Væntingar í sumar og í vetur

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD Í NÓVEMBER! SMELLTU HÉR FYRIR NÁNARI UPPLÝSINGAR!

Jæja, við erum í fyrsta landsleikjahléinu og félagaskiptaglugginn alræmdi er lokaður. Er þá ekki um að gera að skoða stöðuna aðeins, hvernig sumarið fór og hvernig horfurnar eru fyrir tímabilið?

Ég er á skrýtnum stað í dag. Ég er bæði frekar svekktur með sumarið og byrjun tímabilsins og mjög jákvæður með sumarið og framtíðarhorfur liðsins. Til að útskýra það betur er kannski best að tækla nokkra af helstu punktunum sem fólk hefur verið að smjatta á síðustu daga, bæði jákvæða og neikvæða.

Vindum okkur í þetta, í engri sérstakri röð:

1 – In Klopp we trust!

Jürgen Klopp er frábær. Ég er svo ánægður með að hann sé stjóri Liverpool. Hann smellpassar okkur og við smellpössum við hann. Ég hef tröllatrú á honum og þótt enginn sé fullkominn er ég harður á þeirri skoðun að við gætum vart haft betri mann í starfinu í dag.

EN… þegar fólk reynir að eyða neikvæðum hugsunum eða gagnrýni með því að segja að við verðum að treysta Klopp þá er fólk á ansi miklum villigötum, að mínu mati. Af hverju? Af því að á meðan Klopp er frábær þá er hann einfaldlega ekkert meira frábær en Guardiola, Mourinho, Conte, Wenger og Pochettino. Þetta eru allt frábærir þjálfarar og þeir virðast allir vera klárir í slaginn með ógnarsterk lið fyrir tímabilið (svo ekki sé minnst á meistara Leicester og önnur lið eins og West Ham, Everton o.sv.frv.).

Þegar fólk reynir að skauta yfir réttláta gagnrýni á t.d. vinnubrögð á leikmannamarkaðnum með því að segja að Klopp sé bestur eða að við þurfum að treysta honum fæ ég eiginlega bara smá aulahroll. Við treystum Rodgers/Dalglish/Benítez/Houllier/Evans/Souness líka. Ég þarf meira en frábæran stjóra til að öðlast einhverja tröllatrú á Liverpool FC í dag. Við höfum haft slíka áður án þess að ná „fyrirheitna landinu“.

2 – Það þurfti að fækka í hópnum

Afgreiðum þessa lummu snarlega: já, Klopp tók til hjá Dortmund og hreinsaði út leikmenn í stórum stíl þar fyrsta sumarið sitt. Hann var því alltaf líklegur til að gera það sama hjá Liverpool í sumar, ekki síst þegar liðið missti af Evrópuþátttöku og leikjunum fækkaði sem því nemur. Það er mjög jákvætt að Klopp hafi náð að losa út nánast alla þá sem hann ætlar sér ekki að nota. En það er ekki nóg að ná að fækka vel í hópnum, slíkt styrkir ekki byrjunarlið og gerir Liverpool 0,00% líklegra til að standa sig betur í vetur!

3 – Klopp gerði mikið úr litlu hjá Dortmund

Já, Klopp eyddi ekki háum fjármunum þar á bæ (né hjá Mainz) og vissi heldur betur hvað hann var að gera þar. Við erum fullkomlega að veðja á að hann geti gert það sama hjá Liverpool. Og eftir þetta sumar verðum við að vona að hann viti betur en við sófasérfræðingarnir með efasemdirnar.

Það er bara einn galli á þessari samlíkingu. Klopp var að berjast við Bayern-lið sem var í lægð þegar Dortmund tylltu sér á toppinn. Um leið og Bayern rétti svo úr kútnum á ný átti Dortmund ekki roð í þá, hvorki í deild, bikar eða Evrópu.

Á Englandi er Klopp að keppa við fjögur Bayern-lið! Þrjú þeirra eru á meðal 5-6 ríkustu félaga í heimi (United, City og Chelsea) og skarta þau öll sterkari leikmannahópum, meiri breidd og þjálfurum með mikla sigurhefð. Fjórða liðið er svo Arsenal undir stjórn Wenger, lið sem hefur einfaldlega aldrei misst af Meistaradeildarsæti undir hans stjórn og hefur eytt háum fjárhæðum í þrjá alvöru leikmenn í sumar.

Þannig að næst þegar eitthvert ykkar reynir að eyða gagnrýni á innkaup Liverpool, leikmannaval Klopp eða eitthvað slíkt með því að segja að hann sé frábær, við verðum að treysta honum og að hann hafi nú getað unnið með Dortmund þrátt fyrir að eyða litlu, hafið þá í huga hversu mikið meiri samkeppnin er í Englandi og rifjið upp hvernig það gekk hjá snillingunum Houllier, Benítez, Dalglish og Rodgers að reyna að vinna upp peningabilið í stórliðin með snilld sinni.

Klopp er frábær en það eitt og sér verður aldrei nóg. Sorrý en það er bara þannig.

4 – Sóknarlínan er frábær!

Já. Algjörlega. Og hér komum við að þeim punkti sem gerir mig jákvæðastan, bjartsýnastan og lætur mig hlakka til hvers einasta leiks í vetur. Síðan Klopp tók við liðinu hefur hann markvisst bætt sóknarleikinn, fyrst með því að fá leikmennina sem voru fyrir til að spila betur, síðan með því að endurheimta Sturridge og svo Ings úr meiðslum og loks með því að bæta hinum frábæra Sadio Mané við í sumar.

Þessi sóknarlína okkar er bara algjörlega frábær. Hún er svo góð að ég treysti liðinu til að vinna hvaða leik sem er í vetur. Við munum 100% eiga frábæra sigra gegn sumum af erkifjendum okkar og keppinautum (sjá: Arsenal í 1. umferð) og ég sé fram á viðburðaríkan og skemmtilegan vetur þar sem við fáum nóg til að fagna á milli leikja.

Þetta er lykilatriði og það sem ég er ánægðastur með hjá Klopp. Síðan við misstum Luis Suarez hefur liðinu gengið illa að skora mörk en það virðist vera úr sögunni núna og Klopp hefur náð að setja upp lið sem skorar jafnvel þótt bæði Sturridge og Origi séu utan vallar. Eins grunar mig að hann hafi ekki viljað leyfa Danny Ings að fara í sumar því hann vill eiga þann strák inni þegar Sadio Mané fer á Afríkumótið eftir áramót.

Þetta lið er frábært sóknarlið og það mun vinna marga hrikalega flotta sigra í stökum leikjum í vetur. Ég hlakka til hvers leiks.

5 – Miðjan er spurningarmerki

Hafi Klopp bylt sóknarlínunni okkar frá því fyrir ári þá verður að segjast að miðjan er á móti frekar brothætt. Það er, þegar hún smellur getur hún verið frábær en hún hefur að því er virðist átt alveg jafn marga leiki þar sem hún hverfur og lið keyra yfir okkur. Með tilkomu Wijnaldum og endurkomu Henderson eru leikmennirnir til staðar fyrir Klopp að hnoða saman rétta blöndu fyrir hvern leik. Nú er það undir honum komið að finna rétta uppskrift fyrir leiki. Hann var með miðjuna hárrétta gegn Arsenal og Tottenham fannst mér en að sögn fróðra klikkaði hún algjörlega gegn Burnley (sá ekki þann leik sjálfur). Ef hann finnur réttu blönduna í flestum leikjum í vetur gæti það lagt grunninn að frábærum vetri. Ef miðjan er hins vegar í vandræðum er ekki von á góðu. Við vonum það besta.

