WBA 1 Liverpool 1

Okkar menn luku keppni í ensku Úrvalsdeildinni tímabilið 2015/16 með 1-1 jafntefli á útivelli gegn West Bromwich Albion.

Jürgen Klopp gerði allar breytingarnar sem voru í boði fyrir leik dagsins:

Bogdan

Flanagan – Skrtel – Lucas – Smith

Ojo – Allen – Stewart – Brannagan – Ibe

Benteke

Bekkur: Mignolet, Ilori, Randall, Chirivella, Henderson (inn f. Allen), Canos (inn f. Ojo), Ings (inn f. Ibe).

Þetta var frekar daufur leikur. Okkar menn voru meira með boltann en heimamenn sköpuðu hættulegri færin. Það var í takt við deildarframmistöðu Liverpool í vetur að West Brom skyldi skora úr fyrstu sókn sinni, á 13. mínútu skoraði Salomon Rondon eftir góðan uppleik táningsins Jonathan Leko. Það litu ansi margir okkar manna illa út þarna; Leko lék illa á alla þrjá miðjumenn okkar, gaf inn á Rondon sem náði markmegin á milli Skrtel og Smith og skoraði svo á nærstöngina framhjá Bogdan. Ekki margir sem fá hrós fyrir varnartilburðina þar.

Okkar menn jöfnuðu svo tíu mínútum síðar þegar bakvörður West Brom missti af boltanum og Jordon Ibe í villtri tæklingu rétt okkar megin við miðjulínuna úti við hægri kantinn. Ibe nýtti tækifærið, gaf í aleinn upp kantinn, lék inná teiginn þar sem hann fór framhjá tveimur og klobbaði þann þriðja með vinstri, boltinn í fjærhornið óverjandi. Staðan 1-1. Frábært mark hjá Ibe sem hefur átt erfitt tímabil, spilað helling og gert margt gott en virkað á köflum týndur í leikkerfi Klopp. Stráksi er þó bara tvítugur og það var fínt að hann minnti á hversu mikið efni hann er áður en hann fer í sumarfríið. Ég hlakka til að sjá til hans næsta vetur.

Þetta reyndist síðasta skot beggja liða á markið í dag. Rondon skallaði í stöng í upphafi seinni hálfleiks og missti svo rétt af öðru skallafæri stuttu seinna, okkar megin gat Benteke gefið á Ings sem var dauðafrír undir lokin en klúðraði boltanum frá sér í staðinn. Lokatölur því 1-1.

Já, alveg rétt, Danny Ings og Jordan Henderson léku síðasta hálftímann og voru frískir. Það bætir í möguleika Jürgen Klopp fyrir miðvikudag. Þá kom Sergi Canos inná á lokamínútunum en hann varð þar með nítjándi leikmaðurinn til að leika sinn fyrsta leik fyrir félagið í vetur. Ef það er eitthvað jákvætt sem hægt er að taka út úr þessu tímabili þá er það hversu margir ungir strákar hafa gert tilkall til framtíðar.

Annars var hugur flestra knattspyrnuáhugamanna á Old Trafford í dag þar sem einum hinna tíu lokaleikja var aflýst eftir að sprengja fannst á salerni undir einni stúkunni. Tæplega 70 þúsund manns var vísað af vellinum og sprengjusveit Manchester-lögreglunnar sprengdi að lokum við öruggar aðstæður og eyddi þar með hættunni. Maður skilur ekki alveg hvers konar ómennsku og fávitaskap þarf til að vilja sprengja heilan knattspyrnuvöll af alls konar fólki frá öllum hornum heimsins upp fyrir einhverjar aumar, pólitískar ástæður. Vonandi finnast hinir ábyrgu, það skall allavega hurð nærri hælum í dag.

Fyrir utan þann leik er deildinni því lokið þetta árið og þetta varð lokastaðan:

finaltable2016

Þetta var fyrst og fremst mjög óvænt deildarkeppni. Meistararnir frá því í fyrra enduðu í 10. sæti. Lið sem var í fallsæti fyrir 13 mánuðum vann deildina með tíu stigum í ár. Þrír af „risunum“ enda fyrir utan Meistaradeildina, þar af tvö sem náðu ekki einu sinni Evrópudeildarsæti. Aston Villa, Norwich og Newcastle féllu.

