Uppgjör 2015/16

Langt og erfitt tímabil að baki með hræðilega svekkjandi endi. Við félagarnir gerðum þetta upp eins og undanfarin ár.

Fyrst eru niðurstöður okkar pennanna samanlagt. Við erum sjö samtals og hver og einn velur efstu þrjá í þeim flokkum þar sem það á við. Efsta sætið gefur 3 stig. Annað sætið 2 stig og þriðja sætið 1 stig. Mest getur þetta því orðið 21 stig.

Til að sjá svörin og skýringar hjá hverjum og einum þarf að ýta á lesa meira neðst.


Leikmaður tímabilsins
1. Clyne – 12 stig
2. Coutinho – 11 stig
3. Can – 11 stig
Enginn afgerandi bestur í ár en þessir þrír komu nánast jafnir út hjá okkur samanlagt. Clyne var líklega jafnasti leikmaður Liverpool í vetur en átti aldrei viðlíka stjörnuleik og Can eða Coutinho sýndu stundum.

Bestu leikmannakaupin
1. Clyne 17 stig
2. Origi 11 stig
3. Firmino 10 stig
Þessir komust einir á blað ásamt Milner. Vonandi verðum við með Origi og Firmino hærra skrifaða en Clyne á sama tíma að ári. Heilt yfir ágætur gluggi síðasta sumar hvað þessa fjóra varðar.

Mestar framfarir á tímabilinu
1. Lovren – 18 stig
2. Can – 11 stig
3. Origi – 6 stig
Engin spurning með efstu tvo, þeir leikmenn sem bættu sig hvað mest hjá Klopp og fengu báðir hlutverk sem hentar þeim betur. Origi var efstur á blaði hjá tveimur og er því á ofar á lista en Lallana. Leikmenn eins og Mignolet, Allen og Toure komust einnig á blað.

Besti leikur tímabilsins
1. Dortmund heima – 17 stig
2. Man City úti – 9 stig
3. Man Utd í Evrópudeildinni (heima) – 8 stig
Engin spurning með Dortmund leikinn, hann stendur upp úr eftir þetta tímabil. Sigurinn á United var mjög sætur en frammistaðan gegn Man City var frábær. Chelsea úti, Everton og Southamton í deildarbikar komust einnig á blað.

Versti leikur tímabilsins
1. Sevilla – 14 stig
2. West Ham – 10 stig
3. Man Utd heima – 7 stig
Þarna komu allt of margir leikir til greina og voru svörin mjög mismunandi. Sevilla leikurinn stendur þó auðvitað upp úr sem og West Ham leikurinn sem kláraði stjóratíð Rodgers líklega endanlega. Hópferðin okkar hitti svo því miður á einn versta leik tímabilsins að okkar mati.

Bjartasta vonin í leikmannahópi Liverpool
1. Origi – 20 stig
2. Can – 13 stig
3. Ojo/Gomez – 3 stig
Allir sammála um að Origi og Can eru langmestu efnin í okkar herbúðum um þessar mundir.

Hvaða leikmenn myndir þú allra síst vilja missa úr núverandi hópi
1. Sturridge – 12 stig
2. Coutinho – 10 stig
3. Can – 8 stig
Eðlilega raðast okkar bestu menn í efstu sætin hér en við félagarnir voru þó alls ekki sammála um allt hérna.

Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur
1. Ibe -13 stig
2. Moreno – 11 stig
3. Sakho – 6 stig
Erfitt ár hjá Ibe og Moreno en líklega er Sakho þarna frekar ósanngjarnt. Benteke og Mignolet færu líklega uppfyrir hann ef kosið yrði aftur nú í ljósi nýrra upplýsinga.

Mestu vonbrigði tímabilsins almennt
Sjá svö hvers og eins neðar.

Hvaða einkunn/umsögn fær þetta tímabil Liverpool
4,64
Hörmulegt tímabil í deildinni og 8.sæti óásættanlegt. Gott gegni í Evrópudeildinni heldur því í grend við fimmuna.

Hvaða einkunn/umsögn fær þjálfarateymið eftir þetta tímabil?
6,82
Klopp er óumdeildur hjá okkur eins og staðan er núna, fær 6,82 en er líklegur til að stórbæta sig næsta vetur.

Álit þitt á FSG í dag?
Kvörtum ekki yfir FSG í ár, sjá nánar í svari hvers og eins.

Hvað stóð upp úr hjá þér í starfi kop.is?
Hópferð í janúar, mikill fjöldi verkefna í tengslum við leiki og podcast þættir standa uppúr í starfi síðunnar á þessu tímabili. Sjá nánar í svari hvers og eins.

Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils
Sjá nánar í svari hvers og eins en við erum helst að sjá fyrir okkur þrjár breytingar á byrjunarliðinu. Markmaður og miðvörður eru komnir nú þegar og allir sjáum við fyrir okkur einn miðjumann til viðbótar.

Næsta tímabil verður…
Betra.
Sjá nánar í svari hvers og eins.


Einar Örn

Leikmaður tímabilsins
1. Emre Can. Þegar að hann lék vel þá lék liðið vel. Tók ótrúlegum framförum á tímabilinu.
2. Phil Coutinho. Þegar hann er frábær, þá lítur hann út fyrir að vera einn af bestu leikmönnum heims. En hann hverfur ennþá alltof oft – hann er jú bara 23 ára gamall.
3. Nathaniel Clyne. Okkar stabílasti leikmaður. Sjaldan frábær, en aldrei lélegur heldur.

Bestu leikmannakaupin
1. Clyne. Ótrúlega stabíll og klárlega okkar fyrsti valkostur í hægri bakvörðinn næstu 5 árin.
2. Firmino. Eins og Coutinho var hann stundum frábær en hvarf of oft.
3. Origi. Kom frábærlega inn seinni hluta tímabilsins og lofar mjög góðu

Mestar framfarir á tímabilinu
1. Emre Can.
2. Dejan Lovren. Undir Klopp var hann klárlega okkar besti varnarmaður og augljós fyrsti kostur á næsta tímabili.
3. Lallana. Fann sig ótrúlega vel undir stjórn Klopp.

Besti leikur tímabilsins
1. City á Etihad.
2. Manchester United á Anfield
3. Dortmund á Anfield

Versti leikur tímabilsins
1. Sevilla tapið. Ég er ennþá fúll yfir þeirri frammistöðu.
2. United á Anfield.
3. 3-0 tap gegn Watford.

Bjartasta vonin í leikmannahópi Liverpool
1. Origi
2. Can (hann er bara 22 ára!)
3. Joe Gomez

Hvaða leikmenn myndir þú síðasta allra síst vilja missa úr núverandi hópi
1. Sturridge
2. Coutinho
3. Can

Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur
1. Sakho. Þvílíkur fávitaskapur að taka einhverjar megrunarpillur – gat hann ekki prófað að byrja á því að fara á low carb mataræði?
2. Moreno. Of óstabíll.
3. Ibe.

Mestu vonbrigði tímabilsins almennt
1. Tapið gegn Sevilla
2. Árangurinn í deildinni.
3. Öll þessi meiðsli lykilmanna.

Hvaða einkunn/umsögn fær þetta tímabil Liverpool
6. Fyrsta tímabil Klopp og hann fékk ótrúlega lítinn tíma til að vinna með mönnum á æfingasvæðinu. Tímabilið hefði geta endað vel, en menn klúðruðu þessum úrslitaleik illilega.

Hvaða einkunn/umsögn fær þjálfarateymið eftir þetta tímabil?
8. Komu okkur í tvo úrslitaleiki og fengu engan tíma til að vinna með hópnum, hvorki undirbúningstímabil né almennilegan tíma á milli leikja.

Álit þitt á FSG í dag?
Mjög gott – þeir gerðu allt rétt í vetur. Ráku Rodgers þegar að hann komst ekki lengra með liðið og fengu besta þjálfarann sem við gátum leyft okkur að dreyma um. Það er vonandi að menn styðji svo vel við bakið á Klopp í sumar.

Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils

Loris Karius

Clyne – Lovren – Matip – Moreno

Henderson – Can

Coutinho – Lallana – Firmino

Sturridge

Bekkur: Origi, Sakho, Milner.

Kannski ekkert svo rosalega metnaðarfullt en að mínu mati var vandamálið ekki byrjunarliðið okkar heldur það að næstu menn inn úr hóp voru of slakir. Helst vildi ég þó sjá einhvern sterkan í vinstri bakvörðinn til að setja pressu á Moreno.

Næsta tímabil verður…
Liverpool í toppbaráttu. Hvíldin frá Evrópu mun skila því að við verðum í toppbaráttu í deildinni. Alveg einsog á góða tímabilinu hans Rodgers.


Maggi

Leikmaður tímabilsins
1. Nathaniel Clyne. Einfaldlega rokk solid og eini leikmaður klúbbsins sem fór sennilega aldrei undir 5,0 í einkunn fyrir leik.
2. Phil Coutinho. Okkar hættulegasti maður þegar sá gállinn er á honum.
3. Emre Can. Byrjaði mjög illa en fékk allt annað hlutverk og fíneríis spilamennska í mörgum leikjum undir vorið.

Bestu leikmannakaupin
1. Nathaniel Clyne. Sjá að ofan.
2. Divorck Origi. Áræðinn og hraður, framtíðarframherji.
3. Roberto Firmino. Vann nokkra leiki en hvarf líka alveg inn á milli.

