Liverpool 1-1 Tottenham

Liverpool og Tottenham gerðu jafntefli í mjög líflegum og nokkuð skemmtilegum fótboltaleik í dag. Það mátti svo sem alveg reikna með skemmtun þegar liðin sem eru á mjög svipuðu kalíberi (já, ég veit hvernig staðan er í deildinni og allt það) og eru stýrð af þeim Pocchetino og Klopp.

Þetta var liðið sem Klopp stillti upp í dag. Það sterkasta sem við getum boðið upp á að minu mati fyrir utan auðvitað Firmino sem var ekki með í dag vegna meiðsla.

Mignolet

Clyne – Lovren – Sakho – Moreno

Henderson – Can – Milner

Coutinho – Sturridge – Lallana

Bekkur: Ward, Toure, Allen, Ibe, Origi, Skrtel, Smith

Leikurinn var spilaður af miklum hraða og krafti frá báðum liðum sem reyndu að pressa hitt liðið i kaf og sást það vel á sendingum beggja liða stærstan part leiksins. Mikið var um klúðraðar sendingar, ýmist vegna lélegra sendinga eða mjög góðrar pressu.

Byrjum á að tala um sóknarleikinn. Liverpool hefði getað, og hefði kannski átt að gera það, skorað nokkur mörkin í þessum leik. Liðið skapaði sér góð færi í leiknum og ef ekki hefði verið fyrir annað hvort lélegt skot eða góðar vörslur frá Lloris markverði Tottenham þá hefði Liverpool getað skorað eitt til þrjú mörk í viðbót.

Þrátt fyrir að hafa ekki náð að halda uppi almennilegu spili þá tókst Liverpool nokkuð oft að sundurspila vörn Tottenham, sem er öllu jafna frekar þétt og góð, og hefðu Sturridge, Lallana og Coutinho allir geta skorað mark til viðbótar í dag.

Liverpool komst yfir með afar góðu marki Coutinho sem átti frábært samspil við Daniel Sturridge. Vel gert frá þeim báðum og Brassinn er í miklum ham eftir að Klopp tók við og virðist vera að koma með smá stöðugleika í markaskorun sína sem er frábært.

Förum þá að tala um varnarleikinn sem var bæði mjög góður og alveg skelfilegur. Í fyrri hálfleik var hann heilt yfir mjög slakur og í raun nokkuð ótrúlegt að liðið hafi ekki fengið á sig mark – ef ekki hefði verið fyrir það að Lovren var í stuði í dag hefði Sakho (og Moreno og Can) getað kostað svona sjö mörk með ömurlegum sendingum, lélegum ákvörðunum og slaks varnarleiks. Nei án djóks, svona sjö mörk!

Lovren og Mignolet gerðu vel í að bjarga því sem bjarga varð. Can átti sínar rispur í að ná að vinna til baka og Henderson fannst mér mjög góður í því líka. Hápressan var nokkuð góð og liðinu gekk nokkuð vel að bjarga mistökum og vinna boltann til baka. Hlutirnir voru því bæði nokkuð fínir og ekki, það var samt frekar einstaklingsklúður í dag frekar en varnarleikurinn sjálfur svo það er jákvætt býst ég við.

Harry Kane jafnaði metin fyrir Tottenham með frábæru marki. Smá doði var í vörn Liverpool þegar þessi magnaði framherji skoraði markið. Það má kannski skrifa eitthvað á Lovren fyrir að vera ekki nógu nálægt honum en Harry Kane fær boltann í óþægilegri stöðu, með bakið í markið, á miklum hraða og Lovren lokar ágætlega á hann. Kane sýndi að hype-ið sem fylgdi honum er ekki bara tilviljun, það var hellingur sem hann átti eftir að gera áður en að boltinn fór í netið og hann gerði það frábærlega. Stundum er hægt að skamma varnarmenn fyrir að klúðra einhverju og stundum þarf að hrósa sóknarmönnum fyrir að gera vel – þetta var klárlega það seinna finnst mér.

Það var ekkert nýtt fannst mér sem við komumst að í þessum leik. Þetta var bara þetta same old sem við sjáum leik eftir leik. Liðið pressar vel, getur varist ágætlega, skapar færi (getur skorað en klúðrar líka of miklu) og það vantar meiri yfirvegun og stöðugleika í liðið til að geta séð út svona leiki. Margt jákvætt og eitthvað neikvætt í dag.

