Dortmund á morgun – Upphitun 3/3

Kosturinn við að fá Dortmund á þessu tímabili í Evrópudeildinni er að þjálfarateymi Liverpool þekkir lið Dortmund töluvert betur en lið Liverpool. Ókosturinn við að fá Dortmund er hinsvegar sá að á sjö árum byggðu þeir Klopp, Buvac og Krawietz þetta Dortmund lið upp og mótuðu innan sem utan vallar.

Jurgen Klopp hefur ásamt Buvac og Krawietz byggt upp tvö félög nánast alveg frá grunni og skilið við bæði í miklu heilsusamlegra ástandi en því sem þeir tóku við. Meðalaldur leikmanna miklu lægri og staða beggja félaga innan sem utanvallar gjörbreytt til hins betra.

Þrátt fyrir alla velgengni þeirra hjá Dortmund er árangurinn hjá Mainz jafnvel ennþá merkilegri. Klopp tók 33 ára við Mainz eftir að hafa spilað með félaginu í 11 ár. Liðið hafði aldrei í 100 ára sögu sinni komist í efstu deild. Það tókst þeim strax á þriðja tímabili Klopp og eru þeir núna langt komnir með að festa sig í sessi sem Úvalsdeildarklúbbur. Þetta er auðvitað ekki Klopp einum að þakka, hann meira að segja skildi við liðið í 2.deild en var þá búinn að leggja gríðarlega góðan grunn sem næsti stjóri gat byggt ofan á. Þetta var svipað hjá Dortmund, Klopp skildi við liðið í 7.sæti sem er ekkert mikið betra en þegar hann tók við því en hópurinn var miklu betri en sá sem hann tók við árið 2008. Bæði lið stóðu líka miklu betur fjárhagslega eftir margra ára velgengni undir stjórn Klopps og ótrúlegs árangurs hans á leikmannamarkaðnum. Þetta tók ég mun betur saman er Klopp var ráðinn stjóri Liverpool.

Thomas Tuchel

Klopp skilaði eins og áður segir af sér góðu búi hjá bæði Mainz og Dortmund en sami maðurinn hefur notið góðs af þessu því Thomas Tuchel tók 36 ára við Mainz er Klopp fór þaðan og endurtók leikinn hjá Dortmund síðasta sumar.

007 klopp tuchel

Þar er á ferðinni einn efnilegasti þjálfari í heiminum og (m.v. söguna) framtíðarstjóri Liverpool. Hann kom Mainz strax upp í efstu deild og hafa þeir verið þar síðan og ekki einu sinni lent í fallbaráttu. Það er ekki hægt að þakka Klopp allt sem Thomas Tuchel gerði hjá Mainz þó vissulega hafi Klopp lagt grunninn fyrir hann.

Hjá Dortmund virðist sagan vera að endurtaka sig því allt annað er að sjá til Dortmund í ár en á síðasta tímabili er liðið var lengi vel í fallbaráttu. Gleymum þó ekki að fyrir áramót voru meiðslavandræði liðsins jafnvel verri en Liverpool hefur lent í á þessu tímabili, eitthvað sem hefur ekki verið að hrjá þá í vetur.

Lið Dortmund

Liðið er það langnæstbesta í Þýskalandi í vetur á eftir FC Bayern en fimm stig skilja liðin af á toppi deildarinnar. Dortmund er satt best að segja í ógnvekjandi góðu formi núna eftir vetrarfrí. Þeir hafa spilað 14 leiki í deild og Evrópudeild og unnið 12 þeirra og gert tvö jafntefli, annað þeirra gegn FC Bayern. Tottenham og Porto hafa þeir unnið bæði heima og heiman í Evrópudeildinni. Síðsta tap Dortmund var gegn Köln í síðustu umferðinni fyrir vetrarfrí, þann 19 desember.