Liverpool endar í 8. sæti. Það verður því engin Evrópudeild hjá okkar mönnum næsta vetur, annað hvort vinna menn Evrópubikar á miðvikudaginn og fara beint í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í haust eða þá að menn verða ekki í neinni Evrópukeppni næsta ár. Það er ágæt staða að fara inn í þennan úrslitaleik með, svo sem, all-or-nothing Meistaradeild og bikar, en allt slíkt tal felur ekki þá staðreynd að 8. sæti er skelfilegur árangur hjá Liverpool FC í ensku deildinni.

Brendan Rodgers endaði með liðið í 6., 2. og 7. sæti. Dalglish endaði í 6. og 8. sæti með liðið. Rafa endaði í 7. sæti með liðið á sínu lokatímabili.

Þetta eru síðustu 6 tímabil hjá Liverpool. Eitt Meistaradeildarsæti, ein titilbarátta, annars algjör meðalmennska í ensku Úrvalsdeildinni. Í rúmlega hálfan áratug.

Þetta er verkefni Jürgen Klopp á næstu leiktíð. Sama hvort liðið kemst í Meistaradeild á miðvikudaginn eða ekki þá bara verður liðið að gera betur í deildinni. Þetta gengur ekki lengur.

Þannig að, bless deildin 2015/16. Við munum ekki sakna þín og vonum að allt sé stillt upp fyrir örlagaríkt sumar þar sem hispurslaus stjóri tekur stóru ákvarðanirnar og blæs meira lífi og krafti í leikmannahóp sem þarfnast þess sárlega.

En fyrst einbeitum við okkur að miðvikudeginum. Evrópa, Basel, Sevilla. Bikar og Meistaradeild í boði. Við hitum upp fyrir það á næstu dögum og dönsum á miðvikudag. Up the Reds!

YNWA

18 Comments

 1. Afskaplega gleymanlegur leikur, og ég held að það séu bara eftirfarandi atriði sem standa upp úr:

  * Markið hjá Ibe
  * Brannagan með fyrsta leik í byrjunarliði
  * Ings kemur aftur inn eftir meiðsli
  * Fyrsti aðalliðsleikurinn hjá Canos.

  Annars er það bara miðvikudagskvöldið.

 2. Jæja þá er bara að bíða fram í miðja viku 🙂 og komast í Meistaradeildina 🙂
  alavega er það ljóst að Man.Utd verður alavega ekki þar á næsta ári.

 3. Sælir félagar

  Það var nánast ekkert sem gladdi mitt gamla Liverpoolhjarta í þessum leik nema innkoma manna úr meiðslum. Það mun vera leitun á leiðinlegri leik en þessum og ekki voru unglingarnir að vekja með manni miklar vonir með frammistöðu sinni. Hef ekki trú á að margir þeirra sem léku verði í framtíðarplönum Klopp.

  Það er nú þannig

  YNWA

 4. Ekki eru varaliðar að gera gott mót þessa dagana. Svakalegur munur á A og B liðinu. Varla hálffæri í seinni hálfleik og þessi blessaði markmaður er alveg skelfilegur. En nú er það miðvikudagurinn og tökum hann með trompi.

 5. Jæja núna er bara að enda þetta tímabil með sigri í næsta leik sem verður rosalegur og þvílíkt sem er undir í þeim leik.
  Flott að fá Hendo og Ings til baka og Hendo mun allavega vera á bekknum á miðvikudaginn.
  Bogdan og Skrtel búnir að spila sinn seinasta leik trúlegast.

 6. Átakanlegt að horfa á Bogdan,,, að þessi strákur hafi verið keyftur!!! Eins mikið og maður vildi að Benteke yrði okkar Drogba þá er það bara aldrei að fara að gerast, Þessi Rondon leit töluvert betur út en Benteke….. Þá má bara ekki klúðara þessu miðvikudagskvöldi

 7. þetta var nú einn dauflegasti leikur sem ég hef ekki séð.

 8. já, sammála, ákaflega gleymanlegur leikur. Geirnegldum 8. sætið, jibbý…það reyndar gefur okkur nákvæmlega ekkert. Er þetta ekki lélegasti deildarárangur Liverpool í mjööög langan tíma??

  Góðu fréttirnar í dag eru að United verður ekki í meistaradeildinni á næsta ári. Slæmu fréttirnar eru þær að City verður þar í staðinn.

