Af hverju ekki?

Hjartslátturinn magnast og maður getur ömulega setið kyrr. Áður en maður veit af er maður kominn framarlega í sófann, staðinn upp eða hreinlega kominn með andlitið ofan í sjónvarpið. Maður skiptist á að hlæja, glotta, garga eða hreinlega standa eftir agndofa, orðlaus og með hökuna niður í gólf.

Það hefur svo sannarlega verið gaman að horfa á Liverpool spila undanfarna mánuði og jafnvel síðasta árið, þó á köflum hafi það ekkert verið eins rosalega skemmtilegt en hvað um það. Þetta hefur verið skemmtileg rússíbanareið og meira jákvætt hefur komið úr henni en neikvætt. Það besta er þó að þetta lið á svo sannarlega eitthvað inni, ekki satt?

Tveir úrslitaleikir, frábærir sigrar gegn helstu keppinautum, sóknarbolti, svakalegur baráttuandi og karakter og toppsætið í bili að minnsta kosti. Það er gífurlega mikið gott sem hefur gerst hjá Liverpool á síðustu tólf mánuðunum eða svo, ekki hefur allt gengið upp en maður getur ekki annað en verið mjög spenntur fyrir því sem koma skal.

Sem stendur er gífurlegur meistarabragur yfir Liverpool í upphafi leiktíðar. Liðið er að kaffæra hinum ótrúlegustu liðum og misstigið sig afar lítið hingað til. Útileikir, heimaaleikir, sterku liðin, lélegri liðin, djúpar varnir, háar varnir, hröð lið, kraftmikil lið – það skiptir ekki máli, Liverpool hefur verið að standa sig gegn þessu öllu í fyrstu ellefu umferðum deildarinnar.

Það getur enginn staðið fyrir framan hóp og fólki, haldið andliti og haldið því fram að Liverpool lýti ekki út eins og lið sem geti unnið deildina í vor eða í það minnsta viðurkennt liðið sem mjög alvarlegan og sterkan meistarakandídat. Ef það leynast einhverjir þannig þá megið þið endilega stíga fram og sanna vitleysuna í ykkur. Það má vel vera að eitthvað, jafnvel eitthvað mikið, breytist og liðið hellist úr baráttunni en eins og staðan er í dag þá er ekki hægt að halda öðru fram.

Ég get stundum ekki annað en hrist hausinn yfir því þegar það eru einhverjir sem hika ekki við að blása niður byrjun liðsins og líkur þess á að geta haldið sér í þessari baráttu. Sérstaklega þegar mörg af rökunum sem eru slengd fram, ef það fylgja þá rök með þessu bulli, eru hreinlega bara mjög léleg og einkennast af algjöru þekkingarleysi. Þetta á jafnvel við hjá sparkspekingum í nokkrum af vinsælustu fótboltatengdum þáttum heimsins.

Maður fær hreinlega ekki nóg af því að horfa á einhverjar klippur og samantektir úr leikjum liðsins undanfarið og horfir maður því reglulega á umfjöllun á liðinu í Monday Night Football, Match of the Day og fleiri slíkum þættum og hamingjan hjálpi mér hvað mér þykir margir þeirra sem koma þar fram oft vitlausir.

Það er oft á tíðum sem mér finnst margir full ákafir í að afskrifa liðið í þessari baráttu. Vinnur liðið deildina? Nei, kannski ekki. Líklega ekki. Getur liðið unnið deildina? Alveg klárlega. Af hverju ætti það ekki að geta það?

Einar Matthías fór vel í samanburðin á liðinu samanborið við mótherjana og ætla ég ekkert nánar út í það sérstaklega. Einstaklingslega er liðið vel á pari við keppinautana eins og hann kemur inn á í sinni grein og stöndum við afar vel að vígi með okkar knattspyrnustjóra. Það vantar ekki, við höfum fullt af vopnum svo af hverju virðist vera svo auðvelt að afskrifa liðið á þessum tímapunkti samanborið við keppinautana?