Þessa færslu langar mig að nota til að skoða þennan hóp sem Klopp skildi eftir sig hjá Dortmund. Af öllum liðum sem Liverpool mætir í vetur langar mig mest að kynna mér lið Dortmund enda gæti það gefið vísbendingar um það sem koma skal hjá Liverpool í næstu leikmannagluggum.

Markmaður
Ein stærsta breyting Tuchel á liði Dortmund í sumar var að kaupa nýjan markmann í stað Roman Weidenfeller sem varið hefur mark Dortmund frá 2002 og spilað 430 leiki fyrir félagið. Dortmund er ekki að horfa á nafnið þegar þeir kaupa leikmenn og keyptu 25 ára Svisslending, Roman Bürki. Hann var hjá Freiburg á síðasta tímabili en þar áður hjá Grashopper í heimalandinu þar sem hann spilaði 110 leiki. Bókstaflega að sjá þetta nafn í fyrsta skipti er ég fór að kynna mér lið Dortmund en hann veitir Yann Sommer harða samkeppni um markmannsstöðuna í Svissneska landsliðinu. Hinn 35 ára Roman Weidenfeller spilar engu a síður Evrópuleikina á þessu tímabili og verður að öllu óbreyttu í rammanum gegn Liverpool.

Vörn
Pólski hægri bakvörðurinn Lukasz Piszczek hefur verið að spila undanfarið. Þessi þrítugi leikmaður kom frítt frá Herta Berlín árið 2010 og var lykilmaður hjá Klopp.

Hinn 23 árs gamli Erik Durm hefur verið að spila vinstra megin að undanförnu en heilt yfir tímabilið hefur Marcel Schmelzer verið vinstri bakvörður. Schmelzer sem er 28 ára er uppalinn hjá Dortmund og er einn af þeim sem Klopp tók inn í aðalliðið þegar hann tók við árið 2008. Lykilmaður hjá Klopp og hefur spilað meirihluta leikja Dortmund í vetur. Durm kom til Dortmund frá varaliði Mainz árið 2012 og spilaði eitt ár með varaliði Dortmund í 3.deild. Klopp tók hann inn í aðalliðshópinn árið 2013. Hann þekkir því báða stjóra mjög vel.

Fyrirliði Dortmund í dag og hjartað í vörninni er hinn 27 ára gamli Mats Hummels. Klopp fékk hann á láni frá FC Bayern á sínu fyrsta tímabili og setti beint í liðið, þá 20 ára. Árið eftir gekk hann til liðs við Dortmund fyrir €4m. Hann er talinn vera einn besti miðvörður í heimi dag og lykilmaður í landsliði Þjóðverja.

Fyrirliði Dortmund og hjartað í vörninni, myndin segir það sem þarf um hversu góður leikmaður hann er.
Fyrirliði Dortmund og hjartað í vörninni, myndin segir það sem þarf um hversu góður leikmaður hann er.

Sven Bender hefur verið að spila við hlið Hummels undanfarið. Hann er reyndar djúpur miðjumaður að upplagi og óvíst hvort hann spili áfram í vörninni gegn Liverpool. Bender er 26 ára uppalinn hjá 1860 München en kom til Dortmund árið 2009, þá 20 ára og fór beint í liðið hjá Klopp.

Aðrir möguleikar í vörninni eru Sokratis Papastathopoulos sem kom sumarið 2013 á €9.5m frá Werder Bremen. Hann er í dag 27 ára og var lykilmaður hjá Klopp. Eins er Neven Subotic ennþá hjá Dortmund. Hann var meiddur í byrjun tímabilsins og hefur ekki náð að vinna sig inn í liðið í vetur. Stórundarleg staða hjá Subotic sem er ennþá aðeins 27 ára. Hann kom með Klopp frá Mainz og fór beint í byrjunarliðið aðeins 20 ára og hefur verið lykilmaður þar síðan við hlið Hummels og var lengi vel talinn stærra nafnið af þeim félögum.

