Coutinho orðaður við önnur lið?

Helsta frétt dagsins er að PSG er sagt hafa áhuga á Coutinho og hafa komið þeim áhuga á framfæri við umboðsmann hans. Jafnframt er talað um að tvö önnur stórlið í Evrópu hafi áhuga á honum, tökum þessu með fyrirvara eins og öðru slúðri, en þetta er Echo sem m.a. er með þessa frétt.

Þetta er einfaldlega fórnarkostnaðurinn af því að komast ekki í Meistaradeildina. Það er miklu erfiðara að halda okkar bestu mönnum (það dugar ekki einu sinni alltaf). Slúður um að Coutinho sé mögulega á förum var líklega það fyrirsjáanlegasta fyrir þetta sumar. Það var einfaldlega alltaf að fara koma og PSG er einmitt liðið sem maður myndi fyrst tippa á.

Fari Coutinho verður það þriðja sumarið í röð sem Liverpool selur sinn verðmætasta leikmann.


Sala á Coutinho myndi gefa hrikaleg skilaboð um metnað félagsins næsta tímabil, sama hvert verðið væri því ef Liverpool ætlar einhverntíma að taka skref upp á við í deildinni þarf að halda bestu leikmönnum liðsins. Þetta er sáraeinfalt.

Eða hvað?

Sama hvernig við snúum því er sala á Coutinho alltaf mjög slæmar fréttir fyrir Liverpool, sérstaklega núna. En mögulega er Klopp ekkert of áhyggjusamur yfir því að missa hann fáist fyrir hann rétt verð. Rétt verð er meira en við fengum fyrir Sterling í fyrra.

Það er ekki sjálfgefið að setja Coutinho inn í það leikskipulag sem maður sér fyrir sér að Klopp vilji leggja upp með hjá Liverpool. Hann er helst notaður á kantinum en er ekki kantmaður, meira innherji ef hægt er að nota það orð. Hann er ekki hægur en samt alls ekki með þann hraða og kraft sem maður er vanur að sjá frá vængjunum í liðum Klopp, hann er líklega ekki draumaleikmaður fyrir bakverði að vinna með á vængjunum. Hann er líka góður sem tía en fyrir í þeirri stöðu eigum við Firmino og Lallana. Firmino hefur tekið þátt í mikið fleiri mörkum undanfarin 2-3 ár og skilar miklu meiri varnarvinnu sem ég held að skori hærra hjá Klopp. Ekki er Coutinho notaður á miðjunni heldur þó oft hafi ég viljað sjá það. Það er því ekkert óhugsandi að hann verði seldur fyrir háa fjárhæð sem hægt er að nota til að styrkja þær stöður sem Klopp þarf að styrkja til að innleiða sínar hugmyndir að fullu.

Coutinho er núna 23 ára, hann hefur aldrei sýnt stöðugleika en ekki má horfa framhjá því að við erum þar að meta mjög ungan leikmann í mjög illa samsettu liði í gríðarlegu leikjaálagi og meiðslaveseni. Hann spilaði jafnan á miðjunnu árið 2013/14 með alvöru sóknarmönnum með sér inná vellinum, hann var algjörlega frábær það tímabil sem ætti að vera nóg til þess að taka sölu á honum ekki í mál núna þegar hann er að detta á árin sem eiga skv. tölfræðinni að vera bestu ár ferilsins. Blessunarlega skrifaði hann undir nýjan 5 ára samning árið 2015 og hann hefur aldrei sýnt neinn áhuga á að fara frá Liverpool.

Einn af þeim kantmönnum sem hafa t.a.m. verið orðaðir við Liverpool er Saido Mane, fínn leikmaður en a.m.k. helmingi of dýr. Moley orðar þetta fullkomlega.


