Liverpool þarf meira

Eftir að Liverpool keypti Salah hefur ekki nógu margt jákvætt gerst hjá félaginu og eftir því sem tíminn líður fer ónotatilfinningin að verða verri og verri. Það er alveg ljóst að þessi gluggi er mjög erfiður rétt eins og allir aðrir leikmannagluggar en hann má ekki enda með Balotelli panikki eða afsökunum enn eina ferðina.

Ekki að það skipti öllu máli þá hefur Liverpool undanfarin ár verið búið að klára stóru kaupin á þessum árstíma. Auðvitað hafa leikmenn komið í ágúst en þetta er hópurinn sem hefur komið í þeim mánuði síðan 2012.

Joe Gomez var að meiðast enn eina ferðina, hann misstir af síðustu leikjunum fyrir mót og verður því ekki klár gegn Watford. Sakho er geislavirkur í huga Klopp og staðan er því þannig að Liverpool er að fara inn í mót einum meiðslum frá því að Klavan verði í miðverði í fyrsta leik. Ekki veðja gegn því með Matip og Lovren sem okkar fyrstu kosti ennþá. Vörnin hefur verið aðalvandamál Liverpool síðan FSG keypti félagið og þeir hafa einfaldlega ekki gert nóg til að laga það. Klopp veit hvað vantar, hann vill þétta miðjuna og bæta við miðverði.

Vonandi tekst að landa Van Dijk og þó hann leysi ekki öll vandamál liðsins væri hann rosaleg styrking. Með hann í verkfalli er ljóst að öll nótt er ekki úti enn eins og virðist vera í máli Keita en gleymum ekki að Liverpool baðst afsökunar á að hafa talað við hann fyrr í sumar og lofaði að reyna ekki frekar við hann. Liverpool hefur ekki þorað að prumpa í átt að Southamton síðan og fyrir mér er alveg jafn líklegt að þessi saga endi illa fyrir Liverpool.

FSG til varnar þá virðist félagið vera tilbúið að borga vel í sumar, þeir hafa auðvitað keypt dýrasta leikmann í sögu félagsins nú þegar en það er bara enganvegin nóg á þessum markaði. Liverpool var bara fjórða besta liðið í fyrra og liðin sem voru í samkeppninni á toppnum hafa nánast öll styrkt sig töluvert meira nú þegar (og eru ekki hætt).

Ekki er það Moneyball sem er að halda aftur af félaginu, innkaupastefna Liverpool undanfarin ár passar ekki sérstaklega vel inn í Moneyball hugmyndafræðina. Southamtpon er dæmi um lið sem er að spila Moneyball frábærlega. Þeir kaupa t.d. Lovren, Mané og Van Dijk 1-2 árum áður en þeir hámarkast í virði og selja (vonandi í tilviki VvD) til Liverpool á hæstu upphæð sem þessir leikmenn koma líklega til með að kosta á ferlinum. Það voru alveg raddir sem spurðu afhverju Liverpool væri t.d. ekki á eftir Van Dijk og Wanyama þegar þeir fóru frá Celtic. Það vantaði menn í þær stöður sem þeir spila jafn mikið þá og nú. Liverpool reyndi vissulega að kaupa Salah áður en hann sprakk út en kaupir núna á “hámarksvirði” 2-3 árum seinna. Naby Keita er ennþá ýktara dæmi, hann er bara búinn að vera eitt ár í Þýskalandi. Kannski er Liverpool ekki nógu gott að finna þessa óslípuðu demanta því eins og kaup félagsins í ágústmánuði frá 2012 sýna hefur alveg verið reynt að finna svona leikmenn. Eins er erfiðara að springa út og fá nauðsynlegan spilatíma hjá Liverpool en Southampton.

Klopp hefur unnið kraftaverk áður á ferlinum og er alveg með gott lið í höndunum. En samkeppnin er líka meiri en hann hefur áður glímt við. Hér eru t.a.m. tölur sem ágætt er að hafa í huga þegar verið er að hype-a upp vissa stjóra. Líklega væru aðeins fleiri stjórar flokkaðir með í þessari elítu hefðu þeir aðgang að sömu fjármunum (og leikmönnum). Guardiola þurfti t.a.m. ekki að kaupa neinn af Xavi, Initesta, Puyol eða Messi. Hjá Bayern tók hann við ríkjandi Meistaradeildarmeisturum og liði sem vann Þýsku deildina nánast því fyrir áramót. Samt hafa fáir eytt meiri pening á ferlinum sem þó er ekki langur.

