Rót vandræðana í vörninni?

Hey vissuð þið að varnarleikur Liverpool hefur oft verið mikið gagnrýndur á síðustu mánuðum?

Það er nú varla eitthvað leyndarmál að veikleikar Liverpool virðast liggja í varnarleik liðsins enda liðið að fá á sig oft á tíðum fullt af óþarfa mörkum og heilt yfir bara alltof mörg mörk. Margir hafa sett á sig hugsana hattinn og reynt að komast til botns í málinu og er ég einn þeirra.

Mörgum finnst afar vinsælt að kenna einstökum leikmönnum um mistökin í vörninni og fá oft sömu einstaklingarnir það óþvegið ef eitthvað fer úrskeiðis og beinast, oft óréttlátt, fingur á þá. Hóst Dejan Lovren…

Jú jú, oft kosta einhver einstaklings mistök mörk en ég er til dæmis ekki á þeim vagninum að beina fingri mínum alltaf á einhvern eins og til dæmis Dejan Lovren og kenna honum um þetta allt saman af því að hann er ömurlega, glataður skíta leikmaður. Nei, alls ekki. Come on, hann er það ekki.

Ég er alveg á því að varnarleikur snýst fyrst og fremst um liðsheild, skilning og samstarf tveggja eða fleiri leikmanna í öftustu línu og hef ég verið á þeirri skoðun að það sé vandamálið hjá Liverpool frekar en að allir varnarmenn sem liðið á eru drasl.

Ég ákvað að skyggnast aðeins í þetta og skoðaði aðeins miðvarðarpörin sem Klopp hefur notað frá því hann tók við Liverpool á síðustu leiktíð og fjölda þeirra leikja sem þau hafa spilað saman. Alls eru þetta 20 miðvarðarpör, sem er frekar mikið.

Screen shot 2017-02-18 at 00.17.13

Fyrsta miðvarðarparið sem Jurgen Klopp notaðist við í deildarleikjunum var Sakho-Skrtel. Þeir áttu einhverja fjóra eða fimm deildarleiki í röð áður en allt fór í hrærigraut. Liðinu var róterað mikið vegna Evrópudeildar og bikarkeppna sem útskýrir mörg þessara para hóst Enrique og Ilori!

Eins og sést greinilega þá varð Sakho-Lovren miðvarðarparið sem varð hans fyrsti valkostur og náðu þeir þó aðeins að spila fjórtán leiki saman á leiktíðinni – og það voru alls ekki fjórtán leikir í röð. Fimm hér, þrír þar og þar eftir götunum. Þar á eftir kom Lovren-Toure miðvarðarparið og spiluðu þeir flesta leiki saman undir lok leiktíðar – þar á meðal síðustu þrjá leikina í Evrópudeildinni vegna leikbanns Sakho.

Á síðustu leiktíð notaðist Klopp við tólf miðvarðarpör í einhverjum 45-50 leikjum eða eitthvað álíka.

Screen shot 2017-02-18 at 00.17.32

Í vetur hefur hann aðeins notast við átta miðvarðarpör!!

Lovren-Matip er miðvarðarpar númer eitt og fer það ekkert á milli mála. Þegar báðir eru í boði þá byrja þeir saman en meiðsli og einhver fáranlegur sirkus í kringum Afríkukeppnina hefur haldið Matip frá keppni um einhvern tíma og þeir því aðeins náð að spila tólf leiki saman. Þar á eftir kemur Lovren-Klavan með tíu leiki – og líkt og í fyrra þá hafa þessir leikir aldrei verið allir í röð heldur bara nokkrir í nokkur skipti.

Þetta held ég að sé rót vandamálana í varnarleik liðsins. Hvernig á lið að geta náð upp stöðugleika, skilning og trausti í varnarlínu sína þegar það þarf að rúlla á einhverjum 5-6 miðvarðarpörum í 25 deildarleikjum?

Lovren er sá miðvörður sem hefur verið hér lengst og spilað flestu leikina. Ég ætla að gefa mér það að hann sé valkostur númer eitt hvort sem fólki líkar betur eða verr í þetta dæmi. Fínt? Fínt. Hann hefur á þessum tveimur leiktíðum spilað með sjö öðrum miðvörðum á þessum tíma – og eins og áður segir þá erum við að tala um fjóra leiki í röð með Klavan, fimm með Matip, einn með Lucas, sjö með Sakho, tvo með Toure og svo framvegis. Gæti það kannski ekki útskýrt smá af hverju við lendum oft í þeim aðstæðum að menn elta sama sóknarmanninn, annar bakkar en hinn hleypur fram og svo framvegis? Er það ekki?

