Núverandi hópur

Jurgen Klopp fékk í vetur nánast heilt tímabil sem undirbúningstímabil, auðvitað ekki bókstaflega en hann var með fullkomlega frítt spil í vetur og laus við alla pressu sem er mjög óvanaleg staða fyrir stjóra Liverpool. Hann hefur notað þennan tíma til að meta núverandi leikmannahóp og áður en hafist verður handa við að kaupa nýja leikmenn þarf að meta hvað er til staðar nú þegar. Þetta held ég að sé óvitlaust fyrir okkur að gera líka. Hópurinn er það stór núna að það er nánast öruggt að a.m.k. einn verður seldur á móti hverjum einum sem kemur inn.

Til að meta núverandi hóp finnst mér best að miða við spilaðar mínútur. Fyrir nokkrum vikum bar ég saman spilaðar mínútur í deildinni hjá Liverpool, Tottenham og Leicester og var alls ekki hissa á að sjá muninn á liðunum þar. Núna er ég búinn að taka þetta aftur saman fyrir okkar menn og nú með Evrópudeildinni inní (það eru ekki til upplýsingar um fjölda mínútna í bikarleikjunum).

Spilaðar mínútur 2015-16
*Hef þá ekki með sem hafa spilað minna en 5% af heildarmínútum í Deild og Evrópudeild.

Markmenn

Mignolet – Hann fékk nýjan fimm ára samning og mikinn stuðning frá Klopp. Hann spilar 92% leikjanna og þar af alla í Evrópu. Hann þarf meiri samkeppni næsta vetur og helst einhvern sem slær hann úr liðinu. Við sjáum það hjá flestum liðanna fyrir ofan Liverpool að þau hafa traustari og betri markmann og það telur gríðarlega. Óttast að hann verði í byrjunarliðinu í fyrsta leik næsta vetur en vona ekki.

Miðverðir

Lovren – Eins mikið og hann hefur nú spilað sig inn í liðið þá spilaði hann bara 55% af deildarleikjum Liverpool í vetur og 59% ef við teljum Evrópudeildina með. Það er rosalega dýrt að vera án síns besta miðvarðar (sem Lovren er í dag) í tæplega helmingi deildarleikjanna. Sáum hjá Leicester og Tottenham hvað það getur verið gott að hafa nánast alltaf sömu samæfðu vörnina leik eftir leik.
Sakho – Nákvæmlega eins með Sakho í vetur og Lovren, þeir voru að spila jafn mikið en ekki ekki nærri allir þessara leikja var með þá saman í vörninni. Yfirvofandi leikbann Sakho er fullkomlega bölvað og hjálpar ekki til við að koma stöðugleika á vörnina. Eins gott að Matip og Lovren komi ferskir inn í mót í haust.
Kolo Toure – Hann endaði tímabilið mjög vel og spilaði á endanum 31% af leiktímanum í deild og Evrópudeild í vetur. Fjarvistir í miðvarðahópi Liverpool sýna engu að síður að þörf er á betri valkosti þrjú en 36 ára Kolo Toure.
Skrtel – Hann er líka að spila 55% deildarleikja Liverpool. Hann er að enda sinn feril hjá Liverpool ekki ósvipað Riise á sínum tíma. Loksins loksins var prufað að spila saman t.d. Sakho og Lovren og viti menn það var allt annað að sjá vörnina. Takk og bless Skrtel.
Gomez – Klopp hefur öfugt við Rodgers verið að spila flestum í sinni bestu stöðu. Gomez er það mikið efni að hann fór 18 ára beint inn í byrjunarliðið hjá Rodgers en spilaði sem vinstri bakvörður. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hann kemur undan meiðslum og eins hvar Klopp er að hugsa hann.
Alveg eins og 36 ára Toure er ekki heillandi sem þriðji valkostur þá er 19 ára Joe Gomez nýkominn úr langtímameiðslum ekkert voðalega heillandi sem 3.-4. valkostur heldur.