Coutinho og bestu menn Liverpool

Önnur ónotatilfinning yfir þessum sumarglugga er svo auðvitað Coutinho. Undanfarin ár höfum við of oft séð þennan dans byrja einmitt svona og nánast alltaf enda á einn veg (Gerrard er eina undantekningin sem mér dettur í hug eftir 2009). Ég gjörsamlega þoli ekki það hugarfar margra að það sé nánast lögmál að ef annað af spænsku risaliðunum vilji leikmann er vonlaust að koma í veg fyrir það. Sérstaklega ef um er að ræða leikmenn frá S-Ameríku eða Spáni. Það er bara alls ekkert lögmál og ef þessir leikmenn eru í nógu góðu liði vilja þeir jafnan ekkert fara. Það er bara alls ekki svo langt síðan Liverpool var ekkert að missa þessa menn til Real og Barca eða annarra stórra liða og ef Liverpool vill komast í þennan hóp aftur er fyrsta verk að hætta að selja þeim bestu menn liðsins. Liverpool er komið aftur í Meistaradeildina, er partur af langríkustu deild í sólkerfinu og þarf bara alls ekkert að selja leikmenn gegn sínum vilja. Fuck you we are Liverpool var viðkvæði félagsins í gamla daga og það hugarfar vantar aftur.

Liverpool er í svipaðri stöðu og Leipzig í sumar hvað þetta varðar, svona ef við horfum fram hjá því að Liverpool er svona hundraðsinnum stærra félag með töluvert meira en 8 ára sögu og er ekki rekið meira sem auglýsing fyrir Orkudrykk. Þetta er Meistaradeildarlið sem þarf fjárhagslega ekki að selja leikmenn og vill það alls ekki. Red Bull ætlar að gera Leipzig af risaliði og er á góðri leið með það.

Southampton vill auðvitað ekki heldur selja sína bestu menn og þarf þess ekki en ég held að það sé erfiðara að selja núverandi bestu mönnum þeirra Southampton sem Meistaradeildarklúbb eða liðs í titilbaráttu á næstu árum heldur en það er hjá t.d. Liverpool og Leipzig. Eins ráða þeir ekki við að greiða þessum mönnum samskonar laun og eru í boði hjá stærri liðum.

Barcelona er auðvitað miklu hærra skrifað en Liverpool eftir undanfarin áratug, en lengra þarf ekki að horfa aftur í tímann til að finna Liverpool lið sem keppti sem jafningi við þessi lið og gekk vel. Það er tilgangslaust að halda starfsemi félagsins áfram ef metnaðurinn er ekki að komast aftur í þennan hóp og vera þar. Liverpool er það stórt á alþjóðavettvangi að þeir eiga að vera þarna og FSG er komið á eftir áætlun með að koma Liverpool á sinn stall á ný. Þeir voru skýrir með þetta þegar þeir keyptu félagið 2010.

Hicks og Gillett voru alvarlegt krabbamein sem félagið er vonandi að ná sér af, það er rétt rúmlega ár síðan liðið spilaði síðast úrslitaleik í Evrópukeppni og er núna í dauðafæri að komast á ný inn í Meistaradeildina. Afhverju í fjandanum ætti félagið að taka sölu í Coutinho í mál núna? Það á ekki heldur að þurfa að vera þannig að ef tekst að halda honum í sumar verður að leyfa honum að fara að ári. Frekar væri að bæta við fleiri leikmönnum honum samboðnum svo hann pressi ekki stíft á að fara. Liverpool þarf að fara hugsa svona, Leipzig gerir það nú þegar t.a.m.

Það er svo önnur umræða hvort Spænsku risarnir verði endilega ríkjandi áfram næsta áratuginn líkt og þeir hafa verið? Messi er þrítugur og gullaldarkynslóð La Masia er ýmist hætt eða um og yfir þrítug líka. Uppaldir leikmenn Barca í dag undir 25 ára eru enganvegin í sama klassa og Xavi, Initesta og Puyol. Hvað þá Messi. Suarez er einnig í kringum þrítugt og ef Neymar er að fara eru þeir að missa framtíðar arftaka Messi. Barcelona á ansi hressilegt verk framundan í kynslóðaskiptum.

Hjá Real er Ronaldo orðin 32 ára, hann og Messi hafa verið svindlkallar undanfarin áratug. Auðvitað verða þessi lið áfram meðal þeirra bestu en það er ekkert lögmál að ensku liðin geti ekki risið upp á ný. Það voru alltaf ensk lið í úrslitum Meistaradeildarinnar fyrir 6-12 árum, jafnvel bæði liðin. Afhverju ætti það ekki að geta gerst á ný?

