Klopp er farinn að spila “Heavy Metal”

Október landsleikjapásan fyrir ári síðan var óvenju spennandi og biðin eftir næsta deildarleik talin í mínútum. Jurgen Klopp var ráðinn stjóri Liverpool og landsleikjahléið fór í það að kynna sér kappann ítarlega og skoða hvað biði hans hjá Liverpool. Þessu velti ég fyrir mér í færslu sem gaman er að lesa núna, margt sem ég spáði þar út frá því sem maður las um hans fyrri störf hefur ræst, sérstaklega núna undanfarnar vikur.

Hlaupið fyrir andstæðinginn
Fyrsta verk hjá bæði Mainz og Dortmund var 120 km takmarkið sem hann setti á fyrstu æfingu. Ef liðið hleypur samanlagt 120 km í leik fá leikmenn aukafrídag vikuna á eftir, því að ef lið hleypur 120 km jafngildir það þvi að spila manni fleiri í flestum tilvikum. Strax frá fyrsta leik var nokkuð ljóst að leikmenn Liverpool fengu sömu skilaboð, liðið hljóp meira í fyrsta leik gegn Tottenham heldur en nokkuð lið hafði hlaupið í leik á því tímabili. Núna eftir heilt undirbúningstímabil sjáum við Liverpool lið koma til leiks sem á klárlega að hlaupa yfir andstæðinga sína.

Leikmannakaup
Það þarf ekki að lesa sig lengi til um Klopp til að átta sig á því að hann er mjög ólíklegur til að kaupa dýrasta leikmann í heimi. Strax í færslunni fyrir ári kom ég inn á að líklega þyrftu stuðningsmenn Liverpool að sýna þolinmæði í sumar þegar stærstu nöfnin væri ekki að koma á Anfield. Liðsheildin er aðalatriði hjá Klopp og hann ekki bara meinar það heldur sýnir það í verki.

Bíðum svo með histeríuna í janúar/sumar þegar leikmannaglugginn opnar. Dortmund liðið sem spilaði til úrslita 2013 kostaði minna samanlagt en Firmino. Samt voru þeir þarna búnir að selja Sahin, Kagawa og Götze.

Hjá Dortmund tók hann strax á fyrsta ári stórar ákvarðanir með því að losa sig við mjög marga leikmenn og þar á meðal voru nokkrar af helstu burðarásum liðsins. Fyrir þá fékk hann ekki eitt alvöru nafn, nokkrir af þeim urðu hinsvegar stór nöfn.

Það var ekki beint beðið með histeríuna í sumar en Klopp var samkvæmur sjálfum sér og keypti fáa en mikilvæga leikmann og spáði ekkert í því hvað þeir heita. Núna strax eftir sjö umferðir er ekkert mál að skilja hvaða hlutverki hverjum og einum af þeim sem komu í sumar er ætlað.

Fyrir ári var vonlaust að skilja hvernig Benteke passaði í leikkerfið eða hvernig Rodgers ætlaði að nota Firmino, dýrustu leikmenn sumarsins. Það að selja Benteke strax eftir 12 mánuði og hvað þá að nánast frysta hann eftir áramót var stór ákvörðun hjá Klopp sem sendir skýr skilaboð til allra leikmanna. Sakho hefur heldur betur fengið skilaboð líka, sama á við um Martin Skrtel, Joe Allen og Jordon Ibe.

Klopp losaði sig við marga leikmenn í sumar sem hann hafði ekki áhuga á að nota og minnir þessi gluggi á það hvernig hann byrjaði ferilinn hjá Dortmund. Kjarninn sem hann mótaði á síðasta tímabili hélt sér hinsvegar. Síðasta tímabil var eitt stórt undirbúningstímabil fyrir Klopp sem gaf honum tækifæri til að meta hópinn áður en haldið var út á leikmannamarkaðinn. Hann er að gera 3-4 breytingar á byrjunarliðinu sem er í það mesta milli ára hjá liðum sem vilja sýna stöðugleika.

