Langþráð Meistaradeildarkvöld á Anfield!

Gamla góða klisjan um „úrslitaleik”, mikilvægasta leik tímabilsins og allt það er eitthvað sem við heyrum – og jafnvel notum sjálf – mjög mikið. Sjónvarpsstöðvar, spekingar og aðdáendur eiga það til að over hype-a leiki til að magna upp stemminguna í kringum þessa leiki.

Á miðvikudaginn kemur Hoffenheim á Anfield í seinni leik liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar í mikilvægasta leik tímabilsins, hreinum úrslitaleik um það hvort að þessi viðureign sé eini smjörþefurinn af langþráðri þátttöku okkar í Meistaradeildinni þetta árið.

Tvö skipti á einhverjum átta leiktíðum sem liðið hefur tekið þátt í keppninni og í bæði skiptin hefur liðið valdið vonbrigðum og þá sérstaklega nú síðast þar sem liðið átti mjög slæman sumarglugga og hreinlega skeit upp á bak í riðli sem liðið átti að komast upp úr. Nú fær félagið tækifæri til að bæta fyrir síðasta skiptið og gera betur, sumarglugginn gekk ekki vel til þessa en liðið er í góðri stöðu eftir seinni leikinn.

2-1 sigur á útivelli er fínt veganesti inn í seinni leikinn en auðvitað er heill hellingur eftir og ansi margt getur farið úrskeiðis á 90 mínútum í fótbolta svo menn þurfa augljóslega að vera fókuseraðir í leiknum enda mikið í húfi fyrir félagið. Aðdráttarafl, staða, heiður og ansi margir peningar eru í húfi – ég ætla að teygja mig aðeins hérna en hugsanlega gæti þessi leikur haft eitthvað að segja til um hvort að félagið muni kaupa fleiri leikmenn í sumar og hugsanlega eitthvað með gæði þeirra að gera.

Fyrri leikurinn var afar opinn og má vel búast við því sama í þessum leik. Hoffenheim liðið getur sótt, vill sækja og þarf að sækja enda þurfa þeir tvö útivallarmörk til að eiga séns í þessari viðureign sem gæti nú reynst Liverpool nokkuð vel þar sem hugsanlega gæti skapast aftur töluvert pláss fyrir aftan varnarlínu þeirra sem þeir Salah og Mane gætu nýtt sér vel. Líkt og þeir gerðu í síðasta leik, þá sérstaklega Salah sem hefði nú alveg klárlega átt að gera betur og koma sér á blað.

Jurgen Klopp hvíldi töluvert af leikmönnum í síðasta leik en þeir Trent Alexander Arnold, Dejan Lovren, Alberto Moreno, Emre Can og Mohamed Salah fengu allir pásu þegar liðið lagði Crystal Palace í fínum leik af hálfu Liverpool. Ég reikna fastlega með að flest allir þessir leikmenn muni snúa aftur í byrjunarliðið í þessum leik – helsta spurningin að mínu mati yrði líklega hvort Moreno eða Andy Robertson myndu byrja í vinstri bakverðinum. Moreno byrjaði fyrstu tvo leiki leiktíðarinnar en Robertson byrjaði gegn Crystal Palace og var feykilega frískur og stóð mikil ógn af honum, það gæti því vel verið að hann fengi að halda sinni stöðu.

Þó hann hafi nú ekki gert, að mínu mati, sérlega mikið í þeim leik en þá snéri Daniel Sturridge aftur eftir að hafa meiðst við að skora stórglæsilegt mark í æfingarleiknum gegn Bayern Munchen. Hversu svakalega er það týpískt Sturridge og súmmerar feril hans hjá Liverpool ansi ágætlega upp. Hann kemur líklega aftur inn í hópinn og þá á bekkinn ásamt Solanke sem virðist vera kominn fyrir ofan Origi í fæðukeðjunni og átti stóran mark í sigurmarki Sadio Mane gegn Crystal Palace.

