Hver er Georginio Wijnaldum?

Newcastle var ekkert að kaupa óþekktan ungling af meginlandi Evrópu þegar þeir lönduðu Georginio Wijnaldum síðasta sumar. Þetta er nafn sem knattspyrnuheimurinn hefur fylgst með í að verða áratug. Miðað við þau félög sem hafa verið orðið við Wijnaldum í gegnum tíðina kom mjög á óvart að hann skildi fara til Newcastle síðsta sumar. Þessi félagsskipti voru hinsvegar ekki svo óvænt ef saga Wijnaldum er skoðuð nánar.


Uppvaxtarár hjá Sparta Rotterdam

Wijnaldum er fæddur og uppalinn í Rotterdam en báðir foreldrar hans eru ættaðir frá Súrinam. Hann fer því í flokk með mönnum eins og Gullit, Rijkaard, Kluivert, Seedorf og Davids til að nefna nokkrar stjörnur Hollands sem eiga ættir að rekja til þessarar gömlu nýlendu í Suður-Ameríku.

Foreldrar Wijnaldum skildu þegar hann var sex ára og mamma hans flutti til Amsterdam. Hann fór ekki með henni þangað heldur varð eftir í Rotterdam hjá ömmu sinni sem ól hann upp. Fram til þessa hafði hann borið ættarnafn föður síns (Boateng) en tók upp ættarnafn móður sinnar eftir skilnaðinn.

Sama ár fór hann á opna æfingu hjá Sparta Rotterdam og var í kjölfarið boðið að æfa í akademíu félagsins. Fljótlega var ljóst að Sparta var með gríðarlegt efni í höndunum og þegar Sparta vann tvo titla í röð í hans aldursflokki fóru stóru liðin þrjú í Hollandi (Ajax, PSV og Feyenoord) að sýna áhuga, Wijnaldum þá ekki orðinn 10 ára.

Wijnaldum leið hinsvegar vel hjá Sparta og spilaði með sínu uppeldisfélagi í sjö ár og var klárlega einn besti leikmaður Hollands í sínum aldursflokki. Hann var á fimmtánda ári þegar forráðamenn Feyenoord náðu að sannfæra Wijnaldum um að hann myndi bæta sig meira sem leikmaður hjá þeim heldur en Sparta. Rökrétt skref fyrir þennan unga strák enda Feyenoord einnig frá Rotterdam og mun stærra félag.

Feyenoord – 17 ára lykilmaður

Félagið var í vandræðum innan sem utanvallar tímabilið 2006/07 er Wijnaldum fékk sitt fyrsta tækifæri í meistaraflokki. Fyrir tímabilið seldi félagið sína bestu leikmenn, Dirk Kuyt og Salomon Kalou án þess að kaupa almennilega leikmenn í staðin fyrir þá. Félagið var í fjárhagsvandræðum og stuðningsmenn liðsins létu óánægju sína ítrekað í ljós, m.a. með ólátum á Evrópuleik gegn Nancy sem varð til þess að Feyenoord var hent úr keppninni. Niðurstaðan í deildinni var sjöunda sæti og engin Evrópa í fyrsta skipti í 16 ár.

Unglingastarf félagsins bjargaði þessum risa í Hollandi frá ennþá frekara hruni. Feyenoord var með fjölmarga unga og efnilega leikmenn á mála hjá sér og treysti á þá mjög unga næstu ár. Skærasta stjarnan í þeim flokki var Wijnaldum og bauð Erwin Koeman þjálfari liðsins honum með aðalliðinu til Tyrklands í æfingaferð í janúar 2007. Hann varð 16 ára rúmlega mánuði áður. Wijnaldum fékk sénsinn undir lok tímabilsins, n.t.t. í apríl 2007 og varð um leið yngsti leikmaður í sögu Feyenoord, 16 ára og 148 daga gamall. Nokkuð magnað miðað við unglingastarf félagsins og þá leikmenn sem hafa komið frá Feyenoord.

Wijnaldum hafði spilað samtals 134 leiki fyrir Feyenoord þegar hann yfirgaf félagið 20 ára gamall sumarið 2011.

