Liverpool 4-2 Hoffenheim

Það var markaveisla á Anfield í kvöld þegar Liverpool liðið tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Hoffenheim mætti vitandi að þeir þyrftu að sækja, en það var ekki að sjá því Liverpool átti fyrstu mínútur leiksins fyrir utan eitt dauðafæri hjá Gnabry sem bæði var rangstæður og hitti ekki á markið. Það sem fylgdi líktist frekar handboltaleik en fótbolta þar sem bæði lið áttu erfitt með að verjast.

Það var hreinlega unaðslegt að horfa á sóknarleik Liverpool og hreinlega ótrúlegt að liðið hafi aðeins skorað fjögur mörk í þessum leik. Sóknarþríeykið small virkilega vel saman og vonandi eigum við eftir að sjá mikið af þessu á Anfield í vetur.

Móment leiksins hjá mér var óeigingirni fyrirliðans eftir klukkutíma leik þegar hann var í upplögðu marktækifæri en lagði boltann á Firmino sem skoraði auðveldlega kom okkur í  4-1. Þá vissi maður 100% að liðið væri komið áfram allt stressið hvarf og maður gat notið eins versta fagns sem ég hef séð í boði Firmino.

Bestu menn Liverpool

Í dag er erfitt að velja, allir stóðu sig vel sóknarlega en margir hefðu mátt gera betur í varnarleiknum Emre Can skoraði tvö mörk og dreyfði spilinu vel á miðsvæðinu og vonandi situr nýr samningur fyrir á borðinu strax í fyrra málið. Roberto Firmino átti einn af sínum bestu leikjum í rauðu treyjunni vann vel fram á við skoraði eitt mark og lagði upp annað. Þegar aðeins 15 mínútur voru liðnar af leiknum bjóst ég við að þurfa að skrifa um slæman dag hjá Wijnaldum sem hafði þá gefið boltan í tvígang auðveldlega frá sér og virtist ekki vera á sínum degi en hann átti stóran part af mörkum tvö og þrjú og vonandi er hann vaknaður í ár. Ég gæti líka talað um Mané, Salah og Henderson sem áttu mjög góðan dag en hinir þrír voru þeir sem heilluðu mig mest í dag en ef menn vilja frekar velja aðra skil ég það mjög, mjög vel.

Vondur dagur

Vont að tala neikvætt eftir svona leik en enn og aftur er varnarleikurinn að klikka. Gnabry hefði getað skorað nokkur í dag og liðið sem heild verður að fara að verjast betur. Í byrjun seinni hálfleiks skánaði þetta, sérstaklega Jordan Henderson sem var farinn að vinna boltan tilbaka framarlega á vellinum nokkrum sinnum en þetta er hlutur sem verður að vera í lagi ef liðið ætlar sér stóra hluti.

Umræðan

Í dag er partý, liðið er komið í riðlakeppnina þar sem það á heima. Á morgun komumst við að því hverjum við verðum með í riðli og þrátt fyrir veikleika varnarlega er ekki annað hægt en að gleðjast yfir þeirri skemmtun sem þetta lið veitti í dag og hefur sýnt að það getur gert reglulega.

Hér eru mörkin úr leiknum ef einhver missti af þeim eða vill horfa á þau aftur, þetta lið er snilld og vonandi er þetta bara brot af því sem koma skal í vetur.

 

65 Comments

  1. Sælir félagar

    Ég spáði úrslitunum 2 – 2 og hafði heldur betur rangt fyrir mér. Liverpool hefði getað unnið þetta 10 – 3 og enginn hefði getað sagt neitt við því. 4 – 2 er afgerandi sigur og LFC stimplar sig með glæsibrag inn í meistaradeildina. Sanngjörn úrslit og betra liðið í þessu einvígi heldur afram og verður í drættinum á föstudaginn. Nú er gaman gaman góðir félagar af öllum kynjum um allt universið.

    Það er nú þannig

    YNWA

  2. Firmino allt í öllu, þvílikur leikmaður, þá er bara að fá Barselóna ?

  3. Rosalegur leikur og það verður spennandi að sjá mótherjana á morgun.
    Væri til í Barcelona.

  4. Meistaradeildin!!! Æðislegt! Geggjað! Frábært!

    Vörnin ennþá brothætt. Halda áfram að vinna í þessu Jürgen, koma svo!

