Old Trafford á sunnudag

coutinho_degea

Jæja. Á sunnudaginn fara okkar menn í sína árlegu heimsókn til Old Trafford þar sem Manchester United bíða þeirra. Er það ekki bara?

Janúar hefur breytt ansi miklu. Ef þessi lið hefðu mæst fyrir mánuði, eða bara rétt fyrir jól, hefði umræðan öll snúist um það að hikstandi United-lið fengi fljúgandi Liverpool-lið í heimsókn og þyrfti að reyna að stöðva þá. Þannig var umræðan þegar liðin mættust á Anfield í október, og í það skiptið tókst United ætlunarverk sitt. Þeir komu og stöðvuðu uppgang Liverpool, að minnsta kosti í bili það skiptið. En þessa þrettán daga janúarmánaðar hefur ýmislegt breyst. United hafa núna unnið níu leiki í röð í öllum keppnum, þar af sex í deildinni, á meðan okkar menn gerðu tvö jafntefli í röð og töpuðu svo bikarleik á miðvikudagskvöld.

Skilaboð José Mourinho fyrir þennan leik eru eflaust einföld: „Ekki leyfa Liverpool að gera við okkur það sem við gerðum við þá í október.“ Rauðu djöflarnir hugsa sér eflaust gott til glóðarinnar og vilja vinna þennan leik, slá eitt hjólið undan vagninum hjá okkar mönnum og nálgast okkur á harðaspretti. Þetta verður alvöru próf fyrir okkar menn.

Við skulum fyrst líta á mótherjana:


Manchester United

Eins og fyrr sagði hefur margt breyst hjá United. Þeir fóru hratt af stað í haust, unnu fyrstu þrjá en svo kom babb í bátinn, þeir fóru að tapa stigum og heltast aftur úr lestinni og það stóð alveg fram í nóvember. Maður hélt einhvern veginn að tímabilið væri búið að fjara út hjá United og steininn tók úr þegar Mourinho fór til Lundúna og steinlá, 4-0 á gamla heimavellinum gegn Chelsea í lok október. Gárungarnir fífluðust með að þriggja ára kreppa José kæmi óvenju snemma að þessu sinni og þeir United-menn sem ég heyrði í á þeim tíma (þið vitið hverjir þið eruð) voru eiginlega bara frekar svekktir með að félagið skyldi ekki ráða Mauricio Pochettino í staðinn síðasta sumar.

Síðan þá er hins vegar alveg ljóst að Mourinho hefur fundið taktinn í starfi og hlutirnir eru á blússandi uppleið. Þeir hafa eins og áður sagði unnið níu leiki í röð sem er frábært gengi og virðast til alls líklegir í vetur, þótt titillinn sjálfur sé kannski of langsóttur eftir forskotið sem þeir gáfu Chelsea. En það getur allt gerst og United hafa að minnsta kosti eignast miða í happdrættinu á ný eftir erfitt haust.

Við skulum skoða þessa níu sigurleiki þeirra aðeins, en sá fyrsti kom þann 8. desember eftir jafntefli gegn Everton í mánaðarbyrjun. Síðan þá hefur þetta verið svona:

 • Zorya Luhansk (úti) 2-0
 • Tottenham (heima) 1-0
 • Crystal Palace (ú) 2-1
 • West Brom (ú) 2-0
 • Sunderland (h) 3-1
 • Middlesbrough (h) 2-1
 • West Ham (ú) 2-0
 • Reading (h) 4-0
 • Hull (h) 2-0

Níu sigrar. Markatalan er 20-3 í þessum leikjum, þeir hafa haldið hreinu í sex þeirra og þar af þremur síðustu í röð. Reyndar hefur liðið fengið á sig 8 mörk í síðustu 15 leikjum og ekki fengið á sig meira en eitt mark í leik síðan þeir töpuðu síðast, á útivelli gegn Fenerbahce 3. nóvember. Síðasta deildartapið kom gegn Chelsea á Brúnni þegar þeir steinlágu 4-0 í lok október. Síðan þá hefur Mourinho stoppað í götin, heldur betur og skarta þeir næstbestu eða bestu vörn deildarinnar (ásamt Spurs) síðan þá. Þetta er lið sem gefur fá færi, fær fá mörk á sig, er með besta markvörð deildarinnar milli stanganna og nóg úrval af leikmönnum til að sakna Eric Bailly ekki jafn mikið og við höfum saknað Joel Matip.