Þetta voru ekki bestu ár í sögu félagsins, mikið um breytingar á þjálfarateyminu og vandamál utan vallar en frábær skóli fyrir Wijnaldum sem náði að skapa sér nafn sem eitt mesta efnið í boltanum. Hann var orðaður við öll helstu lið Evrópu en ákvað frekar að taka minna og öruggara skref og fara til PSV. Sögulega eru PSV og Feyenoord bæði risar í Hollandi en árið 2011 var PSV mun sterkara lið. PSV vann Feyenoord t.a.m. 10-0 í október 2010.

PSV – Besti leikmaður Eredivise

Wijnaldum valdi hárrétt þegar hann ákvað að fara til PSV, þar náði hann að þróa sinn leik enn frekar næstu fjögur tímabil hjá liði sem var alltaf í toppbaráttu heimafyrir og tók alltaf þátt í Evrópukeppnum. Eins fékk hann tækifæri með landsliðinu fljótlega eftir að hann gekk til liðs við PSV.

Hann var lykilmaður í liði PSV á sínu fyrsta tímabili og spilaði 50 leiki í öllum keppnum, liðið endaði í þriðja sæti í deildinni en það er smá kaldhæðni að Feyenoord endaði í öðru sæti, Ronald Koeman hafði tekið við liðinu mánuði eftir að Wijnaldum fór og náði að rífa það í gang á ný með unglingastarf félagsins sem þungamiðju í endurreisn félagsins. PSV vann hinsvegar bikarmeistaratitilinn.

Tímabilið 2012/2013 spilaði Wijnaldum 45 leiki, skoraði 20 mörk og lagði upp átta. PSV hafnaði í öðru sæti á eftir Ajax og tapaði í bikarúrslitum gegn AZ. Eftir tímabilið var hann 23 ára gerður að fyrirliða í kjölfar þess að Mark Van Bommel lagði skóna á hilluna og Kevin Strootman fór til Roma. Brotthvarf þeirra þýddi einnig að hann fékk stærra hlutverk sem miðjumaður en áður.

Bakmeiðsli gerðu það hinsvegar að verkum að Wijnaldum náði aðeins að spila 15 leiki í öllum keppnum á sínu fyrsta tímabili sem fyrirliði 2013/14. Vonbrigða ár hjá PSV sem hafnaði í 4.sæti í deildinni og tapaði í umspili um sæti í Meistaradeildinni (reyndar gegn AC Milan).

Wijnaldum kom hinsvegar við sögu í öllum sjö leikjum Hollands á HM 2014 er liðið komst í undanúrslit gegn Argentínu en tapaði í vítaspyrnukeppni. Þetta var byrjunin á frábærum 12 mánuðum hjá okkar manni því PSV rústaði deildinni tímabilið 2014/15. Fyrsti titill félagsins síðan 2008 og fékk Wijnaldum að lyfta honum á loft sem fyrirliði.

PSV skoraði 92 mörk í 34 deildarleikjum og eftir tímabilið var ljóst að þeir næðu ekki að halda sínum bestu leikmönnum mikið lengur. Aðalstjarna félagsins eftir mótið var Memphis Depay sem skoraði 22 mörk og var frábær sem kantframherji, hann fékk sitt risatilboð frá LVG og Man United. Eftir á að hyggja var það stökk sem hann var ekki tilbúinn að taka strax. En þrátt fyrir alla athyglina á Depay þá var það Wijnaldum sem var valinn besti leikmaður tímabilsins í Hollandi.

Newcastle – Réttur maður í röngu liði?

Rétt eins og þegar Wijnaldum var 14 ára og eins þegar hann var 20 ára ákvað Wijnaldum að vera skynsamur og fara frekar til félags þar sem hann yrði lykilmaður heldur en að fara til risafélags of snemma og hverfa í fjöldan. Það gefur auga leið að það voru fleiri félög en Newcastle sem höfðu áhuga á 24 ára fyrirliða PSV og besta leikmanni Hollensku deildarinnar. Hann valdi að fara þangað þar sem hann taldi þetta vera rétt skref á sínum ferli, hann vildi komast í ensku úrvalsdeildina. Hann sá auðvitað ekki fyrir hvernig síðasta tímabil myndi spilast hjá Newcastle og ber ábyrgð á gengi liðsins rétt eins og aðrir leikmenn.