    En heilt yfir virkilega flottur leikur hjá okkar mönnum. Miðjan var að mestu mjög góð, Gini í smá vandræðum en Jordan og Emre að spila virkilega vel.

    Og sóknin hjá okkur… þvílíkt augnakonfekt!

    Sadio geggjaður. Salah frábær. Bobby svo algjörlega magnaður og er minn maður leiksins.

    Nú vill ég sjá peningum eytt! Upp með veskið takk fyrir!

    Það er búið að vinna grunnvinnuna og koma liðinu í CL og nú þarf að byggja ofan á það og styrkja hópinn! Eruði að lesa þetta FSG?!!

    Virkilega sáttur og virkilega spenntur fyrir því sem koma skal.

    Áfram Liverpool!

  5. Flottur sigur. Nú er ég glaður. En eins og skýrslan segir; varnarleikur liðsins er stórhættulegur.

  6. Fráááááábært, eins og skrifað í skýin með Klopp og co. alles, gegn þýsku liði. Nú á veskið að rífast upp, hendur fram úr ermum, FSG upp á dekk og drullast til að fara að fiska væna þorska fyrir komandi vertíð. Til hamingju allir félagar.
    YNWA

  7. Sumir segja að það verði dregið á morgun en aðrir á föstudaginn. Er einhver með þetta á kristaltæru sem getur frætt okkur hina?

  8. það er dregið á morgun í mestaradeild og svo á föstudaginn í evrópudeild

  9. Það er dregið á morgun, byrjar 15:30 að Íslenskum tíma.

    Velkominn til leiks Hannes, ekki ónýtt á að byrja með því að henda Liverpool í Meistaradeildina 🙂

  10. Frábært. Ekki það að maður hafi haft minnstu áhyggjur af mótherjanum.
    Vonandi lendum við bara með Barcelona í riðli.

  11. Drátturinn er á morgun – 100 %

    Frábær skemmtun og fyrsti hálftíminn var TOTAL FOOTBALL og Nagelsmann var skólaður og skaut sig í fótinn með alltof hárri línu gegn blitzkrieg vængmönnunum okkar 😉 Takk fyrir mig og góðar stundir.

  12. Virkilega flottur leikur í kvöld en mér fannst síðarihálfleikurinn miklu betri en sá fyrri.
    Fyrrihálfleikur þá sýndum við geðveikt flott sóknartilþrif en vörnin okkar var galopinn og fengu gestirnir fjögur galopin tækifæri til að skora. Staðan var 3-1 í háfleik en leikurinn var galopinn og var maður ekki alveg búinn að bóka ferð í riðlakeppnina þrátt fyrir góða stöðu.

    Í þeim síðara mætti eiginlega mun betur skipulagt lið sem var mun þéttara varnarlega en skapaði enþá fullt af færum. Liðið gaf gestunum varla færi á meðan að við fengum líklega 5-6 algjör dauðafæri til að skora en nýttingin var bara ekki nógu góð en maður var samt ánægður að sjá færin og að sjá að hægt væri að verjast betur sem einn liðsheild án þess draga verulega úr sókninni.

    Fullt af frábærum framistöðum í kvöld. Henderson var eins og herforingi, Winjaldum var út um allt , Can skoraði tvö mörk, þeir réðu ekkert við Mane og Firminho ógnandi allan tíman.

    Það voru eiginlega ekki mikið um slæmar framistöður. Lovren átti lélega sendingu sem gaf þeim markið en eftir það var hann að bjarga margoft með sköllum og tæklingum, Trent leit mjög illa út varnarlega í fyrihálfleik en var frábær sóknarlega og leit mun betur út í þeim síðari þegar liðið varðist betur sem ein heild.

    Frábær sigur og verður skálað í mjólkurglass í kvöld og vonar maður að liði fái Barcelona í drættinum á morgun.

  13. Frábær leikur hjá okkar mönnum. Allt æðislegt bara. Nú er bara að klára að styrkja liðið með 1 – 2 mönnum og þá er þetta farið að líta ansi vel út hjá okkur.