  Jæja, kæru poolarar. Nú er allt undir á miðvikudaginn. Annað hvort verður þetta stórkostlegt tímabil og við tryggjum okkur eina dollu og meistaradeildarsæti eða hreinlega dauði og djöfull og enginn Evrópubolti á Anfield á næsta tímabili. Úff……þetta verður sko eitthvað.

  In Klopp we trust!

 9. Ekki slæm frammistaða hjá c-liðinu á móti miðlungs úrvalsdeildarliði.
  Ef við skoðum hópum þá má segja að sjö leikmenn hafa byrjað þennan leik sem eru þriðji kostur í þá stöðu sem þeir léku ef allir eru heilir – og hinir fjórir voru úr b-liðinu.

 10. Jamm – maður var samt að vona að Big Ben kæmi sterkari inn – Stewart er týndur – Brannagan ekki að líta vel út …. en hef samt tröllatrú á þessum gaurum …. hins vegar veit ég ekki alveg hvort þetta sé góð taktík að setja svona marga kjúklinga í liðið á sama tíma … væri líklega þægilegra fyrir þá að koma inn í rólegheitunum með sterka gaura í kringum sig … en allt saman skiljanlegt í ljósi leiksins sem við eigum á miðvikudag … treysti Klopparanum 100% í þessu… …held að við tökum þetta á miðvikudaginn með stæl…….

 11. Jæja allavega einn kostur við engan Evrópu bolta ef við klúðrum úrslita leiknum. Þá fer meiri einbeiting í deildina. Verst að Chelsea verður líka all in í deildinni og vinna hana eflaust næst.

 12. SVONA SVONA SVONA….

  8. sætið í deildinni er bein afleiðing af frábærum árangri í Evrópudeildinni sem MUN gera það að verkum að við spilum í MEISTARADEILDINNI næsta vetur.

  Ekki gleyma því að fyrir nokkrum dögum áttum við ennþá séns á 5. sætinu. Það er einfaldlega það mikið í húfi og menn mikið meiddir að við höfum ekki getað spilað okkar sterkasta liði ansi lengi. Það kemur niður á deildinni, það er alveg ljóst. 19. leikmenn að spila sinn fyrsta leik. Segir það okkur ekki eitthvað?

  Og þegar maður áttar sig á af hverju það er… er mér DRULLU sama um stöðuna í deildinni. Ég hef ekki minnstar áhyggjur af því að Klopp verði ekki maðurinn næsta tímabil í deild. Held að anstæðingar skjálfi á beinunum.

  Nýr þrekþjálfari frá einu besta liði heims
  Nýr næringarfræðingur frá einu besta liði heims
  Æfingar byrja fyrr og æft 2 á dag svk. nýjustu fréttum, bootcamp með herr Klopp!!
  Ástand leikmanna verður þannig að þeir geta spilað 90 min þungarokksfótbolta 2 í viku eins og að drekka vatn.
  Þjálfarateymi Klopp hafa spottað út eina af bestu leikmönnum evropu síðustu ár fyrir lítinn pening.

  Bætum við 3-5 leikmönnum við hópinn.

  Akkúrat núna skiptir staða í deild ENGU MÁLI.

 13. Sevilla ekki að spila vel þessa dagana og svo eiga þeir bikarúrslitaleik gegn Barca 22.maí þannig að mikið mæðir á þeim á næstunni.

  Nú er lag og ég hef góða tilfinningu fyrir þessum leik.

  Gangi okkur öllum vel á miðvikudaginn 🙂

 14. Þessi keppni sem var að ljúka er 21. deildarkeppnin með 20 liðum. Á þessu tímabili fengum við 60 stig, eða 1,58 stig að meðaltali í leik. Það er 5. lakasta tímabilið af 21 tímabili samtals (2003-04 tímabilið gaf jafnmörg stig, en tie-breakerinn er sá að Liverpool var fleiri stigum frá toppsætinu þá). Ef við horfum bara á Klopp hlutann, þá var Liverpool með 1,6 stig í leik, en Rodgers var með 1,5 stig að meðaltali í leik þegar hann var við stjórnvölinn í byrjun tímabils.

  Meðalfjöldi stiga Liverpool í 20 liða deild eru 67 stig. Hvernig sem við horfum á það, þá erum við undir pari í deildinni.

