Michael Edwards hækkaður í tign hjá Liverpool.

Líklega vita fæstir hver í fjandanum Michael Edwards er en ráðning hans í þetta hlutverk eru stærri fréttir en margir gera sér líklega grein fyrir. Eins er þetta ráðning mjög í anda FSG.

Án þess að vilja hræða neinn er Edwards líklega einhver sem við getum flokkað sem lykilmann í hinni svokölluðu transfer committie hjá Liverpool og einhver sem Brendan Rodgers hélt ekki mikið uppá. Edwards er Moneyball maður FSG hjá Liverpool.

Ian Ayre tilkynnti í vor að hann myndi hætta sem framkvæmdastjóri (CEO) Liverpool eftir þetta tímabil. Hann er í dag æðsti stjórnandi félagsins í Liverpool borg og sá af toppunum sem lengst hefur starfað fyrir félagið. FSG hefur frá upphafi ekki farið leynt með að þeir vilja hafa strúktúrinn öðruvísi og líklega erum við í kvöld að sjá ástæðu þess að Ian Ayre er að hætta. FSG ætla í það módel sem þeir þekkja og hafa núna stjóra (Klopp) sem hefur unnið í slíku módeli. Hann er sagður vera mjög fylgjandi því að ráða Edwards og sér fyrir sér að hann létti mjög undir honum í starfi frekar en að horfa á hann sem ógn. Edwards er talinn hefja störf í nýju hlutverki strax og tekur m.a. við hlutverki Ayre þegar kemur að samningum við leikmenn o.þ.h. Spurning hvort hann geri eitthvað í janúar glugganum. Hann hefur undanfarið ár unnið mjög náið með Ayre og ljóst að FSG var ekkert að taka þessa ákvörðun í dag.

Michael Edwards mun þó ekki beint taka við af Ayre ef ég skil þetta rétt heldur verður hann fyrsti sporting director félagsins á meðan Billy Hogan tekur þá líklega við hinum hluta starfsins af Ian Ayre þegar hann hættir í vor. Hogan er í dag í sama starfi og Ayre var þegar hann kom til Liverpool (commercial director). Þetta eru því líklega töluverðar breytingar innanhúss hjá Liverpool sem við sjáum kannski frekar lítið útávið að öðru leiti en því að Edwards mun verða töluvert í sviðsljósinu í stað Ayre. Edwards er ekki þekktara nafn en svo að það er varla til mynd af honum sem fjölmiðlar geta notað í fréttum af þessari ráðningu. Edwards er hinsvegar miklu meiri fótboltamaður ef svo má segja heldur en Ayre sem er á móti miklu meira viðskiptamaður. Fínt að skilja þessi hlutverk aðeins að hjá Liverpool.

Sporting director verður því innanbúðarmaður eftir allt saman en eftir því sem maður kynnir sér Edwards meira kemur þessi ráðning FSG lítið sem ekkert á óvart. Hann er tölfræðigúru félagsins eða head of technical performance eins og starfsheiti hans er kallað í dag og einn helsti tengiliður FSG við Liverpool. Hann hefur hækkað jafnt og þétt í tign hjá Liverpool.

Edwards er með vinnuaðstöðu sína á æfingasvæði félagsins (Melwood) og er öll greiningarvinna hans teymis mjög tölfræðimiðuð. Hann sendir John W henry og Mike Gordon reglulega skýrslur og hefur í nokkur ár verið einn þeirra helsti tengiliður á Englandi. Hann vinnur eftir hugmyndafræði sem FSG trúir mjög mikið á í rekstri sínum á Boston Red Sox og hefur verið að innleiða hjá Liverpool. Hans rödd er talin hafa mikið vægi þegar kemur að leikmannakaupum og var samband hans og Rodgers mjög erfitt af þessum sökum. Með stöðuhækkun Edwards núna ári eftir brottrekstur Rodgers er ljóst hvorn FSG vildi veðja á.