80 Comments

  1. Allir leikmenn hafa sitt verð og Coutinho er engin undantekning. Ef spánverjarnir vilja borga silly price fyrir Coutinho, þá má hann fara svo lengi sem peningurinn fer í að styrkja hópinn. Coutinho er góður en alls ekki ómetanlegur og það er vel hægt að finna annan jafnvel betri í hans stað.

    Það er einnig ekkert lögmál að allt fari á annan endan eftir að félög missa eða láta frá sér stór nöfn. Eftir að Owen fór þá vann LFC meistaradeildina árið eftir. Eftir að Torres fór þá kom Suarez.

    Ég vil ekki missa Coutinho en það er langur vegur frá því að hann sé ómetanlegur.

  2. Þegar Liverpool seldu Owen voru þeir samt með hörkulið með rosalega reynslu í evrópukeppnum og að keppast um titla af og til. Persónulega finnst mér Coutinho svona nokkurn veginn ómetanlegur, hann hefur háklassa spyrnu & sendingargetu og fáir leikmenn í heiminum skora jafn mikið af mögnuðum langskotarmörkum eins og staðan er í dag, sem er fáranlega mikilvægt því við lendum oft í því að leikmenn eru þreyttir og að skíta á sig og svo setur kúturinn eitthvað magnað mark sem tryggir okkur stig eða peppar menn upp í að halda áfram

    Ég mun alltaf vera ósáttur við sölu hans nema hann fari á 150 milljonir og við myndum nota það allt í 1 leikmann af sama kalíberi og þeir eru ekki margir og ennþá færri til sölu. Ef eitthvað glænýtt lið getur haldið leikmanni sem hefur staðið sig vel á einu tímabili og hafnað fáranlegum upphæðum (Leipzig og Keita að sjálfsögðu) ættum við að geta það sama við leikmann sem hefur sannað sig sem einn besti miðjumaður heims seinustu ára.

    Já við fengum Suarez i stað Torres en það að við náum að fylla skarðið frá okkar bestu mönnum hefur verið algjör undantekning seinustu ár og svo náðum við nú ekki að halda Suarez lengi.

  3. Hnaut um setninguna ” Liverpool er komið aftur í meistaradeildina” ég veit ekki betur en að við eigum eftir að taka þátt í umspili til að komast í riðlakeppnina og það er nú ekki eins og við höfum verið að rúlla upp úrslitaleikjum síðustu ára undir Klopparanum? Er það etthvað að fara að breytast?

    Maður spyr sig?

  4. Ég er á því að erfiðleikar Liverpool á leikmannamarkaðnum herði bara mannskapinn.
    Menn standa þétt saman.
    Liðið þarna í nágrenninu fer bara í nammibúðina og lætur greipar sópa og vaða svo út og suður á bullandi sykurtrippi.
    Meiri yess faktor í okkar mönnum þegar hlutir ganga upp.

    En eitthvað má fara að gerast. Ef Coutinho fer, þá mætti landa Pulisic. En hvernig sem það fer þá verður eitthvað sterkt að koma inn varnarlega.

    Ef þessi gluggi lekur niður í leiðindi þá hægist á þróuninni. Tvö grjót í varnargarðinn munu færa okkur skrefi framar og það verður að takast.
    YNWA

  5. Ég þakka bara Fowler fyrir að við erum með stjóra með hreðjar og lokaákvörðunarvald í leikmannakaupum sem þorir að segja nei við 90 milljónapunda boði í Coutinho eins og fréttir herma að Barca hafi boðið í gær eða fyrradag.

    Klopp hefur alltaf þótt þrjóskur. Það sást hjá Dortmund þegar hann hélt óbilandi trú á leikmenn sem áttu lélegan leik leik eftir leik. Við sjáum þetta best núna með afstöðu sinni til Sakho. Þannig að ef Hr. Klopp segir á blaðamannafundi að hann Coutinho sé ekki til sölu og orðið ekki sé ekki hægt að túlka á mismunandi vegu þá hef ég svo gott sem 0 prósent áhyggjur á því að Coutinho muni fara í sumar.

    Svo vinnum við bara deild og meistaradeid, sýnum Barca hver sé sellingclub næsta sumar og borgum upp klásúluna í samningi Neymar. Þá geta þeir spilað saman á Anfield næstu 8 ár.