Á móti kemur að liðið hefur ekki skorað neitt svakalega mikið. Í þessum 9 sigrum er liðið bara með 20 mörk og þar af átta í þremur leikjum utan deildar (Zorya Luhansk, Reading og Hull í vikunni). Þannig að þetta eru bara 12 mörk í 6 deildarsigrum í röð. Reyndar hefur United aðeins skorað fleiri en tvö mörk í leik fjórum sinnum í síðustu 19 leikjum, samanborið við sjö sinnum hjá okkar mönnum.

Þýðing: þetta er gríðarlega þétt og vel skipulagt lið sem gefur lítið, stjórnar leikjum og nýtir færin sín vel. Frammi eru þeir svo með bonafide matchwinner í Zlatan, eina súperstjarnan sem verður inná vellinum á sunnudaginn (hinar tvær verða á hliðarlínunni). Sem sagt það sem við þekkjum og erum vön frá liðum Mourinho.

Þá að byrjunarliði United-manna. Áðurnefndur Bailly er á Afríkumótinu eins og Sadio Mané en Mourinho hefur úr fjórum öðrum miðvörðum að velja (Jones, Smalling, Rojo, Blind). Þeir eru með breidd í flestar stöður og þetta gæti hæglega verið rangt metið hjá mér en ég tippa á eftirfarandi lið:

De Gea

Valencia – Jones – Smalling – Blind

Herrera – Carrick – Pogba

Mkhitaryan – Zlatan – Martial

Nokkrir eru öruggir með stöðu sína þarna. De Gea verður í markinu og Valencia á hægri bakvarðarstöðuna eins og er. Miðjumennirnir þrír hafa verið hlekkurinn í velgengni þeirra síðustu tvo mánuði og Zlatan verður alltaf frammi, sama hvað Mourinho segir um að hann sé tæpur eða ekki eftir „veikindi“ í miðri viku. Í miðri vörninni hefur Rojo verið tæpur með vöðvameiðsli svo að ég tippa á Jones og Smalling, en Rojo gæti hæglega verið þar inni ef hann er heill því mér skilst að hann hafi verið að leika vel undanfarið. Í vinstri bakverði gæti Mourinho valið Darmian, sem hefur fengið kallið fram yfir Luke Shaw nýlega, en ég giska á að í fjarveru Mané muni hann nota tækifærið og setja betri spilara fram á við í Blind inn. Það gefur þeim meiri vídd sóknarlega heldur en Darmian myndi gera.

Frammi gætu Juan Mata, Wayne Rooney, Marcus Rashford og Jesse Lingard allir fengið kallið með Zlatan en ég tippa á Armenann sem hefur verið heitur og svo hefur Martial gengið vel í 2-3 leikjum gegn Clyne svo að það kæmi mér ekki á óvart að sjá hann byrja.

Hvernig sem Mourinho stillir þessu upp verður við sterkt United-lið að eiga. Þeir eru til alls líklegir.


Liverpool

Hvað háir okkar mönnum? Er það þreyta, eru meiðsli og fjarvera Mané að skella yfir á slæmum tíma eða hefur liðið einfaldlega misst taktinn frá því fyrir áramót? Ég veit það ekki, vona að Jürgen Klopp hafi svörin. Auðvitað er erfitt, eins og í miðri viku, að vera án Matip, Henderson, Mané og Coutinho (sem gerði lítið annað en að hrista af sér ryðið þegar hann kom inná). Mané er í Afríkukeppninni en Klopp sagði að hinir þrír hefðu allir æft í gær og í dag og kæmu því til greina. Ég veit ekki með ykkur en ég krosslegg alla fingur og tær í þeirri von að þeir geti allir spilað á sunnudag. Ég skal útskýra af hverju í nokkrum staðhæfingum:

Ragnar Klavan er góður leikmaður að hafa í hóp en hann er enginn Joel Matip.

