Liverpool 2 – Man. United 0

Fyrri leikur í Evrópudeildinni, 16 liða úrslitum.

Pakkfullur Anfield sem skoppaði frá því löngu fyrir leik. Alvöru Evrópukvöld í flóðljósunum.

Jurgen karlinn stillti upp sterku liði auðvitað enda stærsti leikurinn á Anfield í langan tíma. Það var mikið flot í öllum miðjumönnunum okkar en mér fannst leikkerfið vera 4-2-3-1 með fljótandi stöður aftan við senterinn.

Ca. svona:

Mignolet

Clyne – Lovren – Sakho – Moreno

Henderson – Can
Lallana – Firmino – Coutinho

Sturridge

Bekkur: Ward, Toure, Ojo, Smith, Allen, Origi, Benteke

United fengu færi strax á 30.sekúndu en eftir það skall á þeim rauð bylgja. Hápressa og grimmd um allan völl, kannski aðeins of hjá Hendo sem fékk gult spjald strax á 3.mínútu fyrir grimma tæklingu, en samt. United voru negldir strax í vörn og okkar menn mjög einbeittir. Þó gekk ekki vel að skapa færin fyrsta kortérið.

SturridgeÁ 19.mínútu brotnaði ísinn. Memphis braut á Clyne á vítateigslínunni og spænski dómarinn benti eftir smá hik á punktinn. Hárréttur dómur, töluvert leið þar til Daniel Sturridge klíndi boltanum í hliðarnetið algerlega óverjandi fyrir De Gea.

Áfram hélt bylgjan, Coutinho átti að skora tveim mínútum síðar en kiksaði í De Gea fyrir opnu marki og síðan varði Spánverjinn vel frá Sturridge á 31.mínútu einn gegn einum og á 42.mínútu varði hann frá Lallana úr markteignum. Það var algerlega honum að þakka að gestirnir fóru aðeins einu marki undir í hálfleik sem var afskaplega vel leikinn hjá drengjunum okkar. Posession tölfræðin 70 – 30 lýsti svo sem upplegginu. Van Gaal kom til að verjast, alveg eins og reikna mátti með og þeir áttu enga sókn af nokkru viti.

Sá hollenski gerði taktíska breytingu í hálfleik, bætti við hafsent og fór í 3-5-2 kerfið sitt sem hann notaði með Hollandi á HM. Semsagt þétta enn meira og setja Blind í wingback stöðu og Mata undir senterana, til að yfirkeyra miðsvæðið sem við höfðum átt. United náði tökum í upphafi seinni hálfleiks en það var þó okkar lið sem áttu mest lofandi sóknina, Coutinho átti flott skot utan teigs á 54.mínútu en enn á ný var það De Gea sem sá við honum.

United voru þó komnir í gír, sérstaklega inni á miðsvæðinu þar sem þeir voru nú nokkrum fleiri og við með býsna margar sóknartýpur inná því svæði. Klopp brást við á 63.mínútu þegar hann skipti Joe Allen inná fyrir Sturridge, þá vorum við komnir í 4-3-2-1 með Firmino uppi á topp og Lallana og Coutinho aftan við hann. United hélt áfram ákveðnum tökum á miðjunni og boltanum en við fengum alveg okkar sénsa, De Gea varði enn á ný hörkuskot, nú frá Nathaniel Clyne og Henderson setti boltann rétt framhjá af vítapunktinum.

KloppÁ 74.mínútu áttum við svo fína sókn upp hægri kant, Henderson átti lausa sendingu sem “hafsentinn” Carrick náði ekki að hreinsa en sendi beint á Adam Lallana sem lagði boltann út í markteiginn þar sem Firmino tápotaði boltann á nærsvæðið algerlega óverjandi og völlurinn sprakk, Klopparinn bara nokkuð sáttur!

Algerlega sanngjörn staða 2-0. Sex mínútum seinna fékk Brassinn hvíld og Divorck Origi kom inn.

United reyndi enn að breyta, Fellaini átti skalla framhjá á mínútu 83 en átti svo að fá sitt seinna gula stuttu seinna en slapp. Hversu oft sleppur þessi ömurlegi leikmaður eiginlega!!!

Það sem eftir lifði leiks voru okkar menn yfirvegaðir enda staðan bara býsna góð fyrir seinni leikinn. United átti ekki nokkurt færi af neinu viti og öruggum sigri landað á háværum og glöðum Anfield!

Búið að grafa Van Gaal grýluna, megi langt líða þangað til hann vinnur Liverpool næst!

Frammistaða liðsins

Markmaðurinn hafði lítið að gera en var mjög solid. Varði þau fáu skot sem komu og átti góð úthlaup.

Varnarlínan var öflug, Lovren og Sakho virðast virka fínt saman, Moreno var mjög sprækur í leiknum, mér fannst sérlega gott að sjá skynsaman varnarleik hjá honum núna. Clyne átti sennilega sinn besta leik í LFC treyjunni, frábær upp kantinn og varðist verulega vel.

