Bikarbrölt á Anfield

Það verður nú að segjast alveg eins og er, þessi tilfinning sem maður var með 13/14 tímabilið var frábær. Ég var skíthræddur um að maður myndi ekki fá hana í bráð aftur, en svei mér þá, það er að gerast akkúrat núna. Skemmtilegur fótbolti, hápressa, flinkir leikmenn og skemmtilegasti stjóri í heimi. Svo þegar það detta inn úrslit á úrslit ofan sem henta vel, þá minnkar brosið ekkert mikið. Staðan í deildinni er verulega flott, sér í lagi þegar horft er til að lið Liverpool hefur verið án vafa í erfiðasta prógramminu í upphafi þessa tímabils. En hvað um það, næsti deildarleikur er ekki fyrr en um næstu helgi og það er langt í það. Svo langt að það er meira að segja eitt stykki bikarleikur í millitíðinni og það er einmitt ástæðan fyrir þessari upphitun. Lið Spurs kemur í heimsók á Anfield og því stór og vonandi flottur slagur framundan.

Eitt stig skilur liðin að í deildinni og þau eru bæði með 9 mörk í plús eftir þessa fyrstu 9 leiki í deildinni. Okkar menn eru það lið sem hefur skorað flest mörk í deildinni, en mótherjar okkar eru það lið sem hefur fengið fæst mörk á sig. Sterkasta vörnin að mæta sterkustu sókninni. Það er samt algjörlega ljóst að deildarform flýgur út um gluggann í þessum leik, þar sem það er afar líklegt að bæði lið noti hópinn sinn meira í þessari keppni. Sér í lagi ætti það að eiga við um lið Tottenham þar sem þeir eru á fullu í Meistaradeildinni, á meðan Liverpool liðið er gjörsamlega laust við það.

Þetta Tottenham lið er svo sannarlega að stimpla sig inn sem eitt af stóru liðunum á Englandi. Þeir hafa verið eitt mesta næstuþvíliðið í áratugi, en núna eru þeir búnir að byggja vel upp og eru með flottan hóp á góðum aldri undir stjórn frábærs stjóra. Ég var nefninlega skíthræddur um að Man.Utd myndi næla sér í hann síðasta sumar og gera það þá að verkum að þeir væru að fara inn í nýja blómatíð. En sem betur fer er ekki til nein langtímahugsun þar og njóta Spursarar svo sannarlega góðs af því og héldu þessum frábæra stjóra áfram. Tottenham eru ekki með einhverjar stjörnur í hverri stöðu, nei, langt því frá. Þeir eru bara gott fótboltaLIÐ. Það er að sýna sig svo trekk í trekk að þótt peningar skipti miklu máli í boltanum í dag, þá gera þeir ekkert eitt og sér. Þú getur keypt menn á metfé, en ef viðkomandi leikmaður veit ekki sitt hlutverk og er ekki partur af góðri liðsheild, þá er afar erfitt fyrir viðkomandi að líta vel út og liðið nær ekki takmörkum sínum. Þetta hefur Pocchettino gert alveg lystavel og liðið hans er með gott jafnvægi heilt yfir allan völlinn.

Spurs voru reyndar verulega heppnir með meiðsli á síðasta tímabili og einna helst er hægt að benda á veikleika hjá þeim þegar kemur að breiddinni. Alderweireld og Kane hafa verið meiddir undanfarið, en þeir mega ekki skipta mörgum mönnum út á miðjunni eða í sóknarlínunni þar til kemur að því að þeir þurfi að setja alveg óskrifuð blöð inná í staðinn. Við munum því mjög líklegast sjá mörg kunnugleg andlit frá þeim í þessum leik. Menn eins og Vorm, Davies, Wimmer, Trippier, Carroll og Janssen gætu fengið tækifæri á að sýna sig og sanna. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Pocchettino kemur til með að leggja þetta upp, þ.e. hversu mörgum leikmönnum úr sínu besta byrjunarliði hann fórnar í leikinn.