Án Henderson hefur miðjan virkað hæg og verið sein að ferja boltann upp völlinn. Lucas og Can hafa ekki sömu yfirferð og taka of margar snertingar per viðtöku bolta áður en þeir velja sendingarkost. Slíkt getur drepið niður flæði sóknarleiksins, og hefur klárlega gert það síðan Henderson haltraði útaf á gamlaárskvöld. Liverpool hefur ekki skorað mark úr opnum leik síðan.

Ég er ekki hrifinn af því að Sturridge eða Origi byrji þennan leik. Báðir hafa mikla hæfileika og geta hæglega skorað gegn United en við höfum séð aftur og aftur í vetur að liðið fórnar of miklu af pressugetu sinni og hreyfanleika sóknarmannanna þriggja þegar annar þeirra tveggja er inná, þar sem þeir henta einfaldlega betur sem fremsti maður en í flæðikerfi þriggja.

Roberto Firmino er að deyja Drottni sínum inná vellinum með hverjum leiknum sem líður þar sem hann er úti á kanti. Hann er bestur frammi þar sem hann getur verið hreyfanlegur í kringum Coutinho, Mané og Lallana. Þá virðist hann alltaf spila betur þegar samlandinn Coutinho er með.

Svo mörg voru þau orð. Það getur vel verið að liðið geti unnið þennan leik án allra þriggja leikmanna en það verður þá að vera á annan hátt en þann sem Klopp hefur verið að stimpla inn í þetta lið. Við vinnum einfaldlega ekki með snjallri pressu, flæðandi sóknarbolta og hröðu uppspili á sunnudag ef Klavan er í vörn, Can og Lucas á miðjunni og Origi, Sturridge eða báðir frammi. Það verður þá frekar að koma í gegnum föst leikatriði eða mistök heimamanna.

Fyrir mér er Henderson algjör lykill að öllu öðru sem við gerum í þessum leik. Ég var ekki hrifinn af því að hafa bæði Lucas og Can inni í miðri viku gegn Southampton, það bauð upp á allt of hægan göngubolta á miðjunni sem drap sóknartilburðina í það skiptið. Ef Henderson getur spilað með Wijnaldum er möguleiki að hafa Can inni og Lallana framar en ef ekki verður Lallana að vera á miðjunni með Wijnaldum og Can, til að a.m.k. tveir af þremur miðjumönnum geti fært boltann hratt fram á við og kanta á milli. Can og Lucas eru einfaldlega hægari í þessum málum en hinir þrír. Helst myndi ég vilja hafa Henderson kláran í slaginn, ekki bara af því að hann er okkar besti miðjumaður og fyrirliði heldur af því að þá getur Lallana verið í sókninni með Firmino og Coutinho, sem yrði hreyfanlega pressuþrennan sem við vitum að Klopp vill. Sturridge og Origi eru gæðaleikmenn en eins og ég hef komið inná hér fyrir ofan tapast of mikið þegar þeir spila, upp á taktíkina að gera, og hvorugur þeirra er að raða mörkum inn þannig að það réttlæti það sem tapast.

Mitt lið, byggt á þeirri von að Matip, Henderson og Coutinho verði allir leikfærir:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Can – Henderson – Wijnaldum

Lallana – Firmino – Coutinho

Ef þetta er liðið sem við sjáum á sunnudag lyftist brúnin á mér enn frekar. Coutinho verður aldrei níutíu mínútna maður á sunnudag, og sennilega Henderson ekki heldur þannig að það er hægt að setja Sturridge inn fyrir Coutinho eftir klukkutímann og/eða Origi/Lucas fyrir Henderson eftir þörfum. En ef þetta lið byrjar eykst bjartsýnin, það er alveg á hreinu.