Transfer committee hjá Liverpool hefur líklega heldur betur fengið uppreisn æru sl. 12 mánuði með Jurgen Klopp við stýrið. Edwards kom á fundi þeirrar nefndar með allar helstu tölfræði upplýsingar um leikmenn sem átti að reyna kaupa og leggur FSG mikið upp úr því að á mark sé tekið á þessum upplýsingum.

Eftir hvern leik sendir hann email á eigendur félagsins þar sem leikurinn er greindur tölfræðilega þar sem sýnt er hvar baráttan var unnin/töpuð. FSG vita kannski ekki mikið um fótbolta en svonalagað taka þeir alvarlega og reyna að bæta það sem ekki er í lagi, sama hvað.

Edwards hefur einnig verið í góðu sambandi við Billy James sem er einn helsti tölfræðigúru Boston Red Sox og risa áhrifavaldur í hafnaboltanum. Billy James sendir FSG einmitt svipaðar upplýsingar eftir leiki Red Sox og Edwards gerir fyrir Liverpool.

Rétt eins og við sáum í Moneyball þá eru leikmenn ekki endilega keyptir út frá frægð og fyrri störfum heldur mun frekar eftir því hvernig þeir falla inn í þá tölfræði sem óskað er eftir að bæta hjá liðinu. Edwards og hans greiningarteymi hjá Liverpool metur sóknarmenn eftir líkum, sköpun færa, sendingarhlutfalli, snertingum inni í teig andstæðinganna o.s.frv. Það er ekki nóg að koma bara af gamla skólanum og kaupa leikmenn þar sem hann hefur skorað fullt af mörkum (annarsstaðar).

Liverpool er ekkert að finna upp hjólið hvað þetta varðar í fótboltanum, flest lið eru farin að vinna meira eins og gert er í Ameríku og hjá Liverpool hafa ungir tölfræðinördar með litla sem enga reynslu af fótbolta verið að taka við sama hlutverki og njósnarar hafa gengt áður. Ef við einföldum þetta (of mikið) þá er að því er virðist mikilvægara að geta greint tölfræði leikmanna rétt heldur en að sjá þá spila, þó auðvitað sé farið fram á bæði. Sem dæmi má nefna að árangur Southamton á leikmannamarkaðnum undanfarin ár byggist að miklu leiti á trausti þeirra á þessar upplýsingar. Þeir skipta ár eftir ár um stjóra og missa sína bestu menn, koma út í gríðarlegum hagnaði á leikmannamarkaðnum en bæta engu að síður árangurinn ár frá ári. Þetta er engin tilviljun og raunar spurning hjá Liverpool að kaupa mikið frekar tölfærðigúrúana þeirra heldur en bestu leikmenn. Tottenham er annað gott dæmi um lið sem hefur gengið vel með því að vinna eftir tölfræðimiðuðu módeli, Edwards kom einmitt þaðan.

Greiningarvinnan sem teymi Edwards vinnur snýr auðvitað ekki bara að leikmannakaupum, mun stærri partur af starfinu er að greina næstu andstæðinga Liverpool og koma með hintmiðaðar skýrslur sem hjálpa þjálfaranum og leikmönnum fyrir næsta leik. Þar er skoðað 10-20 síðustu leiki hjá viðkomandi liðum/leikmönnum og unnið úr þeim upplýsingum. Upplýsingar sem geta skorið úr um jafna leiki. (Eins er þetta mögulega skýring á því afhverju Liverpool kaupir svona oft leikmenn innanlands, það er búið að greina alla þá í spað).

Hver er Michel Edwards
Edwards er 37 ára og hefur verið hjá Liverpool í fimm ár núna.
Hann útskrifaðist frá háskólanum í Sheffield með gráðu business management and informatics áður en hann fór að vinna í fótboltaheiminum. Hann er fæddur í Southamton en spilaði fótbolta (bakvörður) í yngri flokkum fyrir Peterborough United en komst aldrei lengra en í varaliðið. Þegar hann var látin fara þaðan fór hann í háskóla en hélt áfram að spila í neðri deildum.

Hann var yfirmaður leikgreiningarteymis Portsmouth frá 2003-2009 og fór ásamt Harry Redknapp þaðan til Tottenham. Hjá Portsmouth vann hann með upplýsingar frá Prozone eins og flest öll önnur úrvalsdeildarlið fór að gera á þessum tíma.