    Draumadráttur á morgun:

    Spartak Moskva
    Porto
    Liverpool
    Apoel

    Martraðardráttur:
    Real Madrid
    PSG
    Liverpool
    RB Leipzig

  14. Er ég einn um það að finnast Salah bara alls ekkert hafa verið að heilla? Fannst hann missa boltan of oft og reyna hluti sem hann réði bara ekki við. Flottur upp á breiddina að gera en þegar Lallana og Cotinho verða komnir á skrið er ég viss um að hann verður ekki starter hjá okkur. Vonandi batnar hann þvi hann lofar góðu.

  15. Hvar eigum við að byrja?

    Jú, við skulum byrja á því að rétta Emre Can samning og penna. Svo skulum við kaupa miðvörð og miðjumann.

    Þessi frammtistaða var rugluð, sóknarþríeykið okkar sýndi að þeir geta verið í sama klassa og Suarez+Neymar+Messi, Ronaldo+Bale+Benzema eða hvað sem er. Þeir þurfa bara að gera þetta að reglu, ekki hafa þetta sem frávik. Miðjan brilleraði, skrítið að Gini og Hendo byrjuðu samt ekki að spila vel fyrr en staðan var orðin 3-1. Þetta gátum við án Lallana og Coutinho sem voru okkar helstu arkitektar og lykilsendingamenn obban af síðasta tímabili.

    En þetta var líka einn leikur, mikilvægur leikur reyndar, og menn þurfa að finna leiðirnar í gegnum lið eins og Crystal Palace líka.

    Vörnina þarf ekki að ræða, hún er sú sama. Með tilkomu van Dijk yrði þetta mun skárra.

    Takk fyrir góða skýrslu Hannes, snilld að sjá ykkur nýju pennana koma svona sterka inn.

    Gleðila Meistaradeild!

  16. Frábært! Núna þurfum við bara að styrkja hópinn á síðustu metrunum og svo er það bara full fart!

    Vonandi fáum við barcalóna! Þetta verður eitthvað…

  17. Mane náði ekki að skora en hann fær samt 11 í einkunn. Hann er bara að verða einn besti leikmaðurinn í boltanum

  18. Þess ber að geta að Arsene Wenger er að berjast við að losa sig við leikmenn, hann er með 28 manna hóp, en EPL gerir ráð fyrir 25 manna hóp. Eigum við ekki bara að taka þetta á okkur?

    Bjóða Konchesky, Sanchez og Özil velkomna til okkar létta Wenger verkið? Nei segi bara svona

  19. Þessi “efnilegi” þjálfari Hoffenheim er nú meiri hrokagikkurinn. Drullandi yfir allt og alla fyrir leikinn og leikmenn hans með. Samt mætir hann til leiks með línuna allt of ofarlega á móti Salah og Mané, þvílíkur álfur! Ef hann hefði unnið heimavinnuna sína þá hefði hann legið til baka, haldið markinu hreinu, beitt skyndisóknum og notað föst leikatriði. Svipað og lið gerðu allt síðasta síson á móti LFC ágætis árangri (sbr Crystal Palace / Swansea)

    Byrjaðu að bera virðingu fyrir andstæðingnum og þeim stað sem leikurinn fer fram á.

    En hvað gerist, þeim var slátrað. 6-1 í hálfleik hefði getað verið eðlileg staða. Var enginn hægri bakvörður i Hoffenheim liðinu í dag?

    Annars flottur leikur hjá okkar mönnum. Þetta sýnir samt muninn á deildunum. Liðið í 4.sæti á Englandi basically sópar liðinu í fjórða sæti í Þýskalandi út með töluverðum yfirburðum.

    Það eru bara 2 góð lið í Þýskalandi en ca 7-8 á Englandi.

    Verðum að fá Barcelona á morgun. Og jafnvel Celtic!

  20. Ágæt athugasemd Tryggvi. En mér líður betur með Sanchez á bekknum í CL heldur en Woodburn, Konchesky frekar en Klavan og Özil getur tekið við af Lucas sem gæjinn sem tekur við öllum skítnum frá okkur stuðningsmönnunum.