En hvað þá með Klopp? Það er ekki eins og að lið Liverpool sé að bugast út af leikjaálagi þessa dagana, yfirleitt vika á milli leikja og þetta er í rauninni eina svona aukakeppnin sem liðið er í. Eiga menn ekki bara að fara all in í hana og ná sér í eitt stykki bikar í febrúar? Það er alveg sjónarmið, get alveg viðurkennt það. Hin hliðin á peningnum snýr svo að hópnum okkar. Ef ekki í þessari keppni, hvenær þá gefur þú leikmönnum sem eru að reyna að banka á dyr byrjunarliðsin, tækifæri? Grujic, Mignolet, Origi, Ings, Moreno, Lucas og Sturridge svo einhverjir séu nefndir. Meiðslalistinn er í sögulegu lágmarki, inniheldur bara Ojo og Gomez, þó þeir væru eflaust að banka á dyr liðsins fyrir svona leik, þá teljast þeir seint til lykilmanna. Jordan Henderson fékk ákveðna söfnunaráráttu fyrir stuttu og ákvað að stunda spjaldasöfnun, en það var samt klókt hjá honum að taka út bannið í deildarbikarnum, það verður að segjast alveg eins og er.

Það er fyrir svona leiki sem er nánast líffræðilega ómögulegt að spá fyrir um byrjunarlið. Það veit enginn nema Klopp sjálfur hvernig hann hyggst leggja þetta upp. Ég er á því að hann muni ekki gera neitt svaðalega miklar breytingar, bara þar sem hann þarf í rauninni ekkert að hvíla menn. Hann hefur þó gefið það út að Simon Mignolet byrji í markinu, en hann hefur líka staðfest það að Karius sé orðinn markvörður númer 1 hjá félaginu (ekki að það hafi ekki verið orðið nokkuð ljóst útfrá valinu undanfarið). Persónulega vil ég ekki sjá miklar breytingar á vörninni, en ég er samt nokkuð viss um að hann geri allavega tvær. Mér finnst líklegt að Moreno komi inn í stað Milner og að Klavan fái séns í miðverði, þá líklegast á kostnað Lovren. Á miðjunni verður enginn Hendo og á ég von á að Can haldi sinni stöðu, reynt að spila honum í sitt besta form. Ég á von á því að það verði Lucas sem komi inn sem aftasti miðjumaður í stað Hendo og verði með þeim Can og Lallana á miðjunni. Annar möguleiki væri að setja Grujic inn fyrir Lallana, en ég á síður von á því. Persónulega væri ég svo til í að sjá Ings í einni af þessu stöðum fremst á vellinum, en ég á ekki von á miklum breytingum á þessum fremstu mönnum. Ég ætla sem sagt að spá liðinu svona:

Mignolet

Clyne – Matip – Klavan – Moreno

Lallana – Lucas – Can

Mané – Sturridge – Coutinho

Líklegast alveg langt frá því að vera rétt gisk, en auðvitað er þetta bara akkúrat það, gisk. Stóra málið verður að halda áfram að halda lykilmönnum heilum og að liðið haldi áfram á þessari braut sinni. Það er bara orðið svo fjandi skemmtilegt að horfa á þetta lið spila fótbolta að maður getur vart beðið eftir næsta leik. Að sjálfsögðu hrynja himnarnir ekkert yfir okkur ef við dettum út úr þessari keppni, að sama skapi þá tapa menn sér ekkert í gleðinni yfir sigri. Ég fer þó ekki ofan af því að lið fara einfaldlega ekki í svona keppni nema með eitt markmið. Að vinna hana. Mikið suddalega yrði þetta stórt og fínt skref í þá átt, þ.e. að komast áfram í keppninni. Við skulum ekki gleyma því að sigurvegarinn í þessum leik er kominn í 8 liða úrslit keppninnar. Það er ekki langur vegur eftir og það er sama hvað bikarinn heitir, það er alltaf gaman að vinna keppnir og þó þessi sé ekki sú stærsta, þá hefur hún skilað okkur mörgum ánægjustundum í gegnum söguna.