Hjá Spurs hitti hann Ian Graham hjá fyrirtæki sem heitir Decision Technology og hefur verið verktaki hjá Tottenham undanfarin ár. Fyrirtæki sem sérhæfir sig í gagnasöfnun á tölfræðilegum upplýsingum allsstaðar að í heiminum.

Daniel Levy stjórnarformaður Tottenham greiðir Decision Technology gríðarlegar fjárhæðir á hverju ári fyrir þeirra þjónustu. Tottenham treystir mjög mikið á tölfræðilegar upplýsingar og hefur náð gríðarlega góðum árangur á leikmannamarkaðnum undanfarin ár sem skilar sér í hörku liði sem nú spilar í Meistaradeildinni. Levy hafði mjög mikið álit á Edwards og skapaði nýtt starf fyrir hann hjá Tottenham (head of performance analysis) til að greina þær upplýsingar sem Tottenham fékk frá Decision Technology.

Damien Comolli var hjá Tottenham áður en hann kom til Liverpool með FSG og lagði mikla áherslu á að fá Edwards. Enn eitt dæmi þess að FSG voru eins og flest önnur lið sem Comolli hefur unnið fyrir allt of fljótt að missa þolinmæði á honum. Comolli var sporting director hjá Liverpool sem FSG rak frekar fljótlega lagði hlutverkið tímabundið af þegar Rodgers tók við.

Tottenham bauð Edwards £250,000 í árslaun eftir tvö ár í starfi í London, tilboð sem Liverpool toppaði að beiðni Comolli. Levy var mjög svekktur að missa hann og sýnir þetta kannski aðeins í hvaða metum Edwards er í fótboltaheiminum.

Síðan þá hefur Edwards verið að vaxa innan Liverpool og tengsl hans við FSG eru mjög mikil. Fyrst var starfsheiti Edwards head of analytics – þar sem hann sökkti sér ofan í greiningarvinnu á andstæðingum Liverpool í deildinni. Hans ábyrgð varð meiri þegar Comolli var rekinn 2012 og árið eftir var hann gerður director of technical performance. Hann var svo í ágúst 2015 gerður að technical director. (Læt þessi starfsheiti bara flakka á ensku í stað þess að reyna íslenska þau).

Talið er að honum og Rodgers hafi lent saman sumarið 2014. Rodgers var þá nýbúinn að skrifa undir nýjan samning og rétt búinn að vinna titilinn með Liverpool og var því í nokkuð sterkri stöðu þegar kom að leikmannakaupum og vildi ráða ferðinni sjálfur. Þetta virðist hafa verið aðal togstreitan þegar velt var vöngum yfir ósætti milli Rodgers og transfer committee. Eitthvað sem við höfum velt fyrir okkur í nokkur ár. Þessi togstreita varði ekkert bara sumarið 2014 heldur nánast frá því Rodgers var ráðinn, það sem breyttist 2014 var að Rodgers fékk meira vald en hann hafði haft áður.

Rodgers og Edwards lenti saman og rétt eins og gerðist alltaf hjá Boston Red Sox þá vinnur tölfræðigúrúinn frekar hjá FSG, hann er mikilvægari til lengri tíma en stjórinn. Ekki að við skrifum öll slæm kaup Liverpool á Rodgers og góð á nefndina, alls ekki.

Jurgen Klopp vann undir stjórn sporting director hjá Dortmund og Mainz og hefur oft sagt að honum líki vel að vinna í því módeli. Hann hefur lokasvar þegar kemur að leikmannakaupum en er viljugur að vinna eftir þeim upplýsingum sem menn eins og Edwards veita honum. Hann er sagður vera mjög fylgjandi þessari stöðuhækkun Edwards og það eitt og sér nægir mér.

Það er aldrei staðfest almennilega hver sé á bak við leikmannakaup Liverpool undanfarin ár. Jú þetta er sameiginleg niðurstaða og stjórinn hefur lokasvar en maður veit aldrei hver barðist fyrir því að fá viðkomandi leikmann. Skiptir kannski ekki öllu.

