag, eigum við ekki bara að segja að liðið gefi honum þetta tvennt í síðbúna afmælisgjöf? Ég spái 2-1 sigri með mörkum frá Salah og svo skorar Matip loksins með skalla.

Koma svo!

18 Comments

 1. Ég spái engri veislu eins og síðast en 3 stig og maður verður sáttur.
  Spurning um að leyfa Ox að byrja þennan leik og Robertson.

 2. Mér þætti sjálfum ekkert óeðlilegt að leyfa AOC og Robertson að spreyta sig, en mér hefur sýnst Klopp bara vera svo fastheldinn á sinn hóp að það kæmi mér á óvart. Ég myndi hreinlega ganga lengra og leyfa Woodburn að byrja sömuleiðis, þess vegna bara á miðjunni.

 3. Duttum öðru hvoru í 3 miðverði í seinni hálfleik í síðasta leik og það gaf vel á móti aftur liggjandi liði þannig að ég reikna með að Gomez haldi stöðinni til að Klopp geti skipt milli 4-3-3 og 3-5-2 með leikmönnunum sem byrja inn á.

 4. Klárlega að gefa Robertson, Oxlade, Grujic og Solanke þennan leik, gefa Salah, Firmino, Henderson og Moreno hvíld..
  Þetta ætti að vera nokkuð save sigur og óþarfi að taka áhættu með lykilmenn liðsins.

 5. Jú mikið rétt, ég gleymdi Can! Hann ætti nú líklega að vera þarna einhversstaðar.

 6. Mér finnst reyndar góð tillaga að nota Can bara í neyð. Við þurfum hvort sem er að vera án hans næsta vetur og því rétt að aðrir fái spilatíma.

 7. Robertson er víst spilaður sem miðvörður með landsliðinu en hvað veit maður allavega ekki hvernig byrjunarliði verður

 8. Ég er algjörlega sannfærður um að þessi leikur verði mun erfiðari en sá fyrri. Ekkert almennilegt lið sættir sig ekki við tvær jarðafarir í röð gegn sama andstæðingnum og geri ég því ráð fyrir því að þeir parki rútunni og krossi fingur og vona það besta.

  Ég held að tvö til þrjú mörk gegn engu væri mun raunhæfara. Heldur en annar stórsigur.

 9. Það er nauðsynlegt að vinna þennan leik og ég spái að Klopp taki litla sénsa með að hvíla menn. Ég held líka að Salah, Sturridge og Firmino hafi gott af því að spila þennan leik þeim veitir ekki af því að fá meira sjálfstraust og vonandi skora einhver mörk.

  Um að gera að hvíla menn í seinni hálfleik ef liðið er með forrystu.

 10. Klopp var að segja að Coutinho er mjög tæpur og óvíst með Firminho, Lovren og Gomez.
  Ef þessir eru frá(Coutinho/Lovren voru ekki með í síðasta leik) þá reikna ég með að TAA og OX komi inn í liðið.

 11. Sælir félagar

  Þessi leikur fer 2 – 0 og bæði mörkin koma eftir ótrúleg varnarmistök andstæðinganna seint í seinni hálfleik. Fram að því verður þetta stöðug og átakamikil pressa frá okkar mönnum sem verða 90% með boltann og gengur bölvanlega að koma tuðrunni í netið. En að lokum hefst það, Sturridge og Solanke klára þetta að lokum.

  Það er nú þannig

  YNWA

 12. Takk fyrir prýðis upphitun.

  Ég er auðvitað bjartsýnn fyrir þennan leik, Maribor geta ekki leyft sér að parkera rútunni, þeir verða að gera allt til þess að stela 3ja sætinu í þessum riðli og þá skiptir ekki máli hvort þeir tapi 1-0 eða 4-0 þar sem þeir eru nú þegar með skeeelfilega markatölu sem þeir geta ekki treyst á.

  Þessi leikur er til að spila bekkjarsetumönnum í bland við þá bestu. Ég vill sjá Hendo hvíldan aftur, Milner var hertogi á miðjunni gegn Maribor í síðustu viku og væri fínt fyrir Oxlade og Gini að fá að vera með honum þarna. Ef Solanke eða Sturridge geta spilað annarsstaðar en sem ST, vill ég sjá annan þeirra sem vængsóknarmann og hinn sem ST og auðvitað Salah. Annars Sturridge frammi, Woodburn og Salah á vængjunum. Solanke mætti síðan koma inná snemma í seinni ef allt lítur vel út.

  TAA, Gomes, Matip og Robertson væri mín varnarlína, en ég reikna með að sjá Klavan og Moreno inn fyrir Gomes og Robertson því miður.

  Spái 3-1, vonandi skorar Oxlade og Solanke allaveganna.

  Ég tók eftir því að einhverjir voru að tala um að þeir væru hættir að nenna að taka þátt í umræðum hér vegna þess að hér væru komnir alltof margir sem ekki nenna að færa rök fyrir máli sínu og væru ekki málefnanlegir – Skrifa jafnvel eitthvað og stroka það síðan út í staðinn fyrir að senda það inn. Gerið það fyrir okkur alla hina sem tökum þátt að hætta að stroka út og senda frekar inn ykkar ummæli í staðinn fyrir að láta aðra skemma þessa stórkostlegu síðu fyrir ykkur. Það snarhallaði undan fæti á spjallborðinu á liverpool.is vegna þess að þeir sem voru málefnanlegir hættu að nenna að taka þátt í umræðum, ekki láta það gerast hér.

 13. Ég held að náum marki frekar snemma eftir varnarmistök Maribor-manna og við jafnvel 2 til 3- 0 yfir í hálfleik.

  Við þá stöðu væri hægt að leyfa minni spámönnum að spreyta sig og dreifa álaginu fyrir leikinn gegn West Ham. Væri samt til í að sjá Chamberlain byrja og láta jafnvel Woodburn koma inn í seinni,ef allt gengur vel.

  Fyrir mitt leyti þá finnst mér liðið spila betur án Coutinho og spurningin er hvort að hausinn á honum sé orðinn vanstilltur og farinn að horfa til Nou Camp – þó hann hafi ekki efni á slíku framlagi ef hann ætlar að eiga sæti í brasilíska landsliðinu næsta sumar. Skemmtilegar hreyfingar og léttir snúningar enda með háum tuðruspörkum oftar en ekki þessa dagana upp í stúku frekar en á markið sjálft. En þetta er mín tilfinning frá honum upp á síðkastið.

  Annars ætti þessi leikur að enda 3-4 núll og Klopp sáttur með sína dáðadrengi og skolar niður einum weiss bier í lok dags með Zeljko og Peter.

 14. Ég geri kröfu á að við höldum hreinu á móti þessu liði á heimavelli ! Hvað annað ? Vill sjá okkur vinna með 5 mörkum, og þá er það 5-0 ! Það er bara lágmark að vörn okkar leggji sig fram í essum leik og sýni smá LFC frammistöðu, ekki hafa þær verið margar sl 2 ár. Þetta er lið sem rétt vann FH og við ættum með réttu að rúlla yfir þetta, auðveldlega.

  Annars er það að frétta af leikjum þriðjudags að enn og aftur er De gea að bjarga utd trekk í trekk. Hvar værum við ef við höfðum leikmann eins og hann, fer Real ekki að kaupa hann ? 🙂

Liverpool – Huddersfield 3-0

Podcast – Hægt á byggja á góðum sigri gegn Huddersfield