Upphitun: Leicester í deild

Eftir langa bið er loksins komið að því að Liverpool heimsæki Leicester, en þangað hafa okkar menn ekki komið síðan á þriðjudaginn. Reyndar eru líkur á því að þessir leikir verði alls ekkert líkir þegar kemur að liðsskipan, enda notaði Klopp breiddina í hópnum talsvert í deildarbikarnum. Þegar svona leikir tapast eins og gerðist á þriðjudaginn er þjálfarinn að jafnaði í “damned if you do, damned if you don’t” aðstöðu, því ef þeir spila aðalliðinu og tapa þá eru þeir skammaðir fyrir að þreyta aðalliðið í ómerkilegri keppni, og ef þeir spila varaliðinu þá eru þeir skammaðir fyrir að nota ómögulega leikmenn og að henda inn handklæðinu fyrir leik.

Ég hef fulla trú á að Klopp hafi alls ekki verið að henda inn handklæðinu með liðsvalinu í síðasta leik, hann hafi einfaldlega viljað nýta breiddina, og gefa mönnum séns á að spila sig inn í aðalliðið. En það er augljóst að liðið er í einhverri krísu beggja vegna vallarins; sóknin er að skora vandræðalega fá mörk miðað við tilraunir, og vörnin er að fá á sig vandræðalega mörg mörk miðað við tilraunir andstæðinganna. Jú og miðjan er ekki að finna sig. Í raun virðist ekki skipta öllu máli hvaða leikmenn spila, þetta á við um allar uppstillingar. Eins og oft vill verða við svona kringumstæður þá vakna raddir sem fullyrða að hópurinn sé ömurlegur, þjálfarinn ómögulegur, sumarkaupin gjörsamlega misheppnuð og já, réttast væri að skipta bara öllu klabbinu út. Undirritaður er nú alls ekki í þeim hópi. Öll lið eiga lélega kafla, skemmst er að minnast septembermánaðar hjá Chelsea síðasta vetur, en þá unnu þeir ekki leik. Er það einhver afsökun? Nei, lið eiga ekki að sætta sig við það að spila illa eða ná lélegum úrslitum. Enda tel ég alveg ljóst að Klopp og félagar séu ekki par ánægðir með úrslitin í síðustu 4 leikjum, og séu að vinna að því að finna leiðir til úrbóta. Þetta kom berlega í ljós á síðasta blaðamannafundi þegar Klopp sagðist vera “sick of it” í umræðu um mörkin sem liðið hefur verið að fá á sig.

Eftir leikinn á þriðjudaginn var undirritaður viss um að fæstir þeir sem spiluðu þann leik myndu koma við sögu í þessum leik á laugardaginn, en svo bárust fréttir af því að Lovren, Matip og Can væru að glíma við hnjösk. Sem betur fer er Can farinn að æfa aftur, en það er enn óljóst hvað verður með miðverðina okkar tvo. Sem betur fer höfum við Sakho á bekkn… æ nei alveg rétt. Jæja, við getum þá kallað Lucas inn í miðvö… já nei það er víst ekki hægt. Ekki þóttu Klavan og Gomez vera að heilla á þriðjudaginn, ætli það þurfi samt að spila þeim? Jæja það eru alltaf Masterson og Lloyd Jones úr U21 árs liðinu…

Hvað aðra varnarleikmenn varðar, þá er nokkuð ljóst að Ward fer aftur upp í stúku og Mignolet tekur við í marki. Þá á ég fastlega von á því að sjá Moreno og TAA koma í bakverðina.

Það er einna helst að miðjan fái að halda sér. Henderson, Winjaldum og Grujic voru þar á þriðjudaginn, og það er vitað að Grujic fer aftur upp í stúku eða á bekkinn. Ég tel líklegt að Can komi inn í þessum leik fyrst hann er farinn að æfa aftur, Coutinho spilaði í framlínunni fyrri hálfleikinn á þriðjudaginn og gæti komið aftur inn á miðjuna núna, en er þó tæpast kominn í fullt leikform, svo ég á ekki von á að sjá hann þar allan leikinn. Þá er möguleiki að við sjáum Milner detta þarna inn, þó að ég verði að viðurkenna að ég hálf sakna þess að hafa hann ekki bara í vinstri bak eins og á síðustu leiktíð.

