Bournemouth á morgun

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD GEGN VILLAREAL

Það styttist í annan endann á ensku Úrvalsdeildinni þetta árið og á morgun heimsækja okkar menn spútniklið Bournemouth.

Eftir Dortmund

Stóra spurningin hjá okkar mönnum er, eðlilega, hvernig ná menn sér upp í tiltölulega þýðingarlítinn leik svo stuttu eftir þetta ótrúlega fimmtudagskvöld gegn Dortmund. Stutta og augljósa svarið er, alls ekki. Það er viðbúið að kraftaverkið á fimmtudag sitji í mönnum þegar kemur að leiknum á morgun þannig að ég mæli með að menn stilli væntingum í hóf. Reyndar er gengið búið að vera nokkuð gott hjá okkar mönnum undanfarið; frá tapinu á Wembley í lok febrúar hefur liðið unnið 5, gert 3 jafntefli og aðeins tapað 1 í 9 leikjum. Markatalan er 20-11, liðið er að skora tvö mörk í leik að meðaltali sem er virkilega gott hjá liði sem var í mikilli þurrð í haust (og mest allt síðasta tímabil) en á móti er liðið aðeins tvisvar búið að halda hreinu í þessum ellefu leikjum. Aðeins þessi skelfingar seinni hálfleikur gegn Southampton (og fyrstu 10 mínúturnar gegn Dortmund fyrir helgi) geta flokkast sem léleg spilamennska, í raun. Að öðru leyti er liðið búið að vera á virkilega góðu skriði í margar vikur núna.

Samt er ekki að neinu að keppa í deildinni. Mín skoðun er sú að 4. sætið er farið og ég stórefa að okkar menn nái Man Utd eða West Ham úr þessu þannig að jafnvel sterkur lokakafli er líklega ekki að fara að skila meiru en 7. sætinu. Og fyrst bæði City og United unnu í dag er bara ekki að miklu að keppa á morgun, og þegar maður reiknar spennufallið eftir Dortmund inn í ætla ég ekki að búast við flugeldum á morgun.

Bournemouth

Hvernig í ósköpunum er þetta lið nánast um miðja deild, ellefu stigum frá fallsæti? Eddie Howe virðist vera hálfgerður töframaður, fæddur á heillastjörnu og svo framvegis. Lesið frábæra söguupphitun Einars Matthíasar frá því í des. 2014 fyrir gott ágrip af því hversu ótrúlegur uppgangur félagsins hefur verið. Bætið svo við að þeir eyddu háum fjárhæðum í Tyrone Mings síðasta sumar og misstu svo bæði hann og helsta markaskorarann, Callum Wilson, í löng meiðsli í haust og þá hélt maður að þessu Öskubuskuævintýri væri lokið.

Svo fór þó ekki. Það er eitthvað í vatninu þarna syðra og þeir eru langt frá fallbaráttu, sigla lignan sjó og njóta hverrar mínútu í Úrvalsdeildinni. Undanfarið hafa þeir líka verið á góðu róli; þeir unnu þrjá leiki í röð í mars (tvo af þeim gegn liðum í fallbaráttunni fyrir neðan þá) áður en City og Tottenham höfðu betur gegn þeim í tveimur í röð. Þá var fínt að fá gimmie gegn Aston Villa í síðustu umferð (bæ bæ Aston Villa, ha ha ha) og nú er komið að skemmtilegu tækifæri fyrir nýliðana að njóta sín í sólinni og leggja þreytt og annars hugar lið Liverpool.

Tekst það? Kemur í ljós en ég býst allavega við leikglöðu og fjörugu Bournemouth-liði á morgun og stemningu á vellinum.

Byrjunarlið Liverpool

Það er nóg af leikjum fram undan hjá Liverpool. Eftir leikinn á morgun eru tveir á Anfield gegn Everton í miðri viku og Newcastle um næstu helgi, áður en liðið heldur í útileikinn gegn Villareal eftir 12 daga. Þannig að ég tel nánast pottþétt að Klopp róteri byrjunarliðinu á morgun, ekki síst eftir að róteringin skilaði 4-1 sigri á Stoke um síðustu helgi.

Ef við höfum hliðsjón af liðinu sem byrjaði gegn Stoke og því hverjir spiluðu færri mínútur eða voru teknir út af á fimmtudag gegn Dortmund ætla ég að spá þessu liði:

Mignolet

Clyne – Skrtel – Toure – Smith

Stewart – Lucas

Milner – Firmino – Ibe

Sturridge

Sömu miðverðir og gegn Stoke. Smith fær séns á morgun enda kominn tími á að leyfa bakvörðunum að anda. Meiðsli Emre Can koma á skelfilegum tíma og auk fjarveru Henderson þýðir það að Lucas og Stewart eru sennilega að fara að spila alla deildarleiki fram á vorið. Origi, Coutinho og Lallana hvíla á morgun og Ibe fær séns á að minna á sig (eða Ojo, gæti verið) á meðan Milner þreytist aldrei.

