Leeds koma í heimsókn!!!

FYRST FERÐAFRÉTT

Sala er hafin í hópferð Kop.is og Úrval Útsýnar á leik Liverpool og Swansea helgina 19. – 23. janúar!

Salan fer MJÖG VEL af stað og ég skora á áhugasama að smella á hlekkinn hérna, kanna upplýsingarnar og stökkva með okkur á viðureignina við Swansea í janúar. Það verður eitthvað!

Þá að leiknum við Leeds…

Ég vona að þið fyrirgefið mér það að setja þrjú upphrópunarmerki í fyrirsögn þessarar færslu, það er fyrst og fremst einskær tilhlökkun mín að fá að mæta gömlum fjandvinum okkar Púlara í Leeds United sem kallar á þessi merki öll.

Leeds United má auðvitað muna sinn fífil fegri en það verður aldrei af þeim tekið að þar er á ferð sennilega stærsti sofandi risi Englands, risi sem hefur reglulega risið duglega upp en þess á milli horfið niður í djúpar lægðir. Ég man eftir liðinu með Woodgate, Viduka, Bowyer og Kewell…þeir aðeins eldri tala um Bremner, Lorimer og félaga. Ótal stuðningsmenn eiga þeir alhvítu hér og ég þekki dánokkra í þeim hóp, enda liðið t.d. með eindæmum vinsælt í fæðingarbænum mínum, sælureitnum Siglufirði. Ég leyfi mér að óska þeim vinum mínum hjartanlega til hamingju með það að liðið þeirra virðist vera á leið upp brekku á ný og þeir verðskulda það að fá alvöru leik á Anfield annað kvöld…en vonandi ljúka þar keppni.

Leeds í dag

Eftir mögur ár undanfarin hefur gengi Leeds í vetur verið með ágætum. Fyrrum Swansea stjórinn Garry Monk hefur náð að raða saman öflugum hóp leikmanna sem situr nú í 5.sæti næstefstu deildar og aðeins 1 tap í síðustu 7 leikjum, gegn Rafa Benitez og félögum í Newcastle.

Á leið sinni í 8 liða úrslitin hafa þeir slegið út lið Luton, Blackburn og Norwich og samkvæmt viðtali við stjórann á heimasíðunni þeirra hafa þeir fulla trú á því að geta náð góðum árangri á Anfield. Þeir munu væntanlega fá allt að 7000 miða á völlinn og öll þau sæti eru löngu uppseld, eins og á völlinn sjálfan svo ég held að óhætt sé að reikna með alvöru stemmingu, svona rétt eins og alltaf þegar þessi lið mætast.

Lykilmennina þekkjum við nú ekki marga. Í markinu stendur fyrrum landsliðsmarkmaður Englendinga, Rob nokkur Green. Aðalmaðurinn í vörninni þeirra er Kyle Bartley sem er í láni frá Swansea, á miðjunni er það Portúgalinn með svakalega nafnið Ronaldo Viera og frammi eru Chris Wood og Souleymane Doukara þeir sem munu gera sitt til að velgja okkar liði undir uggum og skora þau mörk sem þarf til að koma þeim áfram.

Árangur vetrarins hafa þeir byggt upp með nokkuð öflugum varnarleik, hafa fengið á sig 20 mörk í 18 leikjum en á móti aðeins skorað 21 mark. Það er alveg morgunljóst að þeir ætla sér að selja sig dýrt og munu verða mun erfiðari mótherji en hin 1.deildarliðin sem við höfum mætt í þessari keppni, Derby og Burton.

liverpoolleeds

Okkar lið

Það væri synd að segja annað en það að maður gleðst yfir því að fá smá fótbolta í miðri viku, það er einfaldlega of langt sem líður á milli leikja liðsins okkar þessa dagana enda blússandi grimmd í öllum okkar aðgerðum og hreint frábær fótbolti. Hingað til í þessari keppni höfum við fengið hörkuleiki þar sem við höfum séð heilmikið spilað úr hópnum og ég er handviss um það að sama verður uppi á teningnum núna. Auðvitað styttist í úrslitaleikinn sem mun pottþétt þýða sterkara lið inni á vellinum, en þeir sem hafa fengið að spreyta sig í þessum leikjum hafa bara verið hundflottir og munu alveg örugglega vera tilbúnir að hlaupa jafnmikið og hingað til.