Á móti tók hann mikilvægt skref á sínum ferli og náði að aðlagast ensku deildinni og þeim mun sem er á hraðanum í Englandi og Hollandi. Hann skoraði 11 mörk og lagði upp fimm í vitavonlausu liði Newcastle. Tölfræði sem lítur aðeins betur út en hún hljómar, m.a. vegna þess að fjögur af þessum mörkum komu í sama leiknum og eitt var vítaspyrna. En höfum í huga að þetta er meira en ¼ af mörkum Newcastle á síðasta tímabili, liðið skoraði bara 39 mörk.

Stuðningsmenn Newcastle tala um að hann hafi horfið á löngum köflum síðasta vetur og sé leikmaður sem passar mjög vel í Match of the Day þar sem aðeins er sýnt helstu tilþrifin úr leikjunum. Á móti er mjög vafasamt að dæma Wijnaldum of mikið fyrir þetta fyrsta ár hjá Newcastle. Hann spilaði alla leiki tímabilsins í liði sem var í gríðarlegum meiðslavandræðum undir stjórn lélegs stjóra mest allt tímabilið. Hann skoraði 11 mörk sem er meira en okkar helstu sóknartengiliðir (Coutinho og Firmino). Það er bara mjög jákvætt, jafnvel þó fjögur af þessum mörkum hafi hann skorað gegn Norwich, Liverpool vantar einmitt leikmann sem nær að skora gegn slíkum liðum og við erum sérstaklega hrifin af leikmönnum sem skora fjögur mörk gegn Norwich.

Mikilvægast er samt að hjá Newcastle fékk hann ekki sama hlutverk og hann var að spila best hjá PSV. Newcastle í fallbaráttu lagði leikinn allt öðruvísi upp og spilaði ekki sömu tegund af pressu fótbolta og topplið PSV var að spila með Wijnaldum sem sinn besta mann. Það er alveg jafn líklegt að Wijnaldum henti Klopp fótbolta mikið betur en það sem Newcastle lagði upp með í fyrra og af þeim sökum er alveg hægt að sjá svigrúm fyrir töluverða bætingu milli ára hjá Wijnaldum.

Það er pirrandi að kaupa enn einu sinni leikmann frá miðlungs liði á Englandi, það er mjög pirrandi að hann kosti £10m meira af þeim sökum, þrátt fyrir að hafa fallið um deild. En á móti held ég að við hefðum nákvæmlega ekkert sagt fyrir ári síðan ef Liverpool hefði keypt besta leikmann Hollensku deildarinnar og fyrirliða PSV á þennan pening. Núna erum við að kaupa sama leikmann með reynslu af enska boltanum (eins ofmetið og það nú er).

Hvernig leikmaður er Wijnaldum?

Klopp hefur sagt það hreint út í sumar að hann er að kaupa mörk þegar hann talar um Mané og Wijanldum. Báðir leikmenn eru mjög fljótir og hafa skapað fullt af mörkum fyrir sín lið undanfarin ár. Þá er ekki bara talið mörkin sem þeir eiga beina aðkomu að því svona leikmenn taka hellings orku frá varnarmönnum sem gefur samherjum þeirra tíma og pláss. Gefur leikmönnum eins og Coutinho, Firmino, Sturridge og Origi tíma og pláss!

Wijnaldum er hraður, kraftmikill, mjög sóknarþenkjandi og fjölhæfur miðjumaður. Hvort sem stillt er upp 4-3-3, 4-2-3-1 eða 4-4-2 er Wijnaldum á heimavelli allsstaðar á miðjunni og hefur spilað í öllum þessum stöðum á sínum ferli. Hann er réttfættur og hefur komið best út sóknarlega þegar hann spilar á vinstri kantinum eða sem fremsti miðjumaður. En hans hlutverk tekur líklega oft mið af samherjum hverju sinni. Hjá Liverpool eru t.a.m. Coutinho og Firmino lykilmenn í þeim stöðum sem talið er að henti Wijnaldum hvað best en við erum mun veikari á miðsvæðinu. Þar spilaði hann t.a.m. á HM 2014 fyrir Holland sem og hjá bæði PSV og Feyenoord.

Hjá PSV spilaði hann síðasta tímabilið sem mest sóknarþenkjandi miðjumaðurinn (box-to-box) í þriggja manna miðju (#8) en einnig sem aftasti maður á miðjunni (#6). Depay og Bakkali voru á vængjunum. Philip Cocu stjóri PSV lagði upp með að pressa mikið og spilaði 4-3-3 skyndisóknarbolta. Bolta sem hentaði Wijnaldum mjög vel og ætti að passa mjög vel við það sem Klopp leggur upp með. Jurgen Klopp hefur í dag úr svo fjölhæfum hópi miðjumanna að velja að það er einungis leikur að tölum að tala um 4-3-3, 4-2-3-1, 4-4-2 eða hvernig sem þetta er soðið saman.