6 – Hvað er að frétta með vörnina?

Hér skil ég ekkert. Joel Matip kemur á frjálsri sölu og Ragnar Klavan er keyptur frá Augsburg á þrítugsaldri fyrir litla upphæð. Á sama tíma sóttu keppinautar okkar fastamenn í stórum landsliðum í sömu stöður fyrir háar upphæðir. Það getur vel verið að Klopp hafi hér verið að vinna eitt af kraftaverkum sínum á leikmannamarkaðnum en þangað til annað kemur í ljós sé ég ekki að nokkur maður geti kallað Matip og Klavan inn fyrir Skrtel og Kolo Touré einhverja svakalega bætingu. Í raun sýnist mér verið að veðja allsvakalega á að Lovren og Matip geti spilað nær alla leiki því án annars þeirra veikist varnarlínan strax svakalega, ekki síst ef Sakho á ekki að fá leiki í vetur.

Og vill einhver útskýra fyrir mér hvernig Dejan Lovren, sem komst ekki í liðið fyrir 15 mánuðum, er allt í einu orðinn óumdeildur leiðtogi varnarinnar og það á að teljast bæting?

Í hægri bakverðinum getur Nate Clyne varla tekið sér fimm mínútna pásu því það er bókstaflega ekkert annað í boði. Joe Gomez er búinn að vera meiddur í ár og Connor Randall er langt frá því að vera nógu góður til að kóvera í deildarleikjum. Hvað gera menn ef Clyne missir úr mánuð eða tvo? Milner í hægri bakvörðinn?

Og svo vinstri bakvörðurinn. Það var einfaldlega lykilatriði að annað hvort kaupa heimsklassabakvörð hér eða útvega Moreno að minnsta kosti meiri samkeppni og það mistókst bara með öllu. Ekki misskilja mig, ég treysti James Milner alveg til að loka svæðum, sýna aga og berjast og skila þessari stöðu af sér án þess að verða sér til skammar. En hann er miðjumaður að kóvera af illri nauðsyn í þessa stöðu og ef Klopp reynir að segja ykkur að það hafi verið hans helsta ósk í sumar að setja Milner í vinstri bakvörðinn þá er hann einfaldlega að ljúga.

Moreno og miðjumaður. Það er vinstri vængur varnarinnar. Öll mörk andstæðinga sem eiga uppruna sinn í þessari vandamálastöðu hjá okkur í vetur munu telja tvöfalt eða þrefalt í gagnrýninni, höfum það alveg á hreinu. Klopp verður dreginn til ábyrgðar ef þetta klikkar.

7 – Markvarðasamkeppnin

Lýk yfirferð um leikmannahópinn á markvörðunum. Hér var allt gert vel sem klikkaði með vinstri bakvörðinn; Klopp sá að það þurfti að fá inn betri samkeppni fyrir Mignolet og fór strax í málið. Inn kom mikið efni í Karius og þaulreyndur þriðji maður í Manninger. Það er einfaldlega allt annað en að vera með Brad Jones eða Adam Bogdan á bekknum. Þetta er ekki sambærilegt. Það var svekkjandi að Karius skyldi handleggsbrotna en ég er vongóður um að hann muni bæta byrjunarliðið þegar hann kemst til heilsu.

8 – Mænan

Hvað skiluðu leikmannakaupin okkur þá? Sex leikmenn inn og það má ætla að fjórir þeirra eigi að fara í byrjunarliðið – Karius, Matip, Wijnaldum og Mané. Að mínu mati eru Wijnaldum og Mané klár styrking en það verður að koma í ljós með Karius og Matip. Er það nóg að styrkja byrjunarliðið um þessa fjóra, jafnvel þótt þeir reynist allir góðir? Ég veit það ekki. En mænan var allavega endurnýjuð að vissu leyti í sumar.

9 – Raunhæfar væntingar

Sko, ég talaði hér að ofan um að þetta lið gæti unnið hvaða lið sem er í vetur og að ég byggist fastlega við að sjá slíkt gerast a.m.k. nokkrum sinnum.

En það er ekki það sama og að liðið muni gera það nógu oft til að landa titli. Að mínu mati hefur þrennt gerst í sumar og í upphafi móts sem hefur sannfært mig um að titilvonir eru óþarfar í ár:

 1. United, City, Chelsea, Arsenal og Tottenham styrktu sig öll verulega og voru þó með sterkari lið en við fyrir.
 2. Það eru enn holur í okkar leikmannahópi eftir sumarið.
 3. Þetta tap gegn Burnley sýndi að liðið glímir enn við skort á stöðugleika milli leikja. Ef slík frammistaða gat átt sér stað í öðrum leik tímabilsins þá mun hún eiga sér stað aftur í nokkur skipti næstu níu mánuðina, og það mun kosta okkur.

Verum raunsæ. Liðið byrjaði mótið á þremur útileikjum í röð og það var frábært að ná 4 stigum gegn Tottenham og Arsenal, tveimur af þremur efstu liðum deildarinnar í vor. En liðið er engu að síður bara með 4 stig af 9 eftir 3 umferðir, í neðri hluta deildarinnar, með meira en helmingi færri stig en stórliðin þrjú og með alla hina keppinautana líka fyrir ofan sig.

Það er einfaldlega tímasóun að vonast eftir eða ætlast til titilbaráttu í vetur. Því fyrr sem fólk áttar sig á því, því fyrr getur það farið að stilla væntingarnar eftir raunsæi og einbeita sér að því að njóta sóknarleiksins sem Klopp mun bjóða upp á.

10 – Ég hlakka til tímabilsins!

Raunhæfar væntingar eru góðar og hollar en það má líka láta sig dreyma. Með þetta sóknarlið og Klopp á hliðarlínunni ætla ég að geyma þá staðreynd að þetta lið muni gera okkur drullupirruð einu sinni í mánuði eða svo á bak við eyrað og einbeita mér að því að skemmta mér eins og ég get við að horfa á þetta lið í vetur. Síðasti vetur var líka stórskemmtilegur þótt útkoman hafi verið rýr þegar upp var staðið. Ég býst við meiru af því sama hjá Klopp í vetur og þótt ég átti mig á að Klopp þarf fleiri glugga til að móta liðið í sinni mynd þá hef ég trú á þessu liði í vetur.

Barátta um topp fjóra og báða bikara, takk. Það væri frábært að vinna bikar og ná topp fjórum. Búumst bara ekki við of miklu, of snemma hjá Klopp. Þetta mun taka tíma. En það verður gaman að fylgjast með liðinu á meðan við „bíðum“ í vetur!

YNWA

29 Comments

 1. Ég vildi ekki blanda FSG í þennan pistil en örstutt um þann hluta umræðunnar:

  Mér finnst FSG hafa rekið fyrirtækið LFC nánast eins vel og hægt er að reka það frá kaupum haustið 2010. Þeir eru að gera hlutina frábærlega utan vallar og ég er hæstánægður með þá sem eigendur. Það hafa verið gerð mistök knattspyrnumegin við reksturinn en á heildina er ég ánægður með þá þar líka, þótt transfer-nefndin haldi áfram að vera skrýtin.

