Evrópudeildarsérfræðingarnir frá Andalúsíu

Á miðvikudaginn fer fram stærsti leikur Liverpool í langan tíma. Maður segir þetta oft og undanfarið hefur komið frekar margir “stærsti” og “mikilvægasti” leikur liðsins en það er bara þannig að liðið fer alltaf lengra og lengra í Evrópudeildinni og leikirnir verða því alltaf stærri og stærri þegar líður á.

Þeir gerast ekki mikið stærri en þessi sem framundan er enda er þetta úrslitaleikurinn sjálfur. Liverpool fær gullið tækifæri til að bæta enn einum Evróputitlinum í safnið en þurfa að komast í gegnum erfiða hindrun því þeir þurfa að mæta sigursælasta liði þessarar keppni.

Spænska liðinu Sevilla hefur á einhvern hátt tekist að gerast hálfgerðir Evrópudeildarsérfræðingar og hafa unnið þessa keppni fjórum sinnum áður.

Bíðið nú aðeins hæg…

Eins og að vinna keppnina í fjögur skipti sé ekki risa stórt afrek út af fyrir sig þá hafa þeir unnið hana í öll skiptin frá árinu 2006 og hafa í tvígang unnið keppnina tvö tímabil í röð – og eru nú í úrslitum keppninnar þriðja árið í röð!

Sá fyrsti
Fyrsti sigur Sevilla í Evrópudeildinni kom leiktíðina 2005-2006 þegar þeir mættu enska liðinu Middlesbrough í úrslitaleiknum í Eindhoven. Þess má svona til gamans geta að tveir verðandi leikmenn voru í liði Middlesbrough þetta kvöld en Stewart Downing byrjaði inn á og Brad Jones sat á bekknum. Gaman af því.

Þessa leiktíð hóf Sevilla leik í Evrópudeildinni í umspili um sæti í riðlakeppninni þegar liðið lagði Mainz 05 samanlagt 2-0 í tveimur leikjum. Það vill svo skemmtilega til að stjóri Mainz 05 á þeim tíma var enginn annar en Jurgen Klopp, við ættum nú að kannast eitthvað smá við hann ekki satt?

Sevilla dróst í riðil með Zenit, Bolton, Besiktas og Vitoria í mjög jöfnum og spennandi riðli. Sevilla náði toppsæti riðilsins með sjö stig, líkt og Zenit en Bolton voru með sex og Besiktas fimm. Í þá daga var aðeins spiluð einföld umferð í riðlakeppninni og endaði Sevilla í efsta sætinu vegna markahlutfalls.

Þeir drógust svo á móti Lokomotiv Moskvu í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar og unnu umferðina samanlagt 3-0 áður en þeir slógu út Lille 2-1. Í undanúrslitunum mættust aftur Zenit og Sevilla þar sem Spánverjunum tókst að hefna fyrir stórt tap í riðlakeppninni og unnu 4-1 sigur í fyrri umferð átta liða úrslitunum áður en liðið skildi jöfn í seinni leiknum.

Sevilla lagði svo Schalke 04 með einu marki gegn engu í undanúrslitarimmunni en mark Sevilla kom í framlengingu og var því ljóst að að Sevilla myndi mæta Middlesbrough í úrslitunum.

Þegar komið var í úrslitaleikinn leyndi sér ekkert hvort liðið ætlaði alla leið í þessari keppni. Sevilla var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og voru með eins marks forystu í hléi en þeir gjörsamlega kaffærðu þeim ensku í seinni hálfleik og bættu við öðrum þremur mörkum.

Öflug framlína Sevilla með þá Luis Fabiano, Fredric Kanoute og Javier Saviola olli Middlesbrough miklum vandræðum en Fabiano kom Sevilla á bragðið áður en miðjumaðurinn Maresca skoraði tvö mörk og Kanoute bætti því fjórða við rétt undir lok leiksins.

Liðsmenn Juande Ramos unnu því fyrsta Evróputitilinn í sögu Sevilla og virtist vera upphafið af því sem óhætt er að kalla Evrópudeildarstórveldi.

Lið Sevilla var mjög sterkt á þessum tíma en þar spiluðu, ásamt þessum þremur framherjum sem áður voru nefndir, Jesus Navas og Dani Alves svo einhverjir séu nefndir.

Ég ætla að fá einn tvöfaldan, takk
Sevilla byrjaði leiktíðina eftir á að vinna lið Barcelona í Ofurbikarnum 3-0 og undirstrikaði hve sterkt þetta lið var.