Hjá Newcastle var Wijnaldum mikið á vinstri kantinum og skoraði mest er hann spilaði þá stöðu en mögulega var hann að spila þar í ljósi þess að Newcastle var hvað best mannað á miðjunni.

Hann er fæddur 1990 og verður 26 ára í nóvember, hann er keyptur rétt eins og Mané og Matip til að styrkja Liverpool strax. Allir ættu þeir að vera nálgast hátind ferilsins og FSG er ekki að kaupa þessa leikmenn með endursöluvirði í huga. Allir eru þeir samt yngri en t.d. Lallana og Downing voru þegar þeir komu. Fyrir eru flestir lykilmenn Liverpool að nálgast eða komnir á þennan (hátinds) aldur (24-27 ára). Þetta er mikilvægt í bland við unga og hungraða leikmenn því Klopp leggur upp með mjög orkufrekan fótbolta.

Wijnaldum er mjög fljótur og kraftmikill leikmaður, hann tekur menn ítrekað á og er mjög beinskeittur. Hann slátraði Liverpool t.a.m. síðasta vetur með kraftmiklum hlaupum frá miðsvæðinu. Öfugt við t.d. Ibe sem vissulega getur þetta einnig þá ræður Wijnaldum við að fara beggja vegna við mótherjann í stað þess að hlaupa ítrekað útaf með boltann. Hann er með fínar sendingar einnig en þó hefur oft loðað við hann að vera talinn frekar eigingjarn sóknarlega, sé það rétt hittir skrattinn mögulega ömmu sína þegar hann spilar með Daniel Sturridge.

Wijnaldum er 1,75m á hæð, sjö cm hærri en Joe Allen. Hann vinnur það auðvitað upp með hraða og ógn sóknarlega sem er í allt öðrum klassa en Allen ræður við.

Stuðningsmenn Newcastle voru margir hverjir ekki ánægðir með vinnuframlagið hjá honum síðasta vetur, hann hvarf í mörgum leikjum og skilaði sér ekki nógu vel til baka í varnarvinnu og tölfræðin hans varnarlega styður þetta. Þetta var hinsvegar alls ekki lýsingin á honum hjá PSV, þvert á móti raunar. Newcastle var sjaldnast að virka sem heild í fyrra og líklega skaðar það orðspor allra þeirra leikmanna. Úr því Klopp er að kaupa hann og talar m.a. um vinnusemi hef ég ekki miklar áhyggjur. Ofan á það sagði Dirk Kuyt (af öllum mönnum) að hann væri með lungu eins og hestur. Líklega ekki hægt að fá betri meðmæli um úthald en frá Duracell kanínunni.

Þetta er í þriðja skipti á áratug sem Liverpool kaupir leikmann sem nýlega var valinn leikmaður ársins í Hollandi, hinir tveir voru áðurnefndur Dirk Kuyt og Luis Suarez. Ef Wijnaldum reynist okkur eitthvað í líkingu jafnvel og þeir þá er ég sáttur. Mjög sáttur.

Hverjum ógnar Wijnaldum helst?

Eftir að hafa kynnst mér leikmanninn nokkuð ítarlega man ég ekki eftir leikmanni sem veitir eins mörgum leikmönnum harða samkeppni. Jordan Henderson hefur verið í meiðslavandræðum sl. tvö tímabil og ennþá er mikil óvissa með hans framtíð hvað það varðar. Það er einfaldlega ekki hægt að treysta á slíka leikmenn og miðað við hvar Wijnaldum spilaði hjá PSV og landsliðinu held ég að Henderson sé í hvað mestri hættu. Á móti held ég að 100% heill Henderson verði alltaf í liðinu, takist honum að losna við hælmeiðslin er það eins og nýr leikmaður fyrir Liverpool enda hann aðeins verið skugginn af sjálfum sér undanfarin ár.

Milner er leikmaður sem alltaf spilar og svipar aðeins til Wijnaldum hvað fjölhæfni varðar. Hann var að spila sem hægri miðjumaður (4-3-3) og hægri kantur(4-2-3-1) í fyrra og því ljóst að bæði Mané og Wijnaldum veita honum gríðarlega samkeppni og bjóða upp á hraðabreytingar öfugt við Milner.

