Það er af sem áður var

Já, það er sko af sem áður var, og þá er ég að tala um fyrr á þessu tímabili. Þá hræddist maður ekki leiki gegn liðum eins og Hull. Maður var meira að spá í því hversu mörg mörk við myndum setja á þá, fremur en hvort sigur myndi vinnast. Já, því miður, þetta er breytt. Stóra strögglið núna virðist einmitt vera gegn lélegustu liðunum, liðum úr botnsætunum og úr deildum fyrir neðan efstu deild. En síðasti leikur hefur reyndar aðeins blásið í mann meira sjálfstrausti, því liðið var mun sprækara en það hefur verið í undanförnum leikjum. Reyndar hefur þetta lið ekki átt í erfiðleikum með að skila úrslitum gegn stærstu liðunum þetta tímabilið. Enska deildin er hálf óútreiknanleg eins og sást svo berlega í þessari síðustu umferð. Bjóst einhver við því að Hull væru að fara að taka stig á Old Trafford? Bjóst einhver við sigri Watford á Arsenal? Eða að Sunderland myndi halda hreinu gegn Spurs?

Það er nefninlega allt opið upp á gátt, allavega sætin fyrir neðan toppsætin. Næsta umferð gæti sagt svolítið til um framhaldið þar sem Arsenal er að fara að mæta Chelsea. Auðvitað hafa okkar menn engin áhrif á þann leik, en það eina sem þeir geta gert er að vinna sína leiki. Núna framundan er nákvæmlega ekkert álag á mannskapinn. Klopp fær endalausan tíma á æfingasvæðinu til að leggja hlutina upp. Menn verða í meiri hættu á að verða ryðgaðir en þreyttir. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að gera árás á þessi efstu sæti. Hvort það sé orðið of seint að gera titilárás verður að koma í ljós, en allt annað er svo mikið innan seilingar að það hálfa væri hellingur. Þetta hefst með þessum leik gegn Hull. Ef menn ætla sér að blanda sér í þessa baráttu þá hreinlega verða svona leikir að vinnast, og það helst nokkuð örugglega.

En Hull hafa alveg sýnt það að þeir geta bitið frá sér. Þeir geta líka hrunið eins og spilaborg. Þeir sitja í næst síðasta sæti deildarinnar með heil 17 stig. Þeir unnu fyrstu 2 leikina sína í deildinni og hafa því nælt sér í heil 11 sig í 21 leik eftir þessa fyrstu 2. Aðeins Middlesbrough hefur skorað færri mörk en þeir og aðeins Swansea hefur fengið fleiri mörk á sig. Ekkert lið er með jafn dapurt markahlutfall, en þeir hafa skorað 20 mörk og fengið á sig heil 47 mörk. Þeir eru sem sagt í 27 mörkum í mínus yfir þessa 23 leiki. Okkar menn hafa skorað 52 mörk og hin hræðilega vörn okkar hefur fengið á sig 28 mörk, sem sagt 24 mörk í plús. Munurinn á markamun þessara tveggja liða er því 51 mark yfir þessa 23 leiki. Þessi blessaða tölfræði ætti nú að gera það að verkum að við færum ansi hreint cocky inn í leikinn, eða hvað?

Miðvörðurinn Dawson er markahæstur leikmanna þeirra í öllum keppnum, en hann hefur skorað 4 mörk. Þetta kannski súmmerar upp vandamál þeirra. Jakupovic markvörður þeirra átti verulega fínan leik gegn Man.Utd í síðustu umferð. Dawson er lykilmaður í vörninni, en Curtis Davies er meiddur og þeir eru ansi þunnskipaðir varnarlega þessar vikurnar. Á miðjunni ræður Tom Huddlestone ríkjum og Ryan Mason er fjarri góðu gamni eftir höfðukúpubrot í leik um daginn. Lazar Markovic mun að sjálfsögðu ekki spila leikinn, en hann var hársbreidd frá því að taka þrjú stig á Old Trafford með skoti sem hann átti í stöng í blálokin. Þeirra hættulegasti maður í framlínunni er talinn vera Abel Hernandez Eins og menn sjá á þessari upptalningu, þá er ekkert skrítið að þetta lið sé í erfiðleikum. Þeir eru bara ekki nægilega vel skipaðir. Það eru veikleikar út um allan völl hjá þeim og þá ber að nýta.

