Of mörg misheppnuð leikmannakaup

Nú þegar Lucas Leiva kveður Liverpool er enginn eftir í hópnum sem ekki hefur verið keyptur á valdatíma FSG sem tóku yfir félagið haustið 2010. Jordan Henderson er sá leikmaður í aðalliði Liverpool sem verið hefur lengst hjá félaginu  eða síðan sumarið 2011.  Reyndar náði 18 ára Jon Flanagan einum leik áður en Henderson kom en hann telst varla sem (stór) partur af aðalliðinu lengur.

Þetta er töluverður áfellisdómur yfir innkaup Liverpool á þessum tíu árum sem Lucas hefur verið á mála hjá félaginu því meginreglan allan þennan tíma hefur verið að kaupa leikmenn á góðum aldri með það fyrir augum að þeir þjóni félaginu vel og lengi eða hafi gott endursöluvirði. Margir af þeim sem keyptir voru á þessum tíu árum uppfylla klárlega seinna skilyrðið.

Með hjálp LFCHistory er auðveldlega hægt að taka saman þá leikmenn sem keyptir hafa verið á tíð Lucas Leiva hjá Liverpool:

Þessi myndi sýnir vel hversu rosaleg velta hefur verið á liði Liverpool á þessum tíma. Það hjálpar alls ekki að Lucas hefur verið með fimm mjög mismunandi stjóra á þessum tíu árum hjá félaginu. Með nýjum stjóra hafa komið nýjir leikmenn og á sama tíma hafa allt of margir af þeim sem fyrir eru orðið óþarfir.  Það er satt að segja ótrúlegt hversu margir af þeim sem hafa komið á háa fjárhæð hafa orðið óþarfir á skömmum tíma.  Margir þeirra voru mun lengur hjá félaginu en viðkomandi stjóri vildi enda dýrir leikmenn sem gat verið erfitt að losna við. Aquilani, Carroll, Downing, Cole, Enrique og Borini  sem dæmi hvort sem það var kaupverð og/eða launapakki sem var erfitt að losna við. Keane og Benteke voru risakaupin í sitthvorum glugganum en voru dottnir úr liðinu á hálfu ári, félagið fékk þann pening vissulega hratt til baka en það kom jafn mikið niður á liðinu. Núverandi dæmi eru Sakho, Markovic og Moreno. Allt leikmenn sem fyrrum stjóri keypti á háa fjárhæð (á góðum aldri) en eru fyrir á launaskrá núna. Það eru 1-2 tímabil síðan Klopp var búinn að gefast upp á þeim.

Þetta er rándýrt og allt of algengt hjá Liverpool ef við skoðum tíma Lucas hjá félaginu. Hann hefur sjálfur verið á leiðinni burt í þrjú ár og það er ekkert rosalegt hrós á stefnu félagsins að hann og t.d. Skrtel voru svona lengi hjá félaginu eins og raun ber vitni. Það var engin eftirspurn eftir þeim sl. 4-5 ár frá öðrum stórum liðum.

Skoðum þetta betur glugga fyrir glugga

  • Miðað við árið, ekki sumarglugga eða janúarglugga.

Meðaltals tími þeirra sem komu á sama tímabili og Lucas til Liverpool er 3,6 ár. Þetta var ansi spennandi tímabil á leikmannamarkaðnum hjá Liverpool og nokkur mjög góð leikmannakaup þó þeir hafi ekki stoppað eins lengi og við vildum. Ferill Skrtel hjá Liverpool er ekki ósvipaður Lucas þó vissulega hafi Skrtel sloppið mun betur við meiðsli. Torres vildi ólmur fara og fór á toppverði rétt eins og Mascherano þó Liverpool hafi fengið allt of lítið fyrir hann eftir á að hyggja. Benayoun var ekkert unglamb þegar hann kom og nýttist félaginu vel.

Sebastian Leto var í byrjunarliði Liverpool þegar Lucas spilaði sinn fyrsta leik (Lucas kom inná sem varamaður). Ekki varð mikið úr honum. Babel hafði hæfileikana en alls ekki hausinn. Hinir ungu leikmennirnir voru hverjum öðrum efnilegri á sínum tíma en hafa ekki mikið gert, hvorki hjá Liverpool eða öðrum.  En þetta var góður gluggi. Liverpool keypti tvo leikmenn sem voru lengur en nokkur af núverandi hópi hefur verið hjá félaginu ásamt Torres, Mascherano, Babel og Benayoun.