Til að kóróna breiddina hjá Dortmund eiga þeir einnig hinn 22 ára Matthias Ginter, sá strákur hefur spilað hvað mest allra leikmanna Dortmund í vetur. Hann kom frá Freiburg fyrir síðasta tímabil og þykir gríðarlegt efni, hann á nú þegar 9 landsleiki með Þjóðverjum og 25 unglingalandsliðs leiki.

Miðjan
Umferðarstjórinn á miðjunni er Ilkay Gündogan, leikmaður sem er uppalinn hjá Bochum (10 km frá Dortmund). Klopp keypti hann frá Nurnberg á €4m árið 2011. Þessum 21 árs gamla leikmanni var ætlað að fylla skarð Nuri Sahin sem fór þá um sumarið til Real Madríd. Þeir eru báðir á mála hjá Dortmund í dag og Gündogan lykilmaður. Sahin hefur átt erfitt uppdráttar alveg síðan hann yfirgaf Dortmund en er nýstigin upp úr meiðslum.

Ilkay Gündogan er einn besti miðjumaður í heimi í dag.
Ilkay Gündogan er einn besti miðjumaður í heimi í dag.

Að öllum líkindum verður hinn 20 ára gamli Julian Weigl á miðjunni með Gündogan. Þar er á ferðinni enn eitt undrabarnið sem Dortmund kaupir í kringum tvítugt og setur beint í liðið. Þessi kom þó síðasta sumar og hefur bara spilað fyrir Tuchel á tíma sínum í Dortmund. Weigl var keyptur frá 1860 Munich en þar var hann 18 ára gerður að fyrirliða liðsins og er hann yngsti fyrirliði 1860 frá upphafi. Hann fór stórkostlega með það mikla ábyrgðarhlutverk því eftir annan leik tímabilsins sást hann fullur ásamt þremur liðsfélögum sínum þar sem þeir voru að tala illa um klúbbinn. Hann var í kjölfarið settur í varaliðið og bandið jafnframt tekið af honum.

Gonzalo Castro verður líklega með þeim á miðjunni en hann kom fyrir þetta tímabil frá Bayern Leverkusen. 28 ára miðjumaður sem á tæplega 300 leiki að baki með Leverkusen.

Annar möguleiki er Shinji Kagawa en hann hefur fengið töluverðan spilatíma í vetur. Hann kom 21 árs frá Japan og varð strax algjör lykilmaður hjá Klopp. Hann fór árið 2012 eftir að hafa verið valinn leikmaður tímabilsins í Þýskalandi en náði sér ekki á strik þar og fór aftur heim til Dortmund árið 2014.

Nuri Sahin var besti leikmaður deildarinnar árið 2011, Kagawa árið 2012 og Götze var ein helsta stjarna liðsins árið 2013. Allir fóru þeir í kjölfarið á háar fjárhæðir og enginn þeirra hefur verið meira en skugginn af sjálfum sér síðan. Árið 2014 fór Lewandowski, enn eitt árið sem aðalstjarna liðsins fer og líklega er hann sá eini sem hefur haldið áfram að bæta sig eftir að hafa yfirgefið Dortmund.

Sóknarmenn
Ef að vörnin var góð og miðjan líka þá er sóknin bara svindl.

Sóknarlína er bönnuð yngri en 18 ára, rosaleg!
Sóknarlína er bönnuð yngri en 18 ára, rosaleg!

Henrikh Mkhitaryan er að sýna það í vetur hversu hrikalega svekkjandi það var að ná ekki að landa honum til Liverpool. Hann er langdýrasti leikmaður í sögu Dortmund og kostaði þá €27.5m sumarið 2013. Síðan þá hefur Liverpool t.a.m. borgað meira fyrir Lallana og Benteke. Mkhitaryan er reyndar ekki striker heldur meira í holunni fyrir aftan eða í frekar frjálsu hlutverki í mjög flæðandi sóknarlínu. Hann var reyndar í aðdraganda þessa leiks ekkert að bera Klopp of vel söguna enda átti hann frekar erfitt uppdráttar undir hans stjórn. Núna í vetur hefur hann hinsvegar blómstrað og skorða 20 mörk í öllum keppnum og lagt annað eins upp. Hann er með öðrum orðum gjörsamlega á eldi en engu að síður bara í þriðja sæti yfir þá leikmenn Dortmund sem maður óttast mest.