Markovic fær tækifæri til að sanna sig í sumar.
Liverpool spilar átta æfingaleiki og verða þeir risa tækifæri fyrir marga leikmenn að sanna sig fyrir Klopp. Það er ekki þörf á eins stórum hóp næsta vetur og samkeppnin því hörð hjá þeim leikmönnum sem við eigum nú þegar. Einn af þeim er Markovic sem ansi oft gleymist í umræðunni. Þetta er áttundi dýrasti leikmaður í sögu Liverpool, kostaði £20m fyrir aðeins tveimur árum og hefur varla fengið séns ennþá hjá félaginu. Þegar hann spilaði var það nær alltaf fullkomlega úr stöðu í endalausu hringli Rodgers, nákvæmlega ekkert að marka frammistöðu 20 ára leikmanns á fyrsta tímabili í nýju landi við þær kringumstæður.

Einhverjar kenningar hafa verið uppi um að algjörlega fáránlegt lán á honum til Tyrklands í fyrra hafi verið partur af einhverskonar erjum milli Rodgers og leikmannakaupanefndarinnar. Hann ætlaði ekki að treysta á hann það tímabil þrátt fyrir að eiga engan annan vængmann nema Jordon Ibe. Samt var keypt Benteke á £32,5m, leikmann sem fáránlegt er að stilla upp án þess að hafa kantmenn sitthvorumegin við hann.

Þetta var algjörlega fáránlegt í fyrra og þar sem tímabilið í Tyrklandi hækkaði virði Markovic ekki neitt væri algjörlega fáránlegt að selja hann núna á tómbóluvirði. Þetta sprakk einfaldlega algjörlega í höndunum á þeim spekingum sem samþykktu þennan lánsdíl. Markovic hefði léttilega spilað 30+ leiki í vetur fyrir Liverpool hefði hann haldist heill.

Klopp sagði í mars að hann fengi tækifæri í sumar til að sanna sig og geri hann það væri það rándýr og góð viðbót við hópinn. Hann er ennþá bara 22 ára og bæði Can og Origi hafa verið afskrifaðir meira (og jafn heimskulega) en Markovic núna. Hjálpar vonandi líka að Liverpool var að kaupa annan Serba á svipuðum aldri og ráða Serbneskan aðstoðarstjóra.

Sé Markovic alveg springa út hjá Liverpool eftir svipað æfingaprógramm í nokkra mánuði og Origi var settur á.

Verði hann seldur núna (jafnvel ásamt Coutinho) vona ég að félagið kaupi bara aldrei aftur leikmann undir 22 ára aldri og hugsi þá sem lykilmenn, það er of dýrt fyrir árangur innanvallar að ala þessa leikmenn upp með öllum þeirra eðlilegu byrjendamistökum til 22-23 ára aldurs fyrir önnur lið.


Að lokum er svo svona “Powerade” slúður um að Liverpool færist nær Jonas Hector vinstri bakverði Köln og vilji ganga frá kaupum á honum fyrir EM. Það væri auðvitað flott mál en þetta er of mikið slúður til að taka hátíðlega alveg strax.

22 Comments

 1. Flottur pistill Einar.

  Ég tek undir hvert einasta orð hvað varðar Markovich. Gjörsamlega glórulaus notkun á leikmanninum í nánast flestöllum þeim leikjum sem hann fékk að spila og í kjölfarið enn fáránlegra lán. Vona innilega að hann fái amk einn vetur undir Klopp og síðan verði staðan metin upp á nýtt. Þegar ég sá hann spila fyrstu æfingaleikina í USA í fyrra (reyndar meiddist hann strax í kjölfarið) þá upplifði ég hann sem öskufljótan og mjög agresívan leikmann sem einnig væri virkilega duglegur að hápressa andstæðinginn og djöflast í honum – Í mínum huga er þetta ágætis efniviður í leikkerfi Klopp.