Árið eftir voru Hicks og Gillett búnir að skrúfa fyrir og Benitez var með gott lið sem þurfti ekki að bæta svo ýkja miklu við. Robbie Keane voru stóru kaupin en hann var látinn fara strax í janúar. Hvað hefðu vel heppnuð £20m kaup í þessum glugga gefið þessu liði í titilbaráttunni? Riera skilaði sínu í eitt ár á meðan Dossena og Degen voru baggi á félaginu eftir fyrsta tímabilið og lánaðir út. N´Gog fékk síðan heldur betur sénsinn hjá Liverpool, líklega of mikið of snemma því hann hefur ekki sést mikið síðan.  Meðaltími þeirra sem komu þetta sumar var 2,2 ár og það er með 2,5-3 árum N´Gog, Dossena og Degen. Þessi gluggi skilaði engu upp á framtíðina.

Sumarið 2009 var ástandið mjög slæmt innan félagins þrátt fyrir öflugt tímabil innanvallar. Benitez fékk þó að nota þá peninga sem komu úr leikmannasölum. Sterling voru frábær framtíðarkaup, Rodriguez og Johnson skiluðu sínu á meðan Aquilani gat ekki verið mikið verri skipting fyrir Alonso. Hann var farþegi næstu árin á eftir. Kyrgiakos er síðan fínt dæmi um hversu lítið Benitez hafði úr að moða þetta sumar þó hann hafi blessaður gert sitt allra besta. Meðaltími þeirra sem komu 2009 var á endanum 3,8 ár sem er það mesta síðan Lucas fór.

Árið 2010 var auðvitað verulega skrautlegt bæði innan vallar sem utan vallar. Það var ekki mögulegt að gera neitt verri skipti á stjóra en Liverpool afrekaði þetta sumar og á leikmannamarkaðnum voru eiginlega bara gerð ein góð kaup, verulega góð kaup. Shelvey, Suso, Wilson og Jovanovic voru allir í pípunum þegar Benitez var stjóri og er svosem hægt að líta á Shelvey og Suso sem góð kaup á ungum leikmönnum en þeir náðu hvorugur mikið yfir tvítugt hjá Liverpool. Allir sem Hodgson keypti voru til sölu sumarið eftir en það tók mislangan tíma að losna við þá. Andy Carroll var strax orðin farþegi þegar Rodgers tók við og dýrasti leikmaður í sögu félagsins (21 árs leikmaður) var lánaður í tæplega tvö ár áður en hann var seldur. Andy Carroll er táknmynd innkaupa Liverpool þessi 10 ár sem Lucas var hjá félaginu. Bestu kaup félagsins á þessari öld komu þó í þessum glugga og voru á vakt Comolli sem var yfirmaður knattspyrnumála. Liverpool þarf að verða nógu öflugt á ný til að hægt sé að halda slíkum leikmönnum. Gerrard, Alonso, Torres og Mascherano vildu ekki fara frá Liverpool 2006-08 þegar félagið var að keppa á öllum vígstöðum og bæta sig jafnt og þétt.  Vonandi er þetta loksins á réttri leið núna undir stjórn Klopp. Þeir sem komu tímabilið 2010/11 voru að meðaltali í 2,5 ár hjá félaginu og þar eru fimm árin hans Brad Jones helst að hífa upp meðaltalið ásamt þremur árum Wilson og Shelvey.

