Hópur Liverpool er vel samkeppnishæfur

Gleðivísitala stuðningsmanna Liverpool er heldur betur að taka við sér og nú þegar við hefjum þriðja landsleikjahlé tímabilsins er ljóst að mikið hefur breyst frá því við fórum inn í fyrsta landsleikjahléið í september fimm stigum á eftir öllum toppliðunum. Færslan sem við erum reglulega að stríða Kristjáni Atla með kom inn á þessum tímapunkti þar sem hann fór yfir vonir og væntingar fyrir tímabilið. Eðlilegasta færsla þó heldur lítið hafi verið í glasinu, sérstaklega í ljósi byrjunar tímabilsins.

Það var töluverð mótsögn í því hjá okkur stuðningsmönnum Liverpool að vilja ólm fá Klopp og allt það sem hann stendur fyrir en treysta honum varla fyrir fyrsta sumarglugganum. Liverpool kom út í plús í sumar og var ekki að kaupa stærstu stjörnurnar, áfram lykilmenn liða eins og Newcastle og Southamton í bland við menn á frjálsri sölu. Klopp hinsvegar var ekki að vinna öðruvísi en hann er vanur og lagði mun meiri áherslu á mikilvægi þess að þjálfa þá leikmenn sem hann hafði fyrir. Sem dæmi keypti Dortmund engan frægan leikmann og ekki einn leikmann á meira en £5m fyrstu fjögur ár Klopp í starfi. Hann náði engu að síður að byggja upp nýtt lið nánast frá grunni og vinna tvo titla, liðið fór svo í úrslit Meistaradeildarinnar á fimmta ári hans í starfi.

Hjá Liverpool höfum við dregið nánast allar hans ákvarðanir í efa til að byrja með. Henderson er ekki varnartengiliður, Lallana er alls ekki nógu góður á miðjuna og Milner sem vinstri bakvörður varð til þess að þetta tímabil var bara að miklu leiti afskrifað í sumar.

Því langar mig að taka stöðuna aftur hvað þetta varðar og bera okkar menn saman við hin topplið deildarinnar. Taka þetta stöðu fyrir stöðu eins mikið og hægt er.

Fyrir það fyrsta þá er deildin hreint ótrúlega jöfn þetta árið en aðeins tvö stig skilja efstu sjö liðin af í stigasöfnun það sem af er árinu 2016 þegar 30 umferðir eru búnar.

Liverpool er efst á markatölu og búið að skora langmest sem gefur ansi góð fyrirheit því margir af þessum 19 leikjum (á síðasta tímabili) voru í mjög meiðslahrjáðu liði í svakalegu leikjaálagi. Að horfa bara á árið 2016 er auðvitað jafn random mælikvarði og hver annar en þetta sýnir aðeins að Liverpool hefur verið í hörku samkeppni við toppliðin lengur en bara sl. 11 umferðir.

Samanburður á toppliðunum

Til bera liðin saman setti ég saman bestu byrjunarlið allra toppliðanna. Þetta er miðað í bland við spilaðar mínútur það sem af er þessu tímabili og ef allir væru heilir. Eins reyni ég aðeins að miða við það sem stjórinn leggur upp með. Chelsea er sérstaklega erfitt þar upp á stöðu fyrir stöðu samanburð. Ekki taka þetta of hátíðlega, það er ekki lengur til neitt 11 manna byrjunarlið fyrir 38 leiki en þetta er grunnur til að byggja svona samanburð á.

Svona myndi ég skjóta á þetta eins og staðan er núna.
11-umferdir-oll-lid
(Hægt að stækka myndina með því að smella á hana)

Markmenn

De Gea er besti markmaður deildarinnar að mínu mati en United lekur alveg mörkum eins og önnur lið þegar varnarleikurinn er ekki í lagi. Karius hefur spilað sex leiki og fengið á sig jafn mörg mörk. Það er ekkert hræðilegt í liði sem skorar 2,72 mörk að meðaltali í leik. Tottenham með Lloris og Vorm í markinu hefur byrjað langbest í vetur og aðeins fengið á sig 6 mörk en á móti hafa þeir aðeins skorað 15 mörk. Frá áramótum hefur Liverpool fengið á sig 1,3 mörk að meðaltali í leik og það er eins núna eftir 11 umferðir. Þetta hefur lækkað niður í eitt mark í leik eftir að Karius kom í markið og ég hef mikla trú á því að batni ennfrekar eftir því sem liður á mótið.