Sevilla flaug í gegnum forkeppnina með því að slátra gríska liðinu Atromitos 6-1 samanlagt og enduðu í riðli með AZ, Braga, Slovan Liberec og Grasshoppers. Sevilla endaði með jafnmörg stig og AZ en hafnaði í 2.sæti riðilsins vegna innbyrðisviðureigna liðana.

Á leið sinni í úrslitin sló liðið út Steaua Bucarest, Shaktar Donetsk, Tottenham og Osasuna en þeir mættu svo samlöndum sínum í Espanyol í úrslitaleiknum sem fór fram í Glasgow. Adriano, núverandi leikmaður Barcelona, kom Sevilla yfir snemma leiks en Albert Riera – enn einn Liverpool tengdur aðili – jafnaði metin. Það þurfti að framlengja leikinn og aftur komst Sevilla yfir en nú var það Kanoute sem skoraði. Skömmu fyrir laukaflautið jöfnuðu Espanyol og því þurfti að kalla til vítaspyrnukeppni þar sem Sevilla vann 3-1. Palop, markvörður Sevilla, var í miklu aðalhlutverki þá og varði þrjár af fjórum spyrnum Espanyol.

Juande Ramos og leikmönnum hans tókst því að gera eitthvað sem afar fáum liðum tekst að gera og vann Evrópukeppnina annað árið í röð. Í kjölfar þessa fór að týnast aðeins úr leikmannahópi Sevilla en sama ár urðu þeir einnig bikarmeistarar á Spáni.

Sá þriðji kemur í hús
Sevilla gengu í gegnum töluverðar mannabreytingar á árunum eftir Evróputitlana og tókst ekki að sigra keppnina í einhvern tíma eftir að hafa virst vera orðnir nokkurs konar sérfræðingar.

Það virtist bara sem svo að Sevilla þurfti bara aðeins að hlaða batterí sín í smá tíma áður en næsta atlaga var gerð. Nú var Unai Emery orðinn knattspyrnustjóri liðsins og tókst honum að gera það sama og Juande Ramos gerði.

Leiktíðina 2013-2014 hóf Sevilla keppnina í fyrri forkeppninni og flugu í gegnum Mladost Podgorica og Slask Wroclaw – þau miklu stórveldi! Sevilla vann riðilinn sinn sem innihélt Slovan Liberec, Freiburg og Estoril.

Maribor, Real Betis, Porto og Valencia voru mótherjar Sevilla í útsláttarkeppninni en þeir komust í gegnum öll þessi lið. Það þurfti vítaspyrnukeppni til að útkljá leik þeirra við Real Betis og þeir unnu á útivallarmörkum gegn Valencia.

Í úrslitunum mættu þeir liði Benfica – í þessum liðum voru tveir leikmenn Liverpool í dag en þeir Alberto Moreno og Lazar Markovic spiluðu fyrir sitthvort liðið. Markalaust jafntefli var niðurstaðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu svo útkljá þurfti leikinn með vítaspyrnukeppni sem Sevilla vann nokkuð örugglega 4-2.

Emery og hans liðsmenn voru því komnir með blóð á tennurnar og vildu meira. Í liði Sevilla á þessum tíma voru til að mynda Carlos Bacca, Jose Antonio Reyes, Ivan Rakitic, Kevin Gameiro og Alberto Moreno.

Nei hættu nú alveg!
Árið eftir gerði Sevilla sér lítið fyrir og vann keppnina aftur. Eldingu slær aldrei niður á sama stað tvisvar, eða hvað?

Sevilla fór beint inn í riðlakeppnina þetta árið og komust nokkuð auðveldlega upp úr sínum riðli þó þeir hafi endað stigi á eftir Feyenoord og höfnuðu í öðru sæti en það dugði.

Liðið sló út Gladbach, Villarreal, Zenit og Fiorentina frekar sannfærandi á leið þeirra í úrslitaleikinn þar sem þeir mættu úkraínska liðinu Dnipro. Konoplyanka, Ian Ayre, Úkraína, Liverpool, deadline day – rifjið þetta upp.

Úrslitaleikur þessara liða var nokkuð skemmtilegur. Dnipro komust yfir snemma leiks en Sevilla svaraði með tveimur mörkum í kjölfarið. Dnipro jafnaði áður en Carlos Bacca skoraði annað mark sitt og þriðja mark Sevilla sem tryggði sér fjórða sigurinn í keppninni á aðeins nokkrum árum.