Þegar Dalglish tók við var kominn tími á verulegar hreingerningar á liðinu. Liðið sem Benitez byggði upp var að komast á aldur. Hann hafði ekki fengið að styrkja það eins og hann vildi síðustu tvö árin sín hjá félaginu og eins þurfi að skófla út öllu því sem Hodgson keypti. Það lá alveg fyrir að FSG þyrfti að hreinsa verulega til og við þurfum auðvitað að hafa það í huga í þessari yfirferð. Þetta sumar kom Jordan Henderson inn sem er núna búinn að vera lengst allra hjá Liverpool og er fyrirliði félagsins. Dalglish eins og flestir stjórar lagði helst áherslu á að fá leikmenn frá þeim markaði sem hann þekkir best og því voru öll helstu leikmannakaupin þetta tímabil leikmenn sem voru að spila í Ensku Úrvalsdeildinni. Charlie Adam, Downing og Enrique voru allir búnir að spila vel hjá sínum liðum en réðu ekkert við Liverpool búninginn. Henderson átti einnig erfitt uppdráttar en var í ofanálag spilað úr stöðu. Það var helst endurkoma Bellamy sem var jákvæð eftir þennan glugga sem var svo lélegur að mati FSG að þeir ráku bæði Dalglish og Comolli og breyttu alveg um stefnu.

Brendan Rodgers tók við sumarið 2012 og sýndi það í fyrsta glugga að hans nafn hafði nákvæmlega enga vigt á leikmannamarkaðnum. Hann gat ekki einu sinni sannfært Gylfa um að koma með sér til Liverpool þrátt fyrir að hafa blásið lífi í hans feril nokkrum mánuðum áður. Joe Allen og Borini voru stóru kaupin þetta sumar, hvorugur nálægt þeim gæðum sem þurfti á þessum tíma og báðir voru mikið meiddir allan sinn feril hjá Liverpool. Sahin á láni var það sem helst stóð uppúr þetta sumar en hann var farinn í janúar. Yesil var enn einn sóknarmaðurinn sem Liverpool hefur haft undanfarin 10-20 ár sem átti að springa út en ekkert varð úr. Janúarglugginn var þó öllu betri enda Liverpool þá búið að móta þann hóp sem átti að hjálpa stjóranum þegar kemur að leikmannakaupum. Sturridge og Coutinho eru núna búnir að vera lengst hjá félaginu á eftir Henderson eins sturlað og það nú hljómar. Sturridge hefur átt eitt gott tímabil en verið endalaust pirrandi hin enda hreinlega alltaf meiddur. Sérstaklega vont þessi tvö tímabil sem treyst var á hann sem aðalsóknarmann félagsins. Coutinho er af flestum talin besti leikmaður liðsins í dag, hans ferill hjá Liverpool hefur engu að síður alls ekki verið neinn dans á rósum enda alltaf tekið 10-15 leikja kafla þar sem hann nánast hverfur og skilar mjög litlu. Hann er vonandi að hrista af sér óstöðugleikann núna enda farinn að nálgast aldur þar sem hann ætti að vera á hátindi ferilsins.

Það er því enginn eftir hjá Liverpool sem kom árið 2008, 2009, 2010. Henderson kom árið 2011 en það er enginn annar eftir af þeim sem komu árið 2012. Það er fáránlegt að það sé aðeins einn leikmaður ennþá hjá félaginu árið 2017 af þeim 37 leikmönnum sem komu á árunum 2008-2012. Coutinho og Sturridge komu í janúar 2013 og um sumarið bættust Sakho og Mignolet við af núverandi hópi. Rest er búið að selja og Sakho er ekki farinn því það tókst ekki að selja hann í fyrra.  Það eru því fjórir leikmenn af 49 ennþá í hóp hjá Liverpool sem komu á fimm ára tímabili frá 2008-2013. Sturridge er einn af þeim en hann spilar  minna en 25% leikja á hverju ári. Hann var ekki góður sumarglugginn 2013 en liðið var engu að síður öflugt það tímabil og í titilbaráttu. Þessi yfirferð sýnir samt kannski aðeins hversu illa í stakk búið félagið var til að viðhalda góðum árangri þessa tímabils áfram.

Síðasti gluggi Rodgers skilaði nokkrum mönnum sem enn eru í hóp en var mjög lélegur miðað við það sem fór í staðin (Suarez). Lovren og Moreno hafa ekki bætt varnarleikinn mikið og líklega bætast Moreno, Stewart og Markovic í hóp með Balotelli, Lambert og Manquillo í sumar, leikmenn sem komu 2013 og eru farnir. Þarna eru samt 3-4 leikmenn sem eru í byrjunarliði (eða hóp). Fimm ef við teljum Moreno með en það er óvenju mikið í einum glugga.