Það verða engir Coutinho, Lallana eða Clyne í leiknum eins og við er að búast en hingað til höfum við ekki fengið neinar slæmar fréttir af meiðslum innan hópsins svo við verðum bara að krossleggja fingur og vonast eftir því að við fáum engar slíkar á næstu dögum.

Hoffenheim róteruðu nú aðeins í sínu liði líka um liðna helgi í 1-0 sigri á Werder Bremen svo þeir eru líka klárlega með mest allan sinn fókus á þessum leik, enda eins og segir áðan hreinn úrslitaleikur um framhald þessara félaga í keppninni og ansi mikið af peningum og öðrum þáttum í húfi fyrir bæði liðin.

Miðja okkar manna hefur ekki beint verið sannfærandi hingað til og vantar klárlega einhvern eins og Coutinho eða Lallana inn í hana til að gefa henni betra jafnvægi, hraða og hjálpa liðinu að snúa fyrr vörn í sókn. Þar sem Can hvíldi í síðasta leik er nokkuð líklegt að hann komi aftur inn í liðið en hinar tvær stöðurnar eru kannski aðeins meira spurningarmerki enda hvorki Henderson né Wijnaldum tekist að finna taktinn. Það myndi nú ekki koma mér sérlega á óvart ef Milner héldi sömuleiðis stöðu sinni í liðinu frá því um síðustu helgi en hann átti frábæra innkomu í fyrri leiknum og var mjög mikilvægur partur í spili Liverpool í gegnum miðjuna á móti Palace – töluvert meira en til dæmis Wijnaldum sem átti aðeins 23 af um það bil 770 sendingum Liverpool, sem gerir aðeins um það bil 3% sem er nú afar lítið fyrir miðjumann í liði sem var töluvert meira með boltann. Það kæmi mér því ekki á óvart ef hann myndi víkja fyrir Can.

Klavan stóð sig vel gegn Crystal Palace en heilt yfir var nú ekki mikið reynt á varnarlínu liðsins í þeim leik svo ég reikna nú fastlega með að hann og Joe Gomez fari aftur á bekinn fyrir þá Alexander Arnold og Lovren. Framlínan ætti nú að vera sjálfvalin með þá Mane, Salah og Firmino.

Það verður frábært að fá aftur að heyra þemalag Meistaradeildarinnar heyrast aftur við flóðljósin á Anfield og ég vona svo fjári mikið að þetta verði fyrsta af ansi mörgum í vetur. Við erum með hálfan fótinn inn í keppninni og þurfum að klára þennan leik, þetta er allt í okkar eigin höndum og tek ég bara ekki neitt annað í mál en að við verðum í pottinum á föstudaginn þegar dregið verður í riðlakeppnina. Það er allt undir á miðvikudagskvöld.

Koma svo!

39 Comments

  1. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitun ÓH hún er fín og fullt af upplýsingum sem gott er að hafa. Það er eins og ÓH segir ekkert nema sigur í þessum leikjum samanlögðum og allir verða að leggja sig 110% fram Annað er bara ekki í boði. Spái 2 – 2 og málið er leyst.

    Það er nú þannig

    YNWA

  2. Einn af úrslitaleikjum þessarar leiktíðar byrjar snemma. Mér líður eins það sé apríl, maí. Koma svo, hef ekkert að betra að segja og já þá er best að þegja.

  3. Þetta verður líklega sama lið og síðast gegn þeim og eiginlega bara spurning um hvort að Robertson byrji á kostað Moreno.
    Þetta verður virkilega erfit verkefni og er mjög mikilvægt að byrja skynsamlega því að tíminn vinnur með okkur og er óþarfi að hleypa þessu uppí endana á milli.
    Hafa liðið bara mjög þétt því að við vitum að þeir þurfa að sækja og við erum frábærir í þeiri stöðu að keyra á lið með okkar hröðu þrjá frammi.

  4. Takk fyrir flotta upphitun!

    Mignolet, TAA, Matip, Lovren, Robertsson, Milner, Can, Henderson, Salah, Mane, Firmino.
    2-0 fyrir okkar mönnum, bæði mörk í seinni hálfleik eftir skyndisóknir. Henderson finnur sig og verður maður leiksins.