Henderson og Can voru frábærir í fyrri hálfleik, lentu í smá vanda fyrsta kortérið í seinni hálfleik en eftir að Joe Allen kom á miðjuna náðu þeir aftur takti, Hendo átti stóran þátt í marki tvö.

Tríóið þar fyrir framan átti frábæran leik. Firmino skoraði flott mark og var mjög duglegur þar til Origi kom inná fyrir hann. Coutinho var mjög flottur í spilinu og hélt boltanum fljótandi. Minn maður leiksins í kvöld var Adam Lallana, einfaldlega allt í öllu í sóknarleiknum og stöðugt ógnandi. Búinn að vera frábær síðustu vikur.

Sturridge var flottur í fyrri hálfleik og ískaldur á punktinum en er augljóslega ekki kominn í leikæfingu.

Heilt yfir flott frammistaða og nú fáum við viku til að klára dæmið takk!

84 Comments

  1. De gea er fáranlega góður markmaður og er sammála ræðumanni hér fyrir ofan hefðum skorað 3-4 mörk í viðbót hefði hann ekki verið fyrir.

    Að okkar mönnum hvað er hægt að segja ? þeir börðust eins og ljón og þeir vildu þetta miklu meira í kvöld en utd það skein í gegn .
    Leikgleði og barátta frá A til Ö.

  2. Glæsilegur sigur og örugglega heimsmet hjá Magga að birta svona góða leikskýrslu aðeins 1 til 2 mínútu eftir leikslok! Glæsilegt hjá þér Maggi 🙂

  3. Frábær leikur okkar manna. Scums voru frábærlega slakir. Við óheppnir að setj’ann ekki oftar.

    Fellaini fauti, kýldi Can rétt þegar dómarinn var að flauta af, þriðja rauða spjaldið sem hann átti að fá.

    Koma svo … skora á gamla traðarkotinu.
    YNWA

  4. Sælir félagar

    Þetta var í einu orði sagt: algerlega og fulkomlega, yndislega gott og gaman. MU yfirspilað í 75 mínútur og átti ekki breik allan fyrri hálfleik. Þetta byrjunarklafs eftir 20 – 30 sek telst ekki með í leiknum. Það sýnir sóknarþungann að MU átti ekki hornspyrnu í þessum leik. De Gea hélt þeim frá stórtapi með mögnuðum vörslum hvað eftir annað.

    Ég er fullkomlega sáttur með niðurstöðuna og ALLA leikmenn liðsins í þessum leik. Takk fyrir mig og gaman verður að slá þá út á þeirra eigin heimavelli.

    Það er nú þannig

    YNWA

  5. Fyrir mér var De Gea maður leiksins. Hann er eina ástæða að lokaúrslit urðu ekki 4 -0 eða jafnvel meira.

    Frábært að sjá liðið vera að vakna upp. Núna finnst mér það vera komið á siglingu og vonandi heldur hún áfram út leiktíðina.

  6. Magnaður vinnusigur og auðvitað bar De Gea þeirra besti maður. Fellaini er alltaf jafn pirrandi á móti okkur, hversu oft braut hann af sér eftir að hafa fengið spjald?

    Get ekki sett útá frammistöðu neins leikmanns, allir gáfu sig 110% í þennan leik og varnarlínan skánar með hverjum leiknum, aldeilis dandalagott. Verður gaman að sjá Studge eftir 2-3 vikur þegar hann verður kominn í betra leikform, ekkert smá sem hann getur strítt varnarmönnunum.

    Fer sáttur að sofa.
    YMWA

  7. Frábær leikur hjá okkar mönnum, gjörsamlega tóku united í kennslustund.
    Hinsvegar finnst mér Henderson mega fara að setjast á bekkinn og láta t.d. Can fá fyrirliðabandið.
    Sendingar og skot hjá honum eru orðin verulega slök síðan hann kom úr meiðslum.
    Annars fær elbowini að öllum líkindum bann eftir viðbjóðslega hegðun á lokasekúndum leiksins þar sem hann gaf Can olnbogaskot.

    [img]http://i.imgur.com/SE22BUx.jpg[/img]

  8. Yfirburðir Liverpool í kvöld var með ólíkindum. Man.Utd. fékk ekki eina hornspyrnu allan leikinn og segir það meira en nokkur orð. En þetta er ekki búið seinni leikurinn er eftir viku og verður HanaGal að vera duglegri að skrifa á bekknum til vinar síns Moreno hahahahaha. ÁFRAM LIVERPOOL þið eruð bestir!!!!!!!!!!!!!!!!

  9. Frábær leikur hjá okkar mönnum, gjörsamlega tóku united í kennslustund.
    Hinsvegar finnst mér Henderson mega fara að setjast á bekkinn og láta t.d. Can fá fyrirliðabandið.
    Sendingar og skot hjá honum eru orðin verulega slök síðan hann kom úr meiðslum.
    Annars fær elbowini að öllum líkindum bann eftir viðbjóðslega hegðun á lokasekúndum leiksins þar sem hann gaf Can olnbogaskot.