  Hvað á maður svo að segja með sumarið? Er það neikvætt að liðið hafi eytt minnu en það fékk inn í kassann á móti eða er það jákvætt að tekist hafi að fá svona gott verð fyrir leikmenn sem Klopp vildi ekki nota? Sennilega er svarið bæði. Bæði neikvætt og jákvætt.

  Hvort það er ákvörðun Klopp eða FSG að eyða ekki meiru í bili getum við bara giskað en ég verð að viðurkenna að, með hliðsjón af nettó “gróðanum” í sumar, þá finnst mér mjög skrýtið að það hafi ekki verið hægt að finna vinstri bakvörð neins staðar í heiminum sem er betri en miðjumaðurinn James Milner í stöðuna.

  Kannski ákvað Klopp bara að bíða eftir réttum leikmönnum frekar en að kaupa bara einhvern. Kannski er það ekki tilviljun að eyðslan er í plús akkúrat sumarið sem Liverpool missti alveg af Evrópu og FSG settu pening í að stækka völlinn. Kannski eru þessir peningar ekki til fyrr en næsta sumar þegar búið verður að selja nafnaréttinn á nýju stúkuna og liðið (vonandi) komið aftur í Meistaradeildina.

  Hver svo sem ástæðan er þá verðum við að sýna þolinmæði því staðan er bara eins og hún er í dag. Annað hvort vildi Klopp bíða frekar en að kaupa bara einhvern eða þá að eigendurnir þurftu að halda að sér höndum til að komast yfir stækkun vallarins. Bæði svörin kalla á þolinmæði.

  Þess vegna ætla ég að stilla væntingunum í hóf og reyna að njóta knattspyrnunnar í vetur án þess að vera orðinn hoppandi brjálaður strax í september eða október þegar titilbaráttan fjarlægist okkur meir og meir.

  Ég mæli svo að lokum með þessu myndbandi um eignarhald Liverpool. Það útskýrir vel hvernig FSG reka klúbbinn og hvað þeir eru að gera gott:

  https://www.youtube.com/watch?v=Ht_wcv5aXAU

 2. Takk fyrir þennan pistil Kristján. Held að þetta sé bara algjörlega spot on.

  Tímabilið gæti farið á alls konar vegu. Liðið gæti sprungið út, verið mikið til laust við meiðsli og í framhaldi kæmi góður árangur. Eða að meiðsli og önnur óáran haldi áfram að herja á liðið, lélegir leikir verði fleiri en færri etc.

  Bottom line er auðvitað að maður þarf bara að njóta þess að fylgjast með liðinu.

 3. Mjög flottur pistill Kristján og að mörgu leiti eins og talað úr mínu höfði. JK hefur sjálfur sagt að núna hafi hann engar afsakanir, í vetur muni hans lið vera á vellinum og ég eins og aðrir púlarar sjálfsagt, er spenntur að sjá hvað það þýðir. Ég hef leyft JK að njóta vafans í sumar og ætla að leyfa hans verkum að tala í vetur. Menn eins og Klavan, Grujic og Matip þekkti ég ekki neitt en við skulum sjá hvað það var sem kallinn sá í þeim áður en við fellum dóma.

  En að þessu sögðu þá er ég sömu skoðunar og Kristján Atli og tel að við séum ekki tilbúnir í alvöru atlögu að titli. Ég held sömuleiðis að það séur önnur lið líklegri en LFC í að ná efstu fjórum sætunum.

  Með væntingarnar á þessum stað hlakka ég samt gríðarlega mikið til að horfa á skemmtilegan bolta í vetur og er ekki í nokkrum vafa um að leikir LFC muni verða mikil og góð skemmtun, og það er það sem þetta snýst um, að horfa á skemmtilega fótboltaleiki, ekki satt ?

 4. Ein ríkis stefna Kristján Atli… allir sammála þeim sem ritar. Ok, ok ég er sammála þér um markt og líka að Klopp er frábær? Það minnkar ekki hans ágæti þó einhver annar standi honum við hlið jafn góður eða eitthvað betri, það bætir bara á áræðnina hjá Klopp að gera enn betur og hann eins og allt liðið þarf samkeppni til að blómstra.

  Samkeppni um stöður innan liðsins er meiri nú en á síðasta tímabili að mínu mati og að því gefnu að við missum ekki marga leikmenn í meiðsli eins og í fyrra. Athyglisvert að af þessum 7 leikmönnum sem eru komnir (með Gujic) þá eru 2 markmenn, 3 miðjumenn og 2 hafsentar, það er kaup í bara 3-4 stöður á vellinum. Hins vegar eru þessir úti-leikmenn færir um að geta spilað fleiri en eina stöðu á vellinum.

  Smá áhyggjur hef ég af vinstri og hægri bakvarðarstöu(ef meisli) en annars mjög sáttur við kaupin í sumar. Matip eru snildar fengur(ekki kaup) að mínu mati og Mane lofar góðu. Wijnaldum, Karius og Gujic eftir að sanna sig fyrir mína parta.

  Liðsheildin er miklu betri en mörg undangengin ár en það sem ég set einna helst spurningarmerki við er hvort leiðtogar og sterkir karakterar stígi upp og keyri liðið áfram þegar á móti blæs. Klopp er klárlega slíkur karakter sem og Can sem lofaði góðu sl. vetur. Milner og Henderson sýna töggur í þessum málum (veit að það vilja margir hrauna yfir Henderson en þetta er mín skoðun) en er það nóg? Gerrard og Carra voru lengi vel nóg en þið þurfum slíka áræðni í liðið.

  Það sem ég er viss um er…. að við fáum fleiri stig en sl. vetur og færri mörk á okkur…100% viss hvað sem öllum pundum og rándýrum þjálfurum líður.

  Klopp er mitt idol núna og vonandi áfram ásamt fullt af Liverpool leikmönnum sem stíga upp í vetur. Fullur bjartsýni og meiri en oft áður.
  YNWA

 5. Frabær pistill….Sa besti ever a thessari sidu…..Einstaklega skynsamleg nalgun.
  Eg er hræddur um ad vørnin se stærsti høfudverkurinn…Serstaklega ef einhver meidsli hja lykilmønnum verda….

 6. Vel skrifað, vel rökstutt.

  Við vitum það klárlega að enn eitt árið erum við pínu að æða út í óvissuna, barátta um topp4 eða hrun og vonbrigði. Þetta lið er ekki að fara að púlla Leicester á þetta, way off.

  Væri topp4 frábært og einn bikar? Já m.v þann mannskap og stöðu sem Liverpool FC er í sem knattspyrnufélag í dag.

  Horfi á alla LFC leiki. Alla. Hlakka alltaf til en kvíði líka því þessi rússíbani sem félagið hefur boðið manni uppá síðustu ár gerir það að verkum.

  Eg hef verið neikvæður því eg sætti mig ekki við neitt annað en að Liverpool komist aftur á stall þeirra bestu, Barca, Real, Juve og Bayern. United stefna þangað, yfirlýst stefna.
  Menn hérna hafa verið að benda mér á að sætta mig við hlutina, þessir dagar eru liðnir og koma kannski aldrei aftur? (ekki með FSG það er ljóst)

  Þá er það bara enn eitt árið – allt nema United.

