Spá kop.is – fyrri hluti

Já krakkar.

Sá tími er kominn aftur – mótið handan við hornið og þá sáum við auðvitað drengirnir. Við ætlum ekki að bíða eftir gluggalokum að þessu sinni með spána, heldur ætlum við að demba okkur núna í hana þó að ljóst sé að á næstu 22 dögum munu liðin taka einhverjum stakkaskiptum.

Eins og áður röðum við liðunum í sæti 1 – 20 og stigatalan sem liðin geta fengið er svo í öfugri röð þar sem fyrsta sætið fær 20 stig og síðasta sætið 1 stig.

Með innkomu nýrra penna erum við nú tíu sem að spáum svo að hæsta mögulega stigatala út úr spánni er 200 stig og sú minnsta mögulega 10 stig.

Dembum okkur í þetta. Í dag skoðum við sæti 11 – 20 í deildinni og á morgun förum við í efri helminginn. Frá botni og niður.

20.sæti Huddersfield 19 stig

Nýliðarnir undir stjórn svaramanns Klopparans verða neðstir í deildinni. Þetta er jú nokkuð klassískt þar sem að liðið sem að kemst upp í gegnum playoffs er nú yfirleitt það sem að við setjum neðst í röðina í spánni. Stjórinn David Wagner hefur náð mögnuðum árangri með Jórvíkurskírisliðið sem hefur lifað í skugga nágranna sinna í Leeds og Sheffield lengi en er nú með þeirra bestu í fyrsta sinn síðan 1972. Árangur liðsins byggðist á gríðarlega öflugum varnarleik og frábærrar frammistöðu Danny Ward sem við lánuðum þeim og því hefur sumarið þeirra farið í það að styrkja sóknarleikinn. Stærstu kaup þeirra eru í sóknarlínunni, franski framherjinn Steve Mounie kom frá Montpellier og Tom Ince fyrrum LFC unglingur fær séns í efstu deildinni eftir að þeir keyptu hann frá Derby. Við teljum Huddersfield þó ekki ráða við þetta skref og þeirra bíði fall beint niður aftur.

19.sæti Brighton 24 stig

Aðrir nýliðar lenda í næst neðsta sæti í okkar spá. Þeir eru nú í fyrsta sinn á meðal þeirra bestu síðan 1984 eftir margra ára toppbaráttu í næst efstu deildinni. Lærisveinar Chris Hughton náðu loksins langþráðum áfanganum og ætla sér stóra hluti. Borgin er jú stór ferðamannaborg og ber toppdeildarlið. Þeir opnuðu nýjan völl árið 2011 sem ber nafnið American Express stadium og tekur tæplega 31 þúsund áhorfendur. Þeir hafa spilað léttleikandi fótbolta undanfarin ár og þeir ætla sér að halda í þann stíl. Enn sem komið er hafa þeir ekki bætt við mörgum leikmönnum en eru orðaðir við ansi hreint marga og þá ekki síst lánsmenn frá stóru liðunum. Markvörðinn Matthew Ryan og hollenski miðjumaðurinn Davy Propper eru stærstu kaupin enn sem komið er. Það er líkt og með Huddersfield, við teljum þetta skref vera of stórt fyrir Brighton menn og hlutskipti þeirra verði að falla niður strax. Hins vegar er þetta lið að ná góðum grunni og við höldum að það verði oftar í efstu deild á næstu árum. Stutt stopp núna.

18.sæti Swansea 29 stig

Við gefum okkur það vissulega að Gylfi Sigurðsson yfirgefi Svanina í sumar og þó að þeir fái mikinn pening fyrir hann þá verður skarðið alltof stórt enda dró hann welska vagninn næstum því einn síðasta tímabil. Þjálfararót undanfarinna ára og eigendaskipti eru alls ekki að hjálpa neitt til og það er í raun alveg ótrúlegt að þeir hafa í raun ekki stigið inn á markaðinn ennþá, einungis spænskur miðjumaður, Rogue Mesa, mættur til leiks. Paul Clement náði fínum tökum á liðinu en það var fyrst og fremst samstarf Gylfa og Llorente sem hélt þeim uppi. Vera Swansea í efstu deild verður ekki lengur um sinn, það er einfaldlega of mikið af veikum hlekkjum til að því verði bjargað fyrir gluggalok.