  6. Merkilegt að lesa pistil hérna um innkaupastefnu Liverpool þar sem algerlega er horft fram hjá eigendum félagsins sem hafa komist upp með að selja alla sína bestu leikmenn síðan þeir eignuðust klúbbinn. Núna þegar þeir meia að segja létu leka þvi í Liverpool Echo að það ætti að eyða 200 millum í góða leikmenn var sett á svið sápuópera sem stendur enn þrátt fyrir að Klopp hafi sagt að allt væri næstum frágengið þegar hann fór í frí.
    Ég ætla bara að vona að menn drullist til að ljúka samningi við Can sem er að mínu áliti orðinn mikilvægasti leikmaðurinn í liðinu, hvílíkt sem þeim dreng hefur farið fram og ef hann skrifar undir ætti að láta fyriliðabindið á hann því hann er bara svoleiðis no nonsens maður.
    En ef að FSG landa ekki topp varnarmanni þá held ég að þeirra tími sé liðinn .

  7. Coutinhio má einfaldlega ekki fara, það sendir þau skilaboð að við erum áfram útungunarstöð fyrir “stærri lið”, “stærri lið”??? það er ekkert stærra lið, það á að vera hugarfarið. Ef hann fer þá eru það skýr skilaboð að það er enginn metnaður til endurbyggingar á rústum Hicks og Gillett , það eru skilaboð um að við ætlum ekkert að vera stæðsta lið evrópu, sen auðvitað er alltaf markmiðið hjá Liverpool, markmið sem var á lögnum tíma náð og viðhaldið. Þar villjum við aftur vera.

  8. #1

    Myndir þú vilja nefna 3 leikmenn sem eru jafn góðir og Coutinho og Liverpool myndi eiga séns á að kaupa?

  9. Sælir félagar

    Þó Coutinho sé góður er hann ekki ómetanlegur. Ég vil benda á að Gylfi hefur betri tölfræði en hann bæði á heildina litið (síðasta leiktíð) og á móti efstu 6 liðunum í deildinni. Að selja Coutinho á 100mp+ og kaupa Gylfa á 50mp ætti því að vera fundið fé. Nei ég segi bara svona og er annars bara góður.

    Það er nú þannig

    YNWA

  10. Ef…. (og það er stórt EF) LFC selja Coutinho þá ætla ég rétt að vona að samningar og kaupverð um eftirmann séu allt saman frágengið. Á markaðnum eins og hann er í dag yrði fáránlegt að selja fyrst og kaupa svo.

  11. Ef LFC ætlar að taka sig alvarlega næsta vetur þá þarf að styrkja vörnina …. það er alveg morgunljóst. Leiðinlegt samt fyrir Gomez að meiðast og svo er líka Clyne meiddur.

    Það að taka sig alvarlega er að þola álagið sem getur fylgt meistaradeildinni sem og að enda í topp 4 í Englandi.

    Bíð spenntur eftir útspili Klopp og vona að þrjóskan sem hefur einkennt hann verði honum ekki að falli.

  12. Sammála Sigkarli að Coutinho er ekkert ómetanlegur. Þetta er leikmaður sem kom fyrir lítinn pening og hefur vaxið og heldur betur skilað til baka. Þegar hann er on, þá er hann geggjaður. En hann er fjarri því að vera ómetanlegur og ef einhver er til í að borga yfir 100þ punda verðmiða fyrir hann, þá er allt í lagi að skoða það.

  13. hæ hæ

    Veit einhver klukkan hvað leikurinn við Bayern er í dag/kvöld?

    Það er eins og það vanti þenan leik í “Næsti leikur” hlutann hér fyrir ofan?

  14. Ég komst eiginlega ekki lengra í lestrinum en “Joe Gomez var að meiðast enn eina ferðina….”.
    Getur einhver sagt mér hvers eðlið það er? Finn ekkert um meiðslin á netinu eða aðalsíðunni.

    En ef menn spá eitthvað í “Moneyball” þá mætti ætla að Coutinho væri flokkaður innan þess. Keyptur á ca 8 minnir mig og er alveg klárlega virði 150 í dag.

    VvD kemur á endanum, ég trúi ekki öðru. Þetta er klárlega leikmaður sem passar vel inní okkar leikstíl og er algert naut. Sé ekki marga taka hann og Matip í nefnið.
    Keita er ekki lengur inní myndinni og þess vegna myndi ég vilja sjá Klopp fara á eftir Renato Sanches. Þar er leikmaður sem á bara eftir að verða betri með tímanum.