Ef hinir þrír vafasömu geta hins vegar ekki byrjað vandast málið. Ef Matip er úti byrjar Klavan, það er einfalt, en ef Hendo og/eða Coutinho missa úr? Kannski myndi Klopp velja að hafa miðjuna eins og á miðvikudag – Can, Lucas og Wijnaldum – en það er allt of hæg og stöð miðja fyrir minn smekk. Þá myndi ég frekar vilja að Lallana droppaði niður fyrir Henderson og byrji með Can og Wijnaldum. Frammi þyrfti svo að kóvera fjarveru Coutinho og/eða Lallana (ef hann er á miðjunni), þá kæmu væntanlega Origi og Sturridge inn í liðið. En hvorugt myndi ég segja að sé ákjósanlegt, að hafa Lucas og Can á miðjunni eða tvo eða fleiri af þeim Sturridge, Origi og Firmino í sókn. Vonandi geta Matip, Henderson og Coutinho allir byrjað.


Heildarmyndin

Áður en við spáum í úrslitin skulum við stíga eitt skref til baka og skoða heildarmyndina. Þetta er staðan í deildinni fyrir umferð helgarinnar:

13jan2017_taflan

Segjum að allt fari á versta veg um helgina. Keppinautarnir vinna sína leiki og Liverpool tapar. Hvað gerist þá? Liverpool missir Chelsea úr augsýn (í bili) og Tottenham og Man City upp fyrir sig. Arsenal gætu farið fram úr okkur á markatölu líka og United myndu narta í hælana, tveimur stigum á eftir. Okkar menn, í stað þess að sitja þægilega í öðru sætinu og stara á Chelsea fyrir framan sig, væru komnir í fimm liða baráttu um sæti 2-4 sem gefa þátttökurétt í Meistaradeild.

Væri þetta glatað? Já. Væri það heimsendir? Nei. Eftir þessa helgi verða 17 leikir eftir á tímabilinu og nægur tími til að keyra á þessi lið, ekki síst þar sem öll þeirra utan City og United eiga eftir að koma á Anfield.

Einnig er mikilvægt að hafa í huga, eftir hikstið í bikarleikjum vikunnar, að Liverpool vann 4 deildarleiki í röð áður en þeir gerðu jafntefli við Sunderland, og í síðustu 10 deildarleikjum er liðið með 6 sigra, 3 jafntefli og 1 tap. Gengið er hörkugott og hefur verið í allan vetur, þótt þrír svekkjandi leikir í röð (tveir í bikarkeppnum, aðeins eitt tap) breyti umræðunni talsvert fyrir heimsókn á Old Trafford.

Þýðing: win lose or draw þá er hvorki hægt að afskrifa United né lýsa yfir einhverjum heimsenda hjá Liverpool á sunnudaginn. Njótum ástríðunnar sem fylgir því að sjá okkar menn etja kappi við erkifjendur sína á útivelli. Fögnum því sem vel fer en öndum rólega ef illa fer því það er nóg eftir af tímabilinu og Liverpool í mjög góðri stöðu hvernig sem fer á sunnudag.


Mín spá

Að því sögðu, þá þrái ég sigur á sunnudaginn svo heitt að ég finn bragðið af því! Að geta tekið þessa andskotaDjöfla og skilið þá eftir einhvers staðar vel fyrir neðan baráttuna um Meistaradeildarsætin yrði heldur betur sætt, svo ekki sé minnst á að montrétturinn yrði okkar næstu daga og vikur innan um þá mýmörgu stuðningsmenn United sem við rekumst á í okkar daglega lífi.

Ég ætla samt að vera raunsær. Þeir hafa unnið níu leiki í röð og eru með svo að segja fullskipað lið á Old Trafford. Okkar menn hafa á móti hikstað og sýnt veikleika- og þreytumerki síðan um áramótin og fara með efasemdarpúkann á bakinu inn í þennan leik. Það þarf ótrúlega margt að ganga upp hjá okkar mönnum til að sigur vinnist, ég myndi þiggja jafntefli á þessum tímapunkti en ég get ekki annað en sagt að United séu líklegri sigurvegarar fyrirfram.

Ég spái 2-1 sigri United og vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér.

YNWA

46 Comments

 1. Þetta er öskrandi tap leikur… Ég er jafnvel hræddur um 3-0 tap. Kútur ferskur úr meiðslum, Firmino verið afleiddur, Mane í Afríku, Henderson tæpur og Matip ferskur úr meiðslum. liðið er bara stórskaddað

 2. Ekkert annað að gera en að mæta til leiks með bestu útgáfuna af þeim mannskap sem í boði er. Gefa svo allt í leikinn. Hlaupa 10 km. meira en hinir, setja andlit fyrir skot, hnoðast í gegnum varnarlínuna og vonast eftir víti, gefa sér tíma í öll atriði. Bara, gefast aldrei upp hvernig sem staðan er og hvað sem bíður.