  21. Sælir félagar

    Ég biðst afsökunar á að hafa gleymt að þakka Hannesi Daða fyrir flotta skýrslu og skemmtilegt klipp fyrir þá sem ekki sáu leikinn og okkur hina líka. Já ég er sammála því að gaman yrði að fá Barca í riðlinum sem við lendum í. Þetta lið í þessum gír mun rúlla Katalónunum upp hvort sem CP verður með þeim eða okkur.

    Það er nú þannig

    YNWA

  22. Flott færsla, gaman að sjá að Kop.is hafa styrkt hópinn. Liverpool mætti gera smávegis af því líka áður en glugginn lokar. 🙂

    Can, Firmino og Mané spiluðu upp á 9/10 í kvöld, Henderson og fleiri mjög flottir líka. Firmino er suddalega góður fótboltamaður, duglegur og með frábæran fótboltahaus. Sóknargeta liðsins er á pari við þau bestu í boltanum en vörnina þarf að styrkja.

    Semja við Can ASAP og halda Kútnum. Fá inn einn alvöru miðvörð og einn á miðjuna. In Klopp we trust!

  23. Sælir félagar

    Ég stal þessu af Facebook og þetta eru leikdagar Liverpool í meistaradeildinni á þessu ári. Þarna koma öll lið til greina í hverjum potti nema ensku liðin. Þau geta aldrei lent saman í riðlakeppninni.

    TBC (Pot 2) vs. Liverpool – September 12/13
    Liverpool vs. TBC (Pot 4) – September 26/27
    Liverpool vs. TBC (Pot 1) – October 17/18
    TBC (Pot 1) vs. Liverpool – October 31/November 1
    Liverpool vs. TBC (Pot 2) – November 21/22
    TBC (Pot 4) vs. Liverpool – December 5/6

    Það er nú þannig

    YNWA

  24. Mané virðist alltaf vera að hugsa um að fá sér blund áður en hann vinnur heimsmedalíuna í því að koma manni á óvart og vekja alla veröldina. Dýrlegur.

  25. Ég vildi að ég væri 12 ára aftur að spila fótbolta, þá myndi ég héðan í frá alltaf fagna eins og Firmino! ???

  26. Ósammála Kobba með Salah. Hann er akkúrat það sem okkur hefur vantað… mann á fjær sem klárar færi, eins og markið í gær eftir skotið frá Gini.

    Hraði hans gefur svo hinum framherjum okkar kost á að sækja upp með allt að 2 færri varnarmönnum á móti sókninni. Vettvangur gærdagsins var akkurat fullkominn fyrir hann að reyna nýja hluti og þróa sinn leik.

    Hrikalega mikilvægur og var flottur í gær.

  27. Sammála Kobba með frammistöðu Salah í gær. Síðustu 20 mínúturnar, þegar hann fékk boltan, þá vissi maður hann mundi tapa honum. Hann virkaði alveg búinn á því. En mér fannst hinsvegar augljóst að hann var að reyna og var að leggja sig 100% fram. Það fannst mér mikilvægast. Hann var líka alltaf til staðar til að taka við boltanum. Margt jákvætt. Væri gaman að sjá hvað hann hljóp og eins sendingar. Er einhver með tölfræðina frá í gær?

  28. #33 – mögnuð frammistaða hjá Firmino. Kom mér á óvart svona eftirá þar fyrir að hafa horft á leikinn. Þetta er greinilega mikill heili.

    Ég ældi samt eiginlega yfir lýsendunum í samantektinni þegar mörk eru skoruð. Heyra þeir ekki í sjálfum sér?

  29. Maður leiksins var augljóst Fimino, Can var góður og maður hefur áhyggjur á að hann fari frítt í vor, en firmino getur vel spilað í stöðu CU10 með stureage fyrir framan sig. það þýðir alls ekki að það á að selja CU10, ef það verður gert munu Barca sækja síðan Fimino og Mane næsta sumar. það þarf að koma Barca í skilning um að þeir eru uppeldisstöð fyrir okkur, ekki öfugt. Liverpool er mun stærra lið en Barca.