Nokkrar mýtur sem ég, ofsatrúaður Liverpool stuðningsmaður með glasið rúmlega hálf fullt, hef afar lítinn tíma fyrir og hafa jafnvel farið alveg rosalega í taugarnar á mér – sérstaklega þegar því er haldið fram hjá spekingum sem virðast ekki mikið þekkja til.

Man nú ekki hver það var í Match of the Day en hann hélt því fram að munurinn á t.d. Liverpool undir Klopp og samanborið við liðin sem leika undir stjórn Guardiola, Conte og Pochettino er að hann segir sínum mönnum bara að fara út á völl, leika sér og gera það sem þeir vilja með boltann. Einmitt á meðan að hin liðin eru taktískari og meira og betur “drilluð” lið.

Einmitt. Liverpool-lið Jurgen Klopp er bara fríspilandi fótbolta lið þar sem leikmenn hafa þá eina skildu að pressa hátt og koma boltanum á galdrakarlana í sókninni sem gera bara það sem þeir vilja. Einfalt og þægilegt. Maður skilur nú bara hreinlega ekki neitt í því af hverju aðrir þjálfarar, þá sérstaklega þeir Pochettino, Conte og Guardiola eru að eyða öllum þessum tíma í æfingar, gera lið sín taktískar vélar og vinna taktíska sigra þegar þeir geta svo hæglega bara sleppt af þeim beislinu.

Þetta fannst mér þvílík og önnur eins vitleysa. Jurgen Klopp hefur nú komið fram á sjónarsviðið í um það bil áratug og talað um mikilvægi þess að þjálfa leikmenn, byggja upp strúktur í liðum og þess háttar. Allt í góðu, ég efast um að margir spekingana í þessum settum þarna úti fylgist með einhverju öðru en enska boltanum svo þetta er örugglega allt nýtt fyrir þeim. Ég meina, það er nú ekki eins og Klopp hafi ekki komið fram í sjónvarpinu nýlega þar sem hann opnaði sig um taktíska hugsun sína og útskýrði hana. Þetta er bara einfalt; Dortmund og Liverpool, Klopp, gegenpressing og heavy metal football. Ekkert flókið, bara gaman.

Við sáum strax á síðustu leiktíð hvað var í vændum hjá Liverpool undir stjórn Jurgen Klopp og sáust einkennismerki hans mjög fljótt á liðinu. Það vantaði stöðugleikann, úrslitin voru ekki alltaf hagstæð en þú sást stórar breytingar á leikmönnum og liðinu í heild á milli leikja. Hápressan virkaði oft mjög vel, sóknarleikurinn var oft góður en jafnvægi á milli varnar, miðju og sóknar var kannski ekki alltaf að skora tíu af tíu mögulegum og Klopp hafði einfalda skýringu á því. Það sárvantaði æfingatíma til að slípa þetta saman enda leikir tvisvar til þrisvar í viku frá október til maí og því lítill tími til æfinga og fyrir nýjan stjóra í nýju liði getur verið erfitt að fá alla á sömu blaðsíðu án æfingatíma. Megnið af því sem bættist á síðustu leiktíð gerðist því í leikjum. Liverpool var að læra “on the go”.

Sumarið kemur og Klopp lætur liðið æfa tvisvar til þrisvar sinnum á dag í allt sumar. Augljóslega vill hann láta leikmennina hlaupa sig í form því þeir þurfa að hlaupa svo mikið og pressa boltann. Það er jú, eiginlega bara það sem þetta gengur út á.

Allar myndbandsupptökur af æfingasvæðinu í sumar og vetur, allar ljósmyndir þaðan og allt tal um það sem gerist á æfingum sýnir og segir okkur það að Klopp leggur allt upp með taktískum hug. Sögur af honum og þjálfurum hans brjáluðum á æfingu því menn taka ekki nógu mikið á, gera ekki rétt og þess háttar hafa sést og heyrst mjög reglulega. Aðstoðarmaður Klopp, Zeljko Buvac, á það víst líka til að stöðva æfinguna og bókstaflega draga leikmenn í réttar stöður og sína þeim hvað þeir eiga að gera.