Aleix Vidal, Grzegorz Krychowiak, Reyes, Banega, Gameiro, Denis Suarez og Carlos Bacca voru meðal leikmanna Sevilla í þessum leik en þeir eru nú nokkuð margir farnir í dag. Með sigri í þessum leik varð Sevilla fyrsta liðið til að tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu með sigri í keppninni.

Allt er þegar þrennt er!
Nú í fyrsta skipti fær Sevilla tækifæri á að ná þriðja Evrópudeildartitlinum í röð og það að þeir séu aftur komnir á þennan stað sýnir hve svakalega sterkir þeir eru í þessari keppni. Fjórir sigrar í fjórum úrslitaleikjum þessarar keppni og sá fimmti framundan á einhverjum tíu árum er svakalegur árangur, það verður ekki tekið af þeim.

Í ár hóf Sevilla leikinn í Meistaradeildinni og fékk mjög erfiðan riðil en þeir mættu Manchester City, Juventus og Gladbach. Þeir enduðu í þriðja sæti riðilsins með sex stig og fengu að taka þátt í Evrópudeildinni.

Á leið sinni í úrslitaleikinn lögðu þeir Molde, Basel og Shaktar nokkuð sannfærandi í tveggja leikja einvígi en þeir þurftu vítaspyrnukeppni til að komast í gegnum Athletic Bilbao í átta liða úrslitunum.

Það fer ekki á milli mála að þetta verður svakalega erfiður leikur fyrir Liverpool en þetta Sevilla lið er nokkuð vel mannað með menn eins og Adil Rami, Krychowiak, Gameiro, Reyes, N’Zonzi, Banega og Konoplyanka.

Maðurinn á bakvið tjöldin
Lykilmaður í árangri Sevilla er maðurinn á bakvið tjöldin en yfirmaður knattspyrnumála hjá þeim þykir einn sá besti í sínu fagi í dag. Hann var áður leikmaður Sevilla í mörg ár en hann tók við starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá liðinu árið 2000 og var gefið honum tvö megin markmið, annars vegar átti hann að bæta unglingastarf félagsins og byggja upp sterkara net útsendara til að finna leikmenn út um allan heim.

Báðum hlutverkum gegndi, eða gegnir, Monchi afar vel. Margir frábærir leikmenn hafa komið í gegnum unglingastarf Sevilla á þessum tíma en þar með nefna leikmenn eins og Diego Capel, Alberto Moreno, Jesus Navas, Antonio Puerta, Sergio Ramos og Jose Antonio Reyes. Útsendaranet Sevilla tók einnig gífurlegum framförum og tókst þeim að fá leikmenn eins og til dæmis Adriano, Dani Alves, Julio Baptista, Carlos Bacca, Seydou Keita og Ivan Rakitic á mjög góðu verði en flestir þeirra voru seldir með miklum hagnaði.

Hann sá einnig um ráðningar á mjög færum stjórum eins og Juande Ramos og Unai Emery sem hafa verið afar farsælir í starfi hjá félaginu.

Lið Sevilla er enn gífurlega sterkt þó þeir lendi oft í því að missa sína bestu leikmenn en með færan stjóra og klóka menn sem sjá um leikmannakaup þá standa þeir vel að vígi. Þeir hafa til dæmis hagnast af um það bil 200 milljónum Evra á síðustu árum eftir sölur á leikmönnum sínum.

Þetta er smá kynning á liði Sevilla og árangri þeirra í Evrópu, það má búast við hörku viðureign á milli Liverpool og Sevilla á miðvikudaginn næsta. Rétt upp hönd sem er spennt/spenntur fyrir leiknum!

11 Comments

  1. Takk fyrir frábæran pistil. Afar áhugaverður og upplýsandi.

    Gaman væri að fá í kjölfarið pistil um Basel og völlinn. Og ekki væri verra að fá inside upplýsingar um hvort ljónið í dýragarðinum í Basel sé ekki örugglega dautt. Ljónið sem horfði illilega í augun á mér þegar ég fékk upphringingu frá Íslandi að Suðurlandsskjálfti hafi riðið yfir. Það var sko stara, þannig að maður vaknar stundum upp á nóttunni.