Kaup á nýjum markmanni voru líklega efst á blaði, ekki endilega (bara) til að losna við Mignolet heldur upp á samkeppni um stöður. Karius sem er óskrifað blað virkar strax við fyrstu sýn mun betri fótboltamaður en Baktus, hraðari og spilar mun hærra upp á vellinum. Klopp hefur sérhæft sig í að kaupa leikmenn í þessum „frægðarflokki“ og með svipað mikla reynslu af alvöru bolta. Þetta eru þeir leikmenn sem helst verða stjórstjörnur undir hans stjórn.

Joel Matip er öllu þekktari stærð en Klopp var að vinna með á leikmannamarkaðnum fyrstu árin sín hjá Dortmund, hann er bara ekki þekktur meðal þeirra sem horfa bara á enska boltann. Matip er að skipta um lið og deild því hann vill þróast sem leikmaður. Klopp er ekki að hugsa þennan leikmann bara miðað við núverandi getu heldur líka hvað hann getur orðið.

Sadio Mané er nákvæmlega þau leikmannakaup sem Liverpool hefur verið að missa af til Dortmund, Chelsea, Arsenal og jafnvel Tottenham undanfarin ár. Mané er heldur betur tilbúinn í að taka næsta skref á ferlinum og styrkir byrjunarlið Liverpool rosalega. Hann er mest spennandi leikmaður sem Liverpool hefur keypt síðan Luis Suarez kom. Við bara áttuðum okkur ekki alveg á því enda enn einn rándýri leikmaðurinn frá Southamton. Ágætt í því ljósi að hafa í huga að Mané var frábær eftir áramót á síðasta tímabili og Southamton með hann fremstan í flokki var í öðru sæti deildarinnar í seinni umferð tímabilsins með 39 stig. Staðreynd sem líklega kemur mörgum á óvart.

Winjaldum er svo leikmaður sem Klopp hefur líklega vitað af frá því hann var 16 ára og var með öllu ítarlegri skýrslu um hann heldur en bara frá því hann spilað með Newcastle. Það hefur a.m.k. ekki tekið langan tíma að finna hlutverk fyrir hann sem gerir hann að lykilmanni nú þegar.

Sjáum til hvort þetta endist áfram en það er mjög óvanalegt að sjá 3-4 leikmenn byrja af svona krafti hjá nýjum klúbbi. Klopp hefur svo nánast búið til nýja leikmenn úr Milner, Henderson og Lallana enda eru þeir að skila allt öðru hlutverki núna en áður.

Liðsheild
Af öllum þeim leikmönnum sem sprungu út undir stjórn Jurgen Klopp hjá bæði Mainz og Dortmund held ég að fyrir utan Lewandowski hafi enginn þeirra bætt sig að ráði eftir að hann yfirgaf liðin hans Klopp. Sahin, Kagawa og Götze voru allir meðal bestu leikmönnum deildarinnar tímabilið áður en þeir yfirgáfu Dortmund fyrir Real Madríd, Man Utd og FC Bayern en enginn þeirra var nærri því jafn góður hjá þessum liðum og allir hafa þeir skilað sér aftur til Dortmund. Það eitt og sér ætti að gefa okkur risastóra vísbendingu.

Velgengni Dortmund snerist um liðsheildina númer eitt, tvö og þrjú og liðið bætti sig ár frá ári þrátt fyrir að selja alltaf sína bestu menn og kaupa ekki sambærileg gæði (á pappír) í staðin. Dortmund vann sinn fyrsta titil undir stjórn Klopp áður en Reus og Gundogan komu til liðsins og Lewandowski var ekki fastamaður í liðinu það tímabil.

Liverpool er ennþá bara á fyrsta ári Klopp og ljóst að töluvert verk er óunnið ennþá. Hann þarf meira en einn leikmannaglugga til að móta liðið eftir sínum hugmyndum. Engu að síður erum við núna strax á fyrstu umferðum mótsins farin að sjá liðið höndla það að missa lykilmann úr liðinu. Auðvitað ræður ekkert lið við að missa stóran hluta af liðinu í einu, Klopp þekkir það frá bæði Dortmund og Liverpool í fyrra.

