Spá kop.is – seinni hluti

Þá er komið að seinni hluta spárinnar okkar og nú um sæti 1 – 10.

Ég sá að kallað var eftir því að sjá útkomuna frá í fyrra, ætla að skoða það aðeins á morgun og sjá hvort eitthvað er á okkur að byggja. Fyrst skulum við sjá hvernig við röðuðum topp tíu!

10.sæti:Stoke 65 stig

Fyrsta liðið á blaðsíðu 1 samkvæmt okkar spá eru lærisveinar Mark Hughes. Hann hefur náð að byggja upp nokkuð sterkt og ágætlega spilandi lið á síðustu árum og virðist ætla að halda því áfram. Joe Allen, Martins Indi og Bony eru góð viðbót í hópinn þeirra og ættu að styrkja þá enn frekar í að losa klúbbinn frá liðum á seinni blaðsíðu deildarinnar. Það mun þó mikið mæða á því að Bony skori því liðið var í smá vandræðum með það á síðustu leiktíð. Ef hann dettur í gír geta Stoke hæglega farið ofar.

9.sæti:West Ham 75 stig

Nýr heimavöllur West Ham á ólympíuleikvangnum gæti orðið breyta. Liðið var í toppslag í fyrra og komst í Evrópudeildin en datt þar nokkuð óvænt út og vildu sumir kenna því um að liðið hefði ekki enn fundið sína ímynd á risavelli, enda svosem verið talið í hóp minni liða London hingað til (sorry Gylfi Orra og fleiri). Það að detta úr Evrópu gæti þó bara hjálpað þeim enda leikmannahópurinn ekki mjög stór og því ágætt að losna undan álaginu sem fylgir í Evrópu en á móti er verið að vinna í ímynd félagsins sem stórlið og Bilic var í alvörunni svekktur að það tókst ekki núna. Ætti að verða þeim enn meiri hvatning. Eiga stórstjörnu í Payet, hans frammistaða getur fleytt liðinu enn ofar, á svipaðar slóðir og það var í fyrra.

8.sæti:Everton 77 stig

Við erum held ég allir jafn svekktir að hafa litla liðið í Liverpoolborg í efri hlutanum. Nýir fjárfestar hafa þó ekki setið auðum höndum, byrjuðu á að sækja spennandi stjóra í Koeman og fylgdu því eftir með kaupum á mönnum sem ættu að nýtast þeim vel, s.s. Ashley Williams, Gueye og Bolasie. Þeir misstu af nokkrum bitum en náðu að halda í Lukaku sem leit ekki út fyrir á tímabili og skipti þá miklu máli. Því miður virkar leikmannahópurinn nokkuð þéttur og öflugur og ef þessi góða byrjun þeirra heldur áfram gæti hér verið lið sem fer enn ofar í töflunni.

7.sæti:Leicester 79 stig

Meistararnir í Leicester (pínu óraunverulegt ennþá) enda í 7.sæti í vetur sem gæti mögulega orðið EL-sæti. Þetta er enn firnasterkt lið sem veit nákvæmlega sína veik- og styrkleika en það mun verða þeim mjög erfitt að dreifa álagi þegar Meistaradeildin hefst, það verður án vafa mikil hindrun fyrir titilvörn þeirra. Vont hjá þeim að missa Kante en jafn frábært þeirra vegna að Vardy og Mahrez völdu að vera áfram. Innkaupin í gluggalok gætu hjálpað þeim en hópurinn er að okkar mati einfaldlega of lítill til að ráða við keppni á mörgum vígstöðvum.

