Liverpool – Stoke 4-1

Liverpool tók á móti Stoke á þessum fína sunnudegi! Klopp gerði 7 breytingar á liðinu sem ferðaðist til Þýskalands í vikunni og fengu menn eins og Ojo og Stewart tækifæri í liðinu á meðan Coutinho og Lallana tóku sér sæti á bekknum. Þetta var jafnframt fyrsti deildarleikurinn sem Ojo byrjar fyrir Liverpool!

Mignolet

Clyne – Skrtel – Toure – Moreno

Stewart – Allen – Milner

Firmino – Sturridge – Ojo

Bekkur: Ward, Lovren, Coutinho, Lallana, Lucas, Origi, Smith.

Ég var mjög ánægður að sjá Ojo og Stewart koma inn en ég var ekki alveg jafn spenntur þegar ég sá vörnina okkar. Skrtel kominn til baka og það með Toure sér við hlið!

Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með en það tók Liverpool ekki nema 7 mínútur að komast yfir. Bardsley tók Bardsley á þetta og braut klaufalega á Milner út við endalínuna vinstra megin. Þrír leikmenn Stoke stóðu svo yfir boltanum og voru ekkert að stressa sig á Moreno sem var ódekkaður nokkrum metrum frá. Milner renndi boltanum á Moreno sem lét vaða fyrir utan teig, 1-0 fyrir heimamenn! Ekki oft sem Moreno skorar, hvað þá fyrir utan teig.

Leikurinn datt svolítið niður eftir markið og Stoke gerðu sig líklegri. Firmino átti þó flottan sprett á 15 mínútu eftir hornspyrnu Stoke, hljóp upp allann hægri kantinn en átti slaka sendingu á Sturridge sem kom á fjær.

Shaqiri var eins og oft áður mótorinn í þessu Stoke liði. Það var einmitt eftir aukaspyrnu frá honum á 21 mínútu sem að Bojan jafnaði 1-1. Einhver gleymdi sér algjörlega í dekkningunni og þar að auki spilaði Toure hann réttstæðan. Alveg typical Liverpool mark.

Ojo átti frábæran sprett á 31 mínútu, strákurinn sólaði Shaqiri upp úr skónum og sendi líka þennan frábæra bolta á Sturridge sem skallaði í netið, 2-1.

Títt nefndur Shaqiri átti aðra aukaspyrnu á svipuðum stað og markið kom upp úr, að þessu sinni var það Shawcross sem skallaði en boltinn fór rétt framhjá.

Ojo átti svo síðasta færið í fyrri hálfleik, lék á leikmann Stoke og hótaði skoti rétt fyrir utan teig en var heldur seinn að skjóta. 2-1 í ágætum fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur

Origi kom inn á í síðari hálfleik í stað Ojo, sem var líklega okkar einn besti maður í fyrri hálfleik. Hlýtur að hafa orðið fyrir einhverjum meiðslum strákurinn, annars er þetta skrítin skipting.

Liverpool fékk horn á 49 mínútu, Milner tók það stutt (eins og alltaf), fékk boltann aftur og sendi þá þennan fína bolta inn á Origi sem var aleinn á markteignum og skallaði í markið, 3-1! Þessi varnarvinna Stoke manna var eins og stolin úr kennslubók Liverpool FC um það hvernig á ekki að dekka leikmenn í föstum leikatriðum, en ég kvarta ekki, fínasta mark hjá Origi.

Stuttu síðar voru Stoke menn næstum búnir að minnka muninn eftir enn einn frían skalla eftir fast leikatriði. Liverpool átti stór góða sókn á 60 mínútu þegar Sturridge sendi frábæra hælsendingu á Moreno, sem kom í utan á hlaupið. Moreno átti svo fyrirgjöf á Origi sem skallaði rétt framhjá af markteig.

Firmino fór svo útaf á 63 mínútu og inn kom Lallana. Firmino átt marga betri leiki fyrir Liverpool en er enn að spila sig í gang eftir meiðslin, verður væntanlega í byrjunarliðinu gegn Dortmund n.k. fimmtudag.

Origi bætti svo við fjórða markinu mínútu síðar (´64). Origi fékk boltann úti vinstra megin, lék á Bardsley og sendi boltann fyrir markið (að mínu mati), Sturridge náði ekki til hans en boltinn var fastur og endaði alveg út við stöng. Frábært mark og Origi heldur betur að koma sterkur inn.