    [img]http://i.imgur.com/SE22BUx.jpg[/img]

  10. Þessir strákar eru alveg merkilegir…

    Stundum fá þeir mann til þess að hugsa að nú sé kominn tími á hreinsanir…
    og þess á milli hugsar maður að það þurfi bara 2-3 gæðaspilara til þess að verða alvöru alvöru!…
    En hvað sem þeim pælingum líður þá hugsaði ég um leið og liðið drógst gegn þessu manutd… að þetta var nú óþarfi ekkert þæginlegt við þetta en samt innst inni vildi maður líka að þetta utd lið færi ekki lengra en 16 liða enda hefur það ekkert lengra að gera.

    að lokum Youll never walk alone….. klárum þetta helvítis dæmi í næstu viku….

  11. Frábær leikur, sérstaklega ánægður með hvað við héldum boltanum vel innan liðsins og sóttum vel fram á við, margir að leika boltanum vel undir pressu og skila á samherja sem sóttu, hefði verið til í að sjá aðeins meira koma út úr því.

    Nú er bara að vona að liði spili svona áfram í öllum leikjum sem eftir eru 🙂

    Að halda hreinu er líka stór +

  12. Gjörsamlega búinn á því. Ég sendi hverja sendingu, tók alla skallabolta og átti fjölmörg skot í leiknum á stofugólfinu. Gegnblautur af svita. Mér gekk bara nokkuð vel 2-0 .

    Geðveikt

  13. ég spáði 4 null og mikilli spjaldaveislu með marga liti á spjöldunun, ég hefði haft rétt fyrir mér ef shum hefðu haft meðal markmann og dómarinn hefði hreðjar til að reka fellaini(eg geri oft stafsetningavillur en þetta á að vera svona) útaf.

  14. Þessar síðustu vikur hefur liðið náð að vekja mann og koma manni upp á tærnar.

    Gífurlega stoltur af liðinu í dag og vonandi er þetta það sem koma skal.

    YNWA

  15. Tók einhver eftir þessum í united stúkunni?

    [img]https://i.imgur.com/Xn8qpC6.jpg[/img]

  16. Að vinna United 2-0 og vera drullu svekktur er eitthvað skrýtið. Djofuls klaufar að skora ekki allavega 2 mork i viðbót.

    En annars frabær frammistaða og unun að sja okkar menn hlaupa ur ser lungun og berjast um alla bolta, frabær pressa um allan voll i kvold .

    Eitt lið a vellinum i 92 mínútur i kvold og nu er bara að vona að þetta dugi okkur.

  17. frábær leikur algjörlega sammála Magga með mann leiksins Lallana var virkilega góður í kvöld. Hann er auðvitað alltaf mjög vinnusamur en hann hann hefur mikið duglegri að skora og leggja upp mörk undanfarið

  18. Klopp kann að meta jákvæða stuðningsmenn,afburðar jákvæður karakter,commentakongur PL.2-0 sigur á Scum. Verða dagarnir mikið betri en í dag.? NEI.Koma SVOOOO

  19. Mino. þurfti að fara í eitt úthlaup.

    Hann straujaði Martial sem var að fara í opinn skalla.

    Grjótharður í úthlaupum. Mino. að læra nýja hluti.

  20. Ég sá þennan gaur í stúkunni í útsendingunni og ég hló annað hvort er speglalaust heima hjá manninum eða hann er svona svakalega hallærislegur og svo gæti þetta verið hárkolla líka.
    En hvernig sem þetta er að þá er þetta bara lololololololololololololololololololololololololollolololololololololololololololololololol!

  21. 24# er þetta ekki leikarinn úr inbetweeners ?, en Annars fokking YES scum utd áttu ekki roð í okkur og eru í bullandi krýsu, og geggjað að sjá að það var fírað uppí blysunum góðu YNWA

  22. Frábær leikur hjá okkar mönnum.
    Allir áttu góðan leik og erfit að taka einhverja út en ég ætla samt að gera það(tek þá alla út).
    Mignolet mjög solid en hafði ekki mikið að gera 7
    Clyne mér fannst hann frábær bæði í vörn og sókn 8
    Lovren/Sakho flott samvina og voru traustir í kvöld 8
    Moreno dálítið viltur en gerði góða hluti í kvöld 7
    E.Can þurfti að vera agaður og var það og skilaði sínu mjög vel 8
    Henderson fyrirliðinn með dugnað og djöflagang . Flottur leikur
    Lallana maður leiksins ógnandi, skapandi og sífelt á hlaupum 9
    Coutinho þeir réðu illa við hann í dag 8
    Firminho flottur leikur 8
    Sturridge virkilega gaman að sjá alvöru sóknarmann á svæðinu 8
    Joe Allen breytti leiknum og liverpool tóku aftur miðsvæðið eftir að hann kom inná 8
    Origi kom með kraft inní leikinn 7

    Þetta var engin Man City veisla enda enþá meira undir í þessum leik og andstæðingarnir mun þéttari tilbaka en City en þetta var mjög flottur leikur hjá strákunum og þá sérstaklega fyrirhálfleikur þar sem DeGea hélt þeim á flotti.
    Liverpool missti miðsvæðið eftir að þeir fóru í 3-5-2 en það lagaðist þegar Joe Allen bætist á miðsvæðið.