6.sæti:Tottenham 93 stig

Eins og þið sjáið er töluvert bil milli liðanna í 6. og 7.sæti enda erum við allir með sömu liðin alltaf í topp sex en bara ólíka röðun. Tottenham er með hörkuleikmannahóp sem var í titilbaráttu síðasta vor. Þar kom í ljós að það vantaði upp á breiddina hjá þeim, bæði þurftu fleiri að skora en bara Harry Kane og að auki var of létt að skora á þá mörk. Eins og hjá Leicester þá mun þátttaka í Meistaradeildinni spila inní og þó að þeir hafi náð að kaupa inn flotta leikmenn eins og Wanyama, Janssen og Sissoko þá vantar enn uppá að þetta lið sé tilbúið í toppbaráttu ár eftir ár. Til þess þarf að koma til stöðugleiki hjá mönnum eins og Walker, Rose og Alli.

5.sæti:Liverpool 98 stig

Þá er það komið. Liverpool missir af Meistaradeildarsæti en sest rétt utan þess sætis. Við förum um víðan völl, sumir spá 3.sæti (SSteinn,EMK), tveir 5.sæti (MÞJ og ÓHT) og tveir 6.sæti (KAR og EG). Steini og Einar telja að með tilkomu Karius og Matip verði varnarleiknum lokað og þetta lið geti alltaf skorað mörk, Klopp-effektið og að vera ekki í Evrópu spili inní. Maggi og Óli telja enn vanta upp á fleiri gæðaleikmenn til að ná í Meistaradeildina en verðum mjög nálægt því allt fram á síðasta dag. Kristján og Eyþór eru á því að við höfum ekki náð að styrkja okkur nægilega þar sem við erum veikastir á vellinum til að ná ofar auk þess að Burnley leikurinn sýni að of langt sé enn í land með að gera alvöru árás að titli eða viðlíka baráttu. Gerum okkur von um bikarsigur sem myndi lina einhverjar þjáningar.

4.sæti:Arsenal 99 stig

Miðað við samtöluna þá töpum við baráttunni fyrir Arsenal á markamun á lokaleikdegi tímabilsins. Eins naumt og það getur verið. Wenger er sérfræðingur “4.sætisbikarsins” og leikmannakaupin á lokadegi gluggans leystu ákveðin vandamál sem voru augljós t.d. þegar við lékum við þá. Vandamál Arsenal eru alltaf þau sömu. Það vantar mikið upp á stöðugleikann hjá þeim þegar kemur að því að leika við litlu liðinm, varnarleikurinn virðist alltaf klikka og senterarnir detta í markaþurrð. Við spáum því að eftir tímabilið kveðji Wenger Emiratesvöllinn. En þá hefur hann komið liðinu enn á ný í CL og mun nú ekki þurfa aukakeppni til að komast í riðlakeppnina eftir nýjustu breytingarnar á keppninni.

3.sæti:Chelsea 108 stig

Lærisveinar Conte karlsins rífa sig í gang eftir ömurðina hjá Mourinho og enda á ný í toppslagnum. Conte hélt öllum þeim lyklum sem hann þurfti, bætti við sig með kaupum á Kante og Luiz og kann öll trikkin í bókinni. Hann er meistari varnarleiks og það mun verða drulluerfitt að skora gegn þeim. Hazard og Costa virðast byrja með miklum látum og það hefur tekið sig upp gamalt hrokabros á mörgum þeirra leikmönnum, sem er lykilatriði hjá liði sem ætlar sér árangur. Þeir verða í baráttunni lengi og munu fara langt í CL en enda að lokum í þriðja sæti.

2.sæti:Manchester United 114 stig

United ætlaði örugglega að “byggja upp” þegar Ferguson fór, það var prófað fyrst með Breta og síðan meginlandssstjóra. Eftir þrjú döpur ár er allri tilraunastarfsemi hætt, Giggs hreinsaður út líka og Strigakjaftur sóttur. Eins og alls staðar þar sem hann fer þarf að kaupa algerlega tilbúna leikmenn og þá helst heimsklassastjörnur. Hann fékk tvær ofurstjörnur í Pogba og Zlatan auk þess að fá einn besta sóknarmiðjumann þýska boltans og einn besta varnarmann spænska boltans. Því miður er þetta ávísun á það að erkifjendur okkar fari hærra en síðustu ár og stimpla sig með látum í titilbaráttuna, tveir okkar telja þá líklega meistara. Guð á himnum og allar aðrar vættir forði okkur frá því!