Í framlínuna mæta svo sjálfsagt Firmino, Salah og einhver sem kemur í staðinn fyrir Mané sem mun taka út sinn þriðja og síðasta leik í leikbanni. Eins og svo oft áður þá er liðið að sakna Mané alveg svakalega, og við sem horfum söknum hans líka. Hvort það verður Sturridge sem kemur aftur inn eins og í síðasta deildarleik veit ég ekki. Nú sá ég ekki þann leik og get því ekki fullyrt um hvernig hann var að standa sig. Ég hef hins vegar á tilfinningunni að Firmino blómstri helst ef hann fær að vera fölsk nía, en sé ekki jafn effektívur úti á kanti með Sturridge fremstan. Sama held ég að gildi um Sturridge, hann fílar sig held ég best sem fremsti maður eða sem annar af tveim framherjum a la SAS. Engu að síður tel ég líklegast að Klopp tefli þeim tveim fram í fremstu víglínu, frekar en að setja Chamberlain þarna þó það sé vissulega möguleiki. Hann var kannski ekki að heilla neitt svakalega á þriðjudaginn, en e.t.v. þarf hann einmitt bara leikæfinguna og að fá að spila sig inn í hópinn.

Svo er auðvitað alltaf einhver smá séns á að Klopp hristi upp í þessu og spili 4-4-2 með tígulmiðju, bara til að hræra upp í hlutunum. Munum að hann gerði það í síðasta leiknum í vor, með ágætum árangri. Ég ætla þó ekki að gerast svo djarfur að spá því.

Allavega, ég ætla að tippa á að þetta verði uppstillingin:

Mignolet

TAA – Klavan – Gomez – Moreno

Can – Henderson – Coutinho

Salah – Sturridge – Firmino

Bekkur: Karius, Robertson, Masterson, Grujic, Milner, Chamberlain, Solanke.

Tek það fram að vegna þessara meiðslavandræða þá er þetta svolítið skot í myrkri. T.d. gæti alveg verið að Lovren fari á bekkinn eins og síðast, þó hann sé ekki tilbúinn í að spila 90 mínútur. Held það verði nú samt að setja einhvern miðvörð á bekkinn og þess vegna set ég Masterson þarna. Eins er aldrei að vita nema Woodburn fái einhvern séns, mér þykir hann alveg eiga það skilið, en kannski er Klopp ennþá að passa að honum verði ekki hent of snemma út í djúpu. Drengurinn enda nýskriðinn úr grunnskóla.

Hvað lið Leicester varðar, þá á ég ekki von á neinu öðru en að þeir mæti með sitt sterkasta lið. Vardy mætir sjálfsagt í framlínuna, Schmeichel í markið, og svo verða the usual suspects þar á milli. Við skulum jú muna að það er rúmt ár síðan þetta lið hampaði bikarnum, þó þeir séu reyndar búnir að missa menn eins og Kante, Drinkwater og fleiri síðan þá, en það kemur jú maður í manns stað.

Svona rétt í lokin er rétt að minna á að Liverpool Ladies eru að hefja sína leiktíð í kvöld, og fyrsti leikur er derby viðureign við erkifjendurna í Everton. Búast má við að leiknum verði útvarpað á Facebook síðu liðsins, fyrir þau ykkar sem hafið áhuga á að fylgjast með Bonner, Chamberlain og öllum hinum stelpunum okkar.

Eigum við ekki bara að segja að bæði liðin taki sig til og vinni þessa leiki? 2-1 hjá strákunum og 1-0 hjá stelpunum? Díll?

39 Comments

 1. Er bara mjög bjartsýn. Maður lærir það að maður drullar ekki á sig tvisvar á sama klósettinu.
  Áfram Liverpool og hana nú 😉

  YNWA

 2. Held Því miður að við töpum 3-1
  En mikið vona ég að liðið skelli sokk uppí mig 🙂

 3. Sælir félagar

  Ég er “ekko” bjartsýnn heldur. Er einhver ástæða til að vera bjartsýnn eftir gengi síðustu umferða í deild og deildarbikar? Nei, nefnilega ekki. En hvað þá? Á bara leggjast niður og væla – er það málið. Nei og aftur nei. Við bara vinnum þennan helv . . . leik og ekkert múður. Vardy skorar eitt mark en okkar menn setja þrjú. Enn og aftur ætla ég að veðja á Salah (það klikkaði síðast) sem alltaf kemur sér í færi og nú klárar hann þau. Salah 2 og Solanke 1

  Það er nú þannig

  YNWA

 4. Stjóraferill Klopp hjá Liverpool er ótrúlega líkur ferli Rodgers. Sóknarbolti sem fer í þrot. FSG kaupa svo rétt til að halda öllum góðum.

  Verður mjög fróðlegt að heyra hvernig þessi leikur fer. Mjög mikilvægt fyrir liðið að svara fyrir tapið um daginn. Eins mjög mikilvægt að ná í 3 stig. Þetta er langt frá því að vera búið eins og staðan er í dag. Keppnin um 4.sætið er hafin fyrir alvöru.