Bakverðir

Clyne – Hugsið ykkur, hann er eini útileikmaður liðsins sem spilaði meira en 80% af deildarleikjum Liverpool. Hann þarf miklu meiri samkeppni en Flanagan og Randall voru/eru að veita honum en Clyne var í vetur sú uppfærsla á Glen Johnson sem við vorum að vonast eftir.
Flanagan – Náði nú að spila alveg 12% af deildarleikjum Liverpool í vetur. En mitt mat er að ef hann væri ekki frá Liverpool væri krafan á miklu betri kost í samkeppni við Clyne töluvert hávær. Guð hjálpi okkur ef Clyne meiðist.
Moreno – Hann spilaði 75% af deildarleikjum Liverpool í vetur og 77% samtals ef við teljum Evrópudeildina með. Það er ekkert svakalega skrítið að hann sé óstöðugur varnarlega m.v. hlutverk, leikjaálag og samherja hans. Hef ennþá fulla trú á honum í liði með miklu betri holningu en við sáum frá þessu Liverpool liði í vetur. Mjög vanmetið t.a.m. að hann var okkar langfljótasti leikmaður í flestum leikjum. Það er a.m.k. nákvæmlega engin þörf á að selja hann en hann þarf samkeppni, helst frá einhverjum sem getur slegið hann úr liðinu.
Smith – Samdi ekki fyrr en í nóvember og spilaði 8% af deildarleikjum Liverpool, þá leiki sem verið var að hvíla Moreno fyrir leiki í öðrum keppnum aðallega.

Varnartengiliðir

Emre Can – Einn af fimm sem náði að brjóta 70% múrinn hvað spilaðar mínútur í deild varðar. Ofan á það spilaði hann nánast alla Evrópudeildarleikina. Líklega saknar enginn leikmaður Rodgers eins lítið því hann fékk að sýna sitt rétta andlit undir stjórn Klopp. Eigum algjört skrímsli í höndunum hérna.
Lucas – Vill ekki sjá hann spila eina sekúndu á miðjunni í deildarleik. En sem valkostur í bikarleiki og sem varaskeifa fyrir miðverði hefði ég ekkert á móti því að halda Lucas eitt ár í viðbót. Hann er gríðarlega sterkur félagslega líka og hefur verið manna lengst hjá félaginu. Hann var að spila 57% af deildarleikjum Liverpool í vetur og 48% ef við tökum Evrópu með.
Kevin Stewart – Hann fékk nýjan samning í vetur og því spurning hvort Klopp sjái fyrir sér að vinna eitthvað með hann. Hann er að verða 23 ára gamall í byrjun næsta tímabils. Spilaði a.m.k. slatta í vetur (16%) sem mögulega er hægt að byggja ofan á.

Miðjumenn

Milner – Kom til Liverpool til að spila á miðjunni en var nánast um leið kominn í svipað hlutverk og hann var hjá City. Hann spilaði 71% af deildarleikjum vetrarins og var einn af betri leikmönnum liðsins og á pari við Clyne í stöðugleika. Afskaplega fátt spennandi við Milner en þetta er leikmaður sem spilar flest alla leiki.
Henderson – Meiðsli Henderson voru eitt það versta sem gat komið fyrir á þessu tímabili og kostuðu okkur líklega verulega af stigum. Hans var t.a.m. sárt saknað í síðasta leik. Hann spilaði vissulega 38% af deildarleikjum Liverpool en var augljóslega aldrei 100% í neinum þeirra. Megum ekki við því að missa hann aftur í svona langan tíma nema eiga sterkari menn til vara en við eigum nú.
Allen – Hann átti nokkrar góðar innkomur en meiddist eins og vanalega fljótlega í kjölfarið. Spilaði 22% deildarleikja Liverpool í vetur sem segir allt sem þarf um hversu hátt hann er skrifaður. Hann nær ekki meira en 22% deildarleikja á tímabili þar sem fyrirliði liðsins (í sömu stöðu) er að spila 38% leikjanna (meiddur). Góðar innkomur núna eftir áramót hækka vonandi verðmiðan og koma Allen að í góðu liði, hann á það skilið.

Kantmenn

Ibe – Svakaleg vonbrigði í vetur! Honum fór aftur í vetur frekar en að taka stökkið upp á næsta level. Hann spilaði allt í allt 34% af deildarleikjum Liverpool þrátt fyrir að vera bókstaflega eini kantmaður liðsins í vetur. Fyrir ári var ég að spá því að hann færi á sama level og Sterling og hann sýndi takta í þá veru, núna er ég ekki viss um að hann verði leikmaður Liverpool í haust.
Ojo – Fyrst var það Sterling, svo Ibe og nú er það Ojo. Vonandi verður það svo Wilson að ári. Frábært að það komi svona reglulega upp gríðarleg efni. Ojo var farinn að fá nasaþefinn í vetur og lofar mjög góðu.
(Markovic) – Langar rosalega að sjá hann fara á sama prógramm og Origi var settur og á sjá hvernig leikmann við fáum. Eins langar mig svakalega að sjá hann spila sína stöðu undir stjórn Klopp og Buvac sem er auðvitað samlandi hans. Við höfum ekki ennþá fengið að sjá Markovic fá alvöru/eðlilegt tækifæri hjá Liverpool og ég vill ekki selja hann fyrr en við höfum fengið að sjá það.