    Það skiptir engu máli þó að Coutihio sitji heima í stofu og horfi á leikina í sjónvarpinu, liklega samt meira á Barca en Liverpool, það er bara prninsipp mál að selja ekki, ég hef alltaf stutt Barca í spænsku deildinni, núna er það breytt, ég vona innilega að þeir tapi öllum leikjum sínum í vetur. Bara get ekki stutt lið sem beitir svona óheiðalegum aðferðum við leikmannakaup. fólk heur verið að líkja þessu við okkar nálgun á Van Dike eða Keita, en fyrir alla sem villja sjá er þetta allt önnur nálgun hjá okkur, við höfum ekki talað við þessi félög, allavega opumberlega eða í fjömiðlum svo vikum skiptir.

  30. Geggjuð frammistaða. Nagelsman las þetta einvígi kolrangt og mætti með vitlaust gamplan á Anfield. Þvílíkur unaður að horfa á þennan sóknarleik, maður lifandi !

    Ég tek undir bæði gagnrýni og lof á Salah. Mér finnst hann passa í það sem Klopp er að byggja upp og hann hefur klárlega flotta eiginleika. En mér finnst hann enn vera að finna sína fjöl og vanta einhverja millimetra upp á að vera á sama stað og kollegar hans í framlínunni. Ég hef trú á að það muni koma. Hrós á bæði Moreno og TTA fyrir þetta einvígi í heild sinni. Moreno virkar í alvörunni eins og ný signing.

    Karma segir að við séum að fara á Camp Nou 12 eða 13 September, það er bara þannig.

  31. Sæl og blessuð.

    Skemmtilegt hvað hlutirnir eru að jafna sig svona í byrjun tímabils. Törnin hefur verið hressileg og allt lagt undir. Smám saman fara gæðin vaxandi, miðjan er að koma til og auðvitað má gera ráð fyrir að mörk leki inn þegar gegenpressan er svona rosaleg frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Að mæta liðinu í þessum ham hlýtur að vera eins og að fara í hringinn í mma eða viðlíka!

    Nú er bara að stækka hópinn – helst að hafa tvo frambærilega fyrir hverja stöðu.

  32. Já sæll…hvað þetta var góður leikur.

    Ég ætlaði ekki að horfa og kom mér vel fyrir inni í svefnherbergi og valdi mér góðan og rómantískan þátt…ég horfði aldrei á þáttinn því mínir menn æddu inn á völlinn með látum og jörðuðu Hoffenheim strax og það var aldrei neinn efi í mínum huga þeir voru komnir til að vinna.

    Ég sat því við hlið eiginmannsins og horfði á drengina okkar spila flottan bolta og mér leið eins og ég væri að horfa á mín eigin börn spila ég var svo stolt af liðinu hvernig þeir sýndu umheiminum og ákveðnu félagi á Spáni að þeim væri nákvæmlega sama hvað væri sagt og hvað væri að gerast þeir væru bara að spila fótbolta og hafa gaman af.

    Rómantísk tónlist er ekki spiluð á Anfield á Evrópukvöldum heldur bara þungarokk og þar fer fremstur hljómsveitarstjórinn Jurgen Klopp.

    Mikið er gaman að fylgjast með þessu liði þessa daga maður er aldrei slakur og dreymir dagdrauma heldur er maður stressaður og ómögulegur og er með martraðir þá sjaldan sem maður getur slakað á. En mæ ó mæ hvað þetta er gaman alla vega í dag.

    Þangað til næst
    YNWA

  33. Frábært að sigra svona og það nokkuð auðveldlega. Flestallir með góðan leik en ef veikleikir liðsins eru til staðar þá hafa þeir komið í ljós í þessu fyrstu leikjum tímabilsins. Sóknarleikurinn almennt frískur og þó á liðið Couthino pg Lallana inni. Hef ekki miklar áhyggjur af framhaldinu, einhvernveginn finnst mér að þeir sem næstum því sprungu út í fyrravetur spryngi út í vetur. Meistaradeildin framundan og nú er þurfa leikmennirnir að girða sig vel í brók og sýna flestum að Liverpool er Evrópukeppnislið.