  Áfram Klopp, áfram Liverpool!

 5. Það er eingin superstemming í gangi hér, til bóta að fá sér gleðipillu eða eitthvað EN þetta er mitt lið og við ætlum að vinna næsta leik, hvenig eða hver skorar no matter VIÐ vinnum. Takk fyrir. Björn

 6. Ég sé það núna að ég er hvorki með Winjaldum í byrjunarliðinu né á bekknum. Það er að sjálfsögðu yfirsjón. Líklega má setja hann á bekkinn í staðinn fyrir Grujic, nú eða í byrjunarliðið ef Coutinho er ekki treyst til að byrja.

 7. Ég myndi gjarnan vilja sjá Danny Ward fá fleiri leiki með liðinu. Það er eitthvað spennandi við þennan strák. Kannski er hann stjórnandinn sem okkur vantar á aftasta þriðjung vallarins?

 8. Ég trúi á Klopp.

  Verum samt jákvæði, Liverpoolliðið er verk í vinnslu.

  Framlínan frábær, næstum því sú besta í deildinni og verður bara betri með meiri samleik og auknum skilning á milli manna.

  Miðjan. Nokkuð góð og verður betri á næsta ári. Finnst samt Can og Henderson vera að flækjast fyrir hvor öðrum á miðjunni, held að það sé Can sem er of frekur/tillitslaus/eigingjarn eða hefur ekki fótboltaheilan til að sjá út næstu sendingar og staðsetningar.

  Vörnin…. tja… ég væri búin að kaupa fleiri stóra og stæðilega eins og Matip og Sakho!

  Ég man Hodgson drepleiðinlegatímabilið og er því tilbúin til að fyrirgefa mjöööööög lengi á meðan spilamennskan og vinnuframlagið er eins og það er núna. Þó svo það skili ekki sigri í hverjum leik.

  Það er fössari, njótum boltans á meðan við getum, Hodgson getur komið aftur!!!

  YNWA

 9. Eins og margir aðrir er ég ekkert alltof bjartsýnn fyrir leiknum. Vona að Klopp setji Firmino ekki á kantinn og að Can komi inn fyrir Hendo og að Milner fái séns á miðjunni. Held að Can og Milner myndu standa sig vel saman sem okkar öftustu miðjumenn. Allavega miðað við skituna sem hefur átt sér stað þar uppá síðkastið. Vonandi nær Matip líka leiknum.

  Verðum að vinna þennan leik því annars verður mórallinn alltof slæmur held ég. Segjum bara 2 – 1 fyrir okkar mönnum.

 10. Takk fyrir að nefna kvennaleikinn, Daníel.

  Þau sem eru með áskrift að streamcenter.tv geta séð hann þar kl. 19 í kvöld.

 11. Sakna Sakho alveg svakalega í þessari meiðsla stöðu sem við erum í, það var alveg vitað að þetta myndi gerast. átti kannski ekki von á því strax.

  Liverpool þarf stöðuleika og aftur stöðuleika. Hætta að fá á sig mörk til að byrja með.
  Ef við náum jafntefli þá lít ég á það sem sigur.

  Er samt hræddur við þennan leik og aftur tap þarna verður til þess að menn fara að missa trúna innan liðsins. Erum því miður ekki með nógu öflugan fyrirliða.

  Það er nu þannig.

 12. En að setja Milner í hægri bakvörðinn á meðan við finnum jafnvægið í leik liðsins?

  Spá 1-1….

 13. U23 eru að spila í augnablikinu og þar eru m.a. Ejaria, Grujic, Woodburn, Wilson og Brewster í eldlínunni ásamt góðvini okkar Markovic. Veðmálið sem Kristján Atli og Einar Örn gerðu um það hvort hann muni einhverntímann aftur spila fyrir Liverpool er því ennþá galopið.

  Lloyd Jones er að spila í vörninni en Masterson er á bekknum. Sem þýðir annaðhvort að hann sé kominn aftar í goggunarröðinni í vörninni þarna í U23 hópnum, eða það að það er verið að spara hann fyrir leikinn á morgun. Verð að játa að ég veit ekkert hvort hann sé eitthvað nálægt þvi að geta komist í aðalliðið, veit bara að hann fékk dæmda á sig vítaspyrnu í síðasta leik. Svo já hann myndi augljóslega fitta mjög vel í aðalliðið.

 14. Það breyttir engu hverjir spila í vörnini okkar Matip/Gomez/Lovren/TAA/Moreno/Robinson/ með Mignolet/Karius/Ward fyrir aftan þá.

