Bikarúrslit?

Já, þetta fer að verða vel þreytt fyrirbæri. Annar hver leikur hjá okkar mönnum þessa dagana er nánast bikarúrslitaleikur, en reyndar því miður án nokkurs bikars. Það er eldgömul og alveg hundþreytt lumma að næsti leikur sé make or break leikur, sá mikilvægasti á tímabilinu og jari jari jara. Hversu oft höfum við heyrt slíkt. Við heyrum slíkt að sjálfsöðu oftast þegar við erum að spila við lið sem eru á svipuðum stað og okkar menn. Hvernig flokkast þá þessi leikur gegn Arsenal? Laugardagurinn 4. mars og klukkan 17:30. Liðin sem núna sitja í fjórða og fimmta sæti. Arsenal stigi á undan Liverpool, en eiga leik til góða. Gefum okkur það að sá leikur vinnist hjá Arsenal, þá væru þeir 4 stigum fyrir ofan okkur í hörku baráttu um þetta bölvaða fjórða sæti. Við sem sagt getum sett þá baráttu í algjört overdrive með sigri, komist yfir þá tímabundið og í versta falli heilu stigi á eftir þeim. En hvað ef þetta fer í hina áttina? Hvernig er staðan ef Arsenal vinnur leikinn? Jú, þá komast þeir í fjögurra stiga forystu, sem gæti orðið 7 stiga forysta. Það væri mikið, alveg ferlega helvíti mikið.

Ég viðurkenni það fúslega að ég fékk svo mikið óbragð í munninn yfir frammistöðu okkar manna gegn Leicester að ég gat varla hugsað um fótbolta. Það var af skyldurækni en ekki áhuga að maður tók þátt í Podcasti á þriðjudaginn, ég hafði “beisiklí” engan áhuga á að horfa á eða fjalla um fótbolta í einu eða neinu formi. En sem betur fer er maður oft fljótur að gleyma og nú er komið að næsta verkefni. Svei mér þá, það er bara komin eftirvænting í mann. Nokkrum korterum eftir að maður hreinlega ákvað að horfa aldrei aftur á fótbolta eftir að liðið okkar tók þá frábæru ákvörðun að mæta ekki til leiks í Ensku Úrvalsdeildinni.

En hvað er maður að kvarta og kveina? Það er ekki eins og að þetta sé eitthvað nýtt fyrir okkur stuðningsmenn Liverpool FC, onei, því fer fjarri. Þetta er eflaust svipað því að mamma manns hafi verið kasólétt í Tívolí og bara ákveðið að fæða í stóra Rússíbanananum. Ekki nóg með það, hún ákvað bara að halda áfram að vera þar. Auðvitað ætti maður þá að venjast þessum dýfum, þessum hæðum og lægðum, upp og niður. En neeeei, þetta bara freaking venst ekki rassgat. Samt hefur maður átt heima þarna síðustu tugi ára (í mínu tilfelli).

Það verður fróðlegt að sjá hvernig liðið mætir til leiks gegn þessu Arsenal liði. Yfirleitt höfum við nú ekki þurft að hafa áhyggjur af því í vetur að menn mæti ekki til leiks í þessa leiki gegn “stóru” liðunum. Það hefur lítið verið hægt að kvarta yfir genginu gegn þeim. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig t.d. Klopp ræðir við þessa pilta okkar á æfingunni eftir svona fáránleikhús eins og gegn Leicester. Tekur hann þögla og alvarlega pakkann á þá? Tekur hann hárblásarann? Tekur hann jákvæða gaurinn og reynir að draga fram það sem menn geta bætt sig í? Ég hef í rauninni ekki hugmynd um þetta, en eitt veit ég þó. Þessir drengir voru heppnir að ég hafði ekki það hlutverk að taka á móti þeim á þessari æfingu, svo mikið er víst. Ég hefði sektað hvern einn og einasta af þeim um tveggja vikna laun fyrir að mæta ekki í vinnuna.

Nú ber að svara fyrir þessa hörmung takk fyrir. Klopp var ekkert að grínast neitt með það að sumir af þessum leikmönnum okkar eru að spila fyrir framtíð sinni. Þetta Arsenal lið sem er að koma í heimsókn, það er svona á margan hátt álíka og okkar. Eru með slatta af fínum leikmönnum, en toppstykkið ekki alltaf skrúfað á, og virðist stundum hreinlega vera forskrúfað. Þeir geta hitt á leiki þar sem það virðist hreinlega enginn geta stöðvað þá, en svo mæta þeir næst eins og að þeir haldi að þeir séu í tjaldútilegu með gráhærðan svefnpoka með í för. Könnumst við við þetta? Hell yeah.

