Upphitun: Bournemouth úti

Sigur Leicester á síðasta tímabili skyggði á öll önnur ævintýri. Afrek Bournemouth að halda sér í deildinni er all rosalegt ef saga félagsins er skoðuð sem og meiðslavandræði liðsins á síðasta tímabili. Álit stuðningsmanna Liverpool á Jurgen Klopp er bara sýnishorn af áliti stuðningsmanna Bournemouth á Eddie Howe. Báðir eru aðalstjörnurnar hjá sínum félögum.

Bournemouth hafnaði í 16. sæti fimm stigum frá fallsæti en voru aldrei í hættu og höfðu efni á því að ná aðeins einu stigi í síðustu fimm umferðunum. Ótrúlegt fyrir lið af þessari stærðargráðu, þetta gerðu þeir nánast eingöngu á því liði sem kom upp úr Championship deildinni því öll stóru leikmannakaup síðasta tímabils lentu í langtímameiðslum strax í byrjun tímabilsins. Hópurinn sem vann Championship deildina hafði að stórum hluta einnig tekið þátt í að vinna 2.deildina nokkrum árum áður.

Eddie Howe hafa verið gerð góð skil hér á Kop.is í upphitunum fyrir leiki gegn Bournemouth. Leikurinn gegn Arsenal um síðustu helgi var númer 300 sem stjóri Bournemouth. Kraftaverkið sem hann hefur unnið ásamt Jason Tindall með Borunemouth er hlutfallslega litlu minna en það sem Leicester gerði í fyrra. Til að setja þetta í samhengi þá tók hann, 32 ára gamall við Bournemouth í þessari stöðu árið 2009.

bournemouth

Liðið er þarna bókstaflega í næst neðsta sæti í neðstu deild ensku deildarkeppninnar. Ofan á það var félagið svo gjörsamlega á hausnum að það t.d. réði 32 ára gamlan Eddie Howe með enga reynslu. Þessi stöðutafla er meira að segja aðeins villandi því Luton byrjaði tímabilið með -30 stig en Bournemouth með -16 stig. Bæði vegna refsinga fyrir fjárhagsóreiðu. Það var gjörsamlega allt í rugli hjá Bournemouth og hafði verið lengi. Eddie Howe hefur ekki aðeins snúið gengi liðsins fullkomlega við innanvallar heldur öllum klúbbnum eins og hann leggur sig. Liðið er komið í Úrvalsdeild og búið að halda sér uppi eitt tímabil og Howe er ekki ennþá orðinn fertugur. Þannig að já það er til lið í deildinni með vinsælli þjálfara en Liverpool.

Eddie Howe spilaði á tímabili undir stjórn Tony Pulis og hefur töluvert álit á honum. Hann var einnig undir stjórn Harry Redknapp en sá leikstíll sem hann leggur upp með er ekki eitthvað sem maður tengir við þessa stjóra. Hann er ekta ungur nútíma stjóri. Hann er af kynslóð stjóra sem þora að leggja upp með alvöru fótbolta, nánast sama hver mótherjinn er og standa og falla með því. Það er mjög ólíklegt að við sjáum Bournemouth pakka eins hressilega í vörn á sunnudaginn og við höfum séð frá Southamton og Sunderland. Auðvitað er það undir okkar mönnum komið hvað þeir komast langt sóknarlega en David Moyes aumingjaskap er ólíklegt að við sjáum frá Howe.

Bournemouth hefur nú þegar unnið lið eins og Everton og WBA á heimavelli, Spurs fékk aðeins eitt stig þarna og Hull var jarðað 6-1. Síðasta heimaleik töpuðu þeir hinsvegar 1-2 gegn Sunderland.

Líklegt byrjunarlið Bournemouth gæti verið eitthvað á þessa leið:

Boruc

Francis – Ake – Cook – Smith

Gosling – Wilshere – Arter

Ibe – Wilson – King

Þeir hafa alveg valkosti. Brad Smith spilaði síðasta leik t.a.m. sem var hans fyrsti í vetur. Ég tippa á að Adam Smith verði í bakverðinum í fjarveru Daniels. Ake er nýkominn í byrjunarliðið og hefur verið þeirra besti maður í síðustu tveimur leikjum. Hann skoraði gegn Liverpool í fyrra (fyrir Watford). Miðjan ætti að velja sig sjálf hjá þeim en það er erfitt að tippa á hverjir verða í kringum Wilson uppi á toppi. Stanislas kemur einnig til greina en það er ljóst að sóknarmenn Bournemouth hafa allir töluverðan hraða og Wilson er markaskorari.

Til að ljúka yfirferð um Bournemouth þá er hér blaðamannafundur Eddie Howe fyrir leikinn gegn okkar mönnum.