Sóknartengiliðir

Coutinho – Hann spilaði 59% af deildarleikjum Liverpool í vetur sem er nánast það sama og Firmino og Lallana. Hefði Liverpool náð þessum 7 stigum sem vantaði uppá Meistaradeild með þá í liðinu hin rúmlega 40% af leiktímanum? Evrópudeildin tók auðvitað mikinn toll líka þar sem Coutinho spilaði 71% af leikjum Liverpool. Er ekki eins upprifin yfir leik Coutinho í vetur og margir aðrir og finnst hann ennþá allt of óstöðugur en það er ekki tilviljun að Coutinho er frábær þegar hann hefur frábæra leikmenn í kringum sig.
Firmino – Hér held ég að við eigum miklu marksæknari leikmann í höndunum en Coutinho og mig hlakkar gríðarlega mikið til að sjá hann á næsta tímabili. Þá hefur hann vonandi vanist deildinni, leikjaálagið er ekki eins svakalegt og Klopp hefur náð að slípa sinar hugmyndir betur. Hann var að spila 2/3 af mótinu í deild og Evrópu.
Lallana – Ætti að vera á hátindi ferilsins núna og var að sýna það oft á tíðum eftir áramót í vetur. Fellur vel inn í hugmyndafræði Klopp og mun svipað og Milner allaf spila megnið af leikjum sinna liða, þó ekki endilega alltaf í sömu stöðu.

Sé enga ástæðu til að selja neinn af þessu tríói í sumar.

Sóknarmenn

Mest pirrandi staða Liverpool á þessu tímabili, líka því síðasta.

Sturridge – Annað tímabilið í röð kostar fjarvera Sturridge okkur deildina. Hann spilaði 29% af deildarleikjum Liverpool í vetur. Aftur þori ég að veðja að Liverpool hefði léttilega náði í Meistaradeildina ef Sturridge væri að spila svipað marga leiki og t.d. Kane og Vardy.
Óþolandi góður leikmaður, bókstaflega. Langar að selja hann þegar hann er meiddur, finnst allir asnar sem leggja það til þegar hann er ekki meiddur. Enn eitt árið vonum við að þessi meiðsli hans séu að baki.

Mikilværi Sturride átti að vera töluvert minna í vetur en því miður smitaði hann hina sóknarmennina bara líka af meiðslum.
Origi – Frábært að eiga nú þegar leikmann sem er mjög líklegur til að slá Sturridge úr liðinu hvort sem hann er heill eða ekki. Origi er leikmaður sem þú byggir lið í kringum til framtíðar, Sturridge er leikmaður sem þú tekur bara einn leik fyrir í einu.
Hversu dæmigert var það líka fyrir þetta andsetta lið okkar að Origi spilaði töluvert minna en Sturridge í vetur. Vissulega var hann ekki alltaf í liðinu í byrjun mótsins en hann náði bara að spila 20% af deildarleikjum Liverpool.
Ings – Bölvun Liverpool var svo fullkomnuð í Danny Ings. Hann spilaði þrefalt minna í vetur en Sturridge. Samanlagt spiluðu Origi og Ings svipað mikið í deildinni og Sturridge. Þetta bara getur ekki verið svona brutal á næsta tímabili, andskotinn hafi það.
Benteke – Sá sóknarmaður Liverpool sem spilaði lang mest af deildarleikjum, Benteke með 44% spilaðar mínútur. Hann var reyndar ekki nærri því eins mikið meiddur og hinir þrír heldur svo lélegur að hann komst ekki einu sinni í liðið þegar það var enginn annar sóknarmaður heill. Keyptur til stjóra sem vissi ekkert hvernig hann ætlaði að nota hann og fékk svo annan stjóra sem hefur engin not fyrir hann. Þetta er því miður bara fullkomið copy/paste af Andy Carroll kaupunum.

Með alla þessa sóknarmenn áfram á næsta tímabili og heila heilsu væri Liverpool til alls líklegt. Fari einhver af þeim (Benteke) þarf það að vera fyrir annan betri. Liverpool þarf augljóslega lágmark fjóra mjög góða sóknarmenn í hópnum.