Mestar framfarir á tímabilinu
1. Dejan Lovren. Sýndi loksins að hann getur átt lykilhlutverk í þessu liði.
2. Emre Can. Átti marga góða leiki undir lok tímabilsins og glittir í framtíðarmiðjumann þarna.
3. Simon Mignolet. Veit að ég skila sératkvæði hérna en mistökum hans fækkaði verulega í vetur þó hann þurfi að taka sig á.

Besti leikur tímabilsins
1. Man. United 2-0 í Evrópudeildinni var sá sem við lékum ótrúlega vel í 90 mínútur og sýndum allar okkar bestu hliðar.
2. Man. City 4-1 á Etihad var nærri fullkomin frammistaða og gaf manni (falskar) vonir um sigursælan vetur.
3. Dortmund 4-3. Lélegir í 60 mínútur en ótrúlegar 30 mínútur sneru þessum leik í einn eftirminnilegan.

Versti leikur tímabilsins
1. Watford – Liverpool 3-0. Allar veikustu hliðarnar til sýnis, lin frammistaða og margir leikmenn úti á túni.
2. Sevilla – Liverpool 3-1. Vissulega gott lið að spila við en seinni hálfleikurinn afhjúpaði taugaveiklun og veikleika margra leikmanna.
3. Liverpool – United 0-1. Kannski það að hafa verið á vellinum og séð svo andlausa frammistöðu heima gegn erkifjendunum, en þetta var sögulega vondur leikur.

Bjartasta vonin í leikmannahópi Liverpool
1. Divorck Origi. Hefur alla burði til að verða í heimsklassa.
2. Emre Can. Var næstum búinn að afskrifa hann um tíma en undir vorið náði hann nokkrum frábærum frammistöðum sem yfirskyggðu þær slöku sem vissulega komu líka.
3. Shey Ojo. Held að þar fari leikmaður sem geti eignast sæti í liðinu á næsta ári og árum. Óútreiknanlegur og fullur af sköpunarkrafti.

Hvaða leikmenn myndir þú síðasta allra síst vilja missa úr núverandi hópi
1. Phil Coutinho. Þrátt fyrir margar ótrúlega linar frammistöður í vetur þá er hann lykillinn að sóknarleik sem ég vill sjá. Þarf sterkari miðjumenn með sér.
2. Daniel Sturridge. Einfaldlega magnaður framherji í heimsklassa sem við megum ekki missa.
3. Jordan Henderson. Þurfti að hugsa mikið í alvörunni hvort það væru fleiri en tveir á “absoloutely no chance” að selja. Hendo var meiddur í vetur og ég held að hann eigi mikinn möguleika á að springa út undir Klopp.

Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur
1. Alberto Moreno. Maðurinn einfaldlega er ekki í LFC klassa. Get hann ekki lengur.
2. Mamadou Sakho. Ljóst á öllu framferði félagsins nú í vor að þar fer maður sem ekki á framtíð lengur í rauðu treyjunni.
3. Jordan Ibe. Gæti eiginlega talið upp vonbrigði á eiginlega öllum leikmönnum en hélt í alvörunni að Ibe yrði fastur maður í okkar liði. Töfrarnir í skónum dofnuðu all verulega þar.

Mestu vonbrigði tímabilsins almennt
1. Seinni hálfleikurinn gegn Sevilla…bara þau mestu held ég síðan ég byrjaði að horfa á þetta lið. Vá hvað ég var vonsvikinn.
2. Tíminn í kringum áramótin var fullur af lélegum og linum frammistöðum eftir að byrjun Klopp lofaði einhverju góðu. Þá sá maður að enn eitt vonbrigðatímabilið var líklegt.
3. Óstöðugleiki í leik liðsins allt tímabilið – maður vissi bara aldrei hvaða lið yrði það sem maður sá í leikjum. Er merki um leikmannahóp sem er sneyddur karakterum og leikmenn sem ekki eru í heimsklassa. Svoleiðis menn vantar í leikmannahóp LFC.

Hvaða einkunn/umsögn fær þetta tímabil Liverpool
5,0 og það eina sem sleppur við það að tímabilið fái ekki falleinkunn er hversu snemma eigendur félagsins sáu þau mistök sem þeir gerðu að reka ekki Rodgers síðastliðið sumar og gerðu það fljótlega í haust. Ömurlegur deildarárangur og tvö töp í úrslitaleikjum er ekki neitt sem við eigum að sætta okkur við til lengri tíma.

Hvaða einkunn/umsögn fær þjálfarateymið eftir þetta tímabil?
7,5 Jurgen Klopp er réttur maður í öll þjálfarastörf og þ.á.m. með Liverpool. Hann hefur sýnt fram á að hann getur bætt leikmenn og náð að innprenta hjá leikmönnum ákveðið mentalitet sem stundum skín í. Hann þarf þó að yfirvinna ákveðna þætti eins og þá að róteringin fannst mér ganga of langt á stundum og leikmenn fengu einhverjir að spila sem ekkert erindi eiga í treyjuna. Svo vill ég sjá hann sneggri að bregðast við aðstæðum sem henda inni í leiknum, bíður oft of lengi með það. En maðurinn er heimsklassa þjálfari sem vonandi tekst að byggja upp heimsklassa lið.

Álit þitt á FSG í dag?
Fer ofar á þessu tímabili. Gerðu vel að ná í Klopp og breytingar á Anfield virka vel heppnaðar. Held að þeir séu að verða það reynslumiklir að stórum mistökum í leikmannakaupum og stefnumálum félagsins í heild muni nú fækka verulega.

Hvað stóð upp úr hjá þér í starfi kop.is? (Færsla, ferð, hittingur, ummæli o.s.frv.)
Magnað að fylla leiguvél af dyggum kop.is lesendum í janúar. Hrærður og stoltur yfir því – og ferðin alveg mögnuð utan fótboltaleiksins.

Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils

Mignolet

Clyne – Lovren – Matip – Hector

Henderson – Gundogan – Can

Götze – Sturridge – Coutinho

Set Mignolet bara hér inn því ég veit ekki um marga heimsklassa markmenn á lausu. Ef slíkur losnar vill ég hann, held að efnilegir eða óreyndir menn bæti þá stöðu ekki svo glatt.

Næsta tímabil verður…
Græna hliðin upp: Klopp fær til sín flotta leikmenn, líkamsstyrkurinn og grimmdin sem hann krefst svínvirkar í bland við lítið leikjaálag, við endum í topp þremur og vinnum eina bikarkeppni. Klopp hefur sannað sig og sýnt það að hans krafa um líkamsstyrk virkar…og andlegur styrkur hans er víst nægur til að vinna úrslitaleiki.

Brúna hliðin upp: Klopp yfirkeyrir liðið í sumar og haust, við byrjum vel en í október fara lykilmenn að meiðast og við lendum í basli í deild og föllum út í bikarkeppnunum. Náum okkur aftur á strik þegar leikjaálag bítur önnur lið í rassinn en endum í 5.sæti. Úrtölumenn sem hafa lengi talað um að hann yfirkeyri lið með álagi og klikki á stóru leikjunum brosa út í bæði.

Í dag finnst mér rosalega erfitt að átta mig á hvort verður…en hallast að og vona auðvitað að sú græna komi upp.


SSteinn

Leikmaður tímabilsins
1. James Milner. Hefur skilað sínu í allan vetur, jafn og einn af fáum sem sýndi smá stöðugleika.
2. Nathaniel Clyne. Sama með hann, einn af fáum í vetur sem sýndi einhvern stöðugleika. Þessi staða orðin vonandi solid næstu árin bara.
3. Philippe Coutinho. Ef þessi væri aðeins stöðugri í leik sínum, þá væri hann alltaf í fyrsta sæti á þessum lista.

Bestu leikmannakaupin
1. Nathaniel Clyne. Ungur, stöðugur og bara frábær bakvörður.
2. Divock Origi. Snilld að hafa tryggt sér þennan strák áður en hann sprakk út á HM. Á eftir að verða algjört Monster í framtíðinni.
3. Roberto Firmino. Æðislega pirrandi leikmaður, en flott kaup. Er yfirfullur af hæfileikum, en hverfur of oft. En þetta var bara hans fyrsta tímabil í nýju landi.

Mestar framfarir á tímabilinu
1. Dejan Lovren. Þvílíkur munur á einum manni.
2. Joe Allen. Fór úr því að vera helsti pirringur flestra stuðningsmanna, yfir í það að breyta leik eftir leik með frammistöðu sinni.
3. Emre Can. Mikið efni þessi strákur og var ég sífellt að pirra mig á honum þar sem maður sá alveg hvað hann ætti að geta gert. Hefur stigið talsvert upp seinni hluta tímabils.

Besti leikur tímabilsins
1. Liverpool – Dortmund 4-3: Ekki besta frammistaðan, en klárlega besti leikurinn og hafði upp á allt að bjóða.
2. Liverpool – Everton 4-0: Unaðslegt að skúra gólfin með þessum bláu nágrönnum okkar.
3. Chelsea – Liverpool 1-3: Ótrúlegur sigur á Brúnni.

Versti leikur tímabilsins
1. Liverpool – West Ham 0-3: Þrjú núll tap á heimavelli er alltaf algjörlega óásættanlegt.
2. Watford – Liverpool 3-0: Það er bannað að tapa þrjú núll fyrir Watford.
3. Man.Utd – Liverpool 3-1: Alltof stór sigur hjá þeim, en það gildir reyndar um alla sigra þeirra.