Liverpool

Það er að detta í mesta leikjaálag tímabilsins hjá okkar mönnum og meiðsli lykilmanna gætu bitið okkur í rassinn á einhverjum tímapunkti. Spilamennskan í síðustu leikjum hefur ekki alveg verið á sama leveli og liðið var að sýna fyrir (helvíts) landsleikjahléið.

Adam Lallana er farinn að æfa aftur en það tryggir ekki að hann fari í byrjunarliðið. Firmino er einnig að glíma við meiðsli en var með á æfingu á fimmtudag og nær þessum leik vonandi. Coutinho er frá fram að áramótum hið minnsta. Með þessa menn tæpa eða fjarverandi ætti heldur betur að opnast leið fyrir Daniel Sturridge inn í liðið. Hann hefur hinsvegar ekki byrjað einn leik fyrir Liverpool í desember síðan hann kom til Liverpool, annasamasta mánuðinum. Þetta er fullkomlega ástæðan fyrir því að maður vill ekki að liðið treysti um of á hann, það er ekki hægt. Þetta er ástæðan fyrir því að ég vill fá Origi framar í goggunarröðina, líka þegar báðir eru heilir. Sturridge er ævintýralega oft meiddur.

Divock Origi er líka búinn að grípa tækifærið vel og skar út um síðustu tvo leiki með góðum mörkum. Hann á meira en helling inni nái hann að spila sig í leikform og takt við liðsfélaga sína.

Það verður fróðlegt að sjá byrjunarliðið á morgun en ég ætla að skjóta á að það verði einhvernvegin svona.

Karius

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Lallana – Can – Henderson

Mané – Origi – Firmino

Winjaldum fari semsagt aftur á bekkinn á kostnað Lallana. Eitthvað var Matip tæpur í vikunni, vonum að það sé ekkert en ef hann er út kemur Lucas inn.

Hópurinn er ekki eins traustvekjandi sóknarlega án Coutinho, Sturridge, Ings og jafnvel Lallana en vonandi halda okkar menn áfram að finna leið til að sigra þrátt fyrir það.

Á pappír eru næstu þrír leikir ágætir, allt gegn liðum á bls. tvö í stöðutöflunni en við vitum að það hefur ekkert að segja, sérstaklega ekki þegar Liverpool á í hlut.

Að lokum er hérna blaðamannafundur Jurgen Klopp fyrir þennan leik.


Spá

Sagði 0-2 í podcasti ef ég man rétt og held mig við það. Fyrsta mark kemur eftir meira en klukkutíma leik. Firmino sér um þennan leik með báðum mörkum.

13 Comments

 1. Þessi leikur verður galopinn og er ég nokkuð viss um að bæði lið eiga eftir að skora mark í leiknum.
  Heimamenn eru ekki pökkunarlið(sjá Sunderland) þeir vilja halda bolta, sækja á nokkrum mönnum og spila til sigurs á heimavelli.
  Þetta ætti að henta okkur en það á eftir að reyna mikið á varnarlínuna okkar og það er eitthvað sem segjir mér að Ibe eigi eftir að eiga stórleik gegn okkur.

  Ég hef samt trú á að strákarnir klári þetta verkefni. Ég held að það verður bara einn breytting frá leiknum gegn Sunderland. Coutinho út og Origi inn.
  Sturridge er víst meiddur og ég tel að Lallana verður settur á bekkinn enda ekki orðinn 100%.
  Klopp hefur frekar varnasinnaða miðju með Henderson, Can og Winjaldum en þar sem heimamenn eiga eftir að sækja þá er það kannski skynsamlegt en ég er viss um að Mane, Firminho og Origi eigi eftir að fá meira pláss í þessum leik en gegn Southampton og Sunderland.

  Þetta verður skemmtilegur leikur og á maður ekki bara að hafa trú á okkar mönnum 2-3 sigur.
  YNWA

 2. Sorry nokkrir hérna inni en Firmino er ekki skrifað Firminho

  (væla yfir öllu ég veit)

  Annars áfram Liverpool.

 3. Sælir félagar

  Ég vona að þetta verði skemmtilegur leikur með mörkum og þau verði skoruð af Liverpool fyrst og fremst. Það er erfitt að segja til um hvort liðið saknar Coutinho svo mikið að söknuðurinn hafi afgerandi áhrif á leik okkar manna. Við skulum vona ekki.

  Ég er ekki viss uma að Bournemouth komi til með að spila mjög opinn leik gegn okkar mönnum. Það virðist ekkert lið gera það eftir leikinn gegn Arsenal sem var galopinn og feyki skemmtilegur. En síðan hafa lið einfaldlega lagt vagninum í teignum bæði heiman og heim. Þarna undanskil ég þó Burnley slysið.