Prufum að stilla upp ca. sterkasta byrjunarliði Liverpool (á pappír).
11
(Sorry Milner, hann var með 71%)
Takist Liverpool að halda lykilmönnum liðsins í betra standi en tókst í vetur er ljóst að við erum með lið sem getur mikið betur en 8. sæti. Það er ekkert eðlilegt að aðeins tveir af hryggsúluni nái að spila meira en 2/3 af deildarleikjum liðsins. Hvað þá þegar annar af þessum leikmönnum er markmaðurinn.

Þessi færsla er einnig ágæt útskýring fyrir andúð minni á B-Evrópukeppni, bikar og hvað þá deildarbikar á sama tíma og liðið er að ná stöðugleika í 6.-8. sæti. Everton sætunum.

31 Comments

 1. Það vantar varnarmennina inn á síðustu myndina.

  Ég bíð annars bara rólegur eftir því að glugginn opni, og reyndar eftir því að hann lokist sömuleiðis.

 2. Sammála Einar. Við þurfum meiri spilatíma frá okkar bestu mönnum sérstaklega í deildinni.

 3. Skemmtileg grein og vel gert Einar.

  Það sem þarf að taka inní alla þessa tölfræði er að liverpool spilaði nokkra leiki og það sérstaklega undir lok tímabilsins með hálfgert varalið inná. Þar sem leikjaálagið var orðið gríðarlegt á tímabilinu og Klopp að hvíla menn fyrir stórleiki í Evrópukeppni og deildarbikar.

  Menn verða auðvita aldrei samála um hverjir eiga að fara frá liðinu og hverjir ekki og það er allt í lagi.
  Mér finnst okkur vanta alvöru markmann, varnartengilið(held að E.Can eigi ekki að festast þar heldur spilar á sjálfri miðjuni) og vinstri bakvörð. Þetta tel ég vera veikleikana hjá liverpool.

  Heilsan er samt það mikilvægasta og eins og með sóknarlínuna í vetur það er fínt að vera með flott nöfn en þeir skapa lítið og skora lítið upp í stúku meiddir(okey lítið = ekkert).

  Klopp hefur verið algjör snillingur að einfaldlega gera leikmenn betri og þarf ekki að versla heilt lið en ég held að hann sé það klókur að hann veit hverjir styrkleikar liðsins eru og hverjir veikleikarnir eru.

 4. Hvernig er Milner ekki í sterkasta liðinu á pappír? Umtalsvert betri en Henderson í vetur.

 5. Milner með 28 deildarleiki, 5 mörk og 11 stoðsendingar, spilandi útum allan völl.
  Finnst þetta ekki slæm tölfræði í liði sem gat ekki blautan.
  Skil ekki hvað mönnum finnst svona óspennandi við hann? Er það faktorinn að gefa sig alltaf 100% í leiki?
  Ef liðið ætlar að vinna eitthvað er nauðsynlegt að halda milner, Sigurlið þurfa svona týpu.

 6. http://lineupbuilder.com/?sk=b0mx5

  Ekki slæmt lið ef allt gengur upp! Reikna ekki með Benteke og væri gaman að fá inn einhvern þungavigtar í staðinn fyrir hann, en með færri leiki ættum við að vera vel mannaðir frammi með Firmino t.d líka sem getur leyst þá stöðu. Fimm nýir leikmenn (tveir þegar komnir) svo er spurningin hvort það verði keyptur einhver striker? Batshuayi/Icardi?

  ps ég nenni ekki Callum Wilson, Shane Long, Drinkwater glugga.

 7. Set þetta inn hér – var færsla við síðustu grein en á líklega jafnvel við hérna.

  Margir góðir punktar hérna.

  Núverandi strategía eigendanna hefur skilað engu öðru en meðalmennsku. Árangurinn undir þeirra stjórn er verri en undir fyrri eigendum. Frá 1993-2009 var liðið almennt (með örfáum undantekningum) í 2-5. sæti en síðan þá er það 6-8. sæti (með einni undantekningu).

  Þetta þýðir einfaldlega að leikmennirnir sem eru keyptir eru of ungir og of óstöðugir. Það fylgir aldrinum. Stundum erum við hoppandi kátir yfir því hvað liðið er ungt og efnilegt, svo koma úrslitaleikir sem tapast af því að menn eru eintómir mjölkisar inni á velliunum. Í þokkabót verður síðan alltaf annar hver leikmaður og rúmlega það að Florent Sinama Pongolle eða Bruno Cheyrou. Næsti hinn og næsti þetta sem getur ekkert. Nærtækt dæmi sem við þekkjum vel er íslenska landsliðið í fótbolta. Þeir voru flestir meira og minna á svipuðum stað um tvítugt en núna var einn að falla úr 1. deild, annar var bestur í sínu liði í Premier League, þriðji kemst ekki í lið og svona mætti lengi telja. Árin eftir tvítugt eru þau ár sem skera úr um hvaða leið leikmenn fara og fleiri feila heldur en ná alla leið.

