Spá Kop.is – fyrri hluti

Þá þurfiði ekki að bíða lengur!!!

Spá okkar Kop-verja fyrir ensku deildina dettur nú í hús og menn geta þá bara hætt að hafa áhyggjur því við vitum þetta allt – NOT!

Eins og áður þá rúllum við hver og einn yfir deildina og röðum liðunum upp í sæti. Við vorum sex sem tókum þátt núna svo að hæsti mögulegi árangur liðs er 120 stig og minnsti 6 stig enda þannig að þið lið sem hver okkar spáir fyrsta sæti fær fyrir það 20 stig og það lið sem fær neðsta sæti í spá hvers okkar fær eitt stig.

Í dag ætla ég að fara yfir þá spá sem gildir um sæti 11 – 20. Smá texti er um hvert lið og er það samantekt úr rökstuðningi okkar félaganna. Seinni hluti spárinnar, með topp tíu kemur svo á morgun.

20.sæti: Hull 12 stig

Sumarið hjá Hull verulega skrýtið, Steve Bruce hætti þar sem hann fékk ekki styrk stjórnar til að styrkja leikmannahópinn og í raun ekki búið að ráða fyrir hann nýjan stjóra þó Mike Phelan haldi þétt um taumana í byrjun. Bættu aðallega við sig kjúklingum frá ManU og það veit nú ekki endilega á gott. Hull fer að okkar mati beint aftur niður.

19.sæti: Burnley 13 stig

Það ýfir auðvitað bara enn upp sárin okkar frá því að hafa tapað í Burnley í 2.umferð að við erum á því að Burnley fari beint niður. Jóhann Guðmunds bættist í hóp Burnley og framlínan þeirra er nokkuð öflug í ofanálag við duglega og vel skipulagða vörn. Leikmannahópurinn er þó frekar þunnur og það höldum við að ráði baggamuninn og LFC-banarnir fari aftur niður á næstefsta þrep.

18.sæti: Sunderland 26 stig

Eins og sjá má eru Burnley og Hull nokkuð örugglega niðri í spánni hjá okkur en um 18.sætið teljum við að verði keppni sem Sunderland muni tapa. Þetta lið er búið að vera í fallbaráttu að eilífu og það að ráða David Moyes mun ekki bjarga því. Varnarleikurinn þeirra ræður mestu um það að liðið mun falla, þar hafa þeir átt í vanda og nú er svo komið að Defoe og félagar ná ekki að bjarga því. Sunderland niður.

17.sæti: Bournemouth 28 stig

Við spáum því að Bournemouth bjargi sér, miðað við hversu lítill munurinn á þeim og Sunderland er þá má telja líklegt að þeir bjargist á síðasta leikdegi. Hafa farið í það að ná til sín mönnum úr sterkum liðum sem ekki hafa náð að blómstra undanfarin ár, munu áfram reyna að spila góðan fótbolta sem gefur alltaf smá hrós hjá neutral aðdáendum. Ibe og Brad Smith trúðu á verkefnið og á lokadeginum gripu þeir Jack Wilshere frá Arsenal. “Second season syndrome” er það sem verður þeim erfiðast Suðurstrandardrengjunum hans Eddie Howe. Hann fer frá þeim næst þegar meðalstórlið losnar.

16.sæti: Swansea 33 stig

“Gylfi og félagar” munu verða í fallströggli í ár en halda sér að lokum uppi. Stór skellur hjá þeim að missa Ashley Williams sem var kjölfestan í varnarleiknum en á móti spennandi að sjá hvað Llorente og Baston geri í sauðfjárlandinu Wales í vetur. Gylfi er að draga þeirra vagn og þeir verða áfram í efstu deild en án vafa erfiðasta árið þeirra þar framundan.

15.sæti: Watford 35 stig

Watford eru annað lið sem þarf að hugsa um “second season syndrome” enda á sínu öðru ári á ný meðal þeirra efstu. Gríðarsterkur heimavöllur sem byggðist á öflugum varnarleik og vel útfærðum skyndisóknum skilaði þeim öruggu sæti á meðal þeirra efstu áfram og sæti í undanúrslitum FA bikarsins. Það dugði þó eigendunum ekki og þeir skiptu um stjóra, réðu Walter Mazzari sem síðast stjórnaði Inter um sinn og fengu með honum leikmenn, sá mest spennandi Roberto Pereyra, til að taka næsta skref. Watford er sennilega mest óskrifaða blaðið í vetur, gætu hiklaust lent í vanda en líka verið um miðjuna.

14.sæti: Crystal Palace 39stig

Alan Pardew er ekki uppáhaldsstjóri okkar Kop-verja en við höldum að þeir Suður Londonmenn verði á svipuðum slóðum og í vetur, sigli öruggan og að mestu lygnan sjó og halda áfram að gera klúbbinn að stöðugum efstudeildarklúbb. Christian Benteke mun skipta þá miklu máli, er kominn á ný í lið sem spilar inn á hans styrkleika og hann aftur kominn í það sem hann gerði fyrir Aston Villa, þ.e. að halda liði uppi.

