Úrslitaleikur 1/5

Já ég veit, þreyttasta klisja í veröldinni og allt það. Eeeen, þetta er bara alls ekkert flókið. Meistaradeildarsæti er gjörsamlega í okkar eigin höndum. Það er alveg sama hvað hin félögin gera, Liverpool endar örugglega í topp 4 ef liðið klárar þessa 5 leiki sem eftir eru. Jú, einhver lið eiga leiki til góða og allt það, en það er slatti af innbyrðisleikjum eftir og þar tapast stig, það er bara þannig. Ef við skoðun eingöngu innbyrðisleiki þá sem eftir eru hjá þessum efstu 6 liðum sem eru að keppa um þessi sæti, þá eru það þessir:

Man.City – Man.Utd
Tottenham – Arsenal
Arsenal – Man.Utd
Tottenham – Man.Utd

Þar fyrir utan, ef menn draga Everton inn í umræðuna (ekki að þeir séu að fara að blanda sér í þessa baráttu, heldur gætu þeir kroppað stig af mótherjum okkar), þá eiga þeir þessa leiki eftir:

Everton – Chelsea
Arsenal – Everton

Sem sagt, þau 2 lið sem reyna einna helst að ógna Meistaradeildarsæti hjá okkar mönnum, þau eiga ansi hressilega 3 leiki hvort og þar af innbyrðisleik. Það stefnir því allt í hörku, hörku spennandi “Run-in” í keppninni um sæti í peningadeildinni margfrægu. Það voru ýmsir svartsýnir fyrir tímabilið og bjuggumst ekki við okkur í þessari baráttu, en ég held að flestir stuðningsmenn hefðu tekið þessari stöðu opnum örmum þegar liðið á aðeins 5 leiki eftir. Af þessum 5 leikjum sem eftir eru, þá eru 3 á Anfield og 2 á útivelli. Aðeins 1 af þessum leikjum er gegn liði sem er í einhverri alvöru fallbaráttu og það er lið Boro í lokaumferðinni og eru nánast allar líkur á því að þeir verði fallnir þegar kemur að þeim leik.

En leikir vinnast aldrei á pappír og aldrei fyrirfram. Þetta Liverpool lið er búið að lenda í fáránlegum meiðslapakka í vetur, en eru samt í þessari stöðu. Ef ég ætti að setja erfiðleikastuðul á þessa leiki sem eftir eru, þá myndi ég raða þeim svona, sá erfiðasti er efst:

Liverpool – Crystal Palace
West Ham – Liverpool
Liverpool – Southampton
Watford – Liverpool
Liverpool – Middlesbrough

Sem sagt, sá leikur sem ég tel að verði erfiðastur fyrir okkar menn, er einmitt þessi Palace leikur. Þetta Palace lið var auðvitað að spila langt langt undir getu undir stjórn Alan Pardew. Því miður er Sammi sopi kominn þangað með öll sín leiðindi, því ég hef lengi verið með soft spot fyrir þessu Palace liði. Þeir eru með frábæra stuðningsmenn, eina þá skemmtilegustu á Englandi, þeir eru með hellings tengingu við Liverpool og hafa oft spilað alveg þrælskemmtilegan bolta. Samma sopa vinkillinnn skemmir þetta mikið fyrir mér, verð bara að viðurkenna það. En það verður ekkert elsku mamma neitt þegar þeir mæta á Anfield, svo sannarlega vonar maður að þeir lendi í yfirvöltrun af hálfu okkar manna.

Þetta Palace lið er einfaldlega með alveg hörku mannskap, sér í lagi framarlega á vellinum. Van Aanholt, Tomkins, Dann, Sakho, Schlupp, Cabaye, Townsend, Puncheon, Remy, Zaha, Benteke og Wickham. Þessi mannskapur á aldrei að vera í fallbaráttu. Það eru þó skörð hoggin í þeirra lið eins og okkar. Sakho má ekki spila, þar sem hann er í okkar eigu og þess utan er Scott Dann meiddur. Fyrir utan þá tvo, þá eru þeir Connor Wickham og Souare fjarri góðu gamni, ekki það að þeir séu algjörir lykilmenn, en samt öflugir leikmenn. Stóra málið verður hvernig við náum að ráða við okkar gamla kunningja, Christian Benteke. Sá hefur í gegnum tíðina reynst okkur erfiður, bæði þegar hann hefur spilað á móti okkur og ekkert síður þegar hann var að spila með Liverpool. Erfiður framherji svo sannarlega.

Við megum alveg eiga von á fullt af fyrirgjöfum og talsvert af kýlingum fram völlinn. Palace eru með fljóta stráka í þeim Puncheon, Townsend og Zaha. Þeir munu nýta sér þá til að komast á bakvið bakverðina okkar, þá sér í lagi hægra megin. Ég á von á árás frá Zaha á Milner allan leikinn, það verður líklegast dagsskipunin og koma boltanum fyrir á Big Ben. Ég reikna fastlega með því að við fáum á okkur mark/mörk í þessum leik. Hef ekki nokkra trú á því að við náum að halda hreinu. Á móti hef ég tröllatrú á okkur hinum megin á vellinum. Það að þeir hafi hvorki Sakho eða Dann, veikir þá mjög. Varnarmenn þeirra munu líklegast liggja djúpt og það á hreinlega að opna möguleika fyrir okkar menn. Við erum með góða skotmenn sem hreinlega eiga að nýta sér slíkt. Ætli við sjáum ekki Tomkins og Martin Kelly saman í miðvarðarstöðunum.