  Þó sumir hér telji að Bournemouth muni spila opin leik og sækja á mörgum mönnum þá hefi ég ekki trú á því. Því miður. Ég held að þeir reyni að loka leiknum og sækja svo hratt ef og þegar tækifæri gefast. Þetta verður því svipað og í Sunderland leiknum og mun taka klukkutíma að skora á þá eins og Einar segir í upphituninni. Því er ég sammála og einnig spá hans. Við höldum hreinu og vinnum 0 – 2

  Það er nú þannig

  YNWA

 4. Ég myndi nú vara við bjartsýni fyrir þennan leik. Nokkrir lykilmenn slasaðir og fatlaðir. En á jákvæðu nótunum þá er Origi loksins kominn í gang. Ég held að þetta verði barningur, kannski eins marks sigur.

 5. Það er áhugavert að Chelsea eru núna taplausir í 8 leikjum, hafa reyndar unnið alla þessa 8 leiki. Þar á undan töpuðu þeir tveim leikjum í röð, fyrir Arsenal og Liverpool.

  Arsenal er hins vegar taplaust í 13 leikjum, hafa reyndar gert 4 jafntefli í þessum 14 leikjum. Þar á undan töpuðu þeir fyrir Liverpool.

 6. Lykilatridi er ad ná marki snemma og eg held ad þad takist á fyrstu 10 mínútunum og i kjolfarid verdur tetta audvelt og okkar menn vinna 1-4 tar sem Mane, Firmino, Lallana og Sturridge skora.

 7. Ég hef ekki góða tilfinningu fyrir þessum leik því miður. Held að við töpum en það er allt í lagi. Við skulum ekki fara fram úr væntingum og halda að þó að okkur hafi gengið vel að við endum sem meistarar. Öndum með nefinu og styðjum LPool í gegnum súrt og sætt því að þróunin er svo jákvæð að við þurfum að vera þolinmóð og bjartsýn ril frambúðar.
  YNWA

 8. Já, þetta verður gríðarlega erfiður leikur, sérstaklega ef Lallana verður ekki með. Lið eru farin að lesa okkur betur og þetta verður erfiðara og erfiðara, sérstaklega ef við verðum án tveggja algerra lykilmanna (Coutinho og Lallana). Sóknarleikur okkar er mun hægari og fyrirsjáanlegri án þessara leikmanna.

  Góðu fréttirnar eru þær að vörnin okkar er að styrkjast og gríðarlegt sjálfstraust er komið í liðið okkar. Er samt hræddur um að við séum að fara að sjá svipaðan leik og undanfarna 3 leiki, þ.e. við mikið meira með boltann en gengur illa að skapa okkur færi. Vonandi verður þetta samt happy ending og við setjum a.m.k. eitt kvikindi á 76 mínútu. Hef samt áhyggjur af því hvað það hefur skort mikið upp á gæði í ákvörðunartökum á síðasta þriðjung vallarins undanfarna leiki. Vonandi tökum við þetta samt á þrjóskunni og seiglunni, en það er alveg ljóst að þetta verður erfitt. Vonandi náum við að skora snemma í leiknum, það myndi gera okkur þetta mun auðveldara.

  Sammála skýrsluhöfundi með byrjunarliðið en vil að Can víki fyrir Wynjaldum. Spái að við vinnum þetta 1-0. Origi skorar á 76. mínútu.

 9. #7 satt er það en það núllast fljótt út ef við missum stig á móti minni liðunum.
  gríðarlega mikilvægur leikur að mínu mati þeir eru það allir en verðum fljótir að hendast úr lestinni ef við náum ekki góðum úrslitum í dag.

 10. klárum þetta léttilega.. svo bíður maður spenntur eftir að sjá lukaku og félaga valta yfir united þá hugsa ég að maður nái ekki brosinu af sér næstu vikuna 😀

 11. Sæl og blessuð.

  Sá lokasprettinn í leik bláliðanna tveggja í gær. Maður minn, þetta Chelsea lið! Allt gengur upp og áfergjan og þorstinn hafa safnast saman á dauða tímabilinu í fyrra. Bætist ofan á ótrúlega hæfileika og klukkuhreint skipulag. Eitthvað mikið þarf að gerast til að þeir hampi ekki titlinum í vor. Spáði þeim titilinum í fyrrahaust og geri það í ár líka.

  En að leiknum á eftir þá verður þetta gríðarlega spennandi. Bournmouth er hörkulið og þeir leika með hjartanu á erfiðum heimavelli. Okkar menn eru undir mikilli pressu því ef þetta gengur ekki upp þá erum við komin á fúlan stað.

  Spái jaftefli.

  Morgundagurinn kemur aldrei.

Kop.is Podcast #129

Bournemouth – Liverpool 4-3 (Leik lokið)