Watford framundan á mánudagskvöldi

Áður en ég byrja á að fara í upphitun fyrir leik okkar manna við Watford er einfaldlega ekki hægt annað en að fara yfir úrslit dagsins, enda beið ég með upphitun þar til eftir þá.

Það er skemmst frá því að segja að fótboltaguðirnir gerðu sitt til að hjálpa okkur í dag. Einn þeirra horfir þessa dagana af velþóknun á Gylfa Sig sem að tryggði Swansea stig gegn United í dag. Swansea voru einfaldlega betri aðilinn í dag en svindl Marcus Rashford tryggði heimamönnum stig. Dagurinn byrjaði vel. Þá var komið að Man. City og þeir halda áfram að vera ósannfærandi. Þeir eins hitt liðið úr borg hins illa þurftu aðstoð dómara til að fá gefins víti, þeir gegn Middlesbrough sem að gerðu í raun nóg til að vinna City lika. Þetta voru góð úrslit á tvo vegu fyrir okkur því það að heimamenn fengu bara eitt stig svona allt að því gulltryggir það að þeir koma fallnir á Anfield í síðustu umferðinni. Norður London derbyið rak svo lestina og eftir jafnan fyrri hálfleik kláruðu Spurs erkifjendurna í Arsenal og gulltryggðu veru sína í topp tveimur. Í fyrsta sinn mun Arsene Wenger horfa upp á Tottenham í lok leiktíðar. Það eykur ekki gleði Spurs aðdáenda með hann!

Eftir þunglyndi síðustu helgar hafa öll liðin fyrir neðan okkur leikið þá tvo leiki sem þau áttu inni á okkur og við erum enn í þriðja sæti. Staðan í þeirri keppni svona:

3.sæti Liverpool 66 stig og plús 28 mörk
4.sæti Man City 66 stig og plús 28 mörk
5.sæti Man United 65 stig og plú2 26 mörk
6.sæti Arsenal 60 stig og plús 22 mörk (einum leik færra en hin liðin)

Semsagt, við erum aftur komin með örlögin í eigin hendur eftir skitu síðustu helgar, ansi magnað í raun og gerir þennan leik ennþá mikilvægari en áður!

Mótherjinn í Watford

Ef við horfum á töfluna áfram þá sitja mótherjar okkar núna í 13.sæti með 40 stig. Eftir sigur í síðasta heimaleik eru þeir nær öruggir um áframhaldandi veru sína í deild þeirra bestu þriðja árið í röð sem er ansi magnaður árangur. Frábær árangur Leicester í fyrra og spræk útkoma B’mouth og WBA í vetur skyggja enn eilítið á afrek liðsins að vera að festa sig í sessi í Úrvalsdeildinni, eins og þau tvö er umgjörð liðsins ekki með mikla reynslu af toppdeildinni á meðan að stærri lið eins og Sheffield Wednesday, Nottingham Forest, Aston Villa og Leeds með miklu meiri möguleika á umgjörð verða áfram í næstefstu deild þá er þessi fjölskylduklúbbur úr úthverfi London að marka sér góða stöðu. Hef stundum rætt það að við gætum horft til þess að Afturelding ætti lið í Pepsideildinni, auðvitað ekki ómögulegt en flottur árangur að ná og halda sér í.

Fyrri leikur liðanna í vetur var slátrun og ég varð vitni að henni live. 6-1 úrslit þar sem Watford töpuðu á því að fara ofarlega með liðið sitt og fá það rækilega í andlitið. Ég er handviss um að Walter Mazzarri stjóri liðsins lærði af því, sem og síðustu misstígum Liverpool fyrir leikinn. Hann mun liggja aftarlega á vellinum og treysta á skyndisóknir. Það kemur okkur varla á óvart…en nú verðum við að bregðast við á almennilegan hátt.

Watford vantar lykilmenn í leikinn, Younes Kaboul og Mauro Zarete verða pottþétt ekki með og Craig Cathcart er tæpur. Þeir töpuðu illa síðast, í Hull 0-2 þar sem þeir voru einum fleiri í 65 mínútur. Eftir þann leik lét fyrirliðinn og sóknartröllið Troy Deeney sína menn heyra það, sagði þá lina og verða að átta sig á að tímabilið er ekki búið. Auk hans eru lykilmenn þeirra að leiknum miðjumaðurinn Tom Cleverley sem hefur náð þeim ógeðsáfanga að hafa spilað bæði með United og Everton og síðan Etienne Capoue og Sebastian Prodl. Cleverley ákvað að gefa Klopp smá auka séns á mótiveringu þegar hann gaf það út að hann teldi ekki líklegt að við enduðum í topp fjórum. Takk Tom minn…

Við munum vel eftir síðustu heimsókn okkar á Vicarage Road, 0-3 skell þar sem við einfaldlega gátum ekki neitt. Watfordaðdáendur muna eftir þeim líka og það er alveg klárt að heimaliðið verður vel gírað þegar Craig Pawson flautar til leiks.