    Frábær sigur en einvígið er ekki búið og maður nýtur stundarinar en missi sig ekki í fagnaðarlátum en vonandi getur maður gert það eftir viku.

  23. Ætli það sé hægt að ná einhverstaðar umfjölluninni frá BT sports á netinu, veit einhver góður um það?

  24. Scoles var alveg búinn á því kallræfillinn í BT settinu. Vonandi fara þeir ekki að reka gaalinn.

    En eitt sló mig … Sturrigde í viðtalinu eftir leik á BT Sport. Það er engin gleði í augunum á honum, eins og hann sé eitthvað verulega down.

    Vonandi fær hann gleðipillur og lyftir andanum aðeins.

    Erfitt að venjast því að það er heil vika í næsta leik 😀 en það er fínt. Menn mæta mótiveraðir.

    YNWA

  25. Ég hafði rétt fyrir mér að einu leyti, ManU átti ekki möguleika. Að þeir gætu ekki skorað. En ég spáði 4-0 fyrir okkar menn, en tek 2-0.

    Búinn að sjá viðtölin við Klopp eftir leikinn og hvað get ég sagt! Þessi maður. Þvílíkur húmoristi. Og alltaf á jörðinni, aldrei að bulla. Enskan fullkominn.

    Liverpool er með Jurgen Klopp sem þjálfara Liverpool og það þýðir bara eitt – þetta er bara fram á við. Þetta er allt að koma.

  26. Þvílíkt kvöld. Það var hreinn unaður að sjá þessa þrjá töframenn okkar Coutinho, Firmino og Lallana. Ef þeir fá frelsi til að leika sér með boltann, og við bætum við okkur alvöru stræker og manni sem getur étið miðjuna, þá eru okkur allir vegir færir.
    Ég get varla beðið eftir næsta leik.

  27. Af Guardian: “The great thing about Klopp is that he gets this. The heavy metal football schtick is as much about emotion and intensity of purpose. Whatever his ultimate successes at Liverpool it already seems certain this will be a warm period in the club’s history, if only because Klopp clearly loves the idea of this club, loves the sound and fury, loves derby games whatever the branding at the side of the pitch.”

    Hann er með þetta. Hann skilur Liverpool og hann gerir sig skiljanlega.

  28. það að lesa svona comment á united síðunum er bara að gera þennan dag svo miklu miklu betri ”Og fokk hvað við skitum margir hverjir uppá bak þegar við hlógum af Poolurunum að kaupa Firmino á sama tíma og við náðum að landa „world-class“ forwardinum Depay. Yeah Right!
    Firmino er ljósárum betri…”

  29. Þeir eru þó hreinskilnir síðuhaldarar Rauðu Djöflanna: “Það var því gríðarlegaur léttir að United komst inn í hléið með stöðuna einungis 1-0, slakari leik af hálfu United höfum við sjaldan séð, tja og þó, þessi vetur er að sýna okkur hvern slaka leikinn á fætur öðrum. “

  30. Og meira frá Rauðu djöflunum: “Skv. tölfræðinni átti liðið eitt skot á mark og það var skoti meira en þeir áttu skilið.” Gaman að þessu. Er ekki Sveinn Andri að lesa?

  31. Liverpool hefur ekki enn tapað leik á dögum sem ég hitti Magga (á Skólahreysti í Mýrinni/TM höllinni í dag). Verður maður að fara að kíkja á Spot? Eða að draga karlinn á Rauða ljónið? 🙂

  32. Algerlega Eyjólfur…en veit ekki með ljónið.

    Var alveg viss um að Can hefði ekki hent sér í jörðina útaf engu en vildi ekki bíða með skýrsluna til að sjá hvað gerðist.

    Allt við tap United í kvöld hlýtur að vera vont. Frammistaðan, þetta ógeðsbrot í lokin en síðast en ekki síst að öll Evrópa hafi heyrt viðbjóðinn sem kom frá þeirra stúku. Það er bara sorglegt og HLÝTUR að kalla á viðbrögð þess félags ef þeir vilja láta taka sig alvarlega. Hér var enginn minnihluti á ferð…og í þessari stúku voru einhverjir af þeirra “legends” í boltanum.

    Við förum brosandi að sofa…en þetta er alls ekki búið þrátt fyrir góða stöðu…

  33. Já, var það ekki Davíð Þór (eða Radíusbræður?) sem orti: Skíts er von úr rassi.

    Það á vel við hér!