Það er ekki tilviljun að stuðningsmenn Liverpool hafa í nokkur ár heimtað að félagið kaupi Marco Reus. Hann er loksins loksins að koma á Anfield en því miður til að spila fyrir andstæðinginn. Hann er uppalin í Dortmund og var þar til 2006. Atvinnumannaferilinn hóf hann 20 ára hjá Borussia Mönchengladbach og var þar til 2012 er hann fór aftur heim til Dortmund fyrir €17.1m. Hann er að skila um og yfir 20 mörkum í öllum keppnum a hverju tímabili og er jafnfram lykilmaður í landsliði Þjóðverja. Hann var reyndar svo grátlega óhepppinn að missa af HM 2014 vegna meiðsla. Hann hefur spilað alla 10 Evrópudeildarleiki Dortmund í vetur og skorað í þeim 8 mörk.

Stuðningsmenn Liverpool reyndu ALLT í "Sign Reus" herferð sinni. Algjör sniild.
Stuðningsmenn Liverpool reyndu ALLT í “Sign Reus” herferð sinni. Algjör sniild.

Aðalmaðurinn í þessu liði um þessar mundir er hinsvegar rakettan Pierre-Emerick Aubameyang. Hann hefur verið gjörsamlega óstöðvandi. Hann kom sumarið 2013 eftir að hafa sprungið út hjá Saint-Étienne í Frakklandi. Hann hefur verið að vaxa jafnt og þétt hjá Dortmund, skoraði 25 mörk í fyrra en er komin með 35 mörk á þessu tímabili og apríl er bara rétt nýbyrjaður. Þar af eru 22 mörk í 25 deildarleikjum og 10 mörk í 12 Evrópuleikjum.

Þannig að ef við tökum þetta saman þá er Aubameyang með 35 mörk á þessu tímabili, Reus er með 19 mörk og Mkhitaryan er með 20 mörk. Þori ekki að athuga hvað þeir eru svo með af stoðsendingum líka. Þetta tríó er búið að skora samtals 74 mörk í vetur. Þá hef ég ekki ennþá minnst á André Ramos sem Klopp keypti sumarið 2014 og var ætlaði að fylla skarð Lewandowski. Hann hefur spilað slatta í vetur og er með 6 mörk sem er á pari við það sem sóknarmenn Liverpool hafa gert sl. tvö tímabil.

Svona til samanburðgar þá eru markahæstu leikmenn Liverpool þeir Coutinho og Firmino með 10 og 9 mörk! Einn leikmaður í helvítis liðinu hefur náð tveggja stafa tölu og það hafðist í síðasta leik!

Það er því alveg ljóst að Klopp skilur eftir sig ógnvekjandi gott lið í Dortmund. Þetta er hópurinn hjá þeim þrátt fyrir að missa t.d. Lewandowski og Götze undanfarin ár. Klopp sagði það bæði þegar Götze fór og eins þegar Lewandowski fór að það tæki tíma að fylla þeirra skörð en væri alveg hægt. Það gerði hann með Aubameyang og Mkhitaryan. Áður hafa t.d. Ilkay Gündogan og Reus fyllt skörð Sahin og Kagawa sem þá voru bestu leikmenn deildarinnar.

Auðvitað vona ég að Liverpool selji ekki sína bestu menn eins grimmt og Dortmund gerði undir stjórn Klopp, gleymum ekki að hann stökkbreytti rekstri félagsins með kænsku á leikmannamarkaðnum. En þetta sýnir manni að það er óþarfi að fara á taugum við sölu á eins og einum Raheem Sterling eða svo, ekki með Klopp við stýrið.


