Liverpool mætir Stoke á morgun

Á sunnudaginn mætast Liverpool og Stoke City – enn einu sinni í vetur, liðin hafa mæst þrisvar sinnum áður til þessa. Einu sinni í deildinni og í tveimur leikjum í undanúrslitum Deildarbikarsins. Liverpool vann tvo af þessum leikjum en “tapaði” í venjulegum leiktíma í seinni undanúrslitaleiknum en Liverpool komst áfram eftir vítaspyrnukeppni.

Leikir liðana í vetur hafa allir endað 1-0 og leikirnir að mig minnir ekkert stórfengleg skemmtun og ef ég ætti að giska þá myndi ég tippa á að leikurinn á sunnudaginn verði með nokkuð svipuðu sniði. Fín barátta beggja liða en ekkert sérstaklega opnir leikir með mikið af færum. Sjáum hvað setur, það verður margt forvitnilegt sem við gætum séð í þessum leik.

Á fimmtudaginn gerði Liverpool jafntefli á útivelli gegn Dortmund í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í mjög góðum leik af hálfu Liverpool. Varnarleikurinn var mjög góður – leit á köflum nokkuð tilviljunakenndur og “chaotic” en var rosalega effektívur, liðið skapaði nokkuð mjög góð færi og þess háttar. Margt jákvætt sem má taka úr þeim leik og Liverpool í góðum séns á að komast áfram. Staðan á tímabilinu er nokkurn veginn að hanga á þessu einvígi og staða Liverpool í deildinni er þannig að fjórða sætið er farið og nú snýst þetta um að enda sem hæst – klára með stolti og reyna að ná Evrópusæti. Nema liðið fari alla leið í Evrópudeildinni og það er held ég mesti fókusinn í dag.

Emre Can er í leikbanni í næstu tveimur deildarleikjum og Henderson er frá út leiktíðina eftir að hafa meiðst á hné gegn Dortmund svo það verður afar fróðlegt að sjá hvað Klopp hyggst gera varðandi miðjuna í þessum leik. Lucas er að koma til baka eftir meiðsli sem og Kevin Stewart en hvorugur hefur verið í hópnum undanfarið svo það er kannski ólíklegt að annar þeirra muni byrja. Stewart lék þó með u21 árs liðinu um daginn og gæti dottið inn í hópinn. Allen hlýtur að fá tækifæri og ætli Milner fari ekki meira á miðsvæðið – hver veit hvort Coutino fái tækifæri á miðjunni.

Það er spurning hvort einhverjir leikmenn muni fá hvíld eða verði hreinlega vafnir inn í bómull til að þeir verði klárir í seinni leikinn gegn Dortmund. Origi byrjaði frammi í síðasta leik og spurning hvort hann fái að halda sæti sínu eða hvort að Sturridge komi aftur í hópinn. Firmino sem kom inn á sem varamaður gegn Dortmund er nýkominn upp úr meiðslum og kemur líklega til með að spila eitthvað í leiknum til að brýna hnífa sína aðeins fyrir Evrópuleikinn.

Ég efast um að Klopp fari að taka upp á því að gefa deildina alveg upp á bátinn og muni koma til með að stilla upp varaliðinu eins og það leggur sig en leikmenn eins og Coutinho, Clyne, Moreno og einhverjir álíka, sem leikið hafa mikið af mínútum í vetur, gætu alveg fengið smá hvíld á næstunni og aðrir leikmenn fái einhver tækifæri. Ég vona að við fáum að sjá einhverja af þessum allra efnilegustu unglingum félagsins fá einhverjar mínútur það sem eftir líður leiktíðar og leikurinn á sunnudaginn er kjörið tækifæri til að gefa strákum eins og Brannagan, Rossiter, Ibe, Ojo, Smith og fleirum tækifæri.

Það eru margir leikmenn sem hafa verið meiddir hjá Stoke en töluverður fjöldi þeirra gæti komið til baka í tæka tíð fyrir leikinn gegn Liverpool – en ekki hvað? Glen Johnson, Shaqiri, Cameron, Shawcross, Whelan og Arnautovic hafa allir verið meiddir en gætu verið klárir í tæka tíð.

Stoke eru sem stendur tveimur stigum fyrir ofan Liverpool en Liverpool á tvo leiki til góða og er það enn mikilvægt fyrir Liverpool að enda tímabilið af krafti svo sigur á heimavelli gegn Stoke um helgina gæti vonandi ýtt af stað skriðu góðra úrslita og frammistaða út leiktíðina.

Það er afar erfitt að spá fyrir um hvernig liðið verður á sunnudaginn, held það verði enn nokkuð sterkt en nokkrar stöður eru augljóslega opnar fyrir ákveðna leikmenn til að freista þess að vinna sig inn í liðið. Ég ætla að gera heiðarlega tilraun til að giska.

Mignolet

Flanagan – Lovren – Sakho – Moreno

Lallana – Allen – Milner

Firmino – Sturridge – Coutinho

Þetta verður vonandi góður leikur og ég held að Liverpool muni vera sterkari aðilinn og líklega koma til með að vinna leikinn. Vonandi gefur það tóninn fyrir stórleikinn á fimmtudaginn.

4 Comments

  1. Nú fer heldur að reyna á Klopp. Hvernig stillir hannn upp liðinu með nokkra nýstigna úr meiðslum, einn af þremur bestu í vetur í leikbanni og Henderson meiddur. Ef liðið verður eins og þú giskar á Ólafur þá merkir það fullt gas í þennan leik. Ég ætla að giska á að annaðhvort Coutinho eða Lallana byrji á bekknum en sennilega er það vitleysa hjá mér. Sturridge ætti að vera nokkuð frískur núna og því held ég að keyrt verði á honum eins og hann þolir í næstu leikjum. Það þarf líka að skora mörk. Gott að fá Lucas til baka, held að það sé góður mórall í kringum hann og svo er hann sterkur í að halda á vatnsbrúsunum.
    Liverpool situr nú í 9. sæti en svo neðarlega hefur liðið aldrei endað að vori eftir að það komst upp í efstu deild í sjöunda áratug síðustu aldar. Athugum það kæru stuðningsmenn. Svo það er eins gott að sigra þennan leik.

  2. Giska á sama lið nema að Stewart verði í stöðunni sem þú settir Lallana í og að Lallana spili í stöðu Firmino sem verður á bekknum.

  3. Hvað er að fretta með Schmeichel, af hverju er ekki verið að orða hann við felög? Myndi hafa hann frekar heldur en Joe Hart hvað þá Mignolet.

    Koma svo Liverpool!…kominn timi á sigur

Bruce Grobbelaar áritar í Jóa Útherja

Liðið gegn Stoke, Ojo byrjar!