  Það má reyndar setja það í samhengi við hvað sigurvegarar deildarinnar fengu mörg stig. Leicester fengu 81 stig, sem er fimmta lægsta stigaskor meistara í 20 liða deild. Þeir unnu reyndar deildina með 10 stigum, sem er töluvert miðað við hvað stigin eru í raun og veru fá.

  Einnig má taka inn í myndina að 18. sætið er með 37 stig, sem er sjöunda hæsta stigaskor fallsætisliðs í 20 liða deild á Englandi. Aston Villa féllu með 17 stig, helmingi færri en liðið fyrir ofan. Ef við horfum á hvað 18. sætið er mörgum stigum að meðaltali í leik frá siguvegurum deildarinnar, þá er þetta 6-7 minnsti munurinn á þessum tveim.

  Það urðu stjóraskipti á tímabilinu, sem gerist ekki oft hjá Liverpool. Þetta er skásti árangurinn við þær aðstæður. Evans-Houllier tímabilið 98-99 (má deila um hvort það teljist með) gaf 54 stig (1,42 PPG). Hodgson-Dalglish tímabilið 10-11 gaf 58 stig (1,53 PPG). En við verðum að draga aðeins úr árangri Klopp, því hann tekur við þegar 8 leikir eru búnir af tímabilinu.

  Svo að árangur okkar manna má setja í samhengi við það hve deildin var gríðarlega jöfn og það urðu einnig stjóraskipti.

  Eitt í viðbót sem verður að hafa í huga. Það eru leikmannakaup. Þegar þetta er ritað, þá eiga Liverpool að greiða 8 milljónir punda fyrir Danny Ings.

  Eyðslan var 85,5 milljónir punda. Það er kannski ekki mikið nú á dögum. Ings og Gomez voru óheppnir og meiddust strax í upphafi tímabils. Það hefði verið gaman að sjá meira af þeim. Milner sem kom frítt hefur verið mikið gagnrýndur, en hann á samt þátt í 16 mörkum í deildinni (skorar 5 og leggur upp 11). Firmino á þátt í 17 mörkum (skorar 10 og leggur upp 7). Benteke á þátt í 12 mörkum (skorar 9 og leggur upp 3). Eftir því sem ég best veit, þá byrjaði Benteke í 14 leikjum og kom inn á í 15. Það er ekki mikið miðað við svona dýran leikmann. Eftir á að hyggja, þá var kannski Milner besta fjárfestingin.

  Þetta er löng athugasemd og ég er einhvernveginn ekki mikið sáttari eftir hana. Mér finnst að Klopp eigi að geta gert betur í deildinni. Vissulega höfum við staðið okkur vel í Europa league og eigum möguleika á að sigra hana. Það er alveg á kristaltæru að það veltur allt á þessum eina leik næsta miðvikudag. Þessi eini leikur getur bjargað tímabili sem var þrátt fyrir allt undir pari í deildarkeppni hvað stigasöfnun varðar.

  Það er allt undir. YNWA!

 15. Mer gæti ekki verið meira sama hvort liðið er með 60 stig eða 65 stig. Liðið spilaði með varalið i nokkrum leikjum i restina til að komast i þennan urslitaleik. Sigur eða tap, þa er þetta buið að vera skemmtilegt timabil.

 16. Sælir félagar,
  Ég veit ekki hversu oft ég hef sagt þetta á þessu tímabili ,,þetta er mikilvægasti leikur tímabilsins”. Nú er það hins vegar svo að þetta er leikurinn sem öllu máli skiptir.
  Það er í okkar höndum að komast í CL og gætum verið 3 sætum neðar en t.d. SCUM en við í CL og þeir í Evrópudeildinni sem myndi gleðja fáránlega.
  Þetta er leikurinn sem er makeorbreak i ár. Ef við vinnum er tímabilið mjög gott, úrslit i bikar, vinna Evrópudeild og CL sæti, með tapi verður tímabilið að teljast vonbrigði.
  Koma svo Liverpool klárið tvennan leik til að gera sumar gluggann og næsta tímabil enn meira spennandi!

  Comeon REDS!!!!