Ef að allir eru heilir er byrjunarlið Liverpool farið að segja sig að mestu stjálft, það er óvissa um eina stöðu og barátta fjögurra leikmanna um þá stöðu.

Einhvernvegin svona spái ég liði Dortmund og svona vill ég hafa lið Liverpool í þessum leik.
012
Hef ekki hugmynd um standið á leikmönnum Dortmund og veit ekki annað en að þessir 11 séu klárir í slaginn. Þeir eiga eins og áður segir breiðan og góðan hóp.

Hjá Liverpool er engin óvissa um markmanninn, vörnin ætti að segja sig sjálf orðið ef allir eru heilir. Eins er öruggt að Can og Henderson verði á miðjunni. James Milner verður að öllum líkindum þarna líka þó ég hafi hann ekki á myndinni.

Lallana og Coutinho spila alla leiki þegar þeir eru heilir og því spurning hvort Sturridge eða Firmino víkur fyrir Milner. Firmino var meiddur í síðasta leik og er tæpur fyrir þennan og því liggur beinast við að hann byrji á bekknum. Eins er möguleiki að láta Origi byrja þennan leik enda ljóst að leikmenn Liverpool þurfa að vera í 100% standi og tilbúnir að hlaupa mjög mikið gegn Dortmund. Origi hefur snerpuna langt fram yfir Sturridge um þessar mundir og líklega vinnusemina einnig, ekki miklar líkur á því en á þeim forsendum gæti Origi tekið sæti Sturridge á fimmtudaginn.

Þetta einvígi verður vægast sagt erfitt og gríðarlegur prófsteinn á okkar lið í dag. Ég gæti trúað að þetta sé stærsta tækifæri núverandi leikmannahóps að sanna gildi sitt í liðinu fyrir Klopp, enda stutt í næsta leikmannaglugga.

Einvígið gæti orðið ennþá erfiðara ef okkar menn fara ekki varlega í fyrri leiknum því fimm leikmanna Liverpool eru á síðasta séns hvað fjölda gulra spjalda varðar. Coutinho og Firmino eru þar á meðal ásamt Clyne, Lovren og Moreno. Stuðullinn á að einhver ef ekki bara allir af því tríói fái spjald á morgun getur ekki verið mikið hærri en 1,10. Ekki ef þið skoðið sóknarlínu Dortmund.

Spá:
Maggi kom með góðan punkt í podcast þætti gærkvöldsins, manni leyst ekkert á blikuna heldur fyrir leikina gegn Juventus og AC Milan þegar skoðað var leikmannahópa liðanna árið 2005.

Munurinn á þessu liði Liverpool og liði Dortmund er ekki svo mikill en á móti er enganvegin sama sannfæring fyrir Liverpool í Evrópu og var vorið 2005. Liverpool hefur satt að segja ekki getað blautan skít í Evrópu á þessum áratug þá sjaldan að liðið hefur tekið þátt á þeim vettvangi, þetta tímabil er þ.m.t. Nánast eina góða einvígið var gegn United sem er auðvitað á mörkum þess að flokkast sem alvöru Evrópu einvígi.

Real Madríd var alvöru prófsteinn á síðasta tímabili og var heimaleikurinn Liverpool til skammar. Þetta einvígi gegn Dortmund er besti séns félagsins á þessum áratug á eftir Real Madríd leikjunum til að endurvekja trú stuðningsmanna Liverpool á liðinu í Evrópu. Vonandi fara þeir ekki eins illa með þetta tækifæri því góð úrslit gegn Dortmund gætu orðið kveikjan af einhverju stærra. Ekki bara á þessu tímabili heldur næstu árum.