Bjartasta vonin í leikmannahópi Liverpool
1. Divock Origi. Eins og áður sagði, verður algjört Monster í framtíðinni.
2. Sheyi Ojo. Virkilega spennandi sóknarþenkjandi leikmaður.
3. Cameron Brannagan. Hann virðist bara vera með flottan fótboltahaus þessi strákur.

Hvaða leikmenn myndir þú síðasta allra síst vilja missa úr núverandi hópi
1. Daniel Sturridge. Einfaldlega einn besti striker í deildinni þegar hann er heill.
2. Philippe Coutinho. Töframaður.
3. Nathaniel Clyne. Góðir bakveðir eru vandfundnir og þessum vil ég halda lengi.

Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur
1. Jordon Ibe. Úff, ég hafði svo miklar væntingar til hans, en hann hefur verið afar slakur í vetur. Vonandi bara undantekning og hann komi sterkur tilbaka.
2. Jordan Henderson. Já, úr frekar háum söðli að falla, en hverju sem um er að kenna, þá var hann aðeins skugginn af sjálfum sér.
3. Christian Benteke. Þegar framherji er keyptur fyrir 32,5 milljónir punda, þá viltu fá eitthvað meira frá honum en þetta. Það er ekki eins og að hann sé að aðlagast nýrri deild.

Mestu vonbrigði tímabilsins almennt
1. Seinni hálfleikurinn gegn Sevilla. Er ennþá alveg grautfúll út í liðið og allt sem tengist því. Það er bara ekki í boði að mæta ekki til seinni hálfleiks í úrslitaleik í Evrópukeppni.
2. 8. sæti í deildinni er eitthvað sem ég get bara ekki sætt mig við. OK, gott og vel, stjóraskipti á miðju tímabili, en þetta er samt óásættanlegt.
3. Úrslit deildabikarsins. Ég þoli bara ekki að tapa úrslitaleikjum.

Hvaða einkunn/umsögn fær þetta tímabil Liverpool
5,5. Rétt sluppum við algjöra falleinkunn og það er eingöngu vegna þess að við fórum í tvo úrslitaleiki. Þegar maður er svona nálægt því að falla á prófi, þá spýtir maður í. Stór og mikil aðvörun.

Hvaða einkunn/umsögn fær þjálfarateymið eftir þetta tímabil?
Elska Klopp, en hann hefur gert nokkra feila og maður má ekki gleyma því að hann er á sínu fyrsta tímabili í nýrri deild. Hann hefur aftur á móti gert margt flott og er klárlega á hárréttri leið. Brendan kallinn fékk svo bara stóra og feita falleinkunn og átti hreinlega aldrei að fá að byrja tímabilið. En þá hefðum við líklegast ekki fengið Klopp. Klopp fær 7,0 en Brendan 3,0.

Álit þitt á FSG í dag?
Mjög gott og þeir hafa gert flest allt mjög vel. Stækkun Anfield að klárast. Ráku Rodgers og réðu Klopp, sem sýndi að þeir geta verið brutal. Hafa svo verið að setja hellings peninga í leikmannakaup. Nú er bara að fara að nýta þessa peninga betur. Klopp, yfir til þín.

Hvað stóð upp úr hjá þér í starfi kop.is? (Færsla, ferð, hittingur, ummæli o.s.frv.)
Klárlega ferðin okkar stóra til Liverpool í janúar. Leiguflug, flottur hópur í frábærri borg. Svo bara svona almennt séð, hvað lesendahópurinn er orðinn stór og virkur. Alltaf gaman þegar maður hittir fólk sem er að lesa síðuna reglulega.

Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils

Karius

Clyne – Lovren – Matip – Hector

Milner – Can – Gundogan

Firmino – Sturridge – Coutinho

Næsta tímabil verður…
Okkar (broskall). Nei, svona án gríns, þá er það bæði ferlegt og frábært að liðið skuli ekki hafa einu sinni náð inn í Evrópudeildina. Ferlegt fyrir þær sakir að það verða talsvert minni tekjur sem koma í kassann og eins að við fáum miklu færri leiki til að horfa á. En frábært að því leiti að fókusinn getur verið algjör á deildarkeppnina og í mínum huga er þetta ekki flókið. Við eigum að blanda okkur í bullandi toppbaráttu.


Kristján Atli

Leikmaður tímabilsins
1. Phil Coutinho. Var okkar mest skapandi leikmaður í mest allan vetur og skoraði einnig mest.
2. Emre Can. Sneri blaðinu við eftir að Klopp mætti á svæðið, var prímusmótor á miðjunni.
3. Roberto Firmino. Frábært fyrsta tímabil í Englandi, óx ásmegin eftir því sem leið á.

Bestu leikmannakaupin
1. Divock Origi.
2. Roberto Firmino.
3. Nathaniel Clyne.

Mestar framfarir á tímabilinu
1. Dejan Lovren. Fór frá því að eiga ekki séns í framtíðarstöðu í liðinu í að vera lykilmaður.
2. Emre Can. Alveg týndur og út úr stöðu en Klopp setti hann á miðjuna og gaf honum traust.
3. Kolo Touré. Undarlegt val en hann var hálfgerð fígúra í leikmannahópnum fyrir ári en endaði tímabilið sem algjör lykilmaður.

Besti leikur tímabilsins
1. Dortmund á Anfield. Einn besti leikur síðari ára.
2. Chelsea á Stamford Bridge. Það er sjaldgæft að rúlla þeim svona upp á þeirra velli.
3. Southampton úti í deildarbikar. Af því að í klukkutíma virtist þetta lið okkar geta allt.

Versti leikur tímabilsins
1. United á Anfield í janúar. Ég var á þeim leik. Mér hefur sjaldan liðið jafn illa eftir tap. Svo var líka skítakuldi á vellinum.
2. West Ham á Anfield í haust. Gjaldþrotið var algjört í þeim leik. Innsiglaði örlög Brendan Rodgers.
3. Sevilla. Að vera 1-0 yfir í hálfleik í úrslitum Evrópudeildar og spila svona þennan síðari hálfleik? Fokking fokk.

Bjartasta vonin í leikmannahópi Liverpool
1. Divock Origi. Eitthvað segir mér að við séum með algjört skrímsli í höndunum.
2. Emre Can. Hann er hægt og rólega að verða algjör Rolls Royce miðjumaður.
3. Danny Ings. Við söknuðum hans í vetur en sáum nóg í haust til að hlakka til endurkomu hans. Verður lykilmaður.

Hvaða leikmenn myndir þú síðasta allra síst vilja missa úr núverandi hópi
1. Daniel Sturridge.
2. Divock Origi.
3. Danny Ings.

Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur
1. Alberto Moreno. Á meðan Dejan Lovren fann fæturna á öðru tímabilinu virtist Moreno ekkert læra þegar leið á.
2. Jordon Ibe. Spilaði mikið en átti erfitt tímabil. Er þó ungur og mun læra af þessu.
3. Jordan Henderson. Ekki honum að kenna en það var erfitt að vera meira og minna án fyrirliðans í allan vetur.

Mestu vonbrigði tímabilsins almennt
1. Tveir úrslitaleikir. Enginn bikar. Eintóm vonbrigði.
2. Deildarframmistaðan. 2014 var undantekningin, annars er 5.-8. sætið normal hjá Liverpool í dag. Það verður að fara að breytast.
3. Byrjunin. Það er bara aldrei jákvætt þegar liðið byrjar svo illa að það þarf að breyta um knattspyrnustjóra í byrjun október. Sorrý Brendan.

Hvaða einkunn/umsögn fær þetta tímabil Liverpool
4,5. Þetta verður alltaf að vera falleinkunn af því að liðið þurfti að skipta um stjóra, náði rétt svo topp 10 í deild og vann enga bikara. Það er allt saman langt frá því að vera viðunandi hjá Liverpool. Á sama tíma sá maður marga jákvæða hluti og við fengum inn stjóra sem gera þetta tímabil ekki alveg vonlaust. Þannig að 4,5, náðu næstum því en féllu að lokum. Vonandi er það grunnurinn að einhverju fallegu á næstu leiktíð.

Hvaða einkunn/umsögn fær þjálfarateymið eftir þetta tímabil?
Brendan Rodgers: falleinkunn. Algjöra. Jürgen Klopp: súkkulaðikleina. Náði á einhvern ótrúlegan hátt að kreista þessu liði í tvo úrslitaleiki án þess að hafa pre-season eða kaupa inn leikmenn sem henta sínu skipulagi en deildin batnaði ekkert og úrslitaleikirnir töpuðust. Þannig að 0 á Rodgers og 6,5 á Klopp.

Álit þitt á FSG í dag?
Þeir gerðu vel í að stökkva á Jürgen Klopp þegar tækifærið gafst, sýndu metnað þar, og það er ánægjulegt að sjá stækkun vallarins loksins verða að veruleika nú í sumar. Þeir hafa staðið sig vel. Nú þurfum við metnað á leikmannamarkaðnum í sumar.

Hvað stóð upp úr hjá þér í starfi kop.is? (Færsla, ferð, hittingur, ummæli o.s.frv.)
Frábær ferð okkar í janúar, þótt úrslit leiksins í það sinn væru glötuð. Skemmtilegt spjall við kollega mína í podcöstum og góð og málefnaleg umræða á síðunni í kringum brottrekstur Brendan Rodgers. Þar voru lesendur síðunnar okkur og sjálfum sér til sóma og það var reglulega auðgandi að lesa umræðurnar þá dagana.

Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils
Miðað við fréttir er hægt að skjóta nokkuð nærri því held ég:

Loris Karius

Clyne – Lovren – Matip – EKKI MORENO

Milner – Can – Henderson

Firmino – Sturridge – Coutinho

Þarna eru bara þrír nýir og þeir eru í marki og vörn. Í raun væri ég alveg sáttur við ef það yrðu bara keyptir markverðir og varnarmenn í sumar því liðið okkar kann alveg að spila sóknarbolta. Utan liðs þarna eru líka Ings, Origi, Lallana, Ibe, Grujic, Ojo og kannski kemur einn framherji í viðbót. Það er nú þegar breidd í sóknarlínunni. Varnarlínan þarfnast mikillar skurðaðgerðar. Myndi alveg þiggja Mario Götze samt.

Næsta tímabil verður…

Langdregið. Við getum horft á jákvæðu hliðar þess að vera ekki í neinni Evrópukeppni en ein af neikvæðustu hliðunum er að liðið á eftir að spila miklu færri leiki en keppinautarnir og áhugi okkar á liðinu grundvallast í eðli sínu af því að horfa á liðið spila fótbolta. Þannig að maður þarf að þola maaargar langar vikur þar sem hin liðin spila í miðri viku en við bíðum bara eftir helginni.

Ég er samt bjartsýnn. Klopp á hliðarlínunni og rétt innkaup í sumar og þá á að vera hægt að einbeita sér að deildinni. Topp fjórir lágmark, ég er bjartsýnn!


Einar Matthías

Leikmaður tímabilsins
1. Emre Can, fyrir mér er þetta engin spurning. Mun bæta sig enn frekar með betri samherjum.
2. Dejan Lovren, svei mér þá. Fór að sýna sitt rétta andlit um leið og hann fór að spila undir stjórn þjálfara sem hefur eitthvað vit á varnarleik.
3. Coutinho. Gæti orðið mjög spennandi leikmaður í Klopp fótbolta en er eins og er að hverfa allt of oft, sérstaklega í stóru leikjunum.

Clyne og Milner voru okkar jöfnustu menn en mér fannst þeir afskaplega sjaldan okkar bestu menn á vellinum og því hef ég þá ekki hér.

Bestu leikmannakaupin
1. Origi – Held að við eigum þarna sóknarmann sem þú byggir lið í kringum.
2. Firmino – Stóð svosem ekki undir verðmiðanum en átti nokkra mjög góða leiki og lofar gríðarlega góðu upp á framhaldið. Suarez-duglegur varnarlega.
3. Clyne, man varla eftir umræðu um stöðu hægri bakvarðar í vetur sem er mikil breyting frá árinu á undan. Mjög solid leikmaður, mætti þó alveg eiga fleiri leiki upp á 8 og 9.

Mestar framfarir á tímabilinu
1. Lovren – Þetta hefur meira með upplegg liðsins að gera held ég frekar en rosalegar framfarir hjá honum sem leikmanni.
2. Emre Can – Engin geimvísindi að hann sé miklu betri í sinni stöðu sem hann spilar leik eftir leik heldur en þegar hann var að spila margar mismunandi stöður leik eftir leik og stundum jafnvel í sama leiknum.
3. Lallana – Hann var helmingi betri leikmaður í vetur heldur en á sínu fyrsta ári hjá félaginu.

Besti leikur tímabilsins
1. Dortmund – Engin spurning hérna, besti leikur þessa áratugar, ekki besta frammistaða Liverpool en klárlega besti leikurinn.
2. Man City 1-4 úti. Í bland við hræðilegu leikina tók Liverpool nokkur rúst í vetur, Man City tekið samanlagt 7-1 og frammistaðan á Etihad með Klopp nýtekinn við var frábær. Vonandi það sem koma skal.
3. Man Utd heima í Evrópudeildinni. Þetta var einn af stærstu leikjum tímabilsins og okkar menn stóðu undir því í það skiptið.

Versti leikur tímabilsins
1. Sevilla – Allt liðið átti vondan dag og þá er ég að meina þjálfarateymið líka. Liverpool hefur tapað nánast öllum úrslitaleikjum undanfarin ár sem er gjörsamlega óþolandi.
2. West Ham 0-3 – Blaut tuska framan í góða byrjun á tímabilinu og síðasti naglinn í kistu Brendan Rodgers sem var að mestu búið að smíða fyrir tímabilið.
3. Southamton heima 2-3 – Ótrúlegt hvað Liverpool tapaði oft niður forystu í vetur en af mörgum slæmum var þetta líklega versta tilvikið. Mjög vondur dagur hjá Klopp.

Bjartasta vonin í leikmannahópi Liverpool
1. Can – Held að þarna fari einn efnilegasti miðjumaður í heiminum í dag og efni í algjört skrímsli. Liverpool þarf að komast í Meistaradeild eins og skot ef við ætlum að halda honum hjá félaginu áfram.
2. Origi – Hefur allt, er á hárréttum aldri og kominn til þjálfara sem er með gríðarlega gott record þegar kemur að því að vinna með svona leikmann.
3. Marko Grujic – Tek sénsinn hérna. Klopp hefur verið að vinna ansi vel úr 19-20 ára óþekktum miðjumönnum í gegnum tíðina, vonandi er Grujic næstur.

Hvaða leikmenn myndir þú allra síst vilja missa úr núverandi hópi
1. Emre Can – By far Emre Can.
2. Origi – Ég held að Klopp byggi liðið upp með Origi sem sinn aðalsóknarmann, mikið frekar en Sturridge af augljósum ástæðum. Hann spilaði allt of lítið í vetur en haldist hann heill dregur hann gríðarlega úr mikilvægi Sturridge sem er nákvæmlega það sem Liverpool þarf.
3. Firmino – Þennan leikmann myndi ég alls ekki vilja missa núna því ég held að hann eigi meira en nóg inni. Hann er frábær varnarlega og núna búinn að venjast deildinni. Held hann verði allt annar leikmaður á öðru ári og í miklu minna leikjaálagi.

Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur
1. Benteke – Ekki hægt að velja annan held ég. Keyptum þarna £32.5m sóknarmann sem átti að draga úr mikilvægi Sturridge en fengum mann sem komst ekki í liðið þrátt fyrir að bókstaflega allir hinir sóknarmennirnir væru meiddir.
2. Jordon Ibe – Ótrúlegt að leggja upp með hann sem okkar eina kantmann en guð minn góður hvað hann stóð ekkert undir álaginu. Aldrei séð leikmann sem hleypur jafn oft útaf með boltann og ég þegar ég spila FIFA.
3. Henderson – Ekkert við hann að sakast auðvitað en að missa hann í meiðsli allt tímabilið var það síðasta sem við máttum við með ekki sterkari miðju en þetta. Svakaleg vonbrigði og mér sýnist innkaupastefnan miða svolítið að því að við verðum ekki eins háð honum næsta vetur.

Mestu vonbrigði tímabilsins almennt
1. Árangurinn – Þetta tímabil fór nánast fullkomlega eins illa og ég óttaðist á sama tíma í fyrra. Evrópudeildin gat ekki farið mikið verr með okkur enda spilaði Liverpool alla leiki sem hægt var að leika og vann ekki. Ofan á það bættist deildarbikarinn sem spilaðist nákvæmlega eins. Liverpool var fórnarlamb eigin velgengni í vetur og það kostaði okkur þá keppni sem skiptir öllu máli, deildina. 8.sæti hjá Liverpool á að vera tilefni til ítarlegrar naflaskoðunnar, ekki eins nálægt nominu og raun ber vitni.
2. Sevilla leikurinn / Meistaradeildarsætið – Brútal að komast alla leið í úrslit og meira að segja leiða í hálfleik og henda því eins illa frá okkur og við gerðum. Það var fórnað deildinni fyrir þetta partý og þynkan er verulega slæm. Var samt gott partý núna eftir áramót, segi það ekki.
3. Meiðslalistinn. Þetta er auðvitað beintengt við 63.leikja tímabilli hjá hópi sem var ekkert stöðugur fyrir en ekkert lið höndlar svona mörg meiðsli lykilmanna. Enginn sóknarmaður náði að spila 45% eða meira af leiktímanum í deildinni í vetur svo dæmi sé tekið. Erum með gott lið en það hjálpar ekkert ef meirihlutinn af því er ekki inná.

Hvaða einkunn/umsögn fær þetta tímabil Liverpool
3,5 – Ég kem ekki til með að sakna Evrópudeildarinnar næsta tímabil og vill frekar færri en (miklu)betri stundir með Liverpool næsta vetur. 8.sæti í deild er hörmulegt, mér er skítsama um deildarbikarinn en Evrópudeildin rífur þetta upp. Ráðning Klopp er aðalástæða þess að maður hefur trú á því næsta.

Annars vannst stærsti sigurinn í vetur utan vallar, held að niðurstaða Hillsborough dómsmálsins sé miklu stærra mál fyrir félagið og stuðningsmenn en við gerum okkur almennilega grein fyrir.