  Það er mikið í húfi, hvað sem stöðuspekúlasjónum líður. Framtíð siðmenningar á jörðinni? kannske ekki, en close.

 3. já við erum ekki að koma á flúgandi ferð inn í þennan leik en þeira leikskipulag mun henda okkur vel í þessum leik. Þeir eru á heimavelli og reikna ég ekki með því að þeir liggja aftarlega og beiti skyndisóknum(Southampton gerðu það í síðasta leik með góðum árangri gegn okkur).
  Við viljum fá lið á móti okkur sem langar að sækja og færa liðið sitt aðeins framar. Þess vegna höfum við verðið að vinna stórleikina eina liðið sem ætlaði ekki að sækja á okkur var Man utd og þeir náðu stig gegn okkur.

  Heilsa Henderson, Matip og Coutinho ræður rosalega miklu um okkar gegni. Ég held að engin af þeim verður kominn í alvöru stand en kannski tilbúnir að spila samt sem áður því að þeir eru okkur gríðarlega mikilvægir leikmenn.
  Ég vona að E.Can verði ekki í byrjunarliðinu enda ekki hrifin af honum sem leikmanni og vona að Lallana, Winjaldum og Henderson munu vera á miðsvæðinu með Coutinho/Origi/Firmino fyrir framan sig.

  Ég er 100% að Man utd menn fái færi í þessum leik ég er líka 100% viss um að Liverpool menn eiga eftir að fá færi í þessum leik. Ég er á því að það sé verið að gera of mikið úr því að Mane sé ekki tilstaðar. Hann hefur verið að týnast í leikjum undanfarið löngum köflum og var ekki alveg eins sprækur og í upphafi tímabils, þótt að auðvita væri maður til í að hafa hann með enda hraður en við höfum Firmino, Origi, Sturridge, Lallana, Coutinho til að skora mörk og Clyne, Henderson, Millner til að koma aðeins fram ef við þurfum og taka þátt í sókn.

  Heilinn segjir að Man utd vinnur þennan leik 2-1 en hjartað segjir 1-2 sigur okkar manna og viti menn eigum við ekki bara að hlusta á hjartað í dag.

  YNWA

 4. Þetta er 100% leikskýrsla. Greiningin á liðunum er hárrétt og væntingar til leiksins líka. Ég geri ráð fyrir því að Mourinho liggi með liðið sitt tiltölulega aftarlega, ekki þó alveg rútubíla-aftarlega, treysti á varnarmistök hjá Liverpool og stefni á 1-0 sigur.

  Varðandi byrjunarlið Liverpool þá hef ég ekki trú á því að allir þrír tæpu leikmennirnir verði í byrjunarliðinu. Auðvitað vonast ég til þess en tel líklegra að max tveir af þessum leikmönnum byrji, jafnvel bara Coutinho.

  Að því sögðu er líklegt að Sturridge byrji með Firmino og vonandi Coutinho, Can, Wijnaldum og Lallana verði í miðjustöðunum og vörnin óbreytt frá síðasta leik, þrátt fyrir afar slæma frammistöðu. 1-0 sigur Man Utd. er líklegur en jafntefli eða 1-0 sigur okkar væri náttúrulega mögnuð úrslit miðað við síðustu leiki.

  Ef hins vegar Mourinho hættir liði sínu framar á völlinn gætu flóðgáttir opnast í báðar áttir. Ég vona innilega að leikurinn verði frekar þannig þótt það sé ólíklegt. Þá gætum við alveg eins unnið 4-2 eða eitthvað slíkt…

 5. Það er bara ekkert annað hægt en að taka undir allt sem sagt var í þessari skýrslu enda er hún vel út pæld og skrifuð sem kemur nú ekki á óvart frá KAR.