Ég ætla að spá því að við sigrum þennan leik, 2-1 eftir framlengingu. Sturridge heldur áfram að setja hann í þessari keppni og Lallana setur hitt markið. Löngunin hjá mér er allavega mikil á að liðið komi sér enn og aftur í leik á Anfield South.

21 Comments

 1. Ég elska þessa síðu, og ég elska ykkur. Eruð algjörir snillingar! Allir pistlarnir og upphitanirnar gera daginn!
  Spái að þetta fari í vítaspyrnukeppni eftir 2-2 jafntefli. Mignolet ver tvö stykki víti og Daniel Sturridge skorar úr síðasta vítinu.
  Heyrðuð það fyrst hér!

 2. Frábær upphitun en ég býst fastlega við róttækari breytingum á byrjunarliðinu en skýrsluhöfundur gerir. Er nokkuð viss um að t.d. Coutinho og Clyne verði hvíldir. Einnig býst ég við að Mane verði hvíldur.

  Það eru orðrómur um að Spurs muni nánast hvíla allt byrjunarliðið sitt á móti okkur, enda eru þeir að spila 3 leikinn sinn á 7 dögum.

  Þetta verður áhugavert.

 3. Sæl og blessuð.

  Best að hafa Coutinho á bekknum. Hann kemur inn á ef allt er að fara á versta veg. Ings vil ég sjá í sókninni. Fáum ein dýrvitlausan sem hleypur úr sér lungu og bris. Spursararnir fara í þetta með hangandi hendi. Erum eð ærinn starfa í sínu puði og verða bara hálffegnir ef þeir losna við að halda áfram í þessari keppni.

  En hvernig er það – á ekkert að gera í olnbogabarninu, honum Sissoko? Menn hafa nú fengið bann fyrir minna:

  http://www.bbc.co.uk/sport/football/37749695

 4. Sælir félagar

  Takk fyrir skemmtilega upphitun SSteinn enda er allt skemmtilegt hjá okkur pullurum í dag. Ég spái ennþá róttækari breytingum en SSteinn. Klavan og Sakho í miðverði og Moreno í vinstri Ég sé 4-4-2 með Ings og Sturridge uppi á topp og miðjan eins og SSteinn setur hana +1 sem ég veit ekki hver verður og eins með hægri bak veit ekki hver fær spilatíma þar.

  Með þessu fæst alger varaliðskeppni hjá liðunum og verður ansi spennandi framan af en svo raða okkar menn inn mörkum. Það fyrsta kemur á markamínútunni, þeirri 17. og svo áfram og leikurinn endar 5 – 1 og áfram ekkert nema skemmtun og gleði. Nú ef ekki þá gerir það ekkert til. Við munum samt skemmta okkur alveg prýðilega.

  Það er nú þannig

  YNWA

 5. Mignolet
  Clyne, Matip, Ragnar, Moreno
  Can, Lucas, Henderson
  Ings, Origi, Sturridge.

  Sjáið samt hvað þetta lið er sterkt þótt að þarna eru aðeins Clyne, Matip og Henderson frá síðasta leik í liðinu.

  Klopp er sko að rífa þetta lið upp og hann er að gera það með því að bæta þá leikmenn sem fyrr eru hjá liðinu en ekki bara kaupa kaupa.

 6. Henderson er í banni í þessum leik. Vona svo að Clyne fái hvíld líka því það er ekki hægt að spila honum endalaust. Annars spái ég sigri í þessum leik 2-0.

 7. clyne Hendo og Millner spila pottþétt ekki þennan leik, Töframaðurinn og Fimino varla heldur, hugsa að hann haldi miðverjunum Moreno og Gomez i bakverðina miðjan Can Wijnaldum og Grujic eða Steward, væri jafnvel til að sjá Brannagan. sóknin væri svo sjafvalin Sturage, Ings og Origi