Klopp talar jafnvel sjálfur beint út varðandi það að öll hlaup, allar sendingar og allar aðstæður sem liðið lendir í er eitthvað sem er farið í á æfingasvæðinu og gert það oft og mikið að þegar á hólminn er komið eigi það að vera fast í hugum leikmanna að þeir fara að geta gert þetta ósjálfrátt. Það á að pressa á ákveðinn hátt, það á að sækja á ákveðinn hátt, þegar boltinn er þarna á að gera þetta og öðruvísi ef hann er annars staðar. Það er mest allt eftir plani. Leikmaður á alltaf að vera með boltann eða í pressunni og ef hann er það ekki þá á hann að vera opinn fyrir sendingu/hlaupi eða mættur í að loka svæði, bæta í pressuna eða eitthvað slíkt.

Þetta er svo langt frá því að vera einhver frjáls, hugsunarlaus skemmtifótbolti eins og mér finnst afar oft vera útskýringin á þessu. Málið er bara hreinlega þannig að liðið og leikmenn þess eru bara að verða svo rosalega góðir í þessum hugsunum að allt sem þeir gera virðist oft á tíðum vera svo einfalt og auðvelt.

Liðið hleypur meira en flest önnur, það skapar fleiri færi en flest önnur, þeir fá á sig færri skot/færi en flest önnur, vinna boltann í góðri stöðu oftar en flest önnur og eru hreinlega bara fljótari, hungraðri og betri en flest önnur. Það er ekki bara frelsið og skemmtunin heldur er það gífurleg vinna á æfingasvæðinu sem er að skila þessum árangri og því finnst mér afar ósanngjarnt og vitlaust að ætla eitthað að afskrifa þetta lið á þessum tímapuntki en ætla svo kannski að magna upp möguleika t.d. Chelsea, City, Tottenham og Arsenal af því að þau eru svo vel þjálfuð og taktísk lið. Liverpool er búið að yfirspila þrjú þeirra í vetur, vinna tvö þeirra og það þriðja var bara nokkuð heppið að komast af með stig á heimavelli.

Vörnin er enn að leka einu og einu marki inn sem er auðvitað eitthvað sem þarf að laga en maður hefur ekkert gífurlegar áhyggjur af satt að segja. Eins og áður segir er liðið að fá á sig mjög lítið af færum og skotum og þrátt fyrir að hafa fengið á sig fjórtán mörk í deildinni þá eru ekki mörg þeirra sem hafa á einn eða annan hátt eitthvað í alvöru ógnað sigrum eða tekið af einhver stig. Fimm markana fjórtán komu í fyrstu tveimur leikjunum gegn Arsenal og Burnley. Annar var tapleikur, 2-0 en hinn 4-3 sigur. 4-1, 4-2, 5-1, 6-1, 2-1, 4-3, 2-1, 2-1: Mörg þessara marka sem Liverpool hefur fengið á sig eru einhver “sárabótamörk þegar liðið er með tveggja til þriggja marka forystu og hafa engin áhrif á úrslitin. Það eru því í raun aðeins þrjú mörk sem hafa haft áhrif á úrslit og tekið stig af Liverpool.

Það sem mér þykir alveg svakalega jákvætt eru viðbrögð liðsins oft eftir að það fær á sig mark, hvort sem það er snemma eða seint, lenda undir eða munurinn minnkar. Það er rosalega oft sem liðið nær að svara strax með marki eða gífurlegri pressu og ná að kæfa niður “augnablikið” sem mótherjinn gæti fengið eftir markið og annað hvort haldið út leikinn eða bætt í forskotið sitt í kjölfarið.

Í sigurleiknum fræga gegn Dortmund, Evrópuleikjunum gegn Man Utd, seinni leiknum gegn Villarreal, leikjunum gegn City á síðustu leiktíð, Arsenal leikurinn á þessari leiktíð, Chelsea, Tottenham og í nær öllum leikjum þessarar leiktíðar hefur Liverpool fengið mjög fá mörk á sig þrátt fyrir að þessi lið ættu kannski að vera kominn aftur inn í leikinn eftir mark eða hafa þurft að sækja. Liðinu gengur oftar en ekki afskaplega vel að drepa þetta niður og halda út.

