Deildarbikarinn rúllar af stað

Fyrsti leikur í deildarbikarnum fer fram Pirelli leikvanginum í Burton. Þessi völlur tekur tæplega 7.000 manns, þar af um 2.000 í sæti. Ég verð að viðurkenna það að áður en ég hóf að skrifa þessa upphitun, þá var ég þess fullviss um að Burton væri annað hvort utandeildarlið eða úr neðstu deild deildarkeppninnar. Nei, heldur betur ekki, þeir eru í næst efstu deild. Þetta hefur verið mikið öskubuskuævintýri hjá þeim, því þeir voru utan deilda 2009, fyrir aðeins um 7 árum síðan. Á síðasta tímabili komst liðið í fyrsta skipti í sögu þess upp í næst efstu deild með því að lenda í öðru sæti C deildarinnar. Liðið er engu að síður stofnað 1950, þannig að það er ekki eins og að það sé glænýtt. Þeir hafa hoppað upp um deild síðustu 2 árin og eru komnir á þessar ótrúlegu slóðir.

Stjóri Burton er Nigel Clough, en hann spilaði um tíma með Liverpool. Hann markaði ekki djúp sport í sögu félagsins og telst líklegast sem nokkuð flopp þar sem hann kostaði talsverða peninga á sínum tíma en átti afar erfitt með að standa undir væntingum. Þjálfaraferill hans hefur svo verið upp og niður, en hann afrekaði það að koma liðinu upp á fyrsta tímabili sínu eftir að hafa komið til liðs við þá aftur. Já, hann stýrði þeim líka á sínum tíma í utandeildinni með fínum árangri í kringum síðustu aldamót.

Eitt er víst, ég veit ekki meir um þann leikmannahóp sem Burton hefur á að skipa. Þegar ég renni yfir listann hjá þeim þá eru þar 2 nöfn sem mig rekur minni í að hafa séð áður á lífsleiðinni. Ben Turner spilaði á tíma með Cardiff og Stephen Bywater er 35 ára gamall markvörður sem ég man eftir nafninu á. Þar með er það upp talið. Miðað við Wikipedia, þá er Stuart Beavon þeirra besti leikmaður. 32 ára gamall framherji sem hefur verið valinn leikmaður ársins hjá þeim síðustu tvö árin. Hann hefur spilað 68 leiki fyrir Burton og skorað í þeim 12 mörk. Ef ég færi að fara eitthvað meira út í leikmenn þeirra þá yrði það fyrst og fremst þurr þýðing upp úr fyrrnefndri síðu. Burton hafa spilað 4 leiki í Championship deildinni. Þeir unnu Sheffield Wednesday 3-1 á heimavelli, gerðu 2-2 jafntefli við Blackburn, en töpuðu 1-2 fyrir Bristol City og 4-3 fyrir Nottingham Forest. Greinilega hasar í leikjum þeirra og slatti af mörkum. Þeir mörðu C deildar lið Bury í síðustu umferð, 3-2 í framlengdum leik.

Það er alveg ljóst að ef Klopp ætlar sér stóra hluti í bikarkeppnunum, þá verður þessi leikur ekkert “walk in the park”. Lið sem er deild fyrir neðan Liverpool og eru að mæta í líklegast sinn stærsta leik í sögu félagsins. Þeir munu gefa gjörsamlega allt í þennan leik og þó svo að ég sé viss um að Klopp ætli sér að nota hópinn sinn vel, þá getur hann ekki leyft sér neina tilraunastarfsemi. Það má þó fastlega búast við því að leikmenn sem lítið hafa spilað, fái tækifæri á að láta ljós sitt skína. Það er með öðrum orðum alveg líffræðilega útilokað að giska á rétt byrjunarlið fyrir þennan leik. Mané, Ojo, Karius, Lucas, Gomez og Sakho eru frá vegna meiðsla, það er nokkuð ljóst. Spurningin er hvort að menn eins og Manninger, Ilori, Wisdom, Randall, Alexander-Arnold, Grujic, Stewart, Markovic, Chirivella, Brannagan, Origi, Ings og Balotelli (nei djók) fái núna sénsinn? Niðurstaðan verður væntanlega að þetta verði blandað lið.