Miðað við lýsingar af æfingaálagi Liverpool þá eru þeir leikmenn sem spilað hafa minna alveg örugglega í dúndurformi og munu fara á fulla ferð til að sanna það að þeir eigi möguleika á fleiri “alvöru” mínútum nú þegar það eru að koma einhver smá skörð í hópinn vegna meiðsla og álags.

Það er klárt að Sturridge, Lallana og Firmino verða ekki notaðir á morgun vegna smá meiðsla og segja fréttir að Coutinho missi sex vikur vegna ökklameiðslanna sem hann hlaut um helgina. Þegar svona stendur á held ég að nokkuð öruggt sé að við sjáum næstum algera breytingu á liðsuppstillingu frá helginni…og jafnvel að einhverjir af yngri leikmönnunum fái mínútur.

Leikurinn virðist þó hafa verið of snemma fyrir Joe Gomez sem lék í kvöld í 90 mínútur með U-23ja ára liðinu okkar og er að nálgast endurkomu en eftir því var tekið að marga lykilmenn vantaði í það lið sem ætti að gefa líkur á því að þeir spili leikinn gegn Leeds á morgun. Stewart, Trent Arnold, Ejaria og Woodburn voru ekki í hópnum og því má telja líklegt að við sjáum til þeirra á Anfield.

Að þessu sögðu held ég að tími sé kominn á að reyna að finna út úr því hvaða 11 spila á morgun, hér er mitt villta gisk!

Mignolet

Arnold – Lucas – Klavan – Moreno

Wijnaldum – Stewart – Grujic

Ejaria – Origi – Woodburn

Ég semsagt tippa á það að Wijnaldum verði sá eini úr byrjunarliðinu sem spilar á morgun, hann hefur bara gott af því að hlaupa sig áfram í form, rétt eins og Origi sem er að fara að spila stórt hlutverk næstu vikur. Að öðru leyti munum við semsagt sjá fullt af ungum mönnum spreyta sig.

Samantekt og spá

Ég ítreka að ég hlakka til!

Liverpool – Leeds er flott viðureign sem ég ætla ekki að missa af. Ég held að við fáum alveg hörkuverkefni en vinnum leikinn 3-2 með sigurmarki Marko Grujic í blálokin!

10 Comments

  1. Jæja miði í undanúrslit í boði eftir að hafa bara mætt neðrideildar liðum. Ekki hægt að fá mikið auðveldara miða og allt annað en sigur en vonbrigði í þessum leik.
    Tippa á erfiðan leik engu að síður en við vinnum 2-1. Liverpool á ekki að tapa fyrir liðum í neðri deild.

  2. Sælir félagar.

    Flott upphitun og Maggi fær mann til þess að hlakka jafn mikið til leiksins og hann sjálfur gerir.

    Finnst þessi uppstilling Spot-On en gæti séð Can taka sæti Wijnaldum þarna inni en það verður að koma í ljós. Finnst hann vanta spilatíma til þess að geta spilað á sama tempói og aðalliðið.

    Ég er aðallega spenntur fyrir því að sjá þessa þrjá vinna saman fremst á vellinum. Ejaria og Woodburn lofa góðu hvað framtíðina varðar en það verður gaman að sjá Woodburn fá alvöru leik undir beltið. Hann kom inná gegn Sunderland en fékk stuttan tíma svo hann sást lítið. Hef fylgst með þeim báðum hjá yngri liðinu og gera þeir tilkall til þess að byrja þennan leik.

    Grujic er svo annar leikmaður sem ég mun reyna að fylgjast grant með í þessum leik. Ég sé alveg fyrir mér að hann komi inn í einhverja leiki í kringum hátíðirnar á kostnað Can eða Wijnaldum, svo framarlega sem að ekki verði hoggin stór skörð í hópinn yfir/fyrir þann tíma.

    Segjum að við tökum þetta 3-1 í þó spennandi leik. Moreno setur eitt og Origi tvö. Woodburn verður með 2 assist en Moreno sér alveg um sitt sjálfur.

    YNWA – In Klopp we trust!