Hvaða einkunn/umsögn fær þjálfarateymið eftir þetta tímabil?
5,0 – Auðvitað fórnarlömb eigin velgengni í aukakeppnunum og þeir gátu lítið gert í þessu svakalega leikjaálagi. Það er allt annað að sjá liðið í dag heldur en í byrjun móts og það er þjálfarateyminu að þakka. Gefur góð fyrirheit að þó komast í úrslit á tveimur keppnum en deildin á að vera númer eitt, þegar Liverpool lendir í 8.sæti fer ég ekki ofar en 5,0. Myndi samt ekki vilja neitt annað þjálfarateymi frekar en það sem Liverpool er með núna.

Álit þitt á FSG í dag?
Sýnist félagið vera í mjög öruggum höndum. Þeir eru að reyna að bæta árangurinn innan vallar og fá Klopp til að laga þann part, gátu ekki gert betur þar. Loksins loksins er verið að stækka völlinn og félagið virðist vera mjög vel rekið. Erum að setja fínan pening í leikmannakaup og núna hafa þeir vonandi betri menn í að tryggja að þessi peningur fari í rétta leikmenn.

Hvað stóð upp úr hjá þér í starfi kop.is? (Færsla, ferð, hittingur, ummæli o.s.frv.) – Rosalegur fjöldi leikja hafði auðvitað áhrif á starfsemi siðunnar, það var ný upphitun eða leikskýrsla á síðunni í um 130 daga. Það er svakalegt á aðeins níu mánuðum, nánast annanhvern dag. Eðlilega hafði þetta áhrif á aðra starfsemi síðunnar á köflum. Podcast þáttum fjölguðum við töluvert og gerum það líklega enn meira næsta vetur.
Hápunkur var svo auðvitað risahópferð okkar í janúar þar sem við fengum með okkur mjög góðan hóp.

Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils

Loris Karius

Clyne – Matip – Lovren – Moreno

Henderson – Dahoud – Can

Firmino – Origi – Coutinho

Þrír nýir í hryggsúluna en engar allsherjar breytingar á liðinu. Markmannsstaðan er mikilvægasta breytingin og verður að heppnast vel. Nýr miðvörður er mjög jákvætt og vonandi nýr miðjumaður líka. Henderson og Origi væru svo eiginlega eins og nýir leikmenn. Byrja strax að byggja liðið upp með Origi sem fremasta mann, mikið frekar en Sturridge sem væri frábær lúxusvara þá sjaldan hann er heill. Ekki hægt að leggja enn eitt árið upp með Sturridge sem sóknarmann númer eitt.

Næsta tímabil verður…
Minna leikjaálag er engin ávísun á árangur en Klopp fær tækifæri til að spila sinni svokallaða gegenpressing fótbolta sem væri nánast ekki hægt með liðið í Evrópukeppni líka.

Sé ekki fyrir mér titilbaráttu og myndi eins og staðan er núna sætta mig við eitt af topp sætunum fjórum. Rétt eins og Róm var ekki byggð á hverjum degi þá held ég að Klopp þurfi meira en eitt ár til að byggja Liverpool upp eins og hann vill hafa það. En næsta ár verður mikil framför og leggur vonandi grunn að næstu árum.


Óli Haukur

Leikmaður tímabilsins
1. Nathaniel Clyne. Kom inn í liðið og gerði nákvæmlega það sem hann þurfti að gera. Var okkar lang stöðugasti leikmaður. Þakið kannski ekki hátt hjá honum en hann var stöðugasti leikmaður liðsins.
2. Emre Can. Var frábær eftir að hann var settur aftur á miðjuna þegar Klopp tók við og var virkilega góður. Líkt og aðrir leikmenn liðsins týndist hann inn á milli en heilt yfir var þetta mjög gott tímabil hjá honum.
3. Phil Coutinho. Valið stóð á milli hans og Milner en ég ákvað að velja Brassann. Á sínum degi getur hann allt og ef hann er farinn að finna markið betur en áður þá er það frábært fyrir Liverpool.

Bestu leikmannakaupin
1. Clyne. Bakvarðarstöðurnar hafa lengi verið vandræði hjá okkur en við fáum góðan og afar stabílann bakvörð til okkar fyrir leiktíðina sem stóð undir öllu því sem maður vildi og virðist sú staða vera góðum höndum næstu árin.
2. James Milner. Kom á frjálsri sölu og var nokkuð magnaður fyrir okkur. Nokkur mikilvæg mörk og hellingur af stoðsendingum. Ekki hægt að kvarta undan honum.
3. Roberto Firmino. Fór afar hægt af stað en var frábær eftir því sem leið á leiktíðina. Hann getur verið marka og stoðsendingamaskína en líkt og með fleiri þá vantar honum að finna ögn meiri stöðugleika.

Mestar framfarir á tímabilinu
1. Divock Origi. Gekk brösulega að komast í gang í upphafi móts, virkaði ekki tilbúinn að virtist ekki vera nógu sterkur. Meiðist á slæmum tímapunkti þegar hann er loksins að detta í gang en kemur bara til baka stærri, sterkari og einfaldlega betri. Byrjaði stóra leiki á kostnað Sturridge.
2. Dejan Lovren. Framfarir hans hófust á seinustu leiktíð en hann hefur heldur betur gefið í í vetur. Er greinilega afar sterkur karakter og virðist vera að vinna sér inn traust Klopp. Skoraði risastórt mark gegn Dortmund og gerði eitt í úrslitaleiknum í Evrópudeildinni en því miður fékk það ekki að standa.
3. Adam Lallana. Gerði það sama og hann hefur verið að gera áður en í ár gerði hann það með miklu meiri tilgangi og hafði meira hlutverk en að vera bara eitthvað auka skraut á vellinum.

Besti leikur tímabilsins
1. Seinni leikurinn gegn Dortmund. Held við þurfum ekki að ræða það eitthvað nánar.
2. Sigurinn á United í Evrópudeildinni. Var afar fínt að hrista þessa United-grýlu af herðum sér með svona frábærum sigri – sem hefði samt átt að vera mikið stærri!
3. Það er Evrópudeildarþema í þessu hjá mér en ég held ég setji seinni leikinn gegn Villarreal hér.

Versti leikur tímabilsins
1. Úrslitaleikurinn gegn Sevilla. Liðið gugnaði á stóra sviðinu þegar allt var undir. Voru í forystu og með yfirhöndina en enduðu á að tapa stórt. Glatað!
2. Úrslitaleikurinn gegn Man City. Frammistaðan svo sem ekki galin og tap í vítaspyrnukeppni en liðið átti alltof mikið inni fannst manni í þessum leik.
3. Tapið gegn Utd á Anfield. Enn eitt tækifærið sem Liverpool náði ekki að nýta sér og koma sér af alvöru í baráttuna um 4.sætið.

Bjartasta vonin í leikmannahópi Liverpool
1. Divock Origi. Bigger, faster, stronger útgáfan af Origi er geðveik! Hann gerir “einföldu” hlutina vel og er góður target maður en hann er að koma með meiri striker-takta í sinn leik og getur skorað mörk í öllum regnboganslitum. Sit back and enjoy the ride!
2. Emre Can. Er frábær á miðjunni og virðist geta náð eins langt og hann vill þar. Enn einhverjar nokkrar brúnir sem hann þarf að slípa smá til en framtíð hans er afar, afar björt.
3. Joe Gomez. Hann heillaði mann afar mikið í upphafi leiktíðar þegar hann tók yfir stöðu vinstri bakvarðar undir stjórn Brendan Rodgers. Því miður meiddist hann um leið og Klopp kom inn en hann er svakalega efnilegur og efast ég ekki um að Klopp hlakki mikið til að vinna með honum í sumar.

Hvaða leikmenn myndir þú síðasta allra síst vilja missa úr núverandi hópi
1. Emre Can.
2. Divock Origi.
3. Daniel Sturridge.

Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur
1. Alberto Moreno. Hann átti sínar rispur inn á milli en heilt yfir þá var hann mikil vonbrigði. Lélegar staðsetningar, slæmar ákvarðanir og kæruleysi frá hans hálfu kostaði liðið allt of mikið og setti oft í erfiða stöðu. Aðrir varnarmenn liðsins virða vera að ná betri tökum á yfirvegaðri og agaðri varnarleik en Moreno virðist ströggla við það.
2. Simon Mignolet. Vörnin fór heilt yfir að verða sterkari en ekki kom markvarslan. Alltof, alltof, alltof margir leikir þar sem hann varði ekki skot og við fengum á okkur ódýr mörk.
3. Jordon Ibe. Mikið svakalega hefur Ibe gengið illa eftir að Sterling fór. Er það pressan, er hann bara ekki nógu góður eða hvað? Búinn að vera mikil vonbrigði og finnst manni hann ekki hafa staðnað heldur eiginlega frekar tekið skref aftur á bak.

Mestu vonbrigði tímabilsins almennt
1. Lélegt deildargengi.
2. Tap í úrslitum Evrópudeildar og Deildarbikars.
3. Skortur á stöðugleika í liðinu.

Hvaða einkunn/umsögn fær þetta tímabil Liverpool
Þetta tímabil fær í kringum fimmuna, kannski aðeins lægra. Það var margt jákvætt sem liðið sýndi og gerði en þegar uppi er staðið þá er ekkert sem það hefur til að sanna þann árangur og framfarir sem náðust á erfiðu tímabili. Maður sér margt sem fyllir mann bjartsýni en það er líka enn margt sem veldur manni hugarangri – og það er mikið hlutir sem hafa eflaust poppað upp áður í svona uppgjörum.