  34. Það held ég nú, sækja á þessa andskota, þannig eiga þeir ekki roð í þennan mannskap sem Klopp hefur úr að moða um þessar mundir. Það er eins og vanalega eingöngu De Gea að kenna að þeir sluppu frá þessum leik en við hefðum tekið 2-0 fyrir leik. Spáði 3-1 í Podcast þætti og 1-2 á Old Trafford, sætti mig líka við 0-1 þar 🙂

    Sammála skýrslunni að öllu leiti. Moreno var mjög góður í dag og spilaði mjög agað, það er engin spurning að mínu mati að Klopp geti vel unnið með þennan leikmann og slípað hann betur. Ótrúlegt hversu margir eru tilbúnir að afskrifa hann fljótt bæði á þessu og síðasta tímabili. Clyne var ennþá betri hinumegin, einn af hans betri leikjum hjá Liverpool.

    Sakho og Lovren eru okkar besta miðvarðapar og ná vonandi að spila saman út tímabilið. Skoðið tölfærðina hjá Sakho og hversu mörg mistök hann gerir vs hvað þið haldið að hann geri. Þetta er hörku leikmaður. Það er að myndast smá holning á þetta lið okkar og í beinum takti við batnar spilamennska Lovren. Hann hefur verið frábær síðustu þrjá leiki.

    Emre Can er svo að þróast í það skrímsli sem hann hefur burði til að verða. Það er nákvæmlega engin tilviljun að hann er alltaf í liðinu og fyrir mér er hann á undan bæði Henderson og Milner á byrjunarliðsblaðið. Vinnusemi hans og Henderson er t.a.m. að hjálpa vörninni gríðarlega.

    Með þennan mannskap sem er heill heilsu hjá Liverpool núna vill ég mikið frekar blása til sóknar og reyna vinna þannig í stað þess að spila varfærið.

    Firmino er okkar besti leikmaður í dag og hefur verið það allt þetta ár. Leikmaður sem þú byggir liðið í kringum frá og með næsta tímabili. Svipað og gert er með menn eins og Götze, Reus og Mkhitaryan. Firmino er bara 24 ára og ef allt er eðlilegt verður hann bara betri næstu árin.

    Lallana var svo klárlega maður leiksins í dag og hefur verið að spila frábærlega undanfarið, bæði sóknarlega sem og varnarlega. Mjög vanmetið hversu duglegur hann er (rétt eins og Firmino).

    Bætið svo Coutinho við og það fer að verða erfitt að verjast þessu liði þegar það er í stuði. Milner passar mögulega betur í einhverjum leikjum frekar en einn af þessum en það ætti að mínu mati að vera meira undantekning en regla. (útileikurinn á Old Trafford er dæmi um leik sem Milner byrjar á kostnað einhvers af fremstu fjórum)

    Sturridge er svo leikmaður með hraða sem heldur öftustu varnarmönnum uppteknum allann leikinn. Hann hætti að vinna til baka í seinni hálfleik og gerði það ekkert frábærlega í fyrri hálfleik. Þess vegna var hann tekinn af velli. Hann er auðvitað að spila sig í gang en margir svona leikir í röð verða til þess að hann missir sæti sitt í liðinu. Samkeppnin í dag er bara það mikil. Það eru meiri læti í Origi og hann skapar meiri tíma fyrir mennina með sér, Sturridge er á móti miklu hættulegri þegar hann fær færið.

    Aftur sjáum við svo hversu gott er að hafa sterkan bekk. LVG gerði góða taktíska breytingu í hálfleik og til að bregðast við því var hægt að setja Allen inná og hann sneri leiknum aftur. Að geta svo valið milli Origi og Benteke fyrir Sturridge er ævintýri líkast m.v. síðasta tímabil. Sérstaklega með Firmino inná að auki.

    Pirrandi í dag var auðvitað að nýta ekki dauða dauðafærin en eins var dómarinn á köflum að gera mig geðveikan. Þessi sérsamingur sem Fellaini er á er rannsóknarefni og ef hann fer ekki í bann fyrir atvikið í lok leiksins er eitthvað verulega mikið að. Henderson fær gult spjald fyrir fyrsta brot strax á 2. mínútu og spilar á gulu allann leikinn. Fellaini fór ekki í bókina fyrr en á 5-6. broti og slapp svo við seinna gula fyrir að gera það nákvæmlega sama og Henderson gerði í byrjun leiks.

    Okkar menn fengu alltaf spjald um leik fannst mér.

    Hitt er svo stuðningsmenn United, þeir eru til skammar og þetta hljómaði ekkert eins og einhver lítill minnihluti. Þeir eiga fleiri söngva um Liverpool heldur en sitt eigið lið sem er töluvert sorglegt, en það er hinsvegar viðbjóðslegt að heyra þá syngja hástöfum um Hillsborough slysið. UEFA á að gera það sem FA hefur aldrei þorað að gera og taka hart á þessu. Hef ekki heyrt stuðningsmenn Liverpool syngja svona hátt og greinilega (ítrekað) um Munich en ef svo er á nákvæmlega það sama að gilda um þá.