Hann Simon okkar í markinu hefur afrekað það að síðustu 5 skot sem hafa hitt á markið hafa orðið mörk. Það er algjörlega fáránleg tölfræði. Ég sá ekki þennan Burnley leik og veit því ekki hvort hann gat gert eitthvað í þessum mörkum, en þessi tölfræði er hreint út sagt fáránleg. Með róteringu núna, þá er ekki verið að hugsa um hvíld, því það er lítið af leikjum þar sem liðið er ekki í Evrópukeppni. Þetta snýst meira um að menn fái tækifæri. Ég held að Manningar sé kominn til að sitja á bekknum og væntanlega verður Mignolet gefinn sénsinn áfram. En Guðmundur góður hvað það verður létt verk fyrir Karius að labba inn í liðið ef lítil breyting verður á í markagjöfum á næstunni. Ég reikna með að Clyne og Moreno taki bakvarðarstöðurnar, Matip komi inn í miðvarðarstöðuna og ég reikna með að Lovren haldi sínu sæti.

Málið vandast enn meir þegar framar er komið, en ég reikna engu að síður fastlega með því að Emre Can og Grujic fái að spreyta sig á miðjusvæðinu og líklegast verður Milner þar með þeim. Markovic og Danny Ings verða væng framherjar og Origi uppi á topp. Ég yrði afar sáttur með að 25% af þessari uppstillingu væri rétt hjá mér, það yrði hörku gisk árangur.

Ég ætla að spá þessu svona:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Moreno

Grujic – Can – Milner

Markovic – Origi – Ings

Það er nokkuð ljóst mál að leikmenn okkar liðs verða með boltann löngum stundum og menn verða að bregðast betur við því en gegn Burnley. 81% posession á að skila helling af dauðafærum og slatta af mörkum. Vonandi varð skita helgarinnar til þess að menn rífi sig upp á rasshárunum og fari að spila eins og menn. Hápressan hjá Klopp virkar illa þegar lið leggja rútunni og hann verður bara að gjöra svo vel að finna lausnir á slíku. Ég ætla að giska á að hann geri það og við klárum þennan leik nokkuð auðveldlega með 3-0 sigri. Eigum við ekki að segja að Ings, Origi og Grujic skori mörkin.

23 Comments

  1. Eina ástæðan fyrir því að ég er spenntur fyrir þessum leik er sú staðreynd að eftir leikinn verða minningar helgarinnar ekki eins ofarlega í huga mínum.

    Það litla sem ég hef lesið um þetta lið segir mér að þeir hafa ekki tekið atvinnuréttindi í að leggja rútu.

    Einnig reikna ég með að byrjunarliðið okkar verði mun sterkara en ef við værum í Evrópukeppni þannig að þetta gæti því verið fínasta skemmtun!!

  2. Ég hef trú á Klopp og eins og hann sagði sjálfur, þá trúir hann á að það sé hægt t.d að laga varnarleikinn á ævingasvæðinu.

    Til þess að þessi leikur vinnist, má ekki tapa boltanum eina ferðina enn á hættusvæðinu eins og gerðist í fyrsta markinu gegn Burnley, þegar er verið að senda boltann úr vörninni og ég tala nú ekki um að fá mark á sig eftir fyrstu 5-6 minúturnar.

    Þessir bikarleikir eru svínslega erfiðir. Burton hefur allt að vinna og Liverpool öllu að tapa. Þeir leggja allt í sölunar á meðan Leikmenn Liverpool þurfa að gíra sig upp fyrir leikinn.

    Ég spái þessu byrjunarliði

    Mignolet

    Alexsander -Arnold – Klavan – Matip – Moreno

    Steward – Can – Grjujic

    Marcovic- Origi – Ings

  3. Í mínum huga er þetta “season defining game”!

    Ef við vinnum sannfærandi kemur trú á verkefnið. Ef þetta tapast er hætt við að erfitt verði að rífa upp trú leikmanna og aðdáenda.

    Ég á því von á mjög sterku liði, með 4 breytingum frá um helgina.

  4. En svo var annað sem ég var að spá. Eru menn hissa á að það dugi liðum almennt að fá horn eða aukaspyrnur til að skora hjá okkur? Ef liðið léki í bláum og hvítum búningum væru þetta alveg eins og strumparnir ?

    Klopp vildi bæta hæðina á loðinu og gerði það í janúar og í sumar, en þeir menn hafa fæstir spilað. Við erum því enn með coutinho, lallana, firminio og félaga að verjast föstum leikatriðum!

    Þarf varla að taka fram að sama gildir á hinum enda vallarins, en ef matip, grujic, can og origi komast af stað er staðan strax mun betri.

  5. Menn spá í leikinn, sem er gott, en af hverju ekki að nota postulínsdúkkuna hann Daniel Sturridge? Veitir honum nokkuð af smá æfingu í að skora mörk? Eða er hann ” of góður” fyrir þetta lið?

  6. Klopp er búinn að lýsa því yfir að það verði ekki margar breytingar á liðinu. Jafnframt að Origi eigi eitthvað í að ná sínu besta formi. Ég spái því að Matip, Can og Grujic komi inn og Klopp muni stilla upp sterku liði.

