Úlfarnir mæta á Anfield

Hádegisleikur morgundagsins kemur í FA bikarnum þegar fornfrægt lið Úlfanna kemur upp M6 hraðbrautina og spilar við okkar menn í Liverpool. Miðað við ferðalagið okkar um síðustu helgi eru þetta ca. 90 mínútur í bílnum og því má búast við stórum og háværum hópi íklæddum appelsínugulu í Annie Road stúkunni.

Úlfunum hefur gengið brösulega þetta tímabilið. Þeir ætluðu sér að vera í toppslag Championshipdeildarinnar en sitja í dag í 18.sæti hennar með 32 stig eftir 27 leiki, semsagt enn í fallbaráttu. Þeir áttu í miklu ströggli í haust sem varð til þess að þeir ráku Mick McCarthy Walter Zenga og sóttu refinn Paul nokkurn Lambert sem áður hefur verið við stjórnvölinn hjá Norwich og Aston Villa, þ.á.m. í Úrvalsdeildinni. Hann hefur náð aðeins meiri stöðugleika í liðið og þá sérstaklega í varnarleiknum. Þeir slógu úrvalsdeildarlið Stoke út á Brittania og vikuna þar á eftir unnu þeir mikinn karaktersigur á erkifjendum sínum í Aston Villa þar sem Joe Mason skoraði sigurmarkið.

Í síðasta leik töpuðu þeir svo 3-1 fyrir Norwich og þar misstu þeir einn lykilmann sinn markvörðinn Carl Ikeme útaf með rautt spjald svo að í markinu hjá þeim mun verða unglingurinn Harry Burgoyne sem þykir mikið efni. Vörninni er stýrt af Danny Batth fyrirliða, á miðjunni er portúgalskur strákur að nafni Costa að heilla menn og frammi er lykilmaðurinn frammi er áðurnefndur Joe Mason (sorry allir Íslendingar).

JondadiÁhugaverðustu leikmenn liðsins eru auðvitað selfysski framherjinn Jón Daði Böðvarsson sem flutti sig til Miðlandanna í haust og hefur verið inn og út úr byrjunarliði þeirra síðustu vikur og ekki gengið vel að skora. Reynsla hans úr stórleikjum hlýtur að fleyta honum í byrjunarliðið á morgun og vonandi hrekkur hann ekki í gang. Annar leikmaður sem hefur verið inn og út úr liði er fyrrum unglingaliðsfyrirliði Liverpool, Conor Coady. Sá er djúpur miðjumaður og þótti töluvert efni. Hann náði þó aldrei alvöru atlögu að aðalliðinu en hefur átt ágætis feril í neðri deildunum.

Okkar menn eru að sleikja sárin og eftir síðustu tvö leiki er allt önnur pressa á þeim en áður. Ég hreinlega veit ekki hvenær það henti síðast að Liverpool tapi þremur heimaleikjum í röð – mér skilst að það hafi leitt til brottreksturs Graeme Souness svona til að kitla dómsdagsspámenn – en það er alveg ljóst að fólkið sem styður heimamenn í rauðu ætlast til sigurs að þessu sinni, jafnvel þó FA bikarinn hafi glatað smá ljóma.

Óháð gestaliðinu þá einfaldlega eigum við að vinna. Það er í mínum huga alveg ljóst, við sýndum það í haust þegar við slátruðum Derby og Burton að við einfaldlega eigum að vera alltof sterkir fyrir Championshiplið. Þessa dagana er þó efi og hik í kollum okkar allra og meiri von en vissa um að við hristum af okkur slyðruna. En sú von er auðvitað sterk.

Það er alls konar smálegt að hrjá okkar menn, Lallana fékk skurð á læri gegn Swansea, Hendo er tæpur, Milner stífur en Clyne líklega klár. Ég hef fulla trú á því að við sjáum nokkuð sterkt lið því Klopp vill fara að ná sigrum aftur, enn ein erfiða frammistaðan eykur bara á pirringinn. Jafnvel þó við eigum Chelsea i næsta leik þá verður ekki þessum leik fórnað. Ég er búinn að fara marga hringi en held þetta verði svona:

Karius

Clyne – Matip – Lovren – Moreno

Wijnaldum – Lucas – Ejaria

Sturridge – Origi – Ojo

Karius fær þessa bikarkeppni líka, hann notar leikinn til að spila hafsentaparið áfram saman, hvílir þreytta fætur og geymir Coutinho og Firmino á bekknum.