  Liðið mun fá á sig mörk og það mun gerast aftur á morgun en ég spái samt sigri því að Mane/Salah/Firminho/Coutinho munu allir byrja leikinn á morgun og þeir ætla að setja þrjúmörk í 3-2 sigri okkar manna.

  p.s ég get ekki beðið eftir að Lallana verður kominn á fullt aftur. Mér hefur alltaf fundist að þegar hann er að spila vel þá erum við hvað hættulegastir(mér finnst hann ná að virkja allt liðið í kringum sig með dugnaði og sköpunarkraft en Coutinho er meira í að eiga frábæran einstaklingsleik þar sem hann leikur sér að varnarmönum eins og að drekka vatn).

  Sóknarmiðja með Winjaldum(sem vinnuhestin) með Lallana/Coutinho fyrir framan sig er draumur og Mane/Firminho/Salah þar fyrir framan held ég að fá lið ná að hægja á.

  Kveðja frá
  Jákvæðum Liverpool aðdáanda en þeim fer fækkandi 😉

 15. Úps, kvennaleikurinn er læstur á streamcenter.tv og sést ekki. Afsakið.

 16. Getum ekki alltaf treyst á að Salah skori fyrir okkur. Hann mun potta eiga sína þurra leiki. Þurfum að fá mörk frá fleirum en honum. Sérstaklega þegar Mané er ekki með

 17. Þá er leikjum kvöldsins lokið, og úrslitin heldur betur okkur í hag. Gerrard og félagar í U18 unnu Everton 3-1, U23 liðið vann Tottenham 4-2 með þrennu frá Wilson og eitt frá Brewster, og síðast en ekki síst unnu Liverpool Ladies leikinn gegn Everton 0-2.

  Nú þarf bara aðalliðið að halda áfram á sömu braut.

 18. #19 var búinn að gleyma að Mane er að taka út sinn síðast leik í banni.
  Hendum inn Sturridge í staðinn fyrir Mane og held mig við 3-2 spá fyrir Liverpool.

 19. Magni Grenivík í inkasso eina jákvæða þessa dagana áfram liverpool

 20. Ég hef ekkert sérstaklega góða tilfinningu fyrir þessum leik, oft verið okkur erfiðir.

  Svo er hrikalegt ef við getum ekki haft Matip í vörninni, lengi getur vont versnað þar.

  Ég ætla hinsvegar að vera jákvæður og spá okkur óvæntum sigri 1-2 þar sem við sleppum á lokamínútum eftir stórkostlega vörslu Mignolet og skot í stöng.

 21. Nú er eins gott að okkar menn girði sig í brók. Ég setti 2 á þennan leik á seðlinum.
  Nokkur orð, klavan. Hafiði fengið pissuhroll? Ég fæ svipaða tilfinningu bara við að heyra nafnið. Vonandi hef ég ofboðslega rangt fyrir mér.
  Sóknin okkar tæklar þetta og við vinnum 2-4!
  Liverpool all the way!! ?

 22. Nýjustu fréttir eru þær að Lovren og Matip séu leikfærir. Það er þó jákvætt.

 23. 7 – 1 Fyrir Leicester þar sem Klopp fær beint rautt spjald fyrir að sparka í Coutinho í brjálæðiskasti.

 24. Ömurlegt að segja það en Jose Mourinho er að búa til rosalegt lið. Kannski ekkert skemmtilegasta liðið en ég er ansi hræddur um að þeir nái árangri. Þvílík kaup í þessum Lukaku þarna.

 25. Mignolet,
  Gomez, Lovren, Matip, Moreno,
  Can, Henderson, Wijnaldum,
  Salah, Firmino. Coutinho

  Þetta er forvitnilegt byrjunarlið. Coutinho er væntanlega kominn á vænginn þar sem hann spilaði stóran hluta af síðasta tímabil þegarliðinu gekk hvað best.

  (Varamenn: Karius, Milner, Sturridge, Solanke, Klavan, Oxlade-Chamberlain, Alexander-Arnold)

 26. Liðið komið á hreint: Mignolet, Gomez, Lovren, Matip, Moreno, Can, Henderson, Wijnaldum, Coutinho, Salah, Firmino.

  Þá er bara að vona að miðjan og vörnin bæti sinn leik og að menn fari að klára færin sín, sem sagt allt liðið þarf að bæta sig! Liverpool hjartað vonast auðvitað eftir sigri, en síðustu leikir fylla mann af efasemdum. Það er undir okkar mönnum komið að róa taugarnar hjá stuðningsmönnumum! Held mig ennþá við 2 – 1 sigur.

Skítatap á King Power vellinum

Byrjunarliðið gegn Leicester City