Mín spá

Sko, ég veit að ég útlistaði ástæður þess hvers vegna liðið verður þreytt og annars hugar og flatt á morgun í upphafi upphitunarinnar. Ég útskýrði líka af hverju Bournemouth verða erfiðir viðureignar. En þegar ég sé þetta byrjunarlið okkar fæ ég fiðring í litlu tærnar og ég býst eiginlega bara við skemmtilegum leik.

Við vinnum 3-2 á morgun. Ibe skorar. Eða Ojo. Eða báðir. Og hana nú.

YNWA

20 Comments

 1. Usssss, maður er enn að jafna sig eftir síðasta leik.

  En maður gerir þá kröfu að menn mæti í vinnuna og að minnsta kosti spili góðan og skemmtilegan fótbolta.

  Baráttukveðja, Sveinbjörn.

 2. Maður man ekki eftir svona þunglyndislegum pistli síðan að Einar Matthías hvatti Liverpool að tapa viljandi og koma sér út úr Evrópukeppninni vegna gríðarlegs álags atvinnumanna í knattspyrnu. Ja, hérna hér #þreytt.is.

  En að öllu gamni slepptu þá fer leikurinn 1-4. Ojo verður í byrjunarliðinu.

  Svo er löngu kominn tími á podcast. Gaman væri að heyra í afmælisbarninu Magga hvort hann sé ennþá gangandi á skýjunum líkt og þessi sem gekk á vatninu og heyra í ykkur ágætu pennum eftir sögulegan Dortmund leik.

 3. Ég held að megnið af stuðningsmönnum sé svona rétt svo að jafna sig eftir leikinn, og það kæmi svosem ekki á óvart að það komi skellur eftir að hafa farið svona hátt á móti Dortmund. En auðvitað vonar maður að það takist að koma leikmönnum niður á jörðina. Þessi deilder ekkert alveg búin, en úr þessu er lang líklegasti möguleikinn fyrir okkar menn að komast í CL með því að vinna EL, og það er svo fjarri því að vera eitthvað búið.

  Ég er að mestu sammála KAR um liðið, mér hefur þó sýnst Ojo vera á undan Ibe í goggunarröðinni og veðja á að hann byrji inná. Held hann byrji ekki með þá báða inná, ef Ibe er ekki bara kominn í frost held ég að hann verði á bekknum. Svo var eitthvað verið að tala um að Flanno væri að glíma við einhver smá meiðsli, passar það? Annars væri þetta auðvitað tilvalinn leikur fyrir hann.

 4. Ég held að Allen hljóti að fá sénsinn á morgun og verði í byrjunarliðinu fyrir lucas eða stewart. Spurning svo hvort Clyne og Milner fái smá hvíld. Spái annars flottum 3 – 1 sigri hjá okkar mönnum. Sturridge með tvö og Firmino kemst aftur í gang og setur eitt.

 5. Allen ætti líklega að spila þarna með Lucas. Eða að Milner spili með Allen og léttadrengirnir verði þar fyrir framan.

  Varðandi podcast þá skil ég nú vel okkar menn að þurfa 1) að jafna sig á árshátíðinni og 2) að jafna sig á þessum geðveikislega Dortmund leik. En væntanlega fáum við gott pod í næstu viku.

  Varðandi deildina þá er orðið nokkuð langt síðan við sögðum að það væri síðasti séns að gera eitthvað í fjórða sætinu, held að það sé löngu farið. Bæði er mjög langt í það og svo eru líka ansi mörg lið á milli.

 6. Mig langar aðeins að taka vinkil á þessa umræðu með síðasta leik í huga.

  Það er alveg ljóst að sigurinn á Dortmund ætti að hafa múrað grundvallarhornstein í ungu framtíðarliði Klopps. Comeback er hér eftir allaf í eftirrétt hafir liðið slysast á bragðdaufan aðalrétt. Menn eiga nú alltaf að geta fundið trú á búa til eitthvað yfirþyrmandi eftir að hafa upplifað þessa stemmingu fimmtudagsins. Á Anfield þar sem áhorfendur hafa umlifað samskonar reynslu og hugarfar á ekki annað að vera hægt. Andstæðingar ættu því næstu misserin ekki að upplifa sigur (ef svo illa vill til) fyrr en eftir sturtu, upp í rútu, á endastöð heima.

  En hvað segið þið með leiðtoga liðsins innan vallar í síðasta leik. Fyrirliðinn meiddur utan vallar, varafyrirliðinn einn sá besti í fyrirmynd vinnusemi á velli en er ekki að öskra samherjana áfram finnst mér. Hver stóð upp úr í bæði vinnusemi og að rífa mannskapinn áfram í stemmingu? Hver er að gera sig ómissandi þar?

 7. Getum klárlega náð bæði United og West ham ef liðið spilar lokakaflann vel, eigum leiki til góða og ef þeir vinnast erum við að eg held 1 stigi fra west ham og 2 stigum frá man united. Ekki að það breyti miklu hvort liðið nær þessum liðum eða ekki. Ef okkar menn fara alla leið i evrópudeildinni þa breytir ákaflega litlu hvort við náum þessum liðum eða ekki en ef við vinnum ekki evrópudeildina þá gæti sæti i þeirri keppni verið í boði á næsta timabili ef við náum þessum liðum. Svo er alltaf spurning hvort menn vilja vera í evrópudeildinni eða ekki.