  5. Mér sýnist að Barcelona ætli að gera sitt til að koma í veg fyrir að Liverpool komist áfram í meistardeildina með enn einu tilboðinu í PC rétt fyrir leikinn.Hvílikt skítapakk sem stjórna þeim klúbbi og þeir eru á leið í mál við Neymar. Ég segi bara eins og Megas.Asakið á meðan ég æli.
    En því miður fyrir þá held ég að okkar menn séu það miklir fagmenn að þeir mæti bara enþá grimmari til leiks í kvöld og klári dæmið.

  6. Málið er bara að þeir eru ekki vanir að fá nei fyrir svar og hvað þá að missa af leikmönnum sem þeir eru búnir að ákveða að fá.

    Það að hafa misst Neymar gerir þá svo örvæntingafulla með 4dja boðið núna þetta er fáranleg upphæð sem þetta er komið uppí en engu að síður yrðum við fátækari þetta tímabil það eru engir peningar að fara koma í staðinn fyrir Coutinho en þetta fer að verða komið gott allur þessi sirkus og maður farinn að vona þetta endi sem allra fyrst.

  7. Öll tilboð í menn sem á að halda á að hafna án þess að kíkja á þau þegar águst er kominn, fyrir águst væri í lagi að skoða tilboð í svoleyðis leikmenn en ekki á loka undirbúningi, hvað þá þegar leiktíðin er byrjuð.

    það skiptir engu máli þó það þýðir að CU10 spili ekkert á leiktíðinni, og sama hvernig tilboðið er þá á að svara strax “nei takk og ekki hafa samband aftur”, innan við fimm mínutum eftir að tilboðið berst.

  8. Tommi #8
    Mér finnst stjórn LFC ætti að þýða þennan texta Megasar á ensku gera þetta að sínu sjálfvirka svari við öllu sem kemur frá FCB, sama á umbann.

    Liverpool verður að fara í leikinn til að vinna hann, ekki til að verja einhverja forustu því þá er voðinn vís. Spái 1-0 sigri okkar. YNWA

  9. Sæl og blessuð

    Ef ég fengi einhverju ráðið myndi ég þiggja þessar 138 milljónir og aka hlægjandi í bankann eins og þeir Finnur og Óli hér um árið. Heimskan og örvæntingin ríða ekki við einteyming í þessu barselóna liði. Sjálfur hef ég stundum setið yfir leikjum með þeim knáa Kútinjó og furðað mig á framtaksleysi hans, þegar mest á reyndi. Í markaleysinu á móti South’ton sárvantaði okkur skapandi leikmenn sem gátu snúið þessu patti í sigur. Hvað gerði hann þá? ekki neitt.

    Auðvitað búa gríðarlegir hæfileikar í pilti, en svona aurar (ef smáa letrið rýrir þetta tilboð ekki of mikið…) eru í boði þá finnst mér að nú eigi liðið að þakka sínum manni fyrir þénustuna og nýta féð til uppbyggingar og frekari leikmannakaupa. Það verður biðröð fyrir utan skrifstofu Klopparans í fyrramálið eftir sigurinn á hoffenheim.

    Ég myndi ekki einu sinni bera saman Kút og Mané, og líklega má bæta nokkrum nöfnum við þá upptalningu ef tekin eru með atriði eins og vinnsla, fórnfýsi oþh.

    Selj’ann: 138 mills eru algerlega nýjar forsendur í málinu!

  10. Algjörlega sammála því að selja hann á þennan pening. En finnst samt Liverpool full rólegt á leikmannamarkaðinum. En kannski eru menn að bíða eftir því að sjá í hvorri evrópukeppninni verður spilað á leiktíðinni. En ég spái 2-1 fyrir okkar mönnum.

  11. Flott upphitun Óli Haukur.
    Við vinnum þetta í kvöld og höldum glaðir/glöð inn í veturinn.
    Mikið væri ég nú glaður ef einhver talnaglöggur snillingur gæti snúið upphæðinni sem er verið að tala um fyrir Kútinn okkar yfir í íslenskar krónur og þá helst í bókstöfum því ég er ekki viss um að ég hafi gáfnafar til að skilja þetta öðruvísi.