Karius er klárlega lægst skrifaður í hópi markmanna toppliðanna en þessi staða er að mínu mati ekki nærri jafn mikill veikleiki núna og undanfarin ár. (Miklu betri varnarleikur því líklega meira að þakka en nýjum markmanni).

Hægri bakverðir

Clyne stenst klárlega samanburð við alla bakverði deildarinnar og þessi staða er ekkert veikari hjá Liverpool en öðrum. Af þessu hópi myndi ég aðeins taka Hector Bellerin framyfir Clyne. Það er hinsvegar betri breidd í þessari stöðu hjá hinum liðunum.

Chelsea skekkir auðvitað myndina með 3-4-3 kerfi sínu en hlutverk Moses og Clyne er ekkert svo ósvipað. Hjá United veit ég ekki hvort Darmian eða Valencia eru hærra skrifaðir. Walker og Clyne eru svo í harðri baráttu um þessa stöðu í landsliðinu og eru svipaðir að mörgu leiti. Hjá City er mikil reynsla í Sagna og Zabaleta en ég efast um að þeir lifi lengi hjá Guardiola.

Vinstri bakverðir

Fyrir tímabilið tók ég þessa stöðu fyrir og bar saman úrvalið hjá Liverpool við hin liðin. Var reyndar með Moreno fyrir framan Milner en niðurstaðan er að þessi staða er ekkert svo vel mönnuð hjá hinum liðunum heldur. Liverpool hefur gengið mjög illa að manna þessa stöðu í 30 ár og svei mér þá ef James Milner er ekki að stimpla sig inn sem besti vinstri bakvörður Liverpool síðan ca. 1990. Það sem af er þessu tímabili stenst hann svo sannarlega samanburð við hina vinstri bakverði deildarinnar.

Alonso hjá Chelsea kemur reyndar mjög vel út en hann hefur líka þrjá miðverði fyrir aftan sig og Matic og Kanté að sópa ofan á það. Monreal er líklega bestur í deildinni en þetta er ákaflega jafnt milli liða og gríðarlega langt frá dómsdagsspám margra fyrir mót. Alberto Moreno er svo ekkert verra back-up en önnur lið hafa á að skipa í þessari stöðu.

Miðverðir

Matip og Lovren hafa aðeins spilað saman í sex deildarleikjum en samstarf þeirra lofar góðu. Eftir fyrstu tvo leikina hefur varnarleikur Liverpool verið á batavegi og fær liðið nánast eingöngu á sig mörk úr föstum leikatriðum, slíkt slípast vonandi betur er líður á tímabilið. Haldist þetta miðvarðapar saman í rúmlega 30 deildarleikjum sem er alveg raunhæf tölfræði er það gríðarlega bæting á þessari stöðu frá síðasta tímabili þegar sama parið spilaði nánast aldrei marga leiki í röð.

United keypti gríðarlega góðan miðvörð í Bailly en ég veit ekki hver myndar miðvarðaparið með honum. Blind, Smalling og Rojo hafa allir spilað þarna. Mourinho mun laga þetta enda vernda lið Mourinho jafnan miðverðina mjög vel. Man City hefur verið án fyrirliða síns allt mótið og eru líklega farnir að hugsa í framtíðarlausn fyrir hann. Stones og Otamendi eru góðir leikmenn en þrátt fyrir verðmiðann á þeim tæki ég frekar Lovren og Matip. Leikkerfið hjá Chelsea er frábært fyrir miðverðina enda mikil vernd í kringum þá en Luiz og Cahill eru ekkert skárri en okkar par. Tottenham og Arsenal eru líklega hvað best sett í þessari stöðu í deildinni. Sérstaklega Tottenham sem má líka hvað síst við meiðslum.