    Væri gaman að sjá hann linka með Salah, Mané, Firmino og Coutinho. Það væri alveg æðislegt.

    En við skulum sjá hvernig staðan er 10. Ágúst því ég hef fulla trú á því að það komi inn einn leikmaður fyrir þann tíma.

    YNWA – In Klopp we trust!

  15. Islogi #13 og Haukur Heiðar #16 og efalaust fleiri.

    Audi cup, allir leikirnir eru sýndir beint á ITV4 og með klukkutíma seinkunn á ITV4+1

    Leikirnir í dag 16:45 og 19:30

    Sami tími á morgunn fyrir þriðja sætið 16:45 og 19:30 eru úrslit.

    ITV4 er aðgengilegt á gervihnettinum ASTRA , einnig á netinu, frítt á filmon.com undir UK LIVE TV

  16. Haukur Heiðar #18

    Jú það er rétt hjá þér, LFCTV sýnir leikina með Liverpool.
    Það hafði farið framhjá mér.

  17. Ég held að Cuti spyrji sig kvelds og morgna, á ég að flakka til Barca. Fyrir hvað, launalækkun? Af því að allir brsilíumenn vilja spila á Spáni?. Held ekki. Cuti fer ekki fet, heldur tryggð við sinn klúbb sem er LFC. Barca er hnígandi, meðan LFC er rísandi, haldi þeir sínum mönnum, og bæti við skv. þörfum þá er allt mögulegt. Hastala vista.
    YNWA

  18. Ég sá leik Leipzip – Sevilla og fannst Keita ekkert sérstakur í þeim æfingaleik, en eitthvað sér Klopp við hann sem ég sá ekki. Leipzik pressaði um allan völl en það bar ekki árangur sem erfiði. Kannski hefur sumarglugginn haft þau áhrif á Keita að hann spilaði með hangandi haus. Hann er aðeins 22 ára. Hann kemur næsta sumar!
    Ef VVD kemur eða einhver annar heimsklassa miðvörður þá er ég ánægður. Ég held að okkar lið sé komið á þann stað sem það var í denn þegar þeir keyptu aðeins tvo klassa leikmenn á hverju ári. Að mínu áliti hefur Liverpool keypt í sumar tvo klassa leikmenn og einn sem bankar sterklega á framherja dyrnar.
    Takk fyrir pistilinn og ykkur sem hafa skrifað á síðuna. Alltaf gaman að lesa.

  19. Ég gleymdi að minnast á það að nú er sogkraftur Spánarrisana ekki eins kröftugur vegna þeirra herferðar sem skattaeftirlitið er í vegna útlendinganna sem spila á Spáni.

  20. Markaðurinn í dag er svo rosalega erfiður að það er útilokað að replace’a Coutinho þegar það er svona stutt í mót. Ég hef það á tilfinningunni að Klopp sé ekki að fara að kaupa bara til að kaupa. Ef hann fær ekki target númer eitt þá bíður hann bara eftir næsta glugga.

    Það er algjör óþarfi að vera að eyða stórum fjárhæðum í leikmenn sem eru ekki að fara að styrkja liðið. Klopp vill greinilega bara bæta við einum eða tveimur heimsklassa mönnum og ef það er ekki möguleiki þá verður reynt aftur í janúar eða næsta sumar.

    Auðvitað er svekkjandi að fá ekki fleiri leikmenn sérstaklega þegar hin toppliðin eru öll að styrkja sig meira ein við nema kannski Arsenal og Tottenham en Liverpool er með gott lið og ég held að við eigum eftir að vera með nóg til að vera að berjast um deildina og vera með gott lið í meistaradeildinni.

    Ef að van Dijk kemur þá er ég nokkuð sáttur með þessa 4 sem koma inn og að sjálfsögðu er crucial að Coutinho verður áfram.

  21. Hvernig á að vera hægt að telja leikmannahópi Liverpool trú um að við stefnum á toppinn ef við seljum okkar lang eftirsóttasta leikmann, leikmann adf þeim gæðum sem við gætum líklega aldrei keypt af öðru liði.
    Og jú, við erum í meistaradeildinni. Ekki í riðlakeppninni ennþá, en vissulega í meistaradeildinni.

  22. #9 = Ég fer bráðum að verða pínu þreyttur á þessu. Gylfi Sigurðsson er frábær leikmaður. En Gylfi Sigurðsson er ekki einu sinni hálfdrættingur á við Coutinho og það ætti í raun að vera hverjum manni ljóst.