Hvaða einkunn/umsögn fær þjálfarateymið eftir þetta tímabil?
Leiktíðin byrjaði með Rodgers sem náði ekki að hrista af sér slæman endi á síðustu leiktíð og var látinn fara frekar snemma. Klopp kom inn og þó liðið hafi gert mjög vel oft á tíðum þá átti maður samt von á aðeins meira – smá meiri stöðugleika og betri úrslitum í fleiri leikjum. Stundum fannst mér Klopp klúðra svolítið í liðsvali og þá sérstaklega varðandi skiptingar til að breyta gangi leikja. Tveir úrslitaleikir er mjög sterkt en tvö töp og lélegur deildarárangur eru vonbrigði. Rodgers fær gjafmildan ás en Klopp fær eitthvað á milli 6.5 og 7.

Álit þitt á FSG í dag?
Ekkert breyst neitt sérstaklega og er mjög gott. Þeir taka mjög metnaðarfulla ákvörðun og ráða Jurgen Klopp, félagið að skila góðum hagnaði, viðbygging á vellinum gengur vel og þeir hafa verið að gefa fínt fjármagn til leikmannakaupa – held að þeir fari ekki að draga úr þessu svo ég hef ekkert út á þá að setja.

Hvað stóð upp úr hjá þér í starfi kop.is? (Færsla, ferð, hittingur, ummæli o.s.frv.)
Síðan stendur alltaf fyrir sínu og ummælin, podcast-ið og allt það klikkar seint. Þetta hefur verið mjög þétt tímabil fyrir síðuna og 63 leikir gera 126 leikskýrslur og upphitanir svo það hefur verið nóg að gera en það verður lengri bið á milli leikja á næstu leiktíð svo vonandi verður svigrúm til góðra pistla meira en í ár 🙂

Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils

Karius

Clyne – Lovren – Matip – Hector

Can – Dahoud/Hendo

Götze – Firmino – Coutinho

Sturridge

Liðið verður greinilega þýskað upp í sumar og ég gæti alveg trúað því að nokkrir stórir leikmenn gætu farið frá okkur og hrist rækilega vel upp í hópnum. Litist afar vel á liðið svona í fyrsta leik!

Næsta tímabil verður…
Vonandi svipað og síðasta ár sem við vorum ekki í neinni Evrópukeppni en okkur tekst að fara alla leið!

Ég held að það muni taka okkur góðan tíma að venjast því að hafa ekki 2-3 leiki á viku á næstu leiktíð eins og var í ár. Aftur á móti þá ætti það að gefa liðinu aukin tíma á æfingasvæðinu og vonandi kemst meiri stöðugleiki í liðið við það.


Eyþór

Leikmaður tímabilsins
1. Clyne. Að vera kominn með bakvörð sem við eyðum ekki flestum mánudögum að tala um er frábært. Minnir mann á Finnan hvað það varðar, var ávalt vanmetinn leikmaður.
2. Lovren. Að mínu mati var hann okkar besti miðvörður eftir að Klopp kom. Allt annað að sjá hann, ég var nánast búinn að afskrifa hann fyrir ári síðan.
3. Coutinho. Það pirrar mig reyndar óendanlega mikið hve óstöðugur hann er, var samt sem áður einn okkar besti leikmaður. Búinn að bæta mörkum við leik sinn sem við þurfum svo sannarlega á að halda.

Bestu leikmannakaupin
1. Clyne. Komnir með mann sem ætti að geta átt þessa stöðu næstu 10 ár eða svo.
2. James Milner. Menn eru ekki alltaf sammála með Milner, hefur samt skilað ótrúlegu magni af stoðsendingum og verið heilt yfir nokkuð góður.
3. Roberto Firmino. Byrjaði illa en hefur vaxið gríðarlega. Rétt eins og landi hans þá hefur óstöðugleiki líklega verið það sem truflar mig mest með hann, gæðin leyna sér samt ekki.

Mestar framfarir á tímabilinu
1. Origi. Fór úr alls ekki liðinu í Frakklandi á síðasta tímabili yfir í það að halda Sturridge út úr liðinu.
2. Lovren. Skúrkur í fyrra, flottur þetta tímabilið. Markið gegn Dortmund mun lifa löngu eftir að hans ferli hjá klúbbnum er lokið.
3. Can. Reyndar mjög seint á tímabilinu og við þurfum að fá að sjá það sama næsta haust, en hann var frábær síðustu 2-3 mánuðina eða svo. Hann getur náð eins langt og hann vill.

Besti leikur tímabilsins
1. Dortmund. Þarf ekkert að útskýra nánar, ég dustaði rykið af Olympiacos fagninu og tók trylltan stríðsdans í stofunni.
2. City. Erfiður leikur á útivelli með nýjan þjálfara, frábær sigur og frábær framistaða.
3. Chelsea. Það er fátt skemmtilegra en að vinna Chelsea á brúnni. Sérstaklega þegar það er svona verðskuldað.

Versti leikur tímabilsins
1. West Ham. Deildarleikur, Anfield, var um haustið en maður nánast afskrifaði tímabilið á þessum tímapunkti. Andleysið algjört.
2. Sevilla. Að eiga að vera 3-0 yfir í hálfleik, en vera svo búnir að missa forskotið eftir 17 sec í síðari hálfleik og sjá aldrei til sólar…. hrikalegt.
3. Man City. Að tapa úrslitaleik er alltaf ömurlegt. Tveir þetta tímabilið, úff.

Bjartasta vonin í leikmannahópi Liverpool
1. Origi. Getur náð mjög langt.
2. Can. Fékk loksins að spila “sína stöðu”, var frábær síðustu mánuði tímabilsins.
3. Gomez. Bind miklar vonir við hann, vonandi að hann fari aðra leið en Wisdom.

Hvaða leikmenn myndir þú síðasta allra síst vilja missa úr núverandi hópi
1. Coutinho. Myndi endanlega stimpla okkur sem selling club.
2. Clyne. Góðir bakverðir eru sjaldgæfir. Nenni ekki meiri Glen Johnson, Moreno, Riise umræðu.
3. Can. Getur náð eins langt og hann vill. Að selja hann í dag væri óendanlega vitlaust.

Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur
1. Ibe. Maður sá hann fyrir sér sem ekki minna efni en Sterling. Hefur ekki getað nákvæmlega neitt og virkað í fýlu vegna þess.
2. Mignolet. Er þetta ekki orðið fínt?
3. Sakho. Megrunartöflur! Í alvöru Sakho? Kaupi það ekki.

Mestu vonbrigði tímabilsins almennt
1. Deildarárangurinn. 8 sæti er kannski ekki svo langt frá meðaltalinu síðasta áratugin eða svo, sem er sorglega staðreynd dagsins.
2. Tap í tveimur úrslitaleikjum. Að komast í tvo úrslitaleiki er jákvætt, að tapa þeim báðum er ömurlegt.
3. Frammistaða í leikjum sem skipta máli. United á heimavelli í deildinni, Sevilla, Man City ofl. Alltaf þegar maður gerði sér vonir tók Liverpool upp sleggjuna og sá svo sannarlega til þess að maður var sleginn allrækilega niður aftur.

Hvaða einkunn/umsögn fær þetta tímabil Liverpool
3,0 af 10,0. 8 Sæti er óviðunandi. Þetta litast kannski af verstu frammistöðu sem maður man eftir í úrslitaleik, þ.e. þessar 45 mínútur gegn Sevilla.

Hvaða einkunn/umsögn fær þjálfarateymið eftir þetta tímabil?
7,0 af 10,0. Fannst Klopp oft bregðast seint og illa við, sbr Southampton í deild og Sevilla leikurinn. Eru auðvitað nýkomnir inn og ekki búnir að fá að kaupa sína leikmenn. Við vitum meira eftir 12 mánuði. Skemmtanagildið fór samt úr 2,0 í 9,0 – þarf bara að vinna í stöðugleikanum (og kaupa betri leikmenn).

Álit þitt á FSG í dag?
Meh. Skrítið að vera ekki kominn með álit á þeim eftir þetta mörg ár. Ánægður með ráðninguna á Klopp og stækkunina á Anfield. Samt mörg spurningarmerki, hvernig fer sumarið? Er transfernefndin enn til staðar? Fær Klopp fjármagn (umfram þessar 20-30m nettó)? Er félagið til sölu? Spyrjið mig aftur 1. september.

Hvað stóð upp úr hjá þér í starfi kop.is? (Færsla, ferð, hittingur, ummæli o.s.frv.)
Verið mjög óvirkur þetta árið, löggilding, gifting o.s.frv. Vonandi verður maður virkari á komandi vikum og mánuðum.

Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils

einhver markmaður(Karius?)

Clyne – Lovren – Matip – Hector

Can – Henderson

Götze – Firmino – Coutinho

Sturridge/Origi

Veit ekki hvort þetta sé draumurinn. Henderson var auðvitað skelfilegur, sem vonandi skýrist af þessum meiðslum. Frammistöðurnar hjá Can í lok tímabilsins, hann þarf að sýna stöðugleika, ekki bara vera flottur í leikjum sem skipta minna máli.

Næsta tímabil verður…
Ef ég þekki Liverpool rétt þá gerum við atlögu að titlinum á næsta tímabili en endum svo í því sjöunda eða áttunda tímabilið 2017/18.

