Nýr kafli í Evrópusögunni

Eftir tvo daga leikur liðið okkar síðasta leikinn á leiktímabilinu 2015 – 2016 og sá er af stærri gerðinni þegar við mætum Evrópudeildarsérfræðingum Sevilla í úrslitaleik þeirrar keppni í svissnesku borginni Basel.

Þessi úrslitaleikur verður tólfti kafli úrslitasögu Liverpool FC í Evrópukeppni sem vert er að rifja upp og sá fjórði í röðinni þegar kemur að því að keppa um bikarinn sem er í sigurlaun þó að sú keppni hafi breytt um nafn og skipulag nokkrum sinnum í takt við áherslur um Evrópukeppnir.

Fairs cup

Evrópukeppnir hófu göngu sína árið 1955 þegar Evrópukeppni meistaraliða álfunnar lagði af stað, en á sama tíma var ákveðið að verðlauna þær borgir sem að héldu stórar viðskiptaráðstefnur í álfunni með keppni sem kölluð var Intercity Fairs Cup (eða bara Fairs cup) og í þeirri keppni léku semsagt fulltrúar þeirra borga, án tengingar við endilega árangur á heimavelli. Fyrsta keppnin stóð í þrjú ár og lauk með því að lið borgarinnar Barcelona vann lið London í úrslitaleik sem leikinn var heima og heiman. Þá var tveggja tímabila keppni sem lauk með því að Barcelona (nú algerlega lið knattspyrnufélags borgarinnar) vann Birmingham City og vinsældir þessarar keppni auk mikilli vinsælda Evrópukeppni meistaraliða varð til þess að vorið 1960 stofnaði UEFA nýja evrópukeppni, nú með þeim liðum sem að unnu bikarmeistaratitla í sínu heimalandi, “European cup winners cup” auk þess sem breytt var um brag og nú var fleiri liðum boðið úr hverri borg í Evrópu, t.d. léku bæði Edinborgarliðin Hibs og Hearts í keppninni 1961.

Áfram hélt keppnin í þessu formati en smátt og smátt var ákveðið var að keppnin myndi nú ekki lengur verða svolítið handahófskennt skipulögð – heldur yrði sett upp skipulag sem tengdist lokaniðurstöðu deildakeppna og þau lið sem næst stóðu því að verða meistarar fengju nú valrétt og endanlega var slitið í sundur einhver tenging við viðskipti í Evrópu og vináttuleikjahugmyndina. Það var svo haustið 1968 að endanlega var sett upp regluverk sem tengdist alfarið niðurstöðu deildakeppna og engin lið gátu lengur “sótt um” þátttöku í henni.

Það var þó ekki fyrr en gæðaárið 1971 (tengist alls ekki því að ég fæddist þá) að UEFA tók endanlega yfir stjórn keppninnar og ákvað að byggja á vinsældum keppninar og stofna formlega þriðju evrópukeppnina. Ein keppni yrði fyrir meistaraliðin (European Cup), ein fyrir bikarhafana (Cup winners cup) og þau lið sem voru ofarlega í deildarkeppnum álfunnar fengu nú þriðju keppnina sem var endurskírð og kölluð UEFA cup og Fairs cup því lögð niður.

Roger Hunt
Roger Hunt
Okkar menn í Liverpool stigu á svið Fairs cup nóvemberkvöldi í portúgölsku borginni Setubal (sem er þá sennilega einhvers konar kviðmágur Reykjavíkur) árið 1969 og ólíkt fyrstu viðureign félagsins í evrópukeppnum sem fram fór á Laugardalsvelli tapaðist leikurinn 0-1 og seinni leikurinn á Anfield varð mikill hasar, Portúgalirnir komust í 2-0 en þrjú mörk á lokakaflanum dugðu ekki til að við kæmumst áfram, mark Roger Hunt á síðustu mínútunni taldi ekki sem sigurmark í viðureigninni en leikurinn þótti mjög eftirminnilegur og kannski einhvers konar æfing í comebacksögunum okkar sem við eigum nokkrar síðan. Á síðasta keppnisári Fairs cup náði liðið svo í undanúrslit eftir að hafa lagt m.a. sterkt lið Hibernian frá Skotlandi og Bayern Munchen að velli en á undanúrslitahindruninni féllum við fyrir Leeds United sem náðu að sigra 0-1 á Anfield og síðan halda 0-0 á Elland Road á leið þeirra til að sigra keppnina eftir sigur á Juventus í tveggja leikja úrslitaviðureign.