  Það er raunar óskiljanlegt að eftir öll þessi ár af svipaðri strategíu að menn átti sig ekki á því að langbestu kaupin eru í 22-24 ára gömlum leikmönnum sem hafa reynslu í stórum deildum. Slík kaup verða ekki 100% og hafa svosem ekki verið það en ef ég man rétt þá gerði Einar Matthías þessu góð skil fyrir ekki svo löngu síðan.

  Varðandi það að hreinsa til þá eru nýjustu fréttir þær að Joe Allen sé á leið til Swansea. Það er svosem allt í lagi, ekkert mikill söknuður í honum. Ég er samt þeirrar skoðunar að það gangi ekki að skera upp allt liðið. Þeir sem spiluðu mest í vetur mega alveg minnka mikilvægi sitt hjá liðinu þannig að einfaldlega séu keyptir betri leikmenn en þeir sem eru fyrir. Það þarf ekkert að spá í breidd liðsins núna þegar liðið mun aðeins spila einhverja 45 leiki eða svo á næsta ári. 20 manna hópur + unglingar ætti alveg að duga.
  Af þeim sem eru hvað undeildastir þá spiluðu fjölmargir meðalmenn allt of marga leiki:

  Mignolet 55 leiki

  Moreno 50 leiki

  Lallana 49 leiki

  Benteke 42 leiki

  Ibe 41 leik

  Lucas 40 leiki

  Allen 37 leiki

  Skrtel 27 leiki

  Toure 26 leiki

  Þetta eru 9 leikmenn sem enginn ætti að vera lykilmaður hjá alvöru Premier League liði. Þeir væru hins vegar allir prýðilegir squad leikmenn hjá hvaða liði sem er.

  Fjölmargir þeirra eru þó á allt of háum launum til að vera squad leikmenn og því þarf líklega að hreinsa slatta af þessum leikmönnum. Ég myndi segja að Skrtel, Allen og Benteke séu helstu kandídatarnir og þar á eftir séu það Lucas og Toure. Þetta eru hins vegar allt reyndir og öflugir leikmenn sem væri bagalegt að missa alla í einu. Þess vegna held ég að fyrri þrír séu þeir einu sem ætti að losa út fyrir utan ungu leikmennina. Held t.d. að Stewart, Randall, Brannagan og Smith gæru farið þrátt fyrir ágæta frammistöðu í vetur, sem og nánast allir lánsmennirnir.

  Varðandi Moreno þá er hann fínn í hluta leikjanna en það þyrfti að kaupa annan vinstri bakvörð sem hefur ólíka eiginleika, t.d. einhvern sem getur varist (líka inni í eigin vítateig).

  Það eru í heildina þá einhverjir 12-13 leikmenn sem gæti horfið á braut án þess að það hafi mikil áhrif á byrjunarliðið í þessum ca. 45 leikjum sem eru framundan á næsta tímabili.

  Að vanda er sumarið tíminn fyrir okkur púllara og það verður fróðlegt að sjá breytingarnar á hópnum. Vonandi verður hópurinn sterkari en á þessu ári og við getum náð okkur inn í Meistaradeildina að ári.

 8. Finnst það magnað hvað menn eru tilbúnir að verja Moreno. Hann er fyrst og fremst varnarmaður, það er hlutverk bakvarða. Þeir þurfa að verjast fyrst, sækja svo. Frekar vel ég bakvörð sem getur lítið sóknarlega, en að velja sóknarbakvörð sem gerir ítrekað mistök og kostar mörk.

  Hef verið þessarar skoðunar í allan vetur, þetta tengist EL úrslitaleiknum ekki bara.

  Hann er of fljótur að vaða í menn, selur sig mjög ódýrt og kemur sér of oft í þá stöðu að vera of framarlega og þurfa að þjóta til baka til að reyna að verjast. Hann er ágætur sóknarmaður, mjög lélegur varnarmaður.

  Clyne heillar mig miklu frekar í þessari stöðu. Mjög stöður varnarlega, erfitt að fara framhjá honum og fastur fyrir. Gerir hlutina síðan einfalt í sókninni og fer eins langt og getan leyfir, reynir ekki meira. Við verðum, VERÐUM, að fá nýjan vinstri bakvörð.