Þetta mun snúast um hvernig okkar menn mæta til leiks. Ef þeir mæta á einhvern svipaðan máta og gegn Chelsea, þá hef ég akkúrat engar áhyggjur. En þetta Liverpool lið virðist einhverra hluta vegna alltaf koma sér á svipað plan og mótherjinn. Sé mótherjinn sterkur, þá koma menn sér þangað. Sé hann slakur, þá koma menn sér þangað niður. Vonandi erum við bara að horfa á fresh fresh febrúar. Það virðast allir leikmenn vera heilir (fyrir utan Grujic, Ings og Ejaria) og þeir ættu allir með tölu að vera komnir í topp stand. Það verður því akkúrat ekkert um afsakanir ef ekki gengur vel gegn Hull.

En hvernig verður liðið? Varnarlínan segir sig nú nokkuð sjálf, þrátt fyrir að Matip hafi átt ansi slakan dag gegn Chelsea. Simon verður í rammanum og þeir Clyne, Matip, Lovren og Milner þar fyrir framan. Hendo situr svo djúpur, en svo vandast aðeins málið. Hvað gerir Klopp með miðjuna? Mané ætti að vera klár í slaginn. Sturridge hefur lítið fengið að spila. Can og Wijnaldum virðast njóta fulls trausts hjá honum og Coutinho, Lallana og Firmino eru allir algjör lykill að því að brjóta upp varnir. Allir þessir leikmenn geta ekki spilað inná í einu. Ég hef akkúrat enga trú á því að hann skilji Wijnaldum eftir fyrir utan byrjunarliðið eftir hans frammistöðu gegn Chelsea. Ég er nokkuð viss um að þeir þremenningar Lallana, Coutinho og Firmino muni alltaf spila þennan leik. Þannig að spurningin er hvort Mané sé alveg klár í startið (var eitthvað að þvælast með kælipoka á sér á bekknum gegn Chelsea) og eins hvort Klopp sé hreinlega búinn að gefast endanlega upp á Sturridge. Svo höfum við eitt stykki Origi líka. Ég veit reyndar alveg hvernig ég myndi stilla þessu upp, en þó ég sé ofsalega hrifinn af Klopp, þá held ég að sú ást sé bara í aðra áttina, ég held að honum sé slétt sama um hvað mér finnst.

Svona held ég að Klopp muni stilla þessu upp á morgun:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Lallana – Henderson – Wijnaldum

Firmino – Sturridge – Coutinho

Já, ég held sem sagt að Mané starti ekki og að Klopp vilji aðeins láta reyna á það hvort Sturridge sé almennt klár í slaginn. Kappinn sá hefur heldur betur ekki verið upp á sitt besta undanfarið, en hann hefur einnig verið inn og út úr liðinu. Flestir sem hafa spilað framherjastöður segja það að sjálfstraust skipti öllu máli. Oft á tíðum þarf bara mark til að koma mönnum af stað. Sturridge hefur greinilega misst einhvern brodd úr leik sínum, en hann er með magnaða hæfileika og er framherji að eðlisfari. Ég er ennþá sannfærður um að Sturridge gæti verið dýrmætur leikmaður fyrir Liverpool það sem eftir er tímabils. Ég held líka að hann hljóti að fara að átta sig á því að hann þarf núna að sýna sig og sanna, hann er hreinlega að berjast fyrir framtíð sinni hjá félaginu. Ég held að hann fái tækifæri til þess gegn Hull og ég er í rauninni sannfærður um að ef hann fær þetta tækifæri, þá eigi hann eftir að nýta það að þessu sinni.

Nú dugir ekkert hálfkák. Menn verða hreinlega að nýta hvert einasta tækifæri á að láta ljós sitt skína. Það er nóg eftir af tímabilinu og núna viljum við bara sjá liðið detta í svipaðan gír og það var í stærstan hluta tímabilsins. Menn verða að vera beinskeittir, hætta þessu dúlli sem menn hafa alltof oft verið í að undanförnu. Ráðast á markið, pressa hátt ef menn missa boltann. Gefa þessum Hull leikmönnum engan grið. Ég er bara talsvert bjartsýnn fyrir þennan leik og ætla að spá okkur góðum sigri og að við hristum endanlega af okkur slyðruorðið. Eigum við ekki að segja að við tökum þennan leik 0-4 og sýnum það hvernig eigi að berja á þessu liði. Klopp mun einungis brosa til fjórða dómarans, þannig að sumir þurfa að finna eitthvað allt annað að tala um næst þegar þeir kúka upp á bakið. Eigum við ekki að segja að Sturridge, Lallana, Coutinho og Firmino. Bless bless janúar, vertu velkominn febrúar.