Þessi leikur verður hunderfiður alla leið en ég hef trú á mínum mönnum – þeir ætla sér að gera betur en áður og munu alls ekki lenda í þriðja tapleiknum í röð. Mikið mun ganga á, við vinnum 2-1 og Jón Daði skorar jöfnunarmark á 86.mínútu en það verður Wijnaldum sem smellir thunder í lokin og leikurinn verður flottur undirbúningur fyrir slaginn við Conte og co. á þriðjudaginn.

11 Comments

  1. Sammála með byrjunarliðið nema ég held að Arnold komi inn fyrir Clyne sem fær líklega meiri tíma til að jafna sig til að vera 100% klár í Chelsea leikinn.
    Þori varla að spá en vona að við klárum þetta og förum áfram.

  2. Clyne verður ekki spilað í þessum leik, hann er tæpur. Og ég held woodburn ungi verði með hvortsem það verði á miðjunni eða frammi.

  3. Þeir ráku Mick McCarthy árið 2012 og það var hinn mikli snillingur Walter Zenga sem var rekin í haust hjá Wolves

  4. Megi Wijnaldum smella í sem flesta thöndera. Hann hefur getuna til þess.

  5. Ja hérna. Við erum komnir á hnén þegar menn spá að við vinnum Úlfana með thunder a la Gerrard í lokin.
    Ég hef allt aðra tilfinningu.
    Við tökum þennan leik örugglega og af festu. Stewart verður djúpur og Gomez og Matip taka hafsentana eins og herforingjar.
    Það verður svo eitthvað ungt, gratt, hratt kvikindi á toppnum.
    Winjaldum og Coutinho spila, Origi, Firmino og Brewster nokkur 😀
    Bara hrista aðeins upp í liðinu.
    YNWA

  6. Nú hættum við þessari neikvæðni. Við erum með stjóra sem er öfundaður af nánst öllum í þessari deild. Hann er snillingur og á eftir að gera Liverpool FC að stórveldi í boltanum ef við stuðningsmenn klúbbsíns stöndum bakvið okkar menn. Það sem hann hefur gert fyrir Dortumnd er sögulegt, afhverju ekki hér !

  7. Illa pirraður á janúar. Nú er svo í pottinn búið að topp4 er allann daginn mikilvægara en FAcup. Þannig að ég vil sjá b-liðið á móti Jóni og félögum. Auðvitað vill maður sigur í öllum keppnum en liðið er í ruglinu og fókusinn ætti bara að vera á að tryggja CL sæti fyrst að stigasöfnunin fór norður og niður í janúar. Að því sögðu ætti þetta lið að klára litlu kiðlingana: Karius, Trent, Lucas, Klavan, Moreno, Wijnaldum, Stewart, Ejaria, Sturridge, Origi og Ojo. Harry Wilson og Woodburn svo spólgraðir á bekknum.

  8. Sælir félagar

    Ég ætla ekki að segja eitt einasta orð. Það bara borgar sig ekki. Vona samt að ég geti komið hér inn eftir leik sæll og glaður.

    Það er nú þannig

    Ynwa

  9. Liv verður bara að fara að skora mörk. Það þýðir ekki að vera með boltan meirihluta leiksins en nánast engin skot að marki nema þá kellinga skot, sem markmaður tekur auðveldlega, 3 tapaðir leikir á móti liðum sem við áttum að vinna, FOKKING FOKK.

  10. Ástandið er slæmt þegar menn eru farnir að spá því að Liverpool rétt merji lið úr Championship deildinni og þá á heimavelli. Sýnir vel þá kreppu sem liðið okkar er í og kannski bara stöðu félagsins eins og hún er kristaltær árið 2017, við erum ekki eitt af stóru félögunum lengur.
    Hef trú á Klopp og ber mikla virðingu fyrir honum EN hann hefur gert sig sekan um mistök þar sem orsökin er þrjóska hans. Vonandi lærir hann og aðlagar sig að ótrúlegum styrk og fjölbreytni enska boltans. Það má ekki gleyma því að ekki er samasem merki á milli þess að gagnrýna hann og vilja manninn í burtu, málefnaleg gagnrýni á alltaf rétt á sér.

    Hvað varðar leikinn þá mun ég aldrei spá Liverpool ströggli heima gegn 1.deildar liði. Spái sigri 3-0 og markaþurrð Jóns Daða má halda áfram.

    Mörkin koma frá Ojo og miðverðir okkar stanga tvær hornspyrnur í netið

Ferðasaga kop.is – sjöunda ferðalag

Liverpool v Wolves [dagbók]