 8. Já sæll! Mér tókst að útiloka Joe Allen í byrjunarliðinu! Ég var með hann inni þegar ég teiknaði þetta upp sem 4-3-3 en svo breytti ég á síðustu stundi í 4-2-3-1 og tók bjartsýnispilluna, setti Ibe í liðið og greyið Allen var Kloppaður af mér.

  Bið þig afsökunar Broseph. Þú verður að sjálfsögðu í byrjunarliðinu á morgun og væntanlega maður leiksins líka.

  Já og Kilroy (#2), ef þú heldur að þetta sé neikvæðnispistill hjá mér ættirðu að fara varlega í að lesa þá almennilega neikvæðu. Þetta var bara nokkuð bjart hjá mér í dag, fannst mér sjálfum allavega. 🙂

 9. Nr. 2
  Þunglyndi eða raunsæi? Liverpool er í 8.sæti í deildinni og Klopp er ítrekað að tala um hvað næstu andstæðingar hafa spilað mikið færri leiki, núna síðast fyrir þennan leik gegn Bournemouth. Auðvitað frábært ef þetta heppnast og Liverpool nær að landa EL en það er verulega þreytt að afskrifa deildina fljótlega eftir áramót hvert ár og fáránlegt álag í bikarkeppnum hefur klárlega kostað stig í deildinni. Aðalástæðan btw fyrir mikilli spennu í EL núna er vegna þess að sigur þar gefur sæti í Meistaradeildinni, þannig er það fyrir mér a.m.k.

  Vona svo að Klopp fari að nota 4-4-2 meira með tígulmiðju. Liverpool skoraði bara 3 mörk á hálftíma gegn Dortmund spilandi það kerfi.

  Líklega kemur Lucas inn fyrir Can sem er skelfileg veiking á liðinu, væri meira til í að fá Stewart inn í þennan leik til að verja vörnina en sé það ekki gerast. Jordon Ibe held ég að komi ekki mikið meira við sögu, Ojo er fyrir framan hann núna virðist vera.

 10. Ég vil fá sigur á morgun og ekkert annað, enda liðið að sýna stórkostlegar framfarir.
  Eins get ég með nokkru móti séð að fjórða sætið sé farið hvað Liverpool varðar, Man Utd og West Ham eiga t.d. eftir að mætast, West Ham á útileik gegn Leicester í dag á meðan okkar menn mæta Bournemouth, og Man Utd á líka eftir að mæta Leicester.

  Ég vona að okkar menn keyri af krafti það sem eftir lifir tímabils og negli þetta fjórða sæti, ef það gengur ekki þá er gott að eiga eftir sjénsinn í Evrópudeildinni.

  Bournemouth 0 – 2 Liverpool
  Sturridge og Firmino með mörkin.

 11. Motivationið er miklu stærra en einhver staða í deild. Motivation leikmann er:
  ÉG VIL VERA PARTUR AF ÞESSU LIÐI NÆSTA TÍMABIL.

 12. Það kemur yfirleitt vont tap eftir frábæra leiki. Klikkar ekki. 3-1 fyrir heimamönnum. Skiptir svo sem engu þegar EL er aðalmálið.

 13. Við eigum tvo leiki til góða á United og ef við vinnum þá eru 2 stig á milli semekki er útilokað að vinna upp í 5 leikjum. Hlýtur að vera markmiðið að ná 5 sætinu af þeim.

 14. Þetta er hálfgerður uppgjafarpistill gagnvart deildinni,ef ég mætti segja.Við eigum tvo leiki á Utd. og ef við vinnum þá og West Ham tapar á eftir fyrir Leicester,þá erum við komnir í pakkann um 5. sætið sem hljómar mun betra en 7. sætið.
  Klopp hefur örugglega metnað til þess að enda tímabilið eins ofarlega og liðið hefur möguleika á.

  YNWA

 15. Læt mér ekki einu sinni detta í hug að Klopp vilji ekki meira í deildinni en komið er. Hljótum að stefna á sigur í þeim leikjum sem eftir eru og sjá eftir það hver staðan er. Ef hann gefur skít í deildina þá er hann ekki sá maður sem ég vonaðist eftir. Hins vegar er leikjálagið gífurlegt og því þurfa fleiri að standa vaktina sem er bara gott því þetta eru seinustu leikirnir til að sanna sig fyrir nýjum þjálfara. Menn voru tilbúnir í síðasta deildarleik og ég trúi ekki öðru en að menn séu það líka núna. Ef ekki, þá er bara fínt fyrir þá að leyta sér að nýjum klúbb.
  YNWA

 16. Ward; Randall, Lucas, Toure, Smith; Allen, Stewart; Ibe, Lallana, Ojo, Sturridge

Evrópa á Anfield með kop.is

Liðið gegn Bournemouth