 17. Það er einn leikur eftir og allt er undir. En samt einhvernveginn ekki. Spili liðið ekki í Evrópu á næsta tímabili er það samt enginn heimsendir. Við erum hvort sem er ekki með hópinn í að spila svona marga leiki á næstu leiktíð.

  Ef deildin er okkar fyrsta markmið þurfum við að bæta við okkur öflugum leikmönnum til að geta náð árangri á jafn mörgum vígstöðvum og við börðumst á í vetur og náð ásættanlegum árangri. Að skipta út Evrópudeild fyrir meistaradeild gerir það ekki auðveldara.

  Eins og við höfum lært á reynslunni tekur tíma fyrir nýja leikmenn að komast inn í lífið hjá nýju liði og ég geri ráð fyrir að við höfum ekki enn séð núverandi leikmenn spila þann Klopp bolta sem þeir munu gera þegar liðið slípast betur saman.

  Þetta snýst því að einhverju leyti um þær væru væntingar sem við gerum til næsta tímabils og hversu mikinn tíma Klopp muni raunverulega fá til að byggja upp liðið. Verðum við sátt við fimmta/sjötta sæti í deild á næsta ári og sæmilegan árangur í bikarkeppnum/Evrópu?

  Eða eigum við meiri séns á að ná langtímamarkmiðum okkar með því að komast af með minni hóp á meðan ungir leikmenn okkar eru að þróast í hið ósigrandi lið Klopp sem okkur dreymir öll um að verði raunin.

  En það væri samt ógeðslega gaman að vinna bikarinn og sýna umheiminum að þetta lið stefnir hátt og er á góðri leið.

 18. Takk fyrir umræðurnar hérna á síðunni. Finnst þó margir gera svolítið lítið úr leikmönnum Liverpool eftir leikinn og ekki síður úr andstæðingunum. Vissulega er það rétt að menn sýndu þessu ekki nógu mikinn áhuga og þá að sína virkilega hvað í þeim býr.
  Ég held að Ibe, Ojo og Smith séu framtíðarmenn og leiki fleiri leiki næsta vetur. Benteke og Skrtel eru á leiðinni burtu og eru hvort sem er ekki í framtíðarplönum. Hissa er ég ef Lucas vill ekki fara á besta aldri og gæti verið að spila í byrjunarliði í öllum miðjuliðum deildarinnar.
  Algjörlega sammála nr 14 (Þorkell) að alltof miklir peningar hafi farið í of lítið í kaupum á leikmönnum. Milner kom frítt og hefur staðið sig mjög vel og verið einn stöðugasti leikmaður liðsins í vetur. Henderson og Couthino, sem báru liðið upp í fyrra, hafa ekki verið svipur hjá sjón í vetur og munar um minna.
  Ég er alveg viss um mjög bjartir tímar eru framundan:
  1) Framkvæmdastjóri sem veit hvað hann syngur og hefur náð andrúmsloftinu á Anfield.
  2) Margir efnilegir ungir leikmenn sem fengu marga aukaleiki í vetur vegna meiðsla lykilmanna og munu búa að því næsta vetur.
  3) Þegar liðið spilaði sýna bestu leiki í vetur (gegn Man C, South, Dortmund, Villareal ofl leiki) þá var liðið einfaldlega frábært. Það er hin rétta geta liðsins.
  4) Meiðslalistinn mun styttri núna en fyrir jól.
  5) Markvarsla og vörn skánaði eftir því sem leið á veturinn.
  Ennþá höfuðverkur sem vonandi verður unnið í:
  A) Miðverðir. Skrtel og Touré búnir að vera, Lovren hrokagikkur og Sakho hálfvitlaus og í banni. Það er ekki efnilegt. Vildi að Klopp hefði eytt álíka tíma í að finna topp miðvörð eins og að eltast við Götse.
  B) Markverðir. Ef Mignolet spilar aftur eins og hann gerði framan af vetri þá verður að skipta þar um. Svo einfalt er það.
  C) Hugarfarið var eitthvað brenglað í vetur í mörgum leikjum og vonandi fara einhverjir leikmenn í sálfræðilega íhugun í sumar.
  D) Markaskorari sem skorar helst 20+ mörk á vetri. Sturridge getur það en er mikið meiddur. Þetta er smá áhyggjuefni. Ings var meiddur í allan vetur og er algjört spurningarmerki.

Liðið gegn West Brom

Liverpool í Köben