Glasið mitt er hálf fullt og ég er í nokkuð góðu skapi eitthvað þó að Liverpool hafi tapað niður þessari forystu. Þetta var jafn leikur, liðin á margan hátt mjög jöfn og svipuð svo jafntefli eru alls ekki ósanngjörn úrslit fyrir bæði lið.

Ágætis þolraun fyrir Dortmund sem er á fimmtudaginn í næstu viku. Vonandi verður Firmino klár og leikmenn verða tilbúnir í annan – og örugglega mikið erfiðari – slag en í dag.

21 Comments

 1. Skemmtilegur leikur! Nú vona ég svo innilega að Leicester nái að nýta sér þetta á morgun og nái sér í tveggja leikja buffer gagnvart Tottenham!

 2. Frábær leikur og góð skemmtun. Sá ekki betur en það væru gæði út um allan völl, ég er í það minnsta ánægður með mína menn. Auðvitað voru menn að gera mistök og stundum sló pumpan aðeins hraðar en að mínu viti þá hefði sigur í þessum leik átt að liggja okkar megin ef eitthvað er. Að menn skuli láta út úr sér að við hefðum ekki átt meira skilið er vægast sagt undarlegt en á sama hátt lýsir það vel almennri umræðu okkar Íslendinga en það er að rífa niður í staðinn fyrir að byggja upp 🙂 Vona að við höldum sama viljanum og dugnaðinum áfram í næstu leikjum og þá fáum við sigra, ekki spurning.
  YNWA

 3. Þetta var fjörugur leikur og góð skemmtun.

  Liverpool átti fínan leik í dag og fengu nokkur mjög góð færi til þess að skora en Tottenham eru með vel mannað lið og fengu líka sín færi.

  Besti maður liðsins í dag.
  Lovren – Hann átti frábæran leik , menn vilja tala um markið en þetta var einfaldlega frábær hreyfing hjá Kane. Annars var hann mjög örggur, vann skalla, tæklaði, blokka skot og las leikinn mjög vel.

  Aðrir góðir fannst mér vera.
  Coutinho eftir skelfilegan síðarihálfleik þá var hann mjög góður í þeim síðari.
  Henderson átti mjög fínan leik með dugnaði og vinnusemi. Eftir nokkra ekki merkilega leiki er gaman að sjá hann taka einn svona.
  Mignolet verður ekki sakaður um markið og varði nokkrum sinnum mjög vel.
  Lallana fannst mér vera frískur, vann boltan og skapaði oft usla með góðum hlaupum eða sendingum og var það aðeins snilldar markvarsla Loris sem kom í veg fyrir að hann skoraði ekki.

  Mér fannst Sakho skelfilegur í þessum leik en var þó skári í þeim síðari eftir að hafa verið lélegasti maður leiksins fyrstu 45 mín.
  Sturridge er greinilega ekki í 100% formi en átti nokkur góð tilþrif í leiknum en þau mættu vera fleiri. Svo skilur maður að menn eru fúlir að vera teknir af velli og hann sýndi það svo sannarlega svo um munar en kannski er það bara allt í lagi(Origi kom svo inná með smá kraft í restina).

  1-1 á móti Tottenham á heimavelli eru ekki úrslit sem við erum sáttir við en framistaðan var nokkuð góð heilt yfir, menn gáfu sig allan í verkefnið og liðið hefði einhvern tíman skorað fleirið mörk.

  Annars er glasið hálf fullt hjá mér og held ég að liðið sé á réttri leið undir Klopp og er allt annað að sjá liðið þegar það er með framherja í liðinu miða við þegar við vorum að spila Firminho eða Coutinho fremstum þegar allir voru meiddir.

 4. Var ágætlega sáttur við margt í leiknum sérstaklega baráttuna. En að leikmönnum.
  Mignolet fannst mér eiga flottan leik 7
  Clyne var stöðugur eins og vanalega 7
  Moreno átti ágæt hlaup framávið en hann gleymir sér alltof oft eins og þegar Son átti hlaupið innfyrir og Moreno var hvergi nálægt 6
  Sakho átti lélegan fyrri hálfleik og ágætan seinni hálfleik 6
  Lovren átti flottan leik fyrir utan markið og það er það sem reiknar hjá varnarmönnum 5
  Can átti hrikalega mikið af feilsendingum 5
  Milner ágætis leikur eins og vanalega ekkert hægt að kvarta yfir en ekkert sérstakt heldur 6
  Henderson bestur af miðjumonnunum 7
  Coutinho maður leiksins 8
  Lallana flottur leikur alltaf sívinnandi 7
  Sturridge hefði getað skorað mark en skapaði færi úr því sem hann hafði að vinna úr 7
  Varamenn breyttu engu hvorki betra né verra 6 á línuna þar.