 9. Hvenær er næsta podcast væntanlegt? Er farið að klæja vegna fráhvarfs.

 10. Ég verð að viðurkenna að eftir að hafa skoðað hópinn og þá menn sem þegar hafa verið keyptir þá er þessi hópu rosalega sterkur. Það má ekki gleyma því að við erum að spila fyrir utan Evrópukeppnir á næsta ári og því er leikjaálagið ekki eins mikið og það var í ár og því ætti 24- 30 vera hæfilega mikið af leikmönnum.

  Ég skil fullkomnlega hvað Klopp á við með því að styrkja vörnina og hefur hann þegar gert það með kaupum á Matip og fyrst Sakho er í banni, þá er spurning hvort það þurfi að bæta öðrum miðverði til. Svo þarf augljóslega annan bakvörð í samkeppni við Moreno og síðan nokkra leikmenn sem passa algjörlega inn í hugmyndafræði Klopps.

  Ég vil miklu frekar fá leikmenn -eins og Gjuric eða Matip heldur en einhver risastór nöfn, því ég geri ráð fyrir því að þetta eru leikmenn sem Klopp sér rosalega möguleika í og einmitt Klopp er kóngurinn í að kaupa menn sem hann gerir að stórstjörnum með tíð og tíma.

  Það verður spennandi að fylgjast með sumarglugganum og ég spái því að kaupinn verði ekkert voðalega mörg en komi til með að skipta sköpum varðandi næsta ár og skila okkur í baráttu um meistaradeildarsæti.

 11. Í hvaða heimi lifa sumir hérna??? Talandi um að þessi hópur sé “gríðarlega” sterkur. WTF
  Þessi hópur er ekkert annað en það sem hann er, hópur sem náði 8 sæti í PL árið sem Leicester vann deildina. Vissulega eru þarna fullt af “potential” leikmönnum, strákar sem geta orðið góðir en hafa ekkert sýnt það so far að þeir séu lykilmenn sem hægt er að treysta á reglulega.

  Reynsluboltar liðsins eru einfaldlega ekki nægilega góðir fyrir lið sem ætlar sér að berjast á toppnum í erfiðustu deild Evrópu. Önnur staðreynd, það er ekki einn einasti “world class” leikmaður í þessum hóp. ENGINN. Það eru þarna leikmenn eins og Firminho & Coutinho sem geta orðið það (verða vonandi) en eru allt allt of óstöðugir og sannast sagna ollu vonbrigðum í stæðstu leikjum vetrarins. Geta spilað glimrandi en svo týnst. Þarna komum við að orðinu stöðugleiki, hryggjarsúla. Menn sem eru alltaf góðir (nánast) og hægt er að treysta á að skili alltaf sínu.

  Það eru svo mikið af farþegum þarna sem eiga (sorry) EKKERT erindi hjá Liverpool lengur. Nefni sem dæmi, Mignolet – Skrtel – Allen – Lucas – Moreno.

  Nú er boltinn hjá eigendum okkar, hvaða support fær Klopp því ef hann trekkir ekki að þá gerir það enginn. Ekki koma með CL afsökun – halda menn virkilega að Chelsea eða United fái ekki til sín stór nöfn í sumar?? (ældi pínu uppí mig þegar ég sá að það er yfirgnæfandi möguleiki á að Zlatan fari til United) Liverpool verða að ná sér í stórt nafn, mann sem er “prooven” á hæsta level og blæs okkur stuðningsmönnum trú og kraft í brjóst. Mann sem getur sem dæmi selt treyjur og sýnt það og sannað að okkur er alvara með það að gera alvöru atlögu að deildinni. Í dag er hlegið að okkur um allar trissur. Jú hlutirnir hafa breyst með tilkomu Klopp og ÞÁ ÞARF AÐ HAMRA JÁRNIÐ á meðan það er heitt.

  Vissu menn að Liverpool eru ekki á topp 10 í heimi yfir mest seldu treyjurnar?? Fáránlegt og með hverju árinu minnka vinsældir þangað til eitthvað verður að gert – Félagið þarf titil / TITLA.

  Að kaupa Lallan-ana / Benteke / Allen-ana/ er ekki að fara að ganga lengur….

  Þið verðið að afsaka en ég hef fylgst náið með Liverpool frá 1980 – er orðinn miklu meira en bara pirraður á þessu dapra gengi okkar síðustu árin. vissulega kom ómæld gleði 2001, 2005 og 2006 en það hefur ekkert verið að frétta síðan. 2014 jú var rússíbana, mér svíður ennþá í görn að okkur tókst ekki að klára það.