  YNWA

 7. Við erum sem betur fer með bjögun í átt að jákvæðni. Fjandi góður pistill hjá Kristjáni og ég var bara á því að Liverpool ætti ekki séns.

  En svo mundi ég eftir Leicester, þurfum við ekki að eyða meira en þeir til að vinna?

 8. Klassa pistill. Óvissupunktarnir eru flestir rökræddir á skynsaman hátt.

  Nokkrir þættir sem mig langar að nefna:
  – FSG. Eins og þú segir í kommentinu þá vitum við ekki hvort er, þeir að halda að sér höndum eða Klopp að bíða með kaup. Líklega er þetta beggja blands. Þeir setja ekki mikla peninga í þetta núna vegna stúkubyggingarinnar og mögulega er óskalisti Klopp of dýr fyrir þá.

  – Bakvarðastöðurnar. Það er ljóst að þarna er tekin mikil áhætta. Mögulega sér Klopp þetta þannig að Can geti líka komið í cover hægra megin ef Clyne meiðist. Það er samt mikið tekið af miðjunni með því að hann sé ekki þar.

  – Meiðsli í hópnum. Ég geri fastlega ráð fyrir því að sjúkrateymið hjá Liverpool sé búið að reikna út statistík yfir það hversu mikið leikjaálag skapar af meiðslum. Bara hráa statistík. Ef við spilum 45 leiki á þessu tímabili miðað við 65 á því síðasta þá ætti það að minnka meiðsli í hópnum. Við vitum svosem ekki hverjir meiðast og það er auðvitað mismunandi hversu alvarleg meiðsli tiltekinna leikmanna eru fyrir hópinn. Núna væri t.d. ekkert eins glatað að missa Sturridge í meiðsli eins og það var síðustu tvö árin.

  – Óvissuþættirnir. Matip og Karius eru sannarlega óvissuþættir. Ég hef aldrei séð Karius spila og Matip aðeins gegn Tottenham. In Klopp we trust, já, hann hefur meira vit á fótbolta en við hérna. Wijnaldum er út af fyrir sig líka óvissuþáttur, sem og Grujic. Henderson líka. Coutinho líka. Ef þessir gæjar ná upp einhverjum stöðugleika í leik sínum þá er bjart framundan, en líkurnar á því að það gerist eru hverfandi. Þar af leiðir að eins og Kristján Atli segir, við munum tapa fyrir Middlesborough, West Ham og Hull. Eða einhverjum af þessum liðum. Síðan munum við líka gera jafntefli við þessi lið. Og tapa fyrir stórliðunum þrátt fyrir að eiga góða leiki.

  – Þegar Liverpool liðið var sem best á undanförnum árum var hryggjarstykkið magnað. Reina-Hyypia-Carragher-Mascherano-Alonso-Gerrard-Torres-Suarez. Ég er ekki á því núna að hryggurinn sé eins sterkur og þessir menn voru og það er kominn tími til að skoða það vandlega. Vonandi verða Grujic og Can magnaðir. Matip og Karius líka. Og auðvitað Origi, Coutinho og Firmino. Og svo stóra spurningarmerkið, Jordan Henderson. Ef það gengur þá verðum við í góðum málum.

  – 4. sætið, fínt. Bikarar, fínt. Annað er ekki hægt að gera kröfu um núna. Ég tek undir með Kristjáni Atla, ég ætla að fara sallarólegur inn í tímabilið og skemmta mér yfir góðu leikjunum en vera rólegur yfir þessum verri. Engan æsing, bara gleði!!

 9. Sælir félagar

  Takk fyrir frábæran pistil og góðar umræður. Það er núna ljóst hvað Klopp er með í höndunum, alla vega fram að janúarglugganum. Miðað við kaupin í sumar er ekki líklegt að stórkaup verði í þeim glugga nema kínamennirnir komi til. Því er það þetta lið sem við munum horfa á næstu 4 mánuðina amk. og eins og Klopp sagði sjálfur þá er þetta liðið hans og engin afsökun fyrir árangurleysi á leiktíðinni.

  Við sjáum til en mín von og spá er þriðja sætið. Það byggist á því að Klopp vinni nánast kraftaverk með þennan hóp og allir spili í það minnsta á hámarksgetu nánast í hverjum leik. Þar munu meiðsli (meiðslaleysi) spila stóra rullu því þessi hópur þolir ekki mikið af meiðslum og síst í vörninni sem er ótrúlega þunnskipuð. Svo þurfa nokkrir leikmenn að ná stöðugleika í sínum leik og þá er ýmislegt mögulegt.

  Það er nú þannig

  YNWA

 10. Engar áhyggjur af sókninni þetta tímabilið sem er bæting. En vörnin… Ég á enn eftir að finna traust frá miðjumönnunum til að vernda hana og ég myndi ekki einu sinni leggja slíkt á Mílanó vörnina uppúr 90′ hvað þá okkar !!
  Einhver sagði að sókn vinnur leiki, en vörn vinnur titla, svo það er best að halda sig á jörðinni um sinn

 11. Vegna skrifa þessa um óbilandi og á köflum blindrar væntingar til Klopp, þá er það bara þannig að stundum er ekkert eftir nema trú og von.
  Rekstur klúbbsins er auðvitað á réttri leið, en á meðan við erum að keppa við þessi fjögur Bayern lið með ungmennafélagsandan einan að vopni þá eigum við einfaldlega ekki séns á titlinum.

  Til að setja þetta í samhengi og það að peningar tryggi ekki titla:
  *Af síðustu 15 titlum hafa 7 titlar komið eftir að hafa eytt mestum pening árið á undan.
  *Af síðustu 15 titlum hafa 11 titlar komið eftir að hafa hafa eytt mestum pening eitthvert 3ja ára á undan. – manutd hefur tekist þetta án þess, fyrst 06/07 og 07/08 en þá höfðu þeir tekið fordæmalaust 4 ára eyðslutímarbil skömmu áður (t.d. Rooney, Piqué, Ronaldo, Ferdinand og Nistelrooy). Fyrir utan það er einu undantekningarnar manutd 12/13 (síðasta snilld AF) og Leiceister 15/16 (þar sem pláneturnar einfaldlega röðuðust rétt upp).
  *BónusWenger og Arsenal hefur “aðeins” unnið tvo titla á þessum 15 árum, og voru þeir eyðslumestu árið á undan fyrri titlinum og þremur árum á undan þeim seinni (taplausa tímabilið) og voru þar að auki með sjóðheitan T.Henry í sínum röðum ásamt Viera, Keown, Bergkamp og hvað þeir heita allir saman.
  *Og síðast en alls ekki síst.. 12 lið af 15 sem hafa verið á toppi eyðslulistans 99/00 – 13/14 hafa unnið titilinn í síðasta lagi þremur árum síðar. Ef manutd og city vinna næstu titla, breytist þetta í 15 af 18.

  Monní talks.

