Breytingar á markvarðarstöðu – Manninger að koma?

Liverpool virðist vera alveg á fullu á leikmannamarkaðnum þessa daga – og þá sérstaklega í málum er varða markverði félagsins.

Ryan Fulton, einn af nokkrum efnilegum markvörðum félagsins, hefur verið lánaður til Chesterfield sem spilar í 1.deildinni í Englandi og Danny Ward mun spila á næstu leiktíð undir stjórn svaramanns og eins besta vinar Jurgen Klopp hjá Huddersfield í Championship-deildinni. Þá hefur Lawrence Vigouroux verið seldur til Swindon en hann var á láni hjá þeim í fyrra.

Þarna eru strax þrír markverðir farnir á önnur mið og eru þetta þeir markverðir sem hafa verið hvað næst því að blanda sér í einhverja baráttu í aðalliðinu.

Jurgen Klopp tók þá til sinna ráða og hefur hann nú boðið hinum reynda markverði Alex Manninger að æfa með félaginu og virðist nú ætla að bjóða honum árs samning og gefa honum hlutverk sem þriðji markvörður liðsins.

Manninger er kannski einhverjum af eldri lesendum síðunar minnugur en þessi 39 ára gamli Austurríkismaður hefur spilað fyrir fjöldan allan af liðum. Ber þar kannski helst að nefna Arsenal, Fiorentina, Red Bull Salzburg, Juventus, Siena og nú síðast Augsburg. Hann hefur mest allan ferilinn verið varamarkvörður og kannski ágætt að fá einn reyndan þannig til að vera til halds og trausts ef þess þarf.

Ég er mjög ánægður með það hvernig þessi markvarðarmál eru að þróast og finnst mér þarna vera mikil langtíma hugsun. Mignolet og Karius eru báðir hinir fínustu markverðir og verður vonandi hörð barátta þeirra á milli. Ward og Fulton fá tækifæri og mínútur í stórum deildum, aðrir markverðir eins og t.d. Grabara tækifæri með u21 árs liðinu og Manninger verður hinum til halds og traust þar til yngri markverðirnir verða klárir.

Er það ekki bara nokkuð ágætt?

6 Comments

  1. Sælir félagar

    Jú okkar menn eru á fullu á leikmannamarkaðnum. Fertugur þriðji markvörður er til marks um það. Það er ábyggilega hægt að fá 35 ára reynslumikinn vinstri bak fyrir lítið og fertugt miðjubuff með reynslu hjá mörgum félögum. Ekki vafi.

    Það er nú þannig

    YNWA

Og hvað næst?

Kop.is Podcast #118