  Hvað Coutinho varðar þá var það fyrirsjáanlegt að hann yrði orðaður við önnur lið. Ég er sannfærður um að hann fari frá LFC á næstu þremur árum en ég á ekki von á þvi að það verði í sumar. Ég held að það myndi klárlega veikja liðið mikið að missa hann enda hæfileikaríkasti leikmaður liðsins en það sem ég held að skaði enn frekar er sú staðreynd að LFC hefur selt ítrekað sína bestu og verðmætustu leikmenn undanfarin ár. Slíkt nánast undantekningarlaust veikir liðið milli tímabila enda stórkostlega erfitt að replace-a leikmenn eins og Alonso, Mascherano, Torres, Suares, Sterling. Einnig er þetta ákveðinn vítahringur sem gerir það að verkum að enn erfiðara er að lokka til sína frábæra leikmenn. Góðir leikmenn vilja einfaldlega spila við hliðina á öðrum góðum leikmönnum. Í dag hefur lfc að mínu mati engan leikmann sem getur talist í heimsmælikvarða (Sturridge væri það ef heilsan væri betri).

  Ég held að tveir stórkostlegir hlutir hafi gerst síðasta vetur. Þjálfari á heimsmælikvarða var ráðinn og hafist var handa við að byggja eina glæsilegustu stúku í Evrópu (sem vonandi verður fylgt eftir með enn frekari endurbótum á Anfield). Næsta move FSG verður að vera að koma leikmannahópnum nær bestu liðum evrópu. Það er gott og blessað að kaupa alltaf unga og efnilega leikmenn að því gefnu að þú seljir aldrei þá sem blómstra í burtu og innan 5 – 10 ára þá ertu kominn með Klassa lið sem hægt er að byggja á til framtíðar. En ef þú selur besta manninn á hverju ári þá verður sú uppbygging mjög brösótt og pínu eins og verið sé að pissa í skóinn sinn í hverjum leikmannaglugga.

  Coutinho er ekki stóra málið endilega, það er “selling club” hegðunin sem truflar mig meira.

  YNWA
  Al

 2. Nei eg vil halda Coutinho og bæta við 3-4 klassaleikmonnum sem eru betri en leikmenn i okkar 11 manna byrjunarliði.. stóru liðin og litlu liðin munu eyða mjog miklu i sumar og okkar menn bara verða að gera það lika ef við ætlum að vera með i þessu a næsta timabili.

 3. Tek algerlega undir comment nr eitt sem er það að Coutinho er ekki stóra málið heldur það að selja alltaf okkar bestu leikmenn er gersamlega óþolandi.

  Coutinho ma alveg fara fyrir risa upphæð ef við keyptum a móti alvoru leikmenn.. sem dæmi myndi eg ekki syrgja Coutinhonef Higuain kæmi i staðinn en að ætla að selja okkar bestu menn ar eftir ar og kaupa i staðinn leikmenn sem eiga eftir að sanna sig er eitthvað sem eg gersamlega þoli ekki …

 4. Miðað við stöðu liðsins, sem er fyrir utan allar evrópudeildir á þessu tímabili, tel ég lang augljósustu leiðinna að kaupa miklu frekar upprennandi gæðaleikmenn sem eru falla vel inn í leikstíl Klopps í stað þess að fjárfesta í rándýrum stórstjörnum, sem myndu aldrei koma til klúbbsins nema fyrir vörubílafarm úr gulli.

 5. Nr. 4

  Ertu þá að tala um leikmenn eins og Coutinho fyrir 4 árum?

  Tek undir það ef við seljum þessa leikmenn ekki þegar þeir eru loksins orðnir lykilmenn og búnir að taka út sín mistök hjá Liverpool.

 6. Við megum ekki gleyma því að Liverpool er það lið sem hefur flesta fulltrúa á EM, en hvort þessir menn ná saman er önnur saga sem ég eftirlæt meiri spekingum en mér um að dæma.
  Ef ég lít á síðasta tímabil þá er það nú bara þannig að þeir áttu frábæra leiki og svo dapra til jafns. Ég er ekki svo viss um að ég vilji fá inn einhvern stóran hóp heldur væri gott að fá 2-3 súperleikmenn sem ég held að vilji ekki koma til félags sem spilar einungis í heimalandinu. Ég held jafnvel að við séum búnir að fá þá sem Kloop vill að undanskildum vinstri bakverði.
  Gleðilegt sumar og njótið lífsins við að horfa á EM.