 12. Hugsa að meirihlutinn sé á svipuðum nótum

  1 – In Klopp we trust!
  Það er smá mótsögn að fagna komu Klopp gríðarlega og því sem hann stendur fyrir, segjast treysta honum en gera það svo í raun ekki. Fyrstu fjögur árin hjá Dortmund keypti hann ekki einn leikmann fyrir meira en £5m og engan þekktan leikmann, flestir kostuðu töluvert minna. Liðið vann samt tvo titla á þeim tíma. Reus sem er uppalinn hjá Dortmund voru einu leikmannakaupin fyrir meira en £10 fyrstu fimm árin og samt var selt 1-2 af bestu mönnum liðsins öll árin. Hann losaði á sama tíma út fullt af leikmönnum, sérstaklega fyrsta sumarið rétt eins og hann gerir nú hjá Liverpool.

  Hann er ekkert kraftaverkamaður en við hljótum að hafa þolinmæði í að treysta honum fyrir a.m.k. einum glugga. Það er ekki eins og hann hafi ekkert gert á markaðnum, Liverpool er að kaupa fjóra leikmenn sem við teljum að fari beint í byrjunarliðið. Það er meira en oft áður.

  Varðandi aðra stjóra Liverpool undanfarin ár þá virðist Klopp hafa landað því sem hann vildi fá öfugt við t.a. Rodgers, Benitez og Hollier sem voru alltaf að missa af sínum helstu skotmörkum. Hvort þetta séu nógu metnaðarfull kaup hjá Klopp er eitthvað sem við þurfum einmitt að treysta honum fyrir.

  2 – Það þurfti að fækka í hópnum
  Fór einhver leikmaður í sumar sem við máttum alls ekki við að missa? Liverpool spilaði 13 Evrópuleiki í fyrra sem er gríðarlega mikið ásamt því að fara í úrslit í öðrum bikarnum og langt í hinum, oft var verið að spila þessar keppnir allar nánast í sömu vikunni. Það er alls ekki þörf á eins stórum hóp í vetur og núna því mjög gott tækifæri fyrir Klopp að losa sig við þá sem eru ekki í hans plönum.

  3 – Klopp gerði mikið úr litlu hjá Dortmund
  Já hann gerði mikið úr litlu hjá Dortmund, svo mikið að liðið fór m.a. í úrslit Meistaradeildarinnar og var mjög óheppið að vinna ekki. Þetta sem hann gerði hjá Dortmund er nákvæmlega ástæðan fyrir því að við vildum fá hann til Liverpool, svo mikið að við fylgdumst með flugvélinni fljúga frá Þýskalandi til Liverpool.

  Hann hefur úr meiru að moða hjá Liverpool þó það sé ekki jafn mikið og keppninautarnir hafa. Peningar hafa ekki verið aðalvandamálið hjá Liverpool undanfarin ár og félagið hefur verið að eyða töluvert. Félagið hefur bara farið svo illa með það fé, það er alltaf verið að kaupa leikmenn inn á 4-5 ára samningum sem passa ekki inn í leikstílinn hjá næsta stjóra sem tekur við á 2-3 ára fresti. Andy Carroll, Benteke, Markovic og balotelli kostuðu 103,5 mkr og annað eins í launum. Allir voru hættir að passa í leikaðferð (nýja) stjórans eftir 3-18 mánuði.

  Vonandi erum við núna með stjóra sem verður lengur hjá okkur en þetta og nær miklu meira út úr sínum leikmannakaupum og í mun lengri tíma.

  4 – Sóknarlínan er frábær!
  Meiðsli lykilmanna er aðalástæða þess að Liverpool hefur ekki komist í Meistaradeildina undanfarin ár, hvað þá titilbaráttu. Fjarvera Sturridge 2014-15 kostaði a.m.k. þau 8 stig sem vantaði upp á Meistaradeildarstæði. Balotelli og Lambert fyrir Suarez hjálpaði reyndar alls ekki heldur.
  Fjarvera Sturridge, Origi og Ings kostaði einnig a.m.k. þau sex stig sem uppá vantaði í fyrra en enginn þeirra spilaði meira en 25% af tímabilinu.
  Vonandi er núna búið að laga sóknarleikinn eftir tvö hræðileg tímabil í þeirri deild. Það er lykillinn af betri árangri. Klopp sýndi eftir áramót í fyrra að þetta er á réttri leið.

  5 – Miðjan er spurningarmerki
  Miðjan er engu að síður miklu sterkari en hún var á síðasta tímabili. Ef Henderson er búinn að ná sér af meiðslum er það eitt og sér gríðarleg bæting á miðjunni. Winjaldum fyrir Allen ætti að styrkja þessa deild töluvert einnig, sértaklega sóknarlega. Það hefur vantað mörk frá miðjunni og Wijnaldum er miklu líklegri en Allen. Eins er Lallana farinn að spila mun aftar sem ætti að styrkja okkur sóknarlega á miðjunni
  Grujic lofar svo mjög góðu þó hann sé auðvitað spurningarmerki, Stewart er ári eldri og sæmilegt vara back-up. Emre Can er samt okkar eina alvöru von aftast á miðjunni sem er ansi tæpt en skárra en á síðasta tímabili m.v. ca. 15 færri leiki á þessu tímabili.
  Liverpool er brothætt eins og öll önnur lið fyrir því að missa sína bestu menn í meiðsli.

  6 – Hvað er að frétta með vörnina?
  Þetta fer nú eftir því hvað er mikið í glasinu. Matip er á frábærum aldri og með mikla reynslu úr góðu liði í Þýskalandi. Leikmaður sem Klopp þekkir vel. Held að okkur sé óhætt að búast bara við töluverðri bætingu frá Skrtel þarna. Vonandi sleppur hann við meiðsli því ef við fáum inn miðvörð sem er þokkalega traustur og getur spilað nánast alla leiki er það bæting á því sem við vorum með í fyrra, enginn miðvörður spilaði mikið meira en 20 leiki hver í deild. Það er ávísun á óstöðugleika að hringla endalaust í vörninni.

  Klavan fyrir Toure/Skrtel er meira spurningarmerki en þarna er leikmaður með reynslu sem stjórinn þekkir og ákveður að taka inn. Held samt að þarna hafi Klopp verið að kaupa inn mann sem var hugsaður sem fjórði kostur.

  Dejan Lovren er svo auðvelt að útskýra, hann var mikið betri eftir því sem leið á síðasta tímabil (undir stjórn Klopp) heldur en hann var á sínu fyrsta tímabili (hjá Rodgers). Hann fór að líkjast þeim leikmanni sem var keyptur frá Southamton og sá leikmaður er alveg nógu góður í vörn Liverpool. Þetta er ekkert fyrsti leikmaðurinn sem er of snemmt að afskrifa á fyrstu 12 mánuðum hans hjá klúbbnum.

  Alveg sammála með bakvarðastöðurnar, skil ekki afhverju ekki er hægt að finna leikmenn í þær stöður. Liverpool fer samt nánast eins inn í mótið núna og í fyrra nema bara með ca. 15 færri leiki á dagskrá. Megum (aftur) ekki við neinum meiðslum hérna.

  7 – Markvarðasamkeppnin
  Aðalatriði að mínu mati fyrir sumarið að styrkja þessa stöðu. Þetta er eins og með Matip og Klavan, maður treystir að Klopp þekki sinn markað enda Karius óskrifað blað fyrir okkur sem fylgjumst nánast bara með enska boltanum. Klopp þekkir ágætlega til hjá Mainz!