 5. Alls ekki versta frammistaðan hjá okkar mönnum á þessu tímabil en ekki sú besta heldur.

  Erum örugglega búnir að slá heimsmet í því að missa niður forystu í leikjum, mjög pirrandi. Sammála kommneti Magga á meðan leiknum stóð að við erum allt of linir og bara hættum eftir að hafa skorað markið. Þetta verður bara að laga fyrir næsta tímabil.

  Er þetta samt ekki týpískt, að eftir fyrri hálfleikinn voru menn (m.a. undirritaður) að jósa lofi á Lovren. Hann á síðan stóran þátt í jöfnunarmarki Spurs að hleypa Kane á hægri fótinn og var næstum því búinn að gefa þeim sigurmark í lokinn. Fyrir utan þessi afdrifaríku mistök var hann rock solid. Sakho bættii sinn leik verulega í seinni hálfleik en hann var vægast sagt slakur í þeim fyrri.

  Mignolet var sennilega maður leiksins hjá okkur. Sennilega einn af hans allra bestu leikjum fyrir klúbbinn. Miðjan var nokkuð solid en eftir mark Coutinho voru menn allt of linir og misstu tökin á leiknum. Er samt alveg harður á því að við þurfum rock soldid, sterkan miðjumann sem getur skorað mark á næsta tímabil. Erum heilt yfir með allt of mikla léttvigt þar.

  Sturridge lagði upp markið en var heilt yfir slakur og er alveg í ótrúlega lélegu leikformi, er alls ekki 90 mínútna maður.

  Þessi úrslit gera ekki mikið fyrir okkur en titilvonir Spurs minnkuðu verulega.

 6. Sæl og blessuð.

  Það er lögreglumál að þetta lið sem býr yfir slíkum gæðum skuli vera komið í 9. sætið. Leikurinn var eins og nautasteik, flamberuð. Þeim vannst ekki tóm til að endursýna sum atriðin slíkur var krafturinn.

  Markið var engum að kenna nema Kane. Þetta var masterklass framsóknarmennska (í jákvæðri merkingu), nokkuð sem Sturridge mætti alveg taka sér til fyrirmyndar. Hann má þó eiga það, að hann átti stoðsendinguna sem ætti nú að þykja ágætt gegn slíku liði.

  Þetta Tottenham lið var stórbrotið í leiknum. Það besta sem ég hef séð mæta okkur í vetur. Segi það og ég skrifa.

 7. Skemmtilegur leikur. Vissulega hefði maður viljað ná þremur stigum í dag en ef þessi tvö töpuðu stig hjá Tottenham verða til þess að Leicester verði meistari þá er ég sáttur.
  Maður verður að hrósa markvörðum beggja liða eftir þennan leik. Báðir átti frábærar vörslur sem komu í veg fyrir að lið þeirra töpuðu þessum leik.
  Það er alveg komið nóg af þessu Tottenham hæpi. Þeir njóta góðs af því að peningaliðin City, Chel$ki og Utd. hafa verið að gera uppá bak á þessu tímabili. Því miður hefur L’pool ekki náð að nýta sér tækifærið en árangur Leicester í ár verður vonandi hugsjónaliðunum hvatning á næsta tímabili.

 8. Við vorum að spila vel, en vantar markaskorara, hann fór til Spánar. Gott að fá þó annað stigið.

  ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!

 9. Ég læt eitt fara í taugarnar á mér (og þætti fróðlegt að vita hvað Magga kop.is skríbent og þjálfara finnst um það). Og það er þegar leikmenn sem koma af velli, eða er skift inná, setja upp svip eins og kærastan hafi verið að segja þeim frá framhjáhaldi. Sturridge gerir þetta í leik eftir leik og Ibe var jafnfýlulegur þegar honum var skipt inn á í lokin. Þetta er spurning um aga og virðingu fyrir bæði liðsfélögum, áhorfendum og þjálfara. Væri ég Klopp myndi ég tala við báða piltana um þetta.