Það þarf samt ekki að fjölyrða mikið um hættuna sem þetta Arsenal lið getur skapað. Þeir eru með einn af 5 bestu leikmönnum deildarinnar í Alexis. Özil hefur heldur betur kálað heilu og hálfu liðunum þegar hann hefur á annað borð nennt því. Giroud og Walcott eru svo flottir sóknarmenn. En hvað svo? Þá kemur að vandamáli sem er svipað hjá báðum liðum. Miðjan hefur oft á tíðum virkað illa. Nallar eru með tvo hauslausa miðjumenn í þeim Xhaka og Coquelin og svo lítið annað. Ramsey átti eitt fínt tímabil og hefur lítið gert síðan. Elneny er svo ágætur til síns brúks, en svo er Cazorla meiddur. Þeir eru sem sagt ekkert að kafna neitt úr miðjumönnum (sem geta eitthvað), svipað vandamál og hjá okkur.

Þeir eru reyndar aðeins betur settir í vörninni, eru með stabílt miðvarðarpar í þeim Koscielny og Mustafi og flottan bakvörð í Bellerin. Það sem þeir hafa svo fyrir aftan vörnina er svo eitthvað sem við höfum þráð lengi, stór og solid markvörður. En hvað um það, stoppið þennan Alexis og þá eru menn komnir c.a. 50% af leiðinni.

En hvað um okkar menn? Það er ekki hægt að skipta út 10 mönnum frá síðasta leik, við höfum ekki breidd í það. Nei, við munum sjá svipað lið áfram. Vonandi er Lovren orðinn heill á nýjan leik. Lucas var fullkomlega hræðilegur í síðasta leik, en hentar líklegast skárr gegn liði eins og Arsenal. Hann allavega á ekki break í kerfi sem byggir á spólgröðum Vardy uppi á topp. Matip verður áfram á sínum stað og ég sé ekki að Klopp sé að fara að skipta Clyne neitt út, enda var hann bara í sama rugli og allir hinir síðast. Ég vil svo sjá breytingu í vinstri bakvarðarstöðunni. Menn hafa oft verið fljótir að benda á slakan varnarleik hjá Moreno í gegnum tíðina, réttilega það. En núna ber svo við að hægri bakvörður Arsenal er hraðasti leikmaðurinn í deildinni. Milner er ekkert að fara að eiga neitt í hann á sprettinum. Það gæti Moreno gert. Í þokkabót eru allar líkur á að Hendo nái ekki þessum leik og þá vil ég allan tímann fá Milner inn í varnartengiliðinn. Við skulum orða það þannig að ég vil ekki sjá Emre Can nálægt þeirri stöðu í bráð. En vonandi er Hendo bara klár í slaginn, ég ætla að ganga út frá því að svo sé ekki.

Annað er því miður nánast sjálfvalið. Wijnaldum og Lallana á miðjunni, Mané og Coutinho á vængjunum og eina spurningin í mínum huga er frammi. Eins mikið og ég er mikill Bobby Firmino maður, þá er bara ekki ásættanlegt að hann hafi í síðustu 18 leikjum skorað heil 3 mörk og ekki lagt upp eitt einasta. Nei, það er ekki nógu gott hjá sóknarmanni. Vandamálið er bara það að við erum með 2 ískalda gaura sem eru að “berjast” við hann um stöðu. Sturridge er búinn að vera með einhvern vírus í 9 eða 10 daga og Origi er búinn að vera offline í ennþá lengri tíma. Hvað skal gera? Svei mér þá, skásta veðmálið er bara að vona að Bobby hrökkvi í gang. Damn hvað okkur vantar mikið breidd í þetta lið. Svona vil ég sjá þetta:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovern – Moreno

Lallana – Milner – Wijnaldum

Mané – Firmino – Coutinho

Sem sagt, þetta lið getur alveg kafsiglt Arsenal. En þeir geta líka fallið til jarðar líkt og loftsteinn án fallhlífar ef svo ber undir. Verðum við ekki bara að vonast til að stórleikja Liverpool mæti til leiks og brjótist út úr skelinni. Þeir geta svo bara farið og falið sig aftur stuttu seinna þegar þeir fá Burnley í heimsókn. Opna sig gegn Arsenal, senda okkur upp í hæstu hæðir eins og flottan flugeld. Við skoðum svo bara síðar hvernig það verður að halda í prikið á leiðinni niður aftur. Við vitum vel að það er vont, en það er seinni tíma vandamál, eigum við ekki að fá bara far upp núna?