Að lokum er það svo Lallana, hann var lykilmaður hjá Klopp í nánast öllum leikjum á síðasta tímabili og spilaði vel. Hann er 28 ára og líklega í besta formi lífsins. Hann hinsvegar skorar allt of lítið og býr ekki yfir sérstökum srengikrafti/hraðabreytingum. Ekki að hann sé hægur frekar en Coutinho og Firmino. En enginn þeirra býr yfir alvöru hraða. Af þessum þremur held ég að Lallana sé í hvað mestri hættu.

Takist að halda bæði Lallana og Milner erum við að styrkja hópinn gríðarlega. Tala nú ekki um ef Henderson nær fullum bata. En sama hvernig ég reikna þetta held ég að Wijnaldum sé hugsaður sem einn af þremur miðjumönnum Liverpool.

Hvað með þig? Höfum könnum með til gamans, hægt að færa rök fyrir sínu máli í ummælum.

Hvaða lykilmanni ógnar Wijnaldum mest að þínu mati?

Skoða niðurstöður.

Loading ... Loading ...

44 Comments

  1. Áhugaverð lesning Einar Matthias og þvílík forréttindi að hafa svona síðu fyrir sinn klúbb – takk fyrir mig 🙂

  2. Virkilega góð samantekt!
    Verður áhugavert að sjá hvort drengurinn nái að sýna sitt rétta andlit þar sem honum verður líklega róterað ágætlega mikið milli staða á miðsvæðinu.

  3. Frábær pistill ! Það styttir daginn hjá gömlum manni að lesa þetta. Hafðu kærar þakkir fyrir.

  4. Takk fyrir frábæran pistil. Ég er mjög spenntur fyrir þessum leikmanni. Eins og ég hef sagt áður held ég að hann taki mestan spilatíma frá Henderson. Ég byggi það helst á þvi að hann hefur aðallega spilað á miðjunni fyrir hollenska landsliðið og svo PSV, eins og bent er á í pistli, auk þess sem þessi lið eru að spila mun meira í ætt við pressu-taktík Klopp heldur en Newcastle. Við þurfum líka að styrkja okkur á miðsvæðinu og miðað við hlutverk Wijnaldum hjá landsliði Hollands og PSV þá getur hann sannarlega gert það! En ég held að Milner og Lallana muni líka missa mínútur því eflaust fær okkar nýi fljúgandi Hollendingur eitthvað líka að sprikla framar á vellinum. Ég held hinsvegar að Firmino, Coutinho og Mane þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur. Þetta er farið að líta betur út og miðað viðskiptin í sumar sýnist mér liðið okkar hafa styrkst til muna.

    Læt hér fylgja með til gamans uppstillingu Hollands á móti Brasilíu á HM 2014 en aðal staða Wijnaldum á mótinu var á miðjunni.

    http://resources.fifa.com/mm/document/tournament/competition/02/40/40/06/eng_63_0712_bra-ned_tacticalstartlist_neutral.pdf

  5. Takk fyrir góða úttekt. Þetta tímabil verður vonandi virkilega spennandi !
    :O)

    YNWA

  6. Hef trú á því að þessi kaup þýði að við skiptum yfir í 4-3-3 á þessu tímabili rétt eins og við höfum verið að gera á undirbúningstímabilinu. Wijnaldum er vanur að spila í því kerfi bæði fyrir holland og psv og ætti að henta honum best fyrir utan að milner og henderson hafa alltaf hentað betur í þriggja manna miðju frekar en tveggja manna.

  7. Sælir félagar

    Takk Einar M. fyrir enn einn snilldarpistilinn. Það eiga engir stuðningsmenn enskra liða á Íslandi aðra eins snillinga ínnan sinna vébanda og stuðningsmenn Liverpool í ykkur Kop-urum.

    Ég setti Henderson út fyrir Gino einfaldlega vegna þess að Henderson mun líklega aldrei ná fullum bata á hælvandræðum sínum – því miður. Ef Hendo væri heill og í sínum besta formi mundi Milner að líkindum fara í frekar.

    Það er nú þannig

    YNWA

  8. Þegar maður skoðar hver það er sem að mata Wijnaldum í þessum mörkum sem hann skoraði kemur í ljós að það er maðurinn sem stóð sig einna best á EM 2016, Moussa Sissoko. Kaupa hann líka.