 10. Líklega sanngjörn niðurstaða en bæði lið fengu færi til að klára leikinn. Ég er viss um að Lovren sé ósáttur að hafa ekki náð að lúðra löppunum fyrir skot Kane en heilt yfir var hann bestur í vörninni. Miðjan er mesti veikleiki okkar. Can fannst mér nokkuð góður í afar erfiðu hlutverki fyrir utan 1-2 glórulausar sendingar. Coutinho er bara snillingur og var óheppinn að klára þetta ekki fyrir okkur undir lokin. En Henderson, G minn almáttugur…mér finnst ekkert koma út úr honum sóknarlega. Hann er bara ekki svipur hjá sjón miðað við fyrri ár. Við getum ekki verið með tvo trukka á miðjunni sem skapa svona lítið. Can er mun betri trukkur og því verður Henderson að víkja fyrir honum. Ég er sannfærður um að Klopp er að leyta að stjörnu-miðjumanni sem getur skapað meira fyrir samherjana auk þess að geta sett hann í netið með reglulegum hætti. Henderson yfirgefur kannski ekki klúbbinn í sumar en ef hann bætir ekki sinn leik þá fer bandið af hendinni og hann fer í sama flokk og Joe Alla, þ.e. í flokk fínna squad leikmanna.

  Menn leiksins, í þessari röð: Coutinho – Mignolet – Lovren.

 11. Sá bara seinniháfleik og var nokkuð sáttur. Fannst liðin bara nokkuð jöfn og bráðfjörugurleikur.
  Ekki að ég ætli að vera of dómharður á Lovren þá fannst mér þetta slakur varnaleikur hjá honum í markinu. Í fyrsta lagi á hann að vera aðeins nær Kane og svo finnst mér hann vera ekki nægilega vel staðsettur til að loka inn að miðju. Það þarf eitthvað sérstakt til að hann myndi ná að skora á nærstöngina, þannig að því að vera að loka henni og leifa manninum að snúa inn á hægri löpina sem er hans sterkari og klára með henni. Annars var þetta mjög vel klárað hjá Kane. En í öllu öðru var Lovren flottur í dag. Annars ánægður með baráttu og vinnusemi. Annað sem ég skil ekki eftir að hafa horft á þennan seinnihálfleik er að menn séu að tala Henderson niður eftir þennan leik, er ekki búinn að vera góður í síðustu leikjum en fannst hann mjög flottur í dag.

  Kær kveðja.

  YOU NEVER WALK ALONE

 12. Mer finnst byrjunarliðið fint og bara Firmino sem vantaði. Sturridge, Milner eru leikmenn sem verða abyggilega varamenn a næsta timabili. Varnarmennirnir fa sömuleiðis meiri samkeppni a næsta timabili asamt Mignolet sem hefur tekið sig saman i pungnum og ekkert yfir honum að kvarta.

  Liðið er bara ekki betra heldur en þetta i augnablikinu en eg haft samt bullandi tru a moti þeim a moti Dortmund. Er sammala Magga og fleirum að það vantar aðeins meiri kraft og aga i liðið og þeir leka inn mörkum allt of mikið.

 13. https://streamable.com/7fhj sjáið hlaupið hjá Lallana þarna, alveg 100% ekki að búast við sendingu, bara decoy til að búa þetta pláss til. Hrikalega klókt og góður leiklestur. Sá er búinn að vera góður síðustu vikur!

  Skil ekki hvernig sumum dettur í hug að blammera Henderson í dag, hann var að langmestu leyti góður, muuun betri en í flestum leikjunum eftir meiðslin. Átti margar góðar sendingar fram á við inn í vel spottuð pláss og var mjög vinnusamur að vanda.

  Coutinho game changer eins og svo oft áður. Mignolet hefur ekki mikið þurft að verja síðustu vikur enda vörnin búin að virka allt, allt öðruvísi en við höfum átt að venjast síðustu misseri. Í dag stóð hann vaktina hins vegar með stakasta sóma.

  Þetta hefði getað farið á hvort veginn sem var en að mínu mati átti Liverpool fleiri góð færi til að klára þetta. Jafntefli þó sanngjarnt á heildina litið.

  Mér líst vel á framhaldið, þetta er farið að taka á sig svolitla mynd hjá meistara Klopp!

 14. Þetta var rándýr og flottur leikur, hafði ekki neinn tíma í búslóðaflutningum nema að plögga aflruglaranum inn og láta 365 taka mig í smurt … og fékk þá þennan flotta leik í góðum gæðum.

  Að mínu viti voru þetta tvö virkilega fín lið sem eru á góðu rönni og rannsóknarefni af hverju við erum í 9 sæti og það eru hvað 17 stig á milli þeirra. En o jæja, in Klopp we trust. Reynum að púlla Dortmúnd og þá erum við i góðum málum …..