  Allan dagin værum við að fara tala um að okkar menn tækju þetta nokkrum leikjum síðan, en því miður hafa okkar menn verið mjög ósannfærandi uppá síðkastið á meðan Utd menn hafa verið mjög solid.

  Svona er bara staðan auðvitað getur allt gerst og vonandi troða þeir vænum sokk en eins og staðan er nákvæmlega núna þá eru utd líklegri .
  Grunar að flestir utd menn séu ánægðir að fá okkur AKKURAT í heimsókn á þessum tímapunkti hjá LFC.

  Liverpool hjartað segir 1-2 fyrir okkur
  skít hræddur að það fari samt akkurat öfugt.

 6. United vinna þennan leik alltaf.
  Spurning með 2-3 mörk.

  Zlatan setur eitt.

  Því er nú ver og miður

 7. Sælt veri fólkið,
  Ekki finnst mér þetta vera nein stórlið sem þeir hafa verið að spila við ja nema Tottararnir. Við höfum oftar en ekki risið upp eins og fuglinn Fönix þegar á móti hefur blásið og nái okkar menn sínum dampi tel ég okkur vinna. 0-3 mín spá og hana nú….

 8. Eintóm skítalið sem ManU hefur unnið á þessu “winning streak” nema Tottenham sem var nú ekki sannfærandi ef ég man rétt. Okkar menn mæta til leiks og vilja snúa genginu úr síðustu leikjum við. Við finnum okkar form aftur og þetta fer 1 – 3 fyrir okkur.

 9. Óþarfa svartsýni.
  Okkar menn munu mæta sem grenjandi ljon og sigra 3-1.

 10. Takk fyrir góða upphitun.
  Fyrir mér eru þetta stærstu leikirnir. Það er persónulegt.
  Mikið óska ég þess að við tökum þrjú stig.
  Það er alveg í spilunum eins og hvað annað.
  Menn þurfa að vera með hausinn skrúfaðan. Hita upp í nokkrum prímadonnum án þess að fara yfir strikið og láta þá fremja heimskupörin.
  Það verður hiti, það verður barátta, það verða mörk. Við skorum fleiri.

  Ég ætla að njóta þess.
  YNWA

 11. Róleg á svartsýninni, þetta er united en ekki Barcelona. Þetta ‘run’ þeirra er allt á móti frekar döprum liðum.. er eitthver topp-kandídat þarna af þessum liðum? City og Chelsea hafa bæði rasskellt þetta lið á leiktíðinni og við erum að fara gera slíkt hið sama á sunnudag. Enginn vafi.

  Þeir stóla á mann frammi sem er korter í göngugrindina og vörnin þeirra er helvíti vafasöm í þessum leikjum sem ég hef séð af þeim.

  1-3 sigur, Lallana með 2 og Sturridge potar inn einu. Veit ekki hver mun skora þeirra mark, gæti ekki verið meira sama.

 12. Smá off topic.

  Tók eftir því að búið er að taka Luke MCcormick út af lista yfir leikmenn sem spiluðu fyrri leikinn gegn Liverpool fyrir Plymouth. Var upphaflega valin maður leiksins enn nú er það Moreno sem fær þá nafnbót. Og Luke ekki einu sinni nefndur í hóp þó hann hafi spilað allan leikinn. Saga Luke er náttúrlega rosaleg ef menn hafa ekki heyrt hana. Kannski fékk hann of mikla athygli eftir leikinn.

 13. Sé núna að Luke er þarna. Samt ótrúlegt að hann sé að spila fótbolta svona stuttu eftir þetta slys.

 14. Er það ekki eitthverstaðar í lögum að Liverpool aðdáandi má ekki spá Manchester united sigri móti okkur ? Búinn að gleyma við erum bestir sko 😉

 15. Ég er sammála flestu í uppstillingunni enn vill sjá Sheyi Ojo í stað Lallana uppi Can á bekkinn og Lallana á miðju í kantinn !! Prufa haf einn hraðan kjúlla með sem ég hef saknað rosalega frá þvi í fyrra
  hann var að mínu mati lang flottastur í Playmouth leiknum þó hann hafi ekki verið að spila vel frekar enn aðrir Can þarf að fara á sendinga og hlaupaæfingu næstu vikurnar.
  tökum leikninn 1-2 enn lendum undir í byrjum tökkum þetta eins og Ísland tók England á EM.