 7. Já ég er að tala um það. Kauppa manneins eins og Coutinho þegar hann var keyptur fyrir 4 árum. Höfum séð nokkur dæmi um góð kaup eins og t.d á Can og Origi. Þetta liti öðruvísi út ef Liverpool væri að spila í meistaradeildinni í ár, Þá væri miklu hagkvæmara að fjárfesta í stjörnum sem væru reiðubúnir að koma fyrir þokkalega sanngjarnt verð.

  Ég er nefnilega sammála því sem kemur fram í pistli þínum að Coutinho passar ekki alveg hundrað prósent inn í leikstílinn hans Klopps og því væri í sjálfu sér enginn agaleg blóðtaka ef hann yrði keyptur á 50-60 milljónir punda ef tveir- til þrír leikmenn yrðu keyptir í staðinn til að auka breiddina. Auðvitað snérist það um hvaða leikmenn yrðu keyptir í staðinn en ef þeir myndu auka breiddina og það væru leikmenn sem pössuðu algjörlega inn í hugmyndir um Klopp gæti það gert liðið okkar enn betra.

  Vil samt taka það fram að ég er á því að ég vil helst að öllu halda í Coutinho. við eigum að halda í beinagrindina okkar og ekki selja neina stórstjörnu í ár. Ég sagði það áður og segi það enn að hópurinn okkar er mjög góður og þetta snýst um að kaupa 3-4 leikmenn í réttar stöður og þá erum við samkeppnishæfir um Englandsmeistaradeildartitilinn.

 8. Ef einhverjar 50+millz þá er alltílagi að skoða það, sér í lagi eins og bent er á í pistlinum að hann er kanski ekki alveg að falla að leikstíl Klopp. En skil ekki þessar endalausu blammeringar um óstöðuleika hjá honum, ég veit ekki hvernig í óskupunum hann á að geta sínt stöðuleika í eins óstöðugu liði og Liverpool er. Ég persónulega hef bara séð einn leikmann sína þennann “stöðuleika” og það er hægri bakvörðurinn okkar.

  En að Marcovich? þá finst mér að hann eigi það inni hjá Liverpool að fá í það minsta sjens til að sína afhverju hann var keiftur til liðsins á þennan pening á sínum tíma. Það litla sem ég hef séð af honum er bara gott.

 9. Coutinho er enginn Suarez. Hann er ekki einu sinni eins góður og Alvaro Arbeloa (hvernig væri að fá hann aftur frítt).

  Best að fá góðan pening fyrir hann og byggja upp lið.

 10. Það böggar mig ótrúlega mikið að Liverpool sé að verða að “selling club” við eigum að halda okkar bestu mönnum. Sú staðreynd að Liverpool sé með flesta leikmenn á euro 2016 skiptir engu máli , við erum lið sem er um miðja deild og ég vildi frekar eiga færri leikmenn og vinna fleiri titla.

 11. Óþolandi að geta ekki haldið mönnum og pikkfastir í sömu hjólförunum ár eftir ár. Þegar Zlatan er á leið til Utd.

 12. #10 og #11

  Hjartanlega sammála

  United að landa Zlatan sem er ein stæðsta stjarna veraldar. City komnir með Gundogan og Arsenal með risa sign úr Bundesliga auk þess sem þeir gætu náð í Vardy. Á meðan er EKKERT títt hjá okkur. Juju komnir með markmann en þetta marquee signing er ekki í sjónmáli. Ekki einu sinni Gözte kemur og hann spilar ekki einu sinni hjá Bayern og er vinur Klopp.
  Við þurfum aðra eigendur svo einfalt er það.

 13. Árum saman seldi Arsenal sína bestu menn, nú eru þeir hættir því en akkúrat ekkert hefur breyst hjá þeim. Það þarf ekki endilega að vera samansem merki þarna á milli.

  En hinsvegar er það alveg ömurlegt þegar aðrir klúbbar í Evrópu líti til Liverpool og þeirra bestu leikmanna þegar þeim vantar að gera stór kaup. EIns og það sé sjálfsagt mál, en sú er hinsvegar staðan í dag er ég hræddur um.