Manni finnst ekki vanta mikið upp á varnarleikinn hjá liðinu og virðist hann stöðugt vera að bæta sig, liðið ætti að fara að halda oftar hreinu fljótlega ég trúi ekki öðru. Ef við skorum alltaf þrjú til fjögur þá get ég alveg lifað með einu marki á móti í hverjum leik!

Fram á við hef ég engar áhyggjur. Gjörsamlega engar. Liðið á örugglega eftir að mistakast að skora eins og gegn Manchester United og Burnley í vetur en ég hef ekki nokkra trú á því að liðið eigi ekki eftir að geta skapað sér þessi færi sem það hefur verið að gera og við munum skora helling af mörkum áfram.

Liðið á óeðlilega mikið af leikjum þar sem það skorar fjögur eða fleiri mörk í leik og hefur átt fáranlega mikið af slíkjum leikjum árið 2016 og þar á meðal fimm af ellefu leikjum í deildinni hingað til og hafa nú alveg haft tækifæri til að skora fleiri í þeim leikjum sem og í hinum leikjunum. Færin eru að koma, skotin eru að koma og mörkin koma.

Það er snemmt á leiktíðinni enn þá og enn 27 umferðir eftir og því enginn orðinn meistari enn og margt mun og á eftir að breytast en af hverju ættu til dæmis Arsenal, Tottenham, Chelsea og City að vera eitthvað svo rosalega öruggari kostir í titilbaráttuna en Liverpool?

City á pappír besta liðið en hafa verið að misstíga sig furðu oft síðustu vikurnar, eru ekki sannfærandi í vörninni á köflum og virðast enn vera í töluverðum vandræðum með að ná jafnvægi og stöðugleika í sinn leik.

Arsenal verið á góðri siglingu en hafa oft verið langt frá því að vera sannfærandi og verið að ná að kreista fram sigra í blálok leikja, sem er að vísu jákvætt en það virðist ekki mikið mega út af bregða hjá þeim. Hafa gæðin en eru enn með mikið af sömu spurningarmerkjum og undanfarin ár.

Chelsea í svipaðri stöðu og Liverpool. Nýr stjóri, engin Evrópukeppni og skipulagður og flottur fótbolti. Þeir hafa klárlega mikil gæði í sínu liði og á frábærri siglingu en það má alveg setja spurningarmerki við þá eins og alla aðra.

Tottenham eru líklega með eina þéttustu og öflugustu vörn deildarinnar en oft á tíðum virðist það koma á kostnað sóknarleiksins. Harry Kane auðvitað þeirra helsta uppskera fyrir mörk en það er ekkert svakalega mikið af mörkum í kringum hann í þessu liði. Það gagnast ekkert að halda hreinu ef þú skorar ekki mörk á móti, þú vinnur ekki leiki ef þú skorar ekki mörk. Af hverju ætti vörn þeirra að gera þá líklegri að titlinum en sókn Livierpool?

Ég er alveg sokkinn inn í þetta hype í kringum liðið. Ég ætla ekki að sitja hérna og halda því fram að við munum vinna deildina en af hverju ættum við ekki að eiga jafn góðan – ef ekki bara betri – séns á því en hinir?

Svona eftir á að hyggja fatta ég ekki alveg tilganginn með þessum pistli mínum en mikið er það fjandi gott að blása aðeins út með þetta!

Þetta Liverpool lið er frábært og á mikið inni. Það er verulega farið að hækka hljómurinn í heavy metal fótboltanum og endilega segið mér af hverju liðið ætti ekki að geta orðið meistari í vor. Af hverju ekki?

13 Comments

  1. Frábært að fá allar þessar flottu greinar í landsleikjahléi.

    Vil þakka ykkur fyrir að stytta manni stundir þegar ástkæra LFC er ekki að spila.

  2. Þetta er ekkert flókið. Titillinn kemur heim í vor eftir 27 ára útlegð.

  3. Takk fyrir, er sammála þér í einu og öllu. Held að innst inni hugsi allir það sama en vonbrigði síðustu 20 ára eru þungur baggi að bera og menn þora bara ekki að vona. En á meðan njótum við þess að horfa á þennan frábæra fotbolta, hann gerist ekki betri.
    Á meðan ég man, nýjan samning á Couthinio strax.