 16. Fleiri spurningarmerki hjá okkur heldur en þeim. Coutinho, Lallana, Sturridge, Henderson hafa misst af leikjum. Sem betur fer er nóg af leikmönnum sem geta skorað. Spáí 1-0 og Wijnaldum með markið. Það verður dómaraskandall en Mignolet ver vítið og verður maður leiksins. Mourinho á samt síðasta orðið þegar hann sleppir viðtali eftir leik.

 17. Sælir félagar

  Í mínum huga er ekkert sem leyfir að spá MU sigri. Enda hefi ég trú á okkar mönnum í svona leik. Mín spá er 1 – 4 fyrir okkur og liðið mun skipta þessum mörkum milli sín þannig að Coutinho með 1, Lallana með 1, Firmino með 1 og Milner með 1 (víti). Zatan mun svo setja 1 fyrir MU og fá rautt fyrir dólgshátt og pirringsbrot.

  Það er nú þannig

  YNWA

 18. Frábær leikskýrsla. Ég hugsa að ég hendi allri röksemd út og hafi þetta 100% óskhyggju að við tökum þennan leik 1 – 2 og skiljum þá eftir. Hugsa að við öll svæfum með bros á vör út næstu viku.

 19. Við erum þreyttir, breiddin lítil og það er farið að hafa áhrif. Þetta fer 4-1 fyrir Utd, Pogba og Zlatan með tvö mörk fyrir Utd. Náum svo að klóra í bakkann með marki frá Adam Lallana.

 20. Smá pæling ef Man Utd pakkar í vörn og notar svo skyndisóknir gegn Liverpool hvað ætlar þá herra Klopp að gera við því. Og ástæðan fyrir því að ég spyr út í þetta er sú að flestir þeir leikir sem Liverpool spilar á móti liðum sem nota þessa aðferð hafa tapast eða farið í jafntefl.

 21. Frábær skýrsla, þvílík fagmennska.

  Eins og leikir dagsins eru að spilast þá verðum við að taka helst öll stigin á morgun, á ég von á því……já ekki spurning.
  Af hverju ekki?

  Tökum hrokagikkinn Slatan og sýnum honum að hann tilheyri fortíðinni, og hver framtíðin er í Enska boltanum.

  Y.N.W.A!

 22. Mig dreymdi án gríns að MU væru komnir með 7-0 forystu í þessum leik og þá gafst ég upp á að horfa á leikinn…

 23. 1-2 liverpool en markið hjá Andy Carroll 35 mill punda virði

 24. Liverpool vinnur þennan leik. 1-2. Svo lengi sem Kútur og Henderson verða með.

 25. Auðvitað væri algerlega geðveikt að vinna þennan leik, en ef maður er alveg raunsær, þ.e. horfir á gengi liðanna undanfarinn mánuð sem og þeirrar staðreyndar að leikurinn er á Old Trafford þá met ég möguleikanna okkar í þessum leik ákaflega litla.

  Hlutirnir eru fljótir að breytast og við erum núna í 4. sæti.

  Einn okkar besti leikmaður Mane er í Afríku. Lallana, Firminio, Can og Wijnaldum hafa verið daprir undanfarið. Henderson og Coutinho eru að koma úr meiðslum og eru án efa ryðgaðir og svo er bara eins og liðið sé búið á því andlega og líkamlega. Sóknarleikurinn hefur verið sorglegur í þónokkurn tíma.

  Man bara ekki eftir því að hafa haft jafn slæma tilfinningu fyrir leik á Old Trafford í langan tíma. Vona svo innilega að ég hafi rangt fyrir mér og Klopp og félagar stingi skítugum ullarsokk upp í mig.

  Spái 2 – 0 fyrir United.

 26. Ég vill ekki sjá Firmino í byrjunarliðinu hann er búinn að vera til skammar í seinustu leikjum. Sturridge inn takk, hann er miklu betri í öllum sínum aðgerðum nema að Firmino er betri í að verjast. Það er ekki það sem á að horfa á þegar það kemur að því að horfa á striker/ kantmann

 27. Ég ættla að skjóta á svekkjandi 2-2 jafntefli í bráðskemmtilegum leik. Föst leikatriði spila stórt.