  23. Varðandi Meistaradeildina þá sagði ég orðrétt í pistilnum “og er núna í dauðafæri að komast á ný inn í Meistaradeildina”. Ekki að hún skipti alveg öllu, Man Utd og Arsenal ná alveg að sannfæra góða leikmenn um að koma þó þau séu af og til ekki í Meistaradeildinni, en þeir fara í þau lið vitandi að það er ekki viðvarandi ástand. Liverpool hefur átt í erfiðleikum með að selja leikmönnum þetta undanfarin ár og við höfum séð hversu mikið erfiðara það gerir leikmannamarkaðinn.

    Coutinho er til umræðu hérna en í raun snýst þetta ekkert bara um hann, hjá Liverpool sem ég t.d. Mané í alveg nákvæmlega saman flokk yfir ómissandi leikmenn. Það er erfitt að fylla skarð bestu leikmannanna, það kemur alltaf maður í manns stað á endanum en ef þú selur alltaf þína bestu menn til liðanna sem þú vilt keppa við ertu ekkert að fara ná þeim. Stundum kemur strax betri maður í staðin eins og þegar Suarez tók við af Torres. Mané fyllti skrað Sterling en það tók eitt tímabil og var skarð Sterling nú ekki það rosalegt. Skarð Mascherano og Alonso hefur ekki ennþá verið fyllt að mínu mati og hvað þá Gerrard. Auðvitað er ekki rétt að horfa of langt aftur í tímann hvað þetta varðar en Alonso og Mascherano eru góð dæmi um sölu á okkar bestu mönnum sem veikti liðið umtalsvert um leið.

    Annars kemur inn podcast seint í kvöld fyrir þá sem hafa áhuga á því, þar förum við klárlega betur yfir þetta allt saman.

  24. Góður pistill og frábært að fá podcast í kvöld 🙂

    Tek undir með mörgum að það er oft erfitt og illmögulegt að fylla í skarð bestu manna. Við sjáum það sérstaklega núna þegar mörg lið þurfa ekkert að selja til að afla fleiri aura. Mér er lika minnisstætt (því miður) að margir réttlættu sölu á Suarez með tölfræði og það væri hægt að fá jafn mörg mörk og stoðsendingar frá nýjum leikmönnum með því að nota peningana sem við fengum frá Barca fyrir kappann. Við sjáum hvernig það fór. Alonso og Mascherano eru líka frábær dæmi sem Einar Matthías nefnir hér að ofan. Það sem gleymist líka oft er að fótbolta er ekki bara hægt að skilgreina með tölfræði einni saman. T.d. var svaðalegur sigurvilji og keppnisskap Suarez það sem erfitt var að finna hjá öðrum leikmönnum… hann hreinlega keyrði allt liðið áfram með látum…fyrir utan að maðurinn meiddist aldrei!

    Coutinho er ekki bara maður með þessi mörk og stoðsendingar…hann er maður sem kann að gera hið óvænta, getur splundrað vörnum andstæðinga á sekúndubroti með hárnákvæmum sendingum. Hann er fallbyssuógn utan af velli og hann fær aðra leikmenn til að tikka með sér… ég sé nú þegar fyrir mér ótal stungur hans inná Mane og Salah sem munu enda með fagnaðarlátum okkar 🙂 Ég er gríðarlega ánægður að Klopp ætlar ekki að selja hann… skiptir þá engu hvort hann fer á fair price eða silly price.

  25. Varðandi hugsanlega sölu á Couthino eru nokkrir hér í þræðinum alveg með þetta að mínum dómi. Hér ræðir ekki um að ekki komi maður í manns stað heldur um stöðu Liverpool meðal þeirra stóru.

    Fari svo að Couthino verði seldur er ekki lengur neinum blöðum um það að fletta hver stefna Liverpool er undir stjórn FSG.

    En ég hef enga trú á að neinn leikmaður, sem Klopp á annað borð vill hafa, fari eitt eða neitt. Klopp heldur sínum mönnum og skýrasta dæmið er vitanlega Lewandowski sjálfur. Lewandowski vildi fara frá Dortmund í stærra félag þegar aðeins ár var eftir af samningnum. Klopp sagði einfaldlega nei og sagðist þurfa að nota leikmanninn um veturinn. Lewa svo fór frítt til Bayern ári síðar en þetta sýnir að Jurgen Klopp a.m.k. stendur í lappirnar þó að freistandi hljóti að hafa verið að kassa inn á Lewandowski.