  Það er nánast eins og skrifað í stein, að launapakkinn og árangur haldast í hendur í þessari deild. Við erum með ca 5 dýrasta pakkann, og við munum því líklega berjast við Tottenham um 5 sætið næsta vor.

 14. Hvenær ætla menn að hætta að tala um marquee signing. Mikið hvað ég er orðinn leiður á þessu orðtaki. Leyfum Hr. Klopp að gera þetta á sinn hátt. Hann er nú núinn að sýna fram á það að það eru ekki nöfnin sem skipta máli heldur er það liðsheildin. 50m punda eða 5m Hiugain eða einhver úr áströlsku deildinni. Gæti ekki verið meira sama. Þetta er fyrsta tækifæri Klopp til að setja sinn stimpil (vonandi einn af mörgum) þannig áður en ég fer að kalla á þennan og þennan til að koma þá fær Hr. Klopp óumdeilt samþykki mitt fyrir öllu því sem hann gerir. Alveg þangað til að sannar það að hann hafi minna vit á fótbolta en ég.

  Sé það ekki gerast í bráð. En þetta er kannski ég.

  Annars voru stelpurnar magnaðar í gær.

  Góða helgi.

 15. Mín skoðun á Zlatan til Utd er þessi.

  Zlatan er 34 ára gamall, verður 35 ára í haust.
  Sannarlega einn af mögnuðustu knattspyrnumönnum heims, eeeen.
  Hann er (ef hann á endanum fer til Utd) að fara að spila í deild þar sem hraðinn og harkan er mun meiri en hann á að venjast úr Frönsku deildinni, þar sem aðeins eitt lið stendur uppúr og restin í deildinni skorar ekki hátt á Evrópumælikvarða.

  Ég fagna því að sjá Zlatan í Premier League, og ég fagna því ef Utd ætlar að punga út sturluðum fjárhæðum í að kaupa hann og borga honum gríðarlega há laun.
  Ég hef meiri áhyggjur af Man City með alla sína peninga í nammibúðinni.

  Get ekki beðið eftir næsta tímabili, það verður eitthvað 🙂
  Vonandi sjá strákarnir okkar um að skemmta manni fram eftir mánuðinum á EM.

 16. United keypti Schweinsteiger í fyrra. Í ár verður það kannski Zlatan.

 17. Er þeim mönnum virkilega alvara sem segja að Coutinho sé ekki nógu góður?
  Hann er að spila í erfiðustu deild heims. Hann hefur bætt sig á hverju ári. Klárað fullt af leikjum á ögurstundu . Minni a markið a Old Toilet í Evrópu og svo mörg fleiri.
  Ekki gleyma hvað hann er gamall, hann er ekki enn kominn á besta aldur.
  Að selja manninn væri algjör della.

  Það er mikilvægt að halda honum og öllum þeim sem hafa augjósa hæfileika. Hann þarf betri menn í kringum sig og ef þeir koma þá verður drengurinn enn betri, ég er nokkuð vissum að leikmenn eins og Sturridge og Origi myndu ekki gleðjast yfir sölu Coutinho.

  Hektor inn, Karíus inn. Nú þarf bara að bæta í gæðin, selja þá sem skipta minna máli og halda í gæðin

 18. Skulum ekki gleyma að Shinji Kagawa var leikmaður í B-deild Japans. JAPANS! Ef að Klopp vill leikmann úr Pepsi deildinni þá kaupum við viðkomandi leikmann! Punktur

 19. Klopp gaf það út fyrir nokkru að leikmenn sem vildu ekki vera hjá félaginu væri frjálst að fara. Að því sögðu þá vona ég að Coutinho sé ekki að fara neitt. Spenntur að fá að sjá nýju leikmennina…Liverpool eru komnir með eina 3 nýja, er það ekki?

 20. Algerlega frábær pistill Einar Matthías, eins og oft áður frá þér!

  Hef mikið verið að hugsa um þessi leikmannamál. Staðreyndin er bara þessi. Þetta Liverpool-lið í dag er bara þannig að það er nákvæmlega enginn leikmaður í því sem er að mínu mati ómissandi. Það að enda í 8. sæti í deildinni segir meira en mörg orð um gæðin í þessu liði.