 15. Sælir félagar

  Ég er algerlega ósammála þeim sem deila á Sakho fyrir lélegan leik. Hann varð nánast erinn að taka einn öflugasta framherja deildarinnar í sína vörslu og misti hann tvisvar sem skapaði hættu fyrir Liverpool liðið en sem betur fór tók vörnin (þmt. Lovren) það. Hinsvegar lenti Lovren aðeiins einu sinni í því að þurfa að sjá um Kane og það endaði með marki. Svomna hlutir gerast og í sjálfu sér ekki við Lovren að sakast. Það er einfaldlega mjög erfitt að eiga við menn af kaliberi Kane. Því fór sem fór og Tottenham jafnaði leikinn.

  Þeir sem deila á Sakho fyrir fyrri hálfleik og baráttu hans við Kane eru einfaldlega ekki að átta sig á hve feiki öflugur og hættulegur Kane er. Sakho var gífurlega öflugur allan leikinn en lenti tvisvar í mjög krítiskri stöðu sem honum tókst ekki að klára en vörnin hélt þar fyrir innan. Jafntefli í þessum leik var líklega sanngjörn niðurstaða en að leikurinn vannst ekki verður ekki skrifað á vörnina. Tvö dauðafæri sem Sturridge fékk og klúðraði verða ekki skrifuð á hana.

  Það er nú þannig

 16. Ég er frekar sáttur svona daginn eftir, hefði samt viljað öll 3 stiginn en Spurs eru bara á þannig stað í lífinu að það er erfitt að vinna þá. Þetta með Lovren þá gerði hann allt sem hann gat til að ná boltanum á undan og þetta var aðalega frábært hja Kane frekar en slakt hjá Lovren.
  En Shako far í algjöru rugli í fyrrihálfleik, en kom sem beturfer til baka í þeim seinni.

  Flest allir fanst mér skila sínu í gær, hefði þó viljað sjá aðeins meiri baráttu hjá Sturridge.

  En þetta er allt að koma, við komumst yfir chel$ki allavega 🙂

  Svo er það “bara” Dortmund á fimmtudag

  Y.N.W.A,

 17. Já – þetta er allt á réttri leið. Nú þarf bara að kaupa Gylfa til að það fari að koma meira út úr þessum föstu leikatriðum – það er alveg skelflegt að markspyrnur hjá Migno séu hættulegri en hornspyrnur Liverpool. En liðið er gott og þetta var fínn leikur. …og mikil helv… er Kane svaklega góður leikmaður….

 18. Finnst liðið hægt og rólega vera að slípast saman. Þeir sem komu seinast úr meiðslum eins og Henderson, eru smám saman að finna sig á vellinum í nýjum hlutverkum.

  Það hefði engu að síður verið gaman að sjá Firmino með þeim í gær. Held við megum ekki gleyma þeim áhrifum sem það hefur á vörn andstæðinganna að hafa þessa kappa alla á vellinum. Þegar Firmino, Lallana, Coutinho og Sturridge eru allir komnir á seinasta þriðjung, stendur ógn úr öllum áttum.

  Þeir eru kannski ekki allir að skína í hverjum leik. En þeir eru að skapa pláss fyrir hvern annan með þessari ógn. Það er hluti af Liverpool liðinu í dag. Við erum kannski ekki með stjörnu á borð við Suarez, en það er í raun ekki hægt að líta af neinum sóknarmanna okkar. Það er að segja þegar við erum með fullskipað lið.

 19. Ótrúlega fáir tjá sig hér eftir þennan leik enda síðasta hálmstráið í deildinni fokið út í veður og vind.

  Furða mig á ánægju margra með Henderson, en svo horfði ég aftur á leikinn og rifjaði upp nokkra aðra leiki í vetur og þá sá ég að Henderson er auðvitað þvílíkur spyrnusérfræðingur og færa-matari. Við megum þakka fyrir ef Barca og Real muni ekki hefja hatramma baráttu um hann þegar leikmannaglugginn opnar. Reyndar var verið að birta í helstu fréttamiðlum heims að Messi er á lista með Sigmundi Davíð, Putin ofl. yfir þá sem tengjast aflandsfélögum svo það kæmi mér ekki á óvart að Barca myndi vilja skipta Messi út fyrir Henderson.

Liðið gegn Tottenham

Dortmund – Upphitun 2/3