    Stuðningsmenn United voru svo vel míkrafónaðir í þessum leik að mögulega heyrðist óvenju vel hvað þeir voru að syngja, a.m.k. voru fjölmiðlar aldrei þessu vant að ræða þetta http://www.bbc.co.uk/programmes/p03m67zj?ns_mchannel=social&ns_campaign=bbc_5_live_sports_extra&ns_source=twitter&ns_linkname=radio_and_music

  35. [img]https://pbs.twimg.com/media/CdOQ5wqUUAAJJwE.jpg:large[/img]

    Sjáiði bara leikmenn United á þessari mynd. Algjörlega brilliant! Djöfull hafði stemmingin á vellinum mikið með þennan leik að segja. Þetta má gerast oftar mín vegna.

  36. Er loks búinn að horfa á leikinn. Firmino alveg stórkostulegur stóran hluta leiksins; áræðinn, duglegur og klókur. Frábært touch líka. Sá gæti orðið góður sem hluti af vel smurðri vél!

  37. Daginn eftir. Ennþá með glottið fast á andlitinu. Fer ekki af í dag.

  38. Takk fyrir leikskýrslu og umræðu. Hreint út sagt frábær sigur og veruleg sanngjarn þó stærri hefði verið. Vona að síðustu leikir fari að þagga niðri í svartsýnisröddum sem alltof oft gapa á kommentakerfum. Það þarf ekki að endurtaka það enn eina ferðina, liðið er hörkugott en hugarfarið í vetur hefur verið upp og ofan. Þegar meiðslalistinn styttist þá batnar hugarfarið og sjálfstraustið eykst. Lallana, Couthino, Firmino og Can farnir að vinna fyrir kaupinu sínu og jafnvel Mignolet. Boltafælnin hefur minnkað hjá Sakho og Lovren gerir núna það sem hann var keyptur til að gera. Síðan enn dýrmætara að nú eru hlutirnir jafnvel farnir að detta með Liverpool. Hvenær hefur það gerst á síðustu árum að liðið hafi fengið í tveimur leikjum í röð, vafasamt víti og skorað mark eftir að varnamaður sendir á okkar mann. Á undanförnum árum hefur Liverpool hvað eftir annað verið með mun lélegri sóknar- og skotnýtingu heldur en önnur topplið. Með öðrum orðum þurft að hafa meira fyrir hverju marki. Kannski kemur aukalukkan með Klopp, hver veit. Núna er bara að spila af skynsemi í seinni leiknum gegn MU og tryggja sæti í 8 liða úrslitum.

  39. 2-0 í hálfleik frábært, það hefði verið brilljant að sjá eitt detta inn í viðbót,nú er bara að fara á fimmtudaginn og ganga endanlega frá þeim vonandi fer Fellaini í langt bann á það skilið, KOMA SVO.

  40. Stórkostlegt hugarfar og vinnusemi skóp þennan frábæra sigur. Áttum auðvitað skilið að vinna þetta 4-0 amk eins og margir benda á, ég var allavega mjög viss um að við myndum keyra yfir þá og það gerðum við. Það eina sem maður gæti haft áhyggjur af í seinni leiknum er að leka inn marki snemma leiks því þá er einvígið komið upp í loft EN á móti kemur að það hentar okkar liði mjög vel þegar andstæðingarnir sækja. Um leið og við skorum eitt mark í seinni leiknum þá þurfa þeir þrjú. Þetta lítur mjög vel út en menn þurfa að vera með fullan fókus og það verða þeir. Við munum klára þetta einvígi, er alveg viss um það!

    Það sést gríðarlegt batamerki á liðinu okkar með hverjum leiknum núna eftir að við höfum fengið meiri tíma til að æfa og pússa saman hópinn. Þetta mun bara verða sterkara.
    Við höfum haldið hreinu í fimm af síðustu sjö leikjum. Er það tilviljun eða slembilukka? Nei, auðvitað ekki! Við erum nú þegar komnir með lið sem er ,,hard to beat” og núna er þungarokkið byrjað að heyrast hjá okkur líka. Við unnum þetta hundleiðinlega manhjú-lið 2-0 heima og við erum að vissu leiti svekktir því við hefðum getað gert út um þetta einvígi með þriðja eða fjórða markinu.

    Það er stórkostlegt að sjá liðið spila þegar hápressan fer í gang og þegar hún virkar vel. Þvílík vinnusemi og græðgi í boltann og hugarfarið að neita að tapa er að stimplast inn í toppstykkið á okkar strákum.

    Hvað þennan míkrafón varðar að þá yrði það hneyskli ef hann fer ekki í leikbann eftir þennan leik eða þurfa menn að narta í hönd til að fá slíkt. Ekki fékk hann spjald fyrir árásina á síðustu sekúndu leiksins og þar af leiðandi verður hægt að dæma þennan fauta í bann og það verður að gera. Þess fyrir utan átti hann fyrir löööngu að vera búinn að fjúka útaf, rétt eins og síðasta leik á móti okkur! Er þessi leikmaður á einhverjum sérsamningi? Það hlýtur að vera því þessi spjaldaglaði dómari hefði átt fyrir löngu að vera búinn að spjalda hann í sturtu. Nei, það er miklu betra að spjalda hugsanlegan leikaraskap í stað þess að spjalda ofbeldi og fautaskap!