  Er búinn að lesa mjög mikið á netinu um okkar ástkæra lið eftir að deildinni lauk, m.a. pistla eftir David Usher hjá Soccernet og Joe Rimmer og James Pearce hjá Liverpool Echo.

  Höfum eitt á hreinu. Coutinho er enginn Luis Suarez. Coutinho er frábær leikmaður, en hrikalega óstöðugur. Ef við fáum tilboð upp á 40 milljón punda eða meira í hann þá eigum við virkilega að skoða það. Það var mjög áhugavert að lesa grein í Echo um Coutinho. Þar var talað um að hann væri sko sannarlega enginn Gerrard, kannski frekar Luis Garcia. Það vildu allir hafa Garcia í sínu liði á sínum tíma, en hann gat aldrei borið heilt lið uppi, líkt og Gerrard og Suarez gátu.

  Annar áhugaverður punktur í þessum pistlum. Liverpool er með marga góða leikmenn, en við þurfum fleiri frábæra leikmenn. Leikmen eins og Lallana og Henderson eiga aldrei að vera í byrjunarliðinu hjá Liverpool. Frekar bara squad-players (haft eftir Rimmer).

  Ljósi punkturinn er klárlega Klopp. Treysti honum fullkomlega til að byggja upp öflugt lið. Vonandi fær hann bara það fjármagn sem þarf til að gera það.

 21. Það að Coutinho sé orðaður við önnur lið segir eingöngu til um hversu mikil gæði hann hefur. Við eigum að taka því sem jákvæðum hlut að hafa jafn hæfileikaríkann og góðan leikmann einsog og hann í okkar röðum.

 22. Coutinho er leikmaður sem við þurfum að halda 100% en fyrir 40-50 mill punda þá er ekki hægt að segja nei við því.

  Hann mun bæta sig sem leikmaður en verður aldrei besti fótbolta maður heims eins og Suarez og Gerrard eru/voru, vandamálið með Liverpool er að Coutinho labbar framhjá fyrsta varnarmanni í 95% tilvika en þar fyrir aftan eru 2-3 auka varnarmenn því leikmennirnir sem eru með honum eru ekki að draga að sér varnarmenn heldur standa bara og horfa á ( Benteke )

  Þegar Suarez var að spila þá var hann með 2 menn á sér alltaf og stundum 3, sem opnaði fyrir Sterling, Coutinho og gerði þá að betri leikmönnum, svo við þurfum meiri gæði i okkar lið til að gera okkar leikmenn sem fyrir eru og við vitum hvað geta betri.

  Ekki kaupa einhverjar 20 ára “hetju” sem kann ekki að gera rétt hlaup og auðavelda hlutina fyrir öðrum, heldur kaupa leikmenn sem við vitum að muni búa til svæði og skapa fyrir leikmenn i kringum sig.

  Núna eru við með allt of fáa “hættulega leikmenn” og margir af þeim sem eiga að vera hættulegir skapandi eru bara spila langt undir getu eða eru bara ekki betri en þetta.

  Alan, Henderson, Lucas, Lallana ( ekki seinnihluta ) Ibe, Can, Benteke og svo auðvitað allir kjúllarnir nema Ojo.

  Ég er liklegast að gleyma einhverjum en allir þessir leikmenn skila nánast engu fyrir sóknina samt eru þeir allir að spila í byrjunarliðinu og eiga að taka þátt i sóknarleiknum.

  Þegar Man u var upp á sitt besta þá voru allir nema miðverðir þeira að skora og leggja upp mörk leik eftir leik þar sem þetta voru allt gæða leikmenn með skilning á því hvað þurfti að gerast. Nicky Butt er ekki með í þessari setningu…

  Meiri gæði, meiri leikskilning og meiri karakter hefur vantað i þetta lið.
  Coutinho er ekki Karakter nema með Sykurpabba i kringum sig.

Uppgjör 2015/16

Koma mikið fleiri í sumar?