Okkar lið

Við vitum of vel hversu fúl við ennþá erum eftir síðasta leik. Klopp hefur nú haft átta daga á æfingavellinum til að vinna með það sem þarf til að lagfæra það sem mistókst síðustu 50 mínúturnar gegn öðru líkamlega sterku skyndisóknaliði Palace.

Stóru fréttirnar eru auðvitað þær að Adam Lallana hefur æft nú um sinn þessa viku og taldar góðar líkur á því að hann geti byrjað leikinn, þó auðvitað sé það töluverður séns að taka. Daniel Sturridge hefur líka náð að æfa og verður í hópnum auk þess sem að varnarlínan virðist öll hafa náð bata eftir mismikil “hnjösk” að undanförnu. Klopp gaf víst sjaldséð frí í upphafi vikunnar til að láta menn aðeins stilla fókusinn eftir að hann lét þá víst heyra það í klefanum eftir tapið síðast og mikið verið unnið með andlega þáttinn.

Alveg ljóst að eftir leiki dagsins er pressan umtalsverð á okkur en sigur í þessum leik gæfi verulegan byr í vængi Meistaradeildardraumsins.

Ég held að Klopp viti a.m.k. jafnvel og við um þýðingu leiksins og hann mun án vafa leggja allt í sölurnar. Því ætla ég að tippa á þetta lið hér:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Can – Lucas – Wijnaldum

Lallana – Firmino – Coutinho

Þetta lið miðar að því að ná að verjast löngu boltunum upp völlinn og því heldur Lucas sætinu til að verja hafsentana ef að Watford verður með 4-4-2 í grunninn. Origi hefur verið í basli undanfarið og því held ég að Lallana verði látinn byrja. Ef að Klopp treystir honum ekki þá byrjar Belginn og við höfum sama lið og tapaði síðast.

Samantekt og spá

Eftir leiki dagsins og allt sem á undan er gengið hef ég enga trú á neinu öðru en hörkuleik þar sem mikið mun ganga á allt frá upphafi til enda. Eftir þunglyndi síðustu viku hefur vikan vissulega lyft á manni brúninni og bara þess vegna ætla ég að vera bjartsýnni en ég var lengi vel.

Ég held að við vinnum þennan leik 1-2 með bardaga allt til enda.

KOMA SVOOOOOOOOOOOOOOOO!!!!

26 Comments

 1. Þó Origi byrji inná, erum við ekki með sama lið. Ef við höfum Lallana og Sturridge til að koma inná er það í mínu huga bara allt annar tebolli. Það er það sem okkur vantaði síðast, þegar byrjunarliðið var búið með allar hugmyndir í miðjum seinni hálfleik.

 2. Adam Lallana er að fara byrja þennann leik allan daginn eins og Maggi segir og það er einfaldlega vegna þess að okkar lið þarf mörk til að vinna leikinn. Með Brassana og Lallana frammi skoar Liverpool mörk á móti þessu hundleiðinlega Watford liði og hlýtur að vinna eftir þessi orð Cleverley(ógexxxxgur gaur).Það verða allir til í slaginn og ef illa gengur að skora kemur Sturridge inná og klárar þennann leik.

 3. Úrslit dagsins okkur virkilega hagstæð og meistardeildarsæti skyndilega í okkar höndum. En kálið er ekki sopið fyrr en í ausuna er komið. Ég verð með báðar fætur á jörðinni og fagna engu fyrr en ég sé þrjú stig í hús á mánudagskvöldið.

 4. Sammála síðasta ræðumanni. það er búið að tala um marga mikilvæga leiki, en þessi er sennilega sá mikilvægasti hingað til, m.t.t. úrslit annara liða og stöðuna í deildini. Spái 0-2 fyrir okkur.

 5. Frábær úrslit í dag og þetta er allt undir okkur komið.

  Er frekar afslappaður núna, ég meina ef liðið tapar liðið eða gerir jafntefliá morgun þá undirstrikar það bara að við erum ekki nægilega góðir og eigum þ.a.l. ekkert skilið að vera í topp4. Watford hefur engu að keppa en það er allt undir hjá okkur. Ef menn koma ekki snældurvitlausir og vel gíraðir í leikinn á morgun þá er eitthvað mikið að.

  Er sammála Magga með liðsuppstillingu, þ.e. ef Lallana byrjar. Ef hann byrjar ekki þá vil ég frekar sjá Sturridge frammi en Origi. Eitthvað sem segir mér að hann eigi eftir að spila hlutverk í leiknum á morgun. Spái 2-1, Firminio og Sturrideg með mörkin.