Lucas kom inn á 77 mínútu í stað Allen, sem átti fínan leik. Stoke var annars farið að leggjast á hliðina og sýna kviðinn og Liverpool landaði þessum sigri vel og örugglega, 4-1!

Maður leiksins

Frábær leikur hjá okkar mönnum. Stoke hafa verið öflugir undanfarið og komnir með fínasta lið. Að sigra þá þetta sannfærandi og spila samt á liði sem er langt frá því að vera okkar sterkasta lið er bara jákvætt. Margir sem áttu flottan leik í dag, Stewart, Allen og Milner stjórnuðu miðjunni vel, Milner með tvær stoðsendingar þar að auki. Ojo fannst mér mjög sprækur í fyrri hálfleik og Origi var frábæri í þeim síðari. Virkilega jákvætt að fá mörg frá Sturridge einnig, þurfti á því að halda.

Ég ætla að velja Origi sem mann leiksins þrátt fyrir að hann hafi eingöngu spilað 45 mínútur í dag. Hann átti flottan leik gegn Dortmund í vikunni og fylgdi því eftir með flottri innkomu. Hann er allt sem að Benteke er ekki, stór, sterkur, hraður, duglegur í pressu og allur af vilja gerður! Hann fær því mitt atkvæði í dag, skoraði tvö góð mörk og hefði auðveldlega getað sett þau amk þrjú.

Mjög jákvætt allt saman. Næst er það ROSALEGT fimmtudagskvöld!

33 Comments

  1. ATH! Tveir framherjar (einn með tvö) og vinstri bakvörður með mörkin. Hvenær gerðist það síðast?

    Einnig, fyrirgjöfin hjá Ojo minnti mig á Suarez – hlýnaði að innan

  2. Afskaplega sáttur með sigurinn. Vona að Ojo hafi ekki verið tekinn út af vegna meiðsla.

    Að öðru: ánægjulegt að Tottenham skuli hafa verið að skora gegn United. Það er nauðsynlegt að Leicester fái einhverja keppni um titilinn (þetta var setning sem ég hélt ég myndi aldrei þurfa að skrifa).

  3. Flottur sigur. Af því sem ég sá af leiknum fannst mér Sturridge koma sterkastur út. Hann hefur ótrúlega mikil áhrif á leiki þegar hann er á tánum og það sást í þessum leik, einkum í seinna marki Origi. Vel hann sem mann leiksins – þó ekki væri nema fyrir það að vera enn óskaddaður (7,9,13)

  4. Flottur sigur gegn vel mönnuðu Stoke liðið.
    Origi að stimpla sig vel inn.
    Sturridge og Origi gætu orðið flottir saman frami.
    Flott að hvíla menn og samt standa sig svona.

    Vill samt bara minná á einn leikmann Clyne.
    Undanfarinn ár hefur leitinn af hægri bakverði verið skrautleg. Glen Johnson kom vel inní lið liverpool á sínum tíma en var fljótur niður aftur á jörðina með skelfilegum varnarleik trekk í trekk og minna fór fyrir styrkleika hans sem var sóknarleikur með hverju árinu. Hann glímdi við sín meiðsli og hafði Liverpool prófað nokkra hægri bakkverði og fór sú veisla í algjört bull á síðustu leiktíð þar sem Flannagan var meiddur og menn eins og Kolo Toure og E.Can voru að spila þessa stöðu.

    En núna held ég bara að við séum búnir að finna flottan hægri bakvörð. Hann er kannski ekki sá besti í heimi en hann er fljótur, fín í vörn og fín í sókn og verður án efa bara betri með því að spila undir Klopp.

    Vill svo benda á það að Liverpool er með 48 stig eftir 31 leik og Man utd 52 eftir 32 leiki(gefum okkur það að þeir tapi fyrir Spurs, eru 0-3 undir) svo að það væri ekki leiðinlegt að reyna að enda fyrir ofan þá og jafnvel ná þessu Evrópusæti sem er í boði.
    Menn mega segja ljóta hlutu um Evrópudeildinna en tímabilið í ár held ég að sýni okkur afhverju þetta er skemmtileg deild sem getur skapað fullt af frábærum minningum(snilld að slá út Man utd sanfærandi og að ná flottu jafntefli í þýskalandi.