Varnartengiliðir

Það að færa sóknarþenkjandi leikmenn með mikla hlaupagetu einni línu aftar í gegnum allt liðið er líklega stærsta ástæðan fyrir stökkbreytingu á leiktíl og holningu liðsins. Það hefur háð Henderson að skora ekki nóg af miðjunni og með því að færa hann einni línu aftar er Klopp að finna handa honum hlutverk sem smellpassar. Þetta er líklega mikilvægasta breyting á liði Liverpool milli tímabila samhliða því að hann virðist hafa náð sér af meiðslunum. Það hefur ekki heyrst píp um leiðtogahæfileika hans í ansi langan tíma. Varnarlega er Henderson ekki jafn góður og flestir varnartengiliðir hinna toppliðanna en á móti taka fáir úr þeim hópi jafn mikið þátt í sóknarleiknum. Ekki það að Henderson sé lélegur varnarlega, liðið fær eins og áður segir varla á sig mark nema úr föstum leikatriðum.

Frekar vill ég hafa spilandi varnartengilið og lið sem skorar 30 mörk en fær á sig 15 heldur en að hafa ryksugu sem gerir ekkert fram á við í liði sem skorar 20 mörk og fær á sig 5. Þetta er algjör viðsnúningur á skoðun minni 2008/09 enda aðstæður allt aðrar. Fótbolti er búinn að breytast á þessum áratug sóknarliðunum í vil, mikið til þökk sé mönnum eins og Guardiola og Klopp.

Varnartengiliður er lykilstaða í öllum liðum og eðlilega vel mönnuð hjá öllum toppliðunum. Chelsea liðið er ógnvekjandi með Kanté og Matic þarna en gætu lent í vandræðum í einhverjum leikjum þegar sóknartríóið á off dag, sé hvorugan þeirra skora álíka mark og Henderson gerði á Stamford Bridge. Leikkerfi Chelsea krefst engu að síður alvöru varnartengiliða. United er gríðarlega vel mannað þarna á pappír en Mourinho er engu nær hver sé hans besti kostur í þessari stöðu. United menn segja allir í kór Carrick enda leikmaður sem getur stjórnað tempói leikja. Persónulega skil ég ekki stöðu Morgan Schneiderlin (og Bastian Schweinsteiger) sem komast ekki einu sinni í hóp. Megi þeir spila Fellaini þarna sem oftast.

Þessi staða hefur lengi verið veikleiki hjá Arsenal en kaup á Xhaka eru til að bæta fyrir það. Wanyama er að koma sterkur inn í lið Tottenham sem var vel mannað þarna fyrir með Eric Dier. Fernandinho hjá City er svo líklega einn vanmetnasti leikmaður deildarinnar en það er spurning hvort hann hafi úthald í allt tímabilið, hann er 31 árs gamall og spilar alla leiki í deild og flesta í Evrópu. Fernando, Delph og Toure hafa lítið sem ekkert spilað það sem af er vetri.

Henderson eins og hann hefur byrjað þetta tímabil stenst léttilega samanburð við þennan hóp en auðvitað eru allt öðruvísi áherslur milli liða. Það er samt ekki alveg hægt að festa þessa stöðu bara á Henderson, ef hann fer fram þá bíður annarhvor hinna miðjumannana og þetta gerist endalaust í hverjum leik.

Miðjumenn

Ef færslan á Henderson var lykilatriði þá var breyting á hlutverki Lallana jafnvel ennþá mikilvægari. Hefur Liverpool átt meira skapandi miðjumann á þessari öld? Hann er með þrjár stoðsendingar og fimm mörk það sem af er móti og það segir ekki hálfa söguna. Lallana tekur þátt í flestum mörkum liðsins á einhverju sigi og er ofan á það frábær varnarlega í pressuvörn. Ég þori léttilega að fullyrða að það hefur enginn miðjumaður spilað betur það sem af er móti. Wijnaldum og Can eru meira í skítverkinum en litlu minna mikilvægir sama hvor spilar.