  9. Nú er Sigurkarl #8 aldeilis með fréttir um meiðsli Hendo, eitthvað sem hefur farið fram hjá mér en er hann enn að eiga í þessum hæl-vandræðum?
    Það er hinsvegar ljóst að sá sem meiðist verður undir í baráttunni næstu vikur/mánuði í liði sem er með virka samkeppni. Vandamál sem er jákvætt ef þú ert með góðan og jafnan hóp með virka samkeppni. Því ómögulegt að segja hver missir sæti sitt hverju sinni en ef allir eru heilir þá eru ensku leikmennirnir okkar á miðjunni í hættu ..að mínu viti.

  10. Flott samantekt. Tek eftir að kjósendur í skoðunarkönnunni telja að Wijnaldum ógni Henderson hvað mest. Held að svo sé ekki, Henderson verður í liðinu ef hann er heill, það er öruggt. Annars færi hann fram á sölu frá liðinu og það strax. Lallana er frábær leikmaður en verður samt sýna meiri gæði alltaf, ekki bara í einum leik af tíu. Sennilega er toppskykkiið eitthvað að trufla Lallana. Það verður bara að segjast eins og það er, alveg synd hvað margir góðir leikmenn sem hafa komið til Liverpool hafa ekki höndlað það og kvoðnað niður. Verður ekki Milner með svipað hlutverk og í fyrra, sívinnandi þegar hann spilar og getur leyst af margar miðjustöður án þess að vera afgerandií nokkurri þeirra.

  11. Sælir félagar

    Anton #10 Já ég heyrði það í vetur leið að hann væri í reynd með ólæknandi meiðsl á hæl. Veit að vísu ekki nánar um það en mér var sagt að þau væru þess eðlis að það væri kraftaverk ef það tækist að laga þau. Því miður.

    Það er því miður þsnnig

    YNWA

  12. Blessaðir #10 Anton og #13 Sigkarl.

    Mér skilst að Henderson þjáist af “Plantar fascitis” eða það kallað er á íslensku Hælspori.
    Sjá hér http://www.visindavefur.is/svar.php?id=62399

    Mjög erfitt að laga það til lengdar eftir að það er komið.
    Hvíld og sterasprautur geta hjálpað tímabundið en einkennin geta komið aftur hvenær sem er.

    Sjá mikið nánar hér í frétt Telegraph.
    http://www.telegraph.co.uk/sport/football/teams/liverpool/12033863/Liverpool-captain-Jordan-Henderson-must-play-entire-career-with-incurable-foot-injury.html

  13. er henderson þá ekki bara gölluð vara? sem ber að skila til Sunderland.

  14. Eitthvað hefur verið spjallað um það á alnetinu að Kolo sé ekkert sérstaklega kátur þegar hann var kynntur til sögunnar í Glasgow…[img]https://scontent-mrs1-1.xx.fbcdn.net/v/t1.0-9/13612227_10154004985963580_1542707806138227977_n.jpg?oh=48168e48c18a66f66a3eb904b6626d23&oe=57EA8272[/img]

  15. Sveinbjörn. Jimmi Caragher var líka hrjáður af þessu allan sinn ferill en kláraði hann engu að síður og það með stæl. Ég held að þetta eigi ekki að hafa nein töluverð áhrif á Henderson. Það sagði Garagher allavega í viðtali.

  16. Takk fyrir upplýsingar um Henderson, þetta hefur farið fram hjá mér. Er mjóg hrifinn af Henderson hvað varðar 1. snertingu, viðstöðulausar sendingar, lesa leikinn og mikla hlaupagetu en vissulega pirra svona meiðsli hvaða leikmann sem er. Minnir að hann hefði sagt þessi meiðsli að baki í vor og vonandi er það fyrir hann og okkur. YNWA

  17. Sælir félagar

    Takk fyrir þetta #13 Sveinbjörn. En það er nú einu sinni svo að þó Carra, minn maður, hafi þjáðst af þessu og borið sitt barr þrátt fyrir það þá er ekki þar með sagt að aðrir ráði við það.