14 Comments

 1. Nú þú…

  Leikmaður tímabilsins

  Bestu leikmannakaupin

  Mestar framfarir á tímabilinu

  Besti leikur tímabilsins

  Versti leikur tímabilsins

  Bjartasta vonin í leikmannahópi Liverpool

  Hvaða leikmenn myndir þú allra síst vilja missa úr núverandi hópi

  Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur

  Mestu vonbrigði tímabilsins almennt

  Hvaða einkunn/umsögn fær þetta tímabil Liverpool

  Hvaða einkunn/umsögn fær þjálfarateymið eftir þetta tímabil?

  Álit þitt á FSG í dag?

  Hvað stóð upp úr hjá þér í starfi kop.is?

  Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils

 2. Þið eruð einu númeri of neikvæðir fyrir minn smekk. Fannst t.d. frammistaðan gegn United í tapinu í janúar alls ekki vera sögulega léleg frammistaða. Það sem varð okkur að falli í þeim leik (eins og svo oft áður) var hörmuleg færanýting og heimsklassamarkvörður í neti United.

  Finnst líka það að gefa tímabilinu rétt undir 5 í einkunn aðeins of mikil bölsýni og reiði án þess að líta yfir hlutina á yfirvegaðan hátt. Ég er alls ekki að segja að tímabilið hafi verið frábært, en það að komast í úrslit í tveimur bikarkeppnum er ekki svona hræðilegt.

  Einnig erum við komin með Jurgen Klopp og árangurinn sem hann hefur náð utan vallar þykir mér gríðarlega merkilegur. Honum hefur tekist að efla stuðningsmennina og gera leikmenn sem margir voru farnir að froðufella yfir af bræði nýja líflínu. Þannig höfum við séð yfir hverslags klassa maðurinn býr yfir.

  Ég myndi allavega gefa tímabilinu 6 eða jafnvel 6,5 í einkunn því að þótt að lakt gengi í deildinni hafi dregið liðið langt niður, þá má ekki gleyma því að við vorum 6 stigum frá meistaradeildarsæti í gríðarlega jafnri deild þar sem allir geta unnið alla. Hins vegar er þetta alls ekki neitt til að fagna heldur svona “la-la”, eins og maður myndi orða það.

 3. Leikmaður tímabilsins
  Emre Can – skriðdrekinn var goður

  Bestu leikmannakaupin – Firmino kom með mörk og stoðsendingar

  Mestar framfarir á tímabilinu – Origi og Lovren..orðnir lykilmenn

  Besti leikur tímabilsins – Dortmund minnti a Istanbul…verst að þeir attu eftir að spila við Sevilla.

  Versti leikur tímabilsins – Sevilla, okkar menn gatu ekki rassgat þvi miður.

  Bjartasta vonin í leikmannahópi Liverpool – Origi, orðinn framherji nr.1 hja liðinu

  Hvaða leikmenn myndir þú allra síst vilja missa úr núverandi hópi – Can, Coutinho og Firmino

  Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur – Sakho, goður stundum og stundum ekki. Mignolet og aðrir snillingar eru hættir að valda mer vonbrigðum…þeir eru einfaldlega vonbrigði.

  Mestu vonbrigði tímabilsins almennt – tapið i urslitum Europa League

  Hvaða einkunn/umsögn fær þetta tímabil Liverpool – 7

  Hvaða einkunn/umsögn fær þjálfarateymið eftir þetta tímabil? – 8

  Álit þitt á FSG í dag? þeir lönduðu Klopp, keyptu duglega siðasta sumar – 9

  Hvað stóð upp úr hjá þér í starfi kop.is? YNWA

  Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils

  Origi
  Coutinho Firmino Gotze
  Can Henderson
  Hector Lovren Matip Clyne
  Karius

 4. Leikmaður tímabilsins
  – Nathaniel Clyne. Stabílasti leikmaðurinn og þegar hægri bakvörður liða er besti leikmaður þess, þá er illa fyrir komið 🙂

  Bestu leikmannakaupin
  – Emre Can. Tek undir það sem aðrir hafa sagt, þegar hann á góðan leik þá eiga mennirnir í kringum hann góðan leik. Framtíðarleiðtogi á miðjunni hjá okkar mönnum, þó hann vanti stöðugleika í sinn leik. Það kemur með reynslunni.

  Mestar framfarir á tímabilinu
  – Dejan Lovren. Maðurinn sem þurfti að loka samfélagsmiðlum vegna þess yfirhrauns sem hann fékk frá eigin aðdáendum (bestu stuðningsmenn í heimi?) en vann sig til baka og er nú besti varnarmaður liðsins.

  Besti leikur tímabilsins
  – vs. Dortmund á Anfield. Minnti á Istanbul 2005 (Ég var á þeim leik, by the way!).

  Versti leikur tímabilsins
  – vs. Sevilla. Þegar mest á reyndi, hrundu okkar menn niður eins og píslir í logni. Í logni!

  Bjartasta vonin í leikmannahópi Liverpool
  – Emre Can. Sjá hér að ofan.

  Hvaða leikmenn myndir þú allra síst vilja missa úr núverandi hópi
  – Emre Can. Sjá hér að ofan.
  – Firmino. Ég held að hann eigi eftir að blómstra á næstu tímabilum eftir erfiða byrjun.
  – Nathaniel Clyne. Sjá hér að ofan.

  Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur
  – Moreno. Ég hélt að hann myndi þróast í að verða góður leikmaður. Ég held ekki lengur.
  – Sakho. Hvað varstu að pæla, maður?
  – Og reyndar bara allir leikmenn liðsins ullu miklum vonbrigðum.

  Mestu vonbrigði tímabilsins almennt
  – 8. sæti í deildinni.
  – Tvö töp í úrslitaleikjum. Í slíkum leikjum kemur í ljós hverjir eru menn og hverjir eru mýs. Allir leikmenn liðsins reyndust mýs, og því væri það mér að áhyggjulausu ef nýtt byrjunarlið kæmi inn í sumar.

  Hvaða einkunn/umsögn fær þetta tímabil Liverpool
  – 0. Þetta var meðalmennsku tímabil, enn eitt slíkt.

  Hvaða einkunn/umsögn fær þjálfarateymið eftir þetta tímabil?
  – 0. Þótt ég hafi mikið álit á Klopp og hans teymi, þá er 8. sætið og tvö töp í úrslitaleik bara aldrei nógu gott fyrir Liverpool.

  Álit þitt á FSG í dag?
  – Þeir eru nú búnir að eiga liðið í, hvað, 6 ár? Árangurinn er enginn, nema að við erum pikkföst í meðalmennsku. 8. sætið í deildinni þegar öll stóru liðin skitu upp á bak. Aðeins Chelsea gerði meira í brækurnar en við á þessu tímabili.
  – Ergo, ég hef ekkert álit á FSG í dag. Þeir hafa eytt peningum í leikmenn, en þeim hefur verið afar illa varið. Þeir voru með business módel sem virkaði í bandarískum íþróttum. Það hefur sýnt sig að það virkar ekki í alvöru íþróttum.

  Hvað stóð upp úr hjá þér í starfi kop.is?
  – Vefsíðan, því ég er mest bara hérna. Maður á nú örugglega eftir að detta í kop.is ferð einn daginn á gamlar slóðir, en ég bjó um tíma í Liverpool við nám og það er allt of langt síðan ég fór þangað síðast.

  Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils
  – Ég veit ekki í hvaða draumaheimi kop.is ritarar búa, en Gundongan? Maðurinn sem er á leiðinni til ManCity? Einmitt það já bara.
  – Og halda menn í alvörunni að Baktus sé kominn til þess að hirða markmannsstöðuna af Mignolet? Fyrir mér þá hugsa ég þessi kaup bara sem risa bætingu á varamarkmannsstöðunni, en Bogdan kallinn.. Stundum eru menn bara númeri of litlir fyrir lið, Bogdan var hins vegar um það bil tólf númerum of lítill.

  – Raunhæft byrjunarlið í fyrsta leik næsta tímabils er væntanlega svipað því að endaði þetta tímabil, nema Matip kemur sennilega inn í stað Toure/Skrtel/Sakho. Sem er fúlt því það er kominn tími á alvöru hreinsun í þessum leikmannahópi. Þannig liðið verður væntanlega eitthvað á þessa leið:

  Mignolet
  Clyne – Matip – Lovren – Moreno
  Henderson – Can – Milner
  Firmino – Origi – Coutinho

  Það liggur stórkostlega mikið á að fá þrjá topp leikmenn í þetta lið
  1)”defensive midfielder” í sambærilegum gæðum og Matic, Masch og slíkir gæjar
  2) Vinstri bakvörð, af augljósum ástæðum.
  3) Götze, sem dæmi eða annan sóknarmann í þeim klassa.

  Maður fer nú ekki fram á mikið, en ég held að þetta sé nauðsynlegt til þess að liðið komist upp úr þessari áralöngu meðalmennsku sem einkennt hefur liðið í fleiri, fleiri ár.

  Homer

 5. Trausti (#3) segir:

  “Þið eruð einu númeri of neikvæðir fyrir minn smekk. Fannst t.d. frammistaðan gegn United í tapinu í janúar alls ekki vera sögulega léleg frammistaða. Það sem varð okkur að falli í þeim leik (eins og svo oft áður) var hörmuleg færanýting og heimsklassamarkvörður í neti United.”