Það er því óhætt að segja að maður tekur það nú orðið með töluverðum fyrirvara þegar talað er um leikmann sem hugsaður er til framtíðar. Á móti kemur eru Liverpool vonandi aftur kominn með álíka stöðugleika með Klopp og við þekktum undir stjórn Houllier og Benitez sem þó voru ekki lengur en 5 ár hjá félaginu. Þeir byggðu báðir upp sitt lið og keyptu leikmenn sem mynduðu kjarna í meira en þessi þrjú ár sem við höfum haldið leikmönnum að meðaltali undanfarið.

Eins hefur Liverpool líklega ekki haft svona efnilegt lið síðan Bob Paisley var stjóri liðsins. Aðalliðið er ungt og aðeins einn leikmaður (Milner) kominn norður fyrir þrítugt í aldri. Mjög margir eru að komast á þann aldur sem telst vera hátindur ferilsins allajafna (25-29 ára).

Eins er það bara staðreynd að yngri lið Liverpool eru í alvöru mjög efnileg. Höfum þó auðvitað í huga hversu oft við höfum talið leikmenn vera mjög efnilega undanfarin 10 ár.

Reyndar hafa innkaup á ungum leikmönnum undanfarin 10 ár komið út í töluverðum plús fjárhagslega þó enginn þeirra hafi fest sig í sessi hjá Liverpool til lengri tíma. Sterling, Ibe og Smith hafa skilað góðum plús og Suso var lykilmaður í AC Milan á Ítalíu í vetur.

Það hefur verið endalaus endurnýjun undanfarin ár en með brottför Lucas er hægt að tala um að nú sé ný kynslóð endanlega að taka við keflinu.

Hin toppliðin hafa einnig verið að endurnýja undanfarin ár og satt að segja væri áhugavert að greina nánar hvert lið. Það verður þó ekki gert hér. Klopp þarf að mynda kjarna hjá Liverpool sem spilar lengur saman en þeir sem komið hafa frá 2008 hafa gert. Eins þarf Liverpool að ala upp leikmenn sem eru að toppa mun seinna en þeir hafa verið að gera sem komið hafa undanfarin 10 ár. Lucas, Skrtel og Agger fjöruðu allir út eftir góð fyrstu ár hjá félaginu. Sturridge og Henderson stefna sömu leið vegna þrálátra meiðsla. Sakho er ekki í náðinni en ætti að vera að toppa núna.

Vonandi eru núna leikmenn hjá Liverpool sem verða áfram lykilmenn árið 2020 og ennþá að vaxa sem leikmenn.

19 Comments

  1. Hodgson tók hann aftur inn 2010, hann var samningslaus. Vissulega aldrei annað en leikmaður Liverpool en telur réttilega svona á LFCHistory enda átti ekki að framlengja við hann um vorið. Þar er svo enn einn sem var búinn á því allt of ungur vegna endalausra meiðsla.

  2. Flott grein, erfitt að lesa þessa lista og rifja upp hversu döpur innkaupastefnan hefur verið undanfarin ár.
    Margir þarna sem má svo sem segja að hafi aldrei verið leikmenn Liverpool í raun, meira og minna á láni og aldrei af þeim standard að spila fyrir Liverpool.

  3. Aðeins útúrdúr

    Það hefur aðeins verið um það að ummæli hafi farið í amapóst síuna sem eiga ekkert að gera það, oft frá virkum notendum síðunnar. Hef ekki grænan afhverju þetta gerist og er búinn að laga þetta núna. Megið hnippa í okkur ef þetta er að gerast.

  4. Djöfull er mikið að nöfnum á þessum lista sem áttu ekkert erindi í þetta lið. Agalegt að sjá þetta. Þó gullmolarnir leynist á milli.

  5. Góð grein og nokkuð ljóst að við höfum eytt alltof miklu í miðlungsmenn i gegnum árin. Þetta sýnir líka af hverju Klopp er hikandi við að kaupa bara einhver eins og margir stuðningsmenn liverpool voru að biðja um t.d í janúar. Styð Klopp fullkomnlega í því að reyna finnar réttu leikmennina ekki bara einhver sem er á lausu.