    Stuðningsmenn manhjúts eiga svo auðvitað að fá á baukinn eftir þennan viðbjóð og vonandi fær klúbbur feita sekt.

    Að lokum, frábær holning á liðinu og menn vinna sig út úr aðstæðum sem skapast en fara ekki með hausinn í klofið á sér. Það heitir metnaður og sigurvilji!

    YNWA!

  41. Auðvitað þurfa manjú 4 ef við skorum eitt á útivelli, takk páló 😉

  42. Nu vita stuðningsmenn United alla vega hvernig það var að hafa Hodgson sem þjalfara.

  43. Okkar menn risu upp á afturfótunum og sýndu mátt sinn og megin. Ég er bjartsýn; næstu tímabil eru óplægður akur og með Klopp í brúnni er útlit fyrir góða uppskeru. Okkar menn mættu De Gea í markinu, annars er lítið að segja um mótherja okkar í þessum leik. Fellaini er úrþvætti sem ætti að snúa sér að einhverju öðru en knattspyrnu, nema hann sjái að sér. Batnandi mönnum er best að lifa.

    Hvað varðar okkar lið, þá er ekki annað að segja en að allir liðsmenn spiluðu sem ein heild. Enginn veikur hlekkur var í keðjunni að þessu sinni. Strákarnir voru áræðnir og einbeittir. Ef Klopp nær að kreista það besta út úr hverjum og einum leikmanni, þá sé ég enga ástæðu til þess að kaup leikmenn í sumar. Öldurnar lægir og nú hefur Klopp drjúgan tíma til að ráða ráðum sínum og halda áfram að sýna sitt rétta andlit.

    Klopp bindur bagga sína ekki sömu hnútum og samferðarmenn hans. Þó hann hafi ekki úr miklu að moða þá getur hann brotið á bak aftur óhæfu. Enda þótt honum hafi endrum og eins mistekist, þá hefur hann alltaf skilið eftir sig gróðugan garð þar sem fyrir var illgresi. Nú er vor í lofti þrátt fyrir kafaldsbylinn og okkar menn berast á banaspjótum og nú má ekki láta deigan síga. Fjórða sæti Úrvalsdeildarinnar er í augnsýn og við stefnumhraðbyr á sigur í Evrópudeildinni. Enginn skal leggja árar í bát þótt róðurinn reynist þungur. Ég er viss um að okkar menn hafa bein í nefinu til að klára þetta tímabil með sæmd.

    Vér göngum aldregi einsömul!

  44. Annaðhvort er Anfield búið að vakna af dvala eða Ridley Scott var að filma Gladiator 2 í gær – þvílík rokna-stemmning á þessum velli – það vantar bara ljón í keðjum við hvert horn og þá er þetta komið!

    YNWA!

  45. Það væri gaman að vinna þessa keppni og komast þannig í meistaradeildina. Skemmtilegast væri þó að á sama tíma myndu city og Sterling enda í 4 sæti í deildinni og myndu þannig missa meistaradeildarsætið til Liverpool 🙂

  46. 4 sætið myndi ekki missa af sínu meistaradeildarsæti held ég.
    Það myndu þá fara 5 lið frá Englandi.

  47. Sælir félagar

    Fávitaglottið fer ekki af manni alla helgina. En ég kem hér inn aftur til að þakka Magga snöfurmannleg viðbrögð í skýrslugerð og svo til að segja hvað ég er sammála Einari M.#53 og svo hvað ég er honum aftur ósammála um David Moyes í #64. Moyes er ljósárum betri en Hodgeson á öllum sviðum sem stjóri, Einar Mattías. Annars bara verulega góður 🙂

    Það er nú þannig

    YNWA

  48. Frábær sigur í gær og í raun bara DE Gea sem dró úr högginu. Eftir á að hyggja þá var atvikið milli Fellaini og Can meira soft en það leit út í fyrstu og hefur Can sjálfur dregið úr atvikinu, þarna er ég samt ekki að reyna að sejta Fellaini í betra ljós, síður en svo ekki. Hann er fauti og þótt atvikið hafi verið meira soft en það leit út, þá þarf að taka viljann fyrir verkið og dæma fyrir ásetning.

    Varðandi stemninguna þá virtist hún koma United mönnum í opna skjöldu, og er það bara hið besta mál, þeas. að nýta sér stemninguna sér til framdráttar á heimavelli, því kalla ég eftir því að menn gíri sig eins upp fyrir deildina því ekki hefur heimaleik-formið verið beisið. Ef það næst ættum við að ná því að enda ofar en United og það væri kærkomið miðað við annars önnur vponbrigði möguleg.

    Nú er bara að hald út leikinn eftir viku.