    Það er nú þannig

    YNWA

  18. Henderson var í hópnum hjá Englandi fyrir EM og spilaði meðal annars einn leik og kom vel út. Hann væri ekki í hópnum hjá Englandi ef hann væri ekki við hesta heilsu. Hann er að taka þátt í undirbúningi fyrir þetta tímabil af fullum krafti og það er nákvæmlega ekkert að honum. Þannig að þessi “íjun” að hann ráði ekki við það, stenst eiginlega ekki skoðun. Þau aftra honum nákvæmlega ekki neitt.

  19. Þap er hægt að lækna hælspora. Fer eftir því á hbaða stigi það er að einhverju leyti. Þekki þetta vel þar sem þetta hefur verið að hrjá sjálfan mig. Er búinn að bera fínn í eitt ár en bar líka slæmur í eitt ár þar á undan

  20. Ég tek þessi meiðsli a mig. Ég var að hæla Henderson svo mikið

  21. Spennandi kaup. Takk fyrir frábæran pistil. Hælspori er hvimleiður andskoti! Þekki það af reynslu! Vonandi tekst Henderson og læknaliðinu að halda þessu í skefjum þannig að þetta sé ekki að há honum.

  22. Ég setti Henderson út fyrir Wijnaldum einfaldlega að Henderson hefur aldrei heillað mig sem leikmaður. Eftir að hann var gerður að fyrirliða hefur hann heillað mig enn minna og tel ég engar líkur á að hann verði framtíðaleikmaður hjá okkur á komandi árum.
    Mér þykir miður að Joe Allen sé farinn frá okkur þar sem hann hefur heillaði mig mun meira en Henderson hefur gert.
    En úr því sem komið er vona ég að Henderson troði feitum ullarsokk upp í mig á þessu tímabili og verði sá leikmaður og fyrirliði sem allir vona að hann sé.

  23. Takk fyrir frábæra grein um okkar nýju stjörnu. Er mikið spenntur fyrir Gino og þá sérstaklega undir stjórn meistara Klopp!

    Að öðru: Sakho sendur heim frá USA vegna agavandamála!

    http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/doubts-over-mamadou-sakhos-future-11663197

    Þetta eru enn ein vonbrigðin með þennan annars flotta varnarmann. Skemmd vara ef þið spyrjið mig.

    Án þess að vita um hvað málið snýst í smáatriðum, þá er ég gríðarlega ánægður með Klopp sem líður ekkert rugl í sínu liði.

    In Klopp we trust og megi dagarnir líða sem hraðast núna!

  24. Ég get staðfest það persónulega að Plantar Facilities eru alveg fokk leiðinleg meiðsli. Ég fékk þau haustið 2012 þegar ég var að spila körfubolta og ég gerði líkt og Hendo í fyrra og reyndi að harka mig í gegnum þau. Eftir æfingar sat ég og rúllaði ilinni á frosinni gosflösku og reyndi hvað ég gat að takmarka sársaukann. Það er í rauninni vont í hvert skipti sem þú stígur í fótinn, þú getur vel hlaupið og spilað en þú ert alltaf að harka þig í gegnum sársauka. Það tók ca 4 mánuði fyrir sársaukann að hverfa algjörlega hjá mér.

    Það er þó langur vegur frá því að þetta séu einhver “ólæknandi meiðsl” eins og komið hefur verið inn á hér að ofan. Þetta hefur plagað marga körfuboltamenn, Joakim Noah, Steve Francis, Pau Gasol og fleiri, en þeir komu allir til baka úr þeim eftir góða hvíld. Það er akkúrat lykilatriðið, að gefa fætinum nægjanlega hvíld til að jafna sig.

    Eftir að Hendo kom aftur úr kálfameiðslunum (eða var það læri) í lok síðasta tímabils man ég ekki eftir að það hafi verið minnst á Plantar Facilities eftir það, þannig ég hugsa að þetta sé meiðslin séu orðin skárri. Það fittar ágætlega við þá tímalínu sem ég þekki persónulega og af slíkum meiðslum í körfuboltanum. Það er því algjörlega fjarri lagi að þetta sé eitthvað sem er ólæknandi, ég held við munum sjá allt annan Hendo inn á vellinum í vetur.

  25. Án þess að vita nokkuð um hvað málið snýst, þá ætla ég samt að lýsa velþóknun á því að Klopp og co skuli ekki líða neitt annað en rétt hugarfar við æfingar og æfingasvæðið.

  26. Það er enginn brazilískur ballett fótbolti sem Sahko spilar en ég hef alltaf verið ánægður með framlagið hjá Sakho skrímslinu.