  Þetta sumar er svo mikilvægt – nú strax “klúðrast” Götze og því miður er ég ekki bjartsýnn og horfi á hóp okkar sem frábæran – Okkur vantar ekkert smá Markmann (Mignolet kemst ekki á topp 10 í PL – ætlar lið með þannig mann að stefna á topp 4..uhhh nei ) Okkur vantar 2 miðverði, vinstri bakvörð, holdin miðjumann og vængmenn. Jú og skorara…….+ 20 mörk á ári.

  Boltinn er hjá FSG – Gefið Klopp verkfæri – Vil sjá Liverpool amk reyna við svona bita eins og t.d Zlatan… Þó hann hafi engan áhuga – gera manninum tilboð…. láta vita að við höfum áhuga. Pogba…..

  Tíminn tikkar, félagið okkar er í dag EKKERT meira en Tottenham, Everton, Southampton… West Ham……

 12. Maður er hálf dofinn yfir þessu hjá okkur í auknablikinu. Ekki neitt mjög spenntur fyrir sumrinu og leikmannakaupum Liverpool. Reikna með að Klopp taki inn minna þekkta menn enda baráttan á markaðnum sennilega aldrei verið harðari. En við sáum nú hvað Leicester gerði í vetur, það er allt hægt.

  Ætli maður taki ekki bara gott frí frá LIverpool fram í ágúst.

 13. Vá hvað allir verða glaðir á þessum tíma á næsta ári að við töpuðum á móti Sevilla … sem varð til þess að við þurftum bara að spila einu sinni í viku á næsta tímabili … sem leiddi til þess að það meiddust ekki ALLIR á nára á sama tíma … sem kom í veg fyrir panic Caulker lánsdíl og Lucas Leiva í miðvörð … Og Liverpool vinnur deildina í fyrsta skipti síðan 1990!

  One can only hope!

 14. Þó ég sé ekki sammála öllu hjá Odda í #17 þá er ég sammála mörgu. Hvernig getum við búist við að vera í toppbaráttu með þennan mannskap? Við þurfum klárlega að bæta við okkur gæðum. Ekki gleyma að Man United, Chelsea og City verða örugglega öflugri næsta vetur.

  Ég treysti t.a.m. engan veginn þessari miðju okkar að delivera. Við þurfum að bæta við 2-3 alvöru köllum sem geta staðið stöðugt í lappirnar frá ágúst til maí. Við þurfum þó allra helst að finna alvöru aðmírál á miðjuna sem getur stýrt bæði tempói og leikjum. Okkur vantar leader sem þolir ekki að tapa… a la Carragher, Gerrard, Suarez. Can gæti verið þarna eftir einhvern tíma…en næsti vetur er líklega of snemma fyrir hann.

  En…ég treyst Klopp. Hann mun finna alvöru sigurvegara sem nenna og geta….maður efast um að margir núverandi leikmenn uppfylli þessi ,,einföldu” skilyrði.

 15. Fatta ekki alveg neikvæðnina herna. Klopp tekur við liði sem var farið að spila skitafotbolta og kemur þeim i 2 urslitaleiki og er að fara kaupa sina fyrstu menn….samt eru margir grenjandi?Sevilla er drullusterkt lið, buið að vinna þessa evropukeppni 3 ar i röð…við töpuðum fyrir þeim…get over it!

 16. (21)
  helginn – vissulega batamerki á leik liðsins oft undir Klopp – enda er ekki við hann að sakast um samsetningu og gæði á hóp /
  Hinsvegar þá er það ekki bara vegna tveggja tapa í úrslitaleikjum sem maður er ósáttur heldur fyrst og fremst vegna þess að liðið endaði í 8 sæti….. og Chelsea var fyrir neðan okkur.

  Við þurfum stórstjörnu í þetta lið, mann sem kann að vinna, mann sem er stöðugur – mann sem selur treyjur og trú á Liverpool. Hver það verður, veit ekki. Helst vona ég að einhverjir fjársterkari aðilar kaupi félagið.

 17. Við áttum að vinna Sevilla, við erum með betra litið, en þeir voru á góðum degi, við á slæmum, ég er ekki endilega á því að það þarf að hreinsa mikið til í liðinu, að taka stutt skref er betri leið og fá hópinn til að spila vel saman, í sumar sé ég þónokkuð marga fara, en í staðinn vantar okkur markvörð sem er kominn, vinstri bakvörð og miðvörð auk þess að ég vildi sjá enhvern sterkan varnar eða box to box miðjumann. sóknin er fín og ég efast ekki um að Klopp á eftir á ná miklu úr þessu töluverða efniviði sem hann hefur í ungu leikmönnunum.