Það vekur engu að síður athygli núna að mjög margir af þeim sem keyptir voru undanfarin sumur hafa sprungið út undir stjórn Klopp á meðan Rodgers náði ekki að bæta leik þeirra að ráði. Tony Barrett segir Edwards hafi haft mikið að segja með leikmannakaup Liverpool í sumar og að menn eins og Roberto Firmino, Divock Origi, Emre Can og Sadio Mane hafi verið keyptir fyrir tilstilli greiningardeildarinnar undanfarin ár á meðan menn eins og Allen, Benteke og Ibe voru seldir strax fyrsta sumarið eftir að Rodgers hætti.

Þetta er pyttur sem ekki er ráðlegt að kafa djúpt ofan í enda erfitt að fá staðfestingu á neinu. Það er hinsvegar gríðarlega mikilvægt að sporting director og stjórinn geti unnið saman og treysti hvor öðrum. Lendi Klopp og Edwards saman líkt og hann og Rodgers gerðu væru það mjög vondar fréttir fyrir Liverpool go ekkert öruggt hvor yrði ofan á hjá FSG. Ekki að það séu miklar áhyggjur enda Klopp mjög fylgjandi ráðningu Edwards og stuðningur Klopp ein helsta ástæða þess að hann tekur starfið að sér.

Það var tilfinning margra að það væri mikið meira spunnið í Liverpool liðið sem Klopp tók við fyrir ári síðan en árangurinn gaf til kynna. Edwards og FSG voru sannarlega á þeirri skoðun og Klopp hefur sagt þetta frá upphafi. Núna ári seinna erum við að horfa upp á miklu verðmætara og betra lið en við vorum með fyrir ári síðan. Samt erum við að mestu að tala um sama kjarna af leikmönnum og þrátt fyrir leikmannakaupin sem gerð voru í sumar kom félagið út í gróða á leikmannamarkaðnum.

FSG hefur byggt upp traust við Edwards frá því fljótlega eftir að þeir keyptu Liverpool og eru með þessu að ráða sína draumategund af sporting director hjá Liverpool, loksins eftir sex ár. Félagið var í þröngri stöðu árið 2012 þegar leitað var að nýjum stjóra og Rodgers neitaði frá fyrsta degi að vinna með sporting director. Ég efast reyndar um að þetta breyti strúktúrnum mjög mikið þegar kemur að leikmannakaupum nema að með ráðningu Edwards eykst klárlega vægi þeirra tölfræðimiðuðu til muna. Eitthvað sem er alls ekki áhyggjuefni með Klopp við stjórnvölin enda Liverpool bara byrjendur í þessari deild í samanburði við Dortmund undir hans stjórn.

FSG vildi strax árið 2011 frá Klopp til Liverpool en áttu ekki séns á honum þá. Þeir hafa því einnig beðið lengi eftir sínum draumastjóra en hafa á meðan lagað rekstur félagsins heilmikið, félagið er hratt að vera vel samkeppnishæft fjárhagslega aftur.

Núna hafa þeir báðar þessar stöður klárar fyrir vonandi næstu fimm ár a.m.k. Hver veit hvert þetta leiðir Liverpool. Það stefnir allavega í mjög spennandi ferðalag.

Að lokum þetta, FSG gerðu 28 ára gamlan Theo Epstein að GM hjá Boston Redx Sox árið 2004 og liðið aflétti bölvun Bambino skömmu síðar. Hann fór til Chicago Cubs fyrir nokkrum árum í sama hlutverk og þeir voru í gær að aflétta 108 ára bölvun sem hvílt hafði á því liði. Þannig að já ég treysti FSG til að vita hvað þeir eru að gera þegar þeir ráða tölfræðigúrúa í lykilstöður hjá sínum liðum. Eftir því sem maður les sig til um Edwards og samband hans við FSG kom í raun enginn annar til greina.