    Mikil spenna fyrir leiknum er að magnast upp hjá mér. Ég efast ekki um Klopp, ég trúi á Klopp. Ég efast ekki um leikmenn Liverpool, ég trúi á leikmenn Liverpool. Ég efast ekki um stuðningmenn Liverpool, ég trúi og veit að enginn muni ganga einn. Sameinaðir sigrum við.

    YNWA

  2. Frábær pistill. Takk!

    Maður er orðinn sjúklega spenntur fyrir þessum leik. Það yrði algjört ævintýri að vinna og komast þannig í meistaradeildina, ásamt því að landa enn einum evróputitlinum.

    Áfram Liverpool!

  3. þetta verður svakalegur leikur og samkvæmt þessum snilldar pistli þá verður þetta ekki walk in the park

  4. Takk fyrir góðan pistil!

    Ég hef frábæra tilfinningu fyrir þessum leik. Ekki eingöngu fyrir möguleika okkar manna að landa bikarnum, heldur einnig að leikurinn sjálfur verði stórskemmtilegur fyrir augað.

    Svo gengur ekki að leyfa einhverju wanna be liði frá Spáni að eiga eitthvað svona grobb inni. Sjálfsagt hjálpum þeim sjálfum hvað mest upp á framtíðina að gera með því að taka þennan bikar.

    Vil svo að lokum benda mönnum á þetta frábæra viðtal við Herr Klopp sem var tekið upp fyrir nokkrum dögum. Maðurinn er stórskemmtilegur 🙂

    https://www.youtube.com/watch?v=TjIvkpghKRo

    YNWA!

  5. þeir vinna bara ekki þrennuna. Liverpool lætur slikt ekki gerast. vinnum 3-1

  6. Nú hefur Mignolet fengið alls konar útreið bæði hér á spjallinu sem og á samfélagsmiðlum út um víða veröld. En það er vert að taka það fram að ef hann meiðist á næstu 5 dögum, þá er Ward ekki að fara að koma í hans stað (meiddur), og ef ykkur finnst tilhugsunin um það að Bogdan spili vera ógnvekjandi þá er hægt að sleppa því, þar sem hann er ekki skráður í hóp.

    Það yrði því einhver af unglingamarkvörðunum sem þyrfti að spila stærsta úrslitaleik Liverpool síðustu árin.

    Nú og Enrique hefur jú verið leystur undan samningi, svo ekki dregur hann fram hanskana.

    Ekki svosem að ég telji þetta eitthvað agalega líklegt, en ef ég væri Klopp er ég ekki viss um hvort ég myndi þora að spila Mignolet á sunnudaginn.

  7. Daníel.

    Úff það kæmi manni ekkert á óvart miðað við þetta tímabil. Væri alveg eftir því að unglingur væri í markingu, við töpuðum og þyrftum að spila umspilsleik við West Ham um 7.sætið.

  8. takk fyrir godann evropu pistill.

    En ein spurning (med ef og hefdi ) fyrir sofa-serfrædingana

    Southampton tapar og endar med 59 sig

    liverpool vinnur a sunnudag 2 -1 og endar tha med 62 sig og markatølu 64-50-14

    Westah tapar 1 – 0 og endar tha med 62 sig og markatølu 64-50-14

    sem sagt, liverpool og westham eru meru jøfn af stigum og makatølu i 6 til 7 sæti. og ef 6 sætid gefur rett til ad spila i evropu, hvort er thad west ham eda liverpool sem fær 6 sætiå ?

  9. Það er búið að skrifa þetta í skýin : við vinnum þessa keppni og förum í meistaradeildina.
    Yfir og út kæru vinir 🙂

  10. Mignolet hefur verið mjög góður í fullt af leikjum sð undanförnu. Hann fær ekki alveg það credit sem hann á skilið fyrir það. Ég veit að það er hægt að taka saman youtube myndband með klúðrum hjá honum og telja töpuð stig. En á móti var hægt að gera myndband með samansafn af frábærum vörslum hjá honum, sem væri glædilegt myndband, og telja grædd stig. Svo er hann flottur í vítakeppnum (sbr. td á móti Stoke um daginn). Mér finnst hann heilt yfir vel bærilegur markvörður, þó að hægt væri að styrkja stöðuna.

  11. Ljótar innsláttarvillur hjá mér. Skrifað í síma. Ætlaði annars að skrifa “svo væri hægt að búa til myndband með…” en skrifaði óvart “var” í stað “væri”

Liverpool – Chelsea 1-1

Síðasti deildarleikur tímabilsins