Næstur á eftir Lallana er klárlega Özil og væntanlega myndu Arsenal menn setja hann efstan. Hann hinsvegar hefur ekki komið að eins mörgum mörkum það sem af er og varnarlega tæki ég Lallana frekar. Cazorla hefur ekki spilað nema rétt rúmlega 60% af mótinu en í honum á Arsenal annan frábæran miðjumann. Hjá City er David Silva aftur að koma gríðarlega flottur inn undir stjórn Guardiola. Miðjan hjá City er svakaleg og gæti orðið ansi góð núna þegar Gundogan er að koma inn. Dele Alli er aðalmaðurinn á miðjunni hjá Spurs með Dier en þeir eiga Mousa Dembélé og Moussa Sissoko nánast alveg inni. United er svo líklega best mannað á pappír, m.a. með dýrasta leikmann í heimi í sínum röðum en það gefur ekki nóg þegar holningin á liðinu er úr takti. Fjarveru Mkhitaryan skil ég ekki.

Chelsea er erfitt í samanburði enda að spila allt öðruvísi. Hlutverk þeirra miðjumanna er allt öðruvísi en miðjumanna Liverpool en þeir eru að leysa það gríðarlega vel.

Vinstri vængur

Hér spila þrír af bestu leikmönnum deildarinnar eins og ég legg þetta upp. Vonandi er ekki til sá Liverpool maður sem myndi ekki velja Coutinho besta leikmann deildarinnar eftir þessar fyrstu 11 umferðir. Hann er með 5 mörk, 5 stoðsendingar og er arkitektin af endalaust mörgum sóknum Liverpool. Varnarlega er hann líka að stórbæta sig í leikkerfi Klopp. Man City menn geta hinsvegar einnig gert sterkt tilkall líka með Kevin De Bruyne, klárt mál að þetta er að verða algjör háklassa leikmaður. Hvort rétt sé að setja hann á vinstri vænginn eða í holuna skiptir ekki öllu. Chelsea getur svo líklega gert ennþá sterkara tilkall með Edin Hazard sem svo sannarlega er kominn aftur í gang undir stjórn Conte. Hann hefur verið frábær það sem af er og skorað sjö mörk og lagt upp eitt. Chelsea sækir ekki á eins mörgum mönnum og Liverpool og City og er Hazard því líklega mikilvægari fyrir Chelsea en Coutinho og KDB eru hjá sínum liðum. Allir eru þeir að spila á pari við þá allra bestu í boltanum.

Son hjá Tottenham hefur verið mjög góður einnig. Iwobi er að eigna sér þessa stöðu hjá Arsenal og hjá United veit ég ekkert hver spilar á vinstri vængnum. Rashford skv. Whoscored.com en Mourinho hefur verið að reyna fá hraða í liðið í gegnum þessa stöðu með Rashford, Martial eða Lingard.

Hægri vængur

Það góða við Mané er að ég held að við höfum aðeins fengið að sjá sýnishorn af því sem hann getur. Leikmaður í þessum gæðaflokki og með þennan hraða í kringum Coutino, Lallana og Firmino er veisla eins og við erum að sjá í hverjum leik og hann á nóg inni. Eftir þessar fyrstu 11 umferðir myndi ég ekki skipta við neitt lið á okkar hægri kantmanni. Nærtækast er að bera hann saman við Sterling hjá Man City, hype í kringum Sterling er að svona 75% leiti vegna þess að hann er enskur, hann er að byrja þetta tímabil vel og hans var alveg saknað síðasta vetur hjá Liverpool en Mané fyllir rúmlega upp í það skarð. Satt að segja held ég að City eigi m.a.s. betri hægri kantmann á bekknum nú þegar í Sané.

Chelsea er með tvo mjög góða kosti í Willan og Pedro og líklega með bestu breiddina í þessari stöðu. Theo Walcott hefur einnig verið frábær hjá Arsenal og sóknarleikur liðsins er allt annar með Sanchez upp á topp. Walcott nýtur góðs af plássinu sem miklu meiri hreyfing í sóknarleiknum er að skila.

Eriksen virðist vera að færast út á kantinn í liði Tottenham eftir að Alli kom til liðsins og ég veit ekki hvort það henti honum eins vel, frábær leikmaður engu að síður. Hjá United hefur Juan Mata óvænt fest sig ágætlega í sessi hjá Mourinho og er eins og vanalega einn af þeirra betri mönnum þegar hann spilar. Afhverju hann er ekki í holunni veit ég hinsvegar ekki.