  5. Origi klárlega maður leiksins. Sturridge var góður en finnst ennþá að hann sé ekki alveg kominn í gírinn.

    Stewart byrjaði ekkert sérstaklega vel en náði sér á strik eftir því sem leið á leikinn. Enginn draumleikur en ekkert til að kvarta yfir.

    Ojo átti flottan stoddara en annars fannst mér hann ekki góður í leiknum. Átti alveg slatta af feilum og fannst hann bara ekki alveg í takt við leikinn. Hann og Skrtel eiga síðan sök á þessu marki sem við fengum á okkur. Maður dæmir hann nú samt ekki of hart eftir fyrsta leik í deild þegar hann á stoðsendingu og það verður gaman að sjá hann á næsta tímabili.

  6. Álit mitt á Joe Allen vex í samræmi við hárið á honum.

    Er þetta tímapunkturinn þar sem við förum í gamla frasa og segjum að næsta season verður okkar season?

    Ég er allavega jákvæður 🙂

  7. stoke var djok i þessum leik. eins og þeir væru a bunir ad missa modin. en vid erum a jakvædum notum og munum enda timabilid vel.

  8. góður leikur en ég skil samt ekki alveg þessi gagnrýni Ojo skiptinguna jú hann gerði mjög vel í markinu og mjög efnilegur leikmaður en þetta var taktískt skipting sem virkaði mjög vel.

  9. Frábær sigur gegn mjög sterku liði. Greinilegt að sjálfstraustið eykst með hverjum leik og andlega hliðin er á uppleið. Vel Milner maraþonhlaupara á miðjunni sem mann leiksins en margir aðrir léku stórvel, reyndar nánast allir. Meira að segja Skrtel skorðaði ekki sjálfsmark eða gaf mark á einhvern klaufalegan hátt eins og hann er svo vanur að gera. Origi er orðinn hörku leikmaður og vinnur vel með með flestum öðrum sem eru framarlega á vellinum. Flott að hafa ferska menn frammi og framarlega á miðjunni í Origi, Firmino, Sturridge, Couthino og Lallana. Allir geta þeir skorað og lagt upp mörk. Og vonandi verða þeir alllir gráðugir í markaskorun á næstunni, þá eru allir vegir færir og gegn hverjum sem er.

  10. Líka merkilegt að sjá að nánast öll leikmannakaupin sem við gerðum 14-15 eru byrjuð að sanna sig núna. Þetta þótti skelfilegt sumarkaup á þeim tíma en menn eins og Lallana, Lovren, Origi, Emre Can hafa verið mjög góðir undanfarið og sömuleiðis skoraði Moreno fínt mark í dag.

  11. Sammála því sem Jan Martin segir. Þess vegna er alveg spurning um að fólk bíði með að dæma síðasta sumarglugga þangað til eftir svona ár. Mann svosem grunar í hvað stefni, og að Benteke verði stærsta “casualty”-ið úr þeim glugga. Hver veit, kannski smellur eitthvað og hann hrekkur í gang.

  12. Frábærlega spilað lengst af og einkar sannfærandi sigur.

    Joe Allen var frábær, hann stjórnaði tempoinu í leiknum nánst einn síns liðs með góðri ákvarðanatöku (og er fljótari að snúa og skila boltanum áfram en bæði Henderson og Can; flæðið í gegnum miðjuna er oft með hægara móti þegar þeir eru báðir þar). Væri að mínu mati glórulaust að láta hann fara í sumar, sérstaklega ef hann er til í að vera squad player. Reikna algjörlega með Can, Milner og Allen á miðjunni gegn Dortmund.

    Moreno gerði fleira gott en að skora markið og var þetta að mínu mati einn besti leikur hans í rauðu treyjunni. Var ákveðinn gegn Shaqiri og stoppaði nokkra krossa.

    En auðvitað gleður mann einna mest að Origi sé að sýna hvað í honum býr. Þessi strákur verður 21 árs í þessum mánuði! Þvílíkt efni sem við eigum í honum.

    Bring on Dortmund! 🙂

  13. Joe Allen og Origi deila manni leiksins hjá mér. Ojo átti fína spretti en einsog Stewart tæpur á köflum. Skil skiptinguna vel út frá því sjónarhorni, að vera bara einu yfir í hálfleik og til að verja hann fyrir tæklingum. Flottur leikur og mikilvægt að geta róterað mannskapnum svona. Sjáumst á fimmtudaginn.