    YNWA

  49. Ekki nóg með að fíflið hann Fellaini hafi rekið olnbogan í Can, þá sýnist mér líka sem að hann stígi fyrst á fótinn á honum sem augljóslega meiðir hann og þar beint á eftir er það olnboginn.

    Fellaini deserves a ban for this elbow on Emre Can.. pic.twitter.com/dNWCpo6C5M— The Football Café (@thefootballcafe) 11 mars 2016

    Ég vill að dómarinn og UEFA sýni pung og dæmi þetta fífl í bann.

    Hinsvegar hef ég því miður enga trú á því að það verði tekið eitthvað á þessum ógeðslegu söngvum hjá þessum ógeðslegu stuðningsmönnum scum.

    En leikurinn var frábær og pínu vonbrigði að hafa ekki sett fleiri mörk, frábært þó að halda hreinu. Margir góðir, Firmino magnaður, en Lallana bestur.

    Ég er alvarlega farinn að sjá fyrir mér Lallana sem fyrirliða. Hann er algjör baráttuhundur, mikill vinnuhestur og leiðtogi á velli, sem hann sýnir með fordæmi! Hann er líka á flottum aldri (28 ára) með mikla reynslu, ásamt því að hafa reynslu af því að vera fyrirliði, enda var hann fyrirliði Southampton frá 2012 og þangað til að Liverpool keypti hann 2014. Það skemmir svo ekki að hann skuli vera fantagóður í fótbolta.

  50. Vonandi mun Liverpool áfrýja banninu ef að Fellaini verður dæmdur!

  51. Já mér finnst nú stappið á öklanum á Can starta þessu öllu. Fellaini á svo sannarlega skilið að fá bann fyrir þetta. Aftur á móti er Can sannur herramaður og vill sem minnst gera úr þessu miðað við blöðin í dag. Stórkostlegur leikur annars í alla staði og vonandi bara byrjunin á því sem koma skal 🙂

  52. Það á að dæma þennan Physcho Bob fyrir þennan fautaskap. Það gengur ekki að menn komast upp með svona hegðun, sérstaklega hja spjaldagraðasta dómara Evrópu! Tippa á 3.ja leikja bann.

  53. Búið að staðfesta Benitez hjá Newcastle. 3 ára samningur. Vona nú að Newcastle haldi sér í deildinni enda einn af flottari klúbbum á Englandi.

  54. Það er búinn að vera klár stígandi í okkar liði undanfarið, Klopp er greinilega að koma sínum áherslum til skila til liðsins. Ég hef ekki verið jafn bjartsýnn fyrir mutd leik síðan Suarez var með í för á Old Trafford og það var orðið allt of helv langt síðan.

    Ég bjóst að vísu ekki við svona yfirspilun og frekar sorglegt að horfa á mutd sem virtist ekki hafa annað plan en að gefa háa bolta á Fellaini og vona það besta. Fellaini hefur komist upp með það að vera hrotti í mörg ár, sem ítrekað reynir að meiða andstæðinga. Hann var sjálfum sér líkur í gær og ekkert óvænt við hans framkomu.

    Klopp hefur gefið mér trúna aftur á liðið. Það verða samt örugglega einhver slys áfram og töpuð stig á móti “veikari andstæðingum”. Ég er sannfærður um það að við höfum hóp sem á bara eftir að verða betri og það þarf ekki meiriháttar breytingar á liðinu. Ég treysti Klopp og félögum fullkomlega til að ná í þá leikmenn sem gera þennan hóp betri!

  55. Þegar Liverpool skoraði annað markið og blysin voru kveikt og það var rauður reykur um allan völlinn og Liverpool tóku bara boltann af utd þegar þeir vildu… Það var nákvæmlega svona sem ég ímyndaði mér að þetta yrði þegar ég heyrði að Klopp væri orðin þjálfari Liverpool.

  56. Biðjum til guðs að Fellaini fari ekki í bann í næsta leik (þó svo hann eigi það fyllilega skilið). Hann var alveg skelfilegur, karlgreyið, allan leikinn og mætti alveg endurtaka það fyrir mér.

  57. Sælir félagar…

    Er leikur hjá okkar mönnum um helgina..? á síðunni er tjelsí settur á sunnudaginn, en mbl segir að hann sé í dag, svo var einhver að segja að liverpool væri í fríi um helgina??

  58. Er enginn hérna orðinn stressaður fyrir seinni leiknum á Old Trafford? Ég er dauðhræddur um að við munum tapa stórt gegn risunum í Manchester United. Ef þeir fara í gang þá er ekkert hægt að gera. Vona það besta. Áfram Liverpool.

  59. Nr 9, Þorri. Ég var gríðarlega sáttur við þennan leik þó ég telji nú að við höfum fengið mikla hjálp frá dómaranum í þeim leik eins og svo oft áður í vetur. Ég er Liverpool maður í húð og hári en hef einnig taugar til stærri liða en okkar eins og Manchester United, sem stórkostlegur klúbbur þó þeir hafi verið í lægð undanfarið. Áfram Liverpool.

Byrjunarliðið komið

Flopperto Firmino