Sóknarmenn

Þessi staða hefur undanfarin tvö ár orðið til þess að Liverpool hefur ekki komist í Meistaradeildina. Sóknarmenn liðsins hafa ekki spilað nema um 30% eða minna af heildarmínútum í deildinni. Þetta vandamál hefur nú verið leyst svo hressilega að enginn af þremur sóknarmönnum félagsins kemst í byrjunarliðið.

Firmino er minn uppáhaldsleikmaður í liðinu, hann slær Suarez litlu við varnarlega og sóknarlega er hann partur af besta sóknarleik deildarinnar. Hann hefur nú þegar skorað fimm mörk í deildinn, lagt upp þrjú og tekið þátt í mun fleiri mörkum. Höfum í huga að enginn af sóknarmönnum Liverpool hefur ennþá tekið víti.

Besti sóknarmaður deildarinnar spilar hinsvegar fyrir Man City og er nú þegar kominn með átta mörk og hefur spilað 75% leikja City. City myndi finna fyrir fjarveru hans svipað og Liverpool saknaði Sturridge undanfarin tvö tímabil. Kelechi Iheanacho er gríðarlegt efni og með fáránlega gott record m.v. aldur, en City má mjög illa með meiðslum hjá Aguero.

Heitasti framherji deildarinnar er hinsvegar Diego Costa, eitthvað sem vonandi helst ekki mótið á enda. Hann spilar alla leiki Chelsea og hefur verið frábær. Skorað níu mörk og er með þrjár stoðsendingar. Sóknarmenn blómstra oft í þessu 3-4-3 kerfi og Costa passar gríðarlega vel sem fremsti maður í þetta leikkerfi Chelsea. Ef Costa meiðist eiga Chelsea Michy Batshuayi á bekknum, hann er alvöru back-up ef á þarf að halda.

Zlatan kom svo loksins í deildina og byrjaði með látum. United hætti að vinna leiki í beinu framhaldi af því að Zlatan hætti að skora en byrjaði á því aftur um helgina enda skoraði Zlatan tvö mörk. Þennan má aldrei vanmeta, sérstaklega mikilvægur gegn minni liðunum. Breiddin er svo ágæt með Rashford, Martial og Rooney.

Harry Kane spilaði alla leiki Tottenham í fyrra, hann hefur núna spilað 50% af leikjum liðsins og þeir hafa nú þegar skorað helmingi færri mörk en Liverpool. Aðrir hafa svosem stigið upp hjá þeim en þetta sýnir enn og aftur hvað þessi staða hefur verið mikið vandamál hjá Liverpool þar til núna.

Alexis Sanhez hjá Arsenal hefur svo ekki verið ósvipaður Firmino og byrjað þetta mót með miklum látum. Hann er miklu miklu betri en Giroud og stórbætir allan sóknarleik Arsenal sem fremsti maður. Briddin er svo góð hjá Arsenal með mann eins og Giroud á bekknum.

Hér eru öll liðin gríðarlega vel mönnuð og meiðsli hjá þessum mönnum getur einfaldlega skorið úr um tímabilið. Ótrúlegt en satt er Liverpool líklega með langbestu breiddina og alveg klárlega með titilbaráttu sóknarmenn. Það munar heldur betur um það þegar þeir spila meira en 30% af deildarleikjum Liverpool.

Stjórar

Það var vitað fyrir mót að deildin væri allt í einu uppfull af heimsklassa stjórum og byrja þeir allir með látum fyrir utan kannski Mourinho.

Klopp er að koma með gríðarlega ferskan anda inn í ensku úrvalsdeildina og minnir í raun á það þegar hann kom inn í Þýska boltann. Við vorum ekki í eins góðum sætum á þeirri sýningu en skiljum núna mjög vel hvers vegna hann sló svona hressilega í gegn þar. Liverpool er komið með leikkerfi sem allir leikmenn liðsins skilja, þeir leikmenn sem hann er að nota hafa allir stórbætt sig undir stjórn Klopp og minnir það sem hann er að gera hjá Liverpool mjög mikið á það sem hann var að gera á svipuðu stigi með Dortmund. Bara fyrir þetta tímabil voru miklar efasemdir um Matip, Henderson sem vartengilið, Lallana sem miðjumann og hvað þá Milner sem vinstri bakvörð. Til að draga þetta saman þá hefur Klopp notað leikina frekar en blaðamannafundina til þess að segja stórum hluta stuðningsmanna Liverpool að grjóthalda kjafti, hætta að væla og styðja þetta lið.