  7. Nokkuð ljóst að Sakho verður ekki í liðinu og samkvæmt bresku pressunni er hann á leið í lán! Kannski þess vegna sem Lucas salan til Tyrklands var stoppuð af.
    Leikurinn á morgun spennandi fyrir þær sakir að munaður fær að sjá Matip og Grujic en mjög spenntur fyrir guttanum en hef ekki séð neitt til Matip. Ings virðist vera að fara að spila þar sem hann var á æfingu í dag en ekki með U23 liðinu.

  8. Eg vill endilega sjá Grujic á miðjunni í þessum leik, líka Sturridge og Origi báða frammi. Sækja til sigurs , skora mörk og fyrir alla muni halda hreinu.

  9. Hvada rugl og þvæla er tad ad menn ætli ad làna sakho sem er okkar besti varnarmadur. Þetta bara hlytur ad vera brandari . Midad vid þà midverdi sem vid eigum plùs tad ad midverdir okkar eru alltaf meiddir til skiptis þa hlytur tetta ad vera algjort rugl. Allavega ef eitthvad er til i tessu tà hlytur ad vera ad Klopp se ad kaupa einhvern rosalegan hafsent

  10. Spái þessu 1-2 fyrir LFC í strembnum leik.
    Líklegra að Mignolet verði fyrir eldingu í leik heldur en að halda hreinu.

  11. Leiðréttið mig ef ég er að rugla, en er þetta ekki liðið sem United mætti í bikarnum fyrir nokkrum árum og voru heppnir að ná 1-1 jafntefli úti. Unnu seinni leikinn 5-0 reyndar.

    Takk fyrir góða upphitun, vona að liðið verði nákvæmlega eins og það er í upphituninni. Ef menn eru ekki peppaðir í að bæta upp fyrir hrakfarir helgarinnar er eitthvað að. Annaðhvort töpum við 2-1 eða hreinlega rústum þeim.

  12. Þrátt fyrir að móralinn sé ekki sem bestur eftir ófarirnar í Burnely þá er Liverpool bara aaaalotf stór biti fyrir Burton. 1-5 sigur í þægilegum leik, frábært tækifæri fyrir ‘minni’ spámenn að sýna sig og sanna.

  13. #2 Ég veit að það gekk ekki vel hjá okkur að skora mörk í síðasta leik en efast um að við fáum að byrja 12 inn á vellinum. 🙂

    Þetta á bara að vera skyldusigur en það er akkurat þessvegna sem ég er stressaður. Ef þetta væri eitt af stærri liðunum í PL að þá væri ég mun rólegri.
    Nú þarf Klopp bara að taka hárblásarann fyrir leik og vera leiðtoginn í klefanum sem hefur vantað í þessum leikjum. Síðan er bara að vona að einhver geti stigið upp í þessum leik og öskrað menn áfram inn á vellinum.

  14. Liverpool er lélegt á móti smá liðum og frábært á móti stærri liðum svo að þetta er tap fyrir okkur 3-2

  15. Útúrsnúningur:

    Skil ekki alveg hvað LFC græðir á að setja Sakho á lán. Frábær miðvörður á sínum degi og eins alveg agalega slappur þegar hann er ekki á sínum degi. En því miður þá er hann bara ekki með hausinn í lagi og ef það er ekki hægt að laga það þá eigum við bara að selja hann.

    Hann er 26 ára og átti að vera efni í framtíðar kaptein hjá okkur en í alvöru talað þá hefur hann bara ekki staðist væntingar síðan hann var fenginn til klúbbsins. Meiðsli hafa vissulega spilað stórann þátt í því en það er nú það, það er ekki hægt að treysta á menn sem spila bara 20 leiki á tímabili eins og við hjá LFC ættum nú þegar að þekkja ansi vel!

    Ég er á því máli að við ættum annaðhvort að halda Sakho (ef hann hefði stöðugleika gæti hann orðið einn besti miðvörður deildarinnar, að mínu mati) eða bara selja hann og kaupa einhvern öflugann í staðinn. Ekki senda hann á lán þar sem hann verður mögulega meiddur hálft tímabil og guð má vita í hvaða andlega ástandi. Þannig á virði hans nefnilega bara eftir að tapast.

  16. Ótrúlegt hvað þessi enski bolti hefur mikil áhrif á mann. Hef verið í hálfgerðri fýlu eftir Burnley leikinn enda hefði sigur í þeim leik verið of mikið gotterí fyrir okkur eftir frækinn sigur á Emirates. Ekki það að svona úrslit séu eitthvað einstök, fótbolti er jú þess eðlis að hægt er að vinna leiki með því að pakka í vörn og nýta færin.