    Ég missi allavega ekki svefn yfir þessu en hitt er síðan rétt að Klopp verður að fara að raungera sínar áætlanir og varaáætlanir.

  26. Vá hvað þetta byrjunarlið er spennandi á móti Bayern.
    Mane. Salah. Coutinho. Firmino. Emre Can. Henderson og vörn.
    Hlakka fáranlega til að sjá þessa sóknarlínu.

  27. Guð hvað ég er feginn að
    Það sé að koma nýtt podcast. Var búinn að setja síðasta svo oft á þegar maður var að fara að sofa, að konan spurði mig um daginn hvort að síminn væri búinn að hringja (þegar það hringir hjá kristjani í byrjun)

  28. Kominn borði á LFCTV að þeir sýni ekki “in your region”…

    …einhverjir straumar á netinu?

    Aðrir en filmon (sem slitnar alltaf)?

  29. Coutinho og moreno stóðu yfir boltanum þegsar vip fengum aukaspyrnu og fkn Moreno sorpið tók hana!!! Ahahahahah

  30. Moreno sorpið….Var bara fín spyrna og hann er búinn að vera maður hálfleiksins. Allt í lagi að hrósa mönnum þegar þeir eiga það skilið.

  31. Ok horfandi á þennan leik þá er það bara ljóst. Það er EKKERT lið að fara að spila með háa vörn á móti okkur á næsta tímabili. Þessi hraði sem er núna til staðar er bara rugl.

  32. Moreno með mjög góða bolta fyrir markið, kannski verður eitthvað úr honum.
    Sem og Alexander Arnold búinn að vera flottur.

  33. okkar menn með skrautsendingar og láta Bayern líta illa út á sínum eigin heimavelli þetta er eitthvað.

  34. Við erum með ógeðslega gott lið…til hvers ætti Coutinho að vilja fara, væri bara að fara í verra lið.

  35. Liverpool lítur ágætlega út gegn Bayern í hálfleik. Liðið hefur legið aftarlega og nýtt skyndisóknir sínar vel. Vörnin er búinn að vera mjög góð og ekki gefið af sér mikið af færum og sóknarlega er liðið baneitrað með þessa skuggalega hröðu leikmenn á sitthvorum kantinum.

    Mér finnst samt Coutinho vera búinn að vera bestur. Hann er búinn að gefa rosalega mikið af góðum sendingum og dreifir spilinu mjög vel.

    Ég verð að segja eins og er að mér finnst Salah ekki hafa stundum hugmynd um hvar hann á að vera staðsettur þegar Liverpool er að verjast og ekki jafn góður í hápressunni aðrir sem eru að spila með honum frammi. Það kemur vonandi í næstu leikjum.

  36. Salah/ Mane virkilega flottir fyrstu 45 mín. Moreno virkilega góður og gefur ekkert eftir í baráttuni um vinstri bakvarðastöðuna. Bayern að spila sinn 9 æfingarleik og þeira stjörnur að spila.

  37. Það rignir ekki í Þýskalandi – bara mörkum. Klopp/Kilroy

  38. Ég held að það séu afar fáir leikmenn available sem gætu komið og tekið yfir stöðuna hans Coutinho. Gylfi er frábær leikmaður og ég væri mikið til í að sjá hann hjá LFC en ég held að hann sé ekki leikmaður sem getur komið í stað Coutinho

    Þessi strákur hefur vaxið mikið hjá LFC og í fyrra fannst mér hann taka miklum framförum fyrir meiðslin. Ég held það væri galið að selja hann, sama fyrir hvaða pening. Ég geri mér grein fyrir því að hann mun örugglega fara á einhverjum tímapunkti en mín tilfinning er sú að hann verði mun verðmætari eftir 1 – 2 ár og hann er jafnframt algjör lykill ef klúbburinn ætlar sér að ná alvöru árangri (meira en 4 sætið).

    Á undirbúningstímabilinu hefur hann borið af í gæðum yfir aðra leikmenn. Hann virkar í algjöru toppformi.

    Ef Vwd kemur þá held ég að við getum flokkað þennan glugga sem risaglugga og frábærlega vel heppnaðan, hinsvegar tek ég undir með Einari að í dag erum við einum meiðslum frá því að Klavan spili í miðverði sem myndi flokkast sem áfellisdómur yfir FSG ef svo verður.

  39. Afhverju ætti Coutinho vera dýrari en Pogba?
    Menn átta sig ekki á því hvað Pogba gerði hjá Juve og landsliðinu það gerði hann svona dýran og 21 ars gamal.Frammistaða hans hjá man utd gerði hann ekki svona dýran.