  Ég var á þessum leik. Í mesta kulda sem ég man eftir á Anfield. Þetta er í ca. topp 20 yfir leiðinlegustu atvik lífs míns. Ég tuða bara víst yfir þessum leik.

 6. Skil ekki afhverju Homer er að dissa Gundogan move þegar hann er að fitla sér við tilhugsunina um Götze. EM á eftir að skýra margt í þessum málum en eins og staðan er núna þá er það bæði off

 7. Dissa Gundogan move? Hvað þýðir þetta eiginlega?

  Ef þú ert að meina að ég sé eitthvað hissa á að menn telji raunhæft að sá leikmaður geti verið á leiðinni til LFC í sumar, þá tel ég bara 0% líkur á því. Það hef ég bara frá svona almennum og daglegum lestri á helstu knattspyrnusíðum, og hef bara hvergi séð – frá nokkrum miðli, sem telja má áreiðanlegan – Gundogan orðaðan við Liverpool. Bara aldrei, held ég.

  Heldur þvert á móti þá hefur hann þrálátt verið orðaður við ManCity, og nýjustu fréttir í kvöld herma að hann sé svo gott sem búinn að semja við City og verði þannig fyrsti leikmaðurinn sem Pep Guardiola kaupir þangað.

  Götze er hins vegar bara allt annar handleggur, það er einmitt þrálátt búið að vera orða hann við Liverpool síðustu vikur og jafnvel mánuði, meðal annars hjá Liverpool Echo, Sky og BBC.

  Hann reyndar sagði í viðtali um daginn að hann ætlaði sér ekkert að fara frá Bayern. En flestir leikmenn segja það hvort eð er í svona stöðu – hann ætlar ekkert að þvinga fram sölu frá einu besta liði í heimi, en Bayern mun selja hann í sumar ef hann skrifar ekki undir nýjan samning þar sem samningur hans rennur út næsta sumar.

  Annars munu flest leikmannakaup vera “off” þangað til eftir EM, þ.e. í það minnsta ef LFC ætlar á annað borð að fara á eftir stærri nöfnum en Karius og félögum…

  Homer

 8. #6 Kristján

  Efast alls ekki um það vegna ykkar reynslu á sjálfum vellinum. Eins og ég las og skyldi ritninguna var ég bara ósammála því að frammistaðan sem slík hafi verið sögulega léleg. Hef séð margar andlausari frammistöður gegn United undanfarin ár en þessa.

 9. Leikmaður tímabilsins

  Clyne. Ef að aðrir leikmenn hefðu sýnt sama stöðuleika og Clybe þá hefði tímabilið verið allt annað.

  Bestu leikmannakaupin

  Clyne og Milner.

  Mestar framfarir á tímabilinu

  Origi og Lovren

  Besti leikur tímabilsins

  Dortmund á Anfield

  Versti leikur tímabilsins

  Sevilla

  Bjartasta vonin í leikmannahópi Liverpool

  Emre Can og Ojo

  Hvaða leikmenn myndir þú allra síst vilja missa úr núverandi hópi

  Sturridge, Can og Clyne

  Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur

  Mignolet, Moreno og Ibe

  Mestu vonbrigði tímabilsins almennt

  Árangurinn í deildinni

  Hvaða einkunn/umsögn fær þetta tímabil Liverpool

  Óþolandi óstöðuleiki, 5.

  Hvaða einkunn/umsögn fær þjálfarateymið eftir þetta tímabil?

  Klopp 7, Rodgers 1

  Álit þitt á FSG í dag?

  Ráku Rodgers og fengu Klopp sem var geggjað. Er svolítið stressaður fyrir leikmannakaupum, sérstaklega þar sem að mörg önnur lið í deildina virðast metnaðarfull, en treysti á Klopp.

  Hvað stóð upp úr hjá þér í starfi kop.is?

  Góðar upphitanir fyrir leiki.

  Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils

  Loris Karius
  Clyne Lovren Matip Hector
  Neves Can
  Yarmolenko Firmino Coutinho
  Sturridge

 10. TEST á LFC

  Sælir herramenn

  Sumarið er tíminn, sagði Bubbi en ég er alltaf með hnút í maganum á þessum tíma þegar kemur að málefnum Liverpool.

  Ef slúðrið er rétt þá er RISA test/próf á félagið okkar að koma upp núna – sagan segir nefnilega að PSG ætli að gera tilboð í Coutinho. Þrátt fyrir að hann hafi átt lélega leiki í vetur þá er þetta helsta stjarna liðsins, staðreynd. Ef félagið selur hann núna, þá er hægt að pakka í töskurnar og sætta sig við orðinn hlut. Við erum Everton.

  Ef þetta verður enn eitt sumarið sem okkar helstu stjörnur hverfa á brott þá er ansi illt í efni, svo þetta verður rosaleg prófraun á okkar klúbb.

  Hef heyrt að Klopp sé afar vonsvikinn og reiður vegna Götze sem hann var mjög vongóður um – Það mál liggi þungt á okkar manni enda hefði það verið mikið statement að ná honum inn.

  Hvert okkar Marquee signing verður í sumar verður ansi forvitnilegt að sjá en það er á tæru að keppinautar okkar verða grimmir, Arsenal hafa nú þegar nælt í stóran bita, Guardiola er byrjaður og þá má gera ráð fyrir að United og Chelsea landi stórum bitum.

  Fact. Okkur vantar “stjörnu” sem selur treyjur, sem gefur okkur tru. Mann sem gengur inn í byrjunarliðið og er ávallt fyrstur á blað ef hann er heill. Í dag eru þessar stjörnur okkar Sturridge, Coutinho. Vissulega vantar Coutinho stöðugleikann en ef hann verður seldur þá er félagið enn og aftur að henda inn hvíta handklæðinu.

  Það eru forvitnilegir tímar framundan.

 11. #10

  Rólegur.

  Vissulega sammála um hversu mikið vandamál það er að við erum selling club en það á við um Suarez, Torres, Alonso og Mascherano, ekki Coutinho sem er ekki 20m virði. Ef þetta er eitthvað bull eins og 50m, þá myndi ég “taka peningana og hlaupa”. Myndi í raun selja hann á 20m.

  Finnst ótrúlegt að þessi leikmaður er talinn stjarna liðsins. Hann spilar vel í 5. hverjum leik. Jafnaldri hans, Neymar, á 70 landsleiki og 46 mörk fyrir Brasilíu. Coutinho á 13 og 1. Hér erum við að tala um 3.-5. besta leikmann í alvöru liði vs. besta leikmann í okkar liði (að mati margra). Vandamálið er munur frekar að jafn takmarkaður leikmaður sé okkar helsta stjarna.

  PSG, go nuts! Má bjóða ykkur Henderson og Lallana líka?

 12. #11

  Margt til í því en hann er eigi að síður ein stæðsta stjarna og prospect liðsins. Það að selja hann yrðu slæm skilaboð, en svo er það lika sama hvaða aur við fáum hvað fáum við í staðinn? Ekki náum við inn einhverjum stjörnum fyrir Suarez eða Sterling.

  Hjartanlega sammála þér að þeir mættu taka Henderson….

 13. Nú þú…

  Leikmaður tímabilsins
  Segjum bara Can, hann var flottur á miðjunni. Það stóð samt enginn upp úr á tímabilinu.

  Bestu leikmannakaupin
  Clyne, stöðugur og contender í að vera leikmaður tímabilsins.

  Mestar framfarir á tímabilinu
  Origi í lok tímabilsins, ekki spurning.

  Besti leikur tímabilsins
  Dortmund, seinni leikurinn

  Versti leikur tímabilsins
  Sevilla

  Bjartasta vonin í leikmannahópi Liverpool
  Origi, Ojo og Can

  Hvaða leikmenn myndir þú allra síst vilja missa úr núverandi hópi
  Firmino, var góður á tímabilinu og ég hef grun um að hann springi almennilega út á næsta tímabili.

  Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur
  Benteke, en það var aðallega vegna þess að það sem mann grunaði fyrir tímabilið að hann passaði ekki í systemið hjá BR reyndust réttar, rétti aðeins úr kútnum undir lokin en náði engan vegin að réttlæta kaupin.

  Mestu vonbrigði tímabilsins almennt
  Hversu svakalega menn misstu hausinn í loka hálfleik tímabilsins sem skipti öllu máli.

  Hvaða einkunn/umsögn fær þetta tímabil Liverpool
  4,5

  Hvaða einkunn/umsögn fær þjálfarateymið eftir þetta tímabil?
  Góð þjálfaraskipti, ég var BR maður fram á síðasta dag en Klopp er klárlega betri maður í stöðuna, hlakka til að sjá hann móta liðið næstu tímabil.

  Álit þitt á FSG í dag?
  Stóðu sig og sýndu að þeim er alvara með því að ráða Klopp

  Hvað stóð upp úr hjá þér í starfi kop.is?
  Frábærar upphitanir fyrir alla leiki, lúxus fyrir lesendur! Takk fyrir mig.

  Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils

  ————Karius
  Clyne-Lovren-Sakho-Moreno/annar bakvörður á móti honum sem er varnarsinnaðari
  ——-Can-Hendo
  Milner-Firmino-Coutinho
  ———-Origi

  Geri ráð fyrir að Sturridge meiðist á EM

EM áherslan – opinn þráður – uppfært

Coutinho orðaður við önnur lið?