  Reyndar er stöðugleiki hjá miðvarðarparinu önnur aðferð til að bæta bæði markvörslu og leik bakvarðanna. Hjálpaði Mignolet, Moreno og Clyne ekkert í fyrra að það voru nánast aldrei sömu tveir að spila miðvarðastöðuna milli leikja í fyrra.

  8 – Mænan
  Vonandi betra en í fyrra. Karius og Matip eru auðvitað spurningarmerki en klárlega svigrúm til að vera mikil bæting. Eins eru Henderson og Origi/Sturridge allt leikmenn sem varla var hægt að telja með í fyrra.

  9 – Raunhæfar væntingar
  Erfitt að segja, deildin var það jöfn í fyrra að þrátt fyrir að ná aðeins 8. sæti var Liverpool bara 6 stigum frá Meistaradeildarsæti og enginn af sóknarmönnum liðsins spilaði mikið meira en 25% af tímabilinu. Titilbarátta úr 8.sæti er óraunhæf og Klopp er mjög líklega að hugsa uppbyggingarferlið til lengri tíma en það. FSG líka enda nýbúnir að gera við hann 6 ára samning. Hinsvegar er Meistaradeildarsæti alveg vel mögulegt með þennan hóp og eðlilegra stökk á einu ári úr 8.sæti.

 13. Mikilvægast að hafa plan til að kaupa inn eftir. Þ.e. hvaða eigileikar leikmenn eiga að hafa sem koma inn. Það er þá hægt að vinna í bætingu á liðinu með því að kaupa inn rétta menn hvort sem þeir kosti 4 milljónir eða 44 milljónir. Það hefur loðað við of lengi að það eru keyptir inn leikmenn sem hafa staðið sig vel í öðrum liðum, gerandi allt aðra hluti en ætlast er til af þeim hjá Liverpool fyrir háar fjárhæðir sbr. Carroll og Benteke. Í báðum tilfellum hefðum við verið í betri málum að kaupa mun ódýrari leikmenn sem myndu passa í það hlutverk sem þeim er ætlað.

  Ég held að Klopp viti nákvæmlega hvernig leikmann hann vill í sérhvert hlutverk. Þegar hann kaupir leikmann eru miklar líkur á því að það muni ganga upp þar sem hann er ekki upptekinn af því hvað hann hefur gert hjá liði sem spilar allt annað leikskipulag en hann er að leitast eftir. Það þýðir það líka að stundum getur hann fengið leikmenn sem er vanmetnir, kosta lítið en smell passa inn í það sem hann er að gera.

  Það er líka vert að hafa í huga að það eru margir leikmenn sem hafa gert frábæra hluti hjá Klopp sem hafa svo lítið getað þegar þeir koma í aðra klúbba sbr. Sahin og Kagawa. Þetta eru leikmenn sem voru súperstjörnur í skipulagi Klopp en frekar daprir hjá Liverpool og Utd. Skiptir þá engu hvað þeir kostuðu á hvaða tíma. Lykillinn er að þeir passi fyrir það sem ætlast er til af þeim.

 14. Karius er reyndar handarbrotin en ekki handleggsbrotin það er munur þar á.

 15. Lovren er búinn að spila vel undir stjórn Klopps og vaxið ásmeginn. Það er ekki hann sem er valdurinn á þessum mörkum sem hafa verið að leka inn fyrir Mignolet. Skil ekki þessar efasemdir um hann.

 16. Svo má snúa þessu við. Væri Liverpool endilega eitthvað betur statt ef það hefði keypt t.d John Stones á 50 milljónir punda og David Luiz á 30 milljónir punda ? Þeir báðir eru án nokkurs vafa frábærir varnamenn, en ég sé ekki í fljótu bragði að þeir séu t.d eitthvað mikið betri en Lovren og Matip.

  Eins og þessi svartsýni lýtur út fyrir mér er að Liverpool hefur ekki unnið stóra titilinn í 26 ár og því er það orðið innbyggt í aðhangendur okkar, að okkur hlítur að mistakast eina ferðina enn í ár. Svo sem skiljanlegt en ég held að raunsætt séð er Liverpool einfaldlega óskrifað blað því það hefur ekki ennþá spilað á sinni raunverulegu getu í vetur og á mjög langt í land að komast þangað.

  Reyndar er ég ekkert að gera mér vonir um deildartitilinn en er meira en djéskoti sannfærður um að Liverpool á góðan möguleika á að ná meistaradeildarsæti.

  Þetta er kjörsstaða fyrir Klopp, því núna fær hann mun meiri tíma til að vera með leikmönnum og hans sterkasta svið er einmitt að vera Þjálfari sem gerir leikmenn betri, leik frá leik.

 17. Nú er búið að skera fituna af, nokkrir fara svo næst,,svo verður bætt við eins og þarf. Það er mín spá. Sturridge á ekki eftir að vera lengi , ekki hægt að treysta á hann. ,
  Á Coutinho framtíð fyrir sér ? ,,, ágætis leikmaður en ekki frábær, hann yrði það kannski ef hann myndi nýta betur færin sín og hitta á markið í 5 sinnum af 10 skotum. Núna er það 1x af 20 skotum. Og eins með Firmino? á alltof marga lélega leiki , vantar meira jafnvægi í sinn leik. Eru þetta t.d leikmenn sem við viljum hafa lengur ? þurfum fleiri leikmenn með meira jafnvægi í sinn leik og nýta betur sín færi.

 18. Flottur pistill Kristján, en ég hef verulegar áhyggjur af vörninni. Við vinnum ekki alla leiki 4-3 eða 5-4. Þetta verður okkur að falli í vetur.

 19. Að mínu mati eru FSG ekki að setja nógu mikinn pening í liðið. Þeir eru kannski að reka þetta skynsamlega, út frá viðskiptalegu sjónarmiði, en ég er bara ekki nenna því. Ég vill bara að Liverpool vinni fótboltaleiki og titla. Til þess að það gerist þá þurfa þeir að kaupa betri leikmenn og til þess þarf einfaldlega að setja meira af peningum í leikmenn.

  Sennilega munu FSG aldrei reka klúbbinn undir núllinum (setja sjálfir pening þar inn) og er ég ansi hræddur um að við þurfum bíða eftir einhverjum sykurpabba til þess að hægt sé að keppa við hin stóru liðin um titla (nema kannski einn og einn bikar).

 20. 1 – In Klopp we trust!
  Við erum að leggja gífurlega mikið traust á hendur Jurgen Klopp núna. Liverpool fékk loksins “sinn mann”, þar sem hann virðist hafa verið kostur númer eitt í mörg ár og er loksins kominn. Því bregst Liverpool við með því að gefa honum rosalega mikið svigrúm, pláss og traust til að gera Klopp-hluti við þetta lið.

  Hann var svo nálægt því að ná svo góðu fyrstu leiktíð í fyrra. Svo nálægt, svo fucking gremjulega nálægt. Ef út í það er farið þá var það ekki “hans” lið, hann keypti engan og fékk afar lítinn tíma með leikmönnum í undirbúning, æfingar eða eitthvað þess háttar. Hann fékk að kynnast þessum hóp og fékk gífurlegt traust frá Liverpool til að gera það sem hann vildi – og áður en þetta byrjaði af alvöru þá fékk hann nýjan sex ára samning. Liverpool virðist næstum ætla að setja öll egg sín í körfu Klopp.