Chelsea er augljóslega einnig komið með heimsklassa stjóra sem er að ná því út úr þessum hóp sem Mourinho var að ná fyrir tveimur árum. Leikkerfið sem hann spilar er nýtt hjá toppliði á Englandi og er að svínvirka enn sem komið er. Conte er svipað líflegur á hliðarlínunni og Klopp og gæti orðið gríðarlega vinsæll hjá Chelsea.

Arsenal virðast vera sterkari það sem af er móti en stundum áður en voru svosem með einu stigi meira eftir 11 umferðir á síðasta tímabili og hafa verið í þessari stöðu áður á þessum árstíma. Samkeppnin í deildinni er meiri en oft áður og samkeppnin um efstu fjögur sætin hefur líklega aldrei verið harðari.

Tottenham slapp svakalega vel við meiðsli á síðasta tímabili en er á móti með betri hóp núna. Meistaradeildin er erfiðari og orkufrekari á bestu menn liðsins heldur en Evrópudeildin. Það gæti skipt máli eftir áramót enda sprakk Tottenham undir lok síðasta tímabils.

Man City vann varla leik í október og er samt ennþá í toppbaráttunni. Fyrir tímabil sagði ég að Guardiola gæti alveg lent á veggjum til að byrja með í Englandi og það held ég að sé svolítið að gerast. Samkeppnin er miklu meiri í Englandi en hann hefur upplifað áður sem stjóri. Hann mun vinna deildina eða Meistaradeildina með City á næstu 2-3 árum en það þarf ekki endilega að takast í ár. Byrjun City í haust var ógnvænleg en vonandi hiksta þeir áfram út tímabilið eins og þeir hafa verið að gera undanfarið. City hefur ekkert verið að glíma sérstaklega mikið við meiðsli t.a.m. sem gæti farið að hrjá þá meira eftir því sem leikjaálagið eykst.

Man Utd var fyrir mót á leiðinni í tveggja hesta kapphlaup við Man City, nánast engin önnur lið komu til greina. Mourinho virkar sannarlega í vandræðum það sem af er móti og sérstaklega ef skoðað er árangur hans frá byrjun síðasta tímabils. United er að ná 1,64 stigi að meðaltali í leik og er átta stigum frá toppnum nú þegar með fimm mjög góð lið fyrir ofan sig. Liverpool var ekki ekki í betri stöðu þegar fyrsta landsleikjapásan skall á þannig að þetta getur ennþá breyst mjög hratt, en öfugt við okkar menn er ekki margt í leik United sem gefur til kynna að Mourinho snúi þessu svo svakalega við á næstunni að liðið verði í titilbaráttu.

Á móti kemur var verið að kjósa Donald Trump forseta Bandaríkjanna þannig að annað eins hefur nú gerst.

14 Comments

  1. Frábær pistill Einar og er ég sammála flestu í þinni greiningu. Eitt hnaut ég þó um sem ég fæ engan botn í 🙂

    “United er svo líklega best mannað á pappír…”

    Þetta er sagt undir liðnum “Miðjumenn”. Held að það geti fáir tekið undir þetta hjá þér nema kannski staurblindir Man.Utd stuðningsmenn. Pogba, Carrick, Fellaini, Herrera, Lingard??? Hvar, hvernig, hví?

    En eins og þú segir þarna, þá er þessi markaskorunarárangur okkar manna magnaður, þegar horft er til þess að það sé enginn eiginlegur framherji í liðinu, öfugt við okkar helstu keppinauta.

  2. Aðallega á forsendum sumarkaupanna Steini, Pogba og Mkhitaryan var fyrir tímabil svo öflugt (á pappír) að United var pottþétt að fara í tveggja hesta baráttu við City um titilinn. Auk þeirra eru sterkir miðjumenn hjá United.

  3. OK, þú meinar, Mkhitaryan flokkaðist í mínum huga aldrei í flokk miðjumanna, ekki frekar en Coutinho, Hazard, Firmino, Mata, Alexis etc. Af þeim sökum var ég fullkomlega ósammála þessari setningu.