1.sæti:Manchester City 118 stig

Blái helmingur borgarerkifjenda Liverpool fagnar titli í vor og Pep heldur áfram að raka inn meistaratitlum hvar sem hann fer. Þetta er einfaldlega ógnarsterkur hópur sem bætti enn á ný við sig leikmönnum í sumar sem skipta máli. Gáfust upp á Hart þó kannski ekki verði sagt að Bravo verði pottþétt mikil upphækkun þar. Guardiola virðist hafa áttað sig strax á því hvað hann vill gera með þetta lið og verður sérstaklega gaman að fylgjast með innkomu Leroy Sane og Nolito á Englandi. Hann segist vilja vinna líka með ungum leikmönnum liðsins og fyrstu merki eru að hann og Raheem litli nái vel saman. Auk þessa alls er hann með besta framherjann…og mögulega besta leikmann deildarinnar í Kun Aguero. Að þessu öllu sögðu er ljóst að undrakokteill er í glasinu og barþjónninn veit nákvæmlega hvernig á að servera þetta lið.

Í stórum silfurbikar með ljósbláum og hvítum borðum!!!

Þá er okkar spá tæmd, set inn stutta færslu með samantekt um síðustu spá í vikunni…en nú styttist í annan endann á þessu landsleikjahléi

17 Comments

  1. Ég vona bara að þið hafið rétt fyrir ykkur með Meistarana. Hef ekki geð í mér að horfa á Mourinho lyfta þessum titli með ManU í vor, þó ég sé ansi hræddur um að það verði raunin.

    Annars er þetta býsna raunhæft, þó að ég eigi veika von um að við náum 4 sætinu af Arsenal.

  2. Já þetta er nokkuð raunhæft.

    Ég vona að við náum að berjast um meistaradeildarsæti í ár og tel ég okkur gera það og gætum við allveg eins náð því.

  3. Við unnum Arsenal, afhverju erum við enn að ræða þetta? DOLLUNA HEIM! #okkarár #easy

  4. Menn búnir að afskrifa Matip og Klavan strax, ég ætla ekki að vera svo svartsýnn. Og nýjustu fréttir eru að Sakho er byrjaður að æfa með hóp, þetta á bara eftir að batna og ég held miðað við það sem ég hef séð af Matip að hann verði okkar fyrsti kostur og komi með mikla yfirvegun inní varnarlínuna. Náum meistaradeildarsæti og berjumst á öllum vígvöllum spái ég, vonandi verður allavega FA eða Deildarbikar, titilbarátta og gott tímabil að byggja á.

  5. Mín spá var svona:

    1. Man.City: Massíft lið og búið að bæta við gæðum hér og þar sem á vantaði. Guardiola mættur á svæðið og hann kann upp á hár að vinna titla. Eru svo með besta framherjann í deildinni.

    2. Chelsea: Suddaleg breidd og búnir að styrkja sig á réttum stöðum. Conte er flottur stjóri og á eftir að rífa menn með sér. Hazard kominn á flug á ný.

    3. Liverpool: Þrátt fyrir þetta Burnley klúður, þá hef ég trú á því sem Klopp er að gera með þetta lið. Sóknarlega erum við á pari við flesta okkar keppinauta og með tilkomu Matip og Karius, þá vonast ég til að hægt verði að múra aðeins upp í varnarleikinn.

    4. Man.Utd: Því miður, ég vona samt heitt og innilega að þetta verði bara No way Jose. Þeir eru samt ekki komnir á það plan sem stuðningsmenn þeirra halda að þeir séu komnir á.

    5. Arsenal: Held að þetta verði síðasta tímabil Wenger og að hann lendi í fyrsta skipti fyrir utan topp 4 sætin í ansi hreint langan tíma. Þeir tapa því Arsenal bikarnum þetta árið.