9 Comments

 1. Einar Matthías er toppmaður á kop.is! Bestu þakkir fyrir allan fróðleikinn.

 2. “Án þess að sökkva sér of djúpt í hlutina” en þetta er samt nokkuð vel útskýrt og fróðlegt fyrir okkur, frábært Einar og takk.

 3. Frábær grein og frábærar fréttir, eftir að maður fékk aðeins að sjá hvernig þessi fúndamentalíska breyting á greiningu leikmanna frá því að horfa á þá spila og hvernig þeir standa sig í real live (njósnarar on site) vs. að greina tölfræðina og flokka leikmenn eftir lykiltölum í þeim fræðum (greinandi á bakvið skrifborð) þá sýnist manni þarna vera komið tólið sem getur slegið við þeirri samþjöppun sem hefur átt sér stað á leikmannamarkaðnum þar sem stóru og ríku liðin með sína olíufursta og feitu heildsala á bakvið sig raða inn dýrustu leikmönnunum hjá sér. Í staðinn fyrir að fókusera á þann þátt þá er hægt að ná jafnvel betri árangri með tölfræðigreiningunni eins og dæmin sýna.

  Eitt atriði kemur þó upp í huga minn varðandi þennan frábæra tölfræðiárangur, hvernig eru menn að rýna í tölfræði varðandi markmenn og hvað var það sem varð til þess að Karius var keyptur í sumar? Eins spenntur og ég var fyrir honum í sumar, þá er ég svolítið hugsi yfir frammistöðu hans upp á síðkastið en að sama skapi er ég alveg tilbúinn að skrifa það alfarið á óþolinmæði mína enda yrði ég manna síðastur að kvitta undir fótboltaspeki mína í þessum efnum.

 4. Nr. 4

  Það eru 10 leikir búnir af tímabilinu og Karius hefur ekki einu sinni spilað þá alla? Það verða alveg mistök á leikmannamarkaðnum áfram, að sjálfsögðu en slöppum aðeins af með efasemdir á ungan markmann eftir minna en 10 leiki. Á sömu rökum væri De Gea ekki í marki United núna.

 5. Sælir félagar

  Takk einar fyrir skemmtilega og fróðlega grein. Þetta veitir manni svolitla innsýn í það sem starfsliðið er að gera. Það er ótrúlegur fjöldi starfsmanna á bakvið hvert fótboltalið í atvinnuboltanum og þessi þáttur, tölfræðin hefur verið manni meira og minna hulin. Sem sagt gott.

  Það er nú þannig

  YNWA

 6. þetta er ástæðan fyrir því að maður elskar þessa síðu svona mikið. TAKK!

 7. Það er kanski vottur um bjartsýnina hjá manni fréttir af stöðuhækkunum stjórnenda skútunnar skuli vera athyglisverðir og skemmtileg lesning. Hefur nú frekar verið slúður um brottrekstra sem hafa verið að kitla. En til marks um rétta átt engu að síður.

  Varðandi Karius, eins slakur og menn vilja meina að hann hafi verið. þá er einfaldlega skemmtilegra að horfa á liðið með hann í markinu. Liðið liggur framar og pressar hærra, spilar hraðari bolta og mun fljótara að koma sér í sóknir.

  Er nú ekki með neina tölfræði um þetta. en ég get alveg sýnt ykkur fyrir og eftir myndirnar af nöglunum mínum. Átti erfitt með að fylgjast með liðinu í vörn, ekki endilega af því ég hafði áhyggjur af því að þeir fengju mark á sig. Það var bara svo pínlegt að sjá liðið meða alla til baka reyna að vinna boltann og koma honum fram aftur. Þetta hefur minnkað talsvert með honum.

  Kanski var þetta eitthvað sem tölur á blaði gáfu til kynna, ef svo er þá er ég alla vega sáttur. Auðveldara að kenna shotstopping en yfirýn og leikskilning.

 8. mikið rosalega er eg ánægður að hafa klopp og að móri sé hjá utd. eg treysti móra nokkuð vel til að gera allt ,,vitlaust” hjá þeim. hann er bara útrunninn vara.

Tímabilið búið hjá Danny Ings – aftur!

Liverpool – Watford