  3. Liverpool – Leeds ég gleymi líklega aldrei 5-4 leiknum á milli þessara liða en hann var einn af mörgum hörkuviðureignum sem þessi lið hafa leikið í gegnum tíðina.
    Maður er 80s barn og lítur því á lið eins og Leeds, Forest og Villa sem stórlið og vill hafa þau í úrvaldsdeildinni.
    Leikurinn á morgun er mikilvægur því að eins og einhver snillingur sagði allir leikir eru mikilvægir og vona ég að liverpool liðið vinni bara þessa keppni enda orðið alltof langt síðan að bikar hefur farið á Anfield en ég vona að þeir fara að detta inn einn og einn á næstum árum(ég trú á Klopp).
    Þetta er samt leikur sem þarf að gefa ungum leikmönum tækifæri og hef ég trú á því að Klopp gerir það.
    Þeir sem búast við auðveldum sigri eru bæði að vanmeta Leeds og að venmeta þessa keppni því að við erum að fara í hörkuleik. Leeds vill mina á sig, við hvílum nokkra, okkar leikmenn kannski ekki allir vanir að spila mikið saman og bikarsjarmi gera það að verkum að ég á von á að þetta fari alla leið í vító þar sem Mignolet mun minna aðeins á sig og hjálpa okkur að komast áfram.

    YNWA

  4. #4 kærar þakkir fyrir þetta 🙂 Mjög hressandi. Og greinilega ekkert nýtt hjá Liverpool að halda hlutunum spennandi…

    Hef örugglega séð leikinn á sínum tíma, maður er bara farinn að gleyma –

  5. Man vel eftir þessum leik, örugglega besti leikur Lee f**king Chapman á ferlinum og ótrúlegt næstum því kombakk hjá Leeds liðinu í þessum leik. Annars voru Leedsarar með magnað lið á þessum tíma, menn eins og Strachan, McAllister og Speed voru í þessu liði sem varð síðan Englandsmeistari rúmu ári síðar ef ég man rétt. Man líka vel eftir varamarkmanni Liverpool á þessum tíma, Mike Hooper, sem spilaði leikinn, ekki sá traustasti í bransanum. Margir fleiri eftirminnilegir menn í þessu Liverpool liði, skandinavarnir Hysen og Molby, Houghton, McMahon, Barnes, Beardsley og Rush, að ógleymdum David Speedie sem leit út fyrir að vera fimmtugur hið minnsta.
    Skemmtilegir tímar, hlakka til að sjá þessu gömlu fjendur eigast við í kvöld

  6. Ég vona Origi eigi stórleik væri frábært að sjá hann stíga almennilega upp núna sérstaklega á þessum erfiða kafla meiðsla okkar manna.
    Þetta verður spennandi leikur og hlakka til að sjá okkur mæta Leeds.

  7. #1 – mættum við ekki Tottenham í síðustu umferð? Erum við orðnir það hrokafullir að flokka þá sem neðri deildar lið 🙂

  8. Sælir félagar

    Takk Maggi fyrir að gera þennan leik skemmtilegan spennandi svona fyrirfram. Líka þakkir til Sigurðar Einars fyrir að sýna okkur aftur klippur úr þessum magnaða leik. Að sjá þessa snillinga þessa liðs vekur upp minningar um ótrúlega sigurgöngu Liverpool á fyrri öldum. Vonandi verður gaman í kvöld. Ég er ekki endilega að biðja um spennandi leik (er orðin of gamall fyrir mikla spennu) en skemmtilegan fyrir okkur Púllara.

    Það er nú þannig

    YNWA

  9. Leeds er lið sem eftirsjá var eftir úr úrvalsdeild, mjög ástríðufullir stuðningsmenn og oft á tíðum skemmtilegur bolti. Leedsarar hafa mátt þola mikla niðurlægingu vegna hörmulegrar fjármálastjórnunar og hins ömurlega Ken Bates (berið hann saman við FSG) en eru vonandi á leiðinni í deild hinna bestu aftur.

    Helvítið hann Feiti Mark Viduka fór reyndar langt með að láta mann hata klúbbinn – en öðlingar eins og Gary McAllister og Harry Kewell (að ógleymdum hinum þokkafulla Lee Bowyer) vega upp á móti því.

    Þetta verður ekki fallegur leikur, Championship naut á móti kálfum (ef uppstillingin verður í líkingu við spá Magga) – en fegurðin mun bera kjötið ofurliði: 2-1 fyrir okkar mönnum.

Kop.is – ferð (UPPFÆRT m. verðum)

Liverpool v Leeds [dagbók]