Við vinnum þetta dæmi 2-1 með mörkum Firmino og Mané.

34 Comments

  1. Sælir félagar

    Ég hefi engum sérstökum skyldum að gegna eins og SSteinn. Ég bara nenni þessu ekki eftir leikinn Leicester og er því ekki viss um að ég nenni að horfa á leikinn við Arsenal.

    Það er nú þannig

    YNWA

  2. ég er sem betur fer gúbbí fiskur og er orðinn nokk spenntur… amk þegar það eru ekki lengur 3 dagar milli leikja. Svo er leikurinn sem betur fer að klárast rétt fyrir átta þannig dagurinn verður ekki allur ónýtur og maður getur farið beint í bjórinn ef sama lið mætir og síðast.

  3. Koma svo !

    Við eru fjandakornið ennþá í 5 sæti og allt galopið ennþá – ekki missa trúnna í ánni miðri þó að verið sé að pissa í vatnið allt í kring….tökum smá Pollýönnu á þetta, amk. í nokkra leiki enn……
    :O)

    YNWA

  4. Það sem maður er mest svekktur með er að Klopp virðist ekki vera með neitt plan B. Helgi eftir helgi sér maður sömu leikmenn í sama leikkerfinu gerandi sömu mistökin. Chelsea voru virkilega slakir í byrjun tímabils en þá eru einhverju breytt, fara í 3-5-2 kerfið, og þeir hafa ekki litið til baka síðan. Ég er alls ekki að segja að við eigum að fara í það kerfi eða einhver ein breyting myndi breyta öllu fyrir okkur en við getum ekki sætt okkur við Groundhod day alveg endalaust. Ég vil alls ekki að Klopp verði látinn fara en ég verð alveg að viðurkenna það að ég hélt að hann gæti brugðist betur við þegar að aðstæður sem þessar kæmu upp.

  5. Ég er Liverpool-maður, ég stend með mínu liði, að sjálfsögðu ætla ég að horfa á mína menn pakka Arsenal saman!

    YNWA!

  6. Er eins og sumir hérna, hef ekki opnað liverpool síðu eftir tapið á mánudaginn. Held að það hafi verið mestu vonbrigði síðust tvö þrjú ár einhverra hluta vegna.

    En ætli maður fylgist ekki með þessu, og ef við sigrum Arsenal þá fer maður aftur í þann hring að byggja upp spennu og væntingar. Svo töpum við fyrir Burnley eða einhverju álíka liði og maður fer aftur beint á botninn. Maður lærir víst ekki neitt úr þessu.

  7. Þetta verður eitthvað maður veit aldrei hvað maður fær þegar maður horfir á liverpool en maður fer aldrei af vagninum þótt að öll hjólinn detta af.
    Liverpool – Arsenal = 100% mörk og fjör.

    Það kæmi mér ekkert á óvart ef liverpool vinnur 5-0 eða tapar 2-3. Það eru ekki margir leikir eftir og fylgjist maður extra vel með hvernig Klopp og félagar klára mótið. Það sem maður er viss um í síðustu leikjunum.
    A) liverpool á eftir að rústa einhverju liði og spila frábæran fótbolta og menn fara að tala liðið upp. Comment eftir leiki á kop fara alveg upp í 50.
    B) Liverpool á eftir að drulla á sig gegn fyrir fram lélegu liði og klopp out og allir lélegir kemur fram og comment á kop fara yfir 150
    C) s.s það koma góðir og slæmir leikir 😉

  8. ef klopparinn breytir engu og heldur sig við sama ruglið, þá er hann ekki með þetta. Búinn að fá alltof mörg tækifæri til þess en hefur klikkað hingað til, t.d hvað gerði Conte þegar ílla gekk í byrjun hjá honum. Hann sá sig sigraðan og breyti. Fyrir mér til að styðja Klopparan áfram vill ég sjá breytingar, plan b og bregðast fyrr við skitu inn á vellinum. styð uppstillinguna hjá Steina hér að ofan. Hafa bara Lucas sem lengst frá öllu…..koma svo 3-0