    6. Tottenham: Þeirra tækifæri var á síðasta tímabili, en þeir klúðruðu því. Þeir fá ekki annað slíkt.

    7. Leicester: Ríkjandi meistarar falla niður listann, en kannski minna en margir halda. Champions League mun taka toll sinn hjá þeim og því enda þeir talsvert frá topp pakkanum.

    8. West Ham: Hafa farið illa af stað, enda vantar lykilmenn inn. Bilic á eftir að rífa þá upp.

    9. Stoke: Hughes að gera góða hluti og heldur þeim á þeim stalli að þeir eru með þeim betri af þessum miðjumoðs liðum.

    10. Everton: Með óbragði í munninn, þá gef ég þeim þetta sæti, mættu vera mun neðar fyrir minn smekk. Eru með nokkra fína fótboltamenn sem skilar þeim á síðu 1.

  6. Þessi spà svona heilt yfir bara mjog gòd og eg er bara sammala henni. held ad okkar menn verdi tvi midur i 5-7 sæti og bid til guds ad Man utd lendi nedar en i efsta sætinu. Èg gæti alveg sèd Leicester enda nedar en i 7 sætinu og þess vegna ì 10 -11 sætinu.

    Vona samt ad spàin hans Steina rætist bara 🙂

  7. Það væri gaman að sjá gögnin frá fleirum heldur en bara SSteini, svona upp á síðari tíma tölfræði að gera.

    Svona líta t.d. gögnin út frá síðasta ári, það var bara Kristján Atli sem gaf upp alla sína spá þá:

    https://dl.dropboxusercontent.com/u/368343/Screen%20Shot%202016-09-07%20at%2009.15.54.png

    En að því hvernig kop.is teyminu gekk að lesa í kristalskúluna: ef við skoðum í hvaða sæti hvaða lið var sett, og svo frávik frá endanlegri niðurstöðu, þá reyndist meðalfrávikið þetta árið vera 3,8. Þetta er í hærra lagi enda spila sveiflurnar hjá Leicester og Chelsea þar stórt hlutverk. Merkilegt nokk er þetta samt ekki versta niðurstaðan síðustu árin, spáin fyrir tímabilið 2011-2012 endaði með frávik upp á 4,0.

    Eins og sést á myndinni hér að ofan eru bara til tölur fyrir KA, en hann var með frávik upp á 4,0. Tölurnar fyrir Ólaf Hauk og Einar Matthías eru ekki marktækar þar sem það vantar t.d. Leicester inn í spána hjá ÓH.

    Semsagt, að mínu mati var niðurstaðan eins og við var að búast, og þrátt fyrir hærra frávik en oftast þá met ég það svo að spádómsgáfan hafi ekki versnað milli ára.

  8. Svona var pósturinn á Magga frá mér.

    1. Manchester United – Óttast að þeir smelli strax, loki stóru leikjunum flestum með a.m.k. stigi og klári litlu leikina með Zlatan og Mkhitaryan eins og lykla að þéttar varnir. Voru með góðan hóp fyrir og dýrasta lið deildarinnar.

    2. Manchester City – Flug start hjá þeim og verða klárlega í top tveimur. Veltur á heilsufari Aguero hvort þeir vinni mótið. Held að Guardiola lendi á nokkrum veggjum á fyrsta ári á Englandi.

    3. Liverpool – Fuck it, látum hjartað ráða. Þetta er vel hægt með enga Evrópukeppni takist Klopp að finna takt með þetta lið fljótlega. Þetta lið hefur alla burði til að skora gríðarlega mikið og þannig lið eru til alls líkleg. Vörnin núna er ekki verri en hún var 2013/14.

    4. Chelsea – Fara aftur í Meistaradeildina, gætu hæglega unnið mótið á svipuðum forsendum og United. Verða mjög þéttir í stóru leikjunum og geta rústað litlu liðunum.