    YNWA

  4. Sælir félagar

    Takk fyrir þetta spjall Ólafur Haukur, það styttir manni stundir í leiðinlegu landsleikjahléi.

    En svo að maður víki að efni pistilsins þá er það ekkert sem segir að Liverpool geti ekki orðið meistari í vor rétt eins og hin stóru liðin í deildinni. En að fara að spá liðinu sigri í deildinni núna er fásinna rétt eins og það er rugl að spá einhverjum öðrum öruggum meistaratitli.

    Það sést best á því að í upphafi leiktíðar héldu menn að M. City væri svo gott sem búið að vinna deildina og virtust ósigrandi en annað hefir komið á daginn og ekkert lið getur bókað sigra í öllum leikjum. En vonin um meistaratitil til Liverpool er fyrir hendi, leikgleðin í liðinu, kappið í stjóranum og stuðningur stuðningsmannanna. Svo – af hverju ekki.

    Það er nú þannig

    YNWA

  5. Hef kannski ekki miklar vonir um árangur, en ekki veit einhver um stað í San Francisco sem ég gæti séð Króatía-Ísland? Hann byrjar hér kl. 9 um morgun.

  6. Skemmtileg grein.

    Ég held að þetta muni velta á meðslum hjá topp liðinum. Ef Hazard meiðist hjá Chelsea, ef Ösil meiðist hjá Arsenal osfr þá breytir það öllu. ÞIð sjáið td Tottenham þegar Kean var frá núna í nokkra leiki, þeir unnu ekki einn leik.

    En við stöndum kannski aðeins framar en hin hliðin varðandi fjölda leikmanna sem eru að spila vel og skora mörk. En ef td Coutinho meiðist þá veit ég ekki hvernig við myndum höndla það.

    Evrópa tekur líka sinn toll hjá Arsenal, Tottenham og City.

    En eins og staðan er í dag þá er ég í raun hræddastur við Chelsea. Gríðarlega flottur leikur hjá þeim á móti Everton um daginn og Conte er farinn að láta þá spila hörku bolta.

  7. Liverpool geta orðið meistara það er bara þannig af því að Liverpool á möguleika á að vinna öll lið deildarinar og skiptir engu máli hvort að liðið sé úti eða heima.

    Afhverju getur liverpool ekki orðið meistara?

    1. Meiðsli lykilmanna – þetta getur skemmt tækifæri hjá nánast öllum liðum og afríkukeppninn þegar Mane fer(og vonandi ekki Matip)

    2. Styrkleiki andstæðingana.
    Man City – virðast feikilega sterkir og þótt að þeir hafa ekki verið að nýta yfirburði sína í undanförnum leikjum þá eru þeir ótrúlega góði.
    Chelsea – þetta er ekki sama lið og við unnum 1-2. Þeir hafa breytt um kerfi og virðist það henta þeim að vera með þrjá miðverði og gefa Harzard meira pláss og leyfa Moses/Alonso að taka virkan þátt í sóknarleiknum.
    Arsenal – jájá þeir klúðra þessu alltaf þrátt fyrir að líta stundum mjög vel út, en hey þetta er sama og er sagt alltaf um okkur. Afhverju ekki þeir eins og við?
    Tottenham – solid í vörn en eiga í vandræðum með að skora en kannski lagast það þegar Harry kemst í gang en ég tel samt að við endum fyrir ofan þá.
    Man utd – hef horft á þeira leiki í vetur og þeir eru ekki að fara að vera meistarar í ár.

    3.Liverpool spilar flottan sóknarbolta en eru stundum tæpir í vörninni og það er það sem hræðir mann kannski hvað mest. Að við eigum eftir að fá á okkur mark eða mörk í flestum leikjum og má sóknarlínan okkar því ekkert misstíga sig eða hægja á sér.