 6. Engin helvítis dramatík og spennu, rúllum þessu upp 0-4 svona einu sinni fyrir sálartetrið!

 7. Sælir félagar

  Sammála Magga og vil ekki sjá Origi í þessum leik. Og svo ekkert vesen og dúlleri. Bara keyrslu frá fyrstu sekundu og klára þetta strax. Að vinna þennan leik með yfirburðum er það eina sem er í boði. Þar fer Halli með satt mál. Mín krafa er 0 – 4

  Það er nú þannig

  YNWA

 8. Sammála Sigkarl um að vera sammála Magga. Svo er ég sammála mönnum um að við mætum snælduvitlausir í þennan leik. Það er góð tilfinning að fá Lalla aftur inn og vonandi verður hann með sprengikraftinn eftir ,,hvildina”.
  Norskur félagi minn segir að ef hann vaknar með vinn uppréttann þá veit það á góð úrslit. Mun tjékka á honum á morgun!

  1-3 og ekkert bull!
  YNWA!

 9. Sammála Svavari að vera sammála Sigkarli að vera sammála Magga. Nú dugar ekkert nema 100% barátta frá upphafsflauti að lokaflauti.

 10. Sammála Daníel að vera sammála Svavari um að vera sammála Sigkarli um að vera sammála Magga nema að því leyti að ég held að Lallana byrji ekki.

 11. Liðið verður einfaldlega að mæta klárt í þennan leik, sem ég er viss um að það geri. Við tökum þetta 3-0 Firminho, Lovren og Sturridge með mörkin.
  ?

 12. Hreint afbragð að hafa meistaradeildarsætið í okkar höndum! Að mér læðist illur grunur varðandi úrslit kvöldsins, mikið vona ég að það sé bara þvæla.
  Lalli verður að koma inn og vera sprækur.
  Common, vinna bara þetta helvíti

 13. Sælir félagar

  Svei mér þá ef ég er bara ekki sammála sjálfum mér.

  Það er nú þannig

  YNWA

 14. Þetta watford lið hentar okkur því miður ekki, sama þó svo við völtuðum yfir þá á heimavelli. Ég vona það besta en óttast það versta, en eins og áður þá er lykilatriði að halda hreinu í þessum leik. Takist það þá vinnum við. Vona að Lallana byrji inná og vonast líka eftir slæmum degi hjá watford.

 15. Sammála með saumnálina…ef það þarf að leita fram á 95.mínútu eftir markinu þá skal það takast!!! Spái 1-0 í leik ekki fyrir taugaveiklaða, Sturridge bræðir hjörtun og skorar um það verða allir sammála.

 16. Við hjá Greiningardeild Arion banka sjáum fyrir okkur 1 – 5 sigur fyrir Liverpool.

 17. Er ég einn um það að hafa áhyggjur af dómurum á Englandi og hvað þeir eru mistækir og virðast oft dæma stóru liðunum í hag. Ég meina Man utd og city fá bæði vítaspyrnudóma á silfurfati í leikjunu í gær og ekki í fyrsta skifti og oft hafa þessi lið unnið leiki með góðri hjálp dómara í gegnum árin og þá sérstaklega Man Utd.

  Þetta er að eyðileggja fótboltan á Englandi því miður og þá spyr maður sig miðað við allan peningin sem er dælt í fóboltan þá ætti ekki að vera mikið mál fyrir ríkt fótboltafélag að múta dóamar og við vitum mörg dæmi frá t.d. Ítalíu eða Spánni þar sem mútur hafa staðið yfir í áratugi og lítið er gert í því að reyna laga þau mál.

 18. Ég reifst nú svolítið við sjálfan mig í morgun, en það var útaf öðru.

 19. Já við fáum þessa stöðu eftir helgina algjörlega á silfurfati. Það er alveg ljóst að þessi barátta er ekki búin og liðin eru ekki búin að tapa sínum síðustu stigum. Sigur í kvöld gerir ansi margt fyrir okkur, ef við klárum ekki þennan leik þá myndi ég giska á að við þyrftum að vinna rest til að halda þessu sæti. En það verður borð fyrir báru með sigri.

  Leikurinn verður drulluerfiður eins og nánast allir leikir á þessu stigi tímabilsins. Watford eru á góðum stað fyrir okkur, bara í léttum gír um miðja deild og hafa ekki að neinu að keppa. Staðreyndin er sú að það er alltaf erfiðara að mótívera mannskapinn í svoleiðis leiki þannig að það ætti að vinna með okkur.

  Vona að Lallana komi inn því það eykur einfaldlega sóknarógnunina og ég tek undir að hann ætti að koma inn fyrir Origi og Lucas ætti að byrja.

  Og svo er bara að vonast eftir því að betri útgáfan af Liverpool mæti til leiks í kvöld. Spái 1-2 sigri okkar manna.

 20. 0-3 Við klárum þennan leik með stæl, brassarnir okkar sjá til þess.

 21. Gallinn við það að Watford hafi að litlu að keppa er sá að þá er líka minni pressa á þeim fyrir vikið. Datt ekki Newcastle einmitt í gang í fyrra eftir að þeir voru fallnir?

Nokkur orð um stöðugleika

Watford – Liverpool 0-1 (leik lokið)