  9. Takk fyrir þetta.
    Ég á í engum vandræðum með að gíra mig upp. Ég hef horft á fótbolta í hálfa öld og mun halda áfram að horfa næstu hálfa.
    Ég er svag fyrir þessari tillögu að henda Moreno inn og setja Milner í varnartengilið á kostnað Can.
    Vonandi nær Lovren leiknum.
    Lykilatriðið er að Lallana, Coutinho, Mané og Firmino verði dýrvitlausir, markvissir og klókir.
    Fílingurinn er þokkalegur, koma svo!
    YNWA

  10. Við skíttöpum þessum leik vegna þess að mannskapurinn kann ekki að skammast sin og virða búninginn og félagið. Vantar stolt og baráttu í liðinu.Og vantar ALVÖRU leiðtoga sem öskrar á mannskapinn áfram.

  11. Frá mínum bæjardyrum séð er þetta risastórtprófraun fyrir Can. Í einföldum minni tel ég að úrslitin ráðist á framistöðu hans í fjarveru Henderson.

  12. Að halda með okkar ástsæla er eins og vera fastur í einni senu úr Forrest gump. ‘Lífið er eins og kassi af konfekti þú veist aldrei hvaða mola þú færð ‘ en ég mun að sjálfsögðu horfa á morgun og njóta nú eða ekki? Maður spyr sig ?

  13. Can í sjoppuna og Lucas í gæsluna fyrir það fyrsta og Firmino með 3 mörk í 18 leikjum og þar af tvö í einum leiknum.

    Byrjaði að horfa á Leicester-leikinn,en þegar Drekkavatn skoraði þá lokaði ég síðunni, tók Breaking bad maraþon og setti mig í Heisenberg-mode – tók mig 3 daga að tala aftur við konuna,en hún var hvort eð er ekki heima.

    Er enn að jöggla með spurninguna um hvort ég eigi að horfa á leikinn?! Enjá,skipta einnig Firmino út fyrir konuna í sjoppunni.- Getur ekki verið mikið verri,blessunin.

  14. Þetta tímabil er ekkert frábrugðið öðrum, við erum í 5-6.sæti á þessum tímapunkti sem er fastur liður eins og venjulega. Það sem hefur breyst er að væntingarnar eru miklu meiri og á Klopp svona 95% þátt í því. Leikmannahópurinn hefur oft verið betri og er ekkert sérstakur eins og margir hafa bent á. Auðvitað er svekkjandi að vera í 1.sæti í nóvember og vera með lélegasta árangurinn eftir áramót en ef horft er á liðin í kringum okkur þá finnst mér Klopp bara í ágætis málum. Hans tími mun koma eins og hann hefur sýnt á sínum ferli.

  15. Viljiði heyra brandara?? Firmino var valinn í Brasilíska landsliðið í dag!!

  16. Ég vill ekki sjá Moreno nálægt þessu liði !! hvorki í haust áður enn tímabilið byrjaði og ekki heldur núna þó að þessi maður geti hlaupið þá er hann lélegri í fótbolta enn bæði Origi og Can.
    Moreno var svo lélegur á síðasta tímabili að það hálfa væri hellingur og ef ég man rétt þá spilaði hann á móti Arsenal í upphafi tímabils og gaf víti með því að brjót á mann sem var ekki að fara gera annað enn hlaupa útaf við hliðarlínuna. Ég vil frekar einhvern fljótan kjúkling í stöðuna t.d. Gomes eða eitthvað allt annað.
    Koma svo upp með hausinn LFC tökum þetta 5-0.

  17. út með Clyne, það kemur ekkert frá honum, ekki 1 kross, hann er allveg búinn með allt sjálfstraust…. Emre Can í hægri bakvörð, hann er sterkari og graðari

  18. Í lok síðasta leik prufaði klopp 352 gæti alveg séð það í dag með matip lovren can sem aftöstumenn og moreno er þar inni það er bplan

  19. Siguróli og verðlauna Can af því að hann er búinn að vera svo sterkur og graður í síðustu 20 leikjum? Líklegast jafn slakasti maður liðsins á tímabilinu, hauslaus, áhugalaus og almennt út úr korti? Hmm, held ekki.

  20. Jahérna hér.

    Við erum 4 stigum á eftir liðinu í öðru sæti – í mesta lagi 6 ef ManCity vinnur sinn leik. Það er ekkert.