Fairs cup ævintýrinu lauk því án þess að okkur tækist að sigra þá keppni, arftaki hennar UEFA cup hófst í ágúst 1971 og rauðliðarnir frá Anfield höfðu blóð á Evróputönnum sínum eftir fall úr undanúrslitum European cup frá 1965 og tap í Cup winners cup úrslitum 1966 í ofanálag við þetta Leedstap. Stjóri liðsins, Bill Shankly nokkur hafði margoft lýst áhuga sínum á að sigra Evrópu og það var í UEFA cup sem honum loksins tókst að landa slíkum titli.

UEFA cup og fyrsti Evrópusigurinn

Liverpool lék ekki í keppninni árið 1971 – 1972 þar sem að við lékum þá í Cup winners cup eftir að hafa tapað úrslitaleiknum í FA cup árið 1971 fyrir tvennumeisturum Arsenal en haustið 1972 hófst fyrsta sigurganga Liverpool FC í Evrópukeppni og markaði þar með spor í sögu félagsins okkar sem hefur skilað tughundruðum þúsunda aðdáenda um álfuna (sennilega milljóna)

Liðið hóf keppni í 2.umferð og fór létt í gegnum AEK Aþenu 6-1 samanlagt. Dynamo Berlin var slegið út 3-1 samanlagt á leiðinni í 8 liða úrslit gegn öðru liði frá Austur Þýskaland sem var líka frekar einfalt að slá út, 3-0 samanlagt gegn Dynamo Dresden. Í undanúrslitunum biðu okkar meistarar keppninar frá tímabilinu á undan, feykisterkt lið Tottenham Hotspurs.

Fyrri leikinn á Anfield lögðu Spursarar upp með að verjast og okkar menn settu bara eitt mark þegar varnarmaðurinn Alec Lindsay skoraði með skalla eftir horn og niðurstaðan því 1-0. Seinni leikurinn var gríðarlega spennandi, Tottenham skoruðu í upphafi seinni hálfleiks en Steve Heighway jafnaði leikinn stuttu síðar og þurftu þá Spursarar að skora tvö mörk. Það tókst þeim ekki, náðu þó öðru marki og unnu 2-1 en við vorum komnir í úrslit á útivallarmarki. Í úrslitaleiknum beið okkar lið sem við áttum eftir að hitta síðar í öðrum evrópuúrslitum, þýska liðið Borussia Mönchengladbach.

Tommy Smith með bikarinn 1973
Tommy Smith með bikarinn 1973
Úrslitaviðureign UEFA cup var alltaf háð í tveimur viðureignum, heima og heiman. Fyrri leikurinn í úrslitaviðureigninni vorið 1973 var á Anfield sem var auðvitað pakkfullur og stemmingin gríðarleg. Liverpool rauk af stað í byrjun og þrýsti Þjóðverjunum í vörn þar sem þeir stóðu mest af leiknum. Þegar upp var staðið hafði unnist 3-0 sigur þar sem Kevin Keegan setti tvö mörk og varnartröllið Larry Lloyd skoraði það þriðja. Bæði lið brenndu af vítaspyrnum í leiknum – eða réttara sagt þá sýndu markmennirnir þvílíka takta í að verja spyrnurn, Keegan lét verja frá sér og kötturinn Clemence kvittaði það út. Eftirleikurinn átti því að vera nokkuð auðveldur að allra mati því töluvert átak þyrfti til að yfirvinna slíkan mun.

Þetta þýska lið var hins vegar gríðarlega sterkt og átti eftir að upplifa töluverða sigurgöngu á heimavelli. Seinni leikurinn varð alger spegilmynd þess fyrri, Þjóðverjarnir skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleiknum og sóttu svo stanslaust allan síðari hálfleik án þess þó að koma boltanum framhjá Ray Clemence í markinu. Þegar lokaflautan gall brutust út mikil fagnaðarlæti hjá rauðliðunum hans Shankly sem hafði loksins tekist að vinna Evrópukeppni, fyrsti Evróputitill félagsins í höfn.

Hér er að finna myndir úr úrslitaleikjunum.

Þetta ár unnum við deildarmeistaratitilinn líka og árið 1974 síðan FA bikarinn. Við lékum því ekki í keppninni aftur fyrr en haustið 1975.

Titill númer tvö

Haustið 1975 steig Liverpool FC aftur í hringiðu UEFA cup eftir að hafa dottið mjög óvænt út úr Cup winners cup árið áður fyrir Ferencvarosc. Vorið 1975 áttum við líka frekar erfiða deildarútkomu undir stjórn nýs framkvæmdastjóra að nafni Bob Paisley sem átti enn úrtölumenn á meðal aðdáenda. Það lagaðist!!!