    5. Tottenham Hotspur – Hefur lítið farið fyrir þeim í sumar en eru með sama hóp og í fyrra plus nokkrar sterkar viðbætur. Meistaradeildin er orkufrek og fari þeir upp úr riðlinum gæti það kostað þá stig í deildinni eftir áramót. Geta ekki sloppið jafn vel aftur við meiðsli lykilmanna

    6. Arsenal – Verða eflaust á sínum stað í 2-4 sæti. En það hefur aldrei verið svona þétt pressa og pirringur á Wenger frá fyrsta leik, hefur mögulega áhrif á liðið. Auk þess er samkeppnin bara orðin mun meiri en hún hefur verið áður.

    7. West Ham United – Duttu aftur úr leik gegn sama Rúmenska liðinu til að sleppa við Europa League. Dreg í efa hversu svekktir þeir eru með það þrátt fyrir viðbrögð út á við.

    8. Everton – Komnir með besta stjóra sem þeir hafa haft og halda flestum sínum bestu mönnum. Williams fyrir Stones er ekki veiking á vörninni m.v. síðasta tímabil.

    9. Stoke City – Komnir með alvöru sóknarmann í Bony sem getur vel skorað 15-20 mrök í þessu Stoke liði enda vantar ekki gæðin í kringum hann. Þetta lið er að þróast nokkuð skemmtilega frá Tony Pulis stimplinum.

    10. Leicester City – Ætlaði að spá þeim enn neðar, þetta verður jafn vond titilvörn og við sáum síðasta vetur. Það er töluvert annað að spila sem meistarar og eins mun aukið leikjaálag verða þeim erfitt.

    11. Southampton – Enn einu sinni spáir maður þeim neðarlega eftir sumar þar sem þeir missa sína bestu men og stjórann. Sé þá ekki aftur ná 6.sæti í sumar.

    12. Middlesbrough – Búnir að bæta liðið töluvert m.v. nýliða og verða ekki í fallhættu.

    13. Crystal Palace – Benteke verður þeirra besti leikmaður og heldur frá fallhættu svipað og hann gerði fyrir Villa.

    14. Watford – Vona að þeir falli en þetta er ágætt lið sem ætti að fara fyrir ofan neðstu lið.

    15. Bournemouth – Annað ár gæti orðið þyngra en á móti eru ekki allir nýju leikmenn liðsins eða aðrir lykilmenn búnir að meiðast núna líkt og gerðist í fyrra. Ótrúlegt að þeir héldu sér uppi og ef eitthvað er spái ég þeim frekar ofar heldur en neðar verði þeir ekki í 15.sæti.

    16. Burnley – Betur undirbúnir núna en fyrir tveimur árum. Sáum það í leiknum gegn Liverpool. Gott lið, ekki spennandi hópur.

    17. West Bromwich Albion

    18. Sunderland – Stjórinn gefur tóninn, Moyes er á pari við Hodgson í væntingastjórnun fer niður með þetta Sunderland lið.

    19. Swansea City – Erfitt að spá fyrir um Swansea en á óttast að Williams verði þungt högg fyrir þá.

    20. Hull City – Fáránleg byrjun hjá þeim en ég bara sé þá ekki hanga uppi. Fáránlegt sumar hjá þeim

  9. Mín spá í heild sinni fyrir þetta ár:

    1 – City
    Liðið hefur unnið 5 fyrstu undir stjórn Guardiola og virðast ógnarsterkir, og er hann þó rétt að byrja að setja sitt mark á liðið. Hafa verið að taka deildina annað hvert ár en það klikkaði í vor svo að nú tippa ég á þá.

    2 – United
    Mourinho gefur þeim skipulag og svo hafa þeir keypt stórskotabyssur í framlínuna. Það er einhver stemning þarna og krafan er klárlega titilbarátta. Þeir verða þarna uppi og gætu hæglega klárað dæmið.

    3 – Chelsea
    Conte virðist ætla að gera þá þétta og skipulagða og þeir eru með leikmenn sem geta klárað leiki. Gætu farið alla leið en gætu líka lent í veseni. Tippa samt alltaf á þá í topp 4.