En að okkar mönnum. Samkvæmt Physioroom erum við á toppnum á einum stað í deildinni, það er þegar kemur að meiðslum. Þeir Lucas og Matip eru tæpir fyrir þennan leik en það er ljóst að Klavan, Mané, Lallana, Henderson, Ejaria og Ings munu ekki taka þátt í leiknum. Við hreinlega VERÐUM að fá Matip inn í þennan leik, hann er sá eini sem á einhvern séns í Benteke í loftinu. Hvað annars mun Klopp gera ef bæði Lucas og Matip verða frá? Það er ekki hægt að droppa Can niður í vörnina, þar sem bæði Hendo og Lallana eru fjarri góðu gamni. Erum við að tala um að horfa fram á að Joe Gomez komi alveg hrár inn í þessa mikilvægu miðvarðarstöðu? Nei, nú krossar maður fingur og vonar það besta með Matip, það er algjört lykilatriði. Það er allavega ljóst að ef þessir tveir verða ekki með, þá þurfa menn ekkert að velta því neitt fyrir sér hvort hann byrji með 3 miðverði. Þeir eru einfaldlega ekki til staðar. Ekki það að ég búist við slíkri uppstillingu, síður en svo, held að það sé ekki fræðilegur séns.

Ég ætla mér að vera bara hrottalega bjartsýnn og spá því að Matip verði klár í slaginn. Vörnin verður því ansi hreint kunnugleg, eða sú sterkasta sem við getum stillt upp. Miðjan er nánast sjálfsskipuð líka, ef við erum heppnir og Lucas sé klár í slaginn. Í mínum huga er þetta bara spurning um hvort Origi eða Sturridge byrji frammi. Auðvitað gæti Klopp sett Origi út á kant og Coutinho niður á miðjuna. Ég hef bara einhvern veginn ekki trú á því að hann byrji með báða framherjana í leiknum. Ég væri svo sem alveg til í það, en hef ekki trú á því.

Svona reikna ég því með að Jurgen Klopp stilli upp liðinu, og ég bara treysti á það að menn séu heilir:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Can – Lucas – Wijnaldum

Firmino – Sturridge – Coutinho

Ef Lucas er ekki heill, þá tippa ég á þetta svona:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Wijnaldum – Can – Coutinho

Origi – Sturridge – Firmino

Eins og fyrr segir, þá vil ég bara ekki hugsa þá hugsun til enda ef Matip spilar ekki leikinn. Ég held því líka fram að liðið verði sterkara með Lucas í varnartengiliðnum heldur en að setja Coutinho niður á miðjuna. Johan Cabaye stjórnar miðjunni hjá Palace og hann má ekki fá neitt pláss til að dreifa boltanum. Staða djúpa miðjumannsins mun verða mikilvæg í þessum leik því Palace munu reyna að sækja á okkur og það hratt. Okkar flinku menn eru það góðir í fótbolta að þeir eiga allan tímann að geta skorað mörk á þessa Palace vörn og þurfa einfaldlega að tryggja það að þeir skori fleiri slík en mótherjinn.

Ég þrái það að geta horft á Manchester slaginn í næstu viku og geta nánast fagnað hvaða úrslitum sem er í þeim leik. Til þess að veit mér þá ánægju, þá þurfum við að klára þetta Palace lið og þennann tyggjó jórtrandi Ferguson Wannabe. Sigur á Palace gerir það að verkum að jafntefli í Manchester slagnum væri algjörlega frábært og myndi þýða það að hvorugt þeirra ætti séns á að ná okkur að stigum ef við klárum okkar síðustu 4 leiki. Sigur City myndi gera það að verkum að brekka Man.Utd yrði svaðalega brött og öll áhersla þeirra myndi snúast yfir á Evrópudeildina. Sigur Man.Utd myndi breikka bil okkar í þetta City lið og auka til muna möguleika okkar á að lenda í 3ja sæti í deildinni. En allt þetta hverfur ef okkar menn taka ekki lið Crystal Palace á Anfield. Auðvitað er þetta ekkert búið þótt illa færi, en Jeremías góður hvað sigur myndi setja okkur í sterka stöðu.

Ég ætla að spá okkur sigri og að lokatölur verði 3-1. Daniel Sturridge, Firmino og Coutinho munu sjá um að sigla þessu í höfn fyrir okkur.

6 Comments

 1. Sturridge meiddur var ég að lesa. En ef Lucas nær ekki leik hver er staðan á Grujic?

 2. Sælir félagar

  Sturridge meiddur. Það bara getur ekki verið. Fyrir utan viðvarandi heilatognun hélt ég að hann væri heill. En hvað um það þá þarf að vona að brassarnir reddi þessu með Origi sem uppfyllingu. Vonandi er Lucas leikfær. Við sjáum til. 3 – 1 mín spá.

  Það er nú þannig

  YNWA

 3. Hvað ætli sé að fólki sem segir að Sturridge sé tognaður á heila ? Eins og hann vilji vera meiddur ? Eins og hann sé að gera þetta markviss. Skora á fólk að hætta að nota svona orð, þetta kjánalegt.

 4. Er að ferðast og er á milli véla í london þegar leikurinn er. Vitið þið um einhver góðan pöbb nálægt heathrow? En annar enn einn úrslitaleikurinn sem fer 1-2
  YNWA

 5. Þú spáðir vitlaust. Leikurinn fór 1-2 fyrir betra liði að nafni Crystal Palace. Ekki lengur í höndum okkar Liverpool manna. Ég spáði og veðjaði gegn mínu liði og er ánægður þar sem ég vann fínan pening fyrir vikið. Væri fínt að ná 5 sæti.

Hvar þarf að styrkja liðið: Varnarmenn

Liverpool – C.Palace 1-2 (leik lokið)