 8. Samkvæmt James Pearce voru Danny Ings, Marko Grujic, Kevin Stewart, Ovie Ejaria og Trent Alexander-Arnold ekki með í hóp U23 liðsinsen nýliðna helgi og bendir markt til að Ings og Arnold byrji annað kvöld. Arnold þessi er mjög sprækur hægri bakvörður sem er einungis 18 ára og gefur Cline verðskuldað frí. Sakho spilaði hinsvegar allan leikinn með varaliðinu og er ekki að fara að spila mikið samkvæmt því og hef trú á að hans dagar séu annarsstaðar en í aðalliði Liverpool. Annars trú á sterku liði hjá Klopp og enginn afsláttur gefinn í bikar. Spái 2-0 fyrir okkur. YNWA

 9. goður pistill..

  spái þessu

  migno
  moreno. Raggi. Lucas. Clyne
  Steward. Guric. Wijnaldum
  origi. sturridge. ings

 10. Mjög spennandi leikur í kvöld, rétt eins og allir leikirnir okkar eru. Vona að við munum stilla upp mjög sterku liði með Mignolet, Grujic, Ings, Sturridge og Moreno sem einu breytingarnar í byrjun (Hendo auðvitað í banni og E.Can kemur í staðinn). Svo má nota aðra í síðari hálfleik þegar líður á leikinn.

  Annars hvað er ég að bulla með liðið okkar þegar það er í höndum Herr Jurgens Klopps. Treysti honum 110% til að koma okkur áfram í þessari keppni, hann vill vinna þessa keppni og það viljum við öll!

 11. Spenntur að sjá hvort dýnamíkin sem við erum að sjá hjá byrjunarliðsmönnum sé til staðar hjá þeim 5-6 mönnum sem koma inn í liðið í kvöld.
  Eru Melwood sessionir að skila sér djúpt inn í hópinn?
  Ég hef trú á því og leikurinn í kvöld sýni okkur að breidd liðsheildarinnar er betri en við höldum.
  Það verða því miður meiðsli í vetur en menn eru klárir að koma inn.
  Sigur í skemmtilegum leik.
  YNWA

 12. Spái því að Klopp stilli upp eftirfarandi liði.
  Mignolet
  TAA, Matip/Lucas, Klavan, Moreno
  Stewart, Wijnaldum, Grujic, Ejaria
  Ings, Origi

 13. Buzzing!!!

  Hrikalega er maður spenntur að fá að sjá liðið spila….þetta er æðislegt.

  Klopp hefur staðfest það að Mignolet og Ings spili pottþétt þennan leik.
  Mignolet er orðinn markmaður nr. 2 hjá okkur en Danny Ings er aftarlega í goggunarröðinni.
  Vona innilega að hann komi alveg spólgraður inní þennan leik og setji 2 stk og sýnir að hann er top leikmaður.
  Ég persónulega held að hann sé 100% týpan sem að Klopp vill hafa í liðinu. HAnn er yngri og sneggri útgáfan af Dirk Kuyt og er það ekki leiðinlegur samanburður.

  Ég hef þokkalega góða tilfinningu fyrir þessum leik og hef trú á því að við vinnum hann 4-1 þar sem DIngs setur tvö, Can eitt og Moreno stimplar sig inn með einu undir lokinn. Eigum við ekki að segja að þeir skori eftir hornspyrnu eða aukaspyrni út við hliðarlínu.

  YNWA – In Klopp we trust!

 14. Veit einhver um pöbb í Berlin nálægt Brandenburgarhliðinu sem gæti sýnt fótbolta?

  Takk

 15. Já það er sko gaman að horfa a okkar menn þesda dagana og skemmir ekkert fyrir að sja þriðja leikinn í röð á Tenerife þar sem er mikið af bretum, eg elska Breta og reyndar held eg sé fæddur í rongu landi.. en svo fer maður til Liverpool í næsta mánuði sem verður líka geggjað gaman enda gengur vel hjá okkar mönnum ..

  Vinnum leikinn og vonandi verður stillt upp sterku liði. Ég held að Klopp ætli sér sigur í ollum keppnum og hann mun stilla upp liði i kvold sem hann treystir til að vinna leikinn…

 16. Hæ Poolarar, vitið þið hvort leikurinn sé sýndur á Spot eða Ölveri?

Ó sú náð að eiga Klopp!

Liverpool – Tottenham (dagbók)