Liverpool 2 Watford 0

Okkar menn tóku í dag á móti Watford í 37. umferð Úrvalsdeildarinnar. Það var talsverður vorbragur á þessu í dag en leiknum lauk með góðum 2-0 sigri Liverpool.

Liðið í dag var svona skipað:

Mignolet

Flanagan – Skrtel – Lucas – Moreno

Ibe – Stewart – Allen – Ojo
Coutinho
Benteke

Bekkur: Bogdan, Touré, Randall (inn f. Moreno), Brannagan (inn f. Ojo), Chirivella, Firmino (inn f. Coutinho), Sturridge.

Það var frekar fátt um fína drætti í þessum leik. Liverpool stýrði fyrri hálfleiknum nær allan tímann, var meira með boltann en skapaði sér ekki mikið að ráði. Eina mark hálfleiksins kom á 35. mínútu þegar Benteke skallaði háan bolta Coutinho niður í teignum þar sem Allen renndi sér á hann á undan Gomez í markinu og skoraði. 1-0 í hálfleik og þrátt fyrir nokkur hálffæri gestanna og daufan leik á heildina litið var það sennilega sanngjörn staða.

Seinni hálfleikurinn var svipaður; tíðindalítill, þ.e.a.s. Besta færi gestanna kom þegar Ighalo slapp í gegn eftir 55 mínútur en Mignolet varði skot hans vel. Annað mark Liverpool kom svo á 76. mínútu þegar Ojo truflaði framsendingu hjá Watford, boltinn barst til Firmino sem lék inná teiginn og skoraði framhjá Gomez í fjærhornið. Strax í kjölfarið slapp Ighalo aftur í gegn en aftur varði Mignolet frábærlega. Eftir þetta fjaraði leikurinn endanlega út og bæði lið virtust nokkuð afslöppuð yfir stöðunni. Lokatölur urðu því 2-0.

Þessi úrslit þýða að Liverpool er í 8. sæti með 58 stig, einu á eftir West Ham og tveimur á eftir Southampton í sætunum fyrir ofan en þó með leik til góða sem verður leikinn á miðvikudag. Mér skilst að 7. sætið gefi Evrópudeildarsæti nema ef Crystal Palace vinni FA-bikarinn síðar í mánuðinum, þá gefi aðeins 6. sætið Evrópudeild. Þannig að okkar menn eru enn í Evrópubaráttu í deildinni, þótt fókusinn sé klárlega kominn á úrslitaleikinn í Basel eftir eina og hálfa viku þar sem bæði Evrópubikar og Meistaradeildarsæti verða í boði, allavega ef marka má liðsval Jürgen Klopp í dag.

Samt, sigur er sigur og það er jákvætt að ná að klára þessa deildarkeppni á jákvæðum nótum. Vonandi klára strákarnir næstu tvo leiki líka áður en við öndum djúpt og horfum til Basel.

Maður leiksins: Kevin Stewart. Þetta fannst mér besti leikur hans fyrir liðið hingað til, stýrði umferðinni vel á miðjunni og gerði allt rétt í dag. Stóð upp úr í jafngóðu og vinnusömu liði. Kannski er hart af mér að hrósa Christian Benteke ekki hérna, hann var mjög góður og leiddi línuna vel en hlutverk varnartengiliðar er oft vanmetið og því vildi ég hrósa stráksa sérstaklega með nafnbótinni í dag.

Næst er það Chelsea á Anfield á miðvikudag. Ég vona að Klopp taki enga sénsa í þeim leik og minni fyrrverandi meistarana rækilega á það hvort liðið er betra í dag.

YNWA

11 Comments

  1. Vel gert með varaliðinu.
    Sterkt lið á móti chelsea og enda þetta vel.

  2. Mér fannst síðarihálfleikur allt annað en tíðindalítil þótt að ákefðinn hefði ekki verið mikil því að það voru fullt af færum á báðu megin á vellinum.