 28. Er staddur Manchester, veit einhver hvar Poolarar koma saman fyrir leik?

 29. Held að menn séu aðeins að gleyma Morinho storleikja taktíkinni. Hann hefur alltaf pakkað i vorn og vonast eftir mistökum eða skyndisóknum. Það er einmitt það sem við höfum verið i vandræðum með.

  Ég giska a ömurlega leiðinlegan leik sem utd vinnur með 1-2 skíta mörkum. Svona eins gamla Chelsea. Ég myndi þá tippa a marki frá einhverjum eins og jones eða herrera.

  Í lok leiks mun svo Morinho koma með mjög vafasama yfirlýsingu um leikinn. Eitthvað um að liðið hans hafi verið stórkostlegt þegar allir aðrir sáu annan leik.

  Svona verður þetta.

 30. ÞEIR EIGA ENGANN SÉNS, VIÐ VINNUM ÞETTA ÖRUGGLEGA SVONA TVÖ ÞRJÚ NÚLL!!!

 31. 29#
  taktu lestina yfir til Mekka.
  Stutt og þú munt hafa það mikið betra.

 32. Þetta verður rosalegt. Held að risarnir frá Manchester séu of stórir fyrir litla liðið í liverpool. Spái 4-0 fyrir risunum

 33. Þið sem eruð að spá United sigri í dag, þið getið horft á landann í sjónvarpinu í dag í staðinn fyrir þennan leik. Jafnvel skellt ykkur á botcha leik með afa ykkar you plastic fans. Manutd er ekkerrt nema miðlungs lið í dag, spilum bara okkar leik þá eiga þeir lítil svör

 34. Þetta með Matip er fáranleg, síðan er enginn Cline heldur, hvað er að honum annars? og Töframaðurinn sjáfsagt ekki orðinn nógu góður af meðslunum til að byrja, en samt, við verðum að vinna og munum vinna, við myndum vinna með alla kjútlinana, við erum Liverpool og allir leikir eiga að vinnas fyrirfram!!!

 35. úff liðið comið, engin Cline, og Kúturinn á beknum, Henderson inni

  Mignolet—–Alecandr-Arnold —- Lovren —- Klavan—- Milner— Henderson—- Can —- Wijnaldum— Lallana— Firmino—- Origgi……

 36. Það væri blóðtaka fyrir öll lið að spila án Mané, Clyne, Matip og Coutinho (á bekk). En kemur ekki maður í manns stað…

 37. Þetta er fínt lænöp. Set nátturulega spurning við að hafa AA mannin í bakverðinum því hann er svo ungur en að öðru leiti er þetta fínasta lið og það sannast kannski best að við erum með Sturridge á bekknum.

 38. Engar afsakanir í dag. Þetta er einfaldlega liðið sem við höfum til staðar í dag og verður ekkert væl ef illa fer í dag um að okkur vantaði hinn eða þennan. Er þetta okkar sterkasta lið ef allir eru heilir? Nei en er þetta sterkasta liðið okkar í dag? Já því að Klopp myndi aldrei annað en stilla upp sýnu sterkasta liði.

  Þetta er stórleikur og eins og formið á liðinum er þá eru heimamenn sigurstranglegri en það þýðir samt ekki að þeir munu vinna.

  Klopp ákvað að stilla upp í frekar varnasinnaða miðju en hann hefur stundum verið að gera það í stórleikjum og þá sérstaklega á útivelli. Þetta verður gríðarlega erfit en við höfum séð okkar stráka standa sig vel á þeim augnablikum undir stjórn Klopp.

  Maður er að deyja úr stressi og vonar maður að dómarinn verða ekki til umræðu eftir 90 mín og að betra liðið sigri(og vonum að það verðum við)

 39. Sama hvernig þetta fer þá vil ég sjá að menn gefi allt í þetta. ALLT!!!

  YNWA

Southampton – Liverpool 1-0 (Skýrsla)

Man Utd – Liverpool 1-1 (leik lokið)