  4. Sælir félagar

    Takk fyrir þennan pistil Einar hann styttir manni lendsleikjahléið sem er alltaf leiðinlegt og þó sérstaklega núna þegar lið’ið okkar er að spila svona vel. Ég tek undir með SSteini þegar hann er ósammála þér um miðjuna. Það er líka vegna þess að ég get bara ekki samþykkt að neitt sé betra hjá MU en okkur og stjórinn þar er þar að auki sá sem ég hefi minnst álit á allra stjóra í universinu.

    Það er nú þannig

    YNWA

  5. Coutinho var ad neggla einn óverjandi á móti Argentínu í nótt. Ég er hræddur um að allt verði vitlaust ef kanarnir selja hann í sumar.
    En takk fyrir pistilinn Einar Mattias,ég hef gaman af ad lesa pistlana þína og það er greinilegt að þú leggur mikla vinnu í þetta.

  6. Eins og Rodgers var nú gagnrýndur fyrir sín kaup og flestir taldir handónýtir að þá er staðreyndin sú að í þessu “usual starting eleven” hjá okkur eru 7 leikmenn frá Rodgers! Þar af eru 3 af þessum 4 leikmönnum sem skipa einhverja hættulegustu framlínu í evrópu. Það er hægt að segja ýmislegt um Rodgers en eftir standa leikmenn sem hafa verið stórkostlegir síðustu mánuði.

  7. Afhverju ætti Coutinho að vilja fara frá Liverpool eins og menn hræðast.
    Er eitthvað lið í heiminum sem er meira spennandi en Liverpool um þessar mundir?
    Liverpool spilar skemmtilegasta boltann og ekkert nema meiri uppbygging framundan.

    er eitthvað lið sem hentar Couthinho betur?

    það held ég ekki.

  8. Flottur pistill þetta og nauðsynlegt að fara yfir stöðuna á þessum tímapunkti. Rak augun í þetta hjá hjá þér Einar ,,Hjá Liverpool höfum við dregið nánast allar hans ákvarðanir í efa til að byrja með. Henderson er ekki varnartengiliður, Lallana er alls ekki nógu góður á miðjuna og Milner sem vinstri bakvörður varð til þess að þetta tímabil var bara að miklu leiti afskrifað í sumar.” Hveriir voru að gera það aðrir en þeir sem eru svartsýnir að upplagi. Ég benti á það margoft í athugasemdum á kop.is m.a. í fyrravetur að liðið væri hörkugott. Taktarnir sem liðið sýndi síðasta vetur, í sínum bestu leikjum, voru alveg sambærilegir við það sem er nú í vetur. Nú er þar að auki komið meira jafnvægi á liðið og það á fleiri góða leiki. Vandamálið með lekann í vörninni hefur skánað þó ekki sé búið að stoppa skítamörkin sem liðið virðist alltaf þurfa að fá á sig með reglulegu millibili. Grunnurinn var lagður síðasta vetur m.a. til að átta sig á því hvaða leikmenn hentuðu best fyrir liðið og hverjir máttu fara. Gleymum því ekki að síðasta vetur var liðið þjakað af meiðslum svo varla náðist nokkurn tímann að stilla upp besta mögulega liði. Nú er miklu betri staða á þeim málum og færri leikir. Það sem kemur mér helst á óvart nú í vetur er að Liverpool skuli ekki vera með meiri forystu í deildinni.

  9. Er einhver hérna sem veit fyrir víst hvad Couthinho er med mörg ár eftir af samningnum sínum hjá okkur ?

  10. Nr 6 pistlar hjá meistarnum virka einfaldir en maður vill oft fá þá í hljóðvarpi vegna þess að það er betra að hlusta en lesa á leið austur.
    Nr 7 Einar getur pottþétt Greint hverja hver kaupti hvern sem hefur komið til okkar cirka en Klopp breytti trúnni einsog SSteini hefur margoft minnst á fótboltamenn sem eru góðir kunna að hjóla OG gleyma því ekki. Klopp hlýtur að vera með sálfræði próf. Norman one er búinn að gera salat.

Kop.is Podcast #127 – Long may it Coutinho

Af hverju ekki?