17.sæti Burnley 32 stig

Segja má að Burnley séu efstir í fjögurra liða fallbaráttukeppninni hjá okkur. Þessi fjögur lið voru í neðstu fjórum sætunum hjá níu pennum af tíu og skera sig því nokkuð úr í fallbaráttunni í deildinni. Burnley eru kynlegir kvistir í sumar, hafa selt lykilmenn eins og Keane og Gray en hafa í staðinn sótt reynslumenn eins og Phil Bardsley og Jon Walters, einu stóru kaupin Jack Cork frá Swansea. Þeir hafa ungan og skemmtilegan stjóra í Sean Dyche og náðu frábærum árangri á heimavelli, þar sem nær öll stigasöfnun þeirra fór fram og þeir voru í raun aldrei í alvöru fallhættu. Það verður upp á teningnum að okkar mati en þeir munu halda sér naumlega uppi, líklega í stressi alveg fram á síðustu umferð. Þeir eiga þó örugglega eftir að fara inn á markaðinn áður en glugginn lokar og gætu þá mögulega farið aðeins ofar.

16.sæti Watford 60 stig

Eins og sjá má kemur nú nokkuð stökk frá hörðustu fallbaráttunni og upp í liðin sem verða neðan við miðju en líklega ekki í alvöru fallbaráttu. Fyrst er þar nefnt til sögunnar liðið sem verður mótherji okkar manna í fyrstu umferð, Watford. Við erum flestir að horfa til þess að stjórinn þeirra er býsna spennandi, Portúgalinn Marco Silva var ekki langt frá því að halda drepleiðinlegu Hull City liði uppi á síðasta ári og við höfum trú á þessum strák. Watford hafa styrkt sig í gegnum sumarið. Hinn endalaust efnilegi Will Hughes kemur loks inn í efstu deild, þeir festu kaup á Tom Cleverley sem var hjá þeim í láni, keyptu Brassann Richarlison frá Fluminese á kantana og nú nýjast sóttu þeir stóran framherja til að vera með Deeney frammi í Andre Gray frá Burnley. Liðið er gríðarlega sterkt líkamlega og mun byggja á því sinn leik. Það mun skila þeim öryggi og áframhaldandi veru í efstu deild sem byggir klúbbinn upp áfram, en sennilega ekki endilega búa til sterkan lýsingarorðaflaum um leikstílinn.

15.sæti Bournemouth 72 stig

Það er ekkert lógískt við það að lið með 12000 manna heimavöll frá snoturri strandarborg sé að hefja sitt þriðja tímabil í deild ensku risanna. Það sem meira er, við teljum þá munu sigla ansi lygnan sjó lærisveina Eddie Howe í Bournemouth. Talandi um spennandi stjóra þá er hann nú sennilega stærsta von Breta um að eiga upprennandi stjóra. Hann er gríðarlega sterkur taktískt og hefur sett saman lið sem er hlaðið orku og fullt af skemmtilegum leikmönnum, það lið sem við fengum fæst stig af í fyrra, aðeins eitt talsins. Þeir sóttu sér markmann til Chelsea þar sem Begovic var og hann mun styrkja þá töluvert. Nathan Ake kom til þeirra á ný og nú varanlega frá sama liði og Jermain Defoe valdi þá úr stórum hópi liða til að leika með. Ævintýrið er ekkert að klárast og litla liðið með stóra hjartað verður áfram í deildinni að lokinni þessari leiktíð.

14.sæti WBA 78 stig

Hvernig toppar maður það að hafa Tony Pulis sem stjóra? Jú, ráðum fokking GARY MEGSON sem aðstoðarstjórann. Hvað getur maður sagt, varnarstíllinn og háloftaboltinn mun fá enn meiri vigt en áður og var nú nóg samt. Pulis fellur aldrei og mun alltaf verða Liverpool FC erfiður, það er bara þannig. Án vafa minnst spennandi liðið í deildinni, Pulis tókst það á mettíma með WBA. En þeir verða öruggir um sæti sitt. Sjitt, get ekki skrifað meira um þá!!!