15 Comments

 1. Sælir félagar

  Takk fyrir upphitunina SSteinn. Það er ekki miklu við hana að bæta svo sem. Uppstillingin verður að líkindum eins og SSteinn heldur því miður. Ég hefði vilja Mané í byrjunarliðið en líklega er það rétt að Klopp hvíli hann amk. annan hálfleikinn. Ég er sammála með Sturridge, annað hvort sýnir hann hvað hann getur eða hann verður seldur í Sveppadeildina.

  Ég spái eins og SSteinn að við skorum 4 mörk en ég treyst vörninni okkar ekki til að halda hreinu. Ætli Abel Hernandez setji ekki eitt upp úr skyndisókn eftir hornspyrnu sem okkar menn fá á stórhættulegum stað því gæti ég trúað.

  Það er nú þannig

  YNWA

 2. Flott upphitun en ætla að vera ósamála einum hlut. Ég er alltaf hræddur við leiki gegn Hull og minni liðum. Að vera liverpool aðdáandi þíðir að maður veit að liverpool liðið mun gefa allt í stórleikina. Þeir vinnast nú ekki allir en í flestum(ekki öllum) er liðið á tánum og tilbúnir í verkefnið. Mér finnst að ár eftir ár lendir liðið í vandræðum gegn minnispámönum og er hræðslan eiginlega meiri að mætta Hull heldur en t.d Chelsea í síðasta leik.

  Ég horfði á Hull spila á móti Man utd og þeir eru hættilegir. Þeir liggja aftarlega og líklega enþá aftar gegn okkur því að þeir vita að þá sköpum við lítið sem ekkert en þeir eru með einn leikmann Niasse frami sem er kröftugur framherji með hraða sem mun gera Matip/Lovren lífið leitt ef við missum boltan á slæmum stað.

  Ég á von á hörkuleik en vonandi verða okkar menn tilbúnir í þennan leik en maður getur aldrei verið viss um þegar fyrir fram lakari andstæðingur er mótherji dagsins.
  Höldum okkur samt við bjartsýni og spáum 1-2 sigri

  YNWA

 3. Jæja nú verða þeir að sýna alvöru spilamennsku og skora MÖRK!!! Og ekkert ANDS… kjaftæði.

 4. Sæl öll.

  Ég er kominn á þá skoðun, eftir töluverða yfirsetu og pælingar, að E.Can á að, mínu viti að spila framar en hann hefur gert upp á síðkastið. Í raun ætti hann að vera backup fyrir Lallana á muðjunni.

  Með von um gleðilega helgi!
  Hull-Liverpool 1-3
  Herr Klopp er að fara gera Liverpool að stöðugum topp 4…….. það er bara þannig.
  Hverjir detta út?

 5. Mane í stað Sturridge, annars sammála liðuppstillingu. Þetta fer 1-5 fyrir Liverpool, Mane 1, Lallana 1, Firmino 2 og svo eitt frá Milner úr víti. Kominn tími á það hjá okkur að springa aðeins út, höfum verið að spila langt undir getu í síðustu leikjum.

 6. Mane var með hitabakstur á hnénu(ekki kælingu) í síðasta leik áður en hann kom inná (samkvæmt enskum þulum) og því líklega klár í þennan leik, kemur þá líklega inn fyrir Can sem er að stríða við smá meiðsli í kálfa og hefur spilað þannig að undanförnu.
  Vonandi engin flensa eða óvænt forföll í okkar hóp og ég spái 1-2 fyrir okkur. YNWA

 7. http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/emre-can-problem-jurgen-klopp-12553617

  Hér segir (einsog Anton T nefnir) að Can hefur átt við meiðsli í kálfa að stríða sem skýrir vonandi af hverju hann hefur ekki verið að spila einsog hann á að sér undanfarið. Hann segir hinsvegar að í Chelsea leiknum hafi hann verið að spila í fyrsta sinn í langan tíma sársaukalaus (einsog mér fannst sjást á spilamennskunni) svo hann ætti vonandi að verða sjálfum sér líkur fljótlega. Ég bind miklar vonir við hann og hef trölla trú á honum.