Fyrstu mótherjar okkar í þessari keppni voru Hibernian frá Skotlandi og við lentum í bölvuðu brasi með þá en unnum 3-2 samanlagt. Í 32ja liða úrslitum hrökk liðið þó vel í gang og stútaði Real Sociedad 9-1 samanlagt, 16 liða úrslitin voru öruggur 5-1 sigur á pólska liðinu Slask Wroclaw og í 8 liða úrslitum var Dynamo Dresden slegið út 2-1 samanlagt eftir slíkan sigur á Anfield í seinni leiknum. Í undanúrslitum beið okkar viðureign við Barcelona.

Fyrri leikurinn var á Nou camp og Paisley lagði upp með að liggja til baka, sækja hratt og nýta líkamsstyrk og hæð leikmanna sinna. Planið gekk upp, John Toshack skoraði strax á 13.mínútu og þrátt fyrir að Spánverjarnir næðu upp töluverðri pressu hélt varnarleikurinn og því gott veganesti fyrir seinni leikinn á Anfield. Liðið hélt sig við skipulagið frá fyrri leiknum að mestu þar. Phil Thompson skoraði eftir horn á 51.mínútu en Spánverjarnir jöfnuðu metin í næstu sókn og því voru það tens 40 mínútur sem liðu þar til flautað var til leiksloka og staðfest að Liverpool FC væri komið á ný í úrslit UEFA cup og mótherjarnir þar? Club Brugge! Í raun alveg magnað að við lékum fyrst til úrslita gegn Mönchengladbach og svo Club Brugge í báðum þeim Evrópukeppnum sem við unnum. Býsna sérstakt.

Haldið upp á 1-1 jafntefli og sigur í UEFA cup 1976...botninn vantar á bikarinn samt!
Haldið upp á 1-1 jafntefli og sigur í UEFA cup 1976…botninn vantar á bikarinn samt!
Eins og 1973 þá var fyrri úrslitaleikurinn 1976 á Anfield og menn voru sigurvissir. Eftir 12 mínútur ríkti dauðaþögn þar sem gestirnir voru komnir í 0-2 og voru bara einfaldlega miklu sterkari, héldu boltanum vel og virtust hafa áttað sig á leikkerfi Liverpool. Í hálfleik breytti Paisley til, tók senterinn Toshack útaf fyrir miðjumanninn Jimmy Case og leikurinn snerist á haus. Case, Keegan og Kennedy skoruðu þrjú mörk á sex mínútum frá 60 – 66 (þekkiði einhvern annan leik með svipaðri útkomu) og það sem eftir lifði leiks reyndu menn það sem þeir gátu til að auka muninn sem tókst þó ekki og því eins marks forysta veganestið eftir 3-2 sigur.

Belgarnir hófu leikinn á heimavelli nákvæmlega eins og þann fyrri, komust í 1-0 eftir vítaspyrnu á 11.mínútu en Keegan jafnaði leikinn fjórum mínútum síðar. Við það jöfnunarmark virtist mesti vindurinn úr Belgunum og okkar menn sigldu leiknum heim með þessari lokastöðu, 1-1 og 4-3 sigur samanlagt. Paisley vann sinn fyrsta Evróputitil af fjórum.

Þeir sem vilja skoða myndband af þessari viðureign geta smellt á þennan tengil hér. Endalaust stuð og stemming á þessum árum og einfaldara að sjá hvers vegna Keegan var dáður!

Þriðji sigur eftir langa bið

Eftir árið 1976 lékum við ekki aftur í UEFA cup um langa hríð. Sigrar í European cup og/eða ensku deildinni þýddu það við lékum óslitið í bestu evrópukeppninni frá hausti 1976 til Heyselslyssins 1985. Í kjölfar bannsins að því loknu lékum við ekki aftur í Evrópukeppni fyrr en 1991 og þá var það í UEFA cup keppninni þar sem Genoa sló okkur út í 8 liða úrslitum. 1995 slógu Bröndby okkur út úr keppninni í 64ra liða úrslitum og á sama stað slógu Strasbourg okkur út 1997, vorið eftir náðum við í 32ja liða úrslit keppninnar en féllum út fyrir Celta Vigo og því ekki mikil glæsislikja yfir okkar árangri í Evrópu. Haustið 2000 voru 16 ár frá því við unnum titil þar og slakt gengi liðinna ára gaf engar stórar vonir um árangur á vettvangi Evrópu. En þá….