13.sæti Stoke 83 stig

Mark Hughes sest sæti ofar en fyrirrennarinn Pulis hjá Stoke. Hughes hefur verið að reyna að breyta leikstílnum í áferðarfallegri fótbolta en hefur kannski ekki náð þeim árangri sem hann hefur ætlað sér. Hann hefur verið mjög duglegur að hreinsa út leikmenn úr gamla stílnum þar sem Bardsley, Walters, Whelan og Arnautevic hafa róið á önnur mið. Í staðinn hafa þó ekki hrannast inn nöfn, hann fékk Darren Fletcher til sín frá WBA og síðan Kurt Zouma í láni frá Chelsea. Þessa dagana fara víða sögur af þeim nöfnum sem Hughes vill fá til Stoke og þar er lykillinn að því sæti sem við setjum hann hér í. Liðið er orðið rútinerað á meðal þeirra efstu og getur klárlega bætt í leikmannahópinn sinn og mun gera það. Sérstaklega vantar þá að finna markaskorara, það hefur þá vantað nú um langa stund. Ef Hughes nær ekki í sterka leikmenn fyrir lokun gluggans gæti veturinn hins vegar orðið Stoke býsna erfiður.

12.sæti Crystal Palace 85 stig

Velkomnir til nútímans Palace! Eftir magnaðan stjóralista (Warnock – Pulis – Pardew – Allardyce…er þetta bara hægt!!!) beygðu þeir skarpt á aðra braut í vor þegar þeir sóttu Frank de Boer frá hollenska stórliðinu Ajax og tilkynntu um leið að þeir ætluðu sér stóra hluti á komandi árum. Sammy okkar Lee er enn að aðstoða og mikið er ég nú ánægður fyrir hans hönd með breytingu á yfirmanni. Enn sem komið er hefur de Boer verið að horfa til þeirra leikmanna sem hann er nú með og hefur keppst við að hrósa mönnum eins og Zaha, Cabaye og Benteke. Úrslitin í sumar hafa svolítið verið út um allt og hann virðist ekki alveg vera kominn með það lið sem hann ætlar sér að hafa. Þó hefur það verið gefið út að leikmennirnir fái margir fram í janúar til að sanna sig og að gríðarlega mikil vinna hafi farið fram á æfingavellinum því de Boer ætlar sér stærri hluti og stærra lið, metnaðarfullur fullkomnunarsinni þar á ferð. Suður London drengirnir eru með magnaðan heimavöll sem mun hjálpa þeim til að sigla lygnan sjó um miðja deild þetta árið…og byggja klúbbinn upp til að verða topp tíu material á næstunni.

11.sæti Newcastle 96 stig

Tvö orð. Rafa Benitez. Á hans persónu byggjum við þessa spá. Rafa er hundósáttur með sumarið hingað til og hefur ekki fengið þá leikmenn til sín sem hann óskar sér til að taka þátt í baráttunni í efri hlutanum. Einungis Jacob Murphy (frá Norwich)og Florian Lejeune (frá Eibar) eru að bætast við í leikmannahópinn sem er í lykilhlutverki og við það þarf vissulega að bæta. Newcastle hafa verið jójólið nú í nokkra áratugi og þurfa einfaldlega að fara algerlega að óskum stjórans síns til að ná þeim árangri sem liðið og áhangendur verðskulda. Rafa hefur áður stigið frá félagi sem ekki hefur farið að óskum hans og því teljum við líklegt að við leikmannahópinn bætist og galdrakarlinn okkar góði eyði þessari leiktíð í að ná stöðugleika í efstu deild og það muni takast. Ef hann hins vegar fær ekki stuðning gæti hæglega farið illa. Sennilega stærsta spurningamerki vetrarins???

Þetta var fyrri helmingur spárinnar okkar, seinni hlutinn birtist fyrri part fimmtudags áður en upphitun fyrir fyrsta leik dettur inn!

3 Comments

  1. Takk kærlega fyrir þetta – virkilega gaman að fá smá sýn á hin liðin og ekki síðra að vera með 10 penna 🙂

  2. Alltaf gaman að lesa þetta, sýnir þó hvað tíminn flýgur að mér finnst ég hafa verið að lesa síðustu spá ykkar nánast í gær.

  3. Var búið að búa til Fantasý deild fyrir okkur?
    Endilega shaera kóðanum takk 🙂

Verðlækkun á kop.is ferð!

Spá kop.is – síðari hluti