  40. Alexander Arnold og Moreno búnir að vera geggjaðir! Coutinho er amazing.

  41. Sjaldan hlakkað eins mikið til að tímabilið byrji. Liðið lítur svakalega vel út með þennan hraða.

  42. Dæmigerður Sturridge. Skorar frábært mark en fer meiddur af velli.

  43. hefði átt að vera 4 mörk hjá Liverpool fullkomnlega löglegt mark dæmt af.

  44. það getur líka vel verið að Daniel hafi bara verið tekinn út af til þess að taka enga sénsa á honum. Fótboltamenn geta oft fengið væga tognun en jafnað sig á henni frekar fljótt. Mér sýnindist það vera þannig. Allavega ekki alvarleg meiðsli.

  45. 15 – 2 í sex leikjum, fimm unnir og eitt jafntefli, liðið lítur vel út.

  46. Þetta er búið hjá Sturridge get ekki séð að hann eigi eftir að geta hjálpað okkur mikið líkaminn á honum er einfaldlega búinn.

  47. Eina sem þarf er miðvörður. Slakið á með Studge. Á eftir að koma í ljós hvort þetta sé eitthvað alvarlegt.

  48. Sigfús G #52

    Því að kúturinn er svona 15 sinnum betri en þessi ofmetni frakki.

  49. Þetta gæti verið væg tognun hjá Sturridge. það er bara vika, max tvær. Mér finnst einmitt frábært að hafa hann sem valkost ef það er hægt.
    Firmino startar, að hafa hann á bekknum til að breyta leik er frábært. Gefum honum séns 🙂

  50. Sælir félagar

    Klopp er búinn að búa til frábæra liðsheild úr þessum mannskap. Það er eins og það á að vera að ef hann skiptir einhverjum inn á þá fer hann í spil hópsins og liðið hikstar EKKERT. Maður kemur í manns stað og BM á ekki breik þó að varaliðið sé komið inn að mestu. Það boðar gott fyrir veturinn.

    Það var líka magnað að’ sjá hvernig TA Arnold spilaði í bakverðinum og svo Moreno hinu megin. Þeir eigna sér þessar stöður með þessu áframhaldi. Liðið spilaði sem órofa heild allan leikinn og ég ætla ekki að taka neinn sérstaklega út úr hópnum til lofs eða lasts. Heildarsvipur liðsins hélt hverju sem var breytt. Það lofar magnaðri leiktíð.

    Það er nú þannig

    YNWA

  51. Geggjuð frammistaða í kvöld. Firmino svakalegur, úti um allt og virkar sharp og tilbúinn (ólíkt forminu eftir sumarfrí í fyrra, sælla minninga!). Mané og Salah frábærir og snöggir, Moreno var mjög flottur.

    Sturridge rykkti ekki upp, lítur út fyrir að hafa verið smávægilegt (eða það vonar maður). Frábær afgreiðsla hjá honum og þvílíkur lúxus sem það væri að eiga hann heilan. Klárlega topp 2-3 striker í deildinni.

    Þetta lofar a.m.k. góðu:

    Melissa Reddy?Verified account @MelissaReddy_ 15m 15 minutes ago
    Daniel Sturridge in very good spirits walking through the mixed zone. Said “nah, it’s nothing serious” when I asked about his injury.

  52. Markið var dæmt af hjá Grujic því Lallana var rangstæður og markvörðurinn var með hann í fanginu þegar skotið kom 🙂

    Annars alveg geggjaður leikur og þeir stjórnuðu leiknum frá byrjun til enda 🙂

  53. Markið var dæmt af hjá Grujic því Lallana var rangstæður og markvörðurinn var með hann í fanginu þegar skotið kom 🙂

    Annars alveg geggjaður leikur og þeir stjórnuðu leiknum frá byrjun til enda 🙂

    Ynwa

  54. Við viljum nú hafa umræðuna hérna á hærra plani en að menn kalli leikmenn liðsins sorp, látum þetta bull frá Nr. 38 þó standa úr því við sáum þetta ekki fyrr, Moreno tróð svona sokki ofan í hann í kvöld.

  55. #38, Moreno tók hana því hann er örfættu og hefur alltaf verið góður skotmaður, og þetta var virkilega góð aukaspyrna hjá honum, Hann kom mér á óvar og átti flottann leik, ekki síst varnalega, getur verið að hann sé endurfæddur???

Gúrkan

Podcast – Liverpool sannfærandi rétt fyrir mót