13.sæti: W.B.A. 44 stig

Talandi um uppáhald okkar Kopverja! Tony Pulis hefur án vafa verið sá stjóri sem oftast hefur á pirrandi hátt náð stigum með sínum liðum gegn Liverpool. Leikplanið hans er einfalt, verjast á skipulegan hátt, draga niður hraðann í leikjum og síðan nýta skyndisóknir og föst leikatriði. Hann bara fellur ekki með lið þó við værum svo til í að sjá það gerast, t.d. í vetur en gæðin í leikmannahópnum í bland við hans upplegg tryggir þeim lygna siglingu um miðjuna.

12.sæti: Middlesbrough 45 stig

Fyrir ofan WBA á markatölu munu Middlesbroughmenn setjast. Þeir eru það lið nýliðanna sem mest er tilbúið að takast á við að spila í efstu deild með kappa eins og Viktor Fischer, Alvaro Negredo, Victor Valdes og Gaston Ramirez til að gleðja augað og svo grjótharða varnarjaxla. Það verður gaman að fylgjast með tveimur Spánverjum sem voru á okkar bókum eitt sinn, hafsentinn Daniel Ayala og bakvörðurinn Antonio Barragan voru báðir fengnir til LFC þegar Rafa var við völd en náðu ekki að festa sig í sessi. Svo vitum við auðvitað af honum Stewart Downing á vængnum þeirra, kominn til síns heimaliðs. Lærisveinar Aitor Karanka lenda í 12.sæti.

11.sæti: Southampton 59 stig

Töluverður munur er í spá okkar milli 11. og 12.sætis og við teljum enda töluverðan gæðamun vera þar. Soton misstu stjórann sinn til Everton og við auðvitað fórum í okkar árlegu ferð og keyptum einn þeirra aðalleikmann í Sadio Mané auk þess að Wanyama kvaddi líka.. Í staðinn sóttu þeir stjórann sinn til Nice en þar náði Claudio Puel býsna góðum árangri með lið af svipaðri stærðargráðu og Dýrðlingarnir eru. Kaupa nokkuð spennandi leikmenn, Hojberg og Boufal þar helsta en það eru komin ákveðin gæði í þetta lið sem mun tryggja þeim fínan vetur um miðja deild. Lykilatriðið verður að Long og Austin nái að skora svolítið af mörkum

Á morgun kemur seinni hluti spárinnar, frá sæti 1 – 10. Þar kemur m.a. í ljós hvar við stillum okkar liði upp!!!

12 Comments

 1. Kæmi mér ekki á óvart ef Palace verður ofar. Tel að Benteke/Remy eigi eftir vera góður liðstyrkur fá þá. Ekkert Evrópusæti en kannski í kringum 9-10.

 2. mikið væri gaman ef everton myndi siga niður töfluna og. ….FALLA, tel þó að stjórinn og mannskapurinn sé of góður til að falla en það má lata sig dreyma.

 3. Væri áhugaverð lesning að fá líka að sjá samanburðarniðurstöður fyrir síðustu leiktíð þ.e. spá Kop og í hvaða sæti viðkomandi lið lenti síðan. Gjarnan með smá texta með eins og í þessu. Ertu ekki í stuði fyrir það, Maggi?

 4. Afhverju vilja menn sjá Everton falla þetta eru með skemmtilegri viðureignum á tímabili hverju ‘the merseyside derby’ og ofan á það hafa þeir ekkert verið í neinni baráttu við okkur um sæti í deildinni og yfirleitt lent fyrir neðan okkar menn þar. LFC hefur unnið flesta derby leikina undanfarin ár og flesta þeirra frekar sannfærandi sem gerir þetta ennþá betra.

  Heita ekki Burnley ekki núna Jói og félagar?:)

  YNWA

 5. Michael Owen er ekki merkilegt eintak. kemur núna og vælir um að hann hafi gert margar tilraunir til koma aftur til LFC. a það ber að lita að hefði hann i raun elskað lfc af ollu hjarta þá hefði hann aldrei farið i fyrsta lagi og að ganga svo til liðs við scum utd tekur steininn úr. hann ætti að hafa vit a því að grjothalda kjafti og þakka fyrir að lfc gerði hann ríkan og tækifæri til að hafa atvinnu af knattspyrnu. eg gef ekkert fyrir þetta raus i mannræflinum. fífl bara.

 6. Henderson14: ég mun koma með eitthvað smávegis komment um þetta, en auðvitað væri gaman að fá sérstaka umfjöllun frá kop.is pennum um þessa tölfræði. Það væri líka gaman að hafa betri gögn frá hverjum og einum þeirra varðandi hvaða sæti þeir settu hvaða lið.