Karius, Milner, Matip, Lovren, Lallana, Can, Firmino, Mané, Coutinho og allir sóknarmennirnir hafa nú þegar misst úr a.m.k. einn deildarleik eða meira. Alltaf kemur maður í manns stað nema helst í Burnley leiknum þar sem Mané var sárt saknað. Sá leikur er engu að síður vont dæmi enda margir að slípa sinn leik í stöðum sem þeir þekktu ekki. Milner, Henderson, Lallana, Winjaldum og Sturridge voru þarna allir að spila hlutverk sem þeir hafa ekki haft áður.

Liverpool er áfram viðkvæmt fyrir meiðslum hjá lykilmönnum en ekki nærri því eins mikið og undanfarin ár. Liðsheildin er besti leikmaður Liverpool núna og ætti lestin að haldast ágætlega á sporinu þó skipta þurfi inn mönnum við og við. Er þá verið að meina hvort sem um er að ræða meiðsli leikmanna eða sölur á leikmönnum. Dortmund virtist alltaf finna betri eftirmann þegar þeir seldu sinn besta mann undir stjórn Klopp rétt eins og Liverpool gerði áratugum saman á árum áður.

Undanfarin ár hefur gengið hreint bölvanlega að fylla skarð okkar bestu manna. Stuðningsmenn tala ennþá um skörð eftir leikmenn sem fóru fyrir 4-6 árum. Sem dæmi hefur engin almennilega fyllt skarð Hyypia síðan hann hætti, ekki frekar en skarð Jamie Carragher nokkrum árum síðar. Skarð Pepe Reina fyllist vonandi með Karius því Mignolet hefur ekkert bætt þessa stöðu. Það hefur enginn komist nálægt Alonso og Mascherano heldur. Guð hjálpi okkur í tilviki Gerrard.

Af þessum bestu mönnum liðsins undir lok síðasta áratugar hefur eingöngu tekist að fylla skarð Fernando Torres og það var gert með Luis Suarez.

Til að fylla skarð eins og þessir leikmenn skilja eftir sig þarf að vera til staðar leikskipulag sem er betra en svo að það standi og falli með einum manni. Þetta hefur enganvegin tekist síðan 2009 en núna fyrst trúir maður því. Southamton er gott dæmi, félag sem jafnar sig strax og kemur jafnvel sterkara til leiks þrátt fyrir að skipta ítrekað um stjóra og selja sína bestu leikmenn. Besta dæmið væri samt Dortmund undir stjórn Klopp, þar kom alltaf upp ný stjarna eftir að bestu menn liðsins voru seldir.

Klopp hefur nú þegar fyllt upp í skarðið sem Sterling skildi eftir sig og er á góðri leið með að bæta upp fyrir Suarez leikmann með samblöndu af ógn úr öllum áttum, gerir sama gagn en er ekki jafn viðkvæmt fyrir áföllum.

Sala á bestu mönnum liðsins er engu að síður alls ekki gott framtíðarplan og á endanum bítur það að selja ítrekað sína bestu menn, sérstaklega ef það er til keppinautarins. Liverpool hefur gert allt of mikið af þessu undanfarin ár en stoppar vonandi núna með komu Klopp.

Liðið í dag er reyndar stórstjörnulaust í augnablikinu sem er nánast óþekkt hjá Liverpool. Það var gríðarlegur ótti í mörg ár yfir því hvað tæki við þegar Gerrard myndi hætta og núna eftir að hann fór hefur enginn í raun tekið við keflinu.

Þetta mun samt ekki vara lengi enda eru bestu menn liðsins flestir á frábærum aldri. Sadio Mané, Firmino og Coutinho eru bara 24-25 ára sem er sami aldur og Suarez var á þegar hann kom til Liverpool. Gerrard var 25 ára þegar hann lyfti Meistaradeildarbikarnum. Landsliðsfyrirliðinn Jordan Henderson verður kannski aldrei meðal elítunnar en hann er aðeins 26 ára. Winjaldum er einnig 26 ára og Emre Can er bara 22 ára krakki.

Adam Lallana er 28 ára og líklega á hátindi ferilsins núna, hversu góðir verða Mané, Coutinho og Firmino bæti þeir sig með sama hætti og Lallana sem er 3-4 árum eldri?

Clyne og Matip eru 25 ára og Lovren 27 ára. Milner 30 ára gæti alveg átt 3-4 góð ár inni. Markmennirnir eru bara börn m.v. markmenn almennt.