  14. Joe Allen, mikið er gaman hvað hann er orðinn góður leikmaður. Selja hann? Nei takk

  15. Klopp vildi sérstaklega tala um Sturridge á blaðamannafundinum eftir leikinn. Hvað hann hefði verið góður og talað Ojo í gegnum óöryggið.

  16. Sælir félagar

    Liðið okker spilaði eins og maður er búinn að bíða eftir að það gerði í tvö til þrju misseri. Af öryggi og festu en líka af ákefð og krafti. Það er sá andi sem fylgir liðum sem eru sterk andlega og líkamlega. Draugurinn sem við höfum hræðst eftir fimmtudagsleiki var kveðinn niður á þriggja álna dýpi og vonandi gengur hann ekki aftur.

    Sjálfstraust liðsins er loksins sjáanlegt og öll holningin á liðinu sýndi að það mætir inn á völlinn til að vinna leiki en ekki til að berjast fyrir því að tapa ekki a la Brendan Rodgers. Sá maður sem breytti þessu er maður þessa leiks hvað sem frammistöðu einstakra leikmanna líður. Þessi maður er Jurgen Klopp, minn maður þessa leiks og minn maður þessarar leiktíðar.

    Það er nú þannig

    YNWA

  17. 17 athugasemdir í mjög góðum sigri á erfiðu Stoke liði eru bara neikvæðir stuðningsmenn að skrifa hér á síðunni!!!Skandall!!!!

  18. Flottur sigur og síst of stór , var mjög ánægur með Allen og gaman að sjá Ojo í liðinu en innkoma origi var alveg mögnuð og sá er að spila vel þessa dagana sem er gott !!
    Klopp var alveg með þetta í dag eins og hann sagði í viðtali eftir leik að hann vildi fá ferska fætur inná í dag og hann fann réttu blönduna til að berjast í dag gegn Stoke , sem geta verið erfiðir.

    Flott 3 stig !!

  19. Frábær sigur. Origi og Sturrigde mjög góðir saman. Tómas, skrifast fáar athugasemdir ekki á árshátíðarþynnku hjá hörðum stuðningsmönnum Liverpool. Skildist að það hafi verið mikið fjör í gærkvöldi 🙂

  20. Flottur sigur og það eftir evrópuleik úti. Ánægður með Ojo og Stewart,svo voru sturridge og origi flottir og Allen,clyne og Moreno, líka Milner, bara flott liðsheild. Það hvernig Ojo fór framhjá shaqiri þegar hann lagði upp markið, úff hvað það er æðislegt 🙂

  21. friggi #9…..gegn mjog sterku lidi!!!!! hallo,hallo! stoke er bara alls ekki mjog sterkt lid. bara alls ekki. sterkir etv framan af en uthaldid buid hja þeim. hvar er stori austurrikismadurinn Aurnowitz…..eda hvad sem sa godi madur heitir?
    Crouch greyjid er bara hlaupandi beinagrind tennur. og kalli adams er tyndur. stoke er ruslakista deildarinnar og sparky er ruslakall.

  22. Sæl öll.

    Ég vaknaði í morgun og þurfti að klípa mig í handlegginn til að vera viss um að mig væri ekki að dreyma.Síðastliðin vika frá fimmtudeginum hefur nefnilega verið of góð til að geta verið að gerast. Að ná jafntefli gegn Dortmund á útivelli ….fara á flottustu Liverpool árshátið ever og horfa svo á strákana rústa Stoke, nú þori ég varla að hugsa til fimmtudagsins þegar við spilum við Dortmund heima hvað gerist þá? Það virðist eitthvað vera að gerast þarna hjá liðinu okkar og gleðin skín af þeim alla daga og þeir mæta mótlæti með bros á vör. Eins og ég hef áður sagt þá var Klopp ekki mitt fyrsta val sem þjálfari en boy o boy hvað hann hefur sýnt mér að ég hafði rangt fyrir mér.

    Persónulega finnst mér Emre Can vera einn af bestu leikmönnum liðsins og ég væri til í að sjá hann með fyrirliðabandið hann er bara einhvern vegin þannig leikmaður að hann stjórnar þegar hann er inni á.

    Kæru félagar þvílík gleði að vera Poolari núna…það er það reyndar alltaf en núna er það bara dásamlegt.