  34. Það fyrsta sem kom uppí hugann í gær var hvað Hoffenheim væri slappt lið… en svo fattaði ég að þetta er alls ekkert lélegt lið, þeir litu bara svona illa út á móti Liverpool.
    Svo er það bara sunnudagurinn næst þar sem 2 varnarlið munu mætast… eða þannig. Grunar að Wenger sé strax byrjaður að kenna dómaranum um

  35. Stress? Var stress? Var aldrei nein hætta með þetta – við dómineruðum þennan leik frá upphafi.

  36. Neikvæða partinum af manni finnst freistandi að skrifa stóran hluta af þessu á reynsluleysi hins unga þjálfara Hoffenheim. En þá verður maður um leið að viðurkenna að við höfum oft séð liðið spila af þessum krafti áður. Öll mörkin sem Liverpool skoraði í gær voru sömu gerðar og mörkin sem við höfum verið að skora frá því að Klopp tók við. Þetta er einfaldlega kerfið að virka. Með Mane og Salah sköpum við svo enn fleiri færi og fáum þau úr fleiri áttum.

    Það eina sem virðist virka gegn okkur er að leggja rútunni og bíða. Ég er ekki einu sinni svo viss um að miðverðirnir okkar séu jafn slakir og manni finnst á stundum. Mörkin sem við fáum á okkur í þessu kerfi koma þegar herjað er á varnarleik liðsins sem heildar. Í föstum leikatriðum og þegar við leyfum andstæðingnum að þjappa okkur upp að eigin vítateig.

    Á meðan við getum sýnt þessa orku sem liðið bjó yfir í gær, þarf það ekki að vera vandamál.

  37. Sælir félagar

    Ég var að hlusta á Evrópuinnkastið hjá fotbolti.net og þar er Arsenal maður sem væri alveg til í Mané og Salah en skilur ekki hvað Firmino er að gera í liðinu. Ég held að sá vesalings maður, sem telur sig vera sérfræðing í fótbolta, ætti að horfa á klippuna sem fylgir skýrslunni og þar að auki klippuna frá Eyjólfi #33. Ég hefi alltaf talið að Firmino sé afar mikilvægur hlekkur í baneitraðri sóknarlínu Liverpool og það sýnir sig meðal annars í þessum klippum.

    Þessi “sérfræðingur” skilur ekki hlutverk Firmino’s og ótrúlegt framlag í hverjum leik þó hann skori ekki mikið sjálfur. Það er vaxandi hluti stuðningmanna Liverpool sem er að átta sig á þessu líklega vegna þess að þeir horfa á flesta leiki liðsins og sjá þennan þindarlausa og ótrúlega útsjónarsama leikmann vera bókstaflega á fullu leik eftir leik. Framlag hans til liðsins verður seint ofmetið.

    Það er nú þannig

    YNWA

  38. Sammála því að Bobbinho bar af í gær.
    Skil ekki hvernig Sky Sports gat valið Can sem mann leiksins…

  39. Frábært að fá meistaradeildina aftur! Þvílíkir leikir sem við fengum, það virðist ætla að verða að minnsta kosti spennandi að horfa á Liverpool leiki í vetur með þessari spilamennsku. Frábær sóknarleikur sem erfitt er að verjast og svo mætir vörnin afgangi ef svo má að orði komast, allt sem hefur komið fram áður.

    Eitt sem ég vil nefna. Eftir þriðja markið okkar fannst mér koma fram smá vandamál sem mér finnst að liðið þurfi að geta leyst betur. Það er kannski algjör klikkun að tala um vandamál í stöðunni 3-0 en mig langar samt að koma þessu á framfæri. Í stöðunni 3-0 var eins og liðið vissi ekki alveg hvernig átti að spila leikinn, hvort planið er að halda áfram að keyra á þá og reyna að ná inn fleiri mörkum eða að reyna að halda boltanum og spila skynsamlega og láta klukkuna tikka. Mér fannst eins og liðið hafi hægt aðeins á sér, eins og eðlilegt er í stöðunni, en þá fannst mér vanta einhvern á miðjuna sem getur tekið það að sér að stjórna spilinu og hægja almennilega á leiknum. Í staðinn droppuðu menn aðeins niður en náðu ekki að stjórna leiknum almennilega og Hoffenheim fannst mér stjórna spilinu á tímabili og náðu að búa til nokkur alvöru marktækifæri (og skoruðu).