 8. Góð upphitun og ég ætla að þora að segja að ég sé sammála SigKarli um að vera sammála pistlahöfundi.

  Þetta verður helvítis barningur trulega EN eitthvað segir mér að við munum klára þennan leik tiltölulega snemma. Vona það svo innilega. Pant svo fá Leicester i gang og jafntefli hja chelskí arsenal. Ég hef fulla trú á góðu gengi framundan!

 9. Ef við verðum í meistaradeildini á næsta tímabili finnst mér við eiga að blanda okkur í baráttuna við Griezmann sama hvað! Segjum svo ef Sturridge fari, þá losnar ágætis launapakki þar, við verðum að fá einhvern af svona kaliberi til liðs við okkur aftur, svona Torres/Suarez týpu. Splash the cash einu sinni!

 10. Liverpool hefur unnið einn af síðustu hvað 9?? Það er engin afsökun fyrir að vinna ekki Hull.
  Þetta er Hull.
  Það er karaktersleysi og aumingjaskapur að vinna ekki þennan leik. Einfalt.

  Mín spá er 1-4
  Raunhæft því þetta Hull lið er djok. Þeir eru heima og vilja reyna að sækja sem hentar okkur, við skorum snemma sem einfaldar lífið.

  Svo er Chelsea að klára deildina í dag, Wenger kominn á endastöð með Arsenal. Við erum í dauðafæri á að enda í topp 4. Titillinn er ekki möguleiki.

 11. Meira en lítið undarleg ákvörðunartaka ef satt er að Emre Can hafi verið látinn spila þjáður í ansi þéttu prógrammi. Fyrir hvíldina sem hann fékk gegn Wolves hafði hann spilað 7 leiki á 26 dögum (aðeins hvíldur seinni leikinn gegn Plymouth) á meðan aðrir meiðslalausir fastamenn voru hvíldir meira.

 12. Sælir félagar

  Ég vil benda Svavari Station #9 á að hann getur orðið fyrir ákúrum ef hann er sammála pistilhöfundi og ég tala nú ekki um ef hann er tvöfalt sammála einhverju. Ég hefi lent í ákúrum fyrir það. Hinsvegar hafa nokkrir bent á að það er engin afsökun til fyrir Liverpool að vinna ekki leikinn í dag. Svo sigur er það eina sem er ásættanlegt.

  Er að horfa á Chelsea/Arsenal leikinn og þar er mikill munur á liðum. Leikmenn C. eru miklu ákafari, fljótari á boltann og miklum mun hættulegri í öllum sínum aðgerðum. Ég er “sammála” því sem Oddi #11 segir að Wenger virðist vera kominn á endapunkt sem stjóri Arsenal. Líklega væri það best fyrir báða aðila að hann hætti eftir leiktíðina. Þá mundi taka við skemmtilegur stjórkapall a la MU manni til skemmtunar.

  Það er nú þannig

  YNWA

 13. Flott upphitun. Er þeirra skoðuna að Wijnaldum og Can megi helst ekki báðir vera í byrjunarliðinu okkar, en óttast samt að Mane sé ekki tilbúinn.

  Þetta er auðvitað möst-vin leikur. Baráttan um 2. -4. sæti er galopin. Trúi því og treysti að okkar menn byrji febrúar með stæl og vinni öruggan sigur.

  Vil nota tækifærið og óska Chelsea mönnum nær og fjær til hamingju með titilinn. Liðið spilar alls ekki skemmtilegan fótbolta en árangursríkan og eru með gríðarlega öfluga vörn og stórhættulega skyndisóknir. Costa, Hazard og Kante búnir að vera yfirburðarmenn. Hazard var að skora mark tímabilsins rétt aðan, minnti óneitanlega á mark Maradonna á móti Englendingum á HM 1996 að mig minnir.

 14. Takk fyrir góða upphitun.

  Chelsea verðugir meistarar og algjör skyldusigur fyrir okkar menn á eftir.

Nóg komið af bölmóði…

Hull v Liverpool [dagbók]