Líklegastur af öllum til að verða stórstjarna er svo Divock Origi sem er bara 21 árs og kominn með Klopp sem stjóra. Þetta lið verður ekki stórstjörnulaust lengi haldi það áfram að spila eins og liðið hefur verið að gera undanfarið. Eins er hægt að hafa í huga að þetta lið komst í tvo úrslitaleiki á þessu fyrsta tímabili eftir að Gerrard hætti (en vantaði hann mögulega til að vinna þá).

Klopp er í hæsta klassa.
Stórstjarnan í dag er auðvitað Jurgen Klopp og hann sómir sér vel meðal þeirra allra bestu í faginu. Fyrir mér er hann alveg á sama leveli og t.d. Guardiola sem er stærsti bitinn á markaðnum í dag.

Guardiola er líklega það fyrir núverandi þjálfara sem Cruyff var á sínum tíma. Hann innleiddi nýja tegund af fótbolta sem var allt að því ósigrandi í nokkur ár. Það hjálpaði honum vissulega að stjórna liði sem getur fengið hvaða leikmann sem það vill hvenær sem er og innihélt m.a. Lionel Messi öll ár Guardiola, besta leikmann sögunnar.

Stór hluti af Barcelona liði Guardiola var einnig í Spænska landsliðinu sem var ósigrandi á sama tíma spilandi sömu tegund af fótbolta. Tiki-taka.

Tiki-taka var framtíðin í fótbolta árið 2012 og Liverpool réði Brendan Rodgers árið 2012 til að innleiða þessa nýju tegund af fótbolta, hann átti að verða hinn breski Guardiola. Liverpool voru því miður of seinir á tiki-taka vagninn því í Þýskalandi var nýtt tískuorð að taka við og öllu skemmtilegri tegund af fótbolta.

Gegenpressing fótboltinn sem Jugren Klopp innleiddi hjá Dortmund var engu minni bylting heldur en tiki-taka hjá Guardiola. Klopp gerði þetta bara hjá miklu minna liði sem hann tók við í fjárhagsörðugleikum á meðan Guardiola tók við liði sem skipti megninu af öllum sjónvarpstekjunum á Spáni með einu öðru liði.

Hvorugur fann upp hjólið með tiki-taka eða gegenpressing og hvorug leikaðferðin er það eina sem skilur Klopp og Guardiola að frá öðrum stjórum. En það sem þeir boðuðu svínvirkaði í báðum löndum burt séð frá því hvaða nafni því var gefið, svo vel að önnur lið reyndu næstu ár að bregðast við og þróa sinn leik í þessa átt.

Dortmund vann titilinn tvisvar í röð áður en Bayern með öll sín fjárráð náði að keppa við þá. Bayern eins og önnur Þýsk lið þróaði sinn leik meira í átt að því sem Dortmund var að gera og bæði lið slátruðu tiki-taka í undanúrslitum Meistaradeildarinnar vorið 2013.

Dortmund var með Real Madríd liði Mourinho í riðli og vann heimaleikinn en gerði jafntefli á Bernabeu. Liðin mættust svo aftur í undanúrslitum á sama tíma og Bayern fékk Barcelona. Spænsku liðin sem og Spænska landsliðið voru búin að vera svo gott sem ósigrandi í 4 ár og því var það töluvert statement þegar Dortmund vann Real Madríd 4-1 á heimavelli á meðan Bayern rústaði Barcelona 4-0 daginn eftir. Úrslitin voru síst og stór í báðum leikjum. Dortmund tapaði seinni leiknum á meðan Bayern vann 3-0 úti og samanlagt 7-0. Það fögnuðu margir þegar spænska reitarboltanum var sparkað út í hafsauga af þýska þungarokkinu.

Guardiola tók við Bayern í kjölfarið og innleiddi sína tegund af fótbolta í bland við það sem Bayern var að leggja upp með áður. Þeir hafa ekki komist í úrslit Meistaradeildarinnar eins og þeir höfðu gert árin áður en Guardiola tók við en það hjálpaði heilmikið heimafyrir að taka Lewandowski og Götze frá Dortmund til að tryggja yfirráðin þar. Dortmund jafnar sig á slíkum leikmannasölum en þú fyllir ekki slík skörð á einu sumri.