    Þetta eru kannski eiginleikar sem PC og Lallana hafa og geta leyst betur en þeir sem spiluðu á miðjunni í gær. Þetta gæti virkað sem smávægilegt vandamál, en ég held að með leikjaálaginu í vetur muni koma leikir þar sem liðið mun ekki hafa orkuna í svona sýningu eins og við fengum að sjá í gær og menn þurfa að geta unnið sigra þar sem Liverpool nær að “gíra leikinn niður” eftir að ná forustunni. Annars má vera að þetta sé bara partur af Klopp hugmyndafræðinni og að þetta verði endalausir háspennuleikir þar sem gripið verður í hár og fyrir andlit fyrir framan sjónvarpið í allan vetur.

    Ég verð svo að minnast á Mané. Þvílík barátta og kraftur í þessum manni. Var ennþá að djöflast á fullu í varnarmönnunum fram á 90. mínútu þegar þetta var löngu orðið öruggt. Hann var góður á síðustu leiktíð en mér finnst hann vera magnaður núna. Virðist láta heyra í sér og nýtur sín betur í liðinu.

    Ég hef svo engar áhyggjur af Salah, hann er að sýna góðar rispur en það hefur ekki gengið nógu vel hjá honum að klára færin. Vantar bara herslumuninn sem kemur með fleiri spiluðum leikjum.

  40. Sammála di Stefano með Hoffenheim. Þetta er alls ekki lélegt lið eins og þeir sýndu ca 2-3 í þessum leik. Spiluðu t.d flottan fótbolta í báðum mörkunum sem þeir skoruðu en burt séð frá því þá spila þeir einfaldlega bara jafn vel og okkar menn leyfðu þeim.

    Glæsilegur leikur þar sem Mané sýni nákvæmlega hvað hann getur og Firmino er náttúrulega alger perla. Hann minnir mann alveg rosalega mikið á Suarez. Hann er beinskeittur, tekur menn á, fíflar menn uppúr skónum og vinnur svo til baka oftar en ekki.

    Can var rosalegur í þessum leik og kom virkilega á óvart. Hann var annað slagið orðinn fremstu maður í pressu og þá sá maður hver yfirferðin á honum er.
    Þessi rulla sem hann var að spila í gær, frjáls staða á miðjunni, er sniðin fyrir hann.

    Restin af liðinu spilaði vel þó svo að Lovern og Moreno tóku annað slagið smá “brain fart” þá kom það ekki að sök.

    Nú þurfa menn að leggja allt í sölurnar og fá VvD inn og þá er ég sáttur.
    Ég skil að menn séu að kalla eftir miðjumanni en ég er bara ekki sammála. Í gær voru fjórir hreynræktaðir miðjumenn í hópnum , Gini, Emre, Jordan og Milly. Ef við förum svo útí sókndjarfa miðjumenn, sem voru ekki að spila, Coutinho, Lallana og mögulega Firmino. Sóknarmennirnir eru alveg nokkrir og tel ég Mané og Salah þar inn ásamt Studge, Solanke, Origi og Ings. Og svo er Kent, Woodburn og Ejaria utan þessarar upptalningar.

    Bjartir tímar framundan 🙂

    YNWA – In Klopp we trust!

  41. Zlatan áfram í Utd og hópurinn þeirra orðinn rosalegur. Vonandi að okkar menn svari með króki á móti bragði!

  42. #100% samála 45

    Firminho er algjör lykilmaður í okkar liði. Hann er ekki þessa Rush/Fowler týpa (varð að nota liverpool kalla) sem skora fullt af mörkum, eru réttir menn á réttum stað á réttum tíma og það er bókað að þeir skora fullt.

    Firminho er að spila í kerfi sem leggur mikið á fremsta mann varnarlega. Hann er sá sem stjórnar pínu pressuni og þarf því að vera klókur. Því að um leið og hann ræðst til atlögu þá verða samherjar hans að fylgja með.
    Hann er teknískur, getur skapað færi og hann skorar líka. Hann er líka alltaf til í að taka hlaup fyrir liðsfélagana sem er mjög vanmetinn þáttur í að búa til pláss fyrir aðra í kringum sig.
    Ef Lallana eða Coutinho fara að detta í liðið á þessu ári þá held ég að Firminho sé ekki nafnið sem dettur út. Heldur er það einn af Can, Henderson, Winjaldum eða jafnvel Salah (ef þeir tveir koma báðir inn þá erum við með algjört lúxusvandamál í sóknardjörfum leikmönum).