    Svo tala menn um að þeir nenni ekki að horfa á Liverpool vinna Arsenal á eftir.

    Hvaða rugl er þetta!

    Var það ekki nákvæmlega þetta sem Klopp vildi breyta hjá liðinu þegar hann kom.?Breyta neikvæðni í jákvæðni og benti á að ef áhangendur hefðu trú á liðinu þá hefðu leikmenn það líka.

    Koma svo … það er enn nóg eftir af deildinni. Við erum með frábæran framkvæmdarstjóra og góða leikmenn … og þeir geta enn gert fína hluti.

    Áfram Liverpool!

  21. United er að klúðra sínu tækifæri að komast upp fyrir okkur svo dagurinn byrjar allavega vel.

    2-1 sigur hjá okkur í dag

    YNWA!

  22. Kristaltært. 4-0 sigur
    Arsenal henta okkur og eru í sárum eftir Bayern upprúllið. Wenger tilkynnir á manudag að hann hætti í vor. Arsenal enda í 6 sæti. Við í því fjórða.
    United slefa svo í fimmta.

    Árinu bjargað

    Er það ekki plan?

  23. maður horfir alltaf á liverpool þó að maður sé hundsvekktur með liðið

  24. Vandamálið er ekki bara liðið, það eru líka við stuðningsmennirnir.
    Ef við tökum gleraugun niður þá sést það langar leiðir að þessi leikmannahópur er 5-6 besti hópurinn í Premier League, það er ekki 1 heimsklasaaleikmaður í liðinu, það er enginn sterkur karakter sem stígur upp og dregur vagninn þegar illa gengur, það vantar alvöru slúttara uppá topp, vörnin er húsverkur útaf fyrir sig, og markmannsstaðan er Djók.
    Öll liðin fyrir ofan okkur eru betur mönnuð og ég hef ekki trú á því að MU muni muni vera lengi andandi ofaní hálsmálið á okkur þeir munu sigla frammúr, enda ekki tapað leik í langan tíma og eru með Zlatan sem bústar upp alla í kringum sig.

    Að tala um að reka Klopp er í besta falli hlægilegt, hann er búinn að kaupa 3 leikmenn og þurfa að losa sig við fullt af drasli einsog heilaskemmda leikmenn einsog Balotelli og Sakho.

    Aftur móti má gagnrýna Klopp fyrir það að vanmeta stærð hópsins, að vera með t.d meidda Henderson, Coutinho, Sturridge, missa Mane til Afríku os.frv sem skilar 17-18 strákum á bekkinn er ekki boðlegt.
    Setti reyndar alltaf spurningarmerki við söluna á Bentake það hefði verið gott að hafa öðruvísi vopn bekknum í framlínuna.

    Ég vona að leikmenn gyrði sig í brók og finni taktinn, ef Klopp nær meistaradeildarsæti með þennan leikmannahóp þá er það afrek útaf fyrir sig.

  25. Sigursteinn segir að Moreno ætti að hafa hraðan til að stoppa Bellerin, ég gat nú ekki séð það síðast þegar við spiluðum á móti hann alveg skelfilegur í þeim leik og ég verð alveg dauðhræddur ef hann á að byrja þennan leik.

  26. Liverpool vinnur 1-0 í dag mig dreymdi það í nótt er mjög berdreyminn.
    Annars var ég að horfa á ManU og Bournem, ég segi bara þetta; Jahérnahér 🙂

  27. Ég veit að þetta tengist ekki Liverpool en maður getur ekki annað en elskað hrokan í Zlatan.

    Hann hoppaði í olbogan á mér var svarið eftir leik dagsins 🙂

  28. Ég er í vinnuni og get vel horft á leikinn hér en ég held ég bara nenni því ekki það er bara búið að klúðra þessu tímabili gjörsamnlega. Ekki það ég viisi allan tíman að við yrðum ekki meistarara en þetta harakírí seinustu 2 mánuði er bara firir neðan allar hellur og bara farið að minna á Liverpool undir stjórn Roy Hodgeson. Ég held við töpum þessum leik 1 – 3 og Arsenal verður með sjálfsmark. Er ekkert viss um að liðið nái evrópusæti hvað þá Meistaradeildarsæti.

  29. @31 Elskað Zlatan my ass….maðurinn hrundi eins og kartöflupoki þegar var verið að dusta rykið af bringunni hans.

Það eru engar skyndilausnir í boði

Liverpool v Arsenal [dagbók]