    En núna……. stundum fara smágrín brandarkallar yfir strikið.

    Í Alcatraz ferðinni truflaði Sakho viðtal við Klopp.

    Sakho interrupted an interview his manager was delivering to ask “How long do you think you can live here?”

    “Actually I don’t have to think about it. You should think about it,” said Klopp. “Because only one of us came late last night, for departure in Liverpool. It was not me, it was you by the way.”

    Sakho has since been sent home following concerns about his attitude during the tour.

    Sjá nánar. http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/sign-not-well-between-mamadou-11663299

  27. Er mjog spenntur fyrir Wijnaldum en vona ad Sakho se ekki ad fara frá okkur því hann er ad minu mati okkar besti varnarmadur og ég gat alveg séd hann fyrir mér taka vid fyrirlidabandinu…

  28. Eins mikið og ég elska Sakho inná vellinum, þá verður þessi gæji bara að fara ef þetta er viðhorfið. Við þurfum enga trúða í miðjum undirbúningi fyrir langt mót, við þurfum frekar 100 % einbeitingu. Tek hattinn minn ofan fyrir King Klopp, hann vex alltaf meira í áliti hjá mér (hélt reyndar að það væri ekki fræðilegur)

    Annars bara Cudos á frábæran pistil, ég lýt allt öðrum og mikið betri augum á Wijnaldum eftir þessa lesningu.

  29. Ég er að hugsa um að treysta Klopp fullkomlega í þessum málum tengdum kaupum, sölum og meðferð á leikmönnum.

  30. Sælir félagar

    Veit svo sem ekki hvað hælspori er erfiður en sjálfsagt fer það eftir því hvað hann er langt genginn. Vona að Hörður #26 hafi rétt fyrir sér um þau meiðsl og Hendo eigi eftir að ná sér til fulls. Vita menn eitthvað um þennan vinstri bakvörð Jetro Willemsog komu hans til Liverpool?

    Það er nú þannig

    YNWA

  31. Sælir félagar

    Þessi strákur virðist hafa frábæran vinstri fót og mikla sendingargetu. En hvað veit maður svo sem.

    Það er nú þannig

    YNWA

  32. Þetta viðtal við Klopp þar sem Sakho gerir smá grín er ekki neitt til að hafa áhyggjur af, þetta var smá grín og Klopp hló manna mest. Held þetta hafi hreinlega ekkert með þetta viðtal að gera, hinsvegar hefur hann eitthvað verið að klikka á mætingu osfrv.
    Væri hræðilegt að sjá Sakho fara hef mikla trú á honum ef hann helst heill, það sama gildir um Henderson en ef hann kemur sér ekki almennileg á strik þá þarf að setja cpt bandið á annan leikmenn sem og að finna heimsklassa miðjumann.

  33. Sigkarl #33. Er þessi Willems ekki sá hinn sami og valdi sjálfan sig í ellefu stöður á vellinum þegar einhver fjölmiðillinn bað hann um að velja draumaliðið sitt síðasta vetur? Sé þetta hann þá virðist kauði hið minnsta hafa ágætis sjálfstraust. Þetta er góður leikmaður, ögn villtur og æði sókndjarfur eins og Moreno raunar en líklega öflugri leikmaður yfir það heila.

  34. Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport í nótt. Útsending hefst kl. 3:30.

  35. Ok, takk. Held samt að ég verð sofandi. Var bùinn að heyra að hann væri á fimmtudegi, svo las maður áðan að hann væri á miðvikudegi. Meira ruglið.

  36. Tigon
    Leikurinn er á fimmtudegi 😉
    Það verður fróðlegt að sjá hvernig Klopp muni stilla upp liðinu í nótt? hvort hann hafi eins og í síðustu leikjum tvö lið spila hvorn hálfleikinn fyrir sig eða hvort að hann láti lykilleikmenn spila megin þorran af leiknum?

  37. 3.30 i nòtt, þad er bara draumatími til ad horfa a leik fyrir evrópubùa hahaha ..

  38. Flott að Klopp sé með agamálin á hreinu. Liðsheildin skiptir mestu og Klopp getur ekki leyft neinum að vaða uppi. Held að Sakho sé á leiðinni út.

Brad Smith til Bournemouth?

Liverpool – Chelsea / Sakho alltaf of seinn