Spá fyrir leikinn á Westfalen er 2-1 fyrir Dortmund. Ég er vægast sagt ekki bjartsýnn fyrir þetta einvígi og eins marks tap og mark á útivelli (frá Lallana) er eins langt og ég þori að fara. Einvígið væri þannig langt í frá búið því Liverpool getur unnið hvaða lið sem er á alvöru Evrópukvöldi á Anfield.

Góða skemmtun


Þar með er upphitun fyrir einvígið gegn Dortmund lokið.
– Hluta (1/3) má finna hér – Tengsl félaganna
– Hluta (2/3) má finna hér – Saga Dortmund, bæði borgarinnar og liðsins.
– Feril Jurgen Klopp og árin hans hjá Dortmund tók ég saman hér.
– Podcast #114 þátt má svo finna hér.

16 Comments

 1. Veit einhver hvar hægt er að horfa á leikinn í Rouen í Frakklandi?

 2. #1 Ég vill ekki lesa svona guðlast hérna í drottins vefsíðu, það er bara einn guð og hann heitir Fowler!!!

 3. Flott upphitun, vonast eftir fjörugum leik og spái 2-2 jafntefli. Sturridge og Firmino með mörkin. Langt síðan við höfum spilað við jafn gott lið og Dortmund, þannig það verður gaman að sjá hvernig liðið spreytir sig undir Klopp í stórleik í evrópu.

 4. Vitið þið um einhverja íslendinga sem verða á vellinum á morgun?

 5. Þið á kop.is erið bara algerir snillingar þvílík upphitun fyrir leikinn á móti Dortmund ég á bara ekki til orð.
  Takk kærlega þessi síða er algjör snilld.

 6. úff þetta verður hrikalega erfitt en eg klár a því að ef okkar menn klara þetta einvígi þá munum við klára þessa keppni og verða i meistaradeildinni í haust.

 7. Sæl og blessuð.

  Óttast það versta, auðvitað og lesturinn er hrollvekjandi. Reyndar er margt á huldu um rimmu þessara andstæðinga. Okkar menn eru með hælana við jaðar Látrabjargs sem með ritum, fýlum og lundum á sveimi og í hreiðrum. Ef þeim er ljós hættan sem því fylgir að standast ekki raunina er á öllu von. Að öðrum kosti fáum við óumbeðna kennslustund í markaskorun, sem mér líst engan vegin á.

 8. Ég verð eiginlega bara fúll ef að Daniel Sturridge byrjar ekki þennan leik. Einn af 2 leikmönnum okkar sem getur skorað upp úr þurru. (Coutinho)

  Divock Origi er duglegur, en ekki í sama sólkerfi og Sturridge hvað varðar knattspyrnugetu. Sturridge fyrir mér er einfaldlega í sama klassa og framherjar Dortmund, þrátt fyrir að hafa ekki verið eins beittur undanfarið og hann getur verið.

  Semsagt, Sturridge í byrjunarliðið og Milner í hægri bak (Clyne í vinstri, ég treysti ekki Moreno á móti liði sem getur sótt jafn hratt og BVB).

 9. Vá, eftir þennan lestur er maður hálft í hvoru, innspíreraður og skíthræddur við þetta lið. Það sem ég sé í þessu er að við erum í lægð meðan Dortmund keyrir á fullu gasi. Mannskapurinn sýnist mér vera það góður að þetta lið myndi fara langt með að vinna ensku deildina. Og þar af leiðandi mun betra lið en okkar. En allt getur gerst í fótbolta og ef heppnin er með þá getum við komist í gegnum þetta. En vá hvað manni finnst það samt eitthvað ólíklegt. Það var líka staðan í hálfleik í Istanbul 2005….

 10. Takk fyrir góðan pistil. Á von á skemmtilegum leik með nokkrum mörkum.

 11. Spái 0-1 fyrir okkar mönnum, óttast ekki þennan leik. Erum alltaf rétt gíra?ir fyrir stórleiki?

Kop.is Podcast #114

Liðið gegn Dortmund