    4 – Arsenal
    Undir stjórn Wenger hafa þeir aldrei misst af Meistaradeildarsæti og það þarf mikið átak til að hirða Wenger-bikarinn af þeim. Tippa á þá hérna þar til annað kemur í ljós.

    5 – Tottenham
    Voru í titilbaráttu í vor en verða nú í Meistaradeild sem tekur tíma og orku frá þeim. Hafa ekki mikla breidd og gætu lent í veseni í deildinni í vetur en Pochettino er með vel skipulagt og kraftmikið lið, eina bestu vörnina og markakóng deildarinnar. Verða í baráttunni um topp 4.

    6 – Liverpool
    Titilbarátta er skrefi of langt fyrir Klopp í ár en við verðum í baráttunni um topp 4 og vonandi heimsækir liðið Wembley líka. 6. – 8. sætið hafa verið normið fyrir Liverpool á þessum áratug og ég spái því áfram vegna styrks liðanna fyrir ofan okkur. Ef einhverjir misstíga sig þá verða okkar menn hins vegar klárir í að refsa.

    7 – Everton
    Hafa byrjað vel og ég hef álit á Koeman sem stjóra. Þeir verða í topp 10 í vetur, gætu þrýst ofar ef við förum ekki varlega.

    8 – Leicester
    Meistararnir (vá, skrýtið) verða ekki með jafn lélega titilvörn og Chelsea í fyrra en verða þó langt frá því að verja dolluna. Berjast um Evrópusætin en ef þeir fara upp úr riðli í Meistaradeild mun það taka ansi mikið frá þeim.

    9 – West Ham
    Lenda í smá vandræðum á öðru tímabili Bilic en verða samt sterkir.

    10 – West Brom
    Tony Pulis hefur eytt peningum í sumar. Það veit ekki á gott. Gerir það sem hann gerir best, skilar liði um miðja deild.

    11 – Stoke City
    Vel spilandi lið sem Mark Hughes hefur náð að byggja upp. Lið sem hefði barist um Evrópusætin á la Everton fyrir áratug en nú eru svo mörg sterk lið fyrir ofan þá. Verða um miðja deild.

    Liðin hér fyrir neðan eru svo af öðrum staðli en 11 efstu finnst mér. Nýliðarnir og sex önnur sem ég spái vandræðum í vetur. Hef trú á að botnbaráttan verði jöfn og spennandi en spái þessu svona. Gætu samt öll fallið að mínu mati.

    12 – Middlesbrough
    13 – Swansea
    14 – Southampton
    15 – Hull
    16 – Bournemouth
    17 – Watford
    18 – Sunderland
    19 – Crystal Palace
    20 – Burnley

  10. Ég er sammála Kristjáni Atla sennilega er þarna vestfirska raunsæið að spila hjá okkur. Ég gæti reyndar alveg trúað Tottenham til að taka 4. sætið af Arsenal. Finnst Liverpool liðið bara töluvert langt á eftir þessum liðum sem eru þarna fyrir ofan. En vona að Klopp geti gert einhverja galdra held reyndar að hann sé sá eini sem gæti komið Liverpool á toppinn með því fjármagni sem hann hefur úr að moða.

  11. Vestfirska raunsæið Auðunn, við ljúgum ekki að okkur þar. 🙂

    Það skal samt tekið fram að ég hef trú á að Liverpool geti náð topp 4. Það eru einfaldlega minni líkur á því, fyrirfram, að við náum því heldur en liðin sem ég spái fyrir ofan okkur. Ef ég væri veðbanki myndi ég gefa hærri stuðul á Liverpool en Spurs og Arsenal þar sem þau hafa verið reglulega fyrir ofan okkur síðustu ár.

    En þetta er bara spáin. Ég hef fulla trú á að við getum náð topp fjórum. Koma svo!