  12. Sæl öll.

    Ef kvöldið í kvöld verður eitthvað í líkingu við það þegar okkar menn slógu Villa Real úr Evrópudeildinni 2016 þá mun Hoffenheim eiga í erfiðleikum. Ég var á Anfield það kvöld og mun líklega aldrei aftur upplifa annað eins kvöld, enn þann dag í dag fær ég hroll og tár í augun bara við að rifja upp …þetta var svo magnað ,og svo unnu okkar menn 3-0 og sökktu gula kafbátnum örugglega í Liverpool . Þetta var algjörlega magnað

    Ég hef tekið þá ákvörðum að forðast alla miðla þar til 1.september ég bara get ekki meira af þessu rugli. Barcelona hefur verið mitt lið en svei mér þá ef það er ekki komin smá skítalykt af þessu liði og þeirra stjórnunarháttum.

    Ég vil að við fyrirgefum Couthino og tökum honum fagnandi þegar/ef hann kemur skokkandi inn á völlinn . Sýnum honum að hann gengur aldrei einn og þá mun hann vonandi skjóta okkur ofar í stigatöfluna.
    Hann er að viðurkenna mistök sín,biðjast afsökunar og ef hann gerir það þá er hann meiri maður en ef hann gerir það ekki. Það eiga allir skilið annað tækifæri…líka Sakho.

    Ég trúi því eins og alltaf að mínir menn vinni með því að skora fleiri mörk en andstæðingurinn.
    Heilsu minnar vegna treysti ég mér ekki að horfa á leikinn (of hár blóðþrýstingur og of mikill æsingur) en ég mun sitja inni í herbergi og garga á betri helmingin og stökkva fram þegar mínir menn skora..vona að ég þurfi að vera á hlaupum í kvöld.

    Þangað til næst
    YNWA

  13. Coutinho á að vera rosa sorrý yfir öllu þessu hvernig Barcelona hagar sér en svo les maður fréttir að hann bað Barca um að koma með 4 tilboðið. Sorry ég er svo alveg búinn að afskrifa þennan mann, ef ekki meiddur í baki þá orðinn allt í einu veikur. Hirðum þennan pening, Van Dijk og Draxler inn og vonandi einhver miðjumaður.

  14. Ef rétt er að tilboð FCB eru með greiðsludreifing og miklum árangurstengingum þá er varla mikið vit í samþykkja þau. Þó að kúturinn sé góður vinnur hann líklega ekki Ballon d´or (reyndar skil ég ekki vinsældir þeirra verðlauna) á ferlinum.

    Eins og staðan er þá er til fé fyrir nýjum leikmönnum. Þeir leikmenn sem Klopp vill fá hafa hins vegar ekki viljað koma (Brandt) eða þeirra klúbbar hafa komið í veg fyrir viðskiptin (Keita og vvd).

    Þannig að það má efast um hvort það væri yfirhöfuð skynsamlegt að samþykkja jafnvel fáránlega hátt tilboð þar sem það er mjög ólíklegt að nokkur kæmi inn í staðinn. Við ætlum okkur auðvitað hluti á öllum vígstöðvum.

  15. Rosalega hæpið held ég hjá fjölmiðlum að tala um þessi tilboð Barca sem £118m eða núna £138m virði. Það er ef allar klásúlur ganga upp og ef það sem fram hefur komið í fjölmiðlum eru þær flestar töluvert langsóttar.

    Hef meiri áhuga á hvað Barca er tilbúið að borga strax og hvað stór partur af þeirri fjárhæð er staðgreiddur. Liverpool ætti ekki að taka neitt tilboð í mál sem inniheldur einhverjar klásúlur. Barca var að selja Neymar og þar voru engar klásúlur í samningnum.

  16. #15 : sýnist þetta vera tæpir nítján milljarðar íslenskra króna 🙂

  17. 101 m núna og 37 árangurstengt

    Standa áfram í lappirnar. Prinsipp.
    Þótt það væru 200 m

  18. Fjölmiðar og/eða Barca að eiðileggja einbeitingu okkar fyrir leikinn í kvöld en vonandi að leikmenn og liðið haldi fókus og skili okkar liði í riðalkeppni CL.