 18. Oddi #17
  árið sem Leicester unnu deildina já…. en hvað eru margir heimsklassa leikmenn í því liði?

  þetta snýst um að hafa réttu leikmennina sem spila rétt kerfi.

  Hvernig getur 8. sætið verið mælistika? Við nánast gáfum okkar síðustu leiki þegar ljóst var að 4. sætið var ekki í boði. Við vorum 6 stigum frá 4. sætinu….. 6 stigum!!! Það erí raun ekki neitt miðað við meiðsli og leikjaálag og aðra andskotans óheppni.

  ég hef aldrei verið jafn bjartsýnn.

 19. Ég er ekki bjartsýnn á FSG og hef ekki verið lengi. Klopp er að bjarga miklu með viðveru sinni. Liverpool virðist vera í einhverskonar keppni um 4.sætið undir FSG. Það hefur ekki beint verið að ganga vel. Fyrst fannst mér gaman að sjá John Henry í stúkunni, ekki lengur.

  Ég er sammála Odda hér að ofan í mörgu. Við þurfum ekki bara gæði heldur líka nöfn. Ég spáði Liverpool 5-7 sæti fyrir tímabilið (þá undir stjórn Rodgers). Klopp kom inn og við endum í 8.sæti sem mér finnst góður mælikvarði á liðið. Í dag sé ég ekki liðið klifra upp töfluna nema eitthvað mikið gerist. Mario Götze mundi styrkja liðið og er ágætis nafn, en það þarf bara svo miklu meira.

  Liverpool þarf að gera betur í sumar en liðin fyrir ofan okkur til að eiga möguleika á að nálgast þau. Það er ekki bara hægt að bíða eftir að allt smelli. Klopp verður að fá mikinn pening.

 20. Nr. 4
  Henderson var meiddur í vetur. Tek hann alltaf fram yfir Milner á miðjuna. Erum þá bara ósammála með það.

  Myndin var til að sýna (lítinn) spilatíma okkar lykilmanna.

 21. Okkur vantar bara 3-4 powerhouse leikmenn sem færa menn í kringum sig á hærra plan, þá er þessi hópur fínn.

  Okkur vantar geðveikan markmann sem styrkir sjálfstraust varnarmannana, okkur vantar líka einhvern geðveikann miðjumann, eins mikið og ég elska Henderson og Can þá eru þeir hvorugir top20 í heiminum. Og svo vantar okkur alvöru striker sem helst heill í heilt tímabil, og helst einhverja kantmenn sem geta tekið menn á. Erum með alltof hægfara sókn í Coutinho, Firminhio og Lallana, enginn af þeim stingur snögga menn af á sprettinum.

 22. Margt sem hefur verið sagt hér er alveg frábært, gaman að sjá flottar umræður.

  Mér finnst hins vegar alveg ljóst að Daniel Sturridge er framherji í heimsklassa. Eini leikmaðurinn í okkar liði sem gerir tilkall til þeirrar nafnbótar.

  En ef Dejan Lovren heldur áfram sinni spilamennsku þá verður hann kominn í þennann hóp innan tíðar.

 23. Margt sem hefur verið sagt hér er alveg frábært, gaman að sjá flottar umræður.

  Mér finnst hins vegar alveg ljóst að Daniel Sturridge er framherji í heimsklassa. Eini leikmaðurinn í okkar liði sem gerir tilkall til þeirrar nafnbótar.

  En ef Dejan Lovren heldur áfram sinni spilamennsku þá verður hann kominn í þennann hóp innan tíðar.

 24. Nr 28 & 29 (bræður?) bara 1 létt. Haldið þið að okkar Meistari sé sáttur við vinnuframlag okkar ” heimsklassaframherja” fyrir utan hans ;stóru sjúkra + meðferða þjálfun? Einsog einhver komst að orði : Ég var bara að spugulera ; ? og 2 komst að orði þolinmæði er dygð. Klopp hefur sögu, leyfum honum að búa hana til. Ps jú ég var Ekki sáttur við geðseiflur í okkar leik í vetur. ER SÁTTARI við að tapa ef maður leggur sig fram. Hef trú á þjóðverjum.

Opinn þráður – Vangaveltur um breytingar á hópnum

Loris Karius skrifar undir (staðfest)