    Annars var þetta bara nokkuð solid liverpool leikur og allt annað að sjá B-liðið okkar spila í þessum leik miða við gegn Swansea um daginn.

    Mignolet var frábær í þessum leik einning fannst mér Joe Allen og Stewart vera flottir á miðjuni í dag og sést hvað liði lýtur betur út þegar kjúklingur er með reynslubolta sér við hlið.

  3. Skyldusigur í dag og hefði átt að fara 4-0 allavega. Benteke getur varla keypt sér mark þessa dagana.

  4. Sá hluta fyrri hálfleiks. Benedikt gerði vel í stoðsendingu til Allens í fyrra markinu. Það er í sjálfu sér ekki slæmt að eiga eina stoðsendingu í leik sem endar tvönúll.

    En það er svo sem ekkert nýtt að blessað tröllið á erfitt með að nýta færin. Rannsóknarefni, eiginlega. En ég gladdist yfir því að við skyldum snýta okkur á þeim gulu. Þeir voru nett pirrandi í fyrri umferð þegar lífið virtist brosa við okkur.

  5. Gaman að sjá hvernig Ojo er að stimpla sig inn og eins Stewart að sýna að hann eigi skilið mínútur.

    Afsakið smá þráðrán en er Arbeloa ekki að klára samning hjá Madrid? Væri ekki sterkt að ná honum aftur yfir?

  6. merkilegt með gaur eins Benteke. þegar hann spilaði gegn okkur gekk honum oftar en ekki vel,þegar hann leikur með okkur getur hann ekki blautan skit. eg vona bara að hann eigi gott EM mot og verði keyptur til…svartfjallalands.

  7. Þessi sigur ætti að gefa ungu strákunum aukið sjálfstraust til áframhaldandi góðra verka.
    Svona leikir eru nauðsynlegir upp á framhaldið fyrir þá.

    Flott þrjú stig.

  8. Mér sýnist mikilvægi leiksins endurspilast í commentunum hérna, 7 comment eftir sigurleik haha. Annar af tveimur leikjum tímabilsins sem að ég missi úr vegna vinnu. Þetta lítur út fyrir að allir séu að bíða eftir úrslitaleiknum í Basel?. Ætla menn ekki annars að fjölmenna á Úrillu Górillunni? Eitt er víst að ég ætla ekki að horfa á leikinn heima, heldur langar mér að fjölmenna með bestu stuðningsmönnum landsins á einhverri knæpunni! Hvar ætla menn að mæta??

  9. Ég verð á Ölhúsinu á Reykjavíkurvegi. Þar myndast góð stemmning í leikjum enda alltaf vel mætt. 🙂
    Annars var þetta fínn leikur hjá okkar mönnum og var aldrei stressaður yfir að þetta færi eins og í leiknum á móti Gylfa & co. Menn að leggja sig alla fram og það skilaði sér.
    Nú er bara að mæta einbeittir á móti Chelsea og halda þeim frá því að komast ofar í töflunni áður en þeir standa heiðursvörð fyrir Ranieri og Refina hans.

  10. Sælir félagar

    Góður sigur þó ef til vill hafi heppnin stundum verið með í för. Það er greinilegt að ungu strákarnir eru ennþá reynslulitlir og ákvarðanataka þeirra orkar stunfum tvímælis. Það mun lagast með aukinni reynslu og það er nákvæmlega það sem Klopp er að gefa þeim. Held að þeir geti allir komið til með réttri meðhöndlun nema ef til vill Ibe. Ég hefi efasemdir um hvort hann hefur nægilega góðan góðan fótboltahaus.

    Það er nú þannig

    YNWA

  11. mér fannst nú hann pirlo ( Allen ) standa uppúr þessum leik…þótt hann sé svona lítill þá má nú ekki gleyma honum….það er bara rugl orka í þessum dreng…:)

Liðið gegn Watford

Klopp, faðmlögin og Canos