    Einar Matthías – Barca var ekki að selja Neymar eins og ég skildi þetta, hann keypti upp samninginn sinn og það ekki hægt nema með fullnaðargreiðslu sem hann fær væntanlega til baka frá PSG gegnum krókaleiðir (framhjá skatti).

    Ég held virkilega að LFC sé ekki að fara að selja núna og við erum ekki að fara að fá neina drauma leikmenn inn heldur (VVD og Keida). Þó svo að FCB sveifli seðlum og við myndum falla fyrir því þá efa ég stórlega að Leipzig eða Southampton gefi sig yfir einhverjum risa tilboðum svona stuttu fyrir lokun gluggans. Samt bind ég smá vonir við VVD (dagdraumar).

  19. Barcelona var auðvitað að selja Neymer, hvernig svosem það er matreitt ofan í okkur af eigendum PSG. Barcelona fær þennan pening eins og þú segir og það eru engar árangurstengdar klásúlur sem þeir eru að bjóða Liverpool.

  20. Æ, eigum við ekki bara að vorkenna FCB. Fyrir nokkrum árum var þetta besta lið í heimi en núna er þetta ekki svipur hjá sjón. Enginn komið úr la masia, þeir sem hafa verið keyptir hafa ekki verið nógu góðir og það hefur algjörlega verið vanrækt að endurnýja liðið. Vantar algjörlega dýpt og gæði. Allar líkur á því að þeir þurfi að sætta sig við titlalaust ár í tveggja liða deildinni þarna suðurfrá.

  21. Leikjafræðin í þessu er held ég þannig að Barca getur ekki unað við óbreytta stöðu. Við blasir að liðið er engan veginn rétt mannað til að halda í við Real Madrid. Barca sökkar hreinlega þessa dagana á öllum sviðum. Að ná að landa Couthino er ekki aðeins spurning um leikmanninn heldur einnig til að halda virðingu sinni.

    LFC getur ekki breytt sinni stöðu vegna þess að ef Couthino er seldur setur það félagið í vanda gagnvart þjálfara, leikmönnum, styrktaraðilum og áhangendum. Að hið heiðurskrýnda og sigursæla LFC sé orðið að uppeldisstöð fyrir “stærri” félögin er ekki góður stimpill á nokkurn hátt.

    Því ríkir pattstaða þar sem Barca sækir á LFC með nýjum og nýjum tilboðum til að freista þess að fá FSG til að taka ákvörðun sem breytir stöðu beggja. FSG getur ekki tekið tilboði sem Barca setur fram, hversu hátt sem það kann að vera, nema að svokallað Nash jafnvægi náist, þ.e. að nýja staðan sé í jafnvægi.

    Við sjáum að margir hér í þessum þræði virðast sáttir við að selja Couthino á 138m en voru ósáttir við hin tilboðin. Spurning hvort FSG meti það svo að þessi rosalega upphæð sé þess virði að rjúfa pattstöðuna?

    Spyr sá sem ekki veit.

  22. Eina sem myndi rjúfa pattstöðuna af hálfu Liverpool, er jafngóður leikmaður á lausu sem væri tilbúinn að skrifa undir. Sýnist á svörum Klopp að það sé hægara sagt en gert og málið því útrætt….Hann er ekki til sölu

  23. #28. Jafngóður leikmaður sem að við og markaðurinn sættir sig við í ljósi upphæðarinnar sem við fáum fyrir Couthino væri ágætis nýtt jafnvægi kannski?

    Það er szmt aldrei að fara að gerast og þ.a.l. ætti að vera útilokað að Couthino verði seldur ef báðir aðilar eiga að fá sína bestu leikjafræðilegu útkomu.

    En hvað er ég að bulla þetta: Money talks, bullshit walks.