  Finnst hann frábær og líklega fullkomið fit fyrir félagið og okkur stuðningsmenn á þessum tíma. Hann hefur svo, svo, svo, svo mikla trú á sjálfum sér og aðstoðarmönnum sínum sem þjálfarar og þeirra secret ingredient er æfingasvæðið og að þjálfa leikmenn sína upp. Kaup virðast nokkurn veginn frekar vera eitthvað sem gripið hefur verið til ef þarf að fá einhverja ákveðna þætti frá leikmönnum sem ekki er að finna innan raða félagsins. Það eru nær engin kaup hingað til með eru eitthvað augljóst “upgrade” á annan leikmann, þetta er mest allt leikmenn sem eru góðir í einhverju öðru en þeir sem fóru.

  Þessi hópur skal þjálfaður, slípaður til og þarf að erfiða til að ná árangri. Það er ekki galopnað veskið til að fá árangur – hann mun þurfa að kosta blóð, tár og anskoti mikið af svita frá leikmönnum!

  In Klopp we trust – það er víst bara eitthvað sem við þurfum að gera þó við eigum að sjálfsögðu ekki endilega að vera sammála öllu því sem hann gerir eða gerir ekki.

  2 – Það þurfti að fækka í hópnum

  Alveg klárlega. Hugsanlega 15-25 færri leikir eða eitthvað í vetur eftir því hvernig gengur í bikarkeppnunum. Það þarf klárlega að skera niður í hópnum ef ekki er hægt að gefa mínútur. Það er bara ekkert gagn í því fyrir Liverpool eða t.d. Benteke ef hann er svo aftarlega í goggunarröðinni að hann er ekki einu sinni í hóp megnið af leikjunum í vetur.

  Það þarf að minnka hópinn, Klopp hefur fengið tíma til að skoða hópinn up close og vega og meta. Nú hefur hann verið að snyrta í blómabeðinu sínu og er búinn að rífa í burtu arfan og illgresið, plantað nokkrum fræjum og mun nú rækta eitthvað fallegt handa okkur.

  Enginn leikmaður sem við höfum látið fara í sumar fær mig til að halda að við höfum gert eitthvað stór mistök. Við höfum látið 13 leikmenn fara en enginn lykilmaður – þó ég ætla að koma með þá sleggju að segja að Benteke hafi verið í lykilhlutverki hjá okkur á síðustu leiktíð og unnið fleiri stig fyrir félagið með “direct winners/equalizers” en aðrir framherjar liðsins. Allen, Benteke, Ibe, Markovic… Æ, mér er nokkuð sama og held við munum ekki sakna þeirra mikið, ef eitthvað.

  3 – Klopp gerði mikið úr litlu hjá Dortmund

  Sammála því hvað Kristján fer inn á hérna. Það er svakalega erfitt að slá við þessum peningaveldum í Englandi – tja, eða bara wherever. Spánn, Ítalía, Þýskaland eða Ísland. Þú getur átt tímabil eins og Stjarnan, Leicester, Atletico Madrid, Dortmund og svona en það er kannski “auðveldi” parturinn – að endurheimta þennan titil á næstu árum er það sem er erfiðast því þessi “stærri” og ríkari félög gefa bara í.

  Við gætum alveg endað á að vinna deildina í ár, við gætum átt annað 08/09 eða 13/14 tímabil og verið hársbreidd frá þessu en að fylgja svona tímabili eftir þá þarftu yfirleitt að opna veskið og viðhalda þessu. Hin liðin stoppa ekki og svigrúmið til mistaka er lítið sem ekki neitt nema þú sért tilbúinn að eyða helling til að leiðrétta/fyrirbyggja þau.

  4 – Sóknarlínan er frábær!

  Hún er það. Ekkert smá líka. Hún er mjög spennandi og breiddin og þess háttar í henni er meiri en hún hefur verið í mörg, mörg ár. Það eru fullt af mörkum í þessu liði og við höfum verið að skora mörg mörk frá því að Klopp tók við og munum halda því áfram.

  Mitt helsta áhyggjuefni varðandi sóknarlínuna er að hún er kannski nokkuð samsett af leikmönnum sem hafa sögu af því að skora í köflum frekar en heilt og dreift yfir alla leiktíðina eins og t.d. Kane, Zlatan, Aguero og fleiri hafa verið að gera. Það er alveg hættan á því að tómatsósu-effektið muni líta dagsins ljós í vetur, það munu koma Burnley leikir og svo koma stórsigrar. Það kemur ekkert og svo kemur allt.

  Ég veit ekki hvernig það er með sóknarlínuna okkar og 20 marka menn en það eru alveg örugglega 6-8 leikmenn í þessum leikmannahóp sem hafa potential-inn til að skora yfir tíu mörk hver. Við áttum marga slíka í fyrra og það minnkar ekki við að fá t.d. Ings, Mane og Wijnaldum inn í þetta.

  5 – Miðjan er spurningarmerki

  Hún er það, ekki spurning. Ég átti nú svo sem aldrei von á einhverjum varnartengilið á miðjuna en ég átti von á því að við myndum fá einhvern “leikstjórnanda” á miðjuna og þá líklega einhvern með svipaðan stíl og Gundongan í liði Klopp. Can búinn að vera meiddur en kemur klárlega inn þegar hann er klár og verður lykilmaður á miðjunni en hvar í ósköpunum?

  Klopp, þjálfarinn og hugsuðurinn, er að nota Henderson í djúpa miðjumanninum. Rodgers notaði Gerrard í slíku hlutverki 13/14 og voru menn ekki alveg sammála þeirri ákvörðun lengi vel en þetta kom okkur nálægt titlinum og Gerrard átti frábært tímabil og náði þetta miklu út úr öðrum leikmönnum liðsins. Kannski hefur Klopp eitthvað svipað í huga með Henderson í þessu hlutverki, við sjáum það kannski ekki auðveldlega en það á greinilega að vera eitthvað þarna sem gæti látið okkur tikka. Sjáum til.

  Það var í einhverjum æfingaleik þar sem Henderson og Can voru saman á miðjunni en kannski frekar óvænt þá var Can fyrir framan Henderson og spurning hvort það sé komið til að vera. Adam Lallana og Wijnaldum eru nú orðnir 2/3 af þriggja manna miðju. Hefði nú ekki giskað á það en er alveg hrifinn af því að færa Lallana neðar í svona hlutverk sem og kannski Wijnaldum en nær svona miðja nægum balance? Sjáum til.

  Miðjan er klárlega spurningamerki og virðist ætla verða frekar óhefðbundin sett upp og líklega ekki eitthvað sem maður reiknaði með. Á síðustu leiktíð virtist Klopp reyna að spila frekar með tvo á miðjunni en nú virðast þeir þrír. Áhugavert. Stórt spurningamerki en mjög áhugavert og spennandi.

  6 – Hvað er að frétta með vörnina?

  Klavan kemur klárlega frekar óvæntur þarna inn – sérstaklega ef hann kemur til með að vera þriðji kosturinn þarna á undan Sakho en fine, hann hefur litið ágætlega út á köflum hingað til og virðist ágætur skammtíma/medium lausn fyrir liðið. Fínn á bolta, sterkur í lofti en kannski stærsta spurningamerkið er hversu góður er hann í raun og veru.