Við hófum leik í UEFA cup haustið 2000 með því að slá Rapid Bukarest út 1-0 samanlagt og síðan Slovan Liberec út næst 4-2 samanlagt. Í 32ja liða úrslitum unnum við Olympiacos 4-2 samanlagt en það var þó ekki fyrr en í 16 liða úrslitum sem má segja að vonir hafi kviknað að mögulega væri ævintýri í nánd. Þá vorum við dregnir gegn sterku liði AS Roma og töldu flestir sparkfræðingar að enn á ný myndi gamli Evrópurisinn Liverpool FC kveðja vettvanginn. Fyrri leikur viðureignarinnar var í Rómaborg og varð eign Michael nokkurs Owen sem skoraði tvö fín mörk. Þéttur varnarleikur skipulagður af Gerard nokkrum Houllier og framfylgt undir stjórn hafsentaparsins Hyypia og Henchoz var aðalsmerkið sem átti eftir að skila góðum árangri. 2-0 sigurinn í Róm dugði til sigurs í viðureigninni. Þrátt fyrir 0-1 tap á Anfield vorum við komnir í 8 liða úrslit þar sem okkar beið annað firnasterkt lið. Porto hét það og átti eftir að ná góðum árangri á Evrópuvettvangnum upp úr því að við slógum þá út. Nú var formúlan að liggja til baka á útivelli masteruð, við náðum 0-0 jafntefli áður en Murphy og Owen skoruðu í fyrri hálfleik seinni leiksins á Anfield og undanúrslitaviðureign gegn Barcelona beið.

Barca var með mikið sóknarlið en Houllier hélt sama skipulagi í fyrri leiknum á Nou camp. Stundum hefur skipulag hans í þessum leik verið nefnt 10 – 0 – 0 meðal gárunganna og það verður nú seint sagt að við hefðum fengið lof fyrir leikinn þann. Who cares!? Framundan var síðari leikur á Anfield sem réðst með vítaspyrnu Gary McAllister sem á sess í laginu góða um hann þegar við öll syngjum “how we loved your Barca pen”. Seinni hálfleikinn lokuðum við svo búðinni og við vorum komin í fyrsta úrslitaleikinn í Evrópu síðan 1985. Sá var haldinn á Westfalienstadion í Dortmund 16.maí 2001.

What a game that was!!!

Mótherjar okkar þetta skiptið var lítið spænskt lið, Deportivo Alaves sem hafði náð miklum árangri heimafyrir um nokkurt skeið og stimplað sig ágætlega inn í Evrópukeppnir. Fjörið hófst strax á þriðju mínútu þegar Markus Babbel setti fyrsta mark leiksins og ekki löngu síðar setti Steven Gerrard okkar mark númer tvö. Spánverjarnir áttu erfitt uppdráttar en skoruðu úr fyrstu sókninni sinni á 26.mínútu en önnur vítaspyrna frá McAllister í þessari keppni kom okkur í 3-1 fyrir hálfleik og allt virtist á réttum kúrs.

Á fjórum mínútum í upphafi seinni hálfleiks höfðu Spánverjarnir jafnað eins og þruma úr heiðskíru en við höfðum áfram tök á leiknum. Robbie Fowler kom inná og skoraði fjórða markið okkar á 72.mínútu en rétt fyrir lok venjulegs leiktíma jafnaði Alaves enn á ný, nú Jordi nokkur Cruyff og framlenging framundan í ótrúlegum leik.

Í framlengingu á þessum tíma var regla um svokallað “Gullmark” sem þýddi það að leik lyki um leið og einhver skoraði. Þetta þýddi frekar varfærinn leik en á 116.mínútu réðust úrslit leiksins. Liverpool fékk aukaspyrnu úti við hliðarlínu og hver annar en Gary McAllister stillti boltanum upp og dúndraði föstum innsving í teiginn þar sem varnarmaðurinn Geli fleytti boltanum í eigið mark og við trylltumst út um allan heim. Lokaflautið gall því og fagnaðarlæti rauðliða í Dortmund þetta kvöld eru enn til umræðu, auk þess sem þarna glumdi “You’ll never walk alone” á þessum velli á þann hátt að síðan þá hefur heimaliðið haft það lag í prógramminu sínu.

Liverpool stimplaði sig því aftur inn í Evrópu og eins og árið 1973 var það ávísun á frekari landvinninga.