  6. Dalla-Valle átti að vera svaka efni og menn fussuðu yfir því að láta hann fara til Fulham sem hluti af kaupum á hinum ömurlega Paul Konchesky. Í dag er hann samningslaus.
    Það eru alltof margir af svona leikmönnum sem Liverpool hafa fengið sem hafa ekkert getað.

  7. Flott greining. Erum við ekki bara 1-2 árum á eftir Tottenham með að byggja upp topp lið? Þeir voru lengi efnilegir þangað til síðustu 2 ár.

  8. Og ef við fáum Keita VD þá held ég að við séum með betra lið enn þeir.

  9. #7 Það hljómar vel! Ef greining þín er rétt þá ætti LFC að verða í toppbaráttu næstu árin. Ekki nóg með að T séu búnir að vera góðir síðustu 2 ár, þá eru þeir búnir að vera eitt allra skemmtilegasta liðið líka… en ekki hafa það eftir mér.

  10. Frábær samantekt …
    Tók eftir við lesturinn hversu fullkomlega heilinn á manni hefur blokkerað minningar um nokkur nöfn þarna , líklega til að maður haldi geðheilsunni ….

  11. “keyptir”. voru Nuri Sahin, Victor Moses, Steven Caulker ekki fengnir að láni?

  12. Frábær samantekt, takk fyrir mig!

    Þori að veðja upp á 10kr að eftir rauðnef eru listarnir hjá scums ennþá verri.
    Það er auðvitað ömurlegt að sjá ekki og vita ekki hverjir slá í gegn hjá liðinu, svo höfum við haft allt of marga þjálfara í gegnum tíðina! Liverpool á að vera með toppþjalfara í kringum 10 ár og byggja traustan grunn og trausta framtíð. Vonandi getum við farið að sjá þessi mál horfa til betri vegar.
    Svo má nú ekki horfa fram hjá því að leikmenn eru oft eins og spilltar primadonnur, sem hugsa oft eingöngu um monney monney.

    Ég treysti á Klopp!

  13. Nr.10
    Held að það sé alveg hægt að horfa á þetta þannig en vandamálið er að þetta hefur verið viðvarandi í að verða átta ár með of fáum hléum. En ef það á að byggja upp lið er ljóst að félagið verður að hætta því að skipta endalaust um stjóra á 2-3 ára fresti og fá inn nýjan sem byrjar frá grunni, oft með gjörbreyttar áherslur. Klopp er það líklegasta sem við höfum haft síðan Benitez og vonandi getur nýr stjóri meira tekið við þaðan sem frá var horfið þegar Klopp yfirgefur Liverpool (árið 2048).

  14. Djöfull ætla þeir að verða erfiðir hjá Leipzig, höfnuðu öðru tilboði. Verður Keita ekki að heimta sölu til þess að það séu einhverjar líkur á að fá hann.

  15. Sælir félagar

    Takk fyrir þetta EM og það er manni holl lesning að rifja upp alla þá skaulansem keyptir hafa verið í gegnum tíðina. Þessi listi ætti að kenna manni að betra er að hafa kaupin færri og leggja meira vit og strit í þau.

    Mér sýnist Keita málið sé að renna út í sandinn. Það er búið að bjóða í hann 66 millur punda (75m evra) og ekkert gengur. Það gæti verið Chelsea sem bauð það því þeir eru víst komnir með áhuga á kauða. Ef til vill ætti LFC að snúa sér annað eins og einhver nefnir hér fyrir ofan eða bjóða 70 kúlur og hætta svo. ef það dugir ekki. Benda má á að enginn vissi hver Keita var fyrr en á síðasta leikári. Það hljóta að vera fleiri slíkir óslípaðir demantar grafnir einhversstaðar.

    Það er nú þannig

    YNWA

  16. Vidal fra bayern, Hamsik fra napoli, Fabinho fra monaco. einn af theim hlitur ad vera a lausu fyrir 75 kulur, allt slipadir leikmenn med mikla reynslu og gaetu vel passad i klopp kerfi.

    En kanski er novelty value ekki nog og mikid a theim.

Þriðju leikmannakaup sumarsins líkleg í þessari viku?

Liverpool 2 Crystal Palace 0 [æfingaleikur]