Guardiola tekur enn á ný við ríkasta liði deildarinnar og einum dýrasta leikmannahópnum. Það gefur honum eðlilega töluvert forskot og það er enginn að draga snilli hans sem stjóra í efa. Það má samt alveg horfa í það á sama tíma að það er styttra síðan Klopp innleiddi nýja tegund af fótbolta heldur en Guardiola og það er styttra síðan Þýskaland vann stórmót heldur en Spánn.

Báðir hafa auðvitað þróast heilmikið sem þjálfarar síðan 2012 og leggja að því er virðist leikinn upp á svipaðan hátt núna. Líklega eru þetta þeir stjórar sem hafa verið hvað mest stúderaðir af öðrum þjálfurum á þessum áratug. Þeirra lið byrja tímabilið líka með lang mest spennandi fótboltann á Englandi.

Ekkert af þessu er trygging fyrir því að þeirra aðferðir dugi til að vinna ensku deildina. Mourinho og Wenger hafa báðir unnið hana. Conte er með bæði CV og lið til að vinna hana, ríkjandi meistarar hafa ítalskan stjóra. Kannski er Pochettino næsta stóra nafnið í þjálfaraheiminum.

Hvernig svo sem það er þá er Klopp klárlega í þessum hópi og hann er farinn að sýna af hverju með Liverpool núna 12 mánuðum eftir að hann tók við. Liðið er farið að sýna brot af þessum “Heavy Metal” fótbolta sem Klopp vill sjá sín lið spila.

Það er líka kominn tími til að Liverpool spili slíkan fótbolta á ný.

15 Comments

 1. Það er bara akkúrat engu við þetta að bæta.
  Takk Einar, takk Kop, og takk Klopp.
  Einstök forréttindi að geta gengið að þessari síðu

 2. Sæl og blessuð.

  Þvílík snilld sem þessi pistill er. Ekki amalegt að lesa þetta með morgunkaffinu. Held það verði nú gaman á laugardaginn þegar við heimsækjum Samvinnuhreyfinguna með öllum sínum kalstjörnum.

 3. uh, nei … fáum þá í heimsókn átti það víst að vera. Mournho frá Hriflu mætir og við sendum hann beint á atvinnuskrifstofuna.

 4. Manu leikurinn er nú ekki fyrr en á mánudaginn en það er auka atriði. Leikurinn verður ekkert minna spennandi fyrir því.

  Frábær pistill eins og alltaf Einar Matthías.

 5. Sælir félagar

  Engir stuðningsmenn á Íslandi búa við sömu kjör og stuðningmenn Liverpool. Þessi síða og þessir strákar sem um hana sjá eru einfaldlega í meistaradeildarklassa og þar í efsta sæti. Takk Einar Matthías fyrir þennan pistil. Það er engu við hann að bæta og ekki einu orði ofaukið.

  Það er nú þannig

  YNWA

 6. Lúðvík: þú meinar á mánudaginn, enginn leikur hjá okkur um helgina 🙂

 7. Æ, hvur rækallinn, er það á mánudaginn? Það boðar tvenns konar böl og harm. Hið fyrra er að biðin lengist eftir langþráðri rimmu og hið síðara er auðvitað afspyrnuslakt gengi á þessum tungldögum, hjá okkar liði. Veit ekki hvað veldur en statistíkin hlýtur að vera afleit ef litið er yfir farinn veg.

 8. Ég man ekki eftir liði með Liverpool sem er með svona mikla breidd síðan ég var strákur. Við erum með Can, Origi, Sturridge, á bekknum þegar við erum ekki fullmannaðir. Að þessu leitinu til er Liverpool farið að minna rosalega mikið á gullaldarliðið á níunda áratugnum, þar sem það var liðsheild sem skóp hvern titilinn á fætur öðrum.

 9. best að róa sig i hrósinu. það má gleðjast ef Móri verðu kvaddur i kút a mánudag. Mori mun beita ollum brögðum til að ná i úrslit þannig að best er að biða rólegur.

Opinn þráður – Henderson fyrirliði Englands

Kop.is Podcast #125