Það hjálpar svo ekki heldur til þegar Liverpool skiptir á markvörðum líka. Bakverðirnir Clyne og Milner eru meðal þeirra sem hafa spilað nær alla deildarleikina fyrir liðið á leiktíðinni (og á síðustu leiktíð, þó Milner hafi verið í annari stöðu), það er frábært og þeir stöðugir í sínum leik en það væri ósköp fínt að hafa markvörð og miðverði sem spila eins marga leiki í röð og þeir.

Til samanburðar þá voru liðin sem börðust helst um titilinn í fyrra, Leicester og Tottenham, ekki í einhverjum svona óþarfa vandræðum.

Hjá Tottenham spilaði Toby Alderweireld, þeirra besti miðvörður, alla 38 deildarleikina og Vertonghen sem er hinn lykilmaðurinn hjá þeim spilaði 29 leiki sem þýðir að þeir náðu 29 leikjum saman í vörninni. Hugo Lloris spilaði 37 af 38 leikjum í markinu fyrir aftan þá.

Wes Morgan spilaði alla deildarleikina fyrir Leicester sem unnu deildina. Robert Huth náði að spila 35 leiki við hliðina á honum og Kasper Schmeichel spilaði alla deildarleikina á bakvið þá.

Af þessum 25 leikjum sem eru liðnir í deildinni í ár hafa þeir Gary Cahill, Cezar Azpilicueta og Courtois spilað 23-24 af þessum leikjum saman og Luiz hefur náð 19. Þeir eru nú á toppi deildarinnar, með svakalega flott varnar record og með átta fingur á titlinum.

Sjáið þið einhvern mun þarna á? Er nokkuð skrítið af hverju varnarleikur þessara liða hafi verið svona rosalega stöðugari og betri á þessum tíma en hjá Liverpool?

Ég er alveg klárlega á því að það sé einna mikilvægast að brúa bilið á milli Lovren-Matip parsins og svo kannski Lovren-Klavan/Lucas, það er töluverður gæðamunur þarna á en lykillinn er að sjálfsögðu að ná “aðal” varnarlínu sinni saman eins marga leiki í röð og maður mögulega getur. Það er að minnsta kosti mín kenning.

Hver er ykkar, eru varnarmenn Liverpool svona ógeðslega lélegir eða gæti eitthvað svona verið helsta rót vandans?

6 Comments

  1. Ég hef tilhneigingu til þess að fallast á þetta en að sama skapi þá neita ég að horfast í augu við að enska deildin sé að verða að einhverju meiðslalottói. Þá getur maður allt eins farið í húsdýragarðinn.

  2. Ég er á því að markmaðurinn skipti gríðarlega miklu máli þegar það kemur að því að verjast. Markmaðurinn er sá leikmaður sem hefur bestu yfirsýnina yfir völlinn og sér þar af leiðandi hluti sem varnarmenn sjá ekki, s.s. hlaup og fleira.

    Liverpool hefur ekki síðan að Reina fór átt markmann sem er nægjanlega stjórnsamur og hreinlega stýrir vörninni. Mignolet finnst mér ekki nægjanlega “vocal” og ég var að vona að Karius myndi vera það, sem er erfitt að sjá eftir svona fáa leiki.

    Aldrei sér maður Mignolet húðskamma varnarmenn fyrir mistök, alltaf er það að klappa hönskunum saman og sennilega segja “kemur”. Reina væri búinn að öskra svo mikið á varnarmennina að þeir þyrftu sennilega áfallahjálp, líka eftir æfingar.

    Þetta er allavegana minn punktur. Markmenn eru miklu meira en bara markmenn. Þeir eru aftasti varnarmaðurinn og að mínu mati eiga þeir að stjórna vörninni.

  3. Ps. til hamingju Coutinho með Samba Gold Award. Ekki slæm viðurkenning það.

  4. Pss. Þegar að Alonso hættir að vera besti leikstjórnandi í heimi á LFC ekki að ráða hann til starfa við hlið Gerrard’s. Endurvekja brómansið sem var í gangið 2004-2009.

  5. það er ekki hægt bara að kenna miðvörðum um klúður. T.d eru bakverðir alltof hátt uppi og eru ekki mikið að hjálpa. okkar miðjumenn komnir inní teig andstæðingana og því þurfa miðverðirnir að dekka mjög mikið svæði á móti hröðum strikerum. það er ekki sjéns að eiga við það..ætti að bakka með bakverðina , ekki hleypa þeim fram fyrir miðju :.!!! fullt af liði fyrir framan sem getur farið á kantana. og margir frammi sem eru bara að þvælast fyrir hvorum öðrum. og sitja svo með einn á miðjunni. Komnir með 5 til að verjast,,getur ekki klikkað.

  6. Sakho með frábæra frammistöðu hjá CP í fyrsta leik. Hefði ekki mátt leysa málið á annan hátt?

Lallana skrifar undir

Upphitun: Leicester verður undir stjórn Shakespeare