    Hef trú á að Klopp fari að finna liðið sitt en því miður tekur þetta allt tíma. Er mjög spenntur að sjá hvernig þetta tímabil mun þróast þar sem núna getur Klopp haft meiri tíma á milli leikja, eitthvað sem hann hafði ekki á sínu fyrsta tímabili. Er viss um að liðið muni vaxa með hverjum deginum.

    Sigur í kvöld takk fyrir, 1-3. Hef mikla trú á Grujic og vona innilega að hann verði okkar mótor á miðjunni og eins er ég mjög spenntur að sjá hvað Matip hefur fram að færa. Það er kominn tími til að vera með stabílt miðvarðapar og þá mun minna mæða á markverðinum okkar.

  17. Ég er nákvæmlega jafn “spenntur” fyrir deildarbikarnum í vetur og ég var á síðasta tímabilinu, spenntari fyrir því að vinna horn í deildarleik.

    Þetta á að vera keppni til að gefa séns þeim leikmönnum sem ekki eru partur af byrjunarliði næsta deildarleiks í bland við unga leikmenn.

    Myndi skjóta á eitthvað svona

    Mignolet
    Alexander-Arnold – Matip – Lovren – Milner
    Grujic – Stewart – Can
    Markovic – Ings – Wijnaldum

    Hef Mignolet þarna þar sem hann er bókstaflega okkar eini markmaður, Manninger og George eru ekki hugsaðir í aðalliðið.
    Arnold er einn af ungu leikmönnunum sem er líklegur til að fá einhverjar mínútur í vetur og ég sé ekki betra tækifæri á næstunni fyrir hann. Matip og Lovren þurfa að spila sig saman og því tippa ég á að þeir verði saman. Milner fannst mér nákævmlega ekkert bæta Moreno um síðustu helgi og myndi spila honum í þessum leik og Moreno gegn Spurs. Þurfum hraða þar.

    Stewart og Grujic hljóta að spila svona leiki og því fyrr en Can kemst í 100% leikform því betra, ef ekki á að kaupa alvöru varnartengilið má Liverpool ekki við mörgum leikjum án Can.

    Skil ekki stöðu Markovic og afhverju hann fær ekki séns, sé ekki að það hefði skemmt fyrir að eiga hann á bekknum í síðasta leik í fjarveru Mané og Ojo. Þetta er leikmaður sem kostaði £20m. Skil stöðu Ings svipað illa, er hann meiddur eða svona langt frá því að vera í leikæfingu? Hef svo Wijnaldum með þar sem mig grunar að hann detti úr liðinu þegar Can og Mané koma til baka.

    Tippa á að ég verði með 7 af 11 rétt.

  18. Skemmtilega clueless upphitun 🙂

    Annars er misskilningurinn (eða útúrsnúningurinn) í hjá Styrmi #14 í uppáhaldi. Þetta eru því miður ekki Alexander Rybak og Arnold Schwarzenegger sem eru mættir í vörnina… Hún myndi samt hugsanlega skána eitthvað við það? Alexander-Arnold = einn og sami maðurinn 🙂

  19. Það þarf að spila Sturridge og Origi í gang og því ættu þeir báðir að byrja í kvöld. Svo eru fleiri sem þurfa leikformsmínutur eins og Can, Grujic, Ings og Matip.

    Migno
    Arnold-Lovren-Matip-Milner
    Grujic-Stewart-Can
    Sturridge-Origi-Ings

  20. Þetta er ekki einu sinni sniðugt. Manchester klúbbarnir eru hreinlega búnir að moka út peningum í síðustu gluggum. Get ekki betur séð að báðir klúbbarnir eru búnir að eyða meira en 300 m punda ( kaup mínus sölur ) hvor í síðustu þrem gluggum.

    Á meðan erum við búnir að nota í kringum 50 milljónir !! Þetta er bara allt of mikill munur og engan veginn samkeppnishæft.

    Við eigum bara að fókusera á Chelsea, Arsenal, Tottenham, West Ham ofl klúbba sem við erum að keppa við um 3 og 4 sætið í ár.

    http://www.theguardian.com/football/ng-interactive/2016/aug/23/premier-league-transfer-window-summer-2016-interactive

  21. #18 Sé þetta núna en þegar maður les þetta í fyrstu atrennu er þetta eins og tveir leikmenn.
    Bið Brynjar #2 afsökunar á þessari fljótfærni minni.

  22. Mjög athyglisvert að skoða eyðsluna hjá liðunum, sem StyrmirGunn linkar á í kommenti #20.

    Hvernig líður mér eftir að hafa skoðað þetta? Jú, ég er bara brjálaður út í FSG!

    Áfram Liverpool!

Burnley – Liverpool 2-0

Sama gamla sagan