  12. Sökum þess að ég held utan um spána rökstyð ég hana ekki skriflega en mín röð var svona:

    1. Man City
    2. Man United
    3. Chelsea
    4. Arsenal
    5. Liverpool
    6. Tottenham
    7. Leicester
    8. Everton
    9. Southampton
    10. Stoke
    11. WBA
    12. Middlesbrough
    13. Swansea
    14. Middlesbrough
    15. Crystal Palace
    16. Bournemouth
    17. Sunderland
    18. Watford
    19. Burnley
    20. Hull

    Til að fyrirbyggja samsæriskenningar þá legg ég aldrei saman tölur fyrr en allir hafa skilað og því hrein tilviljun að ég er með mína spá samhljóða fyrstu átta sætunum. Ég færði LFC úr 4. í 5.sæti eftir lokun leikmannagluggans þar sem að ég taldi Arsenal sækja það sem þá vantaði en við getðum það ekki.

  13. Sælir félagar

    Mín spá sem ég gerði í tipphópnum mínum var svona.

    1. M. City
    2. Chelsea
    3. Liverpool
    4. Arsenal
    5. M. U.
    6. Tottenham

    Mér er ómögulegt að skilja þessa trú manna á MU og Móra. Móri skeit uppá bak með Chelsea og sást þar að hann þolir ekki mótlæti. Hvað gerist ef PP meiðist eða Slatan bilast úr stórmennskubrjálæði eða eitthvað. Hvað gerist ef Móri og liðið lendir í einhverjum vandræðum.

    Þeir keyptu dýrasta miðjumann í heimi, sóknarmann sem er kominn yfir hólinn og bættu aðeins í vörnina. Að öðru leyti er þetta sami hópur og gat ekki blautann í fyrra. Sem sagt ég skil ekki þessa trú manna á þetta lið. Þeir jagast að lokum í 5. sæti og það á allt eftir að vera brjálað í leiðindum á Gamla Klósettinu í vetur.

    Það er nú þannig

    YNWA

  14. Takk fyrir þetta yfirlit. Vona þó að þetta verði alls ekki niðurstaðan, nógu slæmt væri það ef annað Manchester liðið næði öðru hvoru af tveimur efstu sætunum, en ekki bæði. Það má æla af minna tilefni en því. Því miður virka þau ógnarsterk og verða líklega bæði í topp fjögur grúbbunni og spurning hvort Liverpool nær að þvæla sér þangað ásamt, ja hugsanlega Chelsea. Ef Klopp nær að halda mannskapnum heilum og nær upp réttri stemmingu, þá er allt mögulegt, séstaklega þar sem leikálagið verður hæfilegt í vetur, a.m.k. ef miðað er við síðasta vetur. .

  15. Ég er á sama vagni og SSteinn og Einar Matthías varðandi að við náum þriðja sæti. Ég hef bara óbilandi trú á Klopp og þrátt fyrir að ekki hafi tekist að næla í vinstri bakk þá er það ekki heimsendir. Ef það verður vesen, verður því kippt í liðinn þegar glugginn opnar í janúar. Mér finnst Matip frábær viðbót í vörnina og Klavan virðist solid leikmaður. Ef við hefðum svo fengið Mane og Wijnaldum á transfer deadline, í stað þess að fá tímanlega, held ég að margir fleiri væru dansandi af gleði og mun bjartsýnni. Ég ræddi m.a. við einn gallharðann Newcastle mann til margra ára og hann sagði ekki sárt að missa Sissoko sem hefði lítið getað en Wijnaldum hefði hinsvegar verið slæmt að missa og hann sé klassa fyrir ofan Fransmanninn sem fór til Tottenham. Nema hvað, ég spái topp 10 svona:

    1. Man City
    2. Man United
    3. Liverpool
    4. Chelsea
    5. Arsenal
    6. Tottenham
    7. Leicester
    8. West Ham
    9. Southampton
    10. Everton

Spá Kop.is – fyrri hluti

Kop.is Podcast #122