  24. Þessi gluggi stefnir í algjört klúður frá A til Ö
    og ekkert að marka sem FSG lofaði okkur eða Klopp og ef að svo við missum PC til Barcelóna þá er eiginlega öll leiktíðin í uppnámi.

  25. Fsg ætti bara ad gera kauptilbod i Barcelona klùbbinn, fyrir hvern leik sem their spila. 700m punda – 701m punda and so on. Byrja svo med auglysingar um borgina “make barca great again”

  26. Það hefði verið snilld að fá fleiri góða leikmenn í sumar en ég er samt mjög ánægður með Salah. Var spenntur að fá hann á sínum tíma þegar Chelskí stal honum en hef grun um að hann eigi eftir að verða frábær í vetur !

    Spái því að hann rúlli inn amk einu marki í kveld….í góðum heimasigri !
    :O)

    YNWA

  27. Selja Couthinho það er enginn ómissandi! það er að segja ef það er keypt rétt inn fyrir peninginn sem fæst fyrir hann, en ég treysti Klopp fullkomlega í leikmannamálum. Þessi upphæð er að verða rosaleg við gætum fengið tvo jafnvel þrjá virkilega góða menn í staðinn til að auka breiddina hjá okkur. En að leiknum þá fer hann 2-1 fyrir LFC

    Koma Svo!

  28. Byrjunarliðið staðfest:

    Liverpool: Mignolet, Alexander-Arnold, Matip, Lovren, Moreno, Henderson, Can, Wijnaldum, Mane, Salah, Firmino.

    Subs: Karius, Klavan, Gomez, Milner, Solanke, Robertson, Sturridge.

  29. Flott lið, vonandi verður aðeins setið til baka og keyrt svo yfir þá með skyndisóknum. Þeir þurfa sigur og það ætti að henta okkur nokkuð vel.

    Spái þessu 3-1

  30. Mér finnst alltaf eins og hver leikur Moreno sé úrslitaleikur fyrir hann. Um framtíð hans hjá Liverpool.

  31. Ég hefði alveg verið til í að sjá Wijnaldum hvíla sig á bekknum í kvöld – alveg týndur í fyrstu leikjunum.

    Annars verður þetta hörkuleikur og mín spá er að við lendum undir,en klárum þetta í seinni 3 – 1 með mörkum frá Mané og Salah.

  32. @Robbi í nr. 30 Hverju var Klopp eða FSG búin að lofa okkur. Það er eitt að lesa e-ð slúður um hina og þessa sem eiga að vera á leiðinni frá hinum og þessum svokölluðu háttskrifuðu pennum sem skrifa fyrir slúðurblöðin og nota allt sem þeir kunna til að fá lesningu ”Svokallað CLICKBAIT” og að taka því sem einhverri yfirlýsingu frá Klopp eða FSG . Það eina sem Klopp og FSG hafa látið hafa eftir sér varðandi leikmannakaup er sú staðreynd að hópurinn sé þunnur miðað við það leikjaálag sem er í vændum ef við ætlum að ná árangri í öllum þeim keppnum sem við tökum þátt í. Það vita allir söguna um Keita og VVD, Keita er einfaldlega ekki til sölu núna sama hvað við gerum og svo er það sorgarsagan með VVD sem að klúðraðist vegna ”klaufaskapar” Klopp. Þeir sem komið hafa inn eru þeir Salah, Solanke og Robertson sem líta allir mjög lofandi út og eiga eftir að spila stórt hlutverk hjá okkur um komandi ár. Klopp hefur margsagt það í viðtölum í sumar að ef hann nái ekki að kaupa þá leikmenn sem hann telji að styrki byrjunarliðið og henti hans leikstíl best þá komi hann EKKI til með að rjúka og kaupa bara EINHVERN eingöngu til að friða stuðningsmenn, þá muni hann frekar reyna að nýta þann efnivið sem þegar er til staðar hjá klúbbnum og gera úr þeim betri leikmenn með réttri þjálfun. Svo vil ég bara minna þig á það að glugginn er ekki lokaður ennþá og allt getur gerst fram að lokun hans.

Podcast – Risastór vika

Byrjunarlið gegn Hoffenheim