 7. Þessi lið hafa enn tækifæri á að næla sér í Jose Enrique og komast í efri hluta deildarinnar! A.m.k. í Playstation.

 8. Nr. 4 og 7

  Það er búið að eyða öllum sönnunargöngum um þetta á síðunni, gmail sem og annarsstaðar.

  Minn póstur á Magga var svona

  10. Leicester City – Ætlaði að spá þeim enn neðar, þetta verður jafn vond titilvörn og við sáum síðasta vetur. Það er töluvert annað að spila sem meistarar og eins mun aukið leikjaálag verða þeim erfitt.

  11. Southampton – Enn einu sinni spáir maður þeim neðarlega eftir sumar þar sem þeir missa sína bestu men og stjórann. Sé þá ekki aftur ná 6.sæti í sumar.

  12. Middlesbrough – Búnir að bæta liðið töluvert m.v. nýliða og verða ekki í fallhættu.

  13. Crystal Palace – Benteke verður þeirra besti leikmaður og heldur frá fallhættu svipað og hann gerði fyrir Villa.

  14. Watford – Vona að þeir falli en þetta er ágætt lið sem ætti að fara fyrir ofan neðstu lið.

  15. Bournemouth – Annað ár gæti orðið þyngra en á móti eru ekki allir nýju leikmenn liðsins eða aðrir lykilmenn búnir að meiðast núna líkt og gerðist í fyrra. Ótrúlegt að þeir héldu sér uppi og ef eitthvað er spái ég þeim frekar ofar heldur en neðar verði þeir ekki í 15.sæti.

  16. Burnley – Betur undirbúnir núna en fyrir tveimur árum. Sáum það í leiknum gegn Liverpool. Gott lið, ekki spennandi hópur.

  17. West Bromwich Albion

  18. Sunderland – Stjórinn gefur tóninn, Moyes er á pari við Hodgson í væntingastjórnun fer niður með þetta Sunderland lið.

  19. Swansea City – Erfitt að spá fyrir um Swansea en á óttast að Williams verði þungt högg fyrir þá.

  20. Hull City – Fáránleg byrjun hjá þeim en ég bara sé þá ekki hanga uppi. Fáránlegt sumar hjá þeim.

 9. Mín spá var svona:

  11. Crystal Palace: Eru bara á þessum stað mannskapslega séð.

  12. Southampton: Enn og aftur missa þeir lykilmenn frá sér, en þeir skila sér alltaf langt fyrir ofan fallbaráttuna og svo verður áfram.

  13. Watford: Var hissa þegar þeir létu stjórann sinn fara, en þeir eru bara með slatta af frambærilegum leikmönnum og verða lausir við falldrauginn.

  14. Sunderland: Aldrei þessu vant þá verður Sunderland ekki í bullandi fallslag allt tímabilið, en þeir verða heldur ekkert langt frá neðstu liðunum.

  15. WBA: Væri svo til í að sjá þá niður og þá eingöngu vegna Pulis, en hann kann að hala inn stig þótt það sé gert með ljótum hætti fótboltalega séð.

  16. Gylfi og félagar: Verður gríðarlega erfitt tímabil hjá þeim. Voru ekki sannfærandi á því siðasta og það breytist ekki við að selja ákveðna lykilmenn.

  17. Middlesbrough: Einu nýliðarnir sem halda sér uppi og það af því að þeir eru bara minna slakir en hinir.

  18. Bournemouth: Held að second season syndrom bíti þá fast í rassgatið og eitt Arsenal wannabe breytir engu þar um.

  19. Hull: Þvílíkt rót á einu liði og það eina sem þeir virðast vera að gera er að kaupa einhverja kjúklinga frá Man.Utd sem eiga að bjarga þeim. Beint niður fara þeir.

  20. Jóhann Berg og félagar: Unnu okkur, en bara slakasti hópurinn í deildinni og húrra beint niður aftur.

 10. Ég spái því að spámenn kop.is spái Liverpool í 6. sæti. Flestir vonast auðvitað eftir betri árangri en eftir sama barninginn ár eftir ár eru menn hættir að trúa á FSG og miðjumoðið sem þeir hafa boðið okkur upp á. Klopp gerir það sem hægt er að gera með mannskapinn.

  Mér finnst ljótt að menn vilja Everton neðar en 10. sæti því síðustu ár hafa þeir stutt vel við bakið á rauðum Merseysidebúum þótt ég viti að allavega Ssteini þykir vænt um að sjá Everton tapa.

  Jafnframt spái ég því að spámenn kop.is spái öðru hvoru Manchesterliðanna titlinum. Ljót spá ef satt reynist. En líklega rétt. Sjáum svo hvað Daníel hefur um málið að segja.

Væntingar í sumar og í vetur

Spá kop.is – seinni hluti