  Hef ekkert á móti því að hafa Lovren þarna. Byrjaði skelfilega hjá Liverpool en unnið sig inn og farinn að minna á þann Lovren sem við ákváðum að kaupa. Ekki fullkominn en mér persónulega finnst hann ekkert áberandi vandamál. Sakho frábær varnarmaður en skil alveg á vissan hátt af hverju Klopp gæti verið/er hrifnari af Lovren en honum – og ekki hjálpar þetta drama í kringum hann síðustu vikur og mánuði.

  Matip lítur vel út og er flottur varnarmaður. Gæti orðið alveg frábær kaup fyrir okkur þar sem hann kom á frjálsri sölu í markaði þar sem góðir/efnilegir miðverðir voru að fara á 30-50 milljónir punda. Á mjög góðum aldri, með mikla reynslu og hæfileika, var einn af betri miðvörðum þýsku deildarinnar í fyrra og hefði klárlega kostað okkur töluvert ef hann hefði verið seldur en ekki samningslaus í sumar.

  Toure og Skrtel fara fyrir Klavan og Matip. Lucas verður þarna líka og átti fín moment í miðverðinum á síðustu leiktíð en er nú ekkert hrikalega spennandi kostur. Gomez og Sakho eru svakalega stór spurningamerki í miðvarðarstöðunni, líklega meira svo en hinir fjórir sem koma til greina.

  Clyne er eins solid og maður getur farið fram á. Ekkert vandamál með hann (finnst hann btw vera farinn að koma með betri sendingar og fyrirgjafir í boxið undanfarið, það er flott) en vinstri bakvörðurinn og breiddin í bakvörðunum er klárlega áhyggjuefni. Klopp sér eiginleika í Milner í bakverðinum og virðist meta þá það mikils að hann vildi ekki kaupa vinstri bakvörð bara “af því að”. Mikil áhætta. Fannst afar áhugavert þegar Milner var að tala um þetta hlutverk um daginn og sagði að Klopp hafi viljað hafa hann þarna því hann sé betri í vörninni. Ef miðjumaður er betri í vörn en varnarmaður, þarf þá varnarmaðurinn ekki að fara að hugsa sinn gang alvarlega?

  7 – Markvarðasamkeppnin

  Flott. Karius er mjög spennandi markvörður og kemur líklega til með að verða markvörður okkar næstu árin ef allt fer að óskum. Manninger kemur inn með svakalega reynslu og sem mjög solid. Fór nánar út í áhrif þessara markvarðaróteringu liðsins í sumar í þessari færslu: http://www.kop.is/2016/07/11/breytingar-a-markvardarstodu-manninger-ad-koma/

  8 – Mænan

  Var klárlega bætt aðeins í hana og virðast fjórir af þessum sjö sem komu í sumar virðast detta inn í stór hlutverk. Það er fínt, það myndast engin skjálftavirkni út af þessari mænu liðsins en Klopp getur byggt lið sitt í kringum leikmenn eins og Karius, Matip+Lovren, Clyne, Firmino, Coutinho, Wijnaldum, Mane og Can. Finnst það alveg mjög spennandi hópur til að byggja á, kemur í ljós hvort hann muni skila árangri strax eða hvort það taki tíma.

  [img]https://pbs.twimg.com/media/CrREWoPWEAAk2Jc.jpg[/img]

  Rakst á áhugaverða mynd sem sýnir hvernig samsetning liðanna í deildinni er hvað aldur varðar. Liverpool er með afar fáa “gamla” leikmenn í sínum röðum og ef við lítum á þessa mynd þá má sjá að Liverpool-liðið er mikið byggt upp á leikmönnum sem eru líklega á “peak” árum sínum eða við það að komast á það stig. Þeir sem ég taldi upp þarna áðan eru allir 27 ára eða yngri, flestir á bilinu 23-26. Það er bara mjög fínn aldur finnst mér.

  Mænan er fín, kannski þarf eitthvað meira einhvers staðar til að láta þetta fúnkera en þessi hópur er mjög flottur. Sjáum til hvernig gengur að láta þetta tikka.

  9 – Raunhæfar væntingar

  Titillinn kemur líklega ekki þetta árið. Það þarf anskoti mikið að smella hjá Liverpool og líklega eitthvað að klikka hjá einhverjum af keppinautunum. Reyndar held ég að gæðin í þessu liði gætu orðið það mikil að ef við gerum okkar þá gætum við farið afar, afar langt en það þarf hellings erfiði, vinnu og stöðugleika til að það gangi eftir.

  Mínar væntingar og kröfur eru að liðið taki skref fram á við frá síðustu leiktíð og finnst mér tvennt í boði sem raunhæf krafa til leiktíðar. Það er engin Evrópudeild, við erum með ágætis breidd og oft góður tími á milli leikja – við ættum og eigum að berjast ofarlega í deildinni. Titillinn kannski langsóttur en við eigum að mínmu mati að vera í þessari topp fjögur baráttu til enda leiktíðar. Gætum náð því eða ekki en við eigum að vera miklu, miklu nær en í fyrra.

  Hitt dæmið og kannski enn mikilvægara en Meistaradeildarsæti fyrir leikmannahópinn sem er til staðar í dag held ég að sé að gera það sem liðið náði ekki að gera í fyrra í tveimur tilraunum. Að vinna bikar. Við þurfum og eigum að taka bikarkeppnirnar mjög alvarlega og reyna að fara alla leið í þeim báðum og klára dæmið í þetta skiptið. Þetta lið þarf sárlega á reynslu af því að lyfta bikarnum, þeir vita hvernig það er að tapa þessum leikjum og nú þurfa þeir að fá blóð á tennurnar og upplifa sigurtilfinninguna.

  Mínar kröfur og væntingar eru jákvætt, stórt og öruggt skref fram á við í vetur. Gera okkar besta og sjá hvert það kemur okkur – ég held að það gæti alveg vel komið okkur á óvart hvað býr í þessu liði.

  10 – Ég hlakka til tímabilsins!

  FUCK JÁ! Það er alltaf langt í næsta leik, held þetta gæti orðið mjög skemmtilegt tímabil hjá Liverpool. Fullt af skemmtilegum leikjum, flottum fótbolta og mikið líf og fjör – vonandi að árangurinn muni fylgja með.

 21. Þvílík endemis vitleysa.

  “sjarmi yfir röngum dómum”. Rosalegur sjarmi yfir því þegar einhver dýfir sér án snertingar og fær víti ?

  Þetta þarf ekkert að taka svona langann tíma, verður meira fluid.

 22. Sammála Sigga. Það er nákvæmlega ekkert rómantískt að tapa stigum eða jafnvel titlum á röngum dómun. Auk þess tók það ekki nema 25 sekúndur frá því hann gaf merki um að hann ætlaði að kíkja á skjáinn þar til hann tók upp rauða spjaldið. Það er tittlingaskítur miðað við að annars hefði leikmaður hangið ranglega inná í heilan klukkutíma í viðbót.

 23. Ef að FSG kaupir aldrei aftur leikmann hjá Mino Raiola þá er ég nokkuð sáttur með þá.

Gluggavaktin: Ágúst 2016!

Spá Kop.is – fyrri hluti