    YNWA

  23. Mjög svo góður sigur og verðskuldaður. Hef bullandi trú á að við séum bara að stefna upp á við undir stjórn Klopps. Þessi leikur á fimmtudaginn verður eitthvað!

  24. Maður sér hvað Origi er fókusaður. Þrátt fyrir að skora tvö mörk að þá reyndi hann að halda leikskipulagi í stað þess að rembast við að skora þrennuna sem hann hefði auðveldlega geta gert.

  25. Origi var stórkostlegur með belgunum á síðasta HM og maður var hrikalega spenntur þegar það fréttist að hann væri orðin liðsmaður LFC. Þessi gutti sem hélt Lukaku á bekknum. Síðan var eins og hann ætlaði að verða að engu á þessum lánsdíl hjá Lille og ekki var maður neitt sérstaklega hrifinn af byrjuninni á LFC ferlinum. En svo kom Klopp. Og þvílíkar breytingar á hugarfari og sjálfsöryggi hjá drengnum. Þessi strákur er sterkur, fljótur og mjög teknískur og mun með þessu áframhaldi verða algert LFC legend !

  26. Ég hef heyrt kvitt frá kunningjum mínum í Liverpool að Klopp ekki ánægður með hugafar Ibe og hvernig hann er að nýta sjensana sína. Nú eru blöðin að taka um að Ibe sé brjálaður eftir að hafa ekki verið í hóp í gær og meðal annars er hann búinn að þurrka allt sem tengist Liverpool út af twitter og instagram aðgangi sínum.

    Hann verður mögulega seldur í sumar.

  27. Ef Ibe slúður er rétt þá er hann að bregðast kolvitlaust við brekkunni.
    Margir í hópnum okkar hafa sett undir sig hausinn og hamast bara meira þegar þeir detta aftar í röðina og reynt að vera tilbúnir þegar kallið kemur.
    Allen er frábært dæmi og fyrirmynd. Origi bætti við sig 5 kílóum af vöðvum og ætlar sér alla leið.
    Ibe setti hausinn niður í bringu og sýndi alltaf skelfilegri leik með hverjum sjénsinum.
    Ef hann ætlar að púlla þetta svona þá fer hann einfaldlega með fyrstu skipum í vor.
    En hvað vitum við svosem 😀
    YNWA

  28. Ég myndi ekki lesa of mikið í þetta Ibe dæmi, hann hefur ekki twittað í næstum ár þannnig að þetta er greinilega ekki forgangs atriði hjá honum.

  29. Gott að keyra svona fram og til baka yfir Stoke. Það er svosem ekkert nýtt að vinna Stoke en það hefur ekki alltaf verið svona auðvelt. Allt greinilega á réttri leið, sóknin að virka, miðjan örugg og vörnin gerir færri mistök heldur en framan af vetri. Og kannski eitt sem aldrei er ofmetið, Mignolet ver flesta bolta sem hann á að gera og jafnvel á góðum dögum meira en það. En hvað segir þjálfari Dortmund; keyra á miðverðina því þeir séu slakasti hluti liðsins. Þessu er ég fullkomlega sammála og leiðist ekki að tala um að leit númer eitt að nýjum leikmanni á að vera í miðverði. Eftir fíflaganginn og oflátungsháttinn í Lovren með Króatíska landsliðnu þá vill ég ekki sjá hann í liðinu og því burt með hann. Við höfum verið með alltof marga leikmenn sem hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig og því best að losna við þá sem fyrst áður en þeir smita útfrá sér. Þetta eru skemmd epli eins og Balotelli bjálfinn sýndi svo sannarlega og rændi ábyggilega mörgum stigum af liðinu með eintómri eiginhagsmunasemi. Ferguson losaði sig alltaf við leikmennina sem hann taldi að gætu skemmt fyrir Man Utd á sínum tíma. Þau vinnubrögð voru til fyrirmyndar fyrir klúbbinn og skiluðu sér í endalaust góðum árangri þrátt fyrir að ótal mörg ár hafi liðið verið langt frá því að vera með besta mannskapinn. Nú þarf Klopp að hugsa hvaða leikmenn passa og hverjir ekki en vonandi verður ekki brunaútasala í sumar.

Liðið gegn Stoke, Ojo byrjar!

Dortmund á Anfield! Einhver spenntur?