    Eitt er víst að við munum vera með liverpool veislu í vetur. Fullt af mörkum(reyndar eitthvað í okkar mark) og mikið drama svo að spennið beltið 🙂

  43. #47 sigkarl 100% sammála.
    Þetta eru menn sem spá bara í mörkum og hafa ekki hundsvit á því hvernig leikmaður Firmino er eða hvað Klopp ætlast til af honum.

    Firmino er að bera af í liðinu og menn sem sjá þetta ekki eru annað hvort ekki að horfa á leikina og eru bara bulla og þvaðra uppí loftið.
    Firmino á meira minna þátt í öllum mörkum hvort sem það er bein stoðsending eða sendingin á undan.

    En maður getur nú sosem alveg dottið í þessa grifju sjálfur með menn úr öðrum liðum en menn ættu ekki að vera tjá sig nema hafa horft á hvernig menn eru að spila og Firmino er mjög mikilvægur bæði sóknarlega og varnarlega.
    Það er orðið mjög erfitt að segja hver er bestur og mikilvægastur en það er jafnvel bara gott þar sem það þýðir að liðið er gott þetta er ekki bara 1 eða 2 sem halda öllu uppi.

  44. Gaman að SSteinn hafi fengið forsetaverðlaun UEFA og er að aðstoða við meistaradeildardráttinn.

    Vel gert SSteinn!

  45. Drátturinn í UCL í beinni og þetta gæti verið verra, þótt Sevilla-draugurinn kunni að elta okkur. Miðað við spilamennskuna í gær líður manni þó eins og okkar lið geti unnið öll önnur lið. Hefði verið gaman að mæta Barcelona en við gerum það bara í úrslitaleiknum.

    YNWA

  46. Glataður riðill verð ég að segja.

    Koma í keppni þeirra bestu og fá þessi lið, með fullri virðingu fyrir þeim og alls ekki að segja að Liverpool sé í góðum málum.
    Heldur leiðinlegt að fá ekki skemmtilegri andstæðinga.

  47. #57 Ásmundur þessi skemmtilegu lið bíða okkar í útsláttarkeppninni. þá verður stuð

  48. Liverpool
    Spartak Moskva
    Sevilla
    Maribor

    Frekar óspennandi en við eigum klárlega að komast áfram og helst að vinna þennan riðil.

  49. Hvaða hvaða , við erum í pottinum og fáum nokkur skemmtileg Champions leage kvöld. Er hægt að biðja um eitthvað meira ? Sé ekki betur en að það ættu að vera þokkalegur möguleiki að fara áfram úr riðlinum þó ekkert sé gefið í þessu. Fáum væntanlega sterka andstæðinga í 16 liða úrslitum ef við komumst áfram. Ég ætla klárlega að njóta meðan þetta varir. Núna er fínt að spyrja Arsenal aðdáendur í hvaða riðil þeir hafi dregist ?????? rétt ENGAN.

  50. Sölvi #56 – Við erum ekkert að fara að mæta Barcelona í úrslitaleiknum, það er ekki séns að þeir komist þangað.

  51. Hvernig er hægt að vera Liverpool aðdáandi og væla yfir þessum riðli? Ef ykkur finnst hann ekki spennandi horfið þá bara á aðra riðla. Liverpool ætti að eiga góða möguleika og það er það sem skiptir máli.

  52. # 63 Tek undir það Helgi J. að Barcelonamenn eru ólíklegir til að komast þangað. Í öllum sviptingum líðandi sumars virðist okkar lið eiga alla möguleika á því að komast fram úr dalandi Katalónum. Það má nú samt ekki vanmeta þá allt of mikið, ennþá með gott lið. Stemningin í okkar liði held ég hins vegar að sé miklu betri akkúrat núna og það þarf að halda haus, standa í lappirnar og sýna heimsbyggðinni að Liverpool sé alvara með því að vera mætt aftur á stóra sviðið.

Byrjunarlið gegn Hoffenheim

Hópferðir / Dregið í riðla Meistaradeildar