    Að verða Enskur meistari þá þarf gjörsamlega allt að ganga upp og eins og staðan er í dag þá lítur þetta vel út og við eigum alveg eins möguleika og hinn liðinn. Það sem maður veit líka er að það er nóg eftir og maður nýtur þess bara að sjá okkar frábæra lið spila þessa dagana og maður hefur trú á þeim en reynslan hefur kennt manni að búa ekki til fyrirfram skýjaborgir og ætlar maður að tækla þetta bara eins og Klopp og stákarnir.

    EINN LEIK í EINU

  8. Liverpool stuðningsmenn getur einhver bent mér á gott stream fyrir landsleikinn núna á eftir. Staddur í USofA og væri mjög þakklátur.

  9. Virkilega kærkomnir þessir pistlar hjá ykkur í þessari landsleikjatörn! hún er að gera út af við mann!!

  10. Liðið okkar er að spila flottan bolta. Svo flottan að það er leiðinlegt að horfa á önnur lið spila. Ég hef horft á boltann í gegn um árin og er það skemmtilegasta sem ég geri, en áhugi minn að horfa á önnur lið spila hefur dvínað, allt Liverpool að kenna. Konunni varð það á orði að það væri Liverpool að þakka að ég væri duglegri á heimilinu um helgar.

    Snjall eiginmaður kaupir svo fínt postulín handa eiginkonu sinni að hún treystir honum ekki fyrir uppþvottinum.

    Jóhannes var á leiðinni heim til sín úr viðskiptaferð þegar bíllinn hans bilaði á afskekktum sveitavegi. Hann gekk af stað í átt að næsta bóndabæ eftir aðstoð, en hann hafði ekki gengið lengi þegar glæsilegur sportbíll nam staðar við hlið hans.
    “Get ég nokkuð liðsinnt þér?” spurði stórfalleg, ung stúlka sem sat við stýrið.
    Jóhannes útskýrði fyrir henni hvernig málum væri háttað og stúlkan sagði honum að hún byggi í litlu þorpi í um fimm kílómetra fjarlægð. Hún vildi endilega bjóða honum heim til sín og gefa honum að borða og síðan gæti hann hringt á verkstæði.
    Jóhannes þáði að sjálfsögði gott boð. Það tók nokkurn tíma að gera við bílinn og því var farið að birta af degi þegar hann kom loksins heim til sín.
    “Hvar hefurðu eiginlega haldið þig”! oskraði konan hans. “Þú ert úti alla nóttina, lætur ekki vita af þér…….”
    “Bíllinn bilaði og það var falleg, ung stúlka í sportbíl sem hjálpaði mér og bauð mér að borða hjá sér og svo……”
    “Ekki eitt orð í viðbót!” æpti konan hans. “Ég er búin að fá nóg af þessum lygum þínum. Þú hefur enn einu sinni farið að horfa á fótbolta með strákunum!”

  11. Ég held að Liverpool eigi raunhæfa möguleika á að verða meistari. En líkt og Klopp er rétt að anda rólega og stilla væntingum í hóf. Það er þó sitthvað sem vinnur með okkar mönnum og þá sérstaklega að geta einbeitt sér að PL.

    Ég verð að vekja athygli á að Mahmoud Dahoud er alvarlega orðaður við Liverpool í þýskum fjölmiðlum. Þetta er meiriháttar efnilegur strákur og einn efnilegasti leikstjórnandi sem komið hefur fram í Þýskalandi og er þá nokkuð sagt.

    Hreint magnaður leikmaður og hefur bókstaflega allt til að verða stórstjarna að mínum dómi. Ef þýska bylgjan heldur áfram að skola leikmönnum af þessum gæðum til Liverpool er ég sannfærður um að okkar ástkæra félag mun vinna allt sem í boði er á næstu árum.

  12. Við erum í 9 sæti yfir fengin mörk á okkur. Það þarf að laga. Meiðsli lykilmanna getur haft mikil áhrif á gengið sérstaklega í vörn og afturliggjandi miðjumenn.

  13. Jæja.
    Lallana

    Meiddur. Í useless æfingaleik.

    Meira bullið þessir æfingaleikir

Hópur Liverpool er vel samkeppnishæfur

Hversu mikið spilar “byrjunarliðið”?