Snilldarlið á ferð
Snilldarlið á ferð

Hér er að finna klippur úr viðureigninni í Dortmund, kannski Klopp hafi horft á???

Síðan þá

Liverpool hóf leik í CL haustið 2001 og lék ekki aftur í UEFA cup því árið 2009 var keppninni breytt í núverandi fyrirkomulag, Europa League. Það ár tókum við þátt í EL eftir að hafa dottið út úr CL í riðlakeppninni og fórum alla leið í undanúrslit þegar Atletico Madrid sló okkur út. Sennilega hefði sigur í EL vorið 2010 haldið Rafa okkar í starfi…hvað sem okkur finnst um það.

Við höfum farið í keppnina þrisvar síðan án þess að leggja á hana nokkra áherslu en í vetur breyttist það eiginlega með drættinum í 16 liða úrslitin þegar við vorum pöruð saman við Man. United. Eftir að hafa slegið þá út höfum við haft auga á þessum úrslitaleik sem við leikum eftir tvo daga og bíðum svo spennt eftir.

Það eru í dag 11 ár síðan við unnum síðast evróputitil. Vonandi skrifum við fjórða kaflann í sigurbók þessarar ágætu keppni því nú eru enn stærri verðlaun í boði en bara bikarinn, nú fáum við sæti í Cl með sigri. Sem skiptir jú töluverðu máli.

Baselborg máluð rauð og vonandi markar sigur í EL eins og áður frekar evrópska landvinninga!!!

17 Comments

  1. Áður en ég les þennan pistil: Liverpool virðist vera búið að kaupa Loris Karius frá Mainz. Skrýting tímasetning og getur haft neikvæð áhrif á Mignolet í leiknum á miðvikudaginn.

  2. Núna þurfum við bara að kaupa Baktus og þá eru við að fara að rústa vörnum andstæðinganna 😉

  3. Nú tapar Liverpool Evrópuleiknum og hvað hefur Klopp þá afrekað? Tveir tapaðir úrslitaleikir, tveimur sætum neðar en í fyrra og engin Evrópukeppni. Bara spyr…

  4. Ég spyr mig. Afhverju er Ian Ayre að ferðast með klúbbnum til Bazel ef liðið er við það að kaupa einhvern markmann úr þýsku bundesligunni ? Reyndar er stutt þaðan til Þýskalands en ég er ekki að kaupa þetta fyrr en ég sé það á svörtu og hvítu.

  5. Jæja gott fólk, ekki öll í stuði bara? Er ekki spurning um að róa sig aðeins og lesa þennan frábæra pistil frá meistara Magga?

    Hvað gerði maður án ykkar miklu fagmanna sem haldið þessari síðu úti?

    Þúsund þakkir fyrir þennan mikla snilldarpistil!!!

    Lifi Liverpool og lifi kop.is.

  6. Held að menn ættu nú að slaka aðeins á dramanu hérna þessi markvörður er heyrist mér ekki einhver sem er sjálfgefið að fara að velta Mingolet úr sessi. Hann er vissulega ungur og efnilegur og þá loksins komin einhver sem er að setja alvöru þrýsting á Mingolet í markinu. Held að Mingo ætti ekkert að fara á taugum yfir því í úrslitaleiknum heldur þvert á móti nota það til þess að mótívera sig í stíga upp og reyna að eigna sér þessa stöðu.

  7. Lestur um Evrópu gloríur félagsins er bara ekkert að hjálpa til við þessa yfirþyrmandi spennu fyrir þessum leik. Frábært hjá þér Maggi, góð lesning.

    Holy shit hvað ég er orðinn spenntur!!

  8. Flottur pistill. Djöfull er maður að verða spenntur fyrir miðvikudeginum..

  9. Spennandi leikur, en er kick off kl. 18:45 að íslenskum tíma? Eða hvað? Nenni ekki að missa af þessu fyrir einhvern misskilning …

  10. En veit það einnhver hérna, er þessi leikur ekki alveg örugglega í opinni dagskrá.

  11. Það er alltaf þannig að einn leikur í hverri umferð á að vera í opinni dagskrá. Þar sem þessi leikur er eini leikurinn, þá á hann að vera opinn 🙂

  12. Glæsilegur og mjög skemmtilegur pistill Maggi! Takk kærlega fyrir hann!
    Spennan hjá manni er orðin svo mikil að maður gat lítið sofið í nótt og hvernig ætli þessi nótt verði þá! úffff!